sunnudagur, júlí 05, 2015

Foie gras, taka þrjú

Á vordögum sá ég auglýsingu frá veitingastaðnum Kol á Skólavörðustíg. Þar blasti við að á matseðlinum var hið illræmda foie gras. Ég hringdi svo nokkru síðar og talaði við (að ég held) yfirkokkinn, og ræddi við hann á sömu nótum og ég hef áður gert þegar ég hringi í veitingastaði sem selja þennan ógeðfellda rétt. Hann var afar kurteis og þakkaði mér ábendinguna. Eftir gott spjall bað hann mig um að fylgjast með matseðlinum, því honum væri oft breytt. Síðan þá hef ég séð að minnsta kosti tvo matseðla birtast á vefsíðu veitingastaðarins, og á hvorugum þeirra er foie gras. Húrra fyrir þeim sinnaskiptum!*

Það vantaði heldur ekki að ég fékk ágætar móttökur þegar ég hringdi í veitingahúsið Perluna** eftir að hafa á rangli mínu um Perluna rekið augun í matseðilinn sem stillt er upp innan við aðalinnganginn. Hinsvegar var yfirkokkurinn þar ekkert á þeim buxunum að hætta að selja foie gras, enda bæðu fastagestir sérstaklega um það. Mín einnar konu sniðganga hafði því lítið að segja. Niðurstaðan af annars ágætum samræðum okkar (þar sem var m.a. rætt um hvalveiðar og kjúklingaeldi, eins og þegar ég hringdi á Hótel Holt) var því miður sú að Perlan mun áfram bjóða uppá matvöru sem framleidd er með dýrapyntingum.

Þið ráðið svo alveg hvort þið borðið í Perlunni. Sjálf væri ég líklegri til að reka inn nefið á Kol eða** Kopar (sem einnig tók foie gras af matseðli sínum sællar minningar) ef ég ætlaði að fá mér í svanginn með góðri samvisku.


___
* Viðbót: Enda þótt matseðill Kol á netinu segi ekkert til um dýrapyntingamáltíðir hef ég eftir áreiðanlegum heimildum að sannarlega sé boðið upp á slíkt þegar komið er á staðinn. Húrrahrópin hér að ofan eru því hér með afturkölluð.

** Veitingahúsið Perlan, Öskjuhlíð, sími 5620200
(sömu aðilar reka kaffiteríuna)
perlan@perlan.is

Efnisorð: ,