fimmtudagur, júní 25, 2015

Aðsúgur gerður að Björgólfi Thor

Eins og ég var nú fegin að vera ekki í hópi þeirra fjölmörgu sem áttu hlutabréf í Landsbankanum þegar hann varð gjaldþrota, þá er ég nú hálfsvekkt. Það er nefnilega verið að safna liði til að fara í mál við Björgólf Thor Björgólfsson, þennan sem lenti svo illa í hruninu að hann neyddist til að selja einkaþotuna og snekkjuna (hér er við hæfi að viðhafa mínútu þögn) en er nú (alveg óvart og ekki vegna þess að hann faldi peninga í skattaskjólum) aftur orðin forríkur. Ómar Ragnarsson skrifaði örstutt og hnitmiðað um það:
Björgólfur Thor Björgólfsson átti eina eftirminnilegustu setninguna í mynd Helga Felixsonar um Hrunið.
Hann var spurður: "Hvað varð um allar þessar hundruð milljarða króna?"
Björgólfur svaraði: "Þeir hurfu."
Ef hann yrði spurður núna hvaðan þessar 173 milljarðar, sem hann á núna, hefðu komið, myndi hann þá svara: "Þeir birtust"?
Það getur svosem verið að það séu eintómir (fyrrverandi) atvinnufjárfestar sem eru í þeim hóp sem á harma að hefna eftir hrun Landsbankans, en mig grunar þó að þar sé talsvert um venjulegt fólk, ekki síst fólk á efri árum sem bankastarfsmenn glöptu til að taka út ævisparnaðinn til að kaupa í bankanum. Og myndi vilja vera memm ef það fólk tekur þátt í hópmálsókn á hendur Björgólfi Thor.

Það er samt afar fallegt af Björgólfi Thor að hafa áhyggjur af því að lögmenn ætli að græða á öllu saman. Hann var einmitt fremstur í flokki að vara við hlutabréfakaupum almennings í bönkunum á sínum tíma, svo ekki sé nú minnst á þið-vitið-hvað. Alltaf ber hann hag lítilmagnans fyrir brjósti, blessaður.

Efnisorð: