þriðjudagur, júní 30, 2015

Júníuppgjör

Hér á eftir eru nokkrir pistlar og fréttir júnímánaðar sem ekki gafst kostur á að fjalla um jafnóðum.

Skagfirska efnahagssvæðið
Ásta Svavarsdóttir skrifaði opið bréf til Inga Freys Vilhjálmssonar og svarar þar spurningum sem hann velti upp í fróðlegri grein um Skagfirska efnahagssvæðið. Hann segir þar að „efnahagslífi, stjórnmálalífi, viðskiptalífi og kannski öðrum þáttum mannlegs lífs í Skagafirði sé stýrt að hluta af fámennum hagsmunahópi sem stjórnar Kaupfélagi Skagfirðinga.“

Ingi Freyr segir að þegar hann hefur „hringt í einhverja einstaklinga í Skagafirðinum til að reyna að fá upplýsingar um tiltekin mál, til dæmis samkeppnisstöðu í sölu á matvöru, hef ég fengið það á tilfinninguna að íbúarnir séu hræddir við að tala um viðkomandi mál. En við hvað eru þeir hræddir?“ Því svarar Ásta.


Viðbrögð við játningu
Játning Ársæls Níelssonar þar sem hann viðurkennir af fyrra bragði að vera kynferðisbrotamaður – og ekki síður viðbrögð lesenda við játningu hans er umfjöllunarefni ónefnds höfundar sem segir að með þessum viðbrögðum hafi enn frekar verið fest í sessi sú hugmynd
„að menn sem brjóta gegn konum en eru þó ekki skrýmsli séu í raun misskildar hetjur og eigi skilið annan séns. Að hann eigi skilið fyrirgefningu. Þrýstingurinn á þolendur að fyrirgefa verður þá yfirgnæfandi, því fyrst hann kom svona fram, á hann það þá ekki skilið? Er hann ekki næs gaur? Hann beitti þig ofbeldi, en ætlarðu ekki bara að gleyma því núna? HANN SAGÐI SORRÍ! Með þessu höfum við í raun tekið allan þrýsting af ofbeldismönnum og fært það aftur yfir á þolendur.“

Fjárkúgunartilraunin
Fjárkúgunarmálið hefur enn ekki farið fyrir dómstóla og Kjarninn velti fyrir sér hvort það hefði meiri eftirmála fyrir systurnar heldur en fyrir karlinn sem ætlaði að sprengja sprengju við heimili þáverandi forsætisráðherra en gerði sprengjutilraun við Stjórnarráðið í staðinn, og slapp án ákæru. Ennfremur heldur Kjarninn því fram að fjárkúgunarmálinu sé ekki lokið fyrr en tveimur spurningum er svarað:
„Í fyrsta lagi, hvert var tæmandi innihald þeirrar hótunar sem sett var fram í kúgunarbréfinu og í öðru lagi, hverjir fjármögnuðu kaup Björns Inga á DV í fyrrahaust? Á meðan að þessum spurningum er ósvarað verður þessu einkennilega, og um margt sorglega, máli ekki lokið.”

Óþörfu orði troðið inn
„Ríkissaksóknari gefur út ákæru á hendur piltunum fimm fyrir meinta hópnauðgun.“ Þetta var fyrirsögn Vísis enda þótt að ríkissaksóknari hljóti að hafa kært ungu mennina fyrir nauðgun en ekki meinta nauðgun. Ganga fjölmiðlar ekki fullangt til að sýna hlutleysi (og forðast málshöfðun) með því að bæta inn fyrirvaranum „meintur“ þegar talað er um nauðgunarkæru?


Pyntingar eða veiðisport?
Guðmundur Guðmundsson, líffræðingur og laganemi skrifaði pistil um það hátterni stangveiðimanna að veiða og sleppa.
„Það er enginn sómi í því né heldur ætti það að vera skemmtun fólks að ginna fisk með flugu eða öðru agni til þess eins að draga hann á kjaftinum um öll vötn. Þegar fiskurinn hefur að lokum verið dreginn upp á grynningar, særður, uppgefinn og úttaugaður, er hann sporðtekinn og lyft upp úr vatninu til að festa megi afrekið á mynd.“

Sjómenn – þó ekki allir sjómenn
Anna Kristjáns skrifaði um sjómannslíf - Hildi Lilliendahl til varnar.


Hvassvindahraun
Rögnunefndin skilaði niðurstöðu sem lægir engar öldur, enda mátti nefndin ekki skoða Keflavíkurflugvöll sem valkost, en valdi þess í stað Hvassahraun sem er á leiðinni til Keflavíkur. Tveir flugmenn hafa talað gegn þeirri hugmynd. Annar þeirra jafnvígur á þyrlur og flugvélar Landhelgisgæslunnar, hinn er Ómar Ragnarsson sem er þess fullviss um að Hvassahraun sé afleitur staður.
„Vindmælingar niðri við jörð segja ekki alla söguna, því að hættulegasta ókyrrðin er eðli málsins samkvæmt ofar, í aðfluginu og ekki hvað síst í fráfluginu þegar flogið er í átt að Reykjanesfjallgarðinum.“

SDV
Sigmundur Davíð tryggði sér loksins taumlausa aðdáun allra landsmanna með hófstilltu smáviðtali í fjölmiðli, sem tengist honum ekkert, en fékk óvart mikla dreifingu þann dag sem geðþekkt andlit forsætisráðherrans blasti við. Nei annars, Gunnar Hólmsteinn Ársælsson stjórnmálafræðingur skrifaði öllu raunveruleikatengdari pistil um þetta.


Sjaldan bregður mær vana sínum
Ég hef áður nefnt frábæra ræðu Jóns Kalmans en eitt af því sem gerði hana skemmtilega voru nokkuð föst skot á núverandi forseta. Sembeturfer var umræddur forseti ekki viðstaddur, hann var nefnilega í útlöndum að nudda sér upp við auðmenn í útlöndum. Stundin skrifaði um stjórn Goldman Sachs bankans, sem var sá félagsskapur sem Ólafi Ragnari þóknaðist að þessu sinni.


Efnisorð: , , , , , , , ,