föstudagur, júní 26, 2015

Jákvæðniskast

Þá sjaldan að jákvæðar fréttir berast er það ljúf skylda að deila þeim með öðrum.

Jákvæðnitaugin tók kipp í síðustu viku þegar ég las frétt um ræðu sem Hermann Jónsson hélt. Hann hefur sett sér það markmið að verða besti pabbi í heimi.
„Á hverjum degi vinn ég að því að ná því markmiði, að verða besti pabbi í heimi. Það er háleitt markmið sem krefst mikillar vinnu en í mínum huga er það þess virði.“

Hann sagðist hafa þurft að skilgreina markmiðið og komst að því að hann væri ekki að ala upp barn heldur fullorðna manneskju. „Það sem ég meina með því er að allt sem ég geri á meðan barnið elst upp mun hafa áhrif á hvernig manneskja barnið mitt verður þegar það hefur vaxið úr grasi.“


Hann skapaði því ímynd af þeirri manneskju sem hann vildi að barnið sitt yrði. Hann sagðist hafa gert það með því að líta á sjálfan sig og þurft að átta sig á því hvað hann gerði sjálfur vel og hvað ekki. „Eina manneskjan sem ég get í raun stjórnað er ég sjálfur en ég get haft áhrif á börnin mín. Með því að vera góð fyrirmynd sendi ég skýr skilaboð til barnanna minna,“ sagði Hermann.


Hann sagði bestu leiðina til að koma þessu skilaboðum til barnanna sinna í gegnum eigin hegðun. „Ég komst að því að ég yrði að lifa lífi mínu eftir einni reglu: Allt sem ég geri eru bein skilaboð til barnanna minna. Ef ég vil að börnin mín drekki ekki, þá drekk ég ekki. Ef ég vil að börnin mín reyki ekki, þá reyki ég ekki.“
Mikið er ánægjulegt að heyra um fólk sem vandar sig svona við barnauppeldið. Það mættu fleiri átta sig á að allt sem foreldrarnir gera hefur áhrif á hvernig manneskja barnið þeirra verður í framtíðinni.

Nokkru síðar las ég pistil eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur kynningarstjóra og upplýsingafulltrúa UNICEF á Íslandi þar sem hún flutti mjög jákvæðar fréttir af alþjóðavettvangi. Meðal annars þessar.
Leiðtogar vopnaðra hópa í Mið-Afríkulýðveldinu höfðu samþykkt að sleppa öllum barnahermönnum og börnum sem tengdust hópunum: Mörgum þúsundum! Þeir höfðu líka samþykkt að hætta alfarið að nýskrá börn inn í herflokkana. UNICEF hafði yfirumsjón með samkomulaginu og hafði lengi unnið að þessu.

Suður-Súdan, eitt fátækasta ríki heims, hafði fullgilt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann er grunnurinn undir allt sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gerir. Núna höfðu öll ríki Sameinuðu þjóðanna nema Bandaríkin fullgilt þennan stórmerkilega sáttmála.

Og svo eru það gleðifréttir dagsins:

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað að samkynja hjónabönd standist stjórnarskrána. Úrskurðurinn hefur í för með sér að öll fylki Bandaríkjanna verða skylduð til gefa saman samkynja pör sem þess óska. Þetta er vægast sagt mikið fagnaðarefni.


Efnisorð: , ,