sunnudagur, júlí 19, 2015

Írland enn með annan fótinn hlekkjaðan við kaþólsku kirkjuna

Á Írlandi eru verulega forneskjuleg lög sem banna allar fóstureyðingar. Komið hefur í ljós að Írar vita ekki upp til hópa að kona sem fer í fóstureyðingu telst hafa framið glæp og læknir sem framkvæmir aðgerðina einnig. Þrátt fyrir að kaþólska kirkjan hafi hingað til haft áhrif á löggjöf um fóstureyðingar einsog allt annað þegar kemur að ást, kynlífi, hjónabandi og fjölgun þjóðarinnar, virðast allmargir Írar þó á því að losa sig undan þessum áhrifavaldi, eins og sannaðist um daginn þegar þeir kusu samkynja hjónaböndum í vil í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú vill meirihluti Íra „að írsk stjórnvöld endurbæti fóstureyðingarlöggjöf í landinu, sem er ein sú harðasta í heimi“. Það þarf varla að orðlengja það að hin löndin sem hafa svo harðneskjulega stefnu eru langflest kaþólsk.

Það má búast við heiftúðugri mótspyrnu,* ekki síður en þegar rætt var um hjónabönd samkynja para, en það hlýtur að koma að því að Írar stígi annað skref inn í nútímann. Vonandi verður það fyrr en seinna, þessi kvenfjandsamlegu lög eru algerlega óþolandi.


___
* Hér eru nokkur dæmi um rök gegn fóstureyðingum sem eflaust verður beitt í því skyni að koma í veg fyrir að löggjöf um fóstureyðingar verði breytt.

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum (ásamt svörum):
- Að verið sé að drepa manneskju
- Að konur eigi að stunda ábyrgt kynlíf og ef þær gera það ekki eigi þær að taka afleiðingunum
- Að konur eigi ekki að stunda kynlíf nema þær vilji eignast börn
- Að konur verði að eignast fleiri börn vegna fólksfækkunar í heimalandi sínu/Evrópu
- Að konur noti fóstureyðingar sem getnaðarvörn
- Að konur fari oft í fóstureyðingu

Fjölmargir aðrir pistlar um fóstureyðingar hafa verið birtir á þessari bloggsíðu, hér eru tenglar á tíu þeirra.

Efnisorð: , , ,