fimmtudagur, júlí 09, 2015

Netnotkun fanga

Fangelsisyfirvöld nenna ekki lengur að standa í vegi fyrir því að fangar á Litla-Hrauni séu á netinu og leggja til að þeir fái að nota netið að vild. (Sama skoðun kemur fram í leiðara fríblaðsins.) Þetta kemur fram á sama tíma og frétt um að í fyrra hafi þáverandi fangi á Hrauninu hótað manni sem honum var illa við lífláti. Semsagt, (komst ólöglega á netið) hafði samband við mann utan fangelsismúrana og hótaði að drepa hann.

Það er þrennt sem mér finnst mæla á móti því að fangar hafi frjálsan aðgang að netinu.

1) Þeir geta þá fylgst með og hrellt fólk sem þeir hafa brotið á eða hefur vitnað gegn þeim.

2) Þeir geta horft á klám. (Nauðgarar að horfa á klám sem höfðar til þeirra, barnaníðingar að horfa á sitt uppáhaldsklám.)

3) Meiningin með fangelsisvist er meðal annars að svipta fólk frelsinu til að taka þátt í samfélaginu. Því markmikið er ekki náð ef fangar geta verið á netinu öllum stundum og talað við alla sem þeim sýnist eða rifið kjaft í athugasemdakerfum. Lífið innan fangelsisveggja á eðli málsins samkvæmt að vera takmarkaðra en utan þeirra.


Fyrsta atriðið er mikilvægt fyrir fórnarlömb kynferðisbrota og annarra ofbeldisglæpa, og þeirra sem hafa vitnað í slíkum málum. Sá tími sem menn sitja í fangelsi fyrir slík brot er nógu skammarlega stuttur (miðað við dóma fyrir önnur brot) þó fórnarlömbin fái þó allavega frið fyrir kvalara sínum rétt á meðan hann situr inni.

Næsta atriði, klámáhorf, finnst mér einnig mikilvægt því að rétt einsog flestum hlýtur að hrjósa hugur við því að barnaníðingur fái óáreittur að sitja inni í klefa löngum stundum við að horfa á barnaklám, þá finnst mér jafn óhugnanleg tilhugsun að karlmaður sem hefur nauðgað konu (eða konum, eða stelpum yfir lögaldri) geti horft tildæmis á nauðgunarklám, eða bara klám yfirleitt, enda eru afar fáar konur í klámmyndum af einskærri vinnugleði. Einhverjir segja líklega að það megi ekki banna nauðgurum (eða öðrum föngum) að horfa á klám, því engin sannanleg tengsl séu milli klámáhorfs og nauðgana. Þeir hljóta þá að vera sama sinnis um tengsl barnakláms og barnaníðs, og vera elskusáttir við tilhugsunina um óheft aðgengi barnaníðinga að barnaklámefni á netinu. Eða stendur kannski til að banna bara sumum innan fangelsisveggjanna að komast á netið (og horfa á klám) en öðrum ekki? Eða verður fylgst svo vel með netnotkun að ekkert klám verði neinum aðgengilegt? — Þá er ég strax orðin mun jákvæðari í garð netnotkunar en áður.

Þriðja atriðið finnst mér mjög eðlilegt, að takmarka þátttöku fanga í samfélaginu. Þeim eru settar skorður um svefntíma, matartíma, ferðafrelsi og heimsóknir*, afhverju í ósköpunum ættu þeir þá sjálfir að ráða netnotkun sinni? Eða yfirleitt hafa tölvur í klefum sínum? Það er til millivegur: að þeir fái að nota tölvur og komast á netið en undir eftirliti. Þá væri það í tölvuveri þar sem hver fangi mætti vera klukkustund á dag á netinu** og hafa sína hentisemi (með takmörkunum þó, sbr. að lið 1 og 2) en yrði þá um leið að velja og hafna hverju hann fylgist með eða hverja hann hefur samband við, væri fullkomlega ásættanlegt. Þá eru mönnum sett takmörk, rétt eins og símtöl þeirra hafa alltaf verið takmörkuð. Fangelsisvist snýst ekki um að menn hafi 100% afþreyingu allan sólarhringinn eða geti verið í endalausum Skype samtölum við fjölskylduna.

Þetta hljómar eflaust eins og ég sé uppfull af allri þeirri refsigleði sem nú er mjög talað gegn. Kannski er það að einhverju leyti rétt, en ég hef þó líka talað fyrir betrun innan fangelsa. Einnig hef ég mér það til málsbóta að vera næstum því alveg sammála því sem Júlía Birgis skrifaði á þennan athugasemdahala — að undanskildu nauðsyn þess að fangar fái að komast hindrunarlaust á netið!

„Fólk í vímuefnavanda, ó- eða illa læst, með ADHD er í miklum meirihluta af föngum í afplánun. Þurfum við sem samfélag ekki aðeins að skoða hvar við brugðumst þessu fólki? Fyrst það var ekki gert eða tókst ekki fyrr ber okkur þá ekki skylda til þess að aðstoða og betra fanga í afplánun með öllum leiðum færum?

Að fangar hafi aðgang að interneti og geti haft samband við ástvini sína er ekki lúxus. Það er NAUÐSYNLEGT! Að fangar fái að stunda nám eða vinnu við þeirra getu og hæfni er ekki lúxus. Það er NAUÐSYNLEGT! Að fangar fái læknisaðstoð, tannlæknaþjónustu, lyf og sálfræðiþjónustu er ekki lúxus. Það eru mannréttindi!

Ef að við viljum jaðarsetja hópa, eins og t.d fanga (og fyrrverandi fanga) og gæta þess að þeir fái aldrei að vera þátttakendur í samfélaginu þá endilega. Lokum þá inni, setjum þá alla saman í stóran geymi með 75 kojum. Klippum á öll samskipti, komum fram við þá eins dýr, lítum niðrá þá, fæðum þá rétt til að halda þeim gangandi en pössum að maturinn sé ógeðslegur. Gerum eins og BNA menn gera. Þetta er nákvæmlega það sem þeir gera. Þeir loka fólk inni, strípa það sjálfsvirðingunni og mannréttindum (sem vil svo skemmtilega til að fólk afsalar sér ekki þó svo það sé dæmt fyrir glæp). Og hvað fá þeir með þessu? 3,2% af heildarmannfjöldanum í BNA er í afplánum Ef við heimfærum þetta upp á Ísland þá myndi þetta jafngilda því að rúmlega 10 þúsund einstaklingar væru bakvið lás og slá!

Þannig, hugsum þetta endilega aftur. Hvað viljum við? Viljum við minnka endurkomutíðni í fangels?i (sem er hæst á Íslandi af norðurlöndunum), viljum við (vona ég innilega) að einstaklingar fari betri úr afplánun heldur en þegar þeir fóru inn? Viljum við gefa einstaklingum tækifæri og tól til að spjara sig í lífinu, jafnvel ná árangri og komast á góðan stað eftir að afplánun lýkur? “
Þetta var bara brot af því sem hún sagði, og í annarri athugsemd sagði hún m.a. þetta:
„Það eru allir sammála um að fangar þurfi sérfræðiaðstoð. Þeir þurfa kennara, sálfræðinga, lækna, geðlækna, iðuþjálfa, sjúkraþjálfa. Endalaust af faglegri hjálp sem þeir þurfa ef fangelsisvistin á að skila einhverju öðru en að bara loka mann inni í tiltekinn tíma og henda honum svo aftur út í lífið, án þess að nokkur betrun, þroski eða vöxtur hafi farið fram.

Ég ætla svo bara að hafna því alfarið að flestir fangar hafi fengið sömu tækifæri og aðrir. Það er misvel gefið og margir fangar eiga það sameiginleg að búa að mikilli áfallasögu. Vera jaðarsettir og utangarðs frá barnæsku, búa við fátækt, aldir upp hjá foreldrum/foreldri sem var vanhæft. Lestrarörðugleikar setja fólk strax í 6 ára bekk á botninn. Torlæst fólk býr ekki við sömu tækifæri og aðrir.

Það er mýta að á Íslandi sé jöfnuður og fólk upp til hópa njóti sömu tækifæra. Sá sem elst upp hjá fjölskyldu sem hefur ekki burði til þess að móta, þroska, kenna og rækta börnin sín er komin langt aftur úr. Það eru svo margir þættir sem geta gert það að verkum að þessi "jöfnu" tækifæri eru alls ekkert svo jöfn. Geðraskanir og fátækt koma í mörgum tilfellum í veg fyrir að einstaklingur njóti sömu tækifæra og aðrir. Við höfum brugðist mörgum af þessum einstaklingum. Samfélagið á að vera í stakk búið að veita öllum, óháð því hvaðan fólk kemur eða hvað það er, þá þjónustu og stuðning sem það þarf til að virka í lífinu.“

Þessu er ég sammála og ég vildi sannarlega að fangelsisvist væri til betrunar. Mér finnst bara netið ekki vera mjög mannbætandi á köflum, og held ekki að það eigi að vera frjáls leikvöllur fyrir menn sem eiga í svo miklum vandræðum með líf sitt að samfélagið hefur séð þess kost vænstan að loka þá inni.


___

* Það er synd og skömm að nú eigi að takmarka heimsóknir barna til feðra sinna. Ekki síst vegna þess að um hríð virðist hafa verið fundin mjög góð lausn á heimsóknum þeirra (Barnakot). Sú ráðstöfun að börnin eigi héreftir að heimsækja þá á virkum dögum (eftir skólatíma, strax eftir leikskólann?) hljómar einsog einhver innan fangelsismálageirans hafi unnið keppni um heimskulegustu uppástunguna.
** Fangar fengju einnig að nota tölvurnar til að sinna námi sínu eða skrifa ævisöguna eða bréf, en þá netlaust.

Efnisorð: , , , ,