föstudagur, júlí 24, 2015

Uppbyggingarandinn

Stemningin á miðju kjörtímabili ríkisstjórnarinnar er farin að líkjast allsvakalega andrúmsloftinu í þjóðfélaginu á „uppgangstímanum“ fyrir hrun. Ég heyri það reyndar ekki á almenningi, en stórhuga menn með græðgisglampa í augum eru að verða æ fyrirferðarmeira fréttaefni.

Fyrstu verk ríkisstjórnarinnar voru að lækka veiðigjöld og afnema auðlegðarskatt. Það kom sér vel fyrir auðmenn. Þeir finna líka síður fyrir hækkun á matarskatti hækkuðum komugjöldum á heilsugæslu, það bitnar mest á þeim verst settu (ekki verður það til hagsbóta verði heilsugæslan einkavædd eins og heilbrigðisráðherra hefur boðað og varaþingmaður segir að muni leiða til þess að allir verði betur settir, svo trúlegt sem það er) . Til að bæta gráu ofan á svart stytti ríkisstjórnin atvinnuleysistryggingatímabilið og lokar dyrum framhaldsskólanna fyrir efnaminni nemendum eldri en 25 ára. Það blasir því við að þetta er ríkisstjórn þeirra auðugu fyrir þá auðugu.

Þetta er líka, eins og sjá má af upptalningunni á verkum ríkisstjórnarinnar, frjálshyggjuríkisstjórn. Allt er vara á markaði: sjúklingar, nemendur, náttúran, útsýnið. Og þeir sem aðhyllast annaðhvort ríkisstjórnina, markaðshyggjuna eða bæði, eru nú í óðaönn að finna upp leiðir til að græða eða framkvæma það sem ekki þótti siðferðilega réttlætanlegt fyrstu árin meðan þjóðin var að jafna sig eftir síðustu veisluhöld frjálshyggjunnar.

Þetta lýsir sér með ýmsum hætti.

Erlendum sem innlendum fyrirtækjum standa að gömlum sið allar gáttir opnar til að gjörnýta náttúruna, menga umhverfið, borga lága rafmagnsreikninga og flytja svo arðinn úr landi.

Heilar fjórar kísilverksmiðjur eru fyrirhugaðar. Tvær í Helguvík (eigendur annarrar eru nátengdar Sjálfstæðisflokknum), ein á Bakka við Húsavík á brún misgengissprungu) og í Hvalfirðinum á að bæta sólarkísilverksmiðju við aðra iðnaðarstarfsemi á Grundartanga. Það mun ekki bæta ásýnd fjarðarins, sem fyrrum var fagur en hefur smám saman verið að breytast í ömurlegt reykspúandi verksmiðjubæli.

Ofan á þetta bætast hugmyndir um álver á Skagaströnd. Sigmundur Davíð var í miðju ljósmyndar sem tekin var þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu um fjármögnun byggingar álvers við Hafursstaði á Skagaströnd. Álverið þarf rafmagn og alls er óvíst um hvaðan það ætti að koma. Líklega er stólað á að vippað verði upp nokkrum rafmagnslínum yfir hálendið, enda alltaf hægt að hlamma niður fleiri virkjunum í Þjórsá fyrir gott málefni.

Hæstvirtur forsætisráðherrann segir það eiga eftir að koma í ljós hvort álver verði að veruleika í Skagabyggð:
„Það eru eins og ég nefndi mjög mörg stór fjárfestingaverkefni í farvatninu á Íslandi þessa dagana, auðvitað verða þau ekki öll að veruleika en eru til marks um uppbyggingaranda sem mun vonandi skila sér í bættum lífskjörum um allt land.“
Þessi uppbyggingarandi hefur þó ekki lýst sér í formlegri umsókn til iðnaðarráðherra, og hagkvæmni reksturs þess er dregin í efa vegna þess hver lítið það á að vera.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis finnst skorta svör við því hvort álverið eigi að vera eins lítið og sagt er eða hvort það eigi að stækka í áföngum.
„Mér finnst nú ekki gott að það sé verið að byggja upp miklar væntingar hjá fólki sem hefur búið við fólksflutninga á svæðinu og erfitt ástand víða og ég held að það þurfi að skoða þetta miklu betur.“
En Sigmundi Davíð lætur sem hann hafi eiginlega ekkert verið að ýta undir þessa loftkenndu hugmynd um álversframvæmd heldur hefði bara dottið inná þessa mynd einsog hvert annað lukkutröll, til að styðja við stemninguna. Honum virðist finnast lítill munur á litlu sprotafyrirtæki sem rétt er að gefa gaum og því að lofa heilu sveitarfélagi og nærsveitum nægri vinnu og skatttekjum. Keflvíkingar ættu að kannast við slíkt, álverið í Helguvík er ekki risið og mun líklega aldrei rísa.

Ekki að ég gráti það.

En það eru fleiri sem vilja byggja. Byggja stórt og mikið, í andstöðu við umhverfið og nágrannanna, jafnvel hálfa þjóðina. Gerbreyta á ásýnd Lækjargötu til að byggja enn eitt hótelið og ekkert tillit er tekið til húsanna beggja megin við fyrirhugaðan steypukassa. Frjálshyggjumenn sjá auðvitað ekkert athugavert við það.

Einnig fagna frjálshyggjumenn í Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg áformum Landsbankans að byggja sér höll við hinn enda Lækjargötunnar, eins og hann hafði ætlað sér fyrir hrun (undir styrkri stjórn Björgólfs Guðmundssonar), en í staðinn fyrir orðlausa lotningu lýðsins berst núverandi bankastjóri gegn almenningsálitinu — sem hann greinilega hefur haldið að hefði snúist bönkum í hag — og heldur því fram að það sé hagkvæmt að byggja á einni dýrustu lóð höfuðborgarsvæðisins.

Þá eru ótalin byggingaráform á Barónsreit sem fjallað er ítarlega um í nýjasta tölublaði Reykjavíkur vikublaðs. Þegar Ingimar Karl Helgason ritstjóri talar um „borgina við blokkirnar“ á hann m.a. við háhýsabyggðina við Skúlagötu þar sem verktakalýðræðið er algert. Þar á að byggja 16 hæða turn, þvert á gildandi aðalskipulag Reykjavíkur sem er afdráttarlaust um hæð bygginga, einkum á þessu svæði miðbæjarins. Þar er gert ráð fyrir að byggingar á þessum stað í miðbænum fari ekki yfir fimm hæðir. Enda þótt Reykjavík vikublað fjalli aðallega um þessi byggingaráform út frá máttleysi skipulagsráðs borgarinnar gagnvart verktakanum og hugsanlegri skaðabótakröfu hans fái hann ekki sínu framgengt (og Hjörleifur Stefánsson arkitekt hafi skrifað grein þar sem hann segir málflutning formanns skipulagsráðs borgarinnar „ekki vera samboðinn stjórnmálaafli sem segist bera hag almennings fyrir brjósti“) þá er vert að vekja athygli á verktakanum sjálfum, þessum sem Reykjavíkurborg þorir ekki að stoppa í áformum hans að byggja 16 hæða blokk því hann geti farið í skaðabótamál. Hann byggði „kreppuhöllina“ að Urðarhvarfi 8 sem enn stendur auð; 16 þúsund fermetra ókláruð skrifstofubygging með 9 þúsund fermetra bílakjallara. Og enn er hann innblásinn af uppbyggingaranda og hefur álíka stórhuga áform og fyrir hrun. Enda stemning fyrir því og enginn reynir að stoppa hann.

Reyndar er verið að byggja svo mikið og byggingaráformin enn meiri, sbr. stóriðjuhugmyndir, að farið er að tala um bólu og þenslu. Svona eins og var í aðdraganda bankahrunsins. Nema nú er það framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sem varar við (en Samtök iðnaðarins segja það af og frá að hér stefni í „ofþenslu“). Reyndar vill framkvæmdastjóri SA vinna gegn þenslunni með því að „opinberum framkvæmdum sé haldið í lágmarki.“ Sem þýðir, samkvæmt varaformanni VG:
„Framkvæmdastjóri SA vill að framkvæmdum í heilbrigðiskerfinu verði haldið í lágmarki, hægt verði á framkvæmdum í vegagerð, viðhaldi á eigum ríkisins verði haldið í lágmarki, framkvæmdum í velferðarkerfinu verði slegið á frest og framkvæmdum á sviði menntamála verði haldið í lágmarki, svo dæmi séu tekin. Hann vill sem sagt að ríkið, almenningur, axli ábyrgð á yfirvofandi kollsteypu en einkageirinn fái að leika lausum hala með allar sínar framkvæmdir þar til yfir lýkur!“

Forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskólans sér þenslumerki fyrst og fremst í ákveðnum geirum, eins og byggingariðnaði, bílasölu og ferðamennsku. Hann er lítt hrifinn af skattalækkunaráformum fjármálaráðherra, og segir „frekar ætti að reyna að fresta framkvæmdum til að sporna við þenslu“ (svipað og framkvæmdastjóri SA sagði). Þrátt fyrir þessi varnaðarorð forstöðumanns Hagfræðistofnunar segist fjármálaráðherra ætla að lækka skatta (sem þýðir minna fé sem rennur til samneyslunnar, minna umleikis til að borga skuldir en að fólk hefur meira á handa milli til einkaneyslu; meiri neysla, meiri gróði, meiri þensla). Og samt gleðst forsætisráðherrann yfir fyrirhuguðu álveri og talar um „uppbyggingaranda“.

Ríkisstjórnin lagði línuna strax í upphafi valdatíma síns. Það eina sem margir kjósendur kusu Framsóknarflokkinn útá, leiðrétting skulda sem átti að vera himnasending fyrir öll heimili í landinu, reyndist svo (sem kom ekki alveg á óvart) renna í flestum tilfellum í vasa þeirra tekjuhæstu, sem munaði líklega minnst um aurana. Auðmenn fengu mest, að vanda. Það er ekki óvart að ráðherrar tali um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfis, ekki frekar en þegar menntamálaráðherra lokar á framhaldskólanám fyrir fullorðna, því frjálshyggjulausnin er auðvitað einkareknir skólar á borð við Hraðbraut og einkarekin heilsugæsla. Gróði fyrir rekstraraðila.

Þegar verktakar sem hafa byggt glórulaust fyrir hrun stíga fram og réttlæta fleiri steypuhallir í gömlum borgarhluta þá er það vegna þess að þeir finna að mátturinn er með þeim.

Efnisorð: , , , , , , , ,