mánudagur, júlí 27, 2015

Fjölmiðlaveldi Framsóknar

Björn Ingi Hrafnsson sem nýlega keypti DV (og sem frægt er orðið ku fyrrverandi sambýliskona hans hafa haft upplýsingar um fjármögnun kaupanna sem ekki þoldu dagsljósið) hefur nú einnig keypt útgáfufyrirtækið Fótspor, sem gefur út Akureyri vikublað og Reykjavík vikublað, auk bæjarblaða í Hafnarfirði, Kópavogi og á Selfossi, einnig landshlutablöð fyrir Vesturland, Vestfirði, Austfirði og Reykjanes.

Í grein sem mun hafa birst augnabliki áður en kaup Björns Inga á Fótspori voru tilkynnt, rekur Jóhann Páll Jóhannsson á Stundinni leið Björns Inga til áhrifa í grein sem heitir „Fjölmiðlaveldi fæðist“. Vegna þess að Stundin er áskriftarblað er greinin ekki aðgengileg nema fyrir áskrifendur. Lára Hanna Einarsdóttir hefur einmitt hvatt fólk til að gerast áskrifendur að Stundinni og Kjarnanum og í sama streng tekur Kristín Vala Ragnarsdóttir (en pistill hennar er öðrum þræði um nýja stjórnarskrá, auðlindir þjóðarinnar og hvort þörf sé á nýjum Kvennalista, allt fínar pælingar). Þegar búið er að binga Akureyrarvikublaðið og Reykjavíkurvikublaðið, eru Kjarninn og Stundin einu gagnrýnu fjölmiðlarnir sem eftir eru (auk RÚV), og þá fjölmiðla þarf því að efla.

Lára Hanna er einn beittasti rýnir landsins og hún sér stöðuna svona:
„Fjölmiðlar eru keyptir eða yfirteknir til að ná stjórn á umræðunni í samfélaginu, móta ímyndir og hugmyndir og blekkja almenning - af þeim sem hagsmuna hafa að gæta. Nægir að nefna kvótagreifana sem reka Morgunblaðið með miklu tapi þar sem enn helsti leikmaður hrunsins situr og endurskrifar söguna sér í vil og framsóknarmanninn Björn Inga Hrafnsson sem augljóst er að hefur á bak við sig hinn gríðarlega auð sem valdir framsóknarmenn hafa sankað að sér á kostnað samfélagsins um áratugaskeið.

Nú er ekki lengur um auðugan garð að gresja í gagnrýninni fjölmiðlun, jafnvel þótt á hinum keyptu/yfirteknu miðlum starfi enn nokkrir góðir blaða- og fréttamenn. Í raun ríkir nú neyðarástand í fjölmiðlamálum.
Eftir eru RÚV, Kjarninn og Stundin. RÚV má sitja undir ofsóknum, árásum, hótunum og uppsögnum sem hefur gríðarleg áhrif á vinnubrögð þar innanhúss á ýmsum sviðum. Samt verðum við að geta treyst þessum eina almannafjölmiðli.“

Lára Hanna segir einnig
„fátt sé um fína drætti í fjölmiðlaflórunni og vafasamir menn með enn vafasamara auðmagn á bak við sig að leggja undir sig æ fleiri miðla. Eftir eru einkum tveir frjálsir og óháðir: Kjarninn og Stundin. Þá þurfum við að styrkja af öllum mætti og til þess þarf peninga.“
Og hún hvetur fólk (og ég hér með) til að gerast áskrifendur til að styðja og styrkja frjálsa og gagnrýna fjölmiðlun á Íslandi.

Sem minnir mig á það. Ansi er eitthvað þögult á Pressunni um kaup Binga á gagnrýnu bæjarblöðunum. Bara ekki múkk um málið. Ekki hefur Eyjupenninn Egill Helgason heldur neitt um þetta að segja, skrifar þó pistil í dag sem hefst á orðunum: „Eitt vinsælasta gúrkumálið þetta sumarið er nýbygging Landsbankans.“ Er það ekki svolítið sérstakt, í ljósi þess að fjöldi blaðamanna var að missa vinnuna við mjög undarlegar aðstæður? Eða eru fjölmiðlakaup Björns Inga bara gúrkumál í huga Egils?

Það er reyndar ekki langt síðan Egill skrifaði pistil um „Framsókn og fjölmiðlana“, sem vekur hreinlega upp grunsemdir um að hann hafi vitað um fyrirhuguð fjölmiðlakaup Binga, og jafnvel viljað vara hann við:
„En það væri semsagt ekki í fyrsta skipti að Framsókn fer á stúfana til að bæta hlut sinn í fjölmiðlum. Hingað til hefur það tekist misjafnlega. Það er heldur ekki auðvelt að halda úti fjölmiðli sem er hollur ríkjandi stjórnvöldum en á um leið að falla almenningi í geð.“
Þetta er reyndar ekki bara spurning um að fjölmiðillinn sé hliðhollur stjórnvöldum, heldur eru keyptir fjölmiðlar sem hafa verið gagnrýnir á stjórnvöld beinlínis til þess að loftárásum þeirra linni. Og það er full ástæða til að ræða það.

Efnisorð: ,