mánudagur, september 14, 2015

„Við kærum okkur ekki um að vera notaðar sem skálkaskjól“

Þegar rætt er um komu flóttamanna hingað til lands heyrast margar raddir sem eru ósáttar við þá tilhugsun. Helst er borið við að fjöldinn megi ekki vera of mikill en sumum virðist jafnvel finnast eðlilegasti hlutur í heimi að hleypa ekki einum einasta flóttamanni hingað.

Ýmsu er borið við, kristilegu gildin eru í hættu, fólkið muni ekki aðlagast, þetta sé dulbúin innrás Íslamska ríkisins, og þaðanaf langsóttari skýringar. Sumir vilja bara bjóða hingað handvöldum hópi kristinna Sýrlendinga (hugsunin hlýtur að vera sú að þeir sem trúa á sama jesúsinn og þjóðkirkjufólkið hljóti að eiga auðveldara með að aðlagast, og hljóta þarafleiðandi að vilja kæsta skötu á Þorláksmessu og fagna kókakólalestinni), og aðrir vilja bara einstæðar mæður hingað, og enn aðrir vilja bara munaðarlaus börn. Einstæðar mæður eins og kunnugt er hafa engar stjórnmálaskoðanir og geta því ekki verið með uppsteyt eins og karlarnir sem eru síður velkomnir (þeir gætu tekið uppá að barna alhvítar íslenskar konur, en andstaðan er líka vegna þess að þeir kúga konur (öfugt við fólkið sem vill hafa fulla stjórn á þeim ef þær koma)), og blessaða munaðarleysingjana er auðvitað hægt að ala upp í guðsótta og góðum siðum. Reyndar hefur Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, bent á að ættleiðingar milli landa sé þrautalending enda sé hefð fyrir því að ættingjar taki að sér börnin. Eða með öðrum orðum: það er ekki í boði að ættleiða sýrlensk börn.

Svo eru það þeir sem segja að öryrkjar og aldraðir séu illa settir (rétt) og að það muni bitna á þeim ef hingað flytjist fullt af fólki sem liggur á bótakerfinu um ómunatíð. Það er kannski skiljanlegt að öryrkjar og aldraðir séu uggandi um stöðu sína — eða þangað til þeir muna eftir því að útgerðin borgar minna en hún gæti til samfélagsins, að Þjóðkirkjunni er ætlað aukið fé á fjárlögum, og að til stendur að lækka skatta sem þýðir enn lægri upphæðir til samneyslunnar. Það eru til nægir peningar til skiptanna en þessi ríkisstjórn hefur ákveðið hverjir eiga að fá stærsta skerfinn, og það eru ekki þeir sem eru á bótum. Koma flóttamanna breytir þar engu til eða frá, og tekur ekkert frá bótaþegum.

Þeir sem halda því fram að koma flóttamanna kasti öryrkjum og öldruðum í dýpsta pytt örbirgðar eru ekki með hagsmuni öryrkja og aldraðra í huga heldur er þetta yfirskinsáhyggjur rasista (og kannski einstaka eigingjarnra einstaklingshyggjumanna) sem og stjórnmálamanna sem vilja höfða til rasista.

En vopnin voru slegin úr höndum þeirra þegar fatlaðar konur í Tabú og stýrihópi Kvennahreyfingar ÖBÍ um móttöku flóttafólks gáfu út yfirlýsingu þar sem þær lýstu frati á þessar afsakanir.

„Stjórnvöld, sérstaklega talsmenn þessa sjónarhorns, hafa ekki lagt sig sérstaklega fram við að fjárfesta í lífi okkar hingað til og finnst lítið til mannréttinda okkar koma. Því er óskiljanlegt hvers vegna þeim er annt um okkur allt í einu núna. Það þarf heldur ekki mikið hugmyndaflug í fjármálum til þess að sjá að það er auðveldlega hægt að reka samfélög án þess að brjóta á mannréttindum nokkurs hóps.

Þar að auki er staða okkar ekki þess eðlis að hægt sé að bera hana saman við stöðu flóttafólks. Við erum ekki að finnast dánar í flutningabílum né að drukkna í Miðjarðarhafinu. Að líkja lífi okkar saman er í besta falli fullkomlegt skilningsleysi á lífi okkar og flóttafólks.

Að lokum leggjum við þunga áherslu á að mannréttindabrot gagnvart okkur, sem vissulega eru gróf á Íslandi, séu ekki notuð sem afsökun eða ástæða fyrir því að taka meðvitaða ákvörðun um að brjóta á öðrum hópum með aðgerðarleysi. Við kærum okkur ekki um að vera notaðar sem skálkaskjól fyrir huglaust stjórnmálafólk.

Við skorum á stjórnvöld að taka á móti flóttafólki strax og að það verði gert með tilliti til reynsluheims flóttafólks og af virðingu við sögu þess. Jafnframt að lögð verði sérstök áhersla á að aðstoða jaðarsettari hópa flóttafólks, t.d. fatlað fólk, einkum konur og börn, þar sem það er í enn viðkvæmari stöðu hvað varðar ofbeldi og dauðsföll í stríðsátökum og á flótta.“

HEYR, HEYR!



Efnisorð: , , , , , ,