sunnudagur, september 20, 2015

Útlitsviðmið og líkamssmánun

Sigrún Daníelsdóttir hefur barist fyrir líkamsvirðingu í mörg ár og upp á síðkastið hafa birst eftir hana tveir fantagóðir pistlar sem vert er að lesa. Í öðrum þeirra hvetur hún til byltingar og hinum útskýrir hún afhverju barátta gegn fitufordómum er nauðsynleg.
„Kjarni málsins er sá að það er ekki hægt að aðskilja líkamskomplexa og útlitsdýrkun dagsins í dag frá samfélagslegum hugmyndum um fitu. Viðhorf okkar til fitu eru undirrót allra þeirra umhverfisáreita sem eitra líkamsmynd ungs fólks: Megrunaráróður, dýrkun á grönnum og stæltum vexti, matar- og fituþráhyggju og svo mætti áfram telja. Ekkert af þessu væri til ef við litum ekki fitu neikvæðum augum.“
Fita er litin svo neikvæðum augum að margir virðast líta á það sem réttlætanlegt að áreita eða jafnvel ofsækja fólk í yfirþyngd.

Ragen Chastain baráttukona fyrir líkamsvirðingu segir í viðtali frá fitufordómum og áreitni á opinberum vettvangi. Sama segir Ragnheiður M. Kristjónsdóttir. Einnig hefur Markús Máni Gröndal stigið fram og sagt frá grófu einelti sem hann varð fyrir vegna líkamsvaxtar síns, og hvernig áhrif það hefur haft á líf hans.

Þessir vitnisburðir minntu mig ekki lítið á heimildarmynd sem ég sá fyrir margt löngu (og hef þegar skrifað um) þar sem kona nokkur gekk um með mynd- og hljóðupptökutæki og skrásetti þannig viðhorf samborgara sinna til fólks í yfirþyngd.

En svo ég snúi mér aftur að pistlum Sigrúnar Daníelsdóttur þá er þetta úr byltingarpistlinum.
„Það er ævafornt stef að konur séu í eðli sínu syndugar og að syndin sé bundin við hold þeirra. Allt frá dögum Evu hefur erfðasyndin verið tengd við tálkvendið og skækjuna, en í seinni tíð blasir við enn flóknari veruleiki þar sem konum er gert að vera bæði kynþokkafullar og kynlausar í senn. Við erum dæmdar fyrir að vekja losta með útliti okkar, klæðaburði og framkomu, en líka smánaðar ef við uppfyllum ekki samfélagsstaðla um kynþokkafullu konuna. Konur sem eru feitar, gamlar, fatlaðar eða með einhverjum öðrum hætti standa utan við þessa staðalmynd eru gerðar ósýnilegar og ómerkilegar. Það er akkúrat ótti við að tapa þeirri félagslegu stöðu sem fylgir réttu útliti sem er undirrót þeirrar angistar sem grípur margar konur við að eldast eða fitna. Við vitum að hvert kíló og hver hrukka þýðir skref niður á við í félagslega stiganum.

Flóknar útlitskröfur gera það að verkum að fæstar okkar lifa sáttar í eigin skinni. Jafnvel þótt við uppfyllum alla staðla á einum tímapunkti getum við ekki búist við því að halda því til lengdar. Ef sjálfsvirðing okkar og félagsleg staða er bundin við þröngt skilgreind útlitsviðmið erum við dæmdar til ýmist vanlíðunar yfir núverandi ástandi eða kvíða gagnvart framtíðinni. Merki um skömm og kvíða gagnvart eigin holdi sjást yfir allt æviskeið kvenna. Stúlkur allt niður í 5 ára hafa áhyggjur af því að vera feitar og íslenskar rannsóknir sýna að 80% fullorðinna kvenna allt fram undir áttrætt telja sig þurfa að léttast.“
„Karlar verða líka fyrir líkamssmánun og fitufordómum“, bendir Sigrún líka á, enda þótt megintextinn fjalli um útlitskröfur á hendur konum. Og það er augljóst af orðum hennar að dæma — og þeirra sem vitnað er í hér að ofan — hversvegna þörf er á byltingu þar sem við „köstum af okkur hlekkjum útlitskrafna og líkamssmánar“.



Efnisorð: