þriðjudagur, október 06, 2015

Þvælan um og úr SDG

Þegar fréttist að Financial Times (sem hlýtur að vera útlenska heitið á Framsóknar-Tímanum) teldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson einn af fremstu karlfeministum heims, lá við að ég segði af mér sem feministi. (Fyrir því eru fordæmi en engin fordæmi eru fyrir því að einhver telji SDG vera feminista.)

Ekki bætti úr skák hvernig Sigmundur Davíð svaraði spurningu blaðamanns um hvernig honum þætti nafnbótin.
„Hún leggst náttúrulega bara mjög vel í mig, ef við leggjum þann skilning í orðið að þetta snúist um jafnrétti.“
Svarið bendir eindregið til að Sigmundur Davíð hallist á sveif með þeim sem kalla sig jafnréttissinna en eru yfirlýstir andstæðingar feminisma. Minnkaði innistæðan fyrir nafnbótinni enn við þetta.

Ég hreinlega hef ekki nennt að grafa upp orð og gerðir (eða þögn og aðgerðarleysi) Sigmundar Davíðs til þess að hrekja þann fáránleika að lýsa hann einn fremsta karlfeminista í heimi (eða bara feminista yfirleitt). Það er mér því mikil ánægja að sjá að Áslaug Karen Jóhannsdóttir hefur tekið að sér það verkefni og leyst það með sóma og sann. Lesið pistil hennar en trúið ekki þvælunni um Sigmund Davíð – og umfram allt; trúið aldrei þvælunni úr honum.

Efnisorð: