þriðjudagur, október 13, 2015

Foj í fjórða sinn

Undanfarið hefur verið rætt mikið um velferð dýra eftir að í ljós kom að hræðilega er farið með svín á íslenskum svínabúum. Mörgum er mjög í mun að vita um hvaða bú er að ræða enda vill fólk ekki versla við þá sem misþyrma dýrum. En það er auðvitað ekki þar með sagt að innflutt svínakjöt sé framleitt við eitthvað skárri aðstæður. Eða bara innflutt matvara yfirleitt.
„Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) hefur sent áskorun til Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að setja reglugerð um bann við innflutningi og sölu á dýraafurðum sem eru framleiddar í andstöðu við íslensk lög um velferð dýra.“
Þannig hefst frétt Bændablaðsins um áskorun Dýraverndarsambandsins sem hljóðar svo í fullri lengd.
„Á Íslandi hefur tíðkast að selja sem sælkeramat í verslunum og á veitingastöðum anda- og gæsalifrarkæfuna foie gras, sem framleidd er erlendis. Hefðbundin foie gras kæfa er framleidd með aðferð sem er andstæð dýravelferð og ljóst er að slík framleiðsla yrði ekki leyfð hér á landi. Fóður er þvingað með röri niður um háls fuglanna, með það að markmiði að framkalla ofvaxna lifur, svokallaða fitulifur. Þetta er ill meðferð á dýrum hvernig sem á það er litið.

Við hvetjum ráðherra til að setja reglugerð um bann við innflutningi og sölu á dýraafurðum sem eru framleiddar í andstöðu við íslensk lög um velferð dýra (nr. 55/2013). Heimild er til þess í 25. gr. laganna, um dreifingu og merkingu dýraafurða.

Stjórn DÍS telur óásættanlegt að heimilt sé að selja hér á landi afurðir sem byggja á illri meðferð dýra og einnig vörur sem framleiddar eru með minni dýravelferð en leyfð er hér á landi.

Jafnframt hvetjum við neytendur til að sniðganga þessar vörur og benda söluaðilum á að þessi vara sé framleidd með óverjandi aðferðum. Við hvetjum einnig veitingahús og verslanir til að hætta sölu á foie gras.“

(Myndin er tekin af heimasíðu Dýraverndarsambands Íslands og sýnir eðlilega gæsalifur við hlið úttútnaðrar lifur eftir nauðeldi.)

Ég hef nú um nokkurt skeið verið í einkaherferð gegn sölu foie gras og fagna því þessari áskorun Dýraverndarsambandsins. Fólk sem fékk áfall við að sjá aðbúnað svína hér á landi, ætti að brynja sig áður en horft er á myndbönd þar sem verið er að troða fóðri ofan í háls fuglanna.* Slíkt dýraníð verður að stoppa, og ef það tekst ekki að koma í veg fyrir framleiðsluna er lágmark að salan sé stöðvuð.

Slippbarinn er veitingastaður í Reykjavík Marina hótelinu sem er eitt Icelandair hótelanna.** Á matseðli Slippbarsins er að finna andalifur, sem varð til þess að ég hringdi þangað.*** Kokkurinn sem varð fyrir svörum var afar viðræðugóður og áttum við langt spjall og virtumst vera sammála um flest. Honum varð þó ekki haggað með meginefni samtalsins, að selja foie gras. Ég mun því sniðganga Slippbarinn eins og aðra veitingastaði sem selja lifur úr þrautpíndum alifuglum.



Uppfærðar fréttir af stöðum sem ég hef áður haft samband við:

Hereford og Holt hafa ennþá fuglalifur á boðstólum.

Perlan og Snaps halda sig einnig við þá iðju að selja foie gras.

Múlaberg í KEA hótelinu á Akureyri er ekki með foie gras á núverandi matseðli!****

Kopar er því enn sem fyrr sá veitingastaður sem ég aðhyllist því hann heldur sig við anda- og gæsalifrarfrían matseðil.*****

___
* Myndbönd má sjá í þessum pistli mínum en einnig má finna hér annan og þriðja pistil þar sem fjallað er um samskipti við veitingahús sem selja (eða hafa selt) foie gras.

**Slippbarinn virðist eini matsölustaðurinn innan Icelandair hótelakeðjunnar sem selur foie gras, a.m.k. miðað við matseðla dagsins.

*** Slippbarinn, Mýrargötu 2, sími 5608080, slippbarinn@icehotels.is

**** Ég á eftir að sjá jólamatseðil áður en ég leggst í hamingjukast.

***** Viðbót: Veitingarstaðurinn Kol var áður nefndur ásamt Kopar sem staður sem hefði hætt að selja foie gras. En það reyndist rangt, því ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að þótt matseðill Kol á netinu segi ekkert til um dýrapyntingamáltíðir, þá sé sannarlega boðið upp á slíkt þegar komið er á staðinn.

Efnisorð: ,