laugardagur, október 10, 2015

Gráa hættan

Í fréttatíma Sjónvarps á miðvikudaginn var talað við Matthildi Jóhannsdóttur sem er 74 ára og býr í þjónustuíbúð fyrir aldraða í Grafarvogi. Hún á fjölbreyttan starfsferil að baki en það tryggir henni ekki áhyggjulaust ævikvöld. „Nú á hún á um 40 þúsund krónur afgangs á mánuði þegar hún er búin að borga húsaleigu, hita og rafmagn. Hún þarf að láta þessa peninga duga til að kaupa lyf og mat út mánuðinn,“ segir í fréttinni. Einnig var talað við Þórunni H. Sveinbjörnsdóttir, formann Félags eldri borgara í Reykjavík, sem
„segir allt of marga vera í sömu sporum og Matthildur og jafnvel verri. Dæmi séu um eldra fólk sem þurfi að lifa á 800 krónum á dag þegar fastar greiðslur hafa verið greiddar. Gapið milli lífeyrisgreiðslna og almennrar launaþróunar hafi aldrei verið jafn breitt.“
Sama sinnis eru félagsráðgjafar sem vinna með öldruðum í Reykjavík.
„Þeir segja að staða ellilífeyrisþega hafi versnað á síðustu árum. Þeir verða í auknum mæli varir við að fólk eigi ekki fyrir lyfjum eða sleppi læknisheimsóknum. Afleiðingarnar eru aukin vanlíðan og vanheilsa.
Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun eru í dag 1519 ellilífeyrisþegar á lágmarkslífeyri. Það er þeir fá ekkert frá lífeyrissjóðum.
Meginþorri ellilífeyrisþega, um 80% þeirra, fær á bilinu frá 170 til 280 þúsund á mánuði eftir skatt. 207 ellilífeyrisþegar eru með lífeyri undir 150 þúsund krónum á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun er ástæðan fyrst og fremst sú að þeir hafa ekki öðlast fullan lífeyrisrétt þar sem þeir hafi einungis búið á Íslandi um skamma hríð. Þeir ellilífeyrisþegar sem þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð til framfærslu eingöngu búa oft við mjög kröpp kjör til lengri tíma“ (RÚV).
Viðtal sem Spegillinn tók við nokkrar konur á níræðisaldri leiddi í ljós að þær gátu ekki leyft sér neitt og tóku lán út á íbúðir sínar til að láta enda ná saman.
„Þær eiga til hnífs og skeiðar en segjast ekki geta leyft sér það sama og áður. Þeir sem eru eignalausir eða leigja hafa það sjálfsagt verra, segja þær. Strípaðar bætur duga skammt.“ Ein þeirra fær meira úr lífeyrissjóði en hinar en það skilar henni litlu. „Ég er með lífeyrissjóð upp á kannski 80 þúsund og þá passar Tryggingastofnun það að skammta mér þannig að ég fari ekki uppfyrir 200. Það er króna á móti krónu þannig að því meira sem ég legg í pakkann því minna borgar Tryggingastofnun þannig að okkur er haldið á hungurmörkunum. Þó að það sé viðurkennt að lágmarks framfærslukostnaður sé miklu hærri,“ segir hún.
Þá benda þær á kynjaskekkju í kerfinu. Þær eiga mörg börn og gátu ekki unnið fullan vinnudag.
„Það var ekki séns fyrir okkur þó við hefðum vilja senda öll börnin okkar á leikskóla þá var það ekki til, við vorum giftar konur. Kerfið er ekki sniðið að konum sem gátu í mesta lagi unnið hálfan vinnudag og ekki borgað í lífeyrissjóði nema í mesta lagi síðustu árin. Þess vegna er minn lífeyrir mjög lágur.“
Sveinn Einarsson leikstjóri er þungur í máli í viðtali við vefritið Lifðu núna.
„Mér er fullkunnugt um að mörgum af minni kynslóð, og þá tala ég um þann hóp sem ég þekki og tilheyri, finnst samfélagið hafa svikið sig. Það á erfitt fjárhagslega en reynir að leyna því. Það hjálpar að vísu að þetta fólk kann að fara með peninga“, segir Sveinn og er mikið niðri fyrir. „En það hækkar allt, fasteignagjöldin, orkan, hitinn og tryggingarnar. Við borgum en fáum ekki hærri tekjur.“
Auður Haralds skrifar afturámóti grein fulla af nöpru háði, eins og henni er einni lagið. Ekkert af því sem hún segir um hvernig á að lifa á örorku- eða ellilífeyri er eftir hafandi, þið verðið að lesa sjálf.

Kjarabarátta á síðum blaðanna
Sá sem hefur verið hvað ötulastur að skrifa blaðagreinar um kjör ellilífeyrisþega er Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, sú nýjasta birtist í fyrradag, þar sem hann vandar Sigmundi Davíð ekki kveðjurnar vegna stóryrða hans um hækkun lífeyris. Og Björgvin leiðréttir forsætisráðherrann:
„Síðan er það ekki rétt að um einhverja „methækkun sé að ræða. Jóhanna Sigurðardóttir hækkaði lífeyri aldraðra og öryrkja um tæp 20% um áramótin 2008/2009, þ.e. þeirra sem voru verst staddir, og hún hækkaði hjá hinum um 9.6%. Og þetta gerði hún án þess að masa um það í marga mánuði áður en það kom til framkvæmda.“
Ég les alltaf greinar Björgvins og verð alltaf sannfærðari og sannfærðari um að ellilífeyrisþegar eru alger afgangsstærð í hugum núverandi stjórnvalda. Í grein frá 22. september síðastliðnum sem heitir „Samþykkir Alþingi kjarakröfur aldraðra?“ segist Björgvin trúa því að Alþingi geti bætt kjör aldraðra og öryrkja. Þó bendi fjárlagafrumvarpið ekki til þess, en „samkvæmt því ætlar ríkisstjórnin að hækka lífeyri aldraðra og öryrkja um 9,4%“ en samtök eldri borgara óska hinsvegar eftir því að lífeyrir hækki um 14,5%, eða um 31 þúsund krónur á mánuði eins og lágmarkslaun verkafólks hækkuðu, og fari í 300 þúsund á 3 árum, eins og frumvarp Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir. Björgvin segir að það sé sín skoðun og þings Landssambands eldri borgara og kjaranefndar Félags eldri borgara að „aldraðir og öryrkjar eigi að fá nákvæmlega sömu hækkun og launþegar“. Þá hefur Landssamband eldri borgara einnig „bent á að hækkun persónuafsláttar væri besta kjarabót láglaunafólks og þar með lífeyrisþega.“

Líklega er eina ástæðan fyrir því að kjör aldraðra og öryrkja fylgja ekki launaþróun sú að þetta eru hópar sem geta ekki beitt eða hótað verkfallsvopninu. Þar af leiðandi er auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa sanngjarnar kröfur þeirra. Það skiptir líka máli að leiðtogar ríkisstjórnarinnar sjá hvorki framá að verða fátækir eldri borgarar né horfa uppá foreldra sína berjast í bökkum síðustu æviárin, og hafa því lítinn skilning og engan áhuga. Nema auðvitað þegar þeir vilja afla sér vinsælda og atkvæða — og guma þá mjög af afrekum sínum — fyrirfram.

Björgvin hefur velt upp þeirri spurningu í greinum sínum hvort aldraðir eigi að fara í mál við ríkið vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í lífeyrismálum. Hann segir það trú sína að eldri borgarar eigi stjórnarskrárvarinn rétt að fá nægilegan lífeyri frá almannatryggingum „til þess að geta tekið eðlilegan þátt í samfélaginu. Þeir eldri borgarar, sem hafa einungis lífeyri frá TR, geta það ekki í dag. Lífeyrir almannatrygginga dugar ekki fyrir brýnustu útgjöldum þeirra. Sumir eldri borgarar, sem hafa minnst frá almannatryggingum, hafa ekki fyrir mat síðustu daga mánaðarins. Slík meðferð á eldri borgurum stenst ekki fyrir lögum og stjórnarskrá. Það er verið að brjóta mannréttindi á þessum eldri borgurum.“

Í einni greininni segir hann að brotið sé á vistmönnum öldrunar- og hjúkrunarheimila þegar næstum allur lífeyrir þeirra er tekinn af þeim. Ellert B Schram sá nýlega ástæðu til að skrifa grein þar sem hann tekur undir „þær kröfur sem Björgvin hefur í eins manns hljóði borið fram af kjarki og rökum“.

40.000
Ekki stóð til að ræða kjaramál svo ítarlega í þessum pistli en framhjá þeim varð ekki litið. Margt annað er þó einnig mikilvægt, svo sem húsnæðismál og skortur á hjúkrunarrýmum (sem svo aftur tengist húsnæðismálum) sem fer bara versnandi. Eftir stríð varð fólksfjölgun og þeir stóru árgangar eru óðum að komast á ellilífeyrisaldur. Íslendingar 67 ára og eldri eru í dag fjörutíu þúsund og samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar verða þeir 54 þúsund árið 2025 og 71 þúsund árið 2035. Þetta er því ört stækkandi hópur. Ómar Ragnarsson hefur bent á að vandinn hafi verið fyrirséður:
„Öllum mátti verða ljóst þegar fyrir hálfri öld að stóru árgangarnir, sem þá fæddust, myndu kosta vandamál í gegnum líftíma þessara kynslóða, fyrst í menntamálum á barnaskólastiginu um miðja öldina, framhaldsskólastiginu á sjötta áratugnum og háskólastiginu á sjöunda áratugnum.
En á eftir því hlaut að koma að svipuðu í heilbrigðiskerfinu þegar þeim, sem komnir voru á efri ár kringum aldamótin síðustu fór að fjölga hratt.
Af þeim sökum byrjaði svelti kerfisins ekki í Hruninu, þótt það yrði eðli málsins samkvæmt mikið þá, heldur strax í kringum síðustu aldamót, með þeim afleiðingum að vandinn hefur undið upp á sig.“
Þess má geta að Guðrún Ágústsdóttir formaður Öldungaráðs Reykjavíkur bendir á að aldraðir vilji ekki að talað sé um fjölgun þeirra sem óheillavænlega þróun eins og þeir séu einhver vá (en ég leyfi mér að snúa uppá orð hennar og nota í yfirskrift pistilsins).

Margir aldraðir losna ekki við stóru húsin sín og nýjar íbúðir fyrir eldri borgara er svínslega dýrar. Þeir og aðrir eldri borgarar búa allmargir í óhentugu húsnæði og geta ekki skipt í hentugri íbúð vegna kostnaðar. Aðrir vilja (og ættu að fá) að búa á heimilum sínum eins lengi og kostur er. En nú er staðan þannig að fólk býr í raun of lengi heima vegna þess að þó það hafi misst heilsuna kemst það ekki á hjúkrunarheimili fyrr en allra síðustu ár ævinnar. Öldrunarheimili verða að vera til (þangað kemst heldur ekki nema háaldrað fólk) því ekki geta allir séð um sig sjálfir og margir eru afar félagslega einangraðir á heimili sínu, ekki síst ef fólk kemst varla út því það getur ekki gengið niður stigana. Þessvegna er mjög mikilvægt að nýtt húsnæði sé byggt eftir byggingarreglugerðum þar sem gert er ráð fyrir hreyfihömluðum (sbr. stutta en góða ræðu Steinunnar Þóru Árnadóttur). Nóg er víst til af húsum með þröskuldum, þröngum göngum og bröttum stigum. Best væri ef allir gætu búið í húsnæði sem hentar þeim ævina út og fengju svo þjónustu heim í stað þess að flytjast á stofnun.

Ekki einsleitur hópur
Það er ágætt að hafa í huga að þegar fólk fær ellilífeyri í fyrsta sinni hættir það ekki að vera einstaklingar. Aldraðir eru ekki allir eins. Guðrún Ágústsdóttir ítrekar þetta:
„Aldraðir, þ.e. fólk á aldrinum 67 til 85 eða 100 ára, er ekki einsleitur hópur, ekki frekar en fólk milli 47 og 70 ára eða 27 og 50 ára. Við eigum það eitt sameiginlegt að við höfum náð ákveðnum aldri sem er skilgreint í lögum sem öldrun. Annað er það ekki. Hópurinn er margbreytilegur hvað varðar afkomu (sumt efnaðasta fólk landsins er í þessum hópi), heilbrigði: andlegt og líkamlegt og félagslegt.“
Guðrún bendir á að ekki eigi að „afgreiða aldraða eins og þeir séu einhver óskiljanlegur klumpur sem er baggi á samfélaginu“.

Svo má benda á að skilgreiningin á hvenær fólk telst ‘eldra’ eða ‘aldrað’ er ekki alltaf sú sama, og fer allsekki eftir lífeyrisaldri. Vefritið Lifðu núna virðist eiga að höfða til 55 ára og eldri, en fæstir tala um að fólk sé aldrað fyrr en eftir sjötugt. Og varla þá, því sjötugt fólk ekki eins og sjötugt fólk var áður og er alveg steinhætt að róa fram í gráðið. Flestir eldri borgarar eru afar virkir andlega og líkamlega.

Á að fresta lífeyristöku fram yfir sjötugt?
Almennt er fólk enn í fullu fjöri um sjötugt og getur unnið mun lengur en núverandi lífeyristökusaldur segir til um. En þegar rætt er um að fresta lífeyristöku þannig að allir verði að vinna til 73 ára eða hvað það nú er sem talað er um í því sambandi, þá verður að hafa a.m.k. þetta í huga.

1) Ekki eru allir jafn heilsuhraustir og það er mörgum mikill léttir að eiga þess kost að hætta að vinna 67 ára. Sama gildir í raun um þá sem hafa ekki verið í vinnu af einskærri vinnugleði heldur af brýnni nauðsyn. Það er illa gert gagnvart fólki sem hefur hreinlega hlakkað til þess dags að hætta störfum að fresta starfslokum þess um mörg ár.

2) Fólk sem er komið yfir sextugt á afar erfitt með að fá vinnu. Það er jafnframt í hópi þeirra sem oftast fær fyrst að fjúka þegar skorið er niður hjá fyrirtækjum. Aðeins er hægt að fá atvinnuleysisbætur í tvö og hálft ár (þökk sé núverandi ríkisstjórn) og eftir það verður fólk að segja sig til sveitar fái það ekki vinnu fram að ellilífeyristöku. Eru sveitarfélögin tilbúin að hafa allt það fólk á framfærslu í hátt í áratug ef lífeyrisaldurinn er hækkaður?

Ef breyta á eftirlaunaaldrinum væri mun betra að hann væri sveigjanlegur frá 65 – 75 ára, þannig að þeir sem vilja eða þurfa geti hætt fyrr en hinir geti og megi vera í vinnu (brottrekstur bannaður) þar til 75 ára aldri er náð. Gæta yrði þess að lífeyrir skerðist ekki við það að fara snemma á eftirlaun.

Um þetta og fleira ræðir Helgi Pé í sjónvarpsþáttaröðinni „Okkar fólk“ sem nýlega hóf göngu sína á sjónvarpsstöðinni Hringbraut en þar „hugar hann að því hvernig er að eldast á Íslandi“, en sjálfur verður hann 67 ára á næsta ári.

Ísland, best í heimi
Fyrir mánuði var birt skýrsla sem íslenskir fjölmiðlar hömpuðu eðlilega mjög enda sýndi hún fram á að „Ísland er númer sjö á lista yfir þau lönd þar sem er best að vera aldraður.“

Þetta segir ekki allt um stöðu aldraðra, eins og sést af því sem hér hefur verið rætt um húsnæðismál og kjör aldraðra. Svona alþjóðakannanir sýna okkur oft í betra ljósi en við eigum skilið. Hér á líka að vera mesta jafnréttið en þó fá konur almennt ekki sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar, konur þurfa að sæta ofsóknum fyrrverandi maka árum saman án þess að það hafi neinar afleiðingar fyrir ofsækjandann, konum er nauðgað í stórum stíl og það er þaggað niður og nauðgararnir sæta sjaldnast refsingum. Og svo mætti lengi telja. Þannig að já, það er eflaust víða verra að vera aldraður (eða kona) en á Íslandi en það er ekki þarmeð sagt að hér sé ekki komið illa fram við fólk eða óásættanleg staða þess sé ekki látin eins og vind um eyru þjóta af yfirvöldum.

Fordómar, þöggun, hunsun
Eitt af því sem er allra verst — og er hugsanlega rótin að öllu hinu — eru fordómarnir og fyrirlitningin í garð aldraðra. Lítið sýnishorn af því skaut upp kollinum þegar Ríkisstjórnvarpið sýndi umræðuþátt sem fólk yfir sextugu stjórnaði. Þótti mikið sport að hlægja að því að hafa svo gamalt fólk rausandi í sjónvarpinu. Vonandi verður það ekki til þess að fólki sem komið er yfir miðjan aldur verði endanlega úthýst úr sjónvarpi. En það væri svosem eftir öðru.

Sveinn Einarsson segir í áðurnefndu viðtali
„í fjölmiðlum sé ekki rætt við þá sem hafi lagt mest af mörkum til leiklistarinnar, heldur við nýútskrifað fólk um það sem það ætlar að gera. Öfugt við það sem áður var. „Þetta er hluti af því sem gerir unga fólkið sjálfhverft, þannig að það hefur ekki áhuga á eldri kynslóðum.“ Hann segir að samfélagið hafi ekki „vit á að nota þá reynslu og þekkingu sem við búum yfir. Þess vegna verður eldra fólk útundan, það verður „málaflokkur“ eins og við erum stundum kölluð. Ég sé suma jafnaldra mína, það sækir að þeim þunglyndi þegar þeir sjá að þeir eru ekki lengur með í samfélaginu, að samfélagið er búið að losa sig við þennan málaflokk“, segir Sveinn.
Rétt eins og fólk yfir sextugu er óvinsælt þegar það sýnir sig í sjónvarpi er næsta ómögulegt fyrir það að fá vinnu (eða er rekið), enda reynsla þess einskis metin. Einnig er gert ráð fyrir að fólk á þeim aldri og eldra sé skoðanalaust eða skoðanir þess séu undantekningarlaust ómarktækar fyrir elli sakir. Það tíðkaðist lengi (en hefur verið breytt skilst mér) að eldri borgarar voru ekki spurðir þegar gerðar voru skoðanakannanir fyrir kosningar. Og höfðu þó kosningarétt eins og aðrir. En skoðanir þeirra voru á einhvern hátt ekki marktækar. Eða bara einskis virtar.

Mig grunar að enn séu gerðar skoðanakannanir um ýmis mál sem ná ekki til þessa hóps. Það eru tildæmis engar tölur til hjá Hagstofunni um netnotkun 75 ára og eldri. Það er oftar en ekki gert ráð fyrir að enginn yfir ákveðnum aldri kunni á tölvu eða kunni ensku, svona svo talað sé um fordóma. Þó ættu allir landsmenn að vita að Vigdís Finnbogadóttir talar fjölmörg tungumál — en hún er auðvitað ekki eini aldurhnigni einstaklingurinn sem getur talað tungum. Eins og áður hefur verið bent á eru aldraðir ekki einsleitur hópur, það er hvorki hægt að fullyrða að allir þeirra geti né að enginn geti.

Tölvunotkun þekkist sannarlega meðal eldri borgara (81% fólks á aldrinum 65 – 74 ára notar netið daglega) og margir eru færir í hvað sem er í þeim efnum. En það má heldur ekki gleyma því að stór hluti aldraðra vann aldrei störf sem þurfti að nota tölvu og hefur aldrei kynnst þeim, eða ekki að því marki að þeir geti slugsað á netinu. Það fólk er útilokað frá ýmsum upplýsingum og þjónustu. Það er tildæmis rakinn dónaskapur þegar sagt er í fréttatímum Ríkissjónvarpsins að „nánar sé um þetta á vefsíðu RÚV“; þeir finna það sem þangað sækja en óþarfi er að nudda hinum uppúr því að þeir séu útilokaðir frá hluta fréttanna. Þá eru þeir sem ekki geta notað tölvu algerlega hunsaðir þegar rætt er um rafrænar kosningar eða þegar bankaútibúum er lokað og öllum bent á heimabanka. Það er ekkert skárra að hunsa þann hóp aldraðra en hafa þá fordóma að hvergi finnist sá eldri borgari sem sé sjálfbjarga fyrir framan tölvu eða útlending.

Fjölmargt eldra fólk sækir námskeið og menningarviðburði, uppfullt af fróðleik en hefur samt lyst á meira. En þegar kemur að virðingu á jafningjagrundvelli, kjarabaráttu eða sýnileika, er þessi fjölbreytti fjörtíu þúsund manna hópur ekki virtur viðlits. Útskúfaður. Hæddur.

„Aldrei hvarflaði það að mér sem ungri konu að ég þyrfti að upplifa umræðu um gamalt fólk í líkingu við þá sem ég hef verið að fylgjast með undanfarnar vikur.“
Ekki veit ég nákvæmlega hvaða atvik Bergþóra Gísladóttir á við en oftar en einu sinni hefur hún sagt frá því á bloggi sínu hvað henni svíður hvernig talað er um aldraða. Hún segir „að það sé hatursáróður í gangi gegn gömlu fólki“.

Finnst okkur eldri borgarar eiga þetta skilið?

Efnisorð: , , , , , ,