fimmtudagur, október 29, 2015

Októberstríðið um staðarvalið

10. október síðastliðinn birtist heilsíðuauglýsing sem innihélt áskorun á Alþingi og ríkisstjórn varðandi nýja Landspítalann. Þar skoruðu samtökin Betri spítala á betri stað á stjórnvöld að „gera nýtt staðarval með opnum og faglegum hætti“. Undir skrifaði fjöldi manns, þar af sonur manns sem byggði flestar byggingarnar á Landspítalalóðinni, sérfræðilæknir sem hefur starfað á flestum deildum spítalans undanfarin 30 ár, auk fleiri lækna, hjúkrunarfræðinga, arkitekta og fólks úr öðrum starfsstéttum.

Áskorunin hljóðar svo.
Sterk rök benda til að ódýrara, fljótlegra og betra verði að byggja nýjan Landspítala frá grunni á besta mögulega stað, í stað þess að byggja við og endurnýja gamla spítalann við Hringbraut.

Skorað er á stjórnvöld að láta gera nýtt staðarval með opnum og faglegum hætti.

Meðal þess sem þarf að skoða og meta er eftirfarandi: Stofnkostnaður og rekstrarkostnaður „bútasaumaðs“ spítala við Hringbraut vs.nýs spítala á betri stað; áhrif hækkandi lóðaverðs í miðbænum; umferðarþungi og kostnaður við nauðsynleg umferðarmannvirki; heildar byggingartími; ferðatími og ferðakostnaður notenda spítalans eftir staðsetningum; hversu aðgengilegir bráðaflutningar eru með sjúkrabílum og þyrlum; hversu góð staðsetningin er miðað við byggðaþróun til langs tíma litið; áhrif betra umhverfis og húsnæðis á sjúklinga og starfsfólk; minnkandi vægi nærveru spítalans við háskólasvæðið með tilkomu internetsins; mikilvægi þess að geta auðveldlega stækkað spítalann í framtíðinni því notendum spítalans mun stórfjölga næstu áratugi.
Tæpum hálfum mánuði eftir þessa áskorun var heil opna Fréttablaðsins lögð undir yfirlýsingu þeirra sem styðja tafarlausa uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Yfirskriftin var HVIKUM HVERGI og undir skrifaði þvílíkur mýgrútur manna nafnkunnra Íslendinga, t.a.m. Vigdís Finnbogadóttir, auk fjölmennis úr starfsliði Landspítalans að það mannval eitt og sér liggur við að fái gallhörðustu andstæðinga uppbyggingar við Hringbraut til að missa móðinn.

Nokkrum dögum síðar birtist svo grein eftir nokkra lækna við spítalann, sem höfðu einnig verið á langa undirskriftalistanum (þ.á m. Læknatómas sjálfur), og hnykktu á þeirri afstöðu sinni að byggja ætti við spítalann á þeim stað sem hann er núna.

Þess má geta að skoðanakannanir hafa sýnt
„um 70% lækna eru óánægðir með staðsetninguna við Hringbraut og svipað hlutfall hjúkrunarfólks. Um 85% sjúkraflutningamanna eru andsnúnir staðsetningunni við Hringbraut. Einungis 31% landsmanna sem valdir voru í vönduðu úrtaki af MMR eru hlynntir staðsetningunni við Hringbraut. 69% eru ekki sannfærðir“.
24. október, daginn eftir opnuyfirlýsinguna, birtist svo önnur áskorun Samtaka um Betri spítala á betri stað, samhljóða hinni fyrri og voru flest nöfnin á listanum þetta skiptið ný.

Ég taldi ekki þá sem skrifuðu undir áskoranir um Betri spítala á betri stað, en einhverjum taldist til að Hvikum hvergi hópurinn hefði verið á fjórða hundrað manns. Staðarvalið verður ekki leyst með því að þessum hópum verði att saman og látnir berjast til síðasta manns (enda hvar ætti bardaginn að fara fram? HVAR?), og heldur ekki með þeirri penu aðferð að birta áskoranir í blöðum. En sú aðferð er þó skárri að því leytinu að fleiri lesendur blaðanna gera sér kannski grein fyrir að það er ekki einhugur um að byggja á Landspítalalóðinni, og að það er nauðsynlegt að ræða það mál í þaula á öllum stigum þjóðfélagsins. Staðarvalið hefur áhrif á alla – sérstaklega höfuðborgarbúa auðvitað – og það er sérlega óheppilegt að ætla að halda til streitu að byggja við spítalann þar sem hann er þegar aðrir kostir hafa ekki verið skoðaðir til hlítar.

Margir hafa bent á að sú umræða sem sér stað núna ætti fyrir löngu að hafa farið fram. Aðrir segja að það sé of seint að hætta við, það liggi of mikið á nýjum spítala. En það er spurning hvort bútasaumsaðferðin fyrirhugaða taki ekki of langan tíma hvorteðer.
„Samkvæmt áætlun munu framkvæmdir við viðbyggingar og endurbætur taka næstu 10 árin. Haldi þær áætlanir munum við árið 2025 standa uppi með einn stóran Landspítala sem reyndar verður undir hátt á annan tug húsþaka …

Ef vilji er til staðar má auðveldlega reisa nýjan og glæsilegan spítala áður en árið 2023 gengur í garð. Í Kalnes í Noregi tókst þeim að byggja nýjan spítala frá grunni á 5 árum. Spítala sem er töluvert stærri en samanlögð stærð áætlaðra viðbygginga við Landspítalann.“
sem þetta skrifar kynnir sig til leiks sem verkfræðing og ráðgjafa við spítalaverkefni í Noregi. Hann lýkur máli sínu þannig:
„Ég get hreinlega ekki sætt mig við að það taki 10 ár héðan í frá að stoppa í götin á Hringbraut. Það er glórulaust miðað við gæði og umfang verkefnisins. Þess vegna skora ég á stjórnvöld að byggja besta spítalann á besta staðnum!“

Undir þetta tek ég.

Efnisorð: ,