þriðjudagur, nóvember 24, 2015

Tvennt úr óvæntri átt (en samt ekki sömu átt)

Stundum fæ ég einskonar hitasótt og helstu einkenni hennar lýsa sér þannig að ég verð skyndilega sammála fólki sem ég allajafna tel mig ekkert eiga sameiginlegt með eða hef lítið álit á, persónulega, pólitískt eða vegna atvinnu þess.

Það gerðist semsagt fyrir fáum dögum að ég las pistil eftir Þórlind Kjartansson og var hæstánægð með hann.* Pistilinn semsagt. Efni hans umfjöllun um málgagnið Betra land, sem gefið er út af sjónvarpsstöðinni Omega og Þórlindur veltir fyrir sér hvernig ályktanir útlendingur, „sem hefði eingöngu þennan takmarkaða glugga inn í íslenskt þjóðlíf,“ gæti dregið út frá lestri Betra lands. Pistillinn er afar smellinn og gagnrýnin hárbeitt.

Áðan las ég svo pistil eftir Siggu Dögg kynfræðing sem hún ku hafa skrifað í fyrradag. Mér hefur ekki verið vel við kynfræðinga (og tel mig hafa til þess góða ástæðu) en nú kemur sér vel að það er menntun og starf pistlahöfundarins, vegna þess að í þessum pistli reynir hún að „útskýra nokkur grundvallar atriði sem snerta samþykki í kynlífi“. Að gefnu tilefni. Og hún gerir það á þann hátt að pistill hennar ætti að vera skyldulesning á öllum heimilum og í allri kynfræðslu.


Þið lesið, á meðan er best að ég leggi mig.

___

* Þórlindur Kjartansson, annar ritstjóri Deiglunnar og fyrrverandi formaður SUS, hefur verið kallaður „einn aðalsölumaður og hugmyndafræðingur Landsbankans varðandi IceSave,“ en bankinn varð frá einkavæðingu og fram að hruni, „athvarf, útungunarstöð, klakstöð fyrir sjálfstæðismenn“.

Efnisorð: , , , ,