mánudagur, nóvember 16, 2015

Viðbrögð Hollande

Viðbrögð Hollande við hryðjuverkunum í París eru þveröfug við hvernig Stoltenberg brást við þegar Breivik framdi sín voðaverk. Hollande ætlar að „gjöreyða hinu svokallaða Íslamska ríki“. Tíminn leiðir í ljós hvort honum tekst það, en í ljósi þess hvernig gekk þegar Bush yngri þóttist ætla að uppræta hryðjuverk með innrás í Afganistan og Írak, þá er myndi ég ekki veðja á Hollande.

Gallinn við þessar stríðsyfirlýsingar er líka sá að ISIS* vill einmitt slást við erlenda heri, því fleiri því betra. ISIS þráir heimsendi og hryðjuverkin í Líbanon og París eru liður í því að flýta fyrir lokabardaganum. Þeir vilja mæta óvinum sínum við Dabiq (sem er um 40 km norðan við Aleppo og 10 km frá tyrknesku landamærunum) en lokabardaginn skilst mér að eigi að vera við Jerúsalem, svona svo heimsendirinn komi nú örugglega. Og vígamenn íslamska ríkisins gera greinilega ráð fyrir að vinna allar orusturnar til þess svo að enda í eilífri sælu … eða eitthvað svoleiðis. Vígamenn ISIS hræðast varla hótanir Hollande heldur hljóta að fagna þeim. Markmiðinu með árásunum á París náð.

Í stað þess að svekkja sig á röngum viðbrögðum og stríðsæsingi Hollandes er betra að lesa tvo afar jákvæða og góða pistla. Annan skrifar Sigþrúður Guðmundsdóttir og hinn Guðmundur Andri Thorsson.

___

* ISIS er nú æ oftar kallað Daesh, eða Daesh-samtökin. Færslunni hér að ofan verður hugsanlega breytt í þá veru.

Efnisorð: ,