fimmtudagur, september 23, 2021

Kosningar 2021 og flokkurinn sem fær ekki mitt atkvæði

 Um daginn tók ég eitt af þessum kosningaprófum. Niðurstaðan var sorgleg: sá flokkur sem (í orði kveðnu) er mest sammála mér er Vinstrihreyfingin-grænt framboð. Það er að segja: sú stefna sem VG flaggar þegar veiða á atkvæði fellur algerlega að hugmyndum mínum um hvernig þetta samfélag á að vera. En ég ætla auðvitað ekki að kjósa VG þrátt fyrir það því síðustu fjögur ár hefur allt annað verið uppá teningnum hjá þessum fyrrum uppáhaldsstjórnmálaflokki mínum. 

Í raun var nægt tilefni að afneita VG þegar þessi fyrrum höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins bauð þeim sama flokki að sitja með sér í ríkisstjórn. Hleypti Bjarna Ben í fjármálaráðuneytið (maður með skrautlega sögu úr viðskiptalífi fyrirhrunsáranna og eigandi bankareiknings í aflandsfélagi) og Sigríði Á Andersen í dómsmálaráðuneytið (þar sem hún skipaði dómara í Landsrétt með slíkum glæsibrag að hún er enn stolt af því) en þau Bjarni og Sigríður voru einmitt orsök þess að ríkisstjórnin þar á undan sprakk. 

En VG tók semsagt að sér að hvítþvo Sjálfstæðisflokkinn af syndum sínum og gefa út það vottorð að samstarfið hafi gengið frábærlega. Samstarfið hefur reyndar ekkert verið ef marka má algjört ábyrgðarleysi VG á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins (eða Framsóknar þar sem einn ráðherrann fór í mál við konu sem sótti um starf í ráðuneyti) og lét því eins og vind um eyru þjóða áköll um að forða fólki frá því að Útlendingastofnun sem er undir stjórn dómsmálaráðuneytisins (þar sem fyrst Sigríður Á, svo önnur og nú þriðja eða fjórða konan úr röðum Sjálfstæðisflokksins stýrir) sendir fjölskyldur með börn sem hér hafa gengið í skóla, barnshafandi konur og fólk sem hefur verið selt mansali eða á yfir höfði sér ofsóknir jafnvel dauða vegna kynhneigðar sinnar úr landi, jafnvel í skjóli nætur, jafnvel með blekkingum, fólk sem er sent úr landi fyrir að vera ekki rétta tegundin af flóttamanni eða ekki hugnanlegur hælisleitandi — burtséð frá mannúð, burstéð frá í hvaða aðstæður þetta fólk er sett. Á þessu þykist vinstrihreyfingin-grænt framboð ekki bera ábyrgð, þótt formaður flokksins sé forsætisráðherrann sem stýrir ríkisstjórnininni og gaf góðfúslegt leyfi sitt til að Sjálfstæðisflokkurinn réði yfir innflytjendamálum. 


Þegar húsið á Bræðraborgarstíg brann í fyrrasumar og  þrjár manneskjur létust sagði forsætisráðherra, þessi fyrsti forsætisráðherra VG, ekki andskotans múkk. Hún hafði ekki samband við fólkið sem slapp úr brunanum en missti eigur sínar, ekki við ættingja þeirra sem dóu, gaf ekki út neina yfirlýsingu um sorg og samúð. 

Í fyrrinótt brann kirkjan í Grímsey. Skiljanlega allir íbúar eyjarinnar í áfalli, og hefðu fengið áfall sama hvaða hús brann. Enginn dó. Enginn var í hættu. Enginn missti heimili sitt. En Katrín Jakobsdóttir, hún var ekki sein á sér að segja hvað henni fannst „óskaplega er sárt að heyra af brunanum“ og hugur hennar hjá íbúunum. Enda innfæddir Íslendingar. Og kosningar eftir nokkra daga. 

En þeir þarna útlendingarnir? Sem misstu allt og horfðu uppá þrjár manneskjur farast? Ekki orði á það lið eyðandi. 

Af öllu því sem ég hef óbeit á VG fyrir og formanni þess flokks að loknu þessu kjörtímabili, og sannarlega hefði ég getað talið upp mörg atriði, þá er meðferðin og skeytingarleysið gagnvart fólki af erlendum uppruna það sem vekur mesta andstyggð. 

Efnisorð: , ,