sunnudagur, júní 06, 2021

Þingmennsku ófétanna að ljúka

 Lengi hefur staðið til að blogga. Tilefni ærin. En í dag er ekki hægt annað en skrá á spjöld bloggsíðunnar þau stórkostlega gleðilegu tíðindi að hvorki Brynjar Níelsson né Sigríður Á Andersen verða í framboði í haust. Þeim var báðum hafnað í prófkjöri. Hafnað af flokksfélögum sínum í Sjálfstæðisflokknum — meira að segja þar hefur mönnum loks ofboðið. Þó fyrr hefði verið. Ekki að ég muni hér eftir líta Sjálfstæðisflokkinn hýru auga; hef á honum ævarandi skömm. En þessi úthreinsun var löngu tímabær. Bæði hafa þau andstyggilegar skoðanir (sem þau deila reyndar að uppistöðu til með öðrum Sjöllum) og hafa í ofanálag  einstakt lag á að sýna öllu því sem telst virðing við fólk af minnihlutahópum eða fólk í erfiðri stöðu algjöra fyrirlitningu. Svo ekki sé talað um sífellda andstöðu þeirra við kvennabaráttu hverskonar og hnjóðsyrði í garð feminista. 

Hneykslin sem Sigríður Andersen hefur verið potturinn og pannan í hafa eflaust gert hana óæskilegri kost á framboðslista fyrir flokksfélaga hennar. En hvað veldur því að Brynjar, sem hefur ekki gert neitt annað en vera Brynjar — þessi sem leggur ekki fram frumvörp en mætir í öll viðtöl þar sem hann gasprar og snýr útúr öllu sem rætt er um — það er næstum óskiljanlegt að honum sé refsað með þessum hætti. Hann hefur fram til þessa verið flokknum einkar gagnlegur við að draga, með áðurgreindum hætti, alla athyglina að sér (sjá ótal fyrirsagnir um hvað 'Brynjar Níelsson segir') og málin sem hann var fenginn til að ræða við fjölmiðla falla í skuggann. Hefur gengið vel hingaðtil. 

En nú losnum við semsagt við hann, vonandi um alla framtíð. Æskilegast væri að þessi óféti hættu strax á  þingi í stað þess að bíða fram að kosningum, en við því er vart að búast. Samt er þetta gleðidagur.


Efnisorð: