föstudagur, maí 01, 2020

1. maí í samkomubanni

Sólveig Anna var ekki í skrítna 1. maí sjónvarpsþættinum og væri fróðlegt að fá skýringu á því. Var henni ekki boðið eða vildi hún ekki vera með?* Ræðumenn fengu reyndar óskaplega stuttan tíma til að tala, og það er eitthvað öfugsnúið við að útí í öllum veðrum halda þeir langar ræður en inni í hlýju húsi verður ræðan í stikkorðastíl. Nær hefði verið að fækka tónlistaratriðum. Þetta var alveg glataður baráttu-og skemmtiþáttur.

Fleira er glatað á þessum síðustu og verstu tímum. Eftir margra ára sveltistefnu stjórnvalda** sem hafa algjörlega þvertekið fyrir að bæta stöðu öryrkja og aldraðra (nema rétt fyrir kosningar) eru nú ríkisfjárhirslur opnaðar uppá gátt. En ekki til að gauka fáeinum aurum til þeirra sem hafa langt undir lágmarkslaunum að lifa á, nei það eru fyrirtækin í landinu sem er verið að dæla peningum í, og ekki síst fá stórfyrirtæki með mikið eigið fé sem hafa greitt eigendum sínum skrilljónir í arð nú þvílíka fátækraaðstoð frá ríkinu. Og það er alveg bannað að minnast á að fjölskylda Bjarna Ben (sem sem hefur einmitt strangur sagt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái sko ekki neitt) nýtur góðs af fjáraustrinum til ferðaþjónustunnar (Kynnisferðir/Reykjavík Excursions) og að eiginkona Guðlaugs Þórs og þar með hann sjálfur (Hreyfing/Bláa lónið) er einnig þiggjandi þessara góðgerðarstarfsemi. Ekki hafa nein ramakvein borist úr herbúðum Vinstri grænna vegna þessa, ekki frekar en þeir hafa neinar skoðanir á því hvernig enn eina ferðina eigi að ganga framhjá þeim sem verst eru staddir fjárhagslega. Þá er ansi hlálegt að „ekki er kveðið sérstaklega á um það í lögum um aðstoð frá ríkinu til fyrirtækja vegna afleiðinga kórónuveirufaraldursins, að þau hafi ekki notfært sér skattaskjól, né að þau hafi skráð raunverulega eigendur sína“ (RÚV).

Verkalýðsfélögin hafa þó, og þá vil ég nefna Sólveigu Önnu í Eflingu sérstaklega, munað eftir þeim verst settu í samfélaginu, þar með töldum öryrkjum og viljað rétta hlut þeirra eins og vinnandi fólks. Drífa Snædal hefur svo sett þá kröfu fram fyrir hönd ASÍ að hækka atvinnuleysisbætur.

Ein ástæða þess hve fólki gengur illa að lifa af launum sínum, bótum eða lífeyri, er himinhátt leiguverð. Stór leigufélög hafa komið til móts við rekstraraðila veitingahúsa og verslana og gefið þeim eftir leigu í nokkra mánuði til að forða þeim frá gjaldþroti. Enn hef ég ekki heyrt að stór leigufélög hafi lækkað eða frestað leigugreiðslum til þeirra sem eiga sér heimili í húsnæði á þeirra vegum. Þó er eflaust margt af því fólki orðið atvinnulaust eða hefur þurft að minnka við sig vinnu, fyrir utan nú allt það fólk sem hefur aldrei með góðu móti ráðið við þetta sjúklega háa leiguverð. En kapítalistum finna til samstöðu með öðrum kapítalistum sem eru í rekstrarvanda; almenningur hvað þá einhverjir fátæklingar eiga ekki uppá pallborðið hjá þeim. Það fólk getur bara sjálfu sér um kennt að vera fátækt.***

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalag Íslands skrifaði pistil í dag**** þar sem hún segir frá því að
„árið 2006 mynduðu fimm stjórn­mála­flokkar pólitíska sam­stöðu með hags­muna­sam­tökum fatlaðs og lang­veiks fólks og eldri borgurum, undir nafninu „þjóðar­sátt um virkara vel­ferðar­ríki“.“
— Af þessum fimm stjórnmálaflokkum eru þrír nú við stjórnvölinn í landinu: Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð.
„Að­gerðir ríkis­stjórnarinnar sem þegar eru ljósar, ná lítið sem ekkert til ör­yrkja. Sinnu­leysi síðasta ára­tugar um kjör ör­yrkja má ekki halda á­fram í skjóli nú­verandi kreppu,“
segir í á­lyktun frá stjórn Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands sem sam­þykkt var á stjórnar­fundi í gær. „Stjórnin bendir á að í rúmt ár hafi sam­tal við ráð­herra for­sætis-, fjár­mála- og fé­lags­mála engu skilað og í ár hafi sömu ráð­herrar ekki orðið við beiðni Ör­yrkja­banda­lagsins um fundi.“

Það er svekkjandi að sjónarmið láglaunafólks og bótaþega hafi ekki fengið að hljóma á torgum í dag. Málstaðurinn er mikilvægur en virðist vera að drukkna meðan björgunarhringjum er kastað til fyrirtækja (sem eru í mismikilli þörf fyrir aðstoð og sum ekki á vetur setjandi). Því er enn brýnna en áður að fólk sem styður baráttu verkalýðs og vill velferðarsamfélag sem virkar fyrir alla, láti í sér heyra.

Svo var líka fúlt að kvenréttindakonur gátu haldið uppá með viðeigandi hætti að í dag voru 50 ár síðan Rauðsokkur tóku í fyrsta sinn þátt í 1. maí göngunni. Það má bæta úr því á næsta ári — en baráttan fyrir bættum kjörum má ekki bíða.

Betri kjör — skiljið engan eftir!

___
*Fréttablaðið lagði eina blaðsíðu (bls.8) undir viðtöl við verkalýðsforingja í tilefni dagsins. Þar var talað við Sonju Ýri Þorbergsdóttur formann BSRB, Drífu Snædal forseta ASÍ og Ragnar Þór Ingólfsson formann VR, en ekki Sólveigu Önnu. Hefur hún unnið sér það til óhelgi að boða til verkfalls í næstu viku?
** Ekki eru allir öryrkjar og aldraðir fátækir og ekki er allt fátækt fólk annaðhvort aldrað eða býr við örorku. En hér vil ég þó benda á áhugaverða grein í Stundinni eftir Kolbein Hólmar Stefánsson þar sem segir:
„Á undanförnum árum hefur framfærsluviðmið örorkulífeyris dregist nokkuð aftur úr lægstu launum. Árið 2009 nam framfærsluviðmiðið fyrir einstakling sem deildi heimili með öðrum fullorðnum einstaklingi 95,4% af lægstu launum á vinnumarkaði. Árið 2019 var viðmiðið komið niður í 75,6% af lægstu launum.“
*** Kolbeinn Stefánsson er einmitt í grein sinni að tala um mýtur sem eiga að réttlæta stöðu fátækra í samfélaginu.
****Öryrkjabandalagið hefur einngig sagt að „grípa þurfi strax til að­gerða sem forða fólki frá sárri fá­tækt“ Öryrkjabandalagið var með heilsíðuauglýsingu (bls. 17) eins og reyndar mörg verkalýðsfélög í Fréttablaðinu í dag. Pistill Þuríðar er á leiðarasíðunni bls. 14.

Efnisorð: , , , , , , , , ,