laugardagur, febrúar 01, 2020

Það sem má ekki segja um átrúnaðargoðið Kobe Bryant

Alveg þykir mér yfirgengilegt að lesa og heyra allar lofræðurnar um Kobe Bryant.* Á netinu, í sjónvarpinu og útvarpinu, í hlaðvarspþáttum og á samfélagsmiðlum. Kona sem var blaðamaður á Washington Post benti á — ekki í á síðum blaðsins heldur á Twitter í eigin nafni — að hann hefði verið kærður fyrir nauðgun** og var henni fyrir vikið sagt upp störfum, og fékk að auki yfir sig drífu morðhótana frá trylltum við-stöndum-með-nauðgurum-ef-þeir-eru-frægir múg. Örfáir fréttamiðlar minnast á nauðgunarkæruna, hafa um það örfá orð og svo er haldið áfram með upphafningu goðsins. En fæstir nefna nauðgunarkæruna yfirleitt heldur einblína bara á íþróttahæfileikana og hvað Kobe Bryant var geggjað góður gæi. Það á jafnt við fólk í útlöndum sem hér á landi, stjörnur sem fréttamenn. Nú síðast í kvöld í íþróttafréttatíma Ríkissjónvarpsins.

Annar dagskrárgerðarmaður RÚV, Guðmundur Björn Þorbjörnsson, skrifar í dag langan pistil þar sem vitnað er í Platón um fullkomnun og Jakobsbréf Nýja testamentisins um raunir og þolgæði, og sagt að í leit að fullkomnun „rekumst við á veggi“. Þessar djúpu pælingar eru inngangurinn að umfjöllun um nauðgunarmálið sem fær tæplega sjötíu orða pláss í 2.572 orða pistli:
„Árið 2003 var Kobe ákærður fyrir að nauðga 19 ára stúlku. Kæran var að endingu dregin til baka og var málið útkljáð utan dómssals. Hann neitaði því að hafa nauðgað stúlkunni, en viðurkenndi að hafa átt við hana samræði. Hann sagðist hafa haldið að það sem hefði gerst hefði verið með hennar vilja, en síðar skilið að svo hafi ekki verið. Á því bæðist hann afsökunar.“
Svo heldur bara pistillinn áfram eins og ekkert hafi í skorist og endar á háfleygum lokaorðum.

Kannski verða sömu hástemmdu lýsingarnar þegar ofbeldismaðurinn og nauðgarinn Mike Tyson deyr. Eða þegar raðnauðgarinn Bill Cosby hrekkur uppaf. Hvað þá Roman Polanski, hann hlýtur að vera hylltur að vanda, skítt með smástelpuna sem hann nauðgaði.*** Og kannski gerist það aftur að fólk missi vinnuna fyrir að leyfa sér að benda á að þetta goð hafi verið nauðgari, en hinir sem hrósa ferlinum í hástert fái til þess mikið pláss.

Á meðan sitja þolendur kynferðisobeldis, ekki bara fórnarlömb þessara manna heldur ótal önnur, og verður ómótt yfir því að kynferðisglæpurinn sé veginn og léttvægur fundinn.

___
* Áður hefur verið skrifað um Kobe Bryant hér á blogginu í miðri metoo-byltingu.

** Greinin sem blaðakonan vísaði í, þar má lesa vitnisburði beggja hjá lögreglu, hótelsstarfsmannsins þegar hún kærði Kobe Bryant fyrir nauðgun og hans útgáfa af atburðum við yfirheyrslur lögreglu.

*** Polanski hefur fengið um sig nokkrar bloggfærslur, hér er ein þeirra.

Efnisorð: , , , , , , ,