fimmtudagur, desember 12, 2019

Óveðrið afhjúpaði fúna innviði

Það hefði sennilega enginn trúað því að heilu sveitirnar gætu orðið rafmagnslausar dögum saman. Að bæjarbúar jafnt sem bændur og búfénaður væri í myrkri og kulda, og ekki væri hægt að mjólka veslings kýrnar.* Það kemur semsé í ljós að það er ekki bara vegakerfið sem hefur verið látið sitja á hakanum heldur einnig fjarskipti og viðhald flutningskerfa rafmagns.** Sveitarstjórn Húnaþings vestra og sveitarstjórn Skagafjarðar hafa sent stjórnvöldum landsins tóninn í harðorðum yfirlýsingum vegna þessa.

Þá má benda á fantafínan pistil Hallgríms Helgasonar af sama tilefni og hefst hann svona:

„Á meðan íslenskir milljarðar njóta ónotaðir sólar á Kýpur og Karabí-eyjum norpar fólkið sem skóp þá rafmagnslaust í ofnköldum húsum sínum Norðanlands. Innvirðirnir okkar hafa verið nagaðir niður af Samherjum þessa lands, ránskerfi kvótans, samstöðu aflendinganna og allra þeirra þingflokka. Hvenær verður þýfið sótt og byrjað að byggja upp vorar fúnu stoðir?“

___
*Það gæti þurft talsverðan mannskap eigi að handmjólka kannski 60 kýr tvisvar á dag. Auk þess sem nútíma kýr, er mér sagt, yrðu hvekktar væri reynt að handmjólka þær enda þekkja þær ekkert nema vélar.

** Það kom fram í yfirlýsingu sveitarfélaganna að tengivirki hafi verið ómönnuð sem varð til þess að ekki var hægt að bregðast strax við þegar rafmagnið fór í óveðrinu. En svo eru þeir sem kenna umhverfissinnum um rafmagnsleysið. Heiðar Guðjónsson fjárfestir (áður Heiðar Már Guðjónsson), eigandi Sýnar (Vísir, Stöð 2, Bylgjan) varaformaður og einn eigenda HS veitna (sem á Vesturverk sem ætlar að virkja Hvalá á Strönum) og áfram um um olíuleit á Drekasvæði og lagningu sæstrengja, kennir „andstöðu við uppbyggingu raflína“ um rafmagnsleysið á Norðurlandi. Andri Snær Magnason svaraði: „nei - vegna þess að stóriðjan hefur fengið forgang á alla innviðabyggingu og línur í sveitum landsins eru víða enn ofanjarðar.“ Annarstaðar var spurt: „Hélst Bitcoin náman á Blönduósi í gangi?“ Það er auðvitað galið að Bitcoin námugröftur sem er mjög raforkufrekur sé leyfður hér þegar raforka er ekki tryggð öllum landsmönnum. Eins og Andri Snær bendir á er ekki skortur á rafmagni í landinu, það er hverjir hafa aðgang að henni.

Efnisorð: , , , , ,