þriðjudagur, janúar 14, 2020

Frá Landspítala til Skrokköldu liggja gagnvegir

Eitt af því sem vekur fólk til meðvitundar um ástand mála í heilbrigðiskerfinu eru persónulegar reynslusögur. Tölur um fjölda sjúklinga á göngum eða framlag ríkisins til rekstrar Landspítalans nær ekki eins vel í gegn og frásögn sjúklings eða aðstandanda sem hafa séð og upplifað hvernig ástandið er á eigin skinni. Að því leytinu er mikilvægt að Hafrún Kristjánsdóttir hafi sagt (á sinni eigin facebook-síðu sem var endursögð á DV) frá reynslu sinni af að aðstoða náinn ættingja sem hefur ítrekað þurft að fara á bráðamóttökuna og verið lagður inn á ýmsar deildir, og hefur Hafrún því þurft að eyða miklum tíma á bráðamóttökunni. Það sem stingur samt í augu er gagnrýni Hafrúnar á heilbrigðiskerfið og ákall hennar um að það þurfi að gera eitthvað í þessu strax.

Fyrir þau sem ekki muna, þá er Hafrún systir Sigurðar Kára Kristjánssonar sem stóð staffírugur í pontu Alþingis í miðri búsáhaldabyltingu og mælti fyrir frumvarpi um brennivín í búðir. Hafrún, rétt eins og bróðirinn, varð snemma handgengin frjálshyggju og náði að verða stjórnarmaður í Heimdalli. Hún er semsagt ein þeirra sem hafa viljað báknið burt, allt sé einkavætt og heilbrigðisþjónustan þar með. Það er einmitt vegna þeirrar stefnu sem frjálshyggjumenn á þingi, og þar af allir fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hafa stigið fast á bremsuna áratugum saman þegar fjárlög eru samin, og svelt heilbrigðiskerfið. Undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar um árið létu þeir sem og aðrir frjálshyggjumenn sem vind um eyru þjóta. Ástandið á Landspítalanum, manneklan ekki síst, er alfarið afurð frjálshyggjumanna. Og það er óþolandi að sjá Hafrúnu kvarta undan ástandi sem hún og hennar líkar hafa markvisst unnið að.

En kannski er rangt að skamma Hafrúnu, það getur auðvitað vel verið að hún hafi fyrir löngu snúið baki við fyrri stjórnmálaskoðunum. Annað eins hefur nú gerst. Augljós dæmi um það eru ráðherrar Vinstri grænna.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skammast úti í lækna sem hafa undanfarið, eins og Hafrún, óspart lýst yfir hörmungarástandinu á bráðamóttökunni og segja að þar ríki neyðarástand. Svandísi virðist finnast mikilvægara að láta sem ekkert sé að, enda þótt allir viti betur, og segir fullum fetum að það sé erfitt að standa með Landspítalanum ef læknarnir séu að kvarta. Eins og það sé valkostur í huga heilbrigðisráðherra hvort hún „stendur með“ Landspítalanum. Einhvernveginn rímar þessi hugsun Svandísar, að ekki megi gagnrýna fjársvelti og slæman aðbúnað ríkisstofnana, ekki við þá félagshyggju sem hún einu sinni studdi. En eftir að hún tók þátt í að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum — sem henni þótti djörf en ótrúlega spennandi ákvörðun — hefur greinilega fleira umhverfst í huga hennar.

Víkur þá sögunni að umhverfisráðherranum sem er eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem ekki var kjörinn á þing heldur handvalinn af forsætisráðherra. Hann var einusinni framkvæmdastjóri Landverndar og fór þá auðvitað mikinn um mikilvægi þess að vernda landið fyrir virkjunaráformum t.a.m. við Skrokköldu. Nú er hann sestur þægilega í ráðherrastólinn og finnst alltíeinu að það fari vel á því að A) stofna miðhálendisþjóðgarðinn sem lengi hefur verið barist fyrir, og B) í þjóðgarðinum megi virkja alveg hægri vinstri.

Enda er hægri búið að gleypa vinstri. Og allsendis óvíst hver vaknar með hvaða stjórnmálaskoðun á morgun. Allt er ómark.

Áfram verður þó ófremdarástand á Landspítalanum.

Efnisorð: , , , ,