þriðjudagur, mars 03, 2020

Fátækt stórs hluta landsmanna til umfjöllunar í Kveik

Þrátt fyrir að ég telji mig vita ýmislegt um fátækt á Íslandi, enda reyni ég að lesa allar umfjallanir og viðtöl (Stundin hefur mikið fjallað um fátækt), hef hlustað á hlaðvarpsþætti um fátækt (sem því miður eru ekki lengur aðgengilegir) fannst mér nánast óbærilegt að horfa á Kveiksþáttinn í kvöld. Það verður allt svo mikið raunverulegra og átakanlegra þegar fólk talar í mynd. Að sjá fólkið, aðstæður þess, heyra um ævi þess og vonleysi, og fá svo að vita fjöldann, að það eru ekki bara þessar manneskjur heldur tugþúsundir í svipuðum sporum, það er þyngra en tárum taki.
Á bilinu 18-35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10 prósent landsmanna. Af þeim eru sjö til tíu þúsund í mikilli neyð og búa við sárafátækt.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru 28-35 þúsund manns undir lágtekjumörkum, og eru þar með fátæk, þar af allt að 10 þúsund börn undir 16 ára aldri.
Ég tek undir með Óskari Steini varaforseta ungra jafnaðarmanna sem sagði eftir þáttinn:
Það er ógeðslegt að þúsundir Íslendinga búi í fátækt meðan sumir eiga milljarða. Það er ekkert sem réttlætir þetta og það er hægt að breyta þessu. BTW, með tilvonandi hækkun skólagjalda í háskóla er enn frekar verið að hefta tækifæri fátækra til að komast upp úr fátæktinni.

Efnisorð: , , , , , , ,