föstudagur, desember 25, 2020

Ég hlýði þegar mér sýnist og afsakið dómgreindarbrestinn en ég hætti barasta ekki neitt

Það gefst gott næði í kvöld til að skrifa blogg því að árlegt jólaboð féll niður, eðlilega. Það er nefnilega til fólk, ég þar á meðal, sem finnst algjörlega sjálfsagt að sleppa því sem annars var á dagskrá — vegna þess, eins og maðurinn sagði: við erum öll almannavarnir. 


Karlmaður 1 í embætti
Reyndar varð maður sem hefur endurtekið æ ofan í æ að við séum öll almannavarnir uppvís að því að safna fólki af ýmsum landshornum heim til sín og reka þar einhverskonar umferðarmiðstöð. Það komst upp vegna þess að megnið af fólkinu, þar með talið hann sjálfur, smitaðist af kórónuveirunni. Fram að því hafði hann hugsanlega oft haft marga gesti í einu, en ekki fundist þá, eða allavega þessa örlagaríku helgi, haft dómgreind til að afþakka þessar heimsóknir. Hann hafði svosem áður sýnt af sér dómgreindarbrest í sambandi við einhvern fótboltaleik. En þrátt fyrir ítrekaðan dómgreindarbrest var hann hvorki rekinn né sagði af sér. 

Karlmaður 2 í embætti 
Annar karlmaður hefur nú gerst sekur um dómgreindarbrest svo eftir er tekið. Eins og með karlmanninn í fyrra dæminu komst upp um þennan, en ekki er ólíklegt að hann hafi oft og iðulega þverbrotið allar reglur um sóttvarnir en bara löggan ekki mætt á vettvang. En úr því að þetta var komið í fjölmiðla dreif hann sig í að mæta bljúgur í viðtöl og biðjast afsökunar. Ætlar auðvitað ekki að segja af sér frekar en hinn karlmaðurinn (kannski hefði verið meiri þrýstingur á það ef sá hefði gengið á undan með góðu fordæmi og sagt af sér öllu sem tengdist sóttvarnarmálum?). Er hann þó leiðtogi síns flokks í ríkisstjórn og sem fjármála- og efnahagsráðherra sér hann um útstreymi úr ríkiskassanum og er því mjög meðvitaður um hvað Covid er að kosta þjóðarbúið — en hikar þó ekki við að taka þátt í samkomu þar sem voru mun fleiri en máttu vera, og nánast allir viðstaddir grímulausir. (Enn á eftir að koma í ljós hvort einhver í samkvæminu með Bjarna þetta Þorláksmessukvöld hafi verið smitaður.) Það fer ekki framhjá neinum hvort fólk er með grímu eða ekki, en útí það hefur Bjarni Ben ekkert verið spurður þegar hann segist hafa bara verið 15 mínútur (útafþví að það er hámarkstími) og bara allsekki tekið eftir því strax að fólki hefði fjölgað í kringum sig.*

Reyndar er eftirtektarvert hve Engeyjarprinsinn er oft ómeðvitaður um hvað hann gerir. Hann skrifaði undir pappíra í Vafningsmálinu sem urðu til þess að bótasjóður Sjóvá tapaði 20 milljörðum — en vissi ekkert hvað var á þessum pappírum sko, var bara að sendast. Svo er það einkamálasíðan þar sem hann var að leita sér að konu en álpaðist til að nota vinnunetfang; lét svo konuna taka skellinn með sér og gerði hana þannig að enn meira athlægi en framhjáhaldstilraunirnar einar hefðu gert. En það er auðvitað hans einkamál og hefur ekkert vægi gagnvart samfélaginu, en sýnir þó hve gjarn hann er á að ljúga sig útúr vandræðum. Hér má lesa um fimm skipti þar sem Bjarni var sér alls ómeðvitaður. 

1) Vissi ekki hvað hann veðsetti (Vafningsmálið)
2) Vissi ekki af fjárfestingu Einars Sveinssonar föðurbróður síns (sem keypti Borgun útúr Landsbankanum)
3) Vissi ekki af innherjaupplýsingum þegar hann og pabbi hans seldu hlutabréf sín í Glitni fyrir hrun
4) Vissi ekki um lekann í dómsmálaráðuneytinu sem varð til þess að Hanna Birna sagði af sér (þótt sérfræðingar í hans ráðuneyti hefðu rannsakað lekann) 
5) Vissi ekki að hann ætti félag í skattaskjóli (Falson og Co. sem var skráð á Seychelles eyjum eins og kom í ljós í Panamaskjölunum) og þráaðist við að leyfa skattrannsóknarstjóra að kaupa gögn sem innihéldu upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum.

Þetta er úr úttekt frá 2016 og hefur sannarlega bæst við listann. Bjarni veit auðvitað ekkert hvernig stendur á því að sett var lögbann á útgáfu Stundarinnar sem vann fréttir um fjármál Bjarna Ben, sem þá var forsætisráðherra, upp úr Glitnisskjölunum (sbr. upptalingu hér fyrir ofan) — en fréttaflutningurinn var stöðv­að­ur með valdi í að­drag­anda Al­þing­is­kosn­inga 2017. En hann vissi auðvitað ekkert hver stóð fyrir lögbanninu. Ríkisstjórnin hans sprakk svo þegar samstarfsflokkur neitaði að vera lengur memm þegar ljóst varð að Sigríður Andersen þáverandi dómsmálaráðherra hafði vitað að pabbi Bjarna hafði skrifað uppá náðunarbréf fyrir barnaníðing; hún sagði Bjarna einum frá því og þau þögðu yfir því mánuðum saman. Eflaust er ég að gleyma einhverju,** listinn yfir hneyksli sem Bjarni Ben tengist er of langur til að ná honum saman á einni kvöldstund.

Á meðan faraldurinn geisar hamast flokkssystkin Bjarna, þau Sigríður Andersen og Brynjar Níelsson gegn sóttvörnum. Bjarni Ben hefur hreint ekki fordæmt það. Þórdís Kolbrún Reykfjörð lét ekki ráðherraembættið stoppa sig í stelpufjöri (engin afsögn þar heldur en þetta varð til þess að reglurnar fóru að riðlast) og Þorgerður Katrín (sem var ráðherra flokksins og er enn frjálshyggjumanneskja) fer milli landshluta því ekkert má stöðva hana í að spila golf. 

Uppá þetta hefur Katrín forsætisráðherra VG horft og sagt fátt. Hún hefur nú tilkynnt alþjóð að sér hafi nægt að skamma Bjarna Ben og henni finnist ekki að hann þurfi að segja af sér. Það væri því mátulegt á hana að Píratar leggi fram vantrauststillögu á hendur Bjarna, og hún þurfi að koma upp í pontu og bera blak af honum, eins og hún gerði þegar rætt var um vantraust á Sigríði Á Andersen vegna ráðningu dómara í Landsrétt. Fleiri flokksmenn VG létu sig hafa það þann daginn og mun ekki gleymast. Katrínu er auðvitað mjög í mun að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram eins lengi og mögulegt er. (Samkvæmt öllum venjum ætti að kjósa í vor en nei, hún seinkaði kosningum fram yfir sumarið til haust; það verður löng dauðaganga fyrir VG.) En til þess að ná því markmiði svífst hún einskis, og er til í að éta skít á hverjum degi.

En fyrir rest verður kosið. Þá rætist nú líklega það sem sagt hefur verið: flokkur hennar hrynur í fylgi, en Bjarni Benediktsson verður forsætisráðherra. Kannski vilja Vinstri græn ekkert frekar en fá að vera aftur memm í ríkistjórn þar sem hann ræður öllu — eins og nú.

Eitt er víst. Þorláksmessu-Bjarni verður ekki til að auka virðingu Alþingis. 

__
* [Viðbót] Úr pistli Braga Páls Sigurðssonar: 
En hvað sagði aðilinn sem hringdi inn og tilkynnti um þessa ólöglegu fjöldasamkomu? Hann sagði Bjarna hafa mætt um tíu mínútum áður en hringt var í lögguna, og að hann var enn í salnum þrátíu mínútum seinna, þegar löggan mætti. Tíu plús þrjátíu er augljóslega fimmtán, það veit hver einasti fjármálaráðherra!“

** [Viðbót] „Bjarni ákvað að leyna almenning upplýsingum um umfang skattaskjólseigna fram yfir þingkosningar, kosningar sem var beinlínis boðað til vegna harðra viðbragða almennings við afhjúpunum á því hvernig stóreignafólk felur peningana sína á aflandseyjum.“ Og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður veltir upp þeirri spurningu hvort Bjarni „hafi óttast að skýrslan hefði áhrif á stjórnarmyndunarviðræðurnar og möguleika hans til að leiða ríkisstjórn?“
[Viðbót] Skýrslurnar voru reyndar tvær, hin var um „skiptingu Leiðréttingarinnar. Báðar voru tilbúnar fyrir kosningarnar 2016 en ekki birtar fyrr en að þeim loknum“. Já og svo beitti hann sér gegn því að Þorvaldur Gylfason fengi ritstjórastarf í útlöndum, sem Þórður Snær rifjaði upp í leiðara Kjarnans undir yfirskriftinni „Bjarni sigurvegari“.

[Viðbót] Í Kryddsíldarþætti á gamlársdag birtist svo reiði Bjarni sem lýsti óánægju og furðu sinni, hreytti í viðstadda og kannaðist ekkert við að hafa beðist afsökunar.  


Efnisorð: , ,