miðvikudagur, júní 17, 2020

Ómarktækur sautjándi

Á fordæmalausum tímum telst dagurinn í dag ekki með sem sautjándi júní. Það er hvorteðer engin ástæða til að fagna lýðveldinu þessa dagana. Leiðtogi eins stjórnmálaflokksins sem myndar ríkisstjórnina þverneitar að leyfa fræðimanni, sem er gagnrýninn á m.a. það að stjórnarskráin sem við kusum um fyrir mörgum árum liggur ofan í skúffu, um að ritstjórastöðu hjá fræðitímariti sem kærir sig kollótt um pólítískar skoðanir. Í næstu viku verða forsetakosningar og annar frambjóðandinn skilur ekki takmörk forsetaembættisins, og hann og stuðningsmenn hans aðhyllast Trump. Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd hafnar því að rannsaka hæfi sjávarútvegsráðherra vegna Samherja, og ekkert er að frétta af lögreglurannsókn á mútumáli vina hans í Samherja — á sama tíma koma þeir eignum undan með því að láta afkomendur sína fá milljarða í fyrirframgreiddan arð svo fátt verði eftir til að gera upptækt ef svo ólíklega vildi til að dómskerfið færi þvert gegn flokkspólitískum reglum sem segja að aldrei skuli refsa Sjálfstæðismönnum fyrir neitt. Til hvers væri þá dómsmálaráherra alltaf úr Sjálfstæðisflokki ef ætti að láta þá lúta sömu reglum og aðra! Já og til hvers er það ráðherraembætti nema til að draga fólk í dilka og senda þá óæskilegu úr landi hið fyrsta. Þetta er nú lýðveldið sem við fögnum í dag, lýðræðið og viðhorf stjórnvalda til lýðsins.

Þetta er strax orðið lengra en það átti að verða. Ætlaði ekki að segja múkk nema til að ræða það sem blasti við á síðum Fréttablaðsins í dag. Fyrst: Grein eftir Arnar Sverrisson (á bls.13). Svo langt er um liðið síðan hann síðast birti eftir sig kvenhaturspistil að ég hélt að hann hefði kannski dáið í kófinu. Mig langar til að skoða þennan pistil nánar en ekki núna. Ja nema til að segja að hann er sama þvælan og alltaf, nú reynir hann að stilla metoo upp gegn vinnuvernd fyrir karla og segir að konur njóti meiri verndar gegn dónabröndunum í vinnunni en karlar hafa fengið gegn dauðaslysum. Þetta blasir auðvitað við.

Hitt sem var í blaðinu var heilsíðuauglýsing strax á næstu opnu. Þar gagnrýna Samtök áhugafólks um spilafíkn Rauða krossinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, SÁÁ og Happdrætti Háskóla Íslands — sem saman reka Íslandsspil — fyrir að treysta á „framlög“ veikra spilafíkla til að fjármagna starfsemi sína. Í auglýsingunni er ekki hikað við að draga stjórnarmenn þessara stofnana til ábyrgðar og eru þeir allir nafngreindir. Þetta er byltingarkennd aðferð til að fá þessar stofnanir til að breyta um stefnu, og það besta við þennan dag.




Efnisorð: , , , , ,