laugardagur, júní 19, 2021

Kvenréttindadagurinn 19. júní og metoo

 Enginn virðist efast um frásögn karlsins sem segir að hvalur hafi gleypt sig. En þótt ótal konur hafi gegnum tíðina sagt frá kynferðislegu áreiti eða nauðgunum sem þær hafa verið beittar af hálfu karla, og fjarstæðukennt að halda því fram að þær allar séu að spinna þetta upp — er efast um frásögn hverrar og einnar sem stígur fram. Allar hljóta þær að ljúga. Engin vitni sáu hvalinn gleypa manninn.

 

Metoo frásagnir kvenna í ýmsum starfsgreinum komust í hámæli árið 2017 um allan heim. Hér á landi fór önnur bylgja af stað fyrir skemmstu þegar hvíslað var í öllum hornum um fyrst einn og svo annan þjóðþekktan karl. Hvorugur var nafngreindur upphátt en báðir gáfu sig í ljós af fyrra bragði, annar með því að fara í mjög misráðið viðtal við sjálfan sig með fulltingi lögmann síns og lét sig svo hverfa af vettvangi þegar hann sá að það dugði ekki til hvítþvottar, hinn með yfirlýsingu sem benti ekki til þess að hann væri fær um að horfast í augu við allt það sem hann er sagður hafa gert. Í báðum tilvikum risu aðrir karlmenn þessum kynbræðrum sínum til varnar (og reyndar konur líka en í minna mæli og þá síður frægar konur). Og svo fór enn ein umræðan af stað um hvað konur væru andstyggilegar að beina spjótum sínum að svo góðum mönnum, og hvað það ætti að þýða að svipta menn lífsviðurværinu og ærunni. Reyndar er þetta ekki þannig orðað heldur er gargað að þetta séu aftökur án dóms og laga, karlarnir sem um ræðir séu drepnir, og álíka fáránlegt orðalag notað sem á að draga fram hve illa sé að þessum tilteknu karlmönnum vegið — og um leið öllum karlmönnum. 

 

Auk þess sem karlmenn hafa þannig varið sína menn í athugasemdakerfum, eins og þeir alltaf gera og veifa um leið frasanum „saklaus uns sekt er sönnuð“,  hafa nokkrir sest við skriftir og birt greinar beinlínis til höfuðs konum sem ásaka karla um kynferðisofbeldi eða jafnvel gegn feministum almennt, svona til að grafa undan málflutningi kvenna. Í miðri metoo bylgju. 


Einn þeirra er Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður sem segist hafa verið lögmaður tuga kvenna í kynferðisbrotamálum. Og skrifar greinina til að segja að þær séu upp til hópa ótrúverðugar. Gera má ráð fyrir að  brotaþolar æski ekki þjónustu hans hér eftir. Hann á hinsvegar örugglega eftir að fá bisness frá kynferðisbrotamönnum sem ráða hann sem verjanda, en af því segist hann líka hafa reynslu. Nema hann segir reyndar ekkert um það í greininni hvort þeir hafi verið að ljúga. Aukaatriði.


Og hvað annað voru menn að dunda sér við meðan á metoo umræðan stóð sem hæst? Jú, í maí, þegar Me too-bylgjan stóð sem hæst bárust 24 mál til neyðarmóttökunnar, mál sem flest voru innan við sólarhringsgömulÞað eru óvenjumörg mál í einum mánuði. . 

Það var semsagt ekki þannig að karlmenn, þótt þeir hafi hrokkið í vörn, að þeir hafi ekki lagt í stórsókn líka. Og létu sér ekki dálksentimetra fjölmiðlanna nægja. Nei, þeir gáfu í. Nauðguðu fleirum. Umræðan, allar sögurnar sem konur sögðu um hræðilega lífsreynslu — hún hafði hvetjandi áhrif ef eitthvað var. Það er eins og körlum hafi hlaupið kapp í kinn. Nauðgum meira!


Fyrir nokkrum vikum var sýndur þáttur um sænska rannsóknarlögreglumanninn Martin Beck á einni af norrænu sjónvapsstöðvunum. Þar var hann að rannsaka morðmál og fjöldann allan af nauðgunum sem tengdust morðinu. Í ljós kom að þrír gaurar höfðu það fyrir skemmtun að nauðga konum og sendu svo sín á milli skilaboð að verknaði loknum, til að hreykja sér og líka til að hinir vissu að nú ættu þeir að reyna að jafna leikinn. Ég væri ekki hissa á ef slík dæmi fyrirfyndust í raunveruleikanum. Það er eins og íslenskir karlmenn hafi farið í álíka ham meðan metoo sögur streymdu fram: keppst um að nauðga konum. Á meðan voru konur að vonast til að metoo hefði letjandi áhrif á karla, að „umræðan hefði fælingarmátt“, að þeir hugsuðu sig um, breyttu viðhorfi sínu.  


Þvílík bjartsýni!



Efnisorð: , , ,