mánudagur, október 30, 2006

Fimmtíu aðferðir til að koma í veg fyrir nauðganir

Nú eru miklar umræður um nauðganir. Sannarlega er illt er að vita að ráðist er á konur einar á gangi. En það er sama hve oft er bent á að flestar nauðganir verða í heimahúsum, alltaf hafa fjölmiðlar og löggan mestan áhuga á því þegar ráðist er á konur utandyra (og þá skyndilega fjalla fréttir um nauðgun en ekki ‘meinta nauðgun’). Ég hef reyndar ekki orðið vör við það hér, en það er viðtekin venja í Bandaríkjunum að senda velmeinandi tölvupósta til kvenna þar sem útskýrt er fyrir þeim hvernig þær eigi að komast hjá því að vera nauðgað. Þar efst á blaði er að vera aldrei einar á ferð í myrkri. Og svo að þær eigi ekki að drekka, klæða sig svona og hinsegin… Listinn er langur. Og þetta heyrum við svosem allar, fyrr eða síðar.

Einhverra hluta vegna eru ekki útlistaðar hegðunarreglur fyrir karlmenn til að koma í veg fyrir nauðganir. Samt er nú eins og mig minni að karlmenn eigi talsverðan þátt í nauðgunum. Það eru þeir sem framkvæma þær. Hér eru leiðbeiningar fyrir þá.

Fimmtíu aðferðir til að koma í veg fyrir að þú verðir nauðgari

1. Ekki halda að þú eigir rétt á að nauðga konu.

2. Ekki nauðga konu. Ekki nauðga karli.

3. Leitaðu þér upplýsinga um hvað nauðgun er.

4. Nauðgun er það að neyða einhvern til kynlífs með þér þegar viðkomandi vill það ekki.

5. Flestar nauðganir eru framkvæmdar af karlmönnum sem þekkja konurnar sem þeir nauðga. Ef konan sem þú neyðir til kynmaka er kærastan þín, nágranni þinn, frænka þín, systir þín eða eiginkona þín, þá er það samt NAUÐGUN.

6. Þegar einhver segir nei við þig, þýðir það að þú hefur ekki rétt til að þröngva þér upp á hana.

7. Þegar einhver ýtir þér burt eða gefur á annan hátt til kynna, með orðum eða hreyfingum að hún vilji ekki kynlíf með þér og þú þvingar hana til þess, þá er það nauðgun.

8. Ef þú sérð konu á bílastæði, ekki nauðga henni.

9. Ef þú sérð konu sem er ein á gangi að næturlagi, ekki nauðga henni.

10. Ef þú sérð konu í stuttu pilsi, ekki nauðga henni.

11. Ef þú sérð konu með sítt hár, ekki nauðga henni.

12. Ef þú sérð nakta konu ganga eftir dimmri götu klukkan fjögur að nóttu, ekki nauðga henni.

13. Ef þú sérð konu sem er ekki með piparúða sér til varnar, kann ekki karate, er óvopnuð og ekki einu sinni með regnhlíf til að halda þér í fjarlægð, þá skaltu þrátt fyrir það ekki nauðga henni.

14. Ef þú sérð konu með skilti á hausnum sem stendur skrifað á: „Ég vil kynlíf“, þá hefur þú samt ekki rétt á að þröngva henni til þess.

15. Ef þú ert í partýi og drukkin stelpa vill að þú kyssir sig og snertir sig en segir svo stopp, STOPPAÐU.

16. Ef þú ert í keleríi við stelpu og hún vill bara ganga ákveðið langt og segir svo stopp, STOPPAÐU. Ef þú stoppar ekki þá flokkast það undir nauðgun.

17. Nauðgun er glæpur, hvort sem þú ferð í fangelsi fyrir hana eða ekki, hvort sem hún var tilkynnt til lögreglu eða ekki, hvort sem þú varst sakfellur eða ekki, hvort sem einhver trúir konunni sem þú nauðgaðir eða ekki, og enda þó þú fengir verðlaunabikar fyrir allar nauðganirnar sem þú komst upp með að framkvæma, þá er nauðgun GLÆPUR. Nauðgun er glæpur gegn mannkyni og snýst meira um samvisku þína og lífsskoðanir og rétt kvenna til að lifa sem manneskjur á þessari jörð án þess að þurfa að óttast að níðst verði á líkömum þeirra en snýst minna um lög og reglur og fangelsisdóma. Ef þú ert nauðgari hefurðu níðst á rétti annarrar manneskju til að lifa. Hér er fréttatilkynning: Þú hefur ekki rétt á því. Og enginn sem þú þekkir, karl eða kona, hefur rétt á því heldur.

18. Nauðgun snýst um vald. Ekki um kynlíf. Gerðu eitthvað annað við kvenhatur þitt en að nauðga konu. Prófaðu til dæmis að lesa bók. Eða að drepa þig til að losa okkur hin við þig af plánetunni. Við höfum þá einum nauðgaranum færri til að hafa áhyggjur af.

20. Karlmenn eru það fólk sem getur stoppað nauðganir. Ekki konur. Því til staðfestingar ættirðu að kíkja á tölur um nauðganir. Nauðganir fara fram á hverri mínútu á hverjum degi í heiminum og eru sjaldnast tilkynntar þannig að tölurnar eru meira segja of lágar. Konur hafa reynt að forðast nauðganir öldum saman. ÞAÐ HEFUR EKKI VIRKAÐ.

21. Nauðgarar eyðileggja líf rétt eins og morðingjar en bara á annan hátt. Ef þú nauðgar manneskju ertu álíka ómanneskjulegur og morðingi.

22. Áður en þú ákveður að nauðga einhverri konu skaltu fara á neyðarmóttökuna og spyrja hjúkrunarfræðingana á vaktinni hve margar konur hafa komið þangað vegna nauðgana. Spurðu um hvaða aðferðir eru notaðar til að skoða konurnar og safna sönnunargögnum fyrir lögreglurannsókn, DNA sýnum og slíku. Notaðu svo nokkur ár ævi þinnar til að tala við konur sem hefur verið nauðgað og reyndu að átta þig á hve mikil áhrif það hefur haft áhrif á líf þeirra. Eftir það skaltu íhuga hvort þú viljir enn nauðga og þá um leið hvort þú sért yfirhöfuð mennskur. Ef þú ert ekki mennskur vertu þá svo vænn að kála þér áður en þú nauðgar einhverri manneskju.

23. Athugaðu að þú býrð í karlveldi og að það er eina ástæðan fyrir því að þér dettur yfirhöfuð í hug að þú hafir rétt til að nauðga konu. Athugaðu að þó svo sé HEFURÐU ALDREI RÉTT Á AÐ NAUÐGA.

24. Þú mátt vita að ef þú ert nauðgari þá eru nokkrar milljónir manna sem myndu vilja þig feigan, því við erum komnar með nóg af því að þú gangir laus. Vinsældir þínar munu minnka verulega ef einhver kemst að því að þú ert nauðgari, nema auðvitað að þú umgangist aðeins aðra nauðgara.

25. Hvort sem einhver kemst að því að þú hafir nauðgað eða ekki, ertu samt viðbjóðslegur aumingi, ógeðslegur, ómennskur og einskis virði ef þú nauðgar. Það skiptir engu þó hún segi aldrei neinum frá því, þú ert jafn sekur. Og þú situr uppi með þá staðreynd hvort sem þú hefur samvisku eða ekki.

26. Ef þú hefur ekki samvisku skaltu frekar drepa sjálfan þig en að nauðga konu.

27. Lestu vefsíður og blogg feminista í stað þess að skoða klám á netinu.

28. Haltu þig frá klámi. Flestir nauðgarar fíla klám. Það ætti að vera þér næg viðvörun.

29. Skerðu af þér hendurnar. Þú notar þær þá ekki til illra verka á meðan.

30. Skerðu af þér tittlinginn. Ég get líka gert það fyrir þig. Mér væri það sönn ánægja, ef þú ert að íhuga nauðgun.

31. Haltu þig frá konum.

32. Haltu þig frá litlum stelpum.

34. Haltu þig frá litlum strákum.

34. Haltu þig frá mannkyninu.

35. Þú ert ekki af æðra kyni, hefur aldrei verið það og verður aldrei. Konur eru jafningjar þínir og sumar konur eru klárari en þú. Svona er lífið. Sættu þig við það.

36. Sumum konum líkar ekki við þig. Við höfum rétt á því. Sjá ofangreint.

37. Stundum munu konur hafna þér. Með öðrum orðum, við viljum ekki alltaf stunda kynlíf með þér. Athugaðu að engri konu ber skylda til að stunda kynlíf með nokkrum manni, aldrei. Þú ert ekki undantekning.

38. Stundum finnst konum þú vera heimskur, þær gera grín að þér, koma illa fram við þig, reka þig úr vinnu, hlæja að þér eða neita að fara á stefnumót með þér. Konur geta gert þetta, rétt eins og karlar. Þetta þýðir ekki að þú eigir rétt á að nauðga.

39. Ef kona stundar kynlíf með þér einn daginn en neitar þér þann næsta, þá hefur hún rétt á því. Þú hefur ekki rétt á að nauðga henni.

40. Ef kona stundar kynlíf með þér en neitar að endurtaka leikinn klukkustund síðar, þá hefur hún rétt á því. Þú hefur ekki rétt á að nauðga henni.

41. Ef kona stundar mikið kynlíf og með mörgum karlmönnum og þér finnst hún vera algjör drusla, hefurðu samt ekki rétt á að nauðga henni. Konur eiga rétt á kynlífi með hverjum sem þær kjósa, hvenær og hvar sem þeim sýnist, svo framarlega það er með samþykki beggja. Rétt eins og karlar.

42. Engin kona hefur nokkurn tímann eða mun nokkurn tímann BIÐJA um að vera nauðgað. Engri konu LÍKAR VEL að láta nauðga sér. Engin kona BÝÐUR UPP Á að láta nauðga sér. Engin kona hefur nokkurn tímann ÁTT ÞAÐ SKILIÐ. Reyndu að muna það.

42. Þú átt ekki rétt á að nauðga eiginkonu þinni, dóttur þinni, barnabarni þínu, bestu vinkonu þinni, kærustu þinni, stelpunni sem þú hittir í búðinni, yfirmanni þínum, samstarfskonu þinni, nemanda þínum, kennaranum þínum, frænku þinni, nágrannakonu þinni, konunni sem þú þekkir ekki EÐA NEINNI ANNARRI. Aldrei. Púnktur.

44. Gefðu ekki út yfirlýsingar um hvernig konur geti forðast að vera nauðgað. Konum hefur aldrei tekist og mun aldrei takast að koma í veg fyrir að konum verði nauðgað, eins og við höfum þó reynt. Ástæðan er sú að það erum ekki við sem höfum tittling. Það er svo einfalt. Þú ert sá eini sem getur komið í veg fyrir að þú nauðgir mér eða einhverri annarri konu. Þú. Ekki ég. Engin kona. Þú. Þú verður að stoppa sjálfan þig af. Það er ÞITT mál. Taktu nú ábyrgð á því til tilbreytingar.

45. Stofnaðu ráðgjafar- og upplýsingamiðstöð sem hefur að markmiði að stoppa þig og aðra karlmenn í að verða nauðgarar. Aflaðu styrkja, það mun kosta heilmikla vinnu. Fáðu ráðgjafa til að vinna þar. Settu á fót vinnuhópa og einstaklingsráðgjöf. Reyndu að fá styrki til að halda starfseminni gangandi. Þetta hafa konur gert um allan heim í áratugi. Hér á landi er svona starfsemi kölluð Stígamót. Við ættum aldrei að hafa þurft á þeim að halda.

46. Þegar þú talar við karlkyns vini þína, mundu þá eftir að vara þá við því að nauðga ekki ef þeir eru að fara út seint að kvöldi eða eru að fara út með stelpu sem þeir þekkja lítið. Þetta gera konur sí og æ, þær minna vinkonur sínar á að fara varlega, vara dætur sínar við, áminna mæður sínar um aðgát, segja systrum sínum að passa sig, að læsa dyrunum, að opna ekki fyrir ókunnugum, að ganga með piparúða á sér. Við erum uppfullar af góðum ráðum til hverrar annarrar vegna ótta okkar við að vera nauðgað. Af hverju gefur þú ekki hverjum karlmanni sem þú þekkir ábendingar um hvernig á að koma í veg fyrir nauðganir?

47. Ef þú þekkir einhvern sem er nauðgari, gerðu þá eitthvað í því. Ekki láta eins og ekkert sé eða eins og þú vitir það ekki, eða að þú umberir það eða finnist það í lagi. GERÐU EITTHVAÐ, þú getur til dæmis sagt honum að hann sé ógeðslegasti fáviti sem þú hefur hitt, þú getur látið lögregluna vita, barið hann, eða sett skilti með nafninu hans á bílinn hans eða útihurðina og skrifað yfir það með stórum rauðum stöfum NAUÐGARI.

48. Ef þú ert nauðgari skaltu fara í sálfræðimeðferð í nokkur ár, helst það sem eftir er. Eða farðu í endurtekna innlögn á geðdeild, lengi í hvert sinn. Reyndu að horfast í augu við það sem þú gerðir og hvernig þú getir lifað með því. Þetta er það sem margar konur, sem hafa lent í nauðgurum eins og þér, þurfa að gera.

49. Leggðu umtalsverða fjármuni til Stígamóta. Þar sem þér hefur ekki tekist að koma í veg fyrir nauðganir þá þurfum við enn á Stígamótum að halda. Þú getur líka styrkt Kvennaathvarfið. Þú gætir líka greitt sálfræðikostnað fyrir einhverja konu sem þú þekkir og hefur verið nauðgað. Þú þekkir eflaust nokkrar.

50. SENDU ÞETTA TIL HVERS EINASTA KARLMANNS SEM ÞÚ ÞEKKIR, hversu ungur eða gamall sem hann er. Og næst þegar þú heyrir ráðleggingar til kvenna um hvernig þær eigi að forðast að vera nauðgað, þá skaltu ekki taka undir eða áframsenda tölvupóst um slíkt. Spáðu í hvað þú hefur heyrt þær oft en hinsvegar hefurðu kannski ekki fyrr heyrt karlmönnum ráðlagt hvernig eigi að stoppa nauðganir.

[Stolið og staðfært að hætti hússins]

Efnisorð: ,

miðvikudagur, október 25, 2006

Gláp

Ég man þegar ég heyrði í fyrsta sinn karlmann segja frá því að þegar hann mætir ókunnugu kvenfólki á götu þá veltir hann fyrir sér hvernig sé að sofa hjá þeim. Ég varð algerlega forviða. Mér hafði aldrei dottið í hug að einhver hugsaði svona. Og í fyrsta sinn áttaði ég mig á því hvað það er sem karlmenn hugsa þegar þeir glápa á konur. (Ég hafði haldið að þeir væru ‘bara’ að tékka á hver væri með stærstu brjóstin, eins og það sé nú ekki nógu slæmt.)

Næst þegar ég sá karlmann stara á rassinn á konu sem stóð rétt hjá þar sem hann sat, þá velti ég fyrir mér hvort hann væri að hugsa um kynlíf með henni. Og mér óaði við því hve oft hefði líklega verið horft á mig með þessum hætti.

Hvernig stendur á því að karlmenn leyfa sér að hugsa svona um konur sem hafa það eitt til saka unnið að ramba innfyrir sjónsvið þeirra? (Ekki að mér þætti skárra að vita að þeir hugsi svoleiðis um konur sem þeir þekkja.) Aldrei nokkurntíman hef ég skoðað karlmann með kynlífshæfileika hans í huga eða hvernig hann líti út nakinn. Aldrei. Ætli það sé enginn karlmaður sem ekki gerir það?

Og er það rétt, sem mér er líka sagt, að þeir frói sér yfir þessum hugsunum sínum? Ætli þeim myndi verða bylt við að vita að það er til fólk sem er ekki með kynlífsóra um bláókunnugt fólk?

Þar sem líkamar kvenna eru ekki vandamálið þá finnst mér ekki að konur þurfi að ganga í búrku til að forða okkur frá þessu ógeðfellda glápi. En ætli það dugi að biðja karlmenn kurteislega um að hætta þessu?

Efnisorð:

þriðjudagur, október 24, 2006

Til að nauðga og til að glápa á

Mogginn er meistari hinna tvöföldu skilaboða. Forsíða laugardagsblaðsins (21.okt) var gott dæmi. Á forsíðunni var frétt um hin ógeðslegu ummæli Pútíns undir fyrirsögninni „Vafasamur brandari um nauðganir.“ (Hann var semsagt að tala um nauðgarann sem gegnir embætti forseta Ísraels og sagði að hann hefði komið öllum á óvart með að vera karl í krapinu, hann hefði nauðgað tíu konum og að þeir öfundi hann allir.) Fyrirsögnin segir lesendum að svona eigi nú ekki að tala og Mogginn virðist vera hneykslaður.

En við hliðina á mynd af Pútín á forsíðunni er mynd af léttklæddum ungum konum í Bláa lóninu. (Meira síðar um áráttu Moggans fyrir léttklæddum konum.) Þær eru flestar í baðsloppum yfir bikinium en fletta frá sér til að ein þeirra geti tekið mynd, sú er á bikini einu fata. Textinn er makalaus, hér eru hápunktarnir:

Við vitum að vísu ekki hvaða tilefni varð til þess að þessar föngulegu vinkonur ákváðu að stilla sér upp svo að vinkona þeirra gæti tekið mynd af þeim, en hins vegar má öllum vera ljóst að þegar maður á annað borð stillir sér upp fyrir myndatöku þá er aldrei að vita nema að ljósmyndari Morgunblaðisins sé nálægur og nýti tækifærið.
… og í Bláa lóninu í gær hvarflaði ekki að nokkrum manni að kvarta.

Hér skín karlremban í gegn og þá ekki síður viðhorf ljósmyndara og blaðs til kvenna, þær skal nýta þegar færi gefst.

Er ekki svolítið merkilegt að myndskreyta nánast fréttina af Pútín með hálfnöktum konum? Og segja svo að þær geti sjálfum sér kennt?

Efnisorð: ,

föstudagur, október 20, 2006

Stelpur drepnar

Stundum gerist það að einhver nær að summa upp allt það sem ég hef verið að hugsa (og hugsa um að blogga) og þá er ekki annað hægt en láta eins og ég hafi skrifað það sjálf. Ég þýddi því eftirfarandi í snarhasti og sleppti úr ýmsu sem krefst þess að lesendur gjörþekki bandaríska fjölmiðlun og umfjöllunarefni þar vestra. (Ég stal þessu semsagt úr New York Times.)

...

Nýlega voru gerðar skotárásir á nemendur í tveimur skólum í Bandaríkjunum, annarsvegar í barnaskóla Amish fólks í Pennsylvaníu og hinsvegar í menntaskóla (Platte Canyon high scool) í Bailey Colorado. Í báðum tilvikum aðskildu morðingjarnir stelpur frá strákum og réðust svo eingöngu á stelpurnar.

Í Amish skólanum var skotið á tíu stelpur og fimm þeirra dóu. Í Colorado dó ein stelpa, fimm lifðu af, þær höfðu allar verið beittar kynferðisofbeldi.

Mikil fjölmiðlaumfjöllun var um þessi mál en lítið var um það fjallað að aðeins var ráðist á stelpur. Ímyndið ykkur að vopnaður maður hefði farið inn í skóla og skipt krökkunum eftir kynþætti eða trú, og skotið svo svörtu krakkana. Eða bara hvítu krakkana. Eða bara gyðingana.

Það hefði allt orðið vitlaust. Þjóðin hefði fyrst hrokkið í kút af hryllingi og sett svo í gang átak til að koma í veg fyrir að fordómar gætu birst með svo ógnvekjandi hætti. Og enginn hefði velkst í vafa um að árásin væri glæpur sprottinn af hatri.

Ekkert slíkt gerðist nú vegna þess að þetta voru bara stelpur, og við erum orðin svo vön að búa í samfélagi sem er gegnsósa af kvenhatri að ofbeldi gegn konum er viðtekin staðreynd. Frásagnir af nauðgunum, morðum og misþyrmingum á konum á öllum aldri eru uppistaða frétta og jafn kunnuglegar og veðurfregnir. Það sem þótti ógnvekjandi við árásina í Pennsylvaníu var að þessi hræðilegi atburður átti sér stað í skóla Amish fólksins, ekki að stelpur voru fórnarlömbin.

Meðferðin á konum, svo niðurlægjandi sem hún er og sýnir hve konur eru fyrirlitnar og lítilsvirtar er svo algeng að hún er nánast hætt að sjokkera okkur. Karlmenn á íþróttakappleikjum og öðrum stöðum þar sem fjöldi fólks er saman kominn hafa óhikað kyrjað í kór að nærstaddar konur eigi að bera á sér brjóstin fyrir þá. Auglýsingar sýna konur sem kynlífsviðföng og eiga þær þannig að lokka karlmenn til viðskipta. Auglýsingatextar eru tvíræðir og eiga að höfða til karla. Í auglýsingu fyrir rakakrem er andlit konu sýnt og kreminu hefur verið slett á það þannig að minnir á hápunkt klámmynda; þegar karlar sprauta sæði yfir andlit kvenna.

Við stöndum frammi fyrir vandamáli. Konur verða fyrir ótrúlega miklu ofbeldi á degi hverjum og það er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að frásagnir af því virka örvandi á stóran hluta fólks.

Á nokkurra mínútna fresti er ráðist á stelpu eða konu í Bandaríkjunum og hún beitt kynferðisofbeldi. Engin hefur tölu á fjölda þeirra kvenna sem verða fyrir heimilisofbeldi. Við erum öll viðriðin þetta blóðbað því þetta endalausa ofbeldi gegn konum á öllum aldri er nátengt þeim almenna vilja meðal þjóðarinnar að líta fyrst og fremst á konur sem kynlífsviðföng – viðtökutæki – en aldrei sem jafningja karla.

Klám hefur breiðst út eins og eldur í sinu meðal almennings. Þeir sem horfa á klám eru ekki lengur vandræðalegir menn í regnfrökkum sem laumast á fámennar sýningar bíóhúsa. Nú getur Hr. Ábyrgur Borgari komið heim til sín, sest við tölvuna og tengst samstundis við klámiðnað sem veltir 7 milljörðum bandaríkjadala á ári. Hann getur hindrunarlaust fengið sitt kikk út úr því að horfa á raunverulegar konur barðar og misnotaðar kynferðislega á síðum sem heita „Jómfrúnni nauðgað“ og „Harkalegt kynlíf“.

Og svo er það rappið og vídeóleikirnir þar sem markmiðið er að meiða konur, melludólgadýrkunin og svo má lengi telja. Það er mikill misskilningur að halda að þetta snúist allt um grín og gaman. Þetta er allt órjúfanlegur þáttur í kvenhatri sem birtist í öfgafullri mynd í litlu skólahúsi í rólegri sveit í Pennsylvaníu.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, október 17, 2006

Ólöglegir karlmenn í Evrópu

Þátturinn í Sjónvarpinu um ólöglega innflytjendur í Evrópu var fróðlegur. Margt kom þar fram sem ég vissi ekki, t.a.m. að yfirvöld gera í raun ekki þær ráðstafanir sem kjósendum er talin trú um að séu til að stemma stigu við fjölda ólöglegra innflytjenda, þeirra er ekki leitað eða þeir sendir úr landi því þeir eru einfaldlega of verðmætir fyrir hagkerfið.

Nú er ég ekki ein þeirra sem hef óbeit á innflytjendum og gildir þá einu með hvaða hætti þeir koma til Evrópu. Helst vildi ég að þeir væru allir boðnir velkomnir. Lágmark þykir mér að taka flóttamenn sem sækja um hæli alvarlega og gera þá allsekki afturreka (eins og tíðkast hefur hér í tíð Björns Bjarnasonar).

Þó þátturinn hafi verið upplýsandi á ýmsan hátt þá fannst mér áberandi það sem ekki var talað um. Því hvergi var minnst á örlög fjölmargra kvenna sem smyglað er til Evrópu og ýmist eru seldar beint í vændi eða lenda í því eftir einhverja dvöl. Þessi þáttur átti örugglega ekki að vera um mansal, en hefði ekki mátt rétt aðeins minnast á það? Og allar þær konur sem vinna ólöglega og beittar eru kynferðisofbeldi af vinnuveitendum eða leigusölum, sem vita að þær geta aldrei kært, var ekki tilefni til að ræða það? Hefur það eitthvað með það að gera að þátturinn er danskur og þar á bæ virðist sem mönnum þyki vændi og klám svo fínt og sjálfsagt að það megi nú ekki tala um það sem hluta af einhverju vandamáli? Eða kannski er áþján kvenna bara ekki áhugamál þáttagerðarmanna. Æ, greyin, þeir hafa í öðru að snúast.

Reyndar var lítið fjallað um hvernig ólöglegir innflytjendur eru pískaðir áfram og búa við hörmuleg kjör – jú, það var sýnt hvað þeir bjuggu þröngt gróðurhúsaverkamennirnir á Spáni og kannski mátti taka það sem alhæfingu um að svona væri þetta víðar, en það var ekkert talað um langan vinnudag, svik á launagreiðslum eða neitt slíkt. Skeljatínslufólkið í Bretlandi virkaði meira eins og „svona getur illa farið ef menn skilja ekki velviljaða heimamenn“ heldur en áminning um að fjölda fólks finnst réttlætanlegt að koma fram við erlent vinnuafl eins og líf þeirra og heilsa skipti ekki máli.

Hann var samt ágætur kallinn (prófessor?) sem talað var við og sagði að nær væri að byrja á atvinnurekendunum en ráðast á innflytjendurna. Franco Frattini, varaforseti Evrópusambandsins var afturámóti fáviti.

Efnisorð: ,

föstudagur, október 13, 2006

Fellur aldrei verk úr hendi – enda velættaður kvótabraskari úr Versló

Það fer alltaf í taugarnar á mér þegar ég les viðtöl við ‘athafnamenn’ eða aðra ríkisbubba sem samfélagið hefur velþóknun á. Þegar þeir rekja feril sinn á toppinn leggja þeir alltaf áherslu á að þeir séu vinnusamir og hafi unnið hörðum höndum og því hafi þeir náð svona langt.

Það er bara svo skrýtið að það eru fjöldamörg önnur sem líka vinna eins og skepnur og hafa þó ekki ofurlaun upp úr krafsinu. Eða vinna fiskverkakonur ekki langan vinnudag – og við talsvert verri aðstæður en milljarðamæringarnir? Og saumakonur í þrælabúðum í Asíu sem leggja dag og nótt við að búa til lúxusvarning handa okkur, ættu þær ekki þá líka að eiga hver sína einkaþotuna?

Til að komast langt í viðskiptum þarf a.m.k. eitt af þessu þrennu:

1) Hafa fæðst inn í rétta ætt.
Fjölmargir efnamenn hafa auðgast vegna fjölskyldutengsla eða jafnvel erft fyrirtæki sín. Og er ekki merkilegt að fyrirtæki, rétt eins og aðalstign og ættarnöfn ganga alltaf í karllegg? Gæti hugsanlega verið að einhver væri skilin útundan í því dæmi?

2) Komast í réttar aðstæður.
Í samanburði við flesta í heiminum erum við hér á Íslandi í réttum aðstæðum: við hljótum ókeypis grunnmenntun og eitt er látið yfir alla ganga. En auk þess er afar heppilegt að þekkja rétta fólkið, ganga í rétta skólann og félagasamtök (t.d. frímúrara) eða vera í réttum flokki (þetta þarfnast ekki útskýringar). Slík tengsl fljóta mönnum mjög langt og hefur ekkert með vinnusemi að gera. Menn fá heilu bankana á silfurfati séu þeir réttu megin í pólitík.

3) Ófyrirleitni.
Þetta held ég að einkenni flesta þá sem ‘komast áfram af eigin rammleik’. Þeir borga starfsmönnum sínum eins lág laun og þeir komast upp með, reka fjölda starfsmanna til hagræðingar og eru til í að svíkja, stela og pretta svo framarlega sem þeir græði sjálfir. Og það gera þeir. Það er nefnilega ábatasamt að koma fram við fólk eins og skepnur (það þarf ekki að vera Geiri í Goldfinger til þess – þó hann sé gott dæmi – sumir gera það með ísmeygilegri hætti og virka næs). Sumir verslunareigendur ráða bara óharðnaða unglinga til vinnu og/eða segja starfsmönnum upp sem eru u.þ.b. að skríða yfir einhver mörk á launatöxtum. (Heldur einhver að Hagkaup hafi svona mikið af fötluðum í vinnu af gæsku einni saman? Ætli það sé nú ekki frekar vegna þess að það er hægt að halda þeim niðri í launum.) Aðrir segja upp fólki rétt áður en það á að fara á eftirlaun eða í fæðingarorlof. Og hvað með þá sem braska með kvótann og hafa með einni undirskrift lagt heilu byggðirnar í eyði? Bara til að græða sjálfir, skítt með annað fólk.

Það versta er auðvitað að í kapitalísku þjóðfélagi er þetta bara álitið gott og gilt og ‘hver er sjálfum sér næstur’ hugsunarhátturinn blífur. Sumir líta í alvöru upp til svona manna. Og fjölmiðlar hampa þeim.

Það er semsé ekki bara leti og ómennska sem veldur því að hinar venjulegu vinnandi konur efnast ekki. Heldur hafa þær ekki tækifæri til þess (það sama má segja um stærsta hluta jarðarbúa), hvað þá heldur að þeim geðjist aðferðir þeirra sem hagnast á striti annarra og láta sér fátt um finnast. Venjulegu fólki finnst þetta bara klikk.


(Jújú, svo eru kannski einhverjir bara heppnir, rata á réttu aðferðina við eitthvað og græða feitt. En ég var ekki að tala um þá hvorteðer. Ég minntist heldur ekkert á frjálshyggjupostula - og var ég þó m.a. að tala um þá.)

Efnisorð: ,

sunnudagur, október 08, 2006

Staða konunnar

Konur eru sífellt minntar á stað sinn í samfélaginu. Á bensínstöðinni blasa klámblöðin við, líka í matvörubúðinni, illa dulin. Við eigum alltaf að muna að við erum bara klof og brjóst. Okkar eini tilgangur í lífinu er að láta ríða okkur. Skítt með að launin okkar borga bensínið og matvöruna. Skítt með að við erum persónur með skoðanir, langanir, tilfinningar. Við erum bara til að láta glápa á okkur og ríða okkur. Við megum aldrei gleyma því.

Um leið og kona varð borgarstjóri í Reykjavík spruttu upp nektardansstaðir með tilheyrandi vændi. Það var verið að minna okkur á hlutverk okkar. Við gátum verið pínulítið roggnar með að kona gegndi svo mikilvægu embætti en við áttum samt bræður, vini, eiginmenn og feður sem gláptu á kvenmannsklof ef þeir þá ekki keyptu aðgang að því, spölkorn frá Ráðhúsinu. Reglugerðir borgarinnar náðu ekki yfir starfsemina og það var ekki þrautalaust að reyna að snúa þróuninni við. Og allan tíman glöddust karlmenn, höfðu loksins konur eins og konur áttu að vera, ekki rífandi kjaft að tala um mál sem karlmenn einir hafa vit á.

Stundum er vitnað í Guðna Ágústsson og orð sem hann á að hafa látið falla um að staður konunnar sé bakvið eldavélina. Við vitum betur.

Staða konunnar er á bakinu. Útglennt.

Efnisorð: ,

sunnudagur, október 01, 2006

Í hverju felst gleðin?

Það þarf að útrýma orðinu „gleðikona.“

Efnisorð: ,