þriðjudagur, janúar 21, 2020

„Ef svo færi að deiliskipulaginu yrði breytt til að ekki yrði hægt að reisa gróðurhvelfingarnar við Stekkjarbakka væri borgin bótaskyld“

Það er ekki eins og neinn dagur janúarmánaðar hafi verið góður (slys, snjóflóð, skítafokkingsveður nánast alla daga) en forsíðufrétt Fréttablaðsins í gær var ekkert til að bæta þar úr. Nei ég á ekki við stærri fréttina um að fáir séu hlynntir fjárstuðningi við fjölmiðla (ég er hlynnt fjárstuðningi við fjölmiðla enda þótt það gagnist eflaust þeim fjölmiðlum mest sem mér líkar síst við) heldur litla fréttin neðst á forsíðunni um fund Hollvinasamtaka Elliðaárdals og fulltrúa Reykjavíkur. Þar kemur fram að
„Borgarráð samþykkti í síðustu viku erindi samtakanna um undirskriftasöfnun en ekki verður þó hægt að kjósa um deiliskipulagið sjálft heldur aðeins hvort eigi að endurskoða það. Borgarstjóri segir að verði deiliskipulaginu breytt kunni að myndast bótaábyrgð.“

Og þetta þótt að „það hafi legið fyrir af hálfu hollvinasamtaka Elliðaárdalsins að þau hygðust efna til undirskriftasöfnunar löngu áður en deiliskipulagið var samþykkt“. Og þrátt fyrir að samtökunum hafi verið sagt „í febrúar í fyrra að of snemmt væri að senda inn erindi um undirskriftasöfnun, en núna þegar allt er um garð gengið þá sé það of seint“.

Á bls. 4 í blaðinu er svo ítarlegri frétt og þar segir að „Ekki er hægt að fella deili­skipu­lag úr gildi með kosningum og yrðu þær því að­eins leið­beinandi.“ Þannig að ef undirskriftarsöfnunin leiddi til kosninga þá væri hvorteðer alveg hægt fyrir borgina að hunsa hana, sama hve mikill meirihluti væri á móti því að klessa þessu biodome ferlíki í Elliðaárdalinn. Algjörlega tilgangslaus undirskriftarsöfnun, algjörlega tilgangslaus kosning — því það er búið að taka ákvörðun í borgarkerfinu og henni verður ekki breytt.

Á hverju ári býðst borgarbúum að kjósa um leiktæki og umferðaröryggismál í hverfinu sínu — en sá leikur er til þess gerður að láta borgarbúa halda að Reykjavíkurborg hafi áhuga á hvað íbúarnir vilja og sé öll af vilja gerð til að koma til móts við óskir þeirra. En auðvitað er það ekki þannig.

Enginn fékk rönd við reist þegar risastór turn reis við neðst við Frakkastíg og skyggði á útsýni, engum tekst að koma í veg fyrir að byggt sé þar sem borgarapparatið hefur ákveðið að megi byggja, sama hve byggingin skyggir á útsýni annarra (sbr. byggingin neðst á Frakkastíg eða fyrirhugað 17 hæða hótel þar rétt hjá) eða þrengir að íbúum eða skemmir útivistarsvæði.

Borgin er heltekin af verktökum og lætur þá komast upp með allt sem þeir vilja. Hreyfi einhver mótbárum er brugðið fyrir sig „þá myndast bótaábyrgð“ — og borgin hefur meiri áhyggjur af skaðabótaskyldu við verktaka sem fá ekki að frekjast að vild heldur en hún hefur áhyggjur af borgarbúum sem reyna að móast við þegar þeir sjá framá að missa útsýni sitt eða græn útivistarsvæði.

Það furðulega er að í þessum málum fylgi ég Sjálfstæðisflokknum að málum. Hann berst gegn byggingarframkvæmdum í Elliðaárdal og gegn háhýsunum og ef mig misminnir ekki, líka gegn því að byggt sé á hverjum auðum bletti í nafni þéttingar byggðar. Það er auðvitað heldur óþægilegt fyrir mig sem hata fátt meira en Sjálfstæðisflokkinn. En svo rifjast upp fyrir mér herbragð Davíðs Oddssonar sem gerði öll mál tortryggileg og hjólaði í öll mál jafnvel þótt hann væri í hjarta sér samþykkur þeim.

Þannig er farið um Sjálfstæðisflokkinn nú, hann er auðvitað bara að berja á andstæðingum sínum í pólitík en væri hann við völd myndi hann vera steypuglaðari en andskotinn.

Efnisorð:

þriðjudagur, janúar 14, 2020

Frá Landspítala til Skrokköldu liggja gagnvegir

Eitt af því sem vekur fólk til meðvitundar um ástand mála í heilbrigðiskerfinu eru persónulegar reynslusögur. Tölur um fjölda sjúklinga á göngum eða framlag ríkisins til rekstrar Landspítalans nær ekki eins vel í gegn og frásögn sjúklings eða aðstandanda sem hafa séð og upplifað hvernig ástandið er á eigin skinni. Að því leytinu er mikilvægt að Hafrún Kristjánsdóttir hafi sagt (á sinni eigin facebook-síðu sem var endursögð á DV) frá reynslu sinni af að aðstoða náinn ættingja sem hefur ítrekað þurft að fara á bráðamóttökuna og verið lagður inn á ýmsar deildir, og hefur Hafrún því þurft að eyða miklum tíma á bráðamóttökunni. Það sem stingur samt í augu er gagnrýni Hafrúnar á heilbrigðiskerfið og ákall hennar um að það þurfi að gera eitthvað í þessu strax.

Fyrir þau sem ekki muna, þá er Hafrún systir Sigurðar Kára Kristjánssonar sem stóð staffírugur í pontu Alþingis í miðri búsáhaldabyltingu og mælti fyrir frumvarpi um brennivín í búðir. Hafrún, rétt eins og bróðirinn, varð snemma handgengin frjálshyggju og náði að verða stjórnarmaður í Heimdalli. Hún er semsagt ein þeirra sem hafa viljað báknið burt, allt sé einkavætt og heilbrigðisþjónustan þar með. Það er einmitt vegna þeirrar stefnu sem frjálshyggjumenn á þingi, og þar af allir fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hafa stigið fast á bremsuna áratugum saman þegar fjárlög eru samin, og svelt heilbrigðiskerfið. Undirskriftarsöfnun Kára Stefánssonar um árið létu þeir sem og aðrir frjálshyggjumenn sem vind um eyru þjóta. Ástandið á Landspítalanum, manneklan ekki síst, er alfarið afurð frjálshyggjumanna. Og það er óþolandi að sjá Hafrúnu kvarta undan ástandi sem hún og hennar líkar hafa markvisst unnið að.

En kannski er rangt að skamma Hafrúnu, það getur auðvitað vel verið að hún hafi fyrir löngu snúið baki við fyrri stjórnmálaskoðunum. Annað eins hefur nú gerst. Augljós dæmi um það eru ráðherrar Vinstri grænna.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skammast úti í lækna sem hafa undanfarið, eins og Hafrún, óspart lýst yfir hörmungarástandinu á bráðamóttökunni og segja að þar ríki neyðarástand. Svandísi virðist finnast mikilvægara að láta sem ekkert sé að, enda þótt allir viti betur, og segir fullum fetum að það sé erfitt að standa með Landspítalanum ef læknarnir séu að kvarta. Eins og það sé valkostur í huga heilbrigðisráðherra hvort hún „stendur með“ Landspítalanum. Einhvernveginn rímar þessi hugsun Svandísar, að ekki megi gagnrýna fjársvelti og slæman aðbúnað ríkisstofnana, ekki við þá félagshyggju sem hún einu sinni studdi. En eftir að hún tók þátt í að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum — sem henni þótti djörf en ótrúlega spennandi ákvörðun — hefur greinilega fleira umhverfst í huga hennar.

Víkur þá sögunni að umhverfisráðherranum sem er eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem ekki var kjörinn á þing heldur handvalinn af forsætisráðherra. Hann var einusinni framkvæmdastjóri Landverndar og fór þá auðvitað mikinn um mikilvægi þess að vernda landið fyrir virkjunaráformum t.a.m. við Skrokköldu. Nú er hann sestur þægilega í ráðherrastólinn og finnst alltíeinu að það fari vel á því að A) stofna miðhálendisþjóðgarðinn sem lengi hefur verið barist fyrir, og B) í þjóðgarðinum megi virkja alveg hægri vinstri.

Enda er hægri búið að gleypa vinstri. Og allsendis óvíst hver vaknar með hvaða stjórnmálaskoðun á morgun. Allt er ómark.

Áfram verður þó ófremdarástand á Landspítalanum.

Efnisorð: , , , ,