fimmtudagur, júlí 30, 2015

Þjóðhátíð 2015: ekkert að frétta

Árum saman hefur verið rætt og rifist um Þjóðhátíð í Eyjum og þær fjölmörgu nauðganir sem hafa verið framdar þar.* Til þess að ráða bót á því hefur Þjóðhátíð ráðið almannatengill sem hefur mottóið: engar fréttir eru góðar fréttir!

Það er samt einsog þetta sé ekki alveg að falla í kramið, eitthvað tuðað um þöggun og svoleiðis. Þessvegna hafa Aktivismi gegn nauðgunarmenningu og Knúzið mótmælt, og sömuleiðis Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna.

Fjöldi annarra hefur lagt orð í belg, í athugasemdakerfum, viðtölum og með pistlaskrifum. Þar á meðal er Agnar Kr. Þorsteinsson sem rekur söguna og ræðir ástand og horfur í beittum pistli.

Svo er líka hægt að segja þetta í mun færri orðum.




* Dæmi um fyrri skrif á þessari síðu frá árunum 2011 og 2012:
1, 2, 3, 4.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, júlí 29, 2015

Utanríkisráðherra verður að vera skýr í máli

Eftir óvænt útspil Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra á dögunum þar sem hann sagðist hlynntur endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga, hefur hann nú snúist öndverður við öllum vangaveltum um að hætta hvalveiðum. (Og einsgott að ég var ekki farin að hrósa honum fyrir það eins og ég fyrirhugaði.) Það var nefnilega ekki erfitt að ímynda sér að hann orðaði hlutina varlega („endurskoðun … koma til móts við alþjóða hvalveiðiráðið) í stað þess að tilkynna skyndilega: ég leggst alfarið gegn öllum hvalveiðum því þær skaða samstarf Íslands við aðrar þjóðir. En kannski var það bara óskhyggja, eða utanríkisráðherra bara svona misskilinn, eins og forsætirsráðherra er gjarnan þegar hann úttalar sig af visku sinni.

En svo er spurning hvort Gunnar Bragi var tekinn á teppið einhverstaðar, af forsætisráðherra, hagsmunaðilum (Kristján Loftsson í Hval eða Gunnar Bergmann Jónsson sem gerir út á hrefnuveiðar eða pabbi hans Jón Gunnarsson þingmaður) eða jafnvel af kaupfélagsstjórum á Skagfirska efnahagssvæðinu sem gera út Gunnar Braga sjálfan. Því snúningurinn er algjör.

„Ég kveð ekkert upp úr um það hvort að við eigum að gera það [draga úr hvalveiðum] eða ekki. Ég reyndar ítreka í viðtalinu að við megum aldrei gefa eftir rétt okkar til að veiða hvali. Ég vil líka taka það fram að hrefnan er undanskilin við þetta. Ég held að við eigum að veiða hrefnuna sem aldrei fyrr,“ segir Gunnar.“

Einhverstaðar í Bandaríkjunum er tannlæknir sem er ánægður með svo karlmannlega afstöðu: drepa meira!

Það er annars af Skagfirska efnahagssvæðinu að frétta að „Ferðamálastofa hefur útnefnt Skagafjörð gæðaáfangastað Íslands vegna verkefnisins Matarkistan Skagafjörður. Skagafjörður kemst þannig í hóp annarra gæðaáfangastaða í Evrópu sem hafa hlotið EDEN-tilnefningu, en það stendur fyrir European Destination of Excellence“ (úr frétt á rúv.is).

Á vef Ferðamálastofu kemur fram að EDEN-verkefnið nýtur fjárhagstuðnings COSME-verkefnis (2014-2020) Evrópusambandsins. Sé heimasíða EDEN-verkefnisins lesin kemur í ljós að eingöngu komi til greina staðir í löndum innan Evrópusambandsins eða löndum í umsóknarferli að ESB.

Nú hlýtur Gunnar Bragi að verða snar í snúningum áður en þetta verður mistúlkað, og benda á að Ísland sé hreint ekki umsóknarríki, og þar af leiðandi sé Skagafjörður enginn gæðaáfangastaður!

Efnisorð: , ,

mánudagur, júlí 27, 2015

Fjölmiðlaveldi Framsóknar

Björn Ingi Hrafnsson sem nýlega keypti DV (og sem frægt er orðið ku fyrrverandi sambýliskona hans hafa haft upplýsingar um fjármögnun kaupanna sem ekki þoldu dagsljósið) hefur nú einnig keypt útgáfufyrirtækið Fótspor, sem gefur út Akureyri vikublað og Reykjavík vikublað, auk bæjarblaða í Hafnarfirði, Kópavogi og á Selfossi, einnig landshlutablöð fyrir Vesturland, Vestfirði, Austfirði og Reykjanes.

Í grein sem mun hafa birst augnabliki áður en kaup Björns Inga á Fótspori voru tilkynnt, rekur Jóhann Páll Jóhannsson á Stundinni leið Björns Inga til áhrifa í grein sem heitir „Fjölmiðlaveldi fæðist“. Vegna þess að Stundin er áskriftarblað er greinin ekki aðgengileg nema fyrir áskrifendur. Lára Hanna Einarsdóttir hefur einmitt hvatt fólk til að gerast áskrifendur að Stundinni og Kjarnanum og í sama streng tekur Kristín Vala Ragnarsdóttir (en pistill hennar er öðrum þræði um nýja stjórnarskrá, auðlindir þjóðarinnar og hvort þörf sé á nýjum Kvennalista, allt fínar pælingar). Þegar búið er að binga Akureyrarvikublaðið og Reykjavíkurvikublaðið, eru Kjarninn og Stundin einu gagnrýnu fjölmiðlarnir sem eftir eru (auk RÚV), og þá fjölmiðla þarf því að efla.

Lára Hanna er einn beittasti rýnir landsins og hún sér stöðuna svona:
„Fjölmiðlar eru keyptir eða yfirteknir til að ná stjórn á umræðunni í samfélaginu, móta ímyndir og hugmyndir og blekkja almenning - af þeim sem hagsmuna hafa að gæta. Nægir að nefna kvótagreifana sem reka Morgunblaðið með miklu tapi þar sem enn helsti leikmaður hrunsins situr og endurskrifar söguna sér í vil og framsóknarmanninn Björn Inga Hrafnsson sem augljóst er að hefur á bak við sig hinn gríðarlega auð sem valdir framsóknarmenn hafa sankað að sér á kostnað samfélagsins um áratugaskeið.

Nú er ekki lengur um auðugan garð að gresja í gagnrýninni fjölmiðlun, jafnvel þótt á hinum keyptu/yfirteknu miðlum starfi enn nokkrir góðir blaða- og fréttamenn. Í raun ríkir nú neyðarástand í fjölmiðlamálum.
Eftir eru RÚV, Kjarninn og Stundin. RÚV má sitja undir ofsóknum, árásum, hótunum og uppsögnum sem hefur gríðarleg áhrif á vinnubrögð þar innanhúss á ýmsum sviðum. Samt verðum við að geta treyst þessum eina almannafjölmiðli.“

Lára Hanna segir einnig
„fátt sé um fína drætti í fjölmiðlaflórunni og vafasamir menn með enn vafasamara auðmagn á bak við sig að leggja undir sig æ fleiri miðla. Eftir eru einkum tveir frjálsir og óháðir: Kjarninn og Stundin. Þá þurfum við að styrkja af öllum mætti og til þess þarf peninga.“
Og hún hvetur fólk (og ég hér með) til að gerast áskrifendur til að styðja og styrkja frjálsa og gagnrýna fjölmiðlun á Íslandi.

Sem minnir mig á það. Ansi er eitthvað þögult á Pressunni um kaup Binga á gagnrýnu bæjarblöðunum. Bara ekki múkk um málið. Ekki hefur Eyjupenninn Egill Helgason heldur neitt um þetta að segja, skrifar þó pistil í dag sem hefst á orðunum: „Eitt vinsælasta gúrkumálið þetta sumarið er nýbygging Landsbankans.“ Er það ekki svolítið sérstakt, í ljósi þess að fjöldi blaðamanna var að missa vinnuna við mjög undarlegar aðstæður? Eða eru fjölmiðlakaup Björns Inga bara gúrkumál í huga Egils?

Það er reyndar ekki langt síðan Egill skrifaði pistil um „Framsókn og fjölmiðlana“, sem vekur hreinlega upp grunsemdir um að hann hafi vitað um fyrirhuguð fjölmiðlakaup Binga, og jafnvel viljað vara hann við:
„En það væri semsagt ekki í fyrsta skipti að Framsókn fer á stúfana til að bæta hlut sinn í fjölmiðlum. Hingað til hefur það tekist misjafnlega. Það er heldur ekki auðvelt að halda úti fjölmiðli sem er hollur ríkjandi stjórnvöldum en á um leið að falla almenningi í geð.“
Þetta er reyndar ekki bara spurning um að fjölmiðillinn sé hliðhollur stjórnvöldum, heldur eru keyptir fjölmiðlar sem hafa verið gagnrýnir á stjórnvöld beinlínis til þess að loftárásum þeirra linni. Og það er full ástæða til að ræða það.

Efnisorð: ,

föstudagur, júlí 24, 2015

Uppbyggingarandinn

Stemningin á miðju kjörtímabili ríkisstjórnarinnar er farin að líkjast allsvakalega andrúmsloftinu í þjóðfélaginu á „uppgangstímanum“ fyrir hrun. Ég heyri það reyndar ekki á almenningi, en stórhuga menn með græðgisglampa í augum eru að verða æ fyrirferðarmeira fréttaefni.

Fyrstu verk ríkisstjórnarinnar voru að lækka veiðigjöld og afnema auðlegðarskatt. Það kom sér vel fyrir auðmenn. Þeir finna líka síður fyrir hækkun á matarskatti hækkuðum komugjöldum á heilsugæslu, það bitnar mest á þeim verst settu (ekki verður það til hagsbóta verði heilsugæslan einkavædd eins og heilbrigðisráðherra hefur boðað og varaþingmaður segir að muni leiða til þess að allir verði betur settir, svo trúlegt sem það er) . Til að bæta gráu ofan á svart stytti ríkisstjórnin atvinnuleysistryggingatímabilið og lokar dyrum framhaldsskólanna fyrir efnaminni nemendum eldri en 25 ára. Það blasir því við að þetta er ríkisstjórn þeirra auðugu fyrir þá auðugu.

Þetta er líka, eins og sjá má af upptalningunni á verkum ríkisstjórnarinnar, frjálshyggjuríkisstjórn. Allt er vara á markaði: sjúklingar, nemendur, náttúran, útsýnið. Og þeir sem aðhyllast annaðhvort ríkisstjórnina, markaðshyggjuna eða bæði, eru nú í óðaönn að finna upp leiðir til að græða eða framkvæma það sem ekki þótti siðferðilega réttlætanlegt fyrstu árin meðan þjóðin var að jafna sig eftir síðustu veisluhöld frjálshyggjunnar.

Þetta lýsir sér með ýmsum hætti.

Erlendum sem innlendum fyrirtækjum standa að gömlum sið allar gáttir opnar til að gjörnýta náttúruna, menga umhverfið, borga lága rafmagnsreikninga og flytja svo arðinn úr landi.

Heilar fjórar kísilverksmiðjur eru fyrirhugaðar. Tvær í Helguvík (eigendur annarrar eru nátengdar Sjálfstæðisflokknum), ein á Bakka við Húsavík á brún misgengissprungu) og í Hvalfirðinum á að bæta sólarkísilverksmiðju við aðra iðnaðarstarfsemi á Grundartanga. Það mun ekki bæta ásýnd fjarðarins, sem fyrrum var fagur en hefur smám saman verið að breytast í ömurlegt reykspúandi verksmiðjubæli.

Ofan á þetta bætast hugmyndir um álver á Skagaströnd. Sigmundur Davíð var í miðju ljósmyndar sem tekin var þegar skrifað var undir viljayfirlýsingu um fjármögnun byggingar álvers við Hafursstaði á Skagaströnd. Álverið þarf rafmagn og alls er óvíst um hvaðan það ætti að koma. Líklega er stólað á að vippað verði upp nokkrum rafmagnslínum yfir hálendið, enda alltaf hægt að hlamma niður fleiri virkjunum í Þjórsá fyrir gott málefni.

Hæstvirtur forsætisráðherrann segir það eiga eftir að koma í ljós hvort álver verði að veruleika í Skagabyggð:
„Það eru eins og ég nefndi mjög mörg stór fjárfestingaverkefni í farvatninu á Íslandi þessa dagana, auðvitað verða þau ekki öll að veruleika en eru til marks um uppbyggingaranda sem mun vonandi skila sér í bættum lífskjörum um allt land.“
Þessi uppbyggingarandi hefur þó ekki lýst sér í formlegri umsókn til iðnaðarráðherra, og hagkvæmni reksturs þess er dregin í efa vegna þess hver lítið það á að vera.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis finnst skorta svör við því hvort álverið eigi að vera eins lítið og sagt er eða hvort það eigi að stækka í áföngum.
„Mér finnst nú ekki gott að það sé verið að byggja upp miklar væntingar hjá fólki sem hefur búið við fólksflutninga á svæðinu og erfitt ástand víða og ég held að það þurfi að skoða þetta miklu betur.“
En Sigmundi Davíð lætur sem hann hafi eiginlega ekkert verið að ýta undir þessa loftkenndu hugmynd um álversframvæmd heldur hefði bara dottið inná þessa mynd einsog hvert annað lukkutröll, til að styðja við stemninguna. Honum virðist finnast lítill munur á litlu sprotafyrirtæki sem rétt er að gefa gaum og því að lofa heilu sveitarfélagi og nærsveitum nægri vinnu og skatttekjum. Keflvíkingar ættu að kannast við slíkt, álverið í Helguvík er ekki risið og mun líklega aldrei rísa.

Ekki að ég gráti það.

En það eru fleiri sem vilja byggja. Byggja stórt og mikið, í andstöðu við umhverfið og nágrannanna, jafnvel hálfa þjóðina. Gerbreyta á ásýnd Lækjargötu til að byggja enn eitt hótelið og ekkert tillit er tekið til húsanna beggja megin við fyrirhugaðan steypukassa. Frjálshyggjumenn sjá auðvitað ekkert athugavert við það.

Einnig fagna frjálshyggjumenn í Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg áformum Landsbankans að byggja sér höll við hinn enda Lækjargötunnar, eins og hann hafði ætlað sér fyrir hrun (undir styrkri stjórn Björgólfs Guðmundssonar), en í staðinn fyrir orðlausa lotningu lýðsins berst núverandi bankastjóri gegn almenningsálitinu — sem hann greinilega hefur haldið að hefði snúist bönkum í hag — og heldur því fram að það sé hagkvæmt að byggja á einni dýrustu lóð höfuðborgarsvæðisins.

Þá eru ótalin byggingaráform á Barónsreit sem fjallað er ítarlega um í nýjasta tölublaði Reykjavíkur vikublaðs. Þegar Ingimar Karl Helgason ritstjóri talar um „borgina við blokkirnar“ á hann m.a. við háhýsabyggðina við Skúlagötu þar sem verktakalýðræðið er algert. Þar á að byggja 16 hæða turn, þvert á gildandi aðalskipulag Reykjavíkur sem er afdráttarlaust um hæð bygginga, einkum á þessu svæði miðbæjarins. Þar er gert ráð fyrir að byggingar á þessum stað í miðbænum fari ekki yfir fimm hæðir. Enda þótt Reykjavík vikublað fjalli aðallega um þessi byggingaráform út frá máttleysi skipulagsráðs borgarinnar gagnvart verktakanum og hugsanlegri skaðabótakröfu hans fái hann ekki sínu framgengt (og Hjörleifur Stefánsson arkitekt hafi skrifað grein þar sem hann segir málflutning formanns skipulagsráðs borgarinnar „ekki vera samboðinn stjórnmálaafli sem segist bera hag almennings fyrir brjósti“) þá er vert að vekja athygli á verktakanum sjálfum, þessum sem Reykjavíkurborg þorir ekki að stoppa í áformum hans að byggja 16 hæða blokk því hann geti farið í skaðabótamál. Hann byggði „kreppuhöllina“ að Urðarhvarfi 8 sem enn stendur auð; 16 þúsund fermetra ókláruð skrifstofubygging með 9 þúsund fermetra bílakjallara. Og enn er hann innblásinn af uppbyggingaranda og hefur álíka stórhuga áform og fyrir hrun. Enda stemning fyrir því og enginn reynir að stoppa hann.

Reyndar er verið að byggja svo mikið og byggingaráformin enn meiri, sbr. stóriðjuhugmyndir, að farið er að tala um bólu og þenslu. Svona eins og var í aðdraganda bankahrunsins. Nema nú er það framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sem varar við (en Samtök iðnaðarins segja það af og frá að hér stefni í „ofþenslu“). Reyndar vill framkvæmdastjóri SA vinna gegn þenslunni með því að „opinberum framkvæmdum sé haldið í lágmarki.“ Sem þýðir, samkvæmt varaformanni VG:
„Framkvæmdastjóri SA vill að framkvæmdum í heilbrigðiskerfinu verði haldið í lágmarki, hægt verði á framkvæmdum í vegagerð, viðhaldi á eigum ríkisins verði haldið í lágmarki, framkvæmdum í velferðarkerfinu verði slegið á frest og framkvæmdum á sviði menntamála verði haldið í lágmarki, svo dæmi séu tekin. Hann vill sem sagt að ríkið, almenningur, axli ábyrgð á yfirvofandi kollsteypu en einkageirinn fái að leika lausum hala með allar sínar framkvæmdir þar til yfir lýkur!“

Forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskólans sér þenslumerki fyrst og fremst í ákveðnum geirum, eins og byggingariðnaði, bílasölu og ferðamennsku. Hann er lítt hrifinn af skattalækkunaráformum fjármálaráðherra, og segir „frekar ætti að reyna að fresta framkvæmdum til að sporna við þenslu“ (svipað og framkvæmdastjóri SA sagði). Þrátt fyrir þessi varnaðarorð forstöðumanns Hagfræðistofnunar segist fjármálaráðherra ætla að lækka skatta (sem þýðir minna fé sem rennur til samneyslunnar, minna umleikis til að borga skuldir en að fólk hefur meira á handa milli til einkaneyslu; meiri neysla, meiri gróði, meiri þensla). Og samt gleðst forsætisráðherrann yfir fyrirhuguðu álveri og talar um „uppbyggingaranda“.

Ríkisstjórnin lagði línuna strax í upphafi valdatíma síns. Það eina sem margir kjósendur kusu Framsóknarflokkinn útá, leiðrétting skulda sem átti að vera himnasending fyrir öll heimili í landinu, reyndist svo (sem kom ekki alveg á óvart) renna í flestum tilfellum í vasa þeirra tekjuhæstu, sem munaði líklega minnst um aurana. Auðmenn fengu mest, að vanda. Það er ekki óvart að ráðherrar tali um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfis, ekki frekar en þegar menntamálaráðherra lokar á framhaldskólanám fyrir fullorðna, því frjálshyggjulausnin er auðvitað einkareknir skólar á borð við Hraðbraut og einkarekin heilsugæsla. Gróði fyrir rekstraraðila.

Þegar verktakar sem hafa byggt glórulaust fyrir hrun stíga fram og réttlæta fleiri steypuhallir í gömlum borgarhluta þá er það vegna þess að þeir finna að mátturinn er með þeim.

Efnisorð: , , , , , , , ,

þriðjudagur, júlí 21, 2015

Tækifæri í Thatcherískum anda

Alþingisvaktin var nafnlaus vefsíða þar sem birtust veturinn 2012-2013 beitt og skemmtileg skrif um pólitík. Hefði mátt lifa lengur.

Hér er dæmi um hvernig Sjálfstæðisflokknum er (rétt) lýst á síðu Alþingisvaktarinnar:
„Þótt efnahagsstefna sjálfstæðismanna hafi nú þegar framkallað eitt stærsta bankahrun veraldarsögunnar virðast þeir hvergi hafa hvikað frá stefnu sinni. Ef eitthvað er hafa þeir forherst í hatri sínu á samneyslu og styrkst í ofurtrú sinni á blind markaðsöfl.“

En í sama pistli sló Alþingisvaktin sjaldgæft feilpúst:
„Alþingisvaktin efast um að áætlunum í anda Thatcher verði hrint í framkvæmd á Íslandi í bráð, enda er ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni sitja í næstu ríkisstjórn.“

Því miður rættist það nú samt.

Ég skrifaði í síðasta mánuði um kjaradeilu kvennastétta hjá ríkisspítölunum og sagði að það væri frjálshyggjudraumur að flæma heilbrigðisstarfsfólk þaðan svo það gæti annað stöður hjá einkareknu fyrirtæki á sviði lækninga og heimahjúkrunar í Ármúla (eða sjúkrahótel eða hvað það nú er). Sigríður A. Andersen, nýjasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins (kom inn eftir fráfall Péturs Blöndal)* skrifaði svo pistil fyrr í vikunni sem snerist einmitt um þetta gullna tækifæri hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna heilbrigðiskerfisins, kát mjög enda stæk frjálshyggjumanneskja.

Ekki kom þessi afstaða stjórnarflokksþingmannsins neitt á óvart heldur sannaði það sem vitað var fyrir: Þessi ríkisstjórn ætlar sér að ganga milli bols og höfuðs á heilbrigðiskerfinu.


__
* Leiðrétting: Ranglega var fullyrt að Sigríður hafi verið borgarfulltrúi.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, júlí 19, 2015

Írland enn með annan fótinn hlekkjaðan við kaþólsku kirkjuna

Á Írlandi eru verulega forneskjuleg lög sem banna allar fóstureyðingar. Komið hefur í ljós að Írar vita ekki upp til hópa að kona sem fer í fóstureyðingu telst hafa framið glæp og læknir sem framkvæmir aðgerðina einnig. Þrátt fyrir að kaþólska kirkjan hafi hingað til haft áhrif á löggjöf um fóstureyðingar einsog allt annað þegar kemur að ást, kynlífi, hjónabandi og fjölgun þjóðarinnar, virðast allmargir Írar þó á því að losa sig undan þessum áhrifavaldi, eins og sannaðist um daginn þegar þeir kusu samkynja hjónaböndum í vil í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú vill meirihluti Íra „að írsk stjórnvöld endurbæti fóstureyðingarlöggjöf í landinu, sem er ein sú harðasta í heimi“. Það þarf varla að orðlengja það að hin löndin sem hafa svo harðneskjulega stefnu eru langflest kaþólsk.

Það má búast við heiftúðugri mótspyrnu,* ekki síður en þegar rætt var um hjónabönd samkynja para, en það hlýtur að koma að því að Írar stígi annað skref inn í nútímann. Vonandi verður það fyrr en seinna, þessi kvenfjandsamlegu lög eru algerlega óþolandi.


___
* Hér eru nokkur dæmi um rök gegn fóstureyðingum sem eflaust verður beitt í því skyni að koma í veg fyrir að löggjöf um fóstureyðingar verði breytt.

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum (ásamt svörum):
- Að verið sé að drepa manneskju
- Að konur eigi að stunda ábyrgt kynlíf og ef þær gera það ekki eigi þær að taka afleiðingunum
- Að konur eigi ekki að stunda kynlíf nema þær vilji eignast börn
- Að konur verði að eignast fleiri börn vegna fólksfækkunar í heimalandi sínu/Evrópu
- Að konur noti fóstureyðingar sem getnaðarvörn
- Að konur fari oft í fóstureyðingu

Fjölmargir aðrir pistlar um fóstureyðingar hafa verið birtir á þessari bloggsíðu, hér eru tenglar á tíu þeirra.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, júlí 17, 2015

Bjór við þjóðveginn

Skoðanakannanir hafa sýnt að um 70% landsmanna er á móti einkasölu áfengis – af ýmsum ástæðum – en þrátt fyrir það hyggst Vilhjálmur Árnason fyrir hönd síns flokks enn einu sinni reyna að koma því gegnum þingið í haust (enda Sjálfstæðismenn ekki uppteknir af almannavilja í þessu máli frekar en þegar Sigurður Kári Kristjánsson mælti fyrir áfengisfrumvarpinu í miðri búsáhaldabyltingu).

En þangað til á greinilega að gera tilraun. Furðulega tilraun sem gengur eiginlega gegn öllu því sem lofað er í frumvarpinu. Það á sumsé að leyfa sölu á bjór í þremur bensínsjoppum meðfram leiðinni til Landeyjarhafnar um Verslunarmannahelgina, svo að Þjóðhátíðargestir komi örugglega ekki edrú til Eyja. Eflaust fylgja vínveitingaleyfinu þau skilyrði, eins og í frumvarpinu um sölu áfengis í matvörubúðum, að starfsmenn sem afgreiða það mega ekki vera yngri en átján og kaupendur orðnir tvítugir. Það hlýtur að vera auðvelt að framfylgja þessu þegar mikið er að gera um mestu ferðahelgi ársins.

Það er áhugavert að það virðist sem Olís skuli geta fengið vínveitingaleyfi si svona, hefði ég þó ekki haldið að það væri augljósasti staður til að selja áfengi. En ekki er síður áhugavert að þessi bjórsala skuli vera í samstarfi við mannvinina í Þjóðhátíðarnefnd, já og Ölgerðina auðvitað, sem er svo vinsamleg að skaffa bjórinn sem selja á (en bara af góðsemi auðvitað, hefur ekkert með þrýsting áfengisiðnaðarins að gera). Eitthvað hefur verið kippt í spotta til að koma þessu í gegn. Vínveitingaleyfi segir eingöngu til um að leyfa megi drykkju á staðnum en ekki að selja útaf staðnum (auðvitað engin dæmi í gjörvallri vínveitingasölu Íslands að fólk fái plastglös undir bjórinn til að taka með útaf staðnum). Á bensínstöðvunum þremur stendur semsé ekki til að selja bjór í kippum sem fólk getur tekið með sér. Að minnsta kosti ekki að sinni, en það gæti breyst verði frumvarp um smásölu áfengis að lögum. Í því segir nefnilega líka til um hvar ekki megi selja áfengi, og svo ég vitni í neðanmálsgrein við skrif mín um áfengisfrumvarpið frá því í október í fyrra:

„Í frumvarpinu er líka tiltekið hvar megi ekki selja áfengi en þar hefur alveg gleymst að geta bensínstöðva. Hvort þetta er handvömm eða til stendur að leyfa bensínstöðvabjór veit ég ekki.“
Bendir þetta kannski til að bensínstöðvabjórinn um verslunarmannahelgina hafi lengi verið í undirbúningi, og alltaf hafi staðið til að gera þessa tilraun? Hún eigi svo að ryðja brautina fyrir áfengisfrumvarpið í haust, og þá verði hreinlega tekið fram að selja megi áfengi (a.m.k. bjór) á bensínstöðvum? Eða er þetta bara einkaframtak þjóðhátíðarnefndar, bensínstöðvanna og áfengisiðnaðarins en ekki ætlað til að beita þrýstingi vegna frumvarpsins?

Hvernig sem á þessu stendur þá þykir mér bjórsala á bensínstöðvum hvorki góð hugmynd né góð þróun.

Efnisorð: ,

mánudagur, júlí 13, 2015

Samfélagið þarf að sjá og heyra fleiri konur á fjölbreytilegum aldri

Þegar ég las mánudagspistil Guðmundar Andra í blaðinu í morgun hélt ég fyrst í stað að hann væri að tala almennt um miðaldra konur sem sagt er upp störfum vegna aldurs (og fannst það gott framtak hjá honum) en þegar á leið varð ljóst að hann var að tala um sérstakt dæmi og beindi spjótum sínum að ákveðnum karlkyns einstaklingi (orð hans eiga þó við um fleiri karla):

„Þegar maður er karlmaður í stjórnunarstöðu, og kannski ekki alveg klár á sinni stöðu og þekkingu á því sem maður stjórnar, þá á maður ekki að láta til sín taka með því að reka konur sem unnið hafa á staðnum í mörg ár. Þær sjá að vísu næstum því örugglega í gegnum mann, sem getur kannski verið óþægilegt – og það kann líka að vera óþægilegt að vita af því innst inni að sennilega ættu þær að sitja í stjórnunarstöðunni sem maður sjálfur er í, og gerðu það ef ekki væri fyrir íslenska bræðralagið, flokksræðið og skólaklíkurnar – en í rauninni er sá maður lánsamur sem hefur slíkar konur að vinna með.“

En svo kom reiðarslagið í grein Guðmundar Andra: búið er að segja upp dagskrárgerðarkonunum Hönnu G. Sigurðardóttur og Sigríði Stephensen, sem eru hlustendum Rásar 1 kunnar af góðu einu. Ég þekki Sigríði minna en hef verið afar ánægð með störf Hönnu, eða frá því að ég fór að hlusta á Samfélagið í nærmynd og svo yfir í þættina Sjónmál og Samfélagið. Og ég bara skil ekki hvað í ósköpunum mönnum gengur til að segja upp svo fróðum og áheyrilegum starfskrafti eins og þær báðar eru. Eða jú, það er auðvitað skiljanlegra í ljósi orða Guðmundar Andra.

Björg Eva Erlendsdóttir, stjórnarmaður og fyrrverandi stjórnarformaður Ríkisútvarpsins segir að uppsagnirnar séu „augljóst brot á jafnréttis- og mannauðsstefnu Ríkisútvarpsins“. Það, ofan á óánægju hlustenda, svo ekki sé talað um að Elísabet Indra Ragnarsdóttir Víðsjárkona hefur sagt upp í kjölfar uppsagnar stallsystra hennar, ætti kannski að fá þá háu herra Þröst Helgason dagskrárstjóra og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra (sem ber ábyrgð á öllu heila klabbinu enda þótt Þröstur hafi séð um að reka Hönnu og Sigríði), til að endurskoða hvort það hafi verið góð hugmynd að bola dagskrárgerðarkonunum burt.

Því einsog Guðmundur Andri segir:

„Við þurfum að að sjá fleiri fullorðnar konur, miðaldra konur, rosknar konur í sjónvarpinu: þær þurfa að sjást í fréttum og fréttatengdum þáttum, í umræðuþáttum, í leiknu efni, í þáttum þar sem sýnt er frá lífinu í landinu, í grínþáttum og í auglýsingum öðruvísi en hin milda og algóða amma. Og við þurfum fleiri konur í útvarpið: Við þurfum að heyra raddir þeirra og nálgun, efnistök þeirra og viðhorf. Miðaldra konur hugsa öðruvísi en ungar konur og gamlar konur hugsa öðruvísi en miðaldra konur. Við þurfum að heyra í þeim öllum og sjá þær allar: samfélagið þarf á því að halda.“

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júlí 12, 2015

Saga úr þingsal

Er ég ein um að hlusta á Höfunda eigin lífs, viðtalsþátt Kristrúnar Heimisdóttur og Ævars Kjartanssonar? Um daginn (28. júní, ég hlustaði mun síðar á það í hlaðvarpinu; hér er það á Sarpinum) töluðu þau við Eddu Björgvinsdóttur, og það var afar gott spjall, en það sem sló mig þó mest var sagan sem Kristrún sagði. Hún er þess eðlis að ég barasta botna ekkert í að þetta hafi hvergi (svo ég viti) fengið neina umfjöllun.

33. mínúta, Kristrún:

„Það rifjaðist upp fyrir mér þegar þú varst að tala um frelsun geirvörtunnar og mussurnar, og ég ætla bara að segja þetta hérna þótt þetta sé Ríkisútvarpið, að það sagði mér ein af merkari stjórnmálakonum Íslands, ég ætla ekki að nefna nafnið hennar og ekki gefa neina möguleika fyrir fólk að átta sig á hver þetta kunni að vera. Ég ætla bara að segja söguna sem er svona.

Hún var einu sinni að bíða eftir að komast í ræðustól á Alþingi. Hún var í svona einhverskonar mussuklæðnaði. Finnur þá allt í einu hönd, af samþingmanni sínum, koma inn undir mussuna, og grípa þéttingsfast um bert brjóstið.

Þetta er sagan.“

Mín fyrstu viðbrögð við sögunni voru að grípa andann á lofti. Á Alþingi? Þetta er rosalegt! (Og það er það sem ég skil ekki að hafi ekki orðið að fjölmiðlafári.) En svo helltist yfir mig þessi gamalkunna tilfinning: auðvitað þar eins og allstaðar annarstaðar, kallar eru allstaðar eins.

Svo þegar ég var búin að hlusta á þáttinn til enda, fór ég að hugsa um þær konur sem hafa komist í valdastöður, eða bara í hefðbundin kallastörf, og ógna þar með köllum. Því auðvitað eiga konur ekkert uppá dekk og það þarf að láta þær vita hvar þær eiga að vera og hvar þær eiga ekki að vera. Og hvað er meira viðeigandi — að mati karlrembusvína allra tíma og allra vinnustaða — en láta konuna vita að hún er, þrátt fyrir allt sitt brölt, bara kvenmannslíkami sem lýtur valdi karla. Og þeir káfa.

Þeir passa sig auðvitað á að gera það annaðhvort þegar engin vitni eru eða þá við þannig aðstæður að konan getur ekki stoppað athæfið eða æpt á karlinn því það myndi valda uppnámi, trufla þingstörf.

Og hver myndi svosem taka málstað konunnar þó hún æpti, var hún ekki bara að vekja á sér athygli, reyna að grafa undan ferli karlsins sem hún ásakar um svo fráleitan verknað? Þessvegna hafa konur löngum þagað og látið þetta yfir sig ganga. Á það stólaði þingmaðurinn, og hefur eflaust verið nokkuð drjúgur með dagsverkið. Bæði fyrr og síðar hafa aðrir karlar (vonandi þó ekki á þingi) gert hið sama.

Karlar eru sembeturfer flestir núorðið búnir að jafna sig á því að konur geti unnið öll störf, og að sumar verða jafnvel yfirmenn eða setjast á þing. En það er fjarstæða að vera svo bjartsýn að trúa því að karlar séu alfarið hættir að koma konum í álíka aðstæður og þingkonan lenti í á leiðinni í ræðustól á löggjafarsamkundu þjóðarinnar.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júlí 09, 2015

Netnotkun fanga

Fangelsisyfirvöld nenna ekki lengur að standa í vegi fyrir því að fangar á Litla-Hrauni séu á netinu og leggja til að þeir fái að nota netið að vild. (Sama skoðun kemur fram í leiðara fríblaðsins.) Þetta kemur fram á sama tíma og frétt um að í fyrra hafi þáverandi fangi á Hrauninu hótað manni sem honum var illa við lífláti. Semsagt, (komst ólöglega á netið) hafði samband við mann utan fangelsismúrana og hótaði að drepa hann.

Það er þrennt sem mér finnst mæla á móti því að fangar hafi frjálsan aðgang að netinu.

1) Þeir geta þá fylgst með og hrellt fólk sem þeir hafa brotið á eða hefur vitnað gegn þeim.

2) Þeir geta horft á klám. (Nauðgarar að horfa á klám sem höfðar til þeirra, barnaníðingar að horfa á sitt uppáhaldsklám.)

3) Meiningin með fangelsisvist er meðal annars að svipta fólk frelsinu til að taka þátt í samfélaginu. Því markmikið er ekki náð ef fangar geta verið á netinu öllum stundum og talað við alla sem þeim sýnist eða rifið kjaft í athugasemdakerfum. Lífið innan fangelsisveggja á eðli málsins samkvæmt að vera takmarkaðra en utan þeirra.


Fyrsta atriðið er mikilvægt fyrir fórnarlömb kynferðisbrota og annarra ofbeldisglæpa, og þeirra sem hafa vitnað í slíkum málum. Sá tími sem menn sitja í fangelsi fyrir slík brot er nógu skammarlega stuttur (miðað við dóma fyrir önnur brot) þó fórnarlömbin fái þó allavega frið fyrir kvalara sínum rétt á meðan hann situr inni.

Næsta atriði, klámáhorf, finnst mér einnig mikilvægt því að rétt einsog flestum hlýtur að hrjósa hugur við því að barnaníðingur fái óáreittur að sitja inni í klefa löngum stundum við að horfa á barnaklám, þá finnst mér jafn óhugnanleg tilhugsun að karlmaður sem hefur nauðgað konu (eða konum, eða stelpum yfir lögaldri) geti horft tildæmis á nauðgunarklám, eða bara klám yfirleitt, enda eru afar fáar konur í klámmyndum af einskærri vinnugleði. Einhverjir segja líklega að það megi ekki banna nauðgurum (eða öðrum föngum) að horfa á klám, því engin sannanleg tengsl séu milli klámáhorfs og nauðgana. Þeir hljóta þá að vera sama sinnis um tengsl barnakláms og barnaníðs, og vera elskusáttir við tilhugsunina um óheft aðgengi barnaníðinga að barnaklámefni á netinu. Eða stendur kannski til að banna bara sumum innan fangelsisveggjanna að komast á netið (og horfa á klám) en öðrum ekki? Eða verður fylgst svo vel með netnotkun að ekkert klám verði neinum aðgengilegt? — Þá er ég strax orðin mun jákvæðari í garð netnotkunar en áður.

Þriðja atriðið finnst mér mjög eðlilegt, að takmarka þátttöku fanga í samfélaginu. Þeim eru settar skorður um svefntíma, matartíma, ferðafrelsi og heimsóknir*, afhverju í ósköpunum ættu þeir þá sjálfir að ráða netnotkun sinni? Eða yfirleitt hafa tölvur í klefum sínum? Það er til millivegur: að þeir fái að nota tölvur og komast á netið en undir eftirliti. Þá væri það í tölvuveri þar sem hver fangi mætti vera klukkustund á dag á netinu** og hafa sína hentisemi (með takmörkunum þó, sbr. að lið 1 og 2) en yrði þá um leið að velja og hafna hverju hann fylgist með eða hverja hann hefur samband við, væri fullkomlega ásættanlegt. Þá eru mönnum sett takmörk, rétt eins og símtöl þeirra hafa alltaf verið takmörkuð. Fangelsisvist snýst ekki um að menn hafi 100% afþreyingu allan sólarhringinn eða geti verið í endalausum Skype samtölum við fjölskylduna.

Þetta hljómar eflaust eins og ég sé uppfull af allri þeirri refsigleði sem nú er mjög talað gegn. Kannski er það að einhverju leyti rétt, en ég hef þó líka talað fyrir betrun innan fangelsa. Einnig hef ég mér það til málsbóta að vera næstum því alveg sammála því sem Júlía Birgis skrifaði á þennan athugasemdahala — að undanskildu nauðsyn þess að fangar fái að komast hindrunarlaust á netið!

„Fólk í vímuefnavanda, ó- eða illa læst, með ADHD er í miklum meirihluta af föngum í afplánun. Þurfum við sem samfélag ekki aðeins að skoða hvar við brugðumst þessu fólki? Fyrst það var ekki gert eða tókst ekki fyrr ber okkur þá ekki skylda til þess að aðstoða og betra fanga í afplánun með öllum leiðum færum?

Að fangar hafi aðgang að interneti og geti haft samband við ástvini sína er ekki lúxus. Það er NAUÐSYNLEGT! Að fangar fái að stunda nám eða vinnu við þeirra getu og hæfni er ekki lúxus. Það er NAUÐSYNLEGT! Að fangar fái læknisaðstoð, tannlæknaþjónustu, lyf og sálfræðiþjónustu er ekki lúxus. Það eru mannréttindi!

Ef að við viljum jaðarsetja hópa, eins og t.d fanga (og fyrrverandi fanga) og gæta þess að þeir fái aldrei að vera þátttakendur í samfélaginu þá endilega. Lokum þá inni, setjum þá alla saman í stóran geymi með 75 kojum. Klippum á öll samskipti, komum fram við þá eins dýr, lítum niðrá þá, fæðum þá rétt til að halda þeim gangandi en pössum að maturinn sé ógeðslegur. Gerum eins og BNA menn gera. Þetta er nákvæmlega það sem þeir gera. Þeir loka fólk inni, strípa það sjálfsvirðingunni og mannréttindum (sem vil svo skemmtilega til að fólk afsalar sér ekki þó svo það sé dæmt fyrir glæp). Og hvað fá þeir með þessu? 3,2% af heildarmannfjöldanum í BNA er í afplánum Ef við heimfærum þetta upp á Ísland þá myndi þetta jafngilda því að rúmlega 10 þúsund einstaklingar væru bakvið lás og slá!

Þannig, hugsum þetta endilega aftur. Hvað viljum við? Viljum við minnka endurkomutíðni í fangels?i (sem er hæst á Íslandi af norðurlöndunum), viljum við (vona ég innilega) að einstaklingar fari betri úr afplánun heldur en þegar þeir fóru inn? Viljum við gefa einstaklingum tækifæri og tól til að spjara sig í lífinu, jafnvel ná árangri og komast á góðan stað eftir að afplánun lýkur? “
Þetta var bara brot af því sem hún sagði, og í annarri athugsemd sagði hún m.a. þetta:
„Það eru allir sammála um að fangar þurfi sérfræðiaðstoð. Þeir þurfa kennara, sálfræðinga, lækna, geðlækna, iðuþjálfa, sjúkraþjálfa. Endalaust af faglegri hjálp sem þeir þurfa ef fangelsisvistin á að skila einhverju öðru en að bara loka mann inni í tiltekinn tíma og henda honum svo aftur út í lífið, án þess að nokkur betrun, þroski eða vöxtur hafi farið fram.

Ég ætla svo bara að hafna því alfarið að flestir fangar hafi fengið sömu tækifæri og aðrir. Það er misvel gefið og margir fangar eiga það sameiginleg að búa að mikilli áfallasögu. Vera jaðarsettir og utangarðs frá barnæsku, búa við fátækt, aldir upp hjá foreldrum/foreldri sem var vanhæft. Lestrarörðugleikar setja fólk strax í 6 ára bekk á botninn. Torlæst fólk býr ekki við sömu tækifæri og aðrir.

Það er mýta að á Íslandi sé jöfnuður og fólk upp til hópa njóti sömu tækifæra. Sá sem elst upp hjá fjölskyldu sem hefur ekki burði til þess að móta, þroska, kenna og rækta börnin sín er komin langt aftur úr. Það eru svo margir þættir sem geta gert það að verkum að þessi "jöfnu" tækifæri eru alls ekkert svo jöfn. Geðraskanir og fátækt koma í mörgum tilfellum í veg fyrir að einstaklingur njóti sömu tækifæra og aðrir. Við höfum brugðist mörgum af þessum einstaklingum. Samfélagið á að vera í stakk búið að veita öllum, óháð því hvaðan fólk kemur eða hvað það er, þá þjónustu og stuðning sem það þarf til að virka í lífinu.“

Þessu er ég sammála og ég vildi sannarlega að fangelsisvist væri til betrunar. Mér finnst bara netið ekki vera mjög mannbætandi á köflum, og held ekki að það eigi að vera frjáls leikvöllur fyrir menn sem eiga í svo miklum vandræðum með líf sitt að samfélagið hefur séð þess kost vænstan að loka þá inni.


___

* Það er synd og skömm að nú eigi að takmarka heimsóknir barna til feðra sinna. Ekki síst vegna þess að um hríð virðist hafa verið fundin mjög góð lausn á heimsóknum þeirra (Barnakot). Sú ráðstöfun að börnin eigi héreftir að heimsækja þá á virkum dögum (eftir skólatíma, strax eftir leikskólann?) hljómar einsog einhver innan fangelsismálageirans hafi unnið keppni um heimskulegustu uppástunguna.
** Fangar fengju einnig að nota tölvurnar til að sinna námi sínu eða skrifa ævisöguna eða bréf, en þá netlaust.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, júlí 05, 2015

Foie gras, taka þrjú

Á vordögum sá ég auglýsingu frá veitingastaðnum Kol á Skólavörðustíg. Þar blasti við að á matseðlinum var hið illræmda foie gras. Ég hringdi svo nokkru síðar og talaði við (að ég held) yfirkokkinn, og ræddi við hann á sömu nótum og ég hef áður gert þegar ég hringi í veitingastaði sem selja þennan ógeðfellda rétt. Hann var afar kurteis og þakkaði mér ábendinguna. Eftir gott spjall bað hann mig um að fylgjast með matseðlinum, því honum væri oft breytt. Síðan þá hef ég séð að minnsta kosti tvo matseðla birtast á vefsíðu veitingastaðarins, og á hvorugum þeirra er foie gras. Húrra fyrir þeim sinnaskiptum!*

Það vantaði heldur ekki að ég fékk ágætar móttökur þegar ég hringdi í veitingahúsið Perluna** eftir að hafa á rangli mínu um Perluna rekið augun í matseðilinn sem stillt er upp innan við aðalinnganginn. Hinsvegar var yfirkokkurinn þar ekkert á þeim buxunum að hætta að selja foie gras, enda bæðu fastagestir sérstaklega um það. Mín einnar konu sniðganga hafði því lítið að segja. Niðurstaðan af annars ágætum samræðum okkar (þar sem var m.a. rætt um hvalveiðar og kjúklingaeldi, eins og þegar ég hringdi á Hótel Holt) var því miður sú að Perlan mun áfram bjóða uppá matvöru sem framleidd er með dýrapyntingum.

Þið ráðið svo alveg hvort þið borðið í Perlunni. Sjálf væri ég líklegri til að reka inn nefið á Kol eða** Kopar (sem einnig tók foie gras af matseðli sínum sællar minningar) ef ég ætlaði að fá mér í svanginn með góðri samvisku.


___
* Viðbót: Enda þótt matseðill Kol á netinu segi ekkert til um dýrapyntingamáltíðir hef ég eftir áreiðanlegum heimildum að sannarlega sé boðið upp á slíkt þegar komið er á staðinn. Húrrahrópin hér að ofan eru því hér með afturkölluð.

** Veitingahúsið Perlan, Öskjuhlíð, sími 5620200
(sömu aðilar reka kaffiteríuna)
perlan@perlan.is

Efnisorð: ,

fimmtudagur, júlí 02, 2015

Kanínur gegn tilraunum á kanínum

Einstaklega ánægjuleg breyting hefur orðið á vöruúrvali fyrir fólk sem vill forðast vörur sem eru prófaðar á dýrum. Áður fengust slíkar snyrtivörur eingöngu í heilsubúðum en nú fást þær einnig í apótekum þar sem allir versla. Sömuleiðis fást nú hreinlætisvörur og hreingerningavörur, allt frá fljótandi handsápu til glerúða, í lágvöruverðsverslunum.

Fyrir fólk sem vill beina viðskiptum sínum eins og kostur er til þeirra sem pynta ekki dýr, er vert að skoða merkingar á snyrti- og hreinlætisvörum og athuga hvort þar leynist lítil kanína.

Hoppandi kanína (e. leaping bunny) er mjög áreiðanlegt alþjóðlegt merki (framleiðendur verða að uppfylla ýmis skilyrði og eftirlit er haft með þeim) og kanínuhaus með hjartalaga eyru er merki bandarísku dýraverndsamtakanna PETA, og ágætt líka. Sé önnur eða báðar þessar kanínur á vörunni hefur varan ekki verið prófuð á dýrum. Sé sagt að varan sé „vegan“ eiga engar dýraafurðir að vera í vörunni. Svo eru ýmsar útfærslur á hvaða texti fylgir með. Sem dæmi get ég nefnt* fljótandi handsápu sem er merkt bæði með 'cruelty free and vegan kanínunni' og skoppandi kanínunni, og salernishreinsilög þar sem stendur „cruelty free“ undir hoppandi kanínunni. Enn ein kanínan er svo á sjampói; skuggamynd af kanínu sem á stendur „NO“. Einnig er til kanína sem situr við hliðina á textanum „Against Animal Testing“.**

Kanínur eru semsagt til merkis um að engar kanínur hafi þjáðst við gerð þessarar vöru. Það er gott að vita — og kaupa.













___

* Ákveðið var á ritstjórnarfundi að nefna ekki vörurnar á nafn svo lesendur færu ekki að halda að um kostaða auglýsingu væri að ræða.

** Síðasttöldu kanínurnar eru á vörum frá Bretlandi þar sem er í gildi bann ESB við snyrtivörutilraunum á dýrum. Ekki vita allir um þetta bann eða hvaða lönd eru aðildarlönd að ESB, og því merkja margir evrópskir framleiðendur vöruna með kanínum eða láta með öðrum hætti vita að varan hafi ekki verið prófuð á dýrum, enda vilja æ fleiri viðskiptavinir forðast slíkar vörur sem kostur er.

[Viðbót:] á síðu samtaka grænmetisæta á Íslandi má finna ágætar leiðbeiningar um hvers skal gæta þegar lesið er á innihaldsmiða á snyrtivörum.

Efnisorð: