fimmtudagur, apríl 30, 2015

Apríluppgjör

Apríl hefur verið tíðindaríkur. Ég hef reynt að gera jafnóðum grein fyrir því helsta sem gripið hefur athygli mína en alltaf verður eitthvað útundan. Skal nú gerð bragarbót á því.

Reyndar dró Ragnheiður Tryggvadóttir saman í pistil margt af því ruglaðasta sem bar fyrir augum í fjölmiðlum.
„Undanfarið hef ég haft það á tilfinningunni að samfélagið hafi sett í bakkgír. […] Ég fæ þetta til dæmis á tilfinninguna þegar Framsóknarflokkurinn er eitthvað að vasast, sendir bréf til útlanda og tilkynnir eitthvað fyrir mína hönd þvert á loforð um annað, skipar rasista í mannréttindaráð eða dregur fram áratugagamlar teikningar Guðjóns Samúelssonar til að byggja eitthvað þjóðernislegt við Austurvöll, eða vill senda alla múslíma til Sádi-Arabíu og sitthvað svona.



Fæ þetta líka á tilfinninguna þegar ég horfi á viðtöl í sjónvarpinu við fólk sem hefur í fullri alvöru áhyggjur af útrýmingu hvíta kynstofnsins og vill flokka heiminn niður í lönd eftir lit.



Svo er ég einhverra hluta vegna alltaf að sjá myndir á Facebook af veiðimönnum stilla sér upp með nýskotnum gíraffa, svona svolítið eins og safaríveiðimenn árið 1901, en kannski hefur það alltaf verið.



Ég fæ líka þessa tilfinningu um að samfélaginu fari aftur þegar ég sé fólk stofna hópa á samfélagsmiðlum til að mótmæla hinsegin fræðslu í skólum! Já, já, það er til fólk sem sér ástæðu til þess að mótmæla því. Las nokkur ummæli hlustenda útvarps Sögu þeirrar skoðunar, sem tekin höfðu verið saman á Nútíminn.is. Ég gat ekki sett þau í samhengi við árið 2015. Vildi hreinlega að ég hefði ekki lesið þau, varð bara leið og yfir mig helltist tilfinningin um eitthvað úrelt.“

Náttúran

Náttúran var enn og aftur á dagskrá. Yfirleitt var það á forsendum varnarbaráttu því sótt er að henni úr ýmsum áttum og með margvíslegum hætti. Náttúruverndarfólk stóð í ströngu við greinaskrif og fundahald.

Ólafur Arnalds prófessor við Landbúnaðarháskólann skrifaði grein vegna þeirrar ákvörðunar (nefndarinnar með furðunafnið] yfirítölunefndar að beita megi fé á Almenninga í Rangárþingi eystra. „Hinn 1. apríl 2015 var einn mesti sorgardagur í sögu náttúruverndar á Íslandi frá upphafi vega,“ segir Ólafur. Nefndin úrskurðaði semsé þann dag að leyfa mætti beit sextíu lambáa, að hámarki 180 kindur, í sumar. Einn nefndarmaður, sem er gróðurvistfræðingur, taldi þó að svæðið gæti ekki tekið við svo miklum fjölda sauðfjár og vildi takmarka beitina við tíu fullorðnar kindur með lömb.

Ólafur bendir á að neikvæð ásýnd sauðfjárbeitar bitni á sauðfjárbændum sem ekki beita á illa farið og rofið land, og hvetur til að lambakjöt sé merkt uppruna sínum. Óorðuð er sú hvatning hans að neytendur sniðgangi þá afurðir merktar sauðfjárbændum sem beita fé sínu þar sem vitað er að það veldur skaða sem tekur áratugi að bæta.

Háspennulínur hér og þar og allstaðar

Landsnet spólar af spenningi við tilhugsunina um að leggja háspennulínur yfir hálendið. Öðrum finnst sú tilhugsun ógeðfelld, óarðbær og skaðleg ferðaþjónustunni. Já eða bara fáránleg. Samtök ferðaþjónustunnar taka ekki í mál að reist verði háspennumöstur á Sprengisandi (en gefa séns á jarðstreng). Grímur Sæmundsson formaður samtakanna segir „að mikilvægi ferðaþjónustunnar í efnahagslegu tilliti væri slíkt í dag að stórar ákvarðanir er varða náttúruna sem auðlind verði eftirleiðis að taka með hagsmuni greinarinnar að leiðarljósi“. Það er mikilvægt að Samtök ferðaþjónustunnar lýsi þessu yfir og ekki amalegur stuðningur fyrir náttúruverndarsinna.

Um miðjan mánuðinn var svo haldin fjölmenn hálendishátíð gegn breytingum á rammaáætlun og hálendinu undir yfirskriftinni „Paradísarmissir“ þar sem þess var krafist að hálendinu verði hlíft. (Upptöku frá hálendishátíðinni má sjá hér.) Formaður Landverndar segir að fjöldi fundargesta sendi þau skilaboð til stjórnvalda að grafa eigi nýja tillögu um rammááætlun.

Landsnet mætir andstöðu víðar því íbúar á Völlunum í Hafnarfirði hófu undirskriftasöfnun til að mótmæla lagningu Suðurnesjalínu 2. Íbúarnir segja m.a.:
„Loftlínurnar munu að okkar mati hafa verulega neikvæð áhrif á útivist, útsýni og hljóðvist í Vallahverfinu og hafa áhrif til lækkunar fasteignaverðs og að auki festa í sessi tengivirki sem ítrekað hefur verið lofað að skuli hverfa eða minnka verulega að umfangi.“

Mengun

Loftmengun á Íslandi hefur valdið ótímabærum dauðsföllum. Sýnt hefur verið fram á tengsl svifryksmengunar og dánartíðni.
„Samsetning svifryks er nú önnur en áður. Meira en helmingur ryksins var af malbiki árið 2003. Hlutfallið var komið niður undir tuttugu prósent árið 2013. Sót vegna útblásturs hefur aftur á móti aukist og er orðið þriðjungur mengunarinnar. Bremsuborðaryk er þá meira eða 13 prósent af menguninni árið 2013 í stað tveggja prósenta árið 2003.“
Dísilbílar sóta meir en bensínbílar svo að dísilbílar á nagladekkjum eru mestu skaðvaldarnir. (Sem minnir mig á: burt með naglana!)

Í framhaldi af þessu var aldeilis uppörvandi að heyra um áhrif gufuaflsvirkjananna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Ragnhildur Finnbjörnsdóttir doktorsnemi í lýðheilsufræði
„hefur skoðað tengsl fjölda dauðsfalla á höfuðborgarsvæðinu við styrk brennisteinsvetnis í lofti frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunum. Niðurstöðurnar gefa til kynna að samband sé þarna á milli. Þegar brennisteinsvetnismengun jókst fjölgaði dauðsföllum. „Það sem kom sérstaklega fram var að það var marktækt samband yfir sumarmánuðina og svo fundum við einnig marktækt samband hjá eldra fólki, 80 ára og eldra. Aukningin í dauðsföllum var frá rétt tæpum tveimur prósentum meðal eldra fólks upp í fimm prósent yfir sumarmánuðina,“ sagði Ragnhildur í viðtali.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur staðfest að rannsókn Ragnhildar gefi vísbendingar um að að aukning brennisteinsvetnis í andrúmslofti geti leitt til hækkaðrar dánartíðni vissra hópa fólks á ákveðnum árstíma. Orkuveita Reykjavíkur „tekur ekki afstöðu“ til niðurstaðna rannsóknarinnar.

En svo má líka alltaf útvista menguninni.

Hvalfjörðurinn er óðum að fyllast af mengandi stóriðju, og stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð skrifaði Degi B. Eggertssyni og Reykvíkingum opið bréf, en ekki þó eingöngu til að óska Reykjavíkurborg til hamingju með umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Bréfið var öllu heldur skrifað til að vekja athygli Reykvíkinga á því
„að sem meirihlutaeigendur Faxaflóahafna berið þið ábyrgð á iðnaðaruppbyggingu við Hvalfjörð sem stefnir lífríki fjarðarins og lífsgæðum íbúa hans í hættu […] Umhverfisvaktin hefur vakið athygli á því að á síðustu árum hafa framleiðsluaukning Norðuráls og nýjar verksmiðjur sem rísa á Grundartanga ekki þurft að sæta mati á umhverfisáhrifum. Sú skýring er gefin að mengun af völdum hverrar verksmiðju eða framleiðsluaukningar einnar og sér sé óveruleg viðbót við núverandi mengun […] Því miður er raunin sú að allt stefnir í að áfram bætist við fleiri og fleiri verksmiðjur og aukin mengun ef haldið verður áfram að skilgreina alla nýja mengandi starfsemi sem óverulega viðbót.“
Bréfið er áhugavert aflestrar og grefur heldur undan þeirri tilfinningu að borgin, sem eigandi 75% hlutar í Faxaflóahöfnum, eigi umhverfisverðlaun skilið. Svo ekki sé nú minnst á svifrykið og brennisteinsmengunina.

Nefndir með bein í nefinu

Undir lok mánaðarins mátti lesa frétt á bb.is sem sagði frá því að skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hafi hafnað áformum Orkubús Vestfjarða um miðlun úr Stóra- Eyjavatni í Mjólkárvirkjun. Í umsögn nefndarinnar segir að nefndin taki heilshugar undir framkomnar athugasemdir um að ekki komi til greina að skerða náttúrulega fegurð Dynjanda með skerðingu á vatnasviði hans. (Mynd af fossinum fylgir fréttinni.) „Skilaboð hins almenna Vestfirðings hafa líka verið nokkuð skýr, fólk vill að Dynjandi fái að vera í friði,“ segir formaður nefndarinnar. Hinn almenni Reykvíkingur tekur undir það.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur stóð líka í lappirnar þegar hún synjaði Svifflugfélagi Íslands um leyfi til að leigja svæði félagsins við Sandskeið. Þar átti að útbúa akstursbraut fyrir bílaframleiðanda svo að blaðamenn gætu reynsluekið nýjum jeppum. Svifflugfélaginu vantaði pjéning og sá sér þarna leik á borði að græða og tóku því tilboði bifreiðaframleiðandans „fagnandi þegar framleiðandinn bauð fram ríflegan fjárstyrk“. Heilbrigðisnefndin afturámóti var eitthvað að spá í vatnsbólin í Heiðmörk og telur vélknúna umferð ógn við hana. Þetta er auðvitað bara píp, því einsog allir vita trompa pjéningar hreint vatn, og þessvegna hefur Svifflugfélagið kært heilbrigðisnefndina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. En ekki hvað.

Hér er ekkert minnst á framsóknarmenn

Þessi samantekt hefði betur orðið að stökum bloggfærslum sem dreift hefði verið yfir nokkra daga. En ritstjórnarleg ákvörðun hefur verið tekin um að hlífa lesendum hvergi en koma þessum helstu aprílmálum frá og þessvegna verður hér að lokum fjallað um makrílkvótann.

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra byrjaði grein sína „Auðlind á silfurfati“ með þessum orðum:
„Allar viðvörunarbjöllur landsins hringja nú um að hægristjórnin sé að stíga stórt skref í að einkavæða auðlindir þjóðarinnar.“ Hún spyr hvort „hagsmunaaðilar í útgerð og ríkisstjórnin hafi fundið leið til þess að læða í gegn stórtækri breytingu á úthlutun aflaheimilda og útreikningi veiðigjalda án þess að þjóðin taki eftir því?“
Oddný ræðir einnig yfirlýstar skoðanir forseta Íslands á þjóðaratkvæðagreiðslum þegar í húfi eru auðlindir þjóðarinnar og segir að hann hljóti að bregðast við ótímabundinni úthlutun á makrílkvóta. (Glætan.)

Jón Steinsson hagfræðingur skrifaði einnig mikilvæga og harðorða grein af sama tilefni. Þar segir:

„Í makrílfrumvarpi ráðherra er ekkert ákvæði um þjóðareign kvótans né heldur um það að úthlutunin myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þvert á móti er kveðið á um að sex ára úthlutun veiðiheimilda í makríl framlengist sjálfkrafa um eitt ár á hverju ári og að úthlutuninni sé ekki hægt að breyta nema með sex ára fyrirvara. Þetta er grundvallarbreyting […]

Með þessu frumvarpi er því stigið risastórt skref í þá átt að festa varanlega í sessi það fyrirkomulag að útgerðarmenn þurfi ekki að greiða eðlilegt leigugjald til þjóðarinnar fyrir afnot af sameign þjóðarinnar […] Það verður með öðrum orðum nánast ómögulegt að taka upp fyrirkomulag sem tryggir að útgerðarmenn greiði markaðsverð fyrir veiðiheimildir […]

Það sem meira er, ef þetta frumvarp verður að lögum verður til fordæmi um óafturkallanlega úthlutun aflaheimilda til lengri tíma en eins árs. Þetta fordæmi mun gera það auðveldara fyrir stjórnvöld að breyta úthlutun annarra tegunda á sama veg […] Þjóðin er með öðrum orðum hlunnfarin um tugi milljarða árlega […]

Nú vill ríkisstjórnin taka stórt skref í þá átt að festa enn frekar í sessi þetta ófremdarástand. Er ekki tími til kominn að landsmenn segi hingað og ekki lengra?“
Það er sannarlega ástæða til að bera ugg í brjósti verði þetta frumvarp að lögum án þess að almenningur æmti. Því þá er þessari ríkisstjórn allir vegir færir.

Efnisorð: , , , , , , ,

þriðjudagur, apríl 28, 2015

Að kæra eða halda skoðanafasismapartí, þar er efinn

Samtökin ’78 ákváðu að sitja ekki þegjandi undir hatursáróðrinum frá skoðanabræðrum Gylfa Ægissonar og hafa því kært tíu stykki hómófóbíska fábjána fyrir hatursáróður.

Forsagan er sú að Hafnarfjarðarbær hyggst láta gera námefni til að efla hinseginfræðslu í grunnskólum. Gylfi Ægisson ærðist, verandi helsti talsmaður hommahatara landsins, og í kjölfarið hófst mikil orrahríð á samfélagsmiðlum og í athugasemdum vefmiðla. Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu ræddi við hlustendur sem spöruðu ekki illa ígrunduð gífuryrði og bætti Pétur heldur í fordómasúpuna en hitt. Samtökin ‘78 höfðu líklega úr nógu að moða þegar ákveðið var að kæra. Sú ákvörðun hefur svo aftur vakið upp umræðu um hvort rétt sé að svara hatursáróðri með kæru.

Jónas Kristjánsson talar tildæmis um upphaf endaloka tjáningarfrelsis á Vesturlöndum og segir að „Þöggunarkrafa Samtakanna 78 er skoðanafasismi.“ Minna má það ekki vera.

Pistlahöfundi á Fréttablaðinu, Kjartani Atla Kjartanssyni blaðamanni, finnst kæran afturámóti vera tímaeyðsla og að hinsegin fólk eigi að eyða tíma sínum í eitthvað viturlegra en kæra hatursáróður. Hann er með einfaldari lausn:
„Ég myndi halda að svarið við öllum þessum fordómum sé bara að halda gleðigöngu; að halda partí.“
Sjálfur er Kjartan ekki í þeim sporum að vera atyrtur opinberlega fyrir kynhneigð sína, og honum gerðar upp glæpsamlegar hvatir, og veit því ekkert hvað hann er að tala um. Samt lítur hann svo á að hann sem hvítur gagnkynhneigður karlmaður — og þar með hluta hóps sem nýtur mestra forréttinda í heimi hér — viti betur en þeir sem verða fyrir hatursáróðrinum hvernig eigi að bregðast við.
„Mér er persónulega svo nákvæmlega sama hvað einhverjum gömlum manni finnst um hinsegin fólk og alla þá sem eru öðruvísi en hann. Og mér er svo nákvæmlega sama hvað einhverju fólki sem hringir inn á Útvarp Sögu finnst.“
Auðvitað er honum sama. Hann ber ekki einu sinni fyrir sig tjáningarfrelsi heldur finnst þetta bara píp. Hann virðist enda alls ófær um að setja sig í spor annarra.

Kjartan Atli var reyndar ekki búinn að opinbera skilningsleysi sitt þegar séra Baldur Kristjánsson skrifaði ágætan pistil sem svarar þeim sem gagnrýna Samtökin '78 fyrir kæruna.
„Gáfumennirnir og ritsnillingarnir Egill Helgason og Karl Th. Birgisson fara mikinn (og Jónas Kristjánsson) og hneykslast á samtökunum 78 fyrir að ætla sér að kæra hatursáróður í garð samkynhneigðra. Minni spámenn vitna óspart ólesnir í Voltaire og myndu þó aldrei láta lífið fyrir Gylfa Ægisson. Þetta sýnir að við höfum flutt inn fleira en bílamenningu og hamborgara frá Bandaríkjunum, einnig það viðhorf að tjáningarfrelsi sé og eigi að vera óskert, hver og einn megi segja og gera það sem honum lystir og eigi jafnvel að níðast á sem flestum í orði og borði til þess að ekki dragi úr þessum heilaga rétti. Ekki hefur þó spurst til manna mígandi utan í íslenska þjóðfánann í nafni tjáningarfrelsis.

Evrópumenn hafa farið aðra áhersluleið í tjáningarfrelsi og eiga þó Voltaire. Meiddir af ofsóknum tveggja styrjalda hafa þeir í viðleitni sinni til að byggja góð samfélög sett þær lagalegu skorður gegn óheftu tjáningarfrelsi að ekki megi valda hópum manna hugarangri og vanlíðan vegna þátta sem eru mönnum eiginlegir svo sem þjóðerni, litarhætti eða kynhvöt. Gjarnan er miðað við að bannað sé, að viðlagðri refsingu, að veitast með hrokafullum óhróðri að hópum manna ekki síst þar sem talið er að slíkt geti leitt til ofbeldis, meiðinga, eignarspjalla já og dauða einstaklinga úr minnihlutahópum. Þetta er hin hliðin á tjáningarfrelsinu, ef svo má segja, því eru settar skorður til að vernda hópa sem eiga undir högg að sækja. Það er óheft, en menn verða að vera ábyrgir orða sinna þegar þeir reyna að bera menn út vegna þátta sem mönnum eru eðlislægir.“
Mér finnst hvorki kæra Samtakanna ‘78 vera skoðanafasismi, tímasóun, né tilefni til að halda partí. En ég er hjartanlega sammála Baldri í þessu máli, og ekki síst þessum orðum hans:
„Það verð ég að segja að talsvert meiri reisn er yfir evrópskum viðhorfum að tjáningarfrelsi en bandarískum. Í Evrópu er hugað að velferð fólks og þess gætt að ekki sé hægt að ráðast að því með hroka og yfirgangi þess sem finnur meirihlutann að baki sér.“

Efnisorð: , , ,

mánudagur, apríl 27, 2015

Til þess eiga menn fjölmiðil

Það olli mér miklum vonbrigðum að pistil Guðmundar Andra var hvergi að finna í Fréttablaðinu í morgun. Yfirleitt er hann eina tilhlökkunarefnið á mánudagsmorgni (ekki er það veðurblíðan). En ekki nóg með að pistilinn vantaði, skýringarlaust,* heldur var í stað hans munnræpa úr Jóni Ásgeiri Jóhannssyni þar sem hann býsnaðist yfir ofsóknum á hendur sér, rétt eina ferðina.

Ritstjórn Kjarnans hefur greinilega fylgst með greinaskrifum Jóns Ásgeirs og fjallaði heldur háðslega um þau á eftirfarandi hátt:
„Jón Ásgeir Jóhannesson skrifar reglulega greinar í Fréttablaðið, sem hann átti einu sinni en er nú í eigu eiginkonu hans.** Greinarnar snúast vanalega um ofsóknir sem hann hefur orðið fyrir að ósekju. Slíkar má lesa hér, hér, hér, hér og hér. Eina undantekningin frá þessu leiðarstefi var mýkri grein sem Jón Ásgeir skrifaði nokkrum dögum eftir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis hafði opinberað alla ævintýralegu vanhæfnina, græðgina og skeytingarleysið sem átti sér stað í íslensku viðskipta- og fjármálalífi á árunum fyrir hrun. Þar sagðist hann hafa misst sjónar á góðum gildum en ætlaði að leggja sitt af mörkum til „að byggja Ísland upp að nýju.“

Og í dag skrifaði hann enn eina greinina í Fréttablaðið, nú í tilefni þess að Hæstiréttur hefur ómerkt dóm héraðsdóms í Aurum-málinu. Í greininni er kunnuglegt stef. Hann kvartar yfir því að hafa þurft að verja hendur sínar í 13 ár og að tilgangurinn virðist vera „sá að koma mér í fangelsi hvað sem það kostar“. Hann segir ákæruvaldið hafa eytt milljörðum króna af fé íslenskra skattgreiðenda síðustu 13 ár til að reyna að reyna að finna einhvern glæp svo hægt sé að taka hann úr umferð.“
Í einu hefur Jón Ásgeir rétt fyrir sér: það myndi gleðja fjölmörg okkar að sjá á eftir honum bak við lás og slá. Lengi.

Það gleður ekki eins mikið hve Fréttablaðinu hefur verið beitt grímulaust í þágu Jóns Ásgeirs undanfarið. Reyndar ekki bara hans heldur annarra auðmanna — sem sumir hverjir sitja nú vestur á Kvíabryggju. Reynt hefur verið að grafa undan sérstökum saksóknara í blaðinu, svona til að ýta undir þá skoðun að þetta séu allt ofsóknir en mennirnir saklausir, og þá Jón Ásgeir sömuleiðis. Ögmundur Jónasson skrifaði í febrúar grein sem byrjar svona:
„Á síðasta degi liðins árs birtist leiðari í Fréttablaðinu sem fjallaði um meðferð embættis Sérstaks saksóknara á málum sem embættið hefur haft til meðferðar. Áður hafði Fréttablaðið – sem stundum fyrr – slegið upp fréttum af meintri valdníðslu embættisins við rannsókn á efnahagsbrotum í aðdraganda hrunsins.“
Var þó eftir einn umtalaðasti leiðarinn hingað til, skrifaður af fyrrverandi blaðafulltrúa Baugsveldisins og núverandi yfirritstjóra Kristínu Þorsteinsdóttur. Lokaorð hans voru „Niðurstaða Hæstaréttar er óboðleg, og má ekki verða endahnútur þessa máls. Nú taka fjölmiðlar við.“ Mörgum hefur þótt þetta vera stríðsyfirlýsing blaðsins um enn grímulausari áróður í þágu eigenda þess.

Fáum dögum síðar hóf eiginkona eins sakborninga og tugthúslima Al-Thani málsins varnarskrif sem var einnig stillt upp á leiðaraopnu blaðsins. Þegar svo Aurum-málið var ómerkt af Hæstarétti og sent aftur í héraðsdóm, vegna þess að bróðr þessa sama tugthússlims reyndist hafa verið meðdómandi, lét Fréttablaðið það eftir sér að láta þetta vera lokaorð fréttar um úrskurð Hæstaréttar, og er þar að vitna í Gest Jónsson verjanda eins sakborninga:
„Afleiðingin af þessu er að fjórir menn sem voru sýknaðir í héraði, og áttu von á að fá enda í sín mál á næstu mánuðum, verða að bíða enn eitt árið eftir niðurstöðu í málinu. Minn skjólstæðingur í þessu máli, Jón Ásgeir, er nú þegar búinn að hafa réttarstöðu sakbornings í á þrettánda ár. Mér finnst þetta vera bara alveg til vansa,“ segir Gestur.“
Verjandi Jóns Ásgeirs, eiganda (ok, giftur eiganda) Fréttablaðsins á síðasta orðið. Blákalt og grímulaust.

Þetta er semsagt ekki í fyrsta sinn sem Jón Ásgeir notar Fréttablaðið til að reyna að snúa almenningsálitinu sér í vil. En ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem hann gerir þau mistök að ryðja Guðmundi Andra frá til að koma eigin pistli í andlitið á lesendum. Það sýnir að dómgreindin er ekki nú frekar en áður að þvælast fyrir Jóni Ásgeiri.

___

* Skýringin á þessum umskiptum á leiðaraopnu Fréttablaðsins frá góðum stílista til útrásarvíkings með lítið siðvit var ekki sú að Guðmundur Andri væri í fríi eða hefði svikist um að skrifa sinn vikulega pistil. Þvert á móti, og hafði Egill Helgason þetta eftir Guðmundi Andra: „Í gær skilaði ég af mér mánudagsgrein samkvæmt venju. Í blaði dagsins reyndist hins vegar vera köttur í bóli bjarnar.“ [Viðbót: Daginn eftir, þriðjudag, birtist loks pistill Guðmundar Andra. Á eftir pistlinum kom svo þessi klausa, skáletruð: „Grein Guðmundar Andra átti að birtast í blaði gærdagsins. Lesendur er beðnir velvirðingar á þessu.“ Ha!]


** Ég vek athygli lesenda á þessu með eignarhaldið á Fréttablaðinu, en í síðasta pistli skrifaði ég á svipuðum nótum um framsóknarþingmann sem þykist ekki vanhæfur um að úthluta útgerðarfyrirtæki eiginkonu sinnar kvóta.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, apríl 26, 2015

Spillingin kemur ekki á óvart og heldur ekki fyrirlitningin á baráttuaðferðum verkalýðsins

Það á auðvitað ekki að koma á óvart að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn séu spilltir, snúi lögum og reglum sér í hag, sniðgangi sannleikann, og hugsi um eingöngu um eigin hag og fólks af sínu sauðahúsi. En þar sem fréttir eru uppfullar af framlögðum dæmum um hegðun og viðhorf þingmanna og ráðherra Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er mér ljúf skylda að leggja orð í belg, mest þó sjálfri mér til skemmtunar enda horfell ég ekki á fjósbitanum á meðan.

Fyrstan skal telja fram Framsóknarþingmanninn í atvinnuveganefnd sem hefur með höndum það hlutverk að úthluta makrílkvóta. Konan hans á bát sem fær kvóta að verðmæti fimmtíu milljóna króna, en Páli Jóhanni Pálssyni finnst það ekki gera sig vanhæfan til að fjalla eða kjósa um málið í nefndinni. Það er auðvitað alltaf svoldið fyndið þegar látið er sem það komi ekki öðrum aðilanum við hvað hinn aðilinn sýslar í hjónabandinu, einsog það hafi engin áhrif á lífsafkomu beggja. (Auðvitað er ekki sanngjarnt að annað hjónanna sé gert ábyrgt fyrir skuldum sem hitt stofnaði til, og ég veit að til eru hjónabönd þar sem veit fólk hefur algerlega aðskilinn fjárhag, en ég held að það megi reikna með að ef annað hjónanna fær réttar tugi milljóna sé það hagur beggja). En Framsóknarþingmaðurinn reyndist svo hafa átt bátinn alveg sjálfur þar til konan hans tók við þessari verðmætu eign - sem óvart þurfti þá ekki nauðsynlega að gera grein fyrir opinberlega. Þannig að auðvitað var þetta sameiginleg eign hjónanna sem Framsóknarþingmaðurinn var að sjá til þess að yki á auð þeirra.

Næstan má telja fram Bjarna Ben sjálfan. Hann er formaður Sjálfstæðisflokksins sem lengi notaði slagorðið stétt með stétt. Það á ekki við um verkfallsstétt. Nei, Bjarna finnst fólk í verkfalli sleppa vel (en eins og allir vita þá þyngir það mjög pyngjuna að vera í verkfalli; og ekki hefur þessi sjúkrahússskríll samvisku yfir að stinga af úr vinnunni) en hingað til hafi verkföll átt að bitna jafnt á báðum viðsemjendum, þeir hafi þjáðst jafnt í verkfalli. Í fjölskyldu Bjarna eru eflaust til margar sögur um hvað verkföllin hafi lagst þungt á ættmenn hans. Það hlýtur einhver söguglöggur endurskoðunarsinni innan flokksins að geta tekið að sér að skrifa um þetta bók, ég sting upp á titlinum Harmsaga Engeyinga: Það sem verkalýðurinn lét okkur þjást.

Ekki má gleyma að Sjálfstæðisþingmaðurinn Pétur Blöndal, sem frægastur er fyrir að hafa áhyggjur af fé án hirðis, er þeirrar skoðunar að þeir sem fara í verkfall séu gerðir bótaskyldir gagnvart þeim sem verkfallið bitnar á. En auðvitað er enginn bótaskyldur sem borgar svo léleg laun að starfsfólkið sér enga leið aðra en verkföll til að bæta kjör sín. Nei, vinnuveitendur eru alltaf í rétti að mati Péturs. Sannur sinni sannfæringu og löngu búinn að gleyma því hvernig fór fyrir SPRON. Hver var bótaskyldur þar?

Síðastan skal telja fram Sjálfstæðismanninn Illuga Gunnarsson menningar- og menntamálaráðherra (má ekki stytta þennan titil eins og framhaldsskólanámið?). Líklega eru ekki öll kurl komin til grafar um húsnæðis- og fjármál hans, en samkvæmt fréttum var Illugi nærri búinn að missa íbúð sína vegna skulda en fyrrverandi yfirmaður hans (stjórnarformaður Orku Energy, fyrirtækis sem Illugi hefur verið ásakaður um að hampa umfram embættisskyldur sínar) keypti þá íbúðina og leigði Illuga aftur. Svo virðist sem Illugi búi því enn á sama stað, alveg eins og ekkert hafi í skorist, og allt gerðist þetta eftir að hann varð ráðherra. Það er auðvitað heppilegt að þurfa ekki að flytja, en það er síður heppilegt fyrir skattgreiðendur að Illugi noti vinnutímann til að endurgjalda vini sínum greiðann. Rétt eins og Páll Jóhann Pálsson reynir að láta sem hann eigi ekki bát og sé ekki vanhæfur, lætur Illugi eins og hann hafi ekki þurft að gera grein fyrir hagsmunatengslum sínum ið Orku Energy.

En þetta er allt á sömu bókina lært og þetta kusu kjósendur yfir sig, vitandi fyrir hvað Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn standa.

Efnisorð: , ,

föstudagur, apríl 24, 2015

Sýrland, flóttamenn og viðbrögð við ræðu

Í dag heyrði ég afar áhrifamikla ræðu Angelinu Jolie þar sem hún skammaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir að bregðast ekki við ástandinu í Sýrlandi og flóttamannavandanum í kjölfarið. Þegar ég fór að leita að skrifuðum texta ræðunnar, með það í huga að þýða hann, sá ég fréttir um viðbrögð sýrlenska sendiherrans við ræðu kvikmyndastjörnunnar. Hann sagði eingöngu: „Hún er falleg“.

Hér mætti skrifa langa ritgerð um karlrembu sendiherrans, vanda fagurra kvenna sem ekki ertu teknar alvarlega, eða um tilganginn með að fá frægt fólk til að vera erindrekar Sameinuðu þjóðanna ef orð þeirra falla í skuggann af frægð þeirra og glæsileika. Ég held að ég haldi mig samt við ræðu Angelinu Jolie og vanda flóttamanna, en úr því að ég finn ræðuna ekki í heild sinni læt ég mér nægja að púsla því saman sem ég finn ýmist á ensku eða íslensku í fjölmiðlum, vitandi þó að slík brot ná ekki slagkraftinum sem ég fann fyrir þegar ég hlustaði á flutning ræðunnar.

Úr frétt RÚV:
Hún sagði að það væri hlutverk samtakanna að koma í veg fyrir og binda enda á átök í heiminum, tengja ríki böndum, leita diplómatískra lausna og bjarga mannslífum. Í málefnum Sýrlands hefði það brugðist.

Ástandið þar hefði farið úr böndunum vegna deilna og ráðaleysis alþjóðasamfélagsins sem staðið hefði í vegi fyrir því að öryggisráðið gæti uppfyllt skyldur sínar.

Jolie hvatti til samstöðu til að leysa vandann og aukinnar aðstoðar við þær milljónir Sýrlendinga sem flúið hefðu til grannríkja. Það væri siðferðileg skylda að hjálpa þeim og veita þeim lagalegar úrlausnir.

Jolie sagði að hörmungarnar í Sýrlandi undirstrikuðu að alþjóðasamfélagið virtist ófært um að finna diplómatískar lausnir og afleiðingin væri að milljónir manna væru fastar í útlegð. Söguleg skilgreining á þessum hörmungum yrði ekki metin út frá þeim sjálfum heldur hvernig alþjóðasamfélagið hefði tekið á þeim.
„Það er hræðilegt að sjá þúsundir flóttamanna drukkna við þröskuld ríkustu heimsálfunnar. Enginn tekur slíka áhættu með börn sín nema vegna algjörrar örvæntingar.“ [CBS]

Ræða Angelinu Jolie er ekki það eina sem ég hef heyrt eða lesið í dag um málefni flóttamanna. Ég hvet fólk til að lesa fyrirtaksgóðan pistil Sifjar Sigmarsdóttur um „Landshornalýðinn“.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, apríl 23, 2015

Verkföll og lokuð rými

Oft hef ég séð í bíómyndum þegar einhver er rotaður og settur inní skáp til að þvælast ekki fyrir. Þegar fréttist að stjórn Granda hefði — þrátt fyrir útbásúnaðar skoðanir stjórnarformanns síns Kristjáns Loftssonar sem þá hafði nýlega fengið arðinn sinn og hækkuð stjórnarlaun — ákveðið að bæta starfsfólki lág laun með því að hækka hjá því bónusinn, þótti mér einsýnt að stjórnin hefði tekið til þess örþrifaráðs að loka Kristján inní skáp. Líklega bundinn og keflaðan.

Fram að þessari bónusreddingu var hægt að benda á Granda sem dæmi um misskiptingu auðs í þjóðfélaginu. Þeir ríku verða ríkari og skara endalaust að eigin köku með öllum ráðum, meðan starfsmaður á plani rétt skrimtir. Auk lélegra launa býr fólk sem vinnur við mikilvægar atvinnugreinar á borð við sjávarútveg og ferðaþjónustu ekki við atvinnuöryggi. Háskólamenntað fólk sem hefur varið mörgum árum í að afla sér menntunar uppsker ekki í samræmi við það í launaumslaginu. Þessvegna eru verkföll og það verða fleiri verkföll.

Stéttarfélög Bandalags háskólamanna hafa nú í apríl farið í verkföll.
Á vefsíðu BHM) segir að „Um mismunandi aðgerðir er að ræða allt frá því að vera verkfall part úr degi yfir í ótímabundin allsherjarverkföll. Alls taka rúmlega 3000 manns þátt í aðgerðunum.“

Fóru í verkfall 7. apríl:
Félag geislafræðinga: ótímabundið verkfall 108 félagsmanna
Félag lífeindafræðinga: ótímabundið verkfall 215 félagsmanna frá kl. 8-12 alla virka daga
Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala: ótímabundið verkfall 135 félagsmanna á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum
Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu: ótímabundið verkfall 27 félagsmanna
Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala: ótímabundið verkfall 75 félagsmanna

Fóru í verkfall eða voru enn í verkfalli 9. apríl:
Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, 27 félagsmenn
Félag ísl félagsvísindamanna, 88 félagsmenn
Félag íslenskra náttúrufræðinga, 579 félagsmenn
Fræðagarður, 556 félagsmenn
Iðjuþjálfafélag Íslands, 76 félagsmenn
Ljósmæðrafélag Íslands, 84 félagsmenn
Sálfræðingafélag Íslands, 148 félagsmenn
Stéttarfélag bókasafns og upplýsingafræðinga, 103 félagsmenn
Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði, 33 félagsmenn
Félagsráðgjafafélag Íslands, 85 félagsmenn
Stéttarfélag lögfræðinga, 311 félagsmenn
Félag sjúkraþjálfara, 121 félagsmenn
Þroskaþjálfafélag Íslands, 33 félagsmenn
Félag íslenskra hljómlistarmanna (Starfsmannafélag Sinfóníunnar) 9. apríl frá kl. 19:00-23:00, 89 félagsmenn
Ljósmæðrafélag Íslands á Sjúkrahúsinu á Akureyri: ótímabundið verkfall 17 félagsmanna á mánudögum og fimmtudögum frá 9. apríl

Enn í verkfalli:
Félag geislafræðinga: ótímabundið verkfall frá 7. apríl
Félag lífeindafræðinga: ótímabundið verkfall frá 7. apríl frá kl. 8-12 alla virka daga
Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala: ótímabundið verkfall á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá 7. apríl
Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu: ótímabundið frá 7. apríl
Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala: ótímabundið frá 7. apríl

Fóru í verkfall eða eru enn í verkfalli 20. apríl:
Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins: tímabundið verkfall 35 félagsmanna frá 20. apríl til 8. maí
Félag íslenskra náttúrufræðinga á Matvælastofnun: ótímabundið verkfall 12 félagsmanna frá 20. apríl
Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði á Matvælastofnun: ótímabundið verkfall 13 félagsmanna frá 20. apríl
Dýralæknafélag Íslands : ótímabundið verkfall 39 félagsmanna frá 20. apríl

Enn í verkfalli:
Félag geislafræðinga: ótímabundið verkfall
Félag lífeindafræðinga: ótímabundið verkfall frá 7. apríl frá kl. 8-12 alla virka daga
Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala: ótímabundið verkfall á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá 7. apríl
Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu: ótímabundið verkfall
Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala: ótímabundið verkfall
Ljósmæðrafélag Íslands á Sjúkrahúsinu á Akureyri: ótímabundið verkfall 17 félagsmanna á mánudögum og fimmtudögum frá 9. apríl

Ofan á þetta munu líklega bætast verkföll Starfsgreinasambandsins. Starfsgreinasambandið er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi og stærsta sambandið innan ASÍ, með samtals um 50.000 félagsmenn. Í frétt segir enda að „Verkfallið kemur til með að hafa víðtæk áhrif meðal annars á ferðaþjónustu og fiskvinnslu á landsbyggðinni.“

30. apríl 2015: Allsherjar vinnustöðvun frá klukkan 12:00 á hádegi til miðnættis sama dag.

6. maí: Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis.
7. maí: Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis.

19. maí: Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis.

20. maí: Allsherjar vinnustöðvun frá miðnætti til miðnættis.

26. maí: Ótímabundin vinnustöðvun hefst á miðnætti aðfaranótt 26. maí 2015.

Til þess að leysa verkfall háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, þ.á m. heilbrigðisstarfsmanna, og koma í veg fyrir allsherjarverkfall undirstöðuatvinnugreinanna, væri kannski ráð að læsa fleiri þrjóskupúka inní skáp meðan gengið er frá mannsæmandi samningum.

Efnisorð:

sunnudagur, apríl 19, 2015

Rúmgóð hornlóð í stað þröngrar og óvinsællar staðsetningar

Það er ekki oft sem ég er sammála Sjálfstæðismönnum en (í stað þess að þegja yfir því og skammast mín) skal það nú fært til bókar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ætla að leggja til á fundi borgarstjórnar að rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni verði úthlutað lóð við Mýrargötu, rétt hjá lóðinni sem hún fékk fyrir margt löngu. Sú tilhugsun að stóreflis kirkjubygging rísi á núverandi lóð rétttrúnaðarkirkjunnar (sjá mynd) hefur verið nágrönnunum og öðrum íbúum Vesturbæjar þyrnir í augum. En við gatnamót Mýrargötu og Seljavegar er hornlóð sem hefur lengi verið ómalbikað kaótískast bílastæði, engum til prýði. Nú vilja semsagt Sjálfstæðismenn að bílastæðið prýði kirkjan sem færi þar mun betur beint á móti gamla Héðinshúsinu en við bárujárnshúsin þar sem átti að reisa hana.



Rússneska rétttrúnaðarkirkjan heldur fast í lóðina sem hún fékk upphaflega úthlutað, það sé búið að „helga hana“ og þarna skuli byggja. Hingað til hafa öll mótmæli verið til einskis. Það er því ekki líklegt að þessi tillaga komi í veg fyrir að kirkjan rísi á upphaflegu lóðinni. En það má reyna.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, apríl 16, 2015

Hversdagslegt misrétti

Hversdagslegt misrétti er átak sem hófst á málþingi kynjafræðinema í framhaldsskólum. Átakið felst í að tvíta (þ.e. skrifa og birta á samfélagsmiðlinum Twitter) lýsingu á hversdagslegu misrétti sem manneskjan sem tvítar hefur orðið fyrir eða orðið vitni að. Með því að merkja það svona:#6dagsleikinn, tengjast frásagnirnar saman og úr verður margradda kór.

Vert er að benda á að fólk sem ekki er skráð á Twitter getur fylgst með öllu því sem fram fer hér. Einnig á t.d. þessari síðu Vísis.

María Lilja Þrastardóttir sem er einskonar ljósmóðir átaksins segir að það minni á EverydaySexism, sem var átak sem hófst árið 2012 gegn áreiti og misrétti sem konur verða fyrir en stendur enn. Þegar ég skrifaði um EverydaySexism skoðaði ég bara vefsíðuna en það er líka á Twitter og samkvæmt því sem þar stendur bárust 40.000 tvít bara í dag.

Íslenskumælandi tvítarar slá það met seint, en af þeim frásögnum sem hrúgast inná Hversdagslegt misrétti er áreitið og misréttið hér á landi alveg á pari við það sem gerist erlendis, sé miðað við höfðatölu auðvitað. Af þeim lýsingum sem þar má lesa koma konur jafnt sem karlar með óviðeigandi eða hallærislega gamaldags athugasemdir og smána þannig manneskjuna sem fyrir því verður, hvort sem það er stelpa, kona, strákur eða karl. Fjölmörg dæmi eru um það á síðunni, skrifuð af báðum (eða fleiri) kynjum. Ógeðfelldustu athugasemdirnar og kynferðislega áreitið er þó áberandi í eina áttina: karlar á öllum aldri eru þar gerendur, kvenfólk á öllum aldri þolendur.

Það sem vakti mesta athygli mína þegar ég las fréttir um átakið, og fylgdist með því vinda fram, er að það er afar lítil mótstaða eða gagnrýni komin fram. Örfáir ungir karlmenn tuða eitthvað en eru ekki dónalegir eða með hótanir. Öðru vísi mér áður brá, hugsaði ég, minnug sturlunarinnar sem greip um sig þegar myndaalbúmið Karlar sem hata konur sýndi framá hugsunargang karlmanna, þennan sama hugsunarhátt og er uppspretta þess misréttis og áreitni sem konur á öllum aldri verða fyrir. Úlfúðin sem Karlar sem hata konur vakti hefur síðan oft verið endurtekin þegar gerður er aðsúgur að konum sem segja frá nauðgunum eða ofbeldi sem þær urðu fyrir af hálfu karlmanns. En bara ef þær nafngreindu nauðgarann og ofbeldismanninn, annars fengu þær undantekningalítið samúð og skilning.

Og þar í liggur munurinn og ástæða þess að Hversdagslegt misrétti hefur ekki fengið yfir sig holskeflu af ógeði og hótunum: sögurnar eru af nafnlausum karlmönnum. Meðan eingöngu er sagt að gerandinn í sögunni sé „maður, strákur, yfirmaður minn, eldri maður í ræktinni“ nýtur átakið ef til nokkurs skilnings, jafnvel má álíta að einhverjir (karlmenn) verði miklum mun fróðari hvernig hlutskipti það er að verða fyrir áreitni og misrétti eins og sögurnar sýna. En það er bara meðan þær eru ekki að „eyðileggja líf“ karlmanna, meðan enginn karlmaður sem hefur hikstalaust látið útlitstengdar eða kynferðislegar athugasemdir vaða, er afhjúpaður sem karlpungurinn sem hann er. Þá er hætt við að átakið velgi karlveldinu undir uggum. Við vitum núorðið hvernig það bregst við.

Efnisorð:

þriðjudagur, apríl 14, 2015

GT

Enda þótt ég vilji Reykjavíkurflugvöll burt er ég ósátt við að Valsmönnum sé gefið leyfi til að byrja að grafa við eina flugbrautina til að undirbúa byggð þar áður en Rögnunefndin hefur lokið störfum. Ég hef samt ekkert sérstaklega fylgst með fréttum af þessu brambolti Valsmanna fyrr en í dag að ég renndi yfir frétt á Vísi þar sem sagt var frá því að byrjað væri að grafa. Það sem vakti athygli mína var texti við myndina sem fylgdi fréttinni. Myndin er af gröfu að grafa og þar sem ég er ekki góð í ættrakningu skurðgrafa hefði ég ekki gefið henni gaum ef ekki hafði staðið undir myndinni: Skurðgrafa frá GT-verktökum mokar við Hlíðarenda í dag.

Þetta varð til þess að ég las allar fréttirnar á Vísi um þessar framkvæmdir og fann þá frétt þar sem kom fram að „fulltrúar Reykjavíkurborgar, Knattspyrnufélagsins Vals og Valsmanna hf. rituðu undir verksamninga við GT-verktaka um lagningu framkvæmdavegar að Hlíðarenda og sköpun vinnuaðstöðu“.

Fyrir alllöngu síðan fylgdist ég með fréttum af GT-verktökum og var talsvert upptekin af siðferði fyrirtækisins og eigenda þess (ég veit ekki til að fyrirtækið hafi skipt um eigendur, en vefsíða þess er óvirk og ég get hvorki sannað það né afsannað) og nú skal rifjað upp það sem auðveldast var að grípa úr fréttum um GT-verktaka á góðærisárunum, þegar peningar höfðu meira vægi en líf fólks og heilsa. GT-verktakar voru nefnilega meðal þeirra sem unnu við Kárahnjúkavirkjun, eða ölluheldur, höfðu hér erlent verkafólk á smánarlaunum sem var reynt að kúga eða múta til að halda kjafti þegar fyrirtækinu var stillt upp við vegg og láta það taka ábyrgð á launþegum sínum.

Elstu fréttirnar er frá 2005 þegar upp komst að GT-verktakar höfðu haft fjóra lettneska starfsmenn í vinnu við Kárahnjúka án tilskilinna atvinnuleyfa frá Vinnumálastofnun eða dvalarleyfa frá Útlendingastofnun.

Nokkru síðar sögðu forsvarsmenn GT- verktaka að fyrirtækið væri „lagt í einelti af yfirtrúnaðarmanni starfsmanna Kárahnjúka, Vinnumálastofnun og Verkalýðsfélögum“.
„Forsvarsmennirnir segja að þeim ofbjóði yfirlýsingar yfirtrúnaðarmannsins, Odds Friðrikssonar, í Fréttablaðinu í gær um aðbúnað tveggja lettneskra ríkisborgara sem átt hafi að starfa hjá fyrirtækinu. Mennirnir njóti sama aðbúnaðar og aðrir starfsmenn sem starfi á Kárahnjúkum.

„Við hjá GT verktökum teljum afskipti Odds yfirtrúnaðarmanns af fyrirtækinu vera orðin siðlaus og hafa skaðað fyrirtækið all verulega," segir í yfirlýsingu forsvarsmannanna. Alltaf sé talað um ólöglega starfsmenn þrátt fyrir að dómstólar hafi ekki skorið úr um hvort svo sé. Fyrirtækið telji sig hafa farið að lögum.“
Auðvitað vildu þeir vera taldir saklausir þar til sekt þeirra sannaðist, eins og sannir herramenn.

Nú spóla ég fram til ársins 2007 þegar rúta fór útaf í Fljótsdal rétt hjá Kárahnjúkum. Um þrjátíu menn voru í rútunni. Í frétt segir að „farþegarnir voru allir verkamenn hjá Verktakafyrirtækinu Arnarfelli sem byggja hraunaveitu í Jökulsá í Fljótsdal.“

En hvað kom í ljós?
„20 af þeim 29 mönnum sem lentu í bílslysinu á Bessastaðafjalli í Fljótsdal á sunnudaginn eru ekki skráðir löglega hér á landi, segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. Gissur segir að ekki hafi verið greidd lögbundin gjöld af launum sumra þeirra á árinu. [E]igandi GT-verktaka segir að ráðningarsamningum fjögurra manna sem unnu hjá fyrirtækinu og lentu í slysinu hafi ekki verið skilað til Vinnumálastofnunar vegna sumarfría. „Þetta var bara smá seinagangur hjá okkur." [Hann] segir að ráðningarsamningum mannanna fjögurra við verktakafyrirtæki í Lettlandi, sem þeir eru samningsbundnir, verði skilað til Vinnumálastofnunar á næstu dögum.“
Arnarfell hefur þá greinilega verið í sama seinaganginum, en það var semsagt alveg óviljandi að allir þessir starfsmenn voru utan laga og reglna á landinu. Sem þýðir þá um leið að þeir gátu ekki sótt rétt sinn varðandi laun eða aðbúnað, og ekki átt rétt á sjúkraþjónustu.

Og síðar sama ár:
„Í tilkynningu frá starfsgreinafélagi Austurlands, AFL, er því haldið fram að starfsmenn GT verktaka hafi í morgun hótað verkamönnum sem unnið hafa fyrir fyritækið undanfarið. Í tilkynningunni er því haldið fram að starfsmenn GT verktaka, eða samstarfsaðila þeirra, hafi í morgun gengið á fund þrettán verkamanna sem hafa haldið því fram að hafa fengið of lág laun fyrir vinnu sína, og hótað þeim öllu illu þekkist þeir ekki tilboð um að fara úr landi. Þá er því einnig haldið fram að mönnunum hafi verið boðið vín og peningar til að láta framburði sína niður falla og halda úr landi.“

Hlynur Hallsson þáverandi varaþingmaður VG sagði í framhaldi af ofangreindu á bloggi sínu:
„Það er óhugnanlegt að horfa uppá þessa GT verktaka haga sér eins og verstu mafíubófa. En það er svo sem ekki langt í fyrirmyndirnar. Þessi þrælkun á erlendum verkamönnum hefur viðgengist árum saman upp á Kárahnjúkum og nú einnig íverktakabransanum í Borginni. Starfsmannaleigur er orðið dulnefni fyrir þrælahald.“

GT-verktakar voru ekkert einir um þetta. En árið 2008 voru þeir (eða öllu heldur Nordic Construction Line sem var lettneskt skúffufyrirtæki eigendanna) þó dæmdir til að greiða 12 fyrrverandi starfsmönnum sínum laun á uppsagnarfresti og önnur vangoldin laun.
„Brotin fólu meðal annars í sér að starfsmenn voru látnir kvitta fyrir móttöku hærri launa en þeir í raun fengu og féllst héraðsdómur á málatilbúnað starfsmannanna hvað þetta atriði varðar.
Greiðslur sem NCL var dæmt til að greiða nú voru alls að upphæð um 3,5 milljónir en áður hafði GT / NCL viðurkennt greiðsluskyldu sína að upphæð 4,3 milljónir og greitt. Það voru því alls um 8 milljónir króna sem málið snerist um þrátt fyrir að mennirnir hafi aðeins verið við störf hér í skamman tíma.“

Einhvernveginn hefði ég ekki haldið að menn — þá á ég við borgarstjórn, hafi hún einhverju ráðið um hverjir voru fengnir til verksins, en aðallega Valsmenn — væru svo skyni skroppnir að þeir fengju svo umdeilt fyrirtæki til að grafa svo umdeildar holur fyrir svo umdeilda íbúðabyggð.

En auðvitað skiptir siðferðið engu í byggingabransanum nú frekar en fyrri daginn. Viðskiptavinir eru eflaust í röðum hjá GT verktökum.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, apríl 11, 2015

Framsókn og flokkun á fólki

Borgarráð hefur samþykkt að leitað verði eftir samstarfi við sjálfseignarstofnanir, húsnæðissamvinnufélög og leigufélög sem rekin eru án hagnaðarhugsjóna um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á lóðum í Vesturbugt við Reykjavíkurhöfn.

Sjálfstæðismenn lýstu vonbrigðum með að einkafyrirtæki væru útilokuð með þessum hætti. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina greiddi einnig atkvæði gegn tillögunni (og færði fyrir því rök sem lesa má um í fréttinni).

Sjálfstæðismenn vildu bæði tefja málið og gagnrýndu „hversu seint það hefði gengið hjá meirihlutaflokkunum í borgarstjórn að leggja fram raunhæfar tillögur til úrbóta á húsnæðismarkaði“. En aðallega vilja þeir auðvitað að þeir og einkavinir þeirra með hagnaðarhugsjónir fái að komast að kjötkötlunum. En þetta á ekki að vera um Sjálfstæðismenn, þetta er ekki þeirra helgi.

Einna brýnastur húsnæðisvandi blasir við þeim sem síst hafa efni á að kaupa eða leigja. Framsókn hefur viðrað þá lausn að nota gáma til að leysa húsnæðisvanda þeirra. Eygló Harðardóttir framsóknarþingmaður og félags- og húsnæðismálaráðherra sýndi t.a.m. myndir af glæstum gámum á bloggsíðu sinni og var greinilega að reyna að fá almenning til að sjá gámana sem góðan kost.

Alltaf eru einhverjir sem geta hugsað sér hvaða lausn sem er úr erfiðri stöðu (og það er skiljanlegt) en öðrum finnst gámar afar slæm hugmynd og sjá fyrir sér Eimskipsgáma og finnst tilhugsunin nöturleg. Sú lausn að setja fólk í gáma rifjar líka upp fyrir fólki að á stríðsárunum var fólki leyft að flytja í bragga — einnig vegna gríðarlegrar húsnæðiseklu og það átti að vera tímabundin lausn. Raunin varð sú að búið var í bröggunum í þrjátíu ár (þá sögu rakti Eggert Bernharðsson í bókinni Undir bárujárnsboga) og það er ekki síst sú tilhugsun sem fælir fólk frá því að samþykkja að fólk eigi að búa í ódýrustu gerð af húsnæði sem þar að auki hefur annað útlit en hús hins almenna borgara. Reynslan af bröggunum sýnir að slíkri búsetu fylgir stimpill og íbúarnir eru álitnir annars flokks fólk. Íslendingar eru ekkert fordómalausari nú.

Líf Magneudóttir varaborgarfulltrúi Vinstri grænna kallaði hugmyndir Framsóknar „gámagettó“ í pistli sem hún skrifaði til höfuðs þessum hugmyndum.

En það eru annarskonar gettó sem ég fór að hugsa um þegar ég sá að Eygló sagði hróðug að Framsókn hefði „þegar tekið stór skref í einföldun á byggingarreglugerðinni og nú er ætlunin að lækka verð á byggingarefni með afnámi vörugjalda.“ Það var þetta með byggingarreglugerðina sem truflaði mig, því mér finnst „einföldun“ hennar hafa verið afturför. Ég veit reyndar ekki hversu margar, ef nokkrar íbúðir (hvað þá af smærri og ódýrari gerðinni) hafa verið byggðar samkvæmt þessari byggingarreglugerð sem sett var árið 2012 og þar til henni var breytt í mars í fyrra af Sigurði Inga Jóhannssyni þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra Framsóknarflokksins.
„Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur undirritað breytingu á umdeildri byggingarreglugerð. Byggingareglugerðin sem var samþykkt í desember árið 2012 hefur sætt mikilli gagnrýni frá arkitektum og byggingaverktökum allt frá því að hún var fyrst kynnt. Reglugerðin þótti róttæk vegna þess að hún miðaði að því að gera sem flestar íbúðir aðgengilegar og nothæfar fyrir fólk með líkamlegar fatlanir.

Á undanförnum mánuðum hafa æ fleiri haldið því fram að þær stífu kröfur sem reglugerðin gerir um lágmarksstærðir á rýmum í íbúðum, kröfur um lyftur í fjölbýlishúsum með fleiri en tvær hæðir, og fleira, standi í vegi fyrir byggingu lítilla og ódýrra íbúða. Reglugerðin hefur meðal annars staðið í vegi fyrir byggingu íbúða í gámum, en mikið hefur verið fjallað um slíkar hugmyndir að undanförnu.“
[úr frétt DV]

Þegar hin Vinstri græna Svandís Svavarsdóttir var umhverfis- og auðlindaráðherra fékk hún fyrirspurn um byggingarkostnað sem Sigurður Ingi, þá óbreyttur fótgönguliði, lagði fram. Í svari hennar kom meðal annars fram:
„Einnig má benda á að nýrri byggingarreglugerð er ætlað að stuðla að nýrri hugmyndafræði við hönnun, þar á meðal vegna aðgengis fatlaðra og minni hreyfigetu aldraðra. Breytt hugmyndafræði, svokölluð algild hönnun, krefst þess að tekið sé mið af þörfum allra frá upphafi hönnunar mannvirkis.

Þessu til viðbótar má nefna að breytt ákvæði byggingarreglugerðar geta falið í sér þjóðhagslegan ávinning. Sem dæmi um slíkt eru ákvæði um algilda hönnun íbúðarhúsnæðis sem auka líkur á því að fólk geti búið í íbúðum sínum þegar það eldist, veikist eða slasast og þörfin fyrir sérhæft húsnæði og stofnanir minnkar.“
Ef þessi reglugerð hefði fengið að standa óbreytt og eftir henni hefði verið byggt, hefði með tímanum orðið til húsnæði sem fólk gat búið í frá vöggu til grafar ef það vildi. Núna er það þannig að skerðist hreyfigeta fólks vegna aldurs, slysa eða sjúkdóma, þá þarf það — sé það svo heppið að biðlistinn sé ekki lengri en ævi þess — að flytjast á heimili eða í sérhannaðar blokkir fyrir fólk ‘af sínu tagi’ (blokkir fyrir aldraða eru gjarnan við miklar umferðaræðar og enginn kemst þangað nema á bíl). Þar búa ekki „venjulegir Íslendingar“, börn eða gæludýr, og þannig er búin til fyrirtaks einangrunargildra fyrir íbúana með sérþarfirnar. Aldraðir sér. Fatlaðir sér. Við hin, þessi bráðungu og ófötluðu, erum líka laus við að sjá svona fólk og það verður okkur framandi, og okkar helsti ótti er að verða eins og þau og lenda í þeirra sporum. Hin mjög svo skrifræðislega byggingarreglugerð sýndi afar manneskjulega viðleitni til að snúa af þessari braut aðskilnaðar.

Öryrkjabandalag Íslands mótmælti því að byggingarreglugerðinni yrði breytt og benti á að hún væri að hluta til byggð á
„breyttri hugmyndafræði, svokallaðri algildri hönnun. Samkvæmt hugmyndafræðinni er þess krafist að við hönnun mannvirkja sé frá upphafi tekið mið af þörfum allra, þar á meðal fatlaðra og þeirra sem búa við skerta hreyfigetu … Öryrkjabandalagið telur að með því að beina fötluðu fólki og fólki með skerta hreyfigetu í sér húsnæði án eðlilegs sambýlis við aðra landsmenn, sé stuðlað að aðskilnaðarstefnu.
“
Samtök iðnaðarins, afturámóti lögðust þversum af vanþóknun, fóru í fundaherferðir um landið og mótmæltu reglugerðinni því þeir vildu „ að aðrar kröfur verði gerðar til húsnæðis fyrir fatlaða og öryrkja.

 “

Og auðvitað urðu gettó-sjónarmið Samtaka iðnaðarins ofaná, með góðfúslegri hjálp Framsóknar.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, apríl 09, 2015

Langdreginn dauði

Fyrir nokkrum dögum var glaðleg frétt um steypireyði sem synti um í Skjálfandaflóa, ferðamönnum á hvalaskoðunarferð til mikillar ánægju. Steypireyður er stærsta skepna jarðarinnar og er alfriðuð. Það var nú heppilegt fyrir hana. Annars hefðu blessaðir andskotans hvalveiðimennirnir murkað úr henni lífið.

Síðastliðið sumar skrifaði ég pistil um útvarpsþátt þar sem heyra mátti þegar tvær langreyðar voru skotnar. Annar hvalurinn drapst ekki strax og taldist mér til að liðið hefðu um fjórar mínútur þar til hann var skotinn aftur og varð það skot hvalnum að bana. Ég hafði þó óþægilegan grun um að tíminn sem leið á milli skotanna hefði allt eins getað verið lengri því eitthvað var upptakan klippt til fyrir þáttinn.

Grunur minn reyndist á rökum reistur. Viku áður en steypireyðurin gladdi ferðamenn á Skjálfandaflóa var kynnt rannsókn sem gerð var á dauðatíma langreyða hér við land. Rannsóknin leiddi í ljós að

16% hvalanna drapst ekki í fyrsta skoti
Það tekur 8 mínútur að hlaða byssuna aftur og skjóta seinna skotinu
8 hvalir lifðu í styst 6,5 mínútur (sem er furðulegt miðað við 8 mínútna hleðslutíma)
og lengst í 15 mínútur þar til þeir voru skotnir aftur

Fimmtán mínútna dauðastríð — er það ásættanlegt? Ekki að mér finnist rúmlega sex mínútna dauðastríð fínt, ég var satt að segja nokkuð miður mín þegar ég hélt að það væri fjórar mínútur.

En fiskistofustjóri segir niðurstöðuna góða. Hann er reyndar að miða við hvernig Norðmönnum gengur að murka lífið úr hvölum almennt en þeir veiða reyndar hrefnu, ekki stórhveli. Rannsóknir á hrefnum í dauðateygjunum fara fram í sumar hér við land og undir árslok á að halda ráðstefnu þar sem niðurstöðurnar verða kynntar. Ég mun fylgjast með, með óbragð í munni.

Efnisorð:

miðvikudagur, apríl 08, 2015

Ömurlegt drasl!

Rektorskjör í Háskóla Íslands stendur fyrir dyrum. Óvenju margar fréttir af rektorsframbjóðendum og hugðarefnum þeirra hafa birst en líklega er það vegna þess nýmælis að einn frambjóðenda er ekki úr akademísku starfsliði skólans. Nú vill svo til að ég hef fylgst með skrifum þessa frambjóðanda í mörg ár og get engan veginn mælt með honum í starf rektors Háskóla Íslands. Það má vel vera að hann yrði stórkostlegur rektor einhvers annars skóla, en hann á ekkert erindi í þetta starf í þessum skóla.

Ekki ætla ég að leggjast í miklar rannsóknir á sálarlífi, ferli eða persónugöllum Einar Steingrímssonar, en vil þó koma á framfæri nokkrum atriðum sem nemendur og starfsfólk HÍ ættu að hafa í huga ef þeir íhuga að kjósa Einar.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa um það mörg orð sjálf, best er að vitna beint í manninn sjálfan. Fyrir þau sem ekki þekkja til er þó líklega best að taka fram að Einar hefur horn í síðu feminista og feminískra fræða (og er það vægt til orða tekið, raunar er hann haldinn stæku feministahatri) sem birtist með ýmsum hætti. Væri hægt að skrifa langan pistil um það en vegna rektorskjörsins verður þó einblínt á ummæli sem hann hefur látið falla um háskólann, háskólagreinar og akademíska starfsmenn skólans.

Ég er ekki ein um að hafa áhyggjur af viðhorfi Einars til feminsta og feminískra fræða því Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands sendi honum fyrirspurn um viðhorf hans til jafnréttis. Hann virðist hafa tekið fyrirspurninni sem áskorun og snýr útúr spurningunum sem mest hann má. Þannig tekst honum alveg að hunsa undirliggjandi spurninguna (sem hefði vissulega mátt svara beint): hver eru viðhorf þín til kynjafræðikennslu í Háskóla Íslands? Útúrsnúningssvör hans má lesa hér.

Einar hefur nefnilega ekki farið dult með andúð sína á kynjafræði. Þetta hefur hann t.a.m. að segja í bloggpistli:
„Ég fjallaði svolítið um umrædda „rannsókn“ í áðurnefndum pistli en mun gera það nánar síðar, enda virðist hún lýsandi dæmi fyrir þá afstöðu til raunveruleikans sem einkennir hina svokölluðu kynjafræði við Háskóla Íslands.“
Og á öðrum vettvangi:
„Þetta eru sams konar rök og þegar maður gagnrýnir þvæluna í "kynjafræðingum": Æ Þú skilur ekki hvað þú ert mikil karlremba af því að þú hefur aldrei lært kynjafræði.““
Það getur varla verið heppilegt að rektorsefnið hafi svo lítið álit á fræðigrein sem kennd er innan skólans sem hann vill stýra.

Fyrir nokkrum árum skrifaði Einar einnig um tilgangsleysi kennslugreinar sem kennd er á menntavísindasviði háskólans.
„Ég held að það sé óþarfi, og því rangt, að krefjast þriggja ára bóklegs háskólanáms, hvað þá fimm, af leikskólakennurum. Ég held líka að rangt sé að líta á leikskóla sem undirbúning fyrir grunnskólanám. Fólk sem vinnur á leikskólum þarf að geta haft ofan af fyrir börnunum, þ.á.m. með áhugaverðum leikjum og föndri og jafnvel stundum einhverju sem gæti líkst því sem gert er í fyrsta bekk grunnskóla, en til þess þarf enga sérstaka menntun, a.m.k. ekki umfram grunnskólamenntun. Umfram allt þarf þetta fólk að geta látið börnunum líða vel og séð til þess að þeim leiðist ekki mikið. Hins vegar ætti að greiða leikskólakennurum hærri laun, hafi ég skilið rétt hver laun þeirra eru.“
Fleiri en ég hafa greinilega verið að gúggla viðhorfum Einars í tilefni rektorskjörsins og fundið facebook þráðinn þar sem umræðan um leikskólakennaranámið fór fram, og hefur umræðan tekið kipp nú í mánuðinum, og þá segir frambjóðandinn Einar þetta:
„Ég man ekki í hvaða samhengi ég lét þessi orð falla, en ímynda mér að það hafi verið einhvers staðar þar sem ég vildi gjarnan fá opinskáa umræðu um hlutverk leikskóla, enda finnst mér sjálfsagt að ræða þetta eins og allt annað í samfélaginu hispurslaust og án þess t.d. að gefa sér fyrirfram að tiltekin störf séu merkilegri en önnur.“
Og
„Svo er líka rétt, þar sem þessi þráður varð til fyrir tveimur og hálfu ári, að undirstrika það sem ég hef hamrað á þegar ég er spurður um hinar og þessar greinar innan háskólans, og hvernig ég myndi taka á þeim sem rektor, að ég tel ekki að rektor eigi að taka ákvarðanir um einstakar greinar innan skólans og hvernig þær eru stundaðar. Þar er leikskólafræði og menntun leikskólakennara engin undantekning; ákvarðanir um akademískt starf innan skólans á að öllu jöfnu að taka í því jafningjasamfélagi sem það tilheyrir, yfirleitt innan viðkomandi sviðs eða deildar.“
Og svo bakkar hann rosalega hér (enda í framboði):
„Ég dreg hér með tilbaka það sem ég sagði um að það þyrfti enga menntun umfram grunnskóla til að vera leikskólakennari. Það var of langt gengið.“
Og
„Eins og þú hefur tekið eftir tel ég ekki að leikskólakennarar þurfi ekkert nám, enda var þessi status ekki skrifaður (fyrir tveim og hálfu ári) sem stefnuyfirlýsing byggð á ítarlegri undirbúningsvinnu, heldur einmitt sem ögrandi status á Facebook, í þeim tilgangi að fá fram umræður, sem virðist vera að takast afar vel.“
Það er alltaf góð málsvörn að segjast bara hafa ætlað að ögra. Meinti ekkert með þessu krakkar mínir, var bara að stríða ykkur. Ætliði ekki örugglega að kjósa mig?

Þegar Einar tilkynnti framboð sitt fékk hann svohljóðandi stuðningsyfirlýsingu í athugasemdakerfi bloggsíðu sinnar.
„Ég styð Einar eindregið. Háskólinn er í tómu tjóni og núverandi rektor hefur orðið ber að dómgreindarleysi og tómum þvættingi.Furðulegt er að háskóli sem kveðst taka sig alvarlega haldi uppi námsbrautum á borð við „kynjafræði“. Þarna þarf að hreinsa út og Einar er rétti maðurinn til þess.“
Einar sagði reyndar, í fyrrgreindum facebook umræðum, til að taka af öll tvímæli um viðhorf sín til leikskólakennaranámsins (og þá kannski kynjafræðinnar líka eða annarra óæskilegra námsgreina) að
„sem rektor myndi ég einmitt ekki láta eigin persónulegu skoðanir ráða för varðandi starf sérfræðinga innan háskólans.“
Kannski heldur Einar að þessi yfirlýsing sé nóg. En varla er nemendum og kennurum sama um að rektorsefnið fyrirlíti heilu námsgreinarnar. Eða ætlar Einar kannski bara að vera rektor yfir raunvísindadeildinni?

Hér má sjá álit hans á tilvonandi undirmönnum sínum og skólanum sem hann hyggst stýra.
„Ég veit sannarlega að þú tilheyrir ekki þeim hópi, en ég skil auðvitað að þeir herskarar af kennurum við HÍ sem eru algert undirmálsfólk í fræðum sínum á alþjóðavettvangi séu dauðhræddir við að utanaðkomandi fái að sjá hvað þeir eru að gera.
[…]
Hins vegar skil ég svo sem ekki af hverju mér finnst þetta svona átakanlegt (nema það sé vegna þess að ég veit að þú tilheyrir þeim allt of fáu í HÍ sem eru alvöru háskólafólk en ekki feikandi undirmálslið). Ég ætti auðvitað að vera löngu búinn að sætta mig við að (forysta) HÍ er í menntamálum nákvæmlega eins og bankarnir fyrir hrun: Allt snýst um að falsa bókhaldið og auglýsingabæklingana nógu vandlega til að hægt sé að telja þeim sem enga innsýn hafa í alþjóðlegt háskólastarf trú um að HÍ sé annað og meira en ömurlegt drasl.“

Vonandi fær framboð Einars Steingrímssonar engar undirtektir. Maður sem hatast opinberlega við sumar námsleiðir skólans og hrakyrðir rannsóknaraðferðir heilu fræðigreinanna — og segir þetta allt vera ömurlegt drasl — er vægast sagt óheppilegur í stól rektors.

Efnisorð: ,

sunnudagur, apríl 05, 2015

Vörn fyrir orð

Alveg finnst mér það hrikalega vond hugmynd að nota enska orðið „nipple“ í staðinn fyrir geirvarta.

Til þess að rökstyðja það að hætta eigi að nota orðið er rifjað upp að það var valið ljótasta orð íslenskrar tungu — af 250 manns. Ég efast um að það þætti marktækt úrtak í skoðanakönnun, hvað þá ef fólk ætlar að láta eins og þetta val hafi eitthvað gildi.

En ef það á að fara að gera notkun orðsins hallærislega, þá finnst mér eins og það séu þarmeð skilaboð til íslenskra kvenna (og annarra geirvörtuhafa) að þær eigi að skammast sín fyrir geirvörtur sínar. Það var varla meiningin með brjóstabyltingunni.

Þá finnst mér ámælisvert að íslenskufræðingar lýsi sig hlynnta því að skipta geirvörtu út fyrir útlent orð, jafnvel þótt það eigi að vera hægt að nota á það íslenskar beygingarendingar. Geirvarta er nefnilega orð sem þeir ættu að kannast við af lestri Íslendingasagna. Því svo gamalt er orðið geirvarta.

Í Flóamanna sögu segir frá Þorgilsi Þórðarsyni (938 - 1020) sem einnig var kallaður Þorgils örrabeinsstjúpur. Hann bjó í Traðarholti í Flóa en þekktist heimboð frá Eiríki rauða og sigldi því til Grænlands. Ekki gekk þrautalaust að komast til Brattahlíðar því Þorgils varð skipreka í tvö ár ásamt fylgdarliði í vík undir Grænlandsjöklum. Á þeim tíma fæddist Þorgilsi og Þóreyju konu hans sveinbarn, en stuttu síðar er hún drepin.
„Og er þeir komu þar sjá þeir að hún var önduð en sveinninn saug hana dauða. Leituðu þeir um hana og fundu ben litla undir hendinni sem mjóvum hnífsoddi hefði stungið verið. Mjög var þar allt blóðugt. Þessa sýn hafði Þorgils svo séð að honum þótti mestur harmur í vera. Burt var sópað öllum vistum.

Um nóttina vill Þorgils vaka yfir sveininum og kvaðst eigi sjá að hann mætti álengdar lifa „og þykir mér mikið ef eg má eigi honum hjálpa. Skal það nú fyrst taka bragða að skera á geirvörtuna mér“ og svo var gert. Fór fyrst út blóð, síðan blanda og lét eigi fyrr af en úr fór mjólk og þar fæddist sveinninn upp við það.“
Restina af hrakningasögunni, og reyndar allt það sem á undan kom, má lesa í Flóamanna sögu, hún er hér í rafrænu formi en upphaflega var hún skráð á skinn á 14. öld. Í Gull-Þóris sögu sem er einnig frá 14. öld er einnig minnst á geirvörtu, þá í bardagalýsingu.
„Slær þar þegar í bardaga og snýr Þórir að Þorgeiri og höggur til hans með Hornhjalta og kemur á öxlina og sníður af höndina fyrir utan geirvörtuna.“
Elstu dæmin um notkun orðsins sem ég veit til að sé að finna í Íslendingasögum, er að finna í snoturri sögu frá 13. öld sem kölluð er Laxdæla. Þar er þar sjálf Guðrún Ósvífursdóttir sem nefnir geirvörtur í samtali sínu við Þórð Ingunnarson en hún er þá nýskilin við fyrsta eiginmanninn til að geta gifst Þórði. En í síðara Laxdæludæminu er framhald af því fyrra því þar er það fyrrverandi eiginkona Þórðar sem hefnir sín á honum eftir að hann er genginn í hjónaband með Guðrúnu.
„Þá vakti Auður Þórð en hann snerist á hliðina er hann sá að maður var kominn. Hún brá þá saxi og lagði á Þórði og veitti honum áverka mikla og kom á höndina hægri. Varð hann sár á báðum geirvörtum. Svo lagði hún til fast að saxið nam í beðinum staðar. Síðan gekk Auður brott og til hests og hljóp á bak og reið heim eftir það.“
Þórður lifði þó tilræðið af en drukknaði síðan samviskusamlega til að rýma sviðið fyrir Kjartans-og-Bolla dramað.

En semsagt. Allt frá 13. öld (og örugglega löngu fyrr) hefur orðið geirvarta verið notað um þennan líkamshluta. Ég sé ekki þörf á að breyta því til að þóknast fólki sem finnst íslenskan ekki nógu tvítanleg og töff.

Efnisorð: , ,

föstudagur, apríl 03, 2015

Tíðablæðingar, brjóstagjafir og líkamshár

Listakonan Rupi Kaur birti mynd af sér á Instagram þar sem sést örlítið af tíðablóði hennar. Myndin var fjarlægð þar eð hún taldist brjóta í bága við reglur Instagram. Svo fékk hún auðvitað sinn skammt af morðhótunum.*

Bandaríska blaðakonan Jessica Valenti hefur í framhaldi af þessu skrifað grein þar sem hún ræðir viðhorfin að baki því að samfélagsmiðlar hafna tíðablæðingum, brjóstagjöfum og myndum af fáklæddum konum ef þær eru ekki með nægilega grannan líkamsvöxt, en leyfa myndir af fáklæddum konum, kvenrössum og lítt huldum kynfærum svo framarlega sem þessir líkamspartar eru hárlausir.

Mér finnst þessi umræða um myndina af Rupi Kaur tengjast meira en lítið atburðum og umræðum hér á landi. Grein Jessicu Valenti (ég vara þau sem vilja lesa greinina við fáviskunni í athugasemdakerfinu) heitir „Samfélagsmiðlar verja karlmenn fyrir tíðablæðingum, brjóstamjólk og líkamshárum“.

Hér á eftir fer örlítill bútur úr greininni (sem ég þýddi lauslega):
„Það er í erfitt að ímynda sér að það séu konur sem móðgast við að sjá myndir af brjóstagjöf, ósnyrtum kynfærahárum eða tíðablóði – það er hversdagslegt fyrir okkur flestum. Það eru karlmenn sem þessir risastóru samfélagsmiðlar eru að „verja“ — karlmenn sem hafa alist upp við sótthreinsaðar og kynferðislegar myndir af kvenlíkömum. Afþreyingarmenningin, auglýsingarnar og þessháttar hafa talið karlmönnum trú um að kvenlíkaminn sé þarna bara fyrir þá. Og ef þeir þurfa að þola að sjá konur sem eru öðruvísi en grannar, hárlausar og tilbúnar í kynlíf - þá þarf að sækja fyrir þá ilmsaltið.“

Við sjáum þetta endurspeglast hér á landi í skammarræðum sem margir karlmenn, yfirleitt ungir að árum, skrifa við myndir af konum sem tóku þátt í brjóstabyltingunni.

___
* Þeir sem voga sér að skoða myndina af Rupi Kaur mega búast við að fyllast morðæði, viðkvæmum er bent á að smella ekki hér.

Efnisorð: , ,