laugardagur, nóvember 27, 2021

Blóðmerar 2: Meðferð á íslenskum hrossum kemst í kastljós fjölmiðla

 Fyrir þau sem ekki þekkja til hins viðbjóðslega iðnaðar með ‘blóðmerar’ þá er ítrekað tappað blóði af fylfullum hryssum til að selja. Blóðið er notað til að auka frjósemi svína. Grínlaust. 
Svona hljóðaði tölvupóstur sem ég sendi víða til að vekja athygli á myndskeiði því sem komst í hámæli í vikunni. 

Í fyrra
bloggaði ég um blóðmerarhald en fram að því hafði ég ekkert vitað um þennan ógeðfella iðnað þó hann hafi víst verið stundaður hér á landi í fjörtíu ár. 

En það er ekki nóg með að tappað sé af óviljugum dýrum blóði í tíma og ótíma, heldur er það alltaf gert með ofbeldi og stundum hreinlega af mikilli grimmd, eins og komið hefur í ljós í afar óþægilegu 20 mínútna myndbandi gerðu af alþjóðlegum dýraverndarsamtökum, Animal Welfare Founda­tion í Þýska­landi og Tierschutzbund Zürich í Sviss sem auk þess dreifðu 126 síðna skýrslu, en þessi dýraverndunarsamtök höfðu unnið að rannsókn blóðmerahaldsins hér í 2 ár

Flestu fólki með vott af siðviti blöskrar þessi meðferð á hestunum, þessum dálætisskepnum túristanna. En til eru þeir sem finnst jú óþarfi að beinlínis berja hryssurnar en að öðru leyti sé eðlilegt hvernig þær eru reknar í blóðtökubásana, og nauðsynlegt að binda höfuð í óeðlilega stellingu til að tryggt sé að skelfingu lostið dýrið slíti ekki blóðdæluna úr hálsslagæðinni.

Blóðmerarbóndi hefur meira segja skrifað grein og kvartað yfir myndbandinu og ósanngirninni í umræðunni. Matvælastofnun, en allt dýrahald fellur undir hana (sem er ósmekklegt svo ekki sé meira sagt) hefur bæði nú og áður þegar eftir því hefur verið leitað, leggur blessun sína yfir allt nema beinlínis mest brútal ofbeldið sem sást í myndbandinu. 

Þegar Inga Sæland ásamt þremur öðrum þingmönnum flutti frumvarp um að banna blóðtökur úr hryssum skrifaði einmitt MAST álit gegn því. Sem og fjölmargir hagsmunaðilar. 
Kjarninn tók saman umsagnir við frumvarp Ingu Sæland, þar af skilaði Arn­þór Guð­laugs­son fram­kvæmda­stjóri Ísteka (sem kaupir blóðið af bændum og heldur einnig hross til þess að tappa af þeim blóði). inn umsögn. Arnþór sést einmitt í myndskeiðinu þar sem hann reynir að stoppa myndatökur. Dýralæknar skrifuðu einnig umsögn og voru á móti banni við blóðmerarhaldi. Sem og hrossabændur á Norðurlandi.

Henry Alexander Henrysson siðfræðingur situr í fagráð um velferð dýra vinnur nú að ályktun vegna myndskeiðsins. Aðspurður um eftirlit með starfseminni sem er á höndum Matvælastofnunar og dýralækna segir hann: 
„Á blaði virðist þetta vera öflugt eftirlit. Ég held það þurfi að finna aðrar leiðir til að bæta í þetta eftirlit, þegar það er augljóst að við getum ekki treyst öllum fyrir þessari starfsemi. Það eru alveg til leiðir til að tryggja að eftirlitið sé ítarlegra, þær geta verið kostnaðarsamar, og ef það stendur ekki undir sér held ég að samfélagið ætti að íhuga hvort það sé ekki bara sjálfhætt með svona starfsemi.“ 
Formaður félags hrossabænda segir í viðtali við RÚV:
„Það voru auðvitað aðfarir og aðbúnaður þarna sem við getum auðvitað ekki sætt okkur við að sé viðhafður í þessu starfi eða hestahaldi yfirleitt. Nú er búið að stunda þennan blóðhryssubúskap í uppundir 40 ár og að umgjörðin sé ekki betur úr garði gerð eftir allan þennan tíma, eins umfangsmikið og starfið er - er algjörlega óviðunandi,“ og Sveinn sagði að í búskapnum þyrftu velferð, ásýnd og meðferð lands að endurspeglast. „Því er það kannski enn meira sjokk fyrir okkur, sem trúðum því að eftirlitið væri nægjanlegt, að svona lagað hafi átt sér stað mögulega á síðustu tveimur árum.“ Hann sagði að það væri álitamál innan félags hrossabænda hvort búskapur sem þessi ætti rétt á sér. Sjálfsagt væri að hlusta á skýringar þeirra sem stunda þennan búskap. „En það er ekki bannað samkvæmt lögum að gera þetta og á því byggir starfið.“
Fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristján Þór Júlíusson segist sorgmæddur. MAST heyrir undir ráðuneyti hans sem og hrossarækt. 

En nú er vonandi almenningsálitið að snúast á sveif með veslings merunum. Skrif gegn blóðmerarhaldi sem hafa birst undanfarna daga og þar af fannst mér þessi bera af:

Ole Anton Bieltvedt er einn þeirra fyrstu til að vekja athygli á blóðmerarhaldi hér á landi
. Hann segir
Í flestum eða öllum öðrum ríkjum Evrópu fyrirbyggja reglur og lög um dýravernd og dýravelferð þetta blóðmerahald. Evrópuþingið er líka búið að samþykkja lög um dýravelferð, þar sem allur innflutningur á kjöti og afurðum úr blóðmerahaldi er bannaður. Þessi lög eiga að taka gildi 2023-2024. Einu löndin, sem blóðmerahald er leyft í, eru því í Suður Ameríku; Argentínu og Úrúgvæ. Í þessum löndum líðst blóðmerahaldið, enda velferð dýra þar varla á dagskrá, hvað þá hátt skrifuð, og dýravernd á lægsta plani.[…]  

Hvernig geta menn ímyndað sér, að þessi fjötrun ótaminnar hryssu og það ofbeldi, sem beita þarf dýrið, til að koma nál í háls og tappa 5 lítrum af blóði af því, geti farið fram með friði og spekt! Hræðsla og æsingur dýrsins byrjar þá strax, þegar folaldið er rekið frá því, og skelfingin og örvinglunin magnast auðvitað, þegar blóðtökumenn höggva aftur og aftur í sama knérunn, beita sama ofbeldinu, viku eftir viku, í 8-9 vikur. Auðvitað er ljóst, að blóðtaka getur einvörðungu farið fram með ofbeldi, barsmíðum og meiðingum; mannúðlegt og dýravænt blóðmerahald er ekki til!

Skýrslan og myndbandið, sem AWF og TSB dreifðu um síðustu helgi, sýna svo og sanna, að ályktun mín var rétt: Aðfarir íslenzkra bænda og dýralækna, alla vega margra þeirra, er ekki skömminni skárri, en gerist í Suður Ameríku. […]
Samúð með blessuðum dýrunum í lágmarki, en meðvirkni og stuðningur við Ísteka og bændur í hámarki. Skyldi MAST hafa ruglast í ríminu með það, hvert hlutverk þeirra er, hverjar skyldur þeirra eru og gagnvart hverjum? […] 
Þarfasti þjónninn kom okkur í gegnum hungur og harðæri dimmra alda. Og hver eru launin Heiftarlegt blóðmerahald og kvalræði útihalds. 60.000 hestar hafa ekkert þak yfir höfuðið og fæstir hafa aðgang að manngerðum skjólvegg, minnst 2 metra háum, sem veitir skjól fyrir helztu áttum, sem þó er lögboðið. Skjólveggir kosta peninga. Yfir hundrað dýr, líka folöld og trippi, urðu úti í fárviðri í hittiðfyrra.

Og, við þurfum að láta útlendinga benda okkur á aumingjaskapinn. Miklir andskotans aumingjar erum við!

Sif Sigmarsdóttir skrifaði einnig um meðferðina á hryssunum, athugið að þetta er sundur-og samanklippt úr stórgóðum pistli hennar sem vert er að lesa frá upphafi til enda: 

Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að hlutverk stofnunarinnar sé að vernda „heilsu manna, dýra og plantna“ og auka „velferð og verðmætasköpun í þágu þjóðarinnar“. […] Matvælastofnun lagðist gegn frumvarpi Ingu Sæland. […] 
Athæfi sem dýraréttarlögfræðingur kallaði dýraníð í vikunni á ekki að viðgangast bara af því að einhver fann leið til að hagnast á því. Það réttlætir ekki glórulausar blóðsúthellingar að halda sveitum í byggð.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, allur leiðari hans í heild: 
Enginn þarf að velkjast í vafa um að svonefndar blóðmerar eru beittar harðræði
hér á landi, eftir að hafa horft á hryllilega meðferð á þeim á myndum sem alþjóðlegu dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation gerðu nýverið opinberar. Þær voru teknar með földum myndavélum á bæjum íslenskra hrossabænda sem selja merablóð.

Málið er allt hið ógeðfelldasta, jafnt dýra­níðið sjálft, sem vanræksla opinberra stofnana og næsta augljós meðvirkni með harðneskjulegri græðginni í þessum efnum.
Dýrahald snýst í eðli sínu um dýravernd. En í þessum efnum hafa lögin þar að lútandi verið þverbrotin – og það árum saman. Eftir stendur sködduð ímynd af hrossarækt hér á landi og harla sprunginn stallur íslenska hestsins, sem hefur verið eitt af einkennistáknum íslenskrar þjóðmenningar um aldir, enda einstakur á heimsvísu fyrir fjölhæfni sína. 
Kjarni þessa máls er sá að ómögulegt er að taka blóð úr ótömdum og hálfvilltum hryssum í sérstökum blóðtökubásum án þess að beita þær harðræði, svo sem myndir dýraverndarsamtakanna sanna, en dýrin eru þar bundin í þröngu hólfi, höfuðið reyrt upp og slám skotið yfir og aftan við þau áður en slagæðin á hálsi er rofin og fimm lítrum er tappað af skelfingu lostinni merinni næstu fimmtán mínúturnar – og vel að merkja, allan þann tíma reynir hún allt hvað af tekur að brjótast úr búri sínu. 
Eftir þennan ótuktarskap stendur hryssan varla undir sér, enda búin að missa 15 prósent af blóði sínu – og til að bíta höfuðið af skömminni er athæfið svo endurtekið næstu átta vikur, en þá er búið að tappa af dýrinu sem nemur heildarblóðmagni þess. 
Allt er þetta gert til að svala gróðahyggju mannsins, ekki aðeins þeirra liðlega hundrað bænda sem leyfa þennan óskunda á býlum sínum, heldur líka forkólfa fyrirtækisins Ísteka sem kaupa árlega um 170 tonn af blóði úr þúsundum mera til að auka frjósemi gyltna á svínabúum, en PMSG-hormónið úr fylgju blóðmerarinnar, sem sprautað er í gylturnar, rýfur tíðahring þeirra svo hægt er að sæða þær miklu oftar. Níðingsskapurinn á blóðmerum er því gerður til að fjölga grísum á færibandi í iðnaðarframleiðslu. 
Matvælastofnun skrifar upp á þessi ósköp. Því fari fjarri að „augljóslega þurfi að beita hryssurnar ofbeldi“ við aftöppun blóðsins, eins og segir í einu svara hennar. Þau orð eru komin á öskuhauga eftirlitsins.

Efnisorð: ,