miðvikudagur, nóvember 28, 2012

Rauða hliðið og skuldsettu heimilin

Eitthvert mesta óréttlæti samtímans eru reglur um tollskyldan varning. Fréttablaðið beitir sér nú af alefli gegn þessu óréttlæti. Auk þess að hafa undanfarnar vikur fjallað um þetta brýna baráttumál þá hafa þrjú blöð það sem af er þessari viku (mán þri,mið), þar af forsíða og leiðari, verið notuð til að brýna stjórnvöld til að breyta þessu.

Ritstjóranum hefur greinilega horn í síðu ríkisstarfsmanna og virðast þeir vera helstu óvinir venjulegra fjölskyldna, en eins og allir vita er venjuleg fjölskylda „í nýlegum fatnaði og sæmilega græjuvædd“. Svoleiðis fjölskylda er aðeins að„drýgja kaupmáttinn með því að verzla í útlöndum“ en tollverðirnir eiga ekki að „skipta sér af snjallsímum“. Þeir ættu bara að vera tollfrjálsir enda mestu nauðsynjavörur samtímans, ættu í raun að fylgja matargjöfunum hjá hjálparsamtökum.

Í dag segir fjármálaráðherra að hún sé farin að skoða málið alvarlega, og virðist því herferð Fréttablaðsins bera árangur. Þá geta vonandi sæmilega græjuvæddar venjulegar fjölskyldur flykkst til útlanda sem aldrei fyrr og komið heim hlaðnar góssi. Vonandi verður allt þeirra líf betra við þessa breytingu og kannski minnkar þá andskotans vælið um hvað heimilin þjáist og fjölskyldum blæði út og það sé öllum öðrum en kaupóða liðinu sem býr á skuldsettu heimilinum að kenna.

En gott er til þess að vita að Fréttablaðið stendur með smælingjunum.

___
[Viðbót:] 10. desember skrifar Ólafur Þ. Stephensen enn leiðara um þetta brýna mál. Nú dregur hann ekki lengur dul á að stjórnmálamenn eigi að hampa neysluhyggjunni (minnir á kosningarnar í vor) og fullyrðir að tollareglurnar séu „mannfjandsamlegar“.

Efnisorð: ,

sunnudagur, nóvember 25, 2012

Lítilsháttar tölfræði

Enda þótt ég hafi hnýtt í tölfræðiáráttu og súluritanotkun nýlega þótti mér ansi skemmtilegt að lesa Fréttablaðið síðustu helgi. Þar var sú nýbreytni að á næstum hverri blaðsíðu var búið að taka saman yfirlit yfir hitt og þetta og birta í tölum. En þó mér hafi líkað þessi nýbreytni var ég fegin að sjá að tölfræðiupplýsingarnar virðast eiga að einskorðast að mestu við helgarblöðin.

En af þessu tilefni ætla ég samt sem áður að tolla í tískunni. Í stað þess að stilla upp lof og last lista þá verða teknar saman tölulegar staðreyndir (og vegna þess að ég er talnaheft þá eru tölurnar lágar svo ég ráði við þær, engar tveggja stafa martraðir).

2
Tveir tryllingslega fyndnir feministar:

Ingólfur Gíslason sem samdi reglurnar fyrir drykkjuleik feminista (ég hef síðan verið óökufær og varla gangfær sökum drykkju)

Anna Bentína Hermansen og fyrsti pistill hennar af 10.456.

1
Skipti sem ég skellti uppúr við lestur Fréttablaðsins: Eitt. Ástæðan var pistill Bergsteins Sigurðssonar um húmor.

(Aftur 1 en að þessu sinni ein-elti)
Undanfarið hafa aðdáendur Egils Gillz Einarssonar farið hamförum í athugasemdakerfum til að verja þessa fyrirmynd sína og sakað þá sem gangrýna hann um að leggja hann í einelti.

Agnar Kr. Þorsteinsson bendir á fyrir hvað Gillz er fyrst og fremst þekktur, þarna sé um að ræða „mann sem hefur markvisst gert sig að opinberri persónu með því að vekja athygli á sér með öfgakenndum stælum og níðrandi athugasemdum í garð fólks og þjóðfélagshópa sem teljast til minnihluta samfélagsins.“

Egill Gillz Einarsson sé „fulltrúi normaliseringu eineltis umræðum“. Áhrifin séu greinileg (og greinilega skaðleg) því „fylgjendur þessarar fyrirmyndar sýna hvað best þau áhrif sem þessi 2007-legi tákngervingur upphafningar heimsku, mann- og kvenfyrirlitningar, hefur haft á orðfar og viðhorf fjölda fólks í yngri kantinum.“

Feministar sem hafa fríkað út á þeim sem verja Egil Gillz Einarsson: óteljandi.

Efnisorð:

laugardagur, nóvember 24, 2012

Baráttukonur fá feminísk verðlaun

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta blogg í júní 2006 var ég strax harðákveðin í því að ég kæmi ekki fram undir nafni.* Þeirri ákvörðun hef ég oft síðan verið fegin, ekki síst þegar nafngreindum feministum er úthúðað á netinu.

En þó ég vilji ekki athyglina og kæri mig ekki um að verða fyrir aðkasti vegna skrifa minna er mér ljóst að baráttan þarf líka að hafa andlit. Þær konur sem stíga fram fyrir skjöldu sýna mikið hugrekki. Þær eiga heiður skilinn og þessvegna hefur Stígamót verðlaunað þær.

Hugrekkisviðurkenningar, jafnréttisviðurkenningar og frumleikaviðurkenningar fengu:

Björk Eiðsdóttir
Erla Hlynsdóttir
Halla Kristín Einarsdóttir
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
og Kviss Búmm Bang ásamt Aðalbjörgu Árnadóttur

Ég óska þessum hugrökku, frumlegu og feminísku baráttukonum til hamingju með viðurkenninguna.

___
* Örfáar manneskjur vita hver 'ég' er, vil ég þakka þeim þagmælskuna og að hafa 'hylmt yfir' með mér öll þessi ár. Þið eigið líka heiður skilinn.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, nóvember 21, 2012

Ísrael > Palestína

Margt og mikið hefur verið skrifað undanfarið um árásir Ísraels á Palestínu. Flestallt fólk er á sama máli um óréttmæti aðgerðanna og hve athæfið er hryllilegt (nema auðvitað Sjálfstæðismenn, Bandaríkjastjórn og forstokkaðir Síonistar). Ég hef engu við það að bæta en tek undir og vísa á yfirlýsingu Knúzzins.

Myndin sýnir hvernig Ísraelsmenn hafa sölsað land Palestínumanna undir sig.





Efnisorð:

mánudagur, nóvember 19, 2012

Frændur og feður níddir í fjölmiðlum

Í hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum er nú fjallað um frændhygli Sigurðar Helga Guðmundssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra Eir. Samt var hann ekkert að hygla frænda sínum heldur dóttur sinni, tengdasyni og arftaka sínum í starfi. Það er náttúrlega svívirða að draga frændur þessa lands ofan í svaðið með þessu móti. Þetta er jafn fjarstæðukennt og þegar nærbuxnadólgafasysturnar tala um feðraveldi, helvískar. Hvers eiga feður og frændur eiginlega að gjalda, þvílíkt karlhatur!

Hefur enginn karlmaður áhyggjur af þessu?

Efnisorð: ,

laugardagur, nóvember 17, 2012

Ekki benda á mig heilkennið

Alveg get ég tekið undir alla þá gagnrýni sem Sighvatur Björgvinsson (hvers aðdáandi ég hef aldrei verið) og hans kynslóð fær. En mér þykir voðalega undarlegt að sjá hve fólk hrekkur í vörn fyrir sína kynslóð, þessa sjálfhverfu og ofurskuldsettu sem Sighvatur gagnrýnir.

Síðast í dag birtist (fremur leiðinleg) grein þar sem höfundinum sveið svo undan skömmunum að hann hafði fyrir því að „skoða og greina talnagögn um skattframtöl einstaklinga af heimasíðu ríkisskattstjóra“ (og birtir niðurstöður sínar í súluriti, sem hlýtur að gleðja þá sem vilja að fólk styðji mál sitt með „haldföstum rökum“), í því skyni að verja sig og sína kynslóð. Og lætur svo skammirnar dynja á Sighvati og hans kynslóð, eins og allir hinir.

Á sama tíma er verið að reyna að leiða menntaskólakrökkum fyrir sjónir að þau fari villur vegar í hugsun sinni og framgöngu. Þau bregðast við með að hneykslast á afskiptaseminni og leggjast í vörn sem felst í gagnásökunum: hvað eruð þið að skipta ykkur af, þið voruð ekkert skárri. Þegiði bara.

Vill enginn líta í eigin barm?

Efnisorð: ,

fimmtudagur, nóvember 15, 2012

Glittir í karl gegnum kynjagleraugun

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Egill Helgason sér heiminn gegnum kynjagleraugu. Nú hefur hann uppgötvað vitni að því þegar John, Paul, George og Ringo röltu yfir Abbey Road, og að sjálfsögðu er vitni Egils af karlkyni. Karlinn náðist meira segja á mynd, svona ef vel er að gáð, en hann stendur svo langt í burtu að það er varla meira en svo að glitti í hann.

Önnur mynd er til, sem er tekin stuttu áður en Bítlarnir gengu af stað. Þar sést kona nokkur gefa sig á tal við fjórmenningana, og virðist vera að spyrja þá hvað þeir séu að bedrífa. Hennar er að engu getið hjá manni sem stjórnar umræðum um pólitík og menningu á Íslandi. Hans kynjagleraugu eru kirfilega stillt til að sjá bara karla.







Efnisorð: , ,

laugardagur, nóvember 10, 2012

Kaldur vetur og kisur á vergangi

Einn helsti baráttumaður fyrir réttindum dýra, Árni Stefán Árnason, skrifar pistil á blogg sitt í dag. Efnið er ömurlegt líf útigangskatta og hvað þarf að gera til að annarsvegar koma í veg fyrir að þeir eigi jafn hörmulegt líf og raun ber vitni og hinsvegar hvernig hægt er að koma í veg fyrir að þeir – sem og aðrir kettir — fjölgi sér (svo ekki verði til fleiri kettir á vergangi). Pistill hans er skyldulesning.

Árni Stefán bendir á frábært starf Kattavinafélagsins og einstakra meðlima þess („duglegustu sjálfboðaliðarnir“) sem leita uppi útigangsketti og reyna að ná þeim í hús en fóðra þá ella. En til þess að þau geti hjálpað þarf að láta vita um þá ketti sem eru á vergangi. Nú þegar allir og amma þeirra eru með snjallsíma ætti að vera hægur vandinn að taka mynd af þeim köttum sem fólk rekst á og bera þær saman við myndir af eftirlýstum kisum hjá Kattholti (það er nefnilega til fólk sem týnir kisum sínum og saknar þeirra mjög og vill umfram allt fá þá aftur; það fólk setur auglýsingu inn á vef Kattholts (og Dýrahjálpar og hjá bland.is) með upplýsingum um köttinn sem hvarf). Leiki minnsti grunur á að kötturinn sé týndur eða heimilislaus (allir ólarlausir kettir geta verið heimilislausir en jafnvel þeir sem hafa ól gætu hafa villst að heiman) ætti að senda inn mynd og upplýsingar til Kattholts til að auka líkurnar á að kisa komist heim til sín eða eignist annað heimili.

Á vef Kattholts er dásamleg saga um konu sem vildi ekki eignast kött en frétti svo af ketti sem hafði verið í Kattholti mánuðum saman og átti ekki langa lífdaga fyrir höndum ef enginn vildi taka hann til sin. Lesið hana líka. Svo megið þið líka taka ykkur þessa konu og sjálfboðaliða Kattavinafélagsins til fyrirmyndar.

Efnisorð:

miðvikudagur, nóvember 07, 2012

Föðurhlutverk og feminismi

Áðan horfði ég á mynd sem Bob Geldof gerði um réttindi feðra til að umgangast börn sín. Myndin snýst um breskt réttarkerfi sem ég þekki ekki nægilega vel en miðað við það sem kom fram í myndinni falla dómar sjaldan (sjaldnast)á þann veg að barn umgangist báða foreldra sína jafnt. Auðvitað er það ekkert alltaf hægt (eins og Bob Geldof kemur inná en aðalmálið segir hann vera að 50% reglan sé útgangspunktur samninga) en breskir feður virðast samkvæmt þessu hitta börn sín tvær helgar (eða jafnvel bara annan daginn?) í mánuði og punktur.

Flest þau dæmi sem ég þekki til hér á landi eru á annan veg. Forræðið er reyndar allaf hjá móðurinni en börnin eru með föður sínum frá fimmtudegi til mánudags aðra hverja helgi og svo yfirleitt einn aukadag í viku. Í einu tilviki sem ég man eftir var barnið eina viku hjá föðurnum og eina hjá móðurinni (líka meðan það var á skólaaldri). Allt var þetta í góðu samkomulagi og allir eins sáttir við það og hugsast getur (en auðvitað má þó alltaf reikna með að börnin sjálf vilji heldur að foreldrar sínir byggju saman).

Ég þekki líka hina hlið málanna, umgengnis- og forræðisdeilur sem ætla engan endi að taka. Þau dæmi eru allt frá því að faðirinn fái ekki barnið eins oft og um var samið og yfir í að móðir og barn fluttu úr landi og faðirinn sá barnið ekki aftur fyrr en það var orðið fullorðið, fram að því voru engin samskipti. Auðvitað líða bæði faðir og barn við slíkar aðstæður.

Í myndinni var talað við sálfræðiprófessor sem hafði gert rannsókn á 10.000 fjölskyldum og niðurstaðan var sú að þegar börn höfðu mikið samband við föður sinn eftir skilnað gekk þeim betur að aðlagast. Þetta sögðu mæðurnar sjálfar, svo ekki verða allar konur sakaðar um ósanngirni í garð feðra þegar þær eru beðnar um að meta hvað er börnum fyrir bestu.

Þar sem ég þekki til þar sem fráskildir feður eiga í hlut þá eru þeir reyndar alveg til fyrirmyndar og gefa mæðrum ekkert eftir í að næra, klæða og sinna börnum sínum.* Þeir líta á tíma sinn með börnunum sem nánast heilagan (a.m.k. fyrstu árin eða meðan þau eru ung) og taka frí frá vinnu eða fara fyrr heim þá daga sem þeir hafa börnin.

Afturámóti eru þeir feður sem eru í sambúð með barnsmæðrum sínum mun líklegri til að vinna lengi, láta vinnuferðir til útlanda ganga fyrir, mæta aldrei á foreldrafundi, taka sér aldrei frí þegar barnið er veikt og sinna bara börnunum um helgar (eins og helgarpabbar!) og láta sér oft nægja að sjá börnin um eða eftir kvöldmat eða þá sofandi, vikum og mánuðum saman. Mér hefur stundum fundist sem börn sem eiga fráskilda foreldra hafa meiri samskipti við feður sína en hin sem eiga foreldra í hjónabandi þar sem pabbinn sinnir fjölskyldunni bara þegar hann má vera að og mamman sér um að gera allt fyrir og með börnunum, tekur sér frí úr vinnu og ber alla ábyrgð á tómstundaiðkun þeirra og félagslífi.

En þarna stendur hnífurinn í kúnni. Hin hefðbundnu kynjahlutverk þar sem konan sér um börnin og karlinn er fjarverandi (að skaffa). Eins og einn viðmælandi Bob Geldof segir þá er það talið konunni til tekna fyrir dómstólum að hafa séð meira um börnin. Og hverjir eru nú það sem hafa mest barist gegn hinum hefðbundnu hlutverkum kynjanna? Jú, feministar. Enda þótt karlar (sérstaklega þeir sem eru í félagskap sem berst fyrir forræði feðra) bölsótist út í feminista** þá voru það feministar sem börðust fyrir því að karlar tækju jafnan þátt í uppeldi barna sinna. Fyrir hálfri öld lét ekki nokkur karlmaður sjá sig með barnavagn, ætli það hefði breyst ef kvenréttindabaráttan hefði ekki átt sér stað?

Án þess að ég nenni að rekja alla þá sögu þá má benda á þau sannindi að þær konur sem eru feministar eru ekki líklegar til að halda því fram að barnsfeður þeirra séu ófærir um að skipta á bleyjum eða klæða börn í úlpu eða muna eftir að senda þau í skólann; þær telja (nema annað sé sannað í tilfelli einstaka karla) að karlar geti bara ágætlega séð um börnin bæði meðan þær búa með þeim og eftir skilnað.*** Það eru afturámóti konur sem eru pikkfastar í hugmyndaheimi hefðbundinna kynjahlutverka sem bera því við að þær einar geti séð um börn sín og þau þurfi ekkert á feðrum sínum að halda.

Feministar eru ekki eðlishyggjusinnar, heldur trúa því að samfélagið móti okkur og við mótum samfélagið. Það er sú samfélagsmótun sem gerir það að verkum að (fráskildum) karlmönnum finnst nú sjálfsagt að þeir hafi jafn mikið með uppeldi barna sinna að gera og barnsmæður þeirra. Það er því mikill misskilningur forsjárlausra feðra að feministar séu óvinir þeirra, þó að feministar sjái ekki ástæðu til að berjast fyrir þá, það geta þeir séð um sjálfir.**** Þeim væri hinsvegar nær að styðja baráttu feminista og taka þannig þátt í að gera samfélagið betra fyrir okkur öll.

___
* Það er semsagt ekki vegna þess að ég haldi að allir karlar séu óhæfir sem feður sem ég hef óbeit á samtökum karla í forræðis- og umgengnisdeilum. Ég hef lengi haft horn í síðu samtaka þeirra, hverju nafni sem þau nefnast, og fylgdist um tíma með umræðum á heimasíðu Ábyrgra feðra (nú Félag um foreldrajafnrétti) þar sem var stækt kvenhatur sem ég minnist ekki að stjórnarmenn hafi reynt að draga úr; og svo er auðvitað erfitt að líta framhjá hverskonar menn hafa verið þar í stjórn, sem gerir lítið fyrir trúverðugleika þeirra fullyrðinga samtakanna um að mæður séu sífellt að ljúga upp á feður í forræðisdeilum að þeir séu ofbeldismenn.

** Það bar reyndar ekki á kvenhatri í mynd Geldofs og ekkert slæmt sagt um feminista (það er meira segja vísað til þeirra á fremur jákvæðan hátt í lokin) en það þarf ekki að lesa margar athugasemdir við myndina á youtube til að sjá að feministum er kennt um aðskilnað feðra frá börnum sínum.

*** Í þeim dæmum sem ég taldi upp að ofan um gott og slæmt samkomulag um umgengni eftir skilnað var alltaf um feminista að ræða þegar vel gekk en konur sem voru fastheldnar á kynjahlutverkin þegar hlutirnir fóru á verri veg (hér er ég ekki að tala um dæmi þar sem karlar hafa beitt þær eða börnin ofbeldi, þá finnst mér skiljanlegt að konur leiti allra leiða til að forða börnum sínum frá feðrunum; ég þekki þannig dæmi líka, og sannarlega þekki ég líka dæmi þess að feður hafa aldrei samband við börn sín, hvort sem um börn fædd innan hjónabands eða úti í bæ er að ræða).

**** Hildur Lilliendahl skrifaði fínan pistil á Knúzið um þetta en bloggið hennar virðist horfið og því get ég ekki vísað í það sem hún hafði áður sagt þar um málið.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, nóvember 01, 2012

Hagnast á neyð samborgara sinna

Um daginn ætlaði ég að gera lof og last lista og minnast þar á smálánafyrirtækin, en gleymdi því. Man þó vel að þau áttu ekki að lenda lof-megin. Enda er fátt lofsvert við að hafa fé af unglingum, fíkniefnaneytendum og öðrum þeim sem kunna ekki fótum sínum forráð eða minna mega sín. Mér fannst ekki heldur lofsvert þegar smálánafyrirtækin tilkynntu að þau ætluðu að fella niður skuldir á geðfatlaða, enda fannst mér það anga af ímyndarreddingu frekar en velvilja í garð mannkyns almennt eða geðfatlaðra sérstaklega. Og mig langaði ekkert að gráta með þeim þegar þau grenjuðu yfir fyrirhugaðri lagasetningu sem gæti gert útaf við þau.

Lára Hanna gerði úttekt á því hverjir standa bakvið smálánafyrirtækin, þarft og gott framtak hjá henni. Ég hef tvívegis mætt einum þessara manna á förnum vegi síðan, og velti fyrir mér hvernig honum liði ef hann gæti lesið hugsanir. Vilji hann — og hinir okurlánararnir — vita hvernig fólk hugsar til þeirra, þá verða þeir líklega einhverju nær þegar þeir lesa grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Greinin er skrifuð af Ingibjörgu Rósu Björnsdóttur en systir hennar lenti í vítahring smálána. Í greininni ávarpar hún eigendur smálánafyrirtækjanna beint.

„Ég get ekki sagt að það hafi hreyft nokkuð við mér að horfa á lögfræðinginn ykkar bera sig aumlega í Kastljósi nýlega. Þar taldi hann upp þær úrbætur sem smálánafyrirtækin hafa gert eftir að í ljós kom hversu langt er gengið í frumvarpinu sem bíður samþykkis Alþingis. Jújú, það er allt gott og blessað en ber því einungis vitni hversu hræddir aðstandendur smálánafyrirtækjanna eru orðnir um að nú fari að tæmast speninn sem þeir hafa notað til að blóðmjólka þá sem minnst mega við. Því það vita allir hver markhópur smálánafyrirtækja er; fyrirmyndin er til erlendis, þið voruð ekkert að finna upp hjólið þegar þið hófuð þessa starfsemi og vissuð alveg í hvernig aðstæðum flestir viðskiptavinir ykkar yrðu.“

Þetta er bara brot af hinni mögnuðu grein, hana má lesa í heild hér.

Efnisorð: