laugardagur, mars 30, 2019

Þvaðrar þegar aðrir myndu þegja

Sigmundur Davíð er hreint ekki af baki dottinn og skrifar í dag mikinn pistil þar sem hann býsnast yfir Klausturupptökunum.

Upptaka Báru er „ein mesta persónulega aðför sem gerð hefur verið opinberlega að stjórnálamönnum og öðru saklausu fólki í seinni tíð var skipulögð aðgerð.“

Klaustursvínin eru fórnarlömb glæps og dregin upp af þeim óviðurkvæmileg mynd!
„Hinar illa fengnu upptökur voru svo unnar, klipptar til og framleiddar úr þeim ótal fréttir sem margar voru fyrst og fremst til þess ætlaðar að draga upp óviðurkvæmilega mynd af fórnarlömbum glæpsins en ekki að leiða fram eðlilega mynd af upptökunni.“

Og svo dregur Simmi auðvitað fram að fjölskyldur Klaustursvínanna hafi þjáðst vegna þessa - en auðvitað ekki vegna þess hvernig Klaustursvínin hegðuðu sér.
„Þetta var pólitísk aðgerð. Ekki verður annað séð en að markmið hennar hafi verið að knésetja Miðflokkinn, sama hversu margt saklaust fólk þyrfti að líða fyrir það. Og fólk hefur svo sannarlega liðið fyrir. Heilu fjölskyldurnar máttu þola angist vikum og mánuðum saman og grimmilega refsingu fyrir að á þeim hefði verið brotið. Enginn dómstóll hefði dæmt fólki slíka refsingu jafnvel þótt það hefði verið fundið sekt um alvarlegt afbrot í stað þess að vera þolendur þess.“
Það er svo merkilegt hvað fáir eru uppteknir af fjölskyldum afbrotamanna nema þegar þeir eru kynferðisbrotamenn, vændiskúnnar eða önnur svín.

Eflaust spennast aðdáendur Sigmundar Davíðs upp við þennan pistil og finnst hann hafa greitt þessum óskilgreindu pólitísku ofsækjendum hans rothögg. Það fólk af sama sauðahúsi og þeir sem telja sífelld skrif Jóns Baldvins vera trúverðuga málsvörn.

Hinn þvaðrari dagsins er Kolbrún Bergþórsdóttir sem toppar sig í fávitaskap í leiðara Fréttablaðsins. Hér verða ekki birtir útdrættir úr því sem hún telur sjálfsagt að sé snjöll gagnrýni á Píkudaga sem haldnir voru í Háskóla Íslands.

Það var þó hægt að hlæja að þvælunni í Sigmundi.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, mars 28, 2019

Samgöngur bótaþega

Váfuglinn hefur hrapað og þúsund manns eða meir sjá framá að verða bótaþegar. Eðlilega eru allir fréttatímir undirlagðir þessum fréttum. Ugg setur að almenningi við tilhugsunina um efnahagsniðursveiflu þjóðfélagsins; nú eru allir búnir að gleyma að fyrir nokkrum dögum gekk áróður atvinnulífsins útá að kjarakröfur verkalýðsins gætu sett hér allt á endann. Fróðlegt verður að sjá hvort leiðarar Fréttablaðsins á næstunni muni ganga útá að skamma Skúla eins og þar hefur verið skammast útí verkalýðsforystuna. En af tóninum sem víða hefur heyrst í dag er líklegra að honum verði klappað á bakið og verði sýnd samúð.

Í gær voru mér annarskonar samgöngumál hugleikin en loftfimleikar fjármálagosans. Þá sá ég auglýsingu (bls. 9) um flutning Tryggingarstofnunar frá Laugavegi í Hlíðarsmára 11 í Kópavogi. Það er í sömu götu og Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er til húsa. Nú vill svo til að nýlega átti ég erindi á síðarnefndu stofnunina og get upplýst að annarsvegar er þetta ekki auðfundið, hinsvegar að þangað eru strætósamgöngur afleitar. Það er strætóstoppistöð í brekkunni upp frá Smáralind, en bara leið 24. Sá vagn stoppar í Mjódd en fer hvorki á Lækjartorg né Hlemm, það er því ansi langsótt fyrir marga að nota strætó til að komast í Hlíðarsmára. Hinsvegar stoppa margir vagnar við Smáralind. En allmargir bótaþegar (þessir sem ekki eru á flugfreyjuhælum) sem eiga erindi til Tryggingastofnunar eiga líklega erfitt með að klífa brekkuna upp í Hlíðarsmára. Eiga svo eftir að ganga inn alla götuna til að finna stofnunina sem auglýsir að hún sé nú „með betra aðgengi“.

Við Laugaveginn voru bara örfá stæði fyrir utan Tryggingastofnun, satt er það. Og stofnunin þurfti vissulega að flytjast af Hlemmi vegna myglu,en hefði ekki mátt finna aðra staðsetningu sem lá betur við almenningssamgöngum? Meðan opinberir aðilar keppast við að hvetja fólk til að nota bílinn minna auglýsir Tryggingastofnun stolt: næg bílastæði. Það hlýtur bara að vera að bílastyrkir til aldraðra og öryrkja verði hækkaðir rausnarlega og í boði fyrir alla í tilefni flutningana.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, mars 20, 2019

Jafndægur á vori og veðrið eftir því

Samkvæmt dagatali bloggheimilisins er í dag jafndægur á vori. Flestum er kennt að sólin rísi í austri og setjist í vestri en það er ekki alltaf alveg rétt. Þótt nafnið bendi til þess að dagurinn sé þá jafnlangur nóttunni er það ekki alveg rétt heldur: Á vorjafndægrum eru dagur og nótt ekki alveg jafnlöng — við njótum örlítið meiri dagsbirtu en myrkurs. Jafndægur eru einu tveir dagar ársins þar sem sólin rís nákvæmlega í austri og sest nákvæmlega í vestri.*

Myrkur vetrarins er semsagt að baki. Þetta hefði getað orðið mikill gleðidagur ef ekki hefði verið fyrir hefðbundið vetrarveður: kalt og vindasamt. Hér í höfuðborginni hiti við frostmark og leiðindarok en stefnir í öllu verra við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og Ströndum og Norðurlandi vestra. Þar hljóðar spáin uppá:
Suðvestan hvassviðri eða stormur, með dimmum éljum og skafrenningi, einkum á fjallvegum.
Samt markar þessi dagur upphaf vorsins því dagsbirtan hefur haft sigur yfir myrkrinu. Vindbarið húrra fyrir því.

___
* Allar upplýsingar og orðalag um vorjafndægur eru af Stjörnufræðivefnum.

Efnisorð:

þriðjudagur, mars 12, 2019

Sigríði Andersen leyfist allt, löggunni líka

Eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll yfir Landsréttardómararáðningum Sigríðar Andersen ætti að vera augljóst að hún yrði að segja af sér. Eða að hún yrði rekin úr ríkisstjórn, eða að ríkisstjórnin segði af sér til að losa dómsmálaráðuneytið við hana.

Eftir árásir lögreglumanna á hælisleitendur og flóttamenn á mótmælafundi í gær, ætti að fara fram rannsókn á því hver tók þessa ákvörðun og hversu hátt upp valdastigann var leitað samþykkis fyrir því að lögreglan gekk samtaka að því verki að ráðast á friðsama mótmælendur.

Illugi Jökulsson skrifar hvassan pistil vegna árásar lögreglumannanna sem hann segir réttilega að hafi verið „sjokkerandi, fyrirlitleg og hættuleg“.

Og hann spyr, og ég tek undir:

„Hvað var það aftur sem Vinstri græn þóttust hafa upp úr krafsinu með því að valda Sigríði Andersen svo tryggilega í embætti dómsmálaráðherra?“

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, mars 08, 2019

8. mars 2019, verkfall láglaunakvenna

[Þau mistök urðu þegar pistillinn var birtur að sumt birtist tvisvar og annað hvarf. Nú á að hafa verið bætt úr því.]

Þessi pistill átti fyrst og fremst að vera um málefni kvenna en vegna sjónvarpsþáttarins Vikan með Gísla Marteini sem var sýndur í kvöld þarf aðeins að ræða hann fyrst. Valið á gestum í þáttinn virðist alltaf háð því skilyrði að minnsta kosti einn gestanna sé Sjálfstæðismaður (eða Viðreisn sem er Sjálfstæðisflokkur 2 og flestir þar fyrrverandi Sjálfstæðismenn). Í öðru lagi er sama fólkið aftur og aftur, sem er skiljanlegt hjá fámennri þjóð en jafn pínlegt fyrir því.

Í kvöld var semsagt meðal gesta Svanhildur Hólm, sem hefur margoft komið í þáttinn eins og eiginmaður hennar Logi Bergmann, og uppfyllir hún Sjálfstæðisflokksskilyrðið enda starfar hún sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Við hlið hennar sat svo útvarpsstjórinn Magnús Geir sem einnig er Sjalli. Valið Svanhildi í kvöld er frekar spes því nú í dag stóð yfir verkfall láglaunafólks. Það hefði kannski verið nær að fá einhvern úr þeirra hóp eða sem er hlynntur aðgerðum verkalýðsfélaga á þessum degi, en ekki fulltrúa ríkisvaldsins (þess hins sama og bauð smánarlegar skattalækkanir). Svanhildur var ekki ókurteis þegar hún var spurð um skoðanir sínar á Sólveigu Önnu formanni Eflingar en mjög augljóslega að vanda sig við að segja ekki skoðun sína.

Það var samt ekki það sem truflaði mig mest. Heldur þetta: Atli Fannar, sem var með góðan pistil að venju, ræddi launahækkanir ríkisforstjóra eftir að Kjararáð var lagt niður, og nefndi sérstaklega launahækkanir forstjóra Íslandspósts sem fékk tvær launahækkanir í fyrra og hækkuðu laun hans um 43% á einu ári. Atli sagði réttilega að upplýsingar um þessar launahækkanir vörpuðu sprengju eftir sprengju inn í kjaraviðræðurnar. Í lokin spurði Atli Fannar: Hver er að hækka þessi laun? Satan?


Svo var svissað yfir á Gísla Martein sem sagði þetta góða spurningu og kannski kæmi svarið við henni á eftir. En ræddi það svo aldrei meir. Fyrir framan hann í sófanum sat þó Svanhildur Hólm varaformaður stjórnar Íslandspósts, stjórnarinnar sem hækkaði laun forstjórans. Það var varla óvart að Atli Fannar spurði þessarar spurningar í þætti þar sem Svanhildur var gestur; en afhverju fékk hún að komast upp með að svara ekki spurningunni? Sverja af sér að vera Satan eða reyna að réttlæta þetta? Nei í staðinn var hún spurð, eins og sessunautar hennar, um skoðun sína á Sólveigu Önnu sem hún svaraði milli samanbitinna tannanna.

Gísli mætti taka aðeins minna áberandi afstöðu, takk.

En aftur að verkfallinu og Sólveigu Önnu. Ég er ein þeirra sem fagna því að hún leiði Eflingu og finnst hún standa sig feiknavel. Mér finnst frábært, úr því að Samtök atvinnulífsins koma ekki með ásættanleg boð um launahækkanir, og ríkið ekki um skattabreytingar sem koma að gagni, að láta reyna á mátt verkfalla. Það má alveg gleðjast yfir því að Félagsdómur ákvarðaði ekki SA í vil og fagna því að félagsmenn Eflingar sem völdu að fara í verkfall geti farið í verkfall. Það er ánægjulegt að stór kvennastétt þar sem erlendar konur eru fjölmennar fari í verkfall á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Það er svo auðvitað vonandi að Samtök atvinnulífsins og ríkisvaldið sjái að sér og reyni að koma í veg fyrir fleiri og víðtækari verkföll með því að gera góðan samning við láglaunafólk.

Heldur þykir mér hlægilegt þegar talað er um að verkfallið í dag eða fyrirhuguð verkföll eigi eftir að stórskemma ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta er sá árstími sem hvað fæstir ferðamenn koma og þeir sem ætla sér að heimsækja Ísland í sumar munu ekki finna fyrir neinum truflunum á ferðum sínum. Svo má líka hafa það í huga að höfuðborg Frakklands þar sem eru alltaf einhver verkföll (eða óeirðir eða hryðjuverkaárásir) er á hverju ári meðal mest sóttu borga heims. Lenti í þriðja sæti í fyrra. Samkvæmt því virðast verkföll ekki hafa mikil fælingaráhrif.

Aftur að alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Kveikur var með ágæta úttekt á vændi á Íslandi þar sem margar hliðar málsins komu fram, talað við íslenskar og erlendar vændiskonur, sumar þeirra fyrrverandi og aðrar sem vildu hætta. Einnig vændiskúnna og nokkra sem vildu kaupa vændi en lentu í fyrirsát Kveiksfólks. Heilmikið var talað við lögregluna í þættinum og þar er bara ekkert að gerast í að rannsaka vændisstarfsemi og bösta vændiskaupendur.

Kvöldið eftir tók Kastljós málið upp og fékk til skrafs hvern annan en Brynjar Níelsson. Hann kom ekki á óvart; talaði um vændi sem val kvenna sem allt eins hefðu getað fengið sér vinnu á skyndibitastað. Einnig lýsti hann andúð sinni á að nöfn vændiskúnna séu birt á vefsíðum dómstóla, og reyndar yfirleitt andstöðu við nafnbirtingu glæpamanna. Minnist ég þó aldrei hafa heyrt hann opinberlega leggjast gegn slíkri nafnbirtingu innbrotsþjófa, og ekki einusinni þegar menn eru dæmdir fyrir smygl (sem er líklega dæmigerður glæpur án fórnarlambs) en þar er nöfnum manna blastað á netið hikstalaust; einu undantekningarnar virðast vera þegar karlar kaupa vændi. Það yrði auðvitað mikill álitshnekkir fyrir karlmenn ef slíkt yrði heyrinkunnugt, en það sama á auðvitað við um innbrotsþjófa og smyglara sem og aðra glæpamenn hversu stór eða lítil glæpur þeirra er.

Brynjar virðist ekki hafa horft á Kveik eða kynnt sér aðra þætti eða skrif um veruleika vændiskvenna. Hann hunsar algjörlega staðreyndir um að langflestar vændiskonur hafa orðið fyrir kynferðisbrotum ungar að árum, eru með skerta sjálfsmynd, eru vímuefnaneytendur, eru fátækar, hafa verið lokkaðar eða kúgaðar til starfa; jafnvel allt framangreint. En þetta kemst ekki fyrir í heimsmynd Brynjars. Allar hans skoðanir virðast byggjast eingöngu á nýfrjálshyggjuhugmyndum um frjálst val og frjálsan markað með hvað sem er, einnig mannslíkama.

Á sama tíma og Brynjar var að tala með rassgatinu tjáði annar Sjálfstæðismaður sig einnig um vændiskaup og lýsti því með innblásinni dæmisögu hvernig „Góður og grandvar maður getur leiðst út í vændiskaup …í augnabliks skynsemisrofi kaupir vændi“.

Semsagt, Sjallar álíta konur velji sér vændi eins og hvert annað starf, valið standi t.d. milli þess að vinna á skyndibitastað eða stunda vændi, en karlar afturámóti velja ekkert heldur leiðast útí vændiskaup, jafnvel bara vegna augnabliks skynsemisrofs.

Það er spurning hvaða skynsemisrof varð í hausnum á yfirlögregluþjóninum á Vesturlandi þegar hann keypti sér vændi. Hann var böstaður og dæmdur fyrir vændiskaupin í fyrra — en nafn hans var auðvitað aldrei birt og varð því ekki fyrir neinum álitshnekki. Enginn vissi reyndar af þessu. Lögreglustjórinn frétti af því hjá ríkissaksóknara að hann væri til rannsóknar í vændiskaupamáli og mánuði síðar sagði yfirlögregluþjónninn sjálfur upp störfum (eða þannig er það orðað, honum hafa hugsanlega verið gefnir afarkostir). En vændiskaupamálið komst ekki í hámæli fyrr en hann fékk annan dóm, þá fyrir harðvítug slagsmál í öðrum landshluta við löggu sem að mér skilst var með honum á fylleríi. Í dómnum (þar sem þeir voru báðir ákærðir fyrir slagsmálin og báðir dæmdir fyrir líkamsárás) kom fram að aðili B (enn verið að gæta nafnleyndar) hafi áður hlotið dóm fyrir þessa og þessa lagagrein, og einhver las útúr því að það væru vændiskaup; annars hefði sú staðreynd að starfandi yfirlögregluþjónn keypti sér vændi einsog ekkert væri sjálfsagðara alveg farið framhjá öðrum en þeim sem ákærðu hann og dæmdu. En þannig vill Brynjar Níelsson einmitt hafa það.

Aldrei kom fram hvar yfirlögregluþjóninn keypti vændið, hugsanlega í heimabyggð eða kannski gerði hann sér ferð til höfuðborgarinnar og var böstaður þar. Höfuðborgarlögreglan er reyndar almennt ekkert mikið að fylgjast með vændi, hafa ekki í það peninga né mannskap, en hrukku þó í gang þegar Kveiksfólk sem var að vinna að þættinum um vændið lét þá vita að fíkniefnasala og sala á konum færi fram á nektardansklúbbnum (nektardans er líka ólöglegur) færi fram á Shooters. Löggan lokaði staðnum — en áður en Kveiksþátturinn komst í loftið var aftur búið að opna og allt til sölu sem fyrr: dóp og konur.

Af öðrum lögreglu- og dómsmálum er það að frétta að þar er allt eins og venjulega. Karlmaður sem í þrígang réðst á þáverandi sambýliskonu sína og lamdi hana fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm. Karlmaður sem dró sér bláókunnuga konu inná klósett á skemmtistað og nauðgaði henni, fær afslátt á dóm vegna þess að nærri tvö ár liðu frá því ríkissaksóknaraembættið fékk málið í hendur og þar til gefin var út ákæra og síðar það ár féll dómur í Héraðsdómi. Alls liðu nærri fjögur ár frá kæru þar til málið var dæmt í Landsrétti. Það er auðvitað glatað, en það er alltaf jafn undarlegt að það sé sá dæmdi — nauðgarinn — sem fær samúð dómstóla útá það. Konan sem hann ákvað að nauðga þurfti líka að bíða fyrst í tvö ár og svo önnur tvo (afþví hann ákvað að áfrýja) áður en málinu lauk. Afhverju er hennar bið ekki metin mikilvæg? Afhverju fær hún þá ekki hærri skaðabætur eða eitthvað? Það er alveg glatað að sjá þessa nauðgaraafslætti skipti eftir skipti.

Svo eitthvað sé minnst á það sem gerist utan landssteinana, svona á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þá er furðulegt mál í uppsiglingu í Alabama í Bandaríkjunum.
Dómari í Alabama hefur fallist á að fóstur sem var eytt hafi lagaleg réttindi og að karlmaður geti höfðað mál fyrir hönd þess. Maðurinn ætlar að stefna heilsugæslustöð þar sem fyrrverandi kærasta hans [sem var sextán ára] gekkst undir þungunarrof og framleiðanda pillunnar sem henni var gefin. Úrskurðurinn byggir á umdeildum lögum í Alabama um réttindi „ófæddra barna“.
Þetta er algjör bilun. Næst verður reynt að kæra konur fyrir morð vogi þær sér að fara í fóstureyðingu. Karlmönnum í frekjukasti gefinn algjör réttur yfir líkama konunnar.

Að lokum er hér mælt með mjög góðum pistli (með hræðilegum titli) eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem birtist 8. mars og fjallar m.a. um klíku franskra fjölmiðlamanna og almannatengla sem
„notaði margvíslegar aðferðir til að niðurlægja og einelta konur. Konur hafa lýst því hvernig aðferðir þeirra urðu til þess að þær misstu smám saman flugið og kulnuðu í starfi. En kvenhatrið hafði ekki slæm áhrif á feril karlanna. Þvert á móti fengu þeir vaxandi völd og áhrif“.

Það er augljóslega langt í að barátta kvenna verði óþörf.

Efnisorð: , , , , , , , , ,

þriðjudagur, mars 05, 2019

Verkföll mega ekki bitna á neinum

Það kemur sumum á óvart að það stefni í verkföll. Þeim finnst ótrúlegt að fólk sem vinnur lægst launuðu störfin hafi í atkvæðagreiðslu kosið að fara í verkföll. Einnig kemur það sama fólki á óvart að skoðanakannanir sýni stuðning við verkföll. Mér finnst merkilegt að nokkur manneskja sem fylgist með fréttum skuli láta sér þetta koma á óvart. En sannarlega eru margir sem tala gegn verkalýðshreyfingunni og í sumum kreðsum virðist almenn skoðun að allar kröfur láglaunafólks séu öfgar sem muni kollsteypa þjóðfélaginu.

Það fer auðvitað aðallega eftir pólitískum línum og að einhverju leyti eftir efnahagslegri afkomu fólks hvað því finnst um kröfur verkalýðshreyfingarinnar og boðuð verkföll.

En það sem mér finnst fyndnast er þegar óskapast er yfir því að þau fyrstu til að fara í verkfall verði starfsfólk á hótelum og í hópferðaakstri; lykilfólk í ferðaþjónustu.
„Það eru til margar leiðir til verkfalla því er það mér algjörlega óskiljanlegt að byrja á því að blóðga ferðaþjónustuna varanlega í fyrstu lotu.“ [Úr aðsendri grein í Frbl. í dag.]
Voða er lélegt af verkalýðsfélögin einbeiti sér að fyrirtækjum þar sem áhrifin af verkföllunum koma strax í ljós: túristar sem kvarta og eigendur fyrirtækjanna hringja í Bjarna (frænda) og heimta að eitthvað verði gert (t.d. semja við verkalýðsfélögin) til að þeir geti áfram rekið hótelin sín og rúturnar. Nei, það er alveg glötuð leið til að beita verkföllum sem bíta til að koma fyrirtækjum almennt og sérstaklega ferðaþjónustunni — þessari áberandi og mikilvægu atvinnugrein — í skilning um að hún verði að sætta sig við að hækka launin við starfsfólkið og hvetja til samninga. Allt annað en það! Það eru margar leiðir til verkfalla, eins og maðurinn sagði, og það verður að finna aðra leið.

Eftir miklar vangaveltur hef ég fundið starfsstétt sem heppilegt er að senda í verkfall: lyftuverðir.

Efnisorð: