laugardagur, júlí 27, 2013

Eins manns þrjóskukeppni

Sigursteinn Másson fulltrúi Alþjóðadýraverndunarsjóðsins hefur skrifað ágæta hugleiðingu um tilgang hvalveiða. Hann bendir á, og ekki í fyrsta sinn, að hvalveiðar Íslendinga eru ekki „hluti arfleifðar og sögu þjóðarinnar“.

Pistill Sigursteins kemur í kjölfarið á fréttaflutningi af hvalkjöti sem Hvalur hf hugðist senda til Japan en er komið til Íslands aftur eftir viðdvöl í höfnum Hamborgar og Rotterdam. Hvalkjötið var að hluta til skráð sem frosinn fiskur sem varð til þess að gerðar voru athugasemdir við skráninguna og skipið sem átti að sigla með hvalkjötið frá meginlandi Evrópu til Japan sigldi án þess. Eftir þvæling milli hafna varð ljóst að hvalkjötið kæmist aldrei til Japan og úr varð að Samskip tóku að sér að skila því til Íslands. Samskip hefur þó ákveðið að hætta alfarið að flytja hvalkjöt (húrra fyrir því). En þrjóskuhundurinn Kristján Loftsson í Hval ætlar samt að halda áfram að veiða hvali, jafnvel þótt hann hafi fengið 6 gáma með 130 tonnum af óseljanlegu hvalkjöti í fangið. Áður hafði komið í ljós að Japanir eru mikið til hættir að kaupa hvalkjöt til eigin neyslu og íslenski hvalurinn endaði því sem hundafóður í Japan. En Kristján vill samt veiða hval og selja til Japan, og virðist ekki kippa sér upp við að nú geti hann ekki einu sinni selt afurðirnar, þær komist ekki leiðarenda.

Hvalveiðarnar byrjuðu annars mjög vel* hjá Kristjáni þetta árið. Fréttablaðið birti á sautjánda júní frétt sem heilir tveir fréttamenn skrifuðu. Fréttin var mjög einhliða** en vísaði ekki í neina heimildamenn enda þótt hún flytti greinilega skoðanir aðaleiganda Hvals (en ekki skoðanir allra hluthafa, eins og fram hefur komið). Í fréttinni er fullyrt að hvalkjötið sé mannamatur en ekki hunda, án þess þó að tekið sé fram að blaðamennirnir hafi átt samtal við japönsk fyrirtæki (eitt eða fleiri) til að fá staðfestingu á þeirri fullyrðingu. Reyndar virðist ekki vera talað við neinn vegna fréttarinnar, hvorki Kristján Loftsson né aðra en allt það sem Kristján vill að almenningur viti eða trúi um hvalveiðarnar bornar á borð fyrir lesendur, þar á meðal hvað margir fái vinnu vegna veiðanna.

Eftir þetta voru sífelldar og glaðbeittar fréttir af hvernig veiðarnar gengu. En það fór að snúa á ógæfuhliðina þegar hinir vondu meginlandsbúar með smásmugulegar skoðanir á skriffinsku komust í pappírana sem fylgdu hvalkjötinu. Eftir það varð æ augljósara að allur gorgeir Kristjáns má sín lítils, jafnvel þótt utanríkisráðherra hneykslaðist á þessari skerðingu á ferðafrelsi hvalagámanna.

Sigursteinn tekur málið saman og spyr áríðandi spurninga.

„Nú er svo komið að engin leið virðist fyrir Kristján Loftsson að flytja langreyðakjötið sjóleiðina til Japan þar sem eini markaðurinn er fyrir það. Það er ekki aðeins vegna þess að hvalkjötið var að hluta ranglega skráð sem fiskur í síðustu sendingu til Rotterdam og Hamborgar heldur vegna þess að engin höfn, hvorki í Evrópu né í Bandaríkjunum, hefur áhuga á að umskipa því og skipafélög vilja ekki flytja það. Hve lengi ætla menn að berja höfðinu við steininn í anda Bjarts í Sumarhúsum? Já, til hvers hvalveiðar?“

Áður hefur Sigursteinn bent á fáránleikann í því
„að verið sé að senda þetta kjöt vítt og breitt um Evrópu þar sem það er alls staðar óvelkomið og fari að horfast í augu við þá staðreynd að heimurinn vill þetta ekki. Þetta eru tilgangslausar veiðar, ómannúðlegar, þjóna engum tilgangi og hafa nákvæmlega ekkert efnahagslegt gildi. Það er tap á þessu öllu saman og þegar upp er staðið þá tapar Ísland mest.“

64 hvalir hafa þegar verið drepnir nú í sumar. Andstaða alþjóðasamfélagsins við veiðarnar er allnokkur (ekki síst vegna þess að langan tíma tekur fyrir hval að drepast eftir að hann hefur verið skotinn, dauðastríðið getur staðið frá 5 mínútum og allt að klukkustund), hvalaskoðun nýtur mikilla vinsælda sem hvalveiðar hljóta að varpa skugga á,*** og gróðavon Hvals hf er vægast sagt óviss ef ekkert skipafélag vill flytja hvalkjötið og þarafleiðandi verða engir kaupendur að hvalkjötinu.

Mun Kristján þrjóskast áfram, eins og Bjartur í Sumarhúsum, og skeyta ekkert um allt þetta, og láta veiða allan þann fjölda sem hann hefur heimild til, 154 að lágmarki og allt að 180 dýr?

Það er von að spurt sé, til hvers?

___
* Merkilegt annars með svona umdeildar veiðar, að fjölmiðlar skuli sífellt tala um þær gangi vel. Frá hvaða sjónarhorni ganga þær vel, Kristjáns Loftssonar? Fólk sem er á móti hvalveiðum (af ýmsum orsökum) lítur ekki þannig á hvaladráp að það gangi vel.

** Fyrir þá lesendur sem ekki hafa áhuga á að elta hlekkinn á fréttina er hún birt hér:
„Hvalveiðar eru hafnar að nýju eftir tveggja ára hlé. Kvótinn er 154 langreyðar en heimildir eru til að bæta við hann tuttugu prósentum af óveiddum dýrum frá fyrri vertíð, þannig að mögulega verða veidd allt að 180 dýr ef vel gengur. Er þetta síðasta árið af fimm ára leyfi um veiðar á tegundinni, sem í gildi hefur verið frá árinu 2009. Tveir bátar, Hvalur 8 og Hvalur 9, sem bundnir hafa verið við bryggju í Reykjavík undanfarin tvö ár, munu stunda veiðarnar líkt og á síðustu vertíðum. Ástæða þess að hvalveiðar fara nú af stað eftir hlé er að ræst hefur úr efnahagsástandinu í Japan, en þangað fara allar afurðir langreyðanna utan mjöls og lýsis. Kjötið er ætlað til manneldis. Hætt var við veiðar síðasta árs eftir náttúruhamfarir í Japan árið 2011, en þá skemmdist meðal annars niðursuðuverksmiðja sem tekur við íslenska hvalkjötinu. Líkur eru á að veiðarnar standi fram í lok septembermánaðar en eftir þann tíma verða þær erfiðari, meðal annars þar sem veiða þarf hvalina í björtu. Á milli 150 og 200 manns fá vinnu vegna veiðanna, á sjó og í landi. Afurðirnar verða unnar í Hvalstöðinni í Hvalfirði, í frystihúsi Hvals í Hafnarfirði og í Heimaskagahúsinu á Akranesi.“
Ofangreind frétt í Fréttablaðinu var reyndar svo einhliða að ég velti fyrir mér hvort Ingibjörg og Jón Ásgeir ættu hlut í Hval hf eða hvort Kristján ætti hlut í 365 miðlum. Ekki varð það til að minnka grunsemdir mínar að fréttin var ekki birt á Vísi og þarafleiðandi sköpuðust engar umræður um hana. Nýrri útgáfa af henni, með frétt um að búið sé að veiða einn hval, kom raunar á Vísi og þar er enginn skrifaður fyrir fréttinni, en sama rullan um að „Allar afurðir af langreyðunum verða sendar til Japan, utan mjöls og lýsis, og eru þær ætlaðar til manneldis.“ Það er semsagt ekki eytt púðri í að ræða að hvalkjötið væri notað í hundafóður í Japan, heldur hamrað á því að hvalurinn sé „til manneldis“. Eða afsakið, „ætlaðar til manneldis“ — en svo er aldrei að vita hvað Japanir gera, sem er þá auðvitað allsekki á ábyrgð Kristjáns Loftssonar. Og enn sést ekki myndskeiðið með þessari frétt þar sem átti að vera hægt að heyra „skiptar skoðanir á hvalveiðum“. Í kjölfarið létu svo Stöð 2 og Fréttablaðið gera fyrir sig könnun á viðhorfi landsmanna til veiða á langreyðum. Ekki kemur fram í fréttinni hver sá um könnunina en niðurstaðan var sú að almenningur kaupir áróður Kristjáns Loftssonar og 365 miðla.

*** Hvalaskoðun á Faxaflóa líður fyrir hvalveiðarnar og Ómar Ragnarsson skrifar um það hér. Hann hefur einnig hrakið þau rök að veiða verði hvali svo þeir éti ekki allan fiskinn.

Efnisorð: ,

mánudagur, júlí 22, 2013

Karlarnir sniðganga heimsmeistara og Evrópumeistara af „hinu kyninu“


Aníta Hinriksdóttir hefur unnið íþróttaafrek sem ekki margir Íslendingar geta státað af. Og það tvö sömu vikuna, varð fyrst heimsmeistari og vann síðan Evrópumeistaratitil. Hún er talin líkleg til frekari afreka, líklegri en aðrir íslenskir íþróttamenn fyrr og síðar. Nú er hún komin heim og það er að sjálfsögðu tilefni til að fagna og bjóða hana velkomna.

Sagt er frá því í fréttum eins og það sé hneykslunarefni að hvorki Ólafur Ragnar Grímsson né Illugi Gunnarsson ráðherra íþróttamála hafi tekið á móti henni á flugvellinum eins og venja er þegar afreksmenn í íþróttum snúa heim. Ég held að það eigi frekar að þakka fyrir að þeir hafi ekki verið þar til að þvælast fyrir og skyggja á stemninguna.

Ég spái því að það muni heldur ekki þvælast fyrir íþróttafréttamönnum um næstu áramót að réttlæta það að velja ekki Anítu sem íþróttamann ársins, þrátt fyrir afrek hennar. Þeir munu segja að hún sé of ung, það sé ekki venja að láta neinn undir 18 ára aldri fá titilinn — og velja þess í stað karlmann sem keppt hefur í boltaíþrótt.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júlí 21, 2013

Peningarnir sem flugu

Fyrr í sumar varð ég vitni að sérkennilegri uppákomu á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu. Þetta eru fjölfarin og hættuleg gatnamót með umferðarljósum og ég var farþegi í bíl sem lenti á rauðu ljósi. Bílinn hafði varla stoppað þegar ég sá ungan mann sem stökk til og frá úti á gatnamótunum, hálfhljóp, beygði sig niður og hegðaði sér á allan hátt undarlega. Hann hafði reyndar til þess nokkuð góða ástæðu, hann var að elta nokkurn fjölda peningaseðla — 500 og 1000 krónu seðla — sem flögruðu til og frá og voru ekki á því að láta góma sig.

Þetta var æsispennandi eltingarleikur og við héldum niðrí okkur andanum, hvað myndi gerast þegar kæmi grænt ljós? Myndi einhver aka af stað, og svo við öll og maðurinn verða fyrir bíl, eða myndi hann gefast upp við eltingarleikinn og flýja af hólmi þegar stórfljót bílanna æki af stað?

Og hvernig stóð á þessum fljúgandi peningum? Hafði ungi maðurinn verið að slá um sig, sýna ríkidæmi sitt og misst það svo allt úr höndunum? Hann virtist einn á ferð, varla hafði hann verið að veifa peningunum framaní bílstjóra, bláókunnugt fólk, rétt á meðan hann gekk yfir götuna? Höfðu peningarnir verið í bunka í teygju sem sprakk eða poka sem rifnaði? Þetta var hið undarlegasta mál.

Ég var reyndar ekki bara spennt heldur líka óróleg, mér fannst einsog ég ætti að fara út að hjálpa honum. Fannst ómögulegt að horfa á hann í þessum aðstæðum, einan að berjast við ofurefli vindsins og allir sátu bara og gláptu í stað þess að hjálpa til. En við sem vorum í bílnum urðum sammála um að það yrði allsherjar óreiða ef farþegar eða bílstjórar stykkju út úr sumum bílum en aðrir bílstjórar myndu krefjast þess að ekið yrði af stað þegar grænt ljós kæmi. Og yrði maðurinn svosem nokkuð ánægður með að fólk væri að skipta sér af þessu, héldi hann ekki bara að við ætlaðum að ræna hann?

Grænt ljós kom á Hofsvallagötuna og nokkrir bílar fóru yfir, maðurinn vék sér undan en yfirgaf ekki gatnamótin, hljóp svo útá þau mið þegar bílarnir voru farnir. Að því búnu virtist hann gefast upp, kannski ekki lagt í Hringbrautarflóðið, eða þá að hann hélt að hann hefði náð öllum seðlunum. Ég þóttist viss um að svo væri ekki, fannst ég hafa séð einn seðil hið minnsta læða sér milli bíðandi bílanna fyrir framan okkur. En maðurinn stefndi gangandi á Melana og við ókum leiðar okkar eins og hin vitnin að þessari uppákomu.

Seinna um kvöldið vafraði ég um vefmiðla en sá ekkert sem varpaði ljósi á málið. Ég hafði haldið að það hlytu allir símar að hafa verið á lofti, tugir mynda væru til af atburðinum, athugasemdakerfi loguðu, gott ef ekki væri komin skýring á hversvegna peningar hefðu tekið flugið í Vesturbænum. En hvergi neitt.

Ég skimaði líka eftir öðruvísi fréttum og létti stórum þegar þær létu líka á sér standa. Það birtust engar fréttir um ungan mann sem hefði verið rændur á Melunum, hvergi neitt um að maður sem sést hefði með fullar hendur fjár hefði verið dreginn inní húsagarð, rændur og laminn. Það virtust semsagt fleiri en ég þarna á gatnamótunum sitjandi í bílunum hafa vorkennt manngreyinu, kannski haft smá áhyggjur af honum, eða glott útí annað yfir þessari óheppni hans. En enginn virðist hafa hugsað með sér, sá á af peningum, hann munar ekki um að ég taki eitthvað af þeim af honum, hann býður hreinlega uppá það, svona fljúgandi seðlar æsa bara uppí manni peningagræðgina. Við, þessi sem sátum og horfðum á manngarminn hlaupa á eftir peningunum sínum hugsuðum ekki svona, allavega virðist ekkert okkar hafa látið eftir sér að fara á eftir honum og ræna hann þegar enginn sá til.

Kannski fæ ég aldrei svar við því hver var aðdragandi þess að ungi maðurinn baslaði við að safna saman peningunum sínum á fjölförnum gatnamótum. En mikið vona ég að ekkert okkar sem vorum vitni að þessari uppákomu hafi litið á hana sem tækifæri til að níðast á náunganum. Og ef í ljós kemur að maðurinn hafi verið rændur, en ekkert birst um það í fjölmiðlum vegna þess að hann hafi ekki kært, kannski vegna þess að hann hafi skammast sín fyrir að koma sér í þessar aðstæður, þá vona ég að við áfellumst hann ekki fyrir að hafa farið frjálslega með peninga, eða lítum svo á að hann geti sjálfum sér um kennt. Alveg sama hvernig á því stóð að peningarnir hans tókust á loft.

Efnisorð:

fimmtudagur, júlí 18, 2013

Enn um WOW og vændi

Um daginn bar fyrir augu mín eintak af WOW magazine (nei, ég var ekki að ferðast með WOW). Ég hafði nú hreinlega ekki vitað af þessum snepli fyrr en þar sem ég les allt sem fyrir augu ber ákvað ég að fletta þessu þriðja tölublaði hins merka fyrirtækis. Áður en yfir lauk varð ég hissa, en þó allsekki hissa, sem er alltaf skrítin blanda. Sömu tilfinningu fæ ég þegar dómstólar sýkna kynferðisbrotamenn eða fella yfir þeim fáránlega væga dóma, svo og þegar þjóðhátíðarnefnd í Vestmannaeyjum fær landsþekktan kvenhatara sem kærður hefur verið (en ekki sýknaður) fyrir kynferðisbrot, þrátt fyrir yfirlýsingar um að barist sé gegn nauðgunum á þjóðhátíð.

Nema hvað, hissa og ekki hissa augnablikið kom þegar ég sá auglýsingarnar frá tveimur 'kampavínsklúbbum' í blaðinu (á síðum 140 og 146).

Fréttablaðið skýrir frá því að það hafi sent útsendara sína á tvo kampavínsklúbba í vikunni (annar þeirra auglýsir í þriðja tölublaði WOW blaðsins, ég hef enn ekki skoðað tvö hin fyrri tölublöð og veit því ekki um auglýsingar þar). Kampavínsklúbbarnir segja að þar sé hægt að kaupa „flott vín í dýrari kantinum og fengið að ræða við stúlkurnar sem hér vinna í staðinn“. Í frétt blaðsins er tekið fram að hávaði frá tónlist er mikill á stöðunum, og má af því þá ályktun draga að samræður séu torveldar.

Annað sem gæti gert innihaldsríkar samræður eigi sér stað er tungumálakunnátta starfskvenna, en á báðum stöðunum sem útsendarar blaðsins heimsóttu voru erlendar konur við vinnu, og á öðrum staðnum töluðu þær „eilitla ensku“, á hinum voru þær ekki til viðtals nema gegn gjaldi og því minna vitað um tungumálakunnáttu þeirra.

Það sem segir þó mest um hverskonar starfsemi fer fram á kampavínsklúbbunum er niðurlag fréttarinnar.
Þær sögðust búa allar saman í lítilli blokkaríbúð og því vera mjög nánar. Ein kvennanna var greinilegur yfirmaður þeirra og virtust konurnar leita til hennar eftir samþykki um næstu skref í samskiptunum. Í boði var að fara afsíðis í bakherbergi. Þar gátu þær veitt heimildarmanni „það sem hann vildi“ án þess að frekari útskýringar fylgdu. Tíu mínútur með stúlku þar kostuðu tuttugu þúsund.

Það er þessi starfsemi sem WOW auglýsir. Og kemur ekki á óvart.

Efnisorð: ,

sunnudagur, júlí 14, 2013

Lof og last

LOF

Aníta Hinriksdóttir, 17 ára hlaupakona úr ÍR, kom langfyrst í mark á heimsmeistaramóti 17 ára og yngri og er því heimsmeistari í 800 metra hlaupi í aldursflokknum. (Munum eftir því þegar íþróttafréttamenn velja (enn einn fótboltakallinn) íþróttamann ársins um áramótin.)

Lofsverð afstaða ESB til menningar og lista. „Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lítur á listir og menningu sem mikilvæga fjárfestingu. Sambandið ætlar að auka framlög til menningarmála um níu prósent á næstu árum.“ (Það væri munur ef stjórnvöld hér hugsuðu eins, en þvert á móti, Illugi og hagræðingarhópurinn standa með reiddan kutann yfir menningarmálum og enginn veit enn hvar höggið verður þyngst.)

Allir sem skrifa um Ólaf Ragnar Grímsson í því skyni að afhjúpa hann eiga lof skilið. Þessvegna fær fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins Þorsteinn Pálsson að vera með hér fyrir grein sína um véfréttina ÓRG.
„Eftir boðskapnum þarf [stjórnarandstaðan] aftur á móti að efna til málþófs þegar þar að kemur til þess að véfréttin fái svigrúm til að glöggva sig á hver hafi undirtökin í almenningsálitinu.“

Þá er lofsvert af Sæunni Ingibjörgu Marínósdóttur að ræða tilhögun mála í Húsdýragarðinum (sem lesa má á bloggi Árna Stefáns Árnasonar).
„Raunverulega fréttin er sú að dýrin í Húsdýragarðinum eru látin fjölga sér á hverju vori í þeim eina tilgangi að uppfylla einhvers konar skemmtanaþörf fyrir okkur mannfólkið. Þarna fæðist fjöldinn allur af ungviði árlega með þann eina tilgang í lífinu að þjóna sem einhvers konar trúðar í nokkra mánuði og enda líf sitt örfárra mánaða gamalt vegna þess að aðsókn minnkar að hausti, starfsemi garðsins færist í vetrarbúning, krúttfaktorinn dvínar og rýma þarf fyrir umgangi næsta árs. Mér finnst það blóðugt tilgangsleysi í fyrsta lagi að reka dýragarða og hafa þar lifandi verur til sýnist, og enn verra þykir mér að framleiða ungviði á færibandi og drepa það svo nokkrum mánuðum síðar. Ár eftir ár eftir ár.“


LAST

Í ljósi nýrra frétta af kæru Egils Gillzeneggers Einarssonar á hendur kvenna sem sökuðu hann um nauðgun, þá er undarlegt að sjá honum veifað sem skemmtiatriði á Þjóðhátíð. (Eða ekki.)

Það er ömurlegt að Ólafur F. Magnússon hafi látið annað eins útúr sér og hann sagði, ítrekað og opinberlega, um múslima.

Ógeðfelld frétt um karlmenn sem ráða sér konur því þeir sækjast eftir brjóstamjólk þeirra, og vilja jafnvel drekka hana með því að leggjast á brjóst. Það var óþægilegur en fyndinn brandari í Little Britain, en í raunveruleikanum er það bara ógeðslegt. Konur sem selja úr sér mjólkina með þessum hætti eru varla að því nema úr neyð, sem gerir þetta enn verra.

Rúmlega sextugur starfsmaður á frístundaheimili í Breiðholti fékk eins mánaðar skilorðsbundinn dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa haft barnaklám í sinni vörslu. Það er semsagt í lagi að hann girnist börn - og börnin sem hann vinnur með daglega - svo framarlega sem hann gerir ekkert. Það verður beðið með frekari aðgerðir gegn honum þangað til. Eða allavega þar til hann verður staðinn að verki.

Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar. Ekki bara vegna þess að innanborðs eru Vigdís Hauksdóttir sem er svarinn andstæðingur menningar og lista, og Guðlaugur Þór sem var settur til höfuðs Landspítalanum á sínum tíma, heldur það sem þau hyggjast gera. Það sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði um einkavæðingu heilsugæslunnar vekur hroll.

Efnisorð: , , , , , , , , , , , ,

fimmtudagur, júlí 11, 2013

Er þá enginn saklaus og enginn sekur?

Hvað gera aðdáendur Egils Gilzeneggers Einarssonar nú, þessir sem æptu saklaus uns sekt er sönnuð? Konurnar sem hann kærði fyrir rangar sakargiftir verða ekki ákærðar, þarafleiðandi ekki leiddar fyrir dómstóla, ekki frekar en Egill sjálfur. Ríkissaksóknari fellir niður málið gegn konunum, rétt eins og mál Egils áður.* Munu nú aðdáendur Egils hætta að tala um að konurnar hafi logið uppá Egil, úr því að engar málið var fellt niður? Þeir héldu því mjög á lofti að Egill væri saklaus úr því að dómstóll dæmdi hann ekki sekan vegna þess að málið komst ekki svo langt, var fellt niður. En nú mun enginn dómstóll heldur dæma konurnar. En það verður varla svona auðvelt að fá aðdáendur hans til að skipta um aðferð til að verja goðið, hvað þá skipta um skoðun.

Ég efast líka um að fólk sem fannst ólíklegt að konurnar væru að ljúga skipti um skoðun, enda úrskurður ríkissaksóknara varla til þess fallinn. En þá er komin upp pattstaða. Konur kærðu Egil og Egill kærði konur en enginn dómur féll. Heldur fólk þá ekki bara áfram að skiptast í lið eftir því hvort það heldur að frægð karlmanna komi ekki í veg fyrir að þeir geti nauðgað, eða trúir því að allar kéllingar ljúgi hræðilegum glæpum uppá saklausa menn?

Eða heldur fólk raunverulega ennþá að það sé hægt að segja í þessu máli, eða öðrum nauðgunarmálum, að ef ekki sé hægt að sanna sekt þess sem er ákærður fyrir kynferðisbrot fyrir dómi þá sé sá hinn sami örugglega saklaus? Eða til vara: að karlmaðurinn sem er kærður fyrir nauðgun hljóti alltaf að vera sá eini sem segir satt? Mig grunar að svo fari um marga aðdáendur Egils og aðra þá sem hafa varið hann, og aðra þá sem sakaðir hafa verið um kynferðisofbeldi, með kjafti og klóm.


___

* Ofangreint er skrifað eftir frétt DV þar sem sagt er að ríkislögreglustjóri hafi fellt mál Egils niður. Í frétt Vísis kemur fram að það var ríkissaksóknari sem átti síðasta orðið í báðum málum. Textanum hefur verið breytt til samræmis við það.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, júlí 10, 2013

Ákvörðun ÓRG

Það er kannski tímabært að gera grein fyrir atkvæði mínu, þ.e.a.s. afhverju ég skrifaði undir undirskriftarlistann. Fyrir því voru tvær ástæður. Önnur sú að það hefði verið betra fyrir þjóðarbúið ef Ólafur Ragnar Grímsson hefði ekki staðfest lög um um lækkað veiðigjald og málið hefði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem það hefði eflaust verið fellt — ef þá ríkisstjórnin hefði ekki tekið Davíðs Oddssonar snúning og dregið lögin til baka svo ekkert yrði úr þjóðaratkvæðagreiðslu. En semsagt, mér fannst að það mætti reyna með þessu móti að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin kæmi þessu LÍÚ dekurmáli í gegn. Ég er reyndar enn þeirrar skoðunar (sjá Icesave umræðu) að mál sem varða fjárhag ríkisins með beinum hætti eigi ekki að vera undir geðþótta kjósenda komin, en ég var alveg tilbúin að líta framhjá því fyrir það sem mér fannst mikilvægara.

Hin ástæðan fyrir því að ég skrifaði undir var semsé sú að ég vildi svæla refinn úr greninu, eins og við dýraverndunarsinnarnir tökum gjarnan til orða. Og viti menn óskir mínar rættust. ÓRG steig fram í sviðsljósið í gær og réttlætti það að hlífa LÍÚ við hækkun veiðigjalds, alveg eins og honum kæmi ekki við gjáin milli þings og þjóðar. Hann var, eins og venjulega, í eilífri mótsögn við sjálfan sig. Hann beit svo höfuðið af skömminni með því að gagnrýna prófessor við Háskóla Íslands (og líkja honum við bloggara, sem átti greinilega að vera niðrandi), þarna í beinni útsendingu frá Bessastöðum. Með því afhjúpaði hann sig sem hrokagikk með stórmennskubrjálæði sem notar vald sitt til að hreykja sér yfir aðra og undirlægju auðvaldsins, allt í sömu andránni.

Allt var það vitað fyrir, en það var skemmtilegt að sjá það í beinni.

Efnisorð:

þriðjudagur, júlí 09, 2013

Eins og við var að búast

Ég óska kjósendum Ólafs Ragnars Grímssonar innilega til hamingju með daginn.

Þeir geta varla, frekar en aðrir, hafa haldið að ÓRG myndi hafna því að skrifa undir lögin sem lækka munu veiðigjöldin á útgerðina.

Nú er hann í beinni útsendingu að „rökstyðja“ ákvörðun sína sem mest hann má. Meira segja kjósendur hans hljóta núna að sjá að þetta gimpi er í sífelldri mótsögn við sjálfan sig.

En þetta er bráðfyndið.

Efnisorð:

mánudagur, júlí 08, 2013

Skoðanir staðfestar í bunkum

Það er ömurlegt að sjá hvernig fótboltaáhugamenn tala um stelpur sem keppa í fótbolta. Það er samt ágætt að þeir sem vógu og mátu stelpurnar eftir útliti en ekki hæfileikum á vellinum eru allir nafngreindir.

„Dómnefndina skipuðu: Benedikt Bóas Hinriksson (Blaðamaður á Morgunblaðinu) Brynjar Ingi Erluson (Fréttaritari á Fótbolta.net), Hilmar Þór Guðmundsson (Ritstjóri Sport.is), Ingólfur Sigurðsson (Leikmaður Vals), Sverrir Ingi Ingason (Leikmaður Breiðabliks), Tómas Meyer (Viðtalasérfræðingur á Stöð 2 Sport), Þorsteinn Haukur Harðarson (Blaðamaður á Séð&Heyrt)“
Þeir — og hinir karlarnir sem leggja orð í belg í athugasemdakerfinu —  sanna eina ferðina enn að karlkyns fótboltaáhugamenn eru lágkúrulegt pakk.

Sumir þeirra eru reyndar hættulegri en aðrir. Í Brasilíu stakk knattspyrnudómari leikmann til bana. Áhorfendur grýttu dómarann til dauða. Það er það staðfest: fótboltamenn eru klikk.

Lommi Lomm átti athugasemd dagsins við fréttina af óðu fótboltamönnnunum í Brasilíu.
Og ekki koma fávitar í löggunni heldur á óvart.

Efnisorð: , ,

föstudagur, júlí 05, 2013

Ýmislegt skrifað um helmingaskiptastjórnina og stefnu hennar


Undanfarið hef ég lesið nokkra pistla, gamla og nýja, sem fjalla beint og óbeint um núverandi ríkisstjórn* og stefnu hennar. Það er ágætt að dunda sér við þennan lestur meðan beðið er undirskriftar forsetans á lækkun veiðigjaldsins.

Fyrsta greinin er einmitt um veiðigjaldið. „Eiga útgerðir að greiða eðlilegt leigugjald?“ Spurning sem Arnaldur Sölvi Kristjánsson varpaði fram í apríl í fyrra.

Mánuði síðar hrakti Arnaldur Sölvi hugmyndir um 20% flatan skatt (lesist með áætlanir ríkisstjórnarinnar um 'einföldun skattkerfisins'í huga).

Úrsúla Jünemann skrifaði í síðasta mánuði um endurskoðun rammaáætlunar, vatnsaflsvirkjanir, álver og umhverfisráðuneytið sem ríkisstjórnin stakk ofan í skúffu.

Guðmundur Andri skrifaði á mánudaginn um 'bitra ráðgjafann' Davíð Oddsson, Sigmund Davíð og Ríkisútvarpið — sem þeir báðir hafa horn í síðu á. Guðmundur Andri hitti naglann á höfuðið þegar hann benti á að við vanmátum Illuga Gunnars.
„Við héldum öll að Illugi Gunnarsson yrði svo ágætur menntamálaráðherra af því að hann kann á píanó en það var eigi að síður fyrsta mál á dagskrá hjá honum að ganga erinda Davíðs“.
Á miðvikudaginn sagðist Sif Sigmarsdóttir dást að ríkisstjórninni,
„fyrir að hafa hugrekki til að sýna sitt rétta andlit frá fyrsta degi og hefja strax vinnu við að fella niður veiðigjald á útgerðir landsins svo að kvótakóngar geti örugglega haft í sig og á í tíunda veldi. Ekkert pukur, bara blygðunarlaus hagsmunagæsla fyrir opnum tjöldum.“
Lára Hanna bloggaði loksins aftur í gær og skriðtæklaði stjórnarflokkanana spilltu. Það vantar fleiri bloggfærslur frá Láru Hönnu, svo ekki sé talað um fleiri Lárur Hönnur.

Já, og Jónas baðst afsökunar nú í vikunni.

Það er semsagt ýmislegt skrifað um ríkisstjórnina og stefnu hennar — og hún á það allt skilið.

____
* Ingimar Karl Helgason kallar núverandi ríkisstjórn helmingaskiptastjórnina, og er þá líklega ekki síst vísað til sögunnar þar sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn skiptu einmitt öllum þeim gæðum sem þeir náðu til milli sín. Nægir þar að nefna Búnaðarbankann og Landsbankann. Mér hugnast nafngiftin helmingaskiptastjórn.

Efnisorð: , , , , ,

miðvikudagur, júlí 03, 2013

Ginningarfífl Framsóknar og Sjálfstæðisflokks


Upprifjun Steingríms J. Sigfússonar á kosningaloforðum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í umræðum um rannsóknarskýrsluna um Íbúðalánasjóð er mikilvæg. Ekki skaðar samlíkingin frábæra.

„Þessi skýrsla er því miður dapurleg lesning og hún er stórfelldur áfellisdómur yfir ráðsmennskuna í Íbúðalánasjóði - þar standa reyndar upp úr árin 1999 til 2004. Þeirri ábyrgð deila Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri Grænna.

Steingrímur sagði að kosningabaráttan árið 2003 hafi verið einhver dýrasta kosningabarátta Íslandssögunnar og hún hafi að mörgu leyti verið uppskriftin að hruninu.

„Og hvernig voru þau loforð? Eigum við að fara yfir það? Sjálfstæðisflokkurinn lofaði gríðarlegum skattalækkunum og Framsóknarflokkurinn lofaði í húsnæðismálum. Hafið þið heyrt þetta aftur? Seðlabankinn og fleiri vöruðu við, en þetta var gert samt. Hver er staðan núna? Hvernig voru kosningarnar 2013? Sjálfstæðisflokkurinn lofar skattalækkunum og Framsóknarflokkurinn lofar í húsnæðismálum. Og seðlabankinn er byrjaður að vara við loforðum framsóknar,“ sagði Steingrímur á Alþingi í dag.

Og hann hélt áfram, heitt í hamsi.

„Þetta er svo fullkomin endurtekning þegar þessir flokkar ná saman og þeir tala sig inn á þjóðina, mér er annað orð ofarlega í huga, en ég ætla ekki að nota það hér, með nákvæmlega sömu formúlu nú með tíu ára millibili. Það er ástæða til að hafa af þessu stórkostlegar áhyggjur. Sporin hræða. Þau gera það heldur betur - sagan endurtekur sig.“

„Nú man ég ekki nafnið á kvikmyndinni þar sem mannauminginn vaknar alltaf aftur upp sama morguninn aftur og aftur,“ sagði hann. Og þá var kallað úr þingsal að myndin héti Groundhog Day

„Já, Groundhog day. Þetta er eiginlega bara þannig. Við erum að vakna hérna upp á sama degi og árið 2013 eftir skelfilega ábyrgðarlausa kosningabaráttu þar sem menn svífast einskis til þess að ná atkvæðum og eiga algerlega eftir að vinna úr því hvað þau loforð kunna að hafa í för með sér, efnahagslega, pólitískt og fyrir landið. Þetta er mikið áhyggjuefni.“

Ég hallast helst að því að það hefði engu breytt þó rannsóknarskýrslan um Íbúðalánasjóð hefði verið tilbúin fyrr. Kjósendur hefðu samt kosið að trúa kosningaloforðunum, þessum sömu og voru notuð fyrir tíu árum, með þekktum afleiðingum. Kjósendur hefðu kosið að vera ginningarfífl. Aftur.

Efnisorð: ,