miðvikudagur, desember 31, 2008

Aldrei líkaði mér Kryddsíldin hvorteðer

Ég er að velta fyrir mér hvort námskeiðið sem Saving Iceland hélt, þar sem kennd var borgaraleg óhlýðni, hafi verið upphafið á því að Íslendingar eru loksins farnir að mótmæla öðruvísi en með að sitja heima og róa í gráðið og tauta fyrir munni sér. Ef svo er þá á Saving Iceland alla mína virðingu og var ég þó frekar ánægð með þau fram að þessu. Mér sýnist allavega þau sem mótmæla með því að ryðjast inn í byggingar eða skemma eitthvað (hvort sem það er óvart í hita leiksins eða meðvitað og viljandi) vera að ná meiri árangri en þau sem standa kyrr í kuldanum, enda þótt þau mótmæli eigi auðvitað líka rétt á sér, öll mótmæli eru góð.

Reyndar getur verið að tiltölulega lítil þátttaka almennings í mótmælum þessa dagana sé einmitt vegna þess að fólk vill ekki lenda í löggunni eða verða á milli þegar mótmælendum og löggunni lýstur saman, en það verður þá að hafa það. Friðsömu mótmælin skila hreinlega minni árangri heldur en þau þar sem ráðamönnum hættir að lítast á blikuna.

Ég er ein þeirra sem hef lítið farið á mótmælafundi. Enda þótt mér finnist mótmælendur hafa allan rétt til að mótmæla með hvaða hætti sem þeim sýnist (og græt ekki kostnað Jóns Ásgeirs við að endurnýja tækjabúnað Stöðvar tvö) þá langar mig ekki að verða fyrir ofbeldi lögreglunnar.

Vildi samt að ég væri skeytingarlausari um heilsu mína og væri í fylkingarbrjósti þeirra sem ryðjast inn í byggingar. En læt mér nægja að vera með þeim í andanum.

___

Viðbót 1. janúar 2009: Eftir að hafa skoðað helling af myndum og myndskeiðum sem hægt er að sjá hér og þar um netheima - en örugglega ekki öll - þá get ég ekki betur séð en að
A) mótmælendur og málsvarar þeirra hafi rétt fyrir sér í því að árás lögreglunnar hafi verið tilefnislaus. Mér sýnist að löggan, sem sannarlega er í eðli sínu varðhundur valdsins, gangi ansi hart fram í því að nota hver mótmæli sem aðvörun til mótmælenda um að næst verði enn harðar tekið á þeim.
B) tæknimenn Stöðvar 2 hafi tekið að sér að annast dyravörslu á Hótel Borg (kannski rættist þar gamall draumur) en fréttir af því að þeir hefðu slasast voru látnar hljóma eins og ráðist hefði verið á þá þar sem þeir voru að sinna vinnu sinni, lamdir í hausinn við tökuvélarnar. Nú veit ég auðvitað ekki hvort þeir gerðu þetta með glöðu geði eða hvort þeim var hótað atvinnumissi (og ekki gott að fá vinnu, Jón Ásgeir gengur fyrir í lyftaradjobbin) og hafi það síðarnefnda ráðið því að þeir hjóluðu í mótmælendur þá eiga þeir alla mína samúð. Og að einhverju leyti skil ég starfsfólk hótels Borgar, ég myndi líklega líka reyna að hindra að vinnustaður minn yrði fyrir hnjaski, en mér sýndist þeir samt aðallega gera illt verra og ekkert leiðast að fá að berja fólk.

Og mikil andskotans snilld er að Ari Eðvald - sem er einstaklega ógeðfellt fyrirbæri - skuli hóta því að þeir sem beri ábyrgð á skemmdunum verði sóttir til saka. Horfa ofar Ari, horfa ofar.

Efnisorð: , ,

mánudagur, desember 29, 2008

Tvær hliðar mála

Oftast eru pistlarnir í Fréttablaðinu sem nefndir eru „Við tækið“ marklaust hjal um ekki neitt en Svavar Hávarðsson gerir undantekningu frá því nú í dag. Þar fjallar hann um þann sið fjölmiðla - og í þessu tilviki ríkissjónvarpsins - að forvitnast um jólahaldið á Litla Hrauni. Ég sá ekki þennan þátt en samkvæmt Svavari var gert í því að hafa þetta bráðskemmtilegt allt saman og margt dregið fram í dagsljósið eins og súkkulaðibitakökubakstur fanganna.

En þessi áhersla fjölmiðla, sem líka fjalla alltaf um hvaða rithöfundar og listamenn taki að sér að skemmta föngum um jólin, er ávallt á hve fangarnir eiga um sárt að binda. Minna fer fyrir samúð með fórnarlömbum þeirra. Því margir þeirra (ekki allir) sitja inni fyrir brot gegn fólki og hafa morð, nauðganir og líkamsmeiðingar á samviskunni.

Og Svavar spyr: Hvað um konurnar sem hefur verið nauðgað? Hvað um svívirtu börnin og þeirra fólk? Hvað um foreldra þeirra myrtu? Ætli þessi hópur hafi átt gleðileg jól?

Mikið er ég ánægð með að það sé fjölmiðlamaður þarna úti einhverstaðar sem sér fleiri en eina hlið á málinu. Og lætur ekki glepjast af súkkulaðibitakökum.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, desember 28, 2008

Mann(s)líf fyrir botni Miðjarðarhafs

Það er óþolandi þegar ekki má gagnrýna einhvern án þess að vera þá spyrt saman við helstu andstæðinga viðkomandi, sbr. að vera álitin málpípa Jóns Ásgeirs ef Davíð er gagnrýndur eða öfugt.

Það er álíka asnalegt og þegar fólk er sakað um gyðingahatur þegar það fordæmir hernað Ísraelsmanna á hendur Palestínumönnum. Ekkert er fjær mér en vera á móti gyðingum sem slíkum. En ekkert - og þá meina ég ekkert - réttlætir framferði þeirra gyðinga sem í Ísrael búa. Ísraelsríki hefur rekið Palestínumenn af landi þeirra, einangrað þá, svipt þá mannréttindum (s.s. ferðafrelsi), svelt þá (komið í veg fyrir að þeim berist matur) og drepið og limlest almenna borgara. Þetta hefur gengið á áratugum saman og versnar frekar en hitt.

Ég hef enga lausn á þessu vandamáli, því ég væri þá löngu búin að koma henni á framfæri og allt væri dottið í dúnalogn fyrir botni Miðjarðarhafs. Meðan Ísraelar kjósa yfir sig herskáa ríkisstjórn og Palestínumenn ráðast á þá milli þess sem ráðist er á þá sjálfa - þá verður þetta svona áfram.* Í tilviki Palestínumanna er um nauðvörn að ræða, en aðferðirnir sem þeir nota eru samt óskiljanlegar. Að drepa fólk er engin lausn.

Innganga Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefði heldur ekki gert neitt gagn. Það stóð aldrei til að vera ósammála Bandaríkjunum í einu eða neinu. Ekki að það hefði gert gagn, því Bandaríkin hafa neitunarvald, eitt fárra þjóða.**
___
* Og nei, það fer ekki framhjá mér að það eru karlkyns Palestínumenn sem standa í hernaðinum og að líklega - ég nenni hreinlega ekki að fletta því upp - er ríkisstjórn Ísraels skipuð körlum að meirihluta. Enda ef ég tæki það fram myndi einhver snillingurinn fara að röfla um Goldu Meir - svona eins og Margaret Thatcher er nefnd í álíka umræðum. Nenni því ekki. En ég sé þetta samt sem eina birtingarmynd karlmennskunnar: Að gefast aldrei upp þó það kosti mannslíf. Heiðurinn skipti meiri máli bla bla bla.
** Hversu fáránlegt er það?

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, desember 24, 2008

Lifandi dýr eru ekki jólagjafir

Undanfarið hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum að fólk hafi snúið frá villu síns vegar í neyslukapphlaupinu og einbeiti sér frekar að mjúku málunum. Dýrahald er tekið sem dæmi um þetta og sagt frá því að nú komi fleiri í Kattholt, sem Kattavinafélagið rekur, til að fá sér kisur. Í Fréttablaðinu í dag er líka sagt frá þvíDýrahjálp hafi milligöngu um að finna ný heimili fyrir dýr, og þá fyrir alla ferfætlinga. Þar kemur fram - sem er mikilvægur punktur - að í kreppu verði fleiri dýr heimilislaus. Það er nefnilega ekki bara í góðæri sem dýrum er hent út á guð og gaddinn af miskunnarlausu mannfólkinu, heldur áttar fólk sig oft ekki á fyrr en á það reynir hve dýrt það er að halda gæludýr.

Fyrir utan bólusetningar og skrásetningargjöld,* eiga þessir loðboltar það nefnilega til að togna, brotna, skera sig, éta eitthvað sem þeim verður meint af, fá pestir, ofnæmi og magakveisur, garnaflækjur og krabbamein, svo fátt eitt sé talið. Það þarf að vaka yfir þessum krílum þegar þau veikjast og bruna með þau til dýralæknis á öllum tímum sólarhrings og það þarf að skera upp og gefa lyf (við litla hrifningu sjúklingsins). Og allt kostar þetta tíma og fyrirhöfn - og síðast en ekki síst - peninga.*** Það er ömurlegt hve mörg dýr eru svæfð hinsta sinni vegna þess að eigandinn hefur ekki efni á læknisþjónustu. (Svo ekki sé minnst á pakkið sem hafði efni á því í góðærinu en ákvað að það væri þægilegra að lóga þessum einstaklingi því það væri alltaf hægt að fá annan kött/hund seinna. Svoleiðis fólk lætur líka lóga dýrum þegar það fer í sumarfrí. Og svoleiðis fólki má lóga fyrir mér, skítapakk sem það er).

Eins og efnahagsástandið er - og við vitum öll að það á eftir að verða verra - þá á fólk ekki að fá sér gæludýr nema það geri sér grein fyrir þessu. Kostnaðinum. Kannski er sá tími liðinn að fólk fái sér gæludýr til að sýnast fyrir öðrum (hvað annað átti það að þýða að alltíeinu þurftu allir nauðsynlega að eiga hreinræktaðan hund?) en það ber ekki vitni um að gildin hafi breyst, a.m.k. ekki í mínum augum, ef fólk ætlar að fá sér gæludýr til að eiga meðan vel gengur og láta svo annaðhvort drepa það eða henda því út úr bílnum á víðavangi (því dauðasprautan kostar sitt).

Mig rámar í herferð sem var farin í Englandi held ég, eða allavega í enskumælandi landi, þar sem sagði að hundur væri ekki jólagjöf. Þá var ekki bara átt við að það væri fáránlegt að birtast með hund þar sem hundur væri kannski ekki velkominn, heldur líka það að eftir jólin er hundurinn (og auðvitað köttur og önnur dýr) áfram lifandi vera sem ætti tilverurétt. Hundurinn, sem oftast er lítill sætur hvolpur á jólunum, stækkar, slefar, það þarf að venja hann á að pissa úti, svo verður hann kynþroska ... Listinn er endalaus og öfugt við börn** þá verða hundar og kettir aldrei fullorðnir og fara að heiman, heldur búa þeir hjá eigendum sínum þar til elli eða sjúkdómar leggja þá að velli. Að fá sér hund eða kött er lágmark tíu ára skuldbinding og slíka ákvörðun ætti enginn að taka bara vegna þess að litli hnoðrinn er svo sætur.

Vonandi verður engin kisa jólagjöf í ár.
___
* Alla ketti ætti að gera ófrjóa, bæði læður og fress. Það er mikill misskilningur að læður verði að fá að eignast kettlinga a.m.k. einu sinni, þeim verður ekkert meint af því að fara á mis við það. Í hvert sinn sem kettlingar koma í heiminn eykst fjöldi katta sem sæta illri meðferð, lenda á vergangi eða þarf að lóga því enginn vill eiga þá. Ófrjósemisaðgerðir og geldingar eru eina lausnin við þeim vanda, ekki að „leyfa minni læðu að eiga kettlinga, bara einu sinni.“

** Talandi um börn, þá er furðulegt hve margt fólk fær sér gæludýr án þess að gera ráð fyrir að börnin á heimilinu geti verið með ofnæmi. Afhverju er ekki farið með þau í ofnæmispróf fyrst? Einhverntímann heyrði ég á tal fólks sem var að tala um hjón sem voru að reyna að gefa köttinn sinn því barnið á heimilinu hefði greinst með ofnæmi fyrir honum. Ég sagði þá að það væri nær að losa sig við barnið, því það væri offramboð af köttum en sífellt vantaði börn til ættleiðingar. Ekki hlaut þetta góðan hljómgrunn viðstaddra.

*** Nokkrum dögum eftir að þetta er skrifað (29.12) er erlend frétt í Mogganum með yfirskriftinni „Hafa ekki lengur ráð á gæludýrum“ og segir þar frá því að efnahagsvandinn í Bandaríkjunum valdi því að fjölmargir neyðist til að gefa, selja eða lóga dýrunum sínum. Þar segir að talið sé að það kosti að meðaltali um 1400 dollara á ári eða um 170þús íslenskar á gengi dagsins í dag, að eiga hund, en 1000 dollara að eiga kött. Kostnaðurinn sé vegna fóðurs, læknisaðstoðar og annarrar umönnunar. Öll dýraathvörf séu yfirfull vegna þess að fólk losar sig við dýr og einnig vegna þess að aðrir treysta sér ekki til að taka gæludýr eins og sakir standa. Og nú þýðir ekkert fyrir Íslendinga að segja að þarna muni miklu á upphæðum vegna lækniskostnaðar því heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum sé svo dýrt, því að hér á landi eru dýralækningar ekki niðurgreiddar frekar en þar.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, desember 23, 2008

Páfinn delerar að venju

Páfahelvítíð er við sama heygarðshornið: hatast útí konur og samkynhneigða. Miðað við frétt RÚV er hann á móti kynjafræðinámi í háskólum. Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín, er stoltur kaþólikki og alltaf með krossinn um hálsinn. Það má líklega þakka fyrir að hún lætur ekki leggja niður alla kennslu í kynjafræðum miðað við forheimskuna í páfanum.

Ég var með einhverjar heitstrengingar, þegar ég las fréttina af páfanum, um að hvetja fólk til mótmæla með því að ráðleggja öllum að stunda kynlíf með þeim hætti sem páfa ofbýður mest, og nota til þess öll möguleg hjálpartæki vanti eitthvað uppá líkamlegt atgervi til þess brúks. Það væru að reyndar prívatmótmæli en það er svosem ekkert tekið mark á fjölmennum og háværum mótmælum hvorteðer. Ekki það, svona prívatmótmæli geta líka verið hávær.

En svo áttaði ég mig á að bloggið mitt er siðprúður vettvangur og ekki við hæfi að hvetja fólk til kynlífs yfirhöfuð, hvað þá svona subbuskapar. Feminismi snýst jú um tepruskap og er ég eins og aðrir feministar mjög á móti öllu kynlífi.

Efnisorð: , ,

föstudagur, desember 19, 2008

Dómur yfir dýraníðingi

Ég hef áður skrifað um dýraníðinga og það vald sem karlmönnum þykir sjálfsagt að sýna öllum þeim sem þeir þykjast æðri. Sjaldgæft er að vitni sé að því þegar karlar misþyrma sér minni máttar en í Kompásþætti í fyrra var þó sýnt myndbandsupptaka af karlmanni að berja hest þegar hann hélt að enginn sæi til. Hann fékk núna dóm, helvítið á honum, og hann auðvitað alltof vægan. En það er samt mikilvægt að Hilmar Hróarsson var dreginn fyrir dómstóla og dæmdur sekur - þrátt fyrir hina fyrirsjáanlegu ég-lamdi-ekkert-fast-og-ég-má-það-alveg málsvörn hans.

En mikið þyrfti að laga dýraverndunarlög og gera þau skilvirkari.

Mig dreymir um dýraverndunarlöggu, eins og sjá má í ýmsum þáttum á Animal Planet. Ég býð mig fram.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, desember 18, 2008

Vörgum hvergi vært

Ég er hjartanlega samþykk því að mótmælt sé við og í bönkum, við heimili og aðsetur auðkýfinga, þar sem ráðamenn funda, hvar sem er hvenær sem er. Og nú hefur einn fjárglæpamaðurinn flúið bankann, þar sem hann hafði hreiðrað um sig í óþökk almennings.

Og í dag er það Fjármálaeftirlitið og Glitnir!

Efnisorð:

mánudagur, desember 15, 2008

Góðar fréttir og vondar

Það fyrsta sem mér datt í hug, þegar ég heyrði að hætt væri við stækkun álversins í Straumsvík og álver við Húsavík væri líklega úr sögunni*, var hinn ágæti frasi: Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Verð á áli hefur hrapað á heimsmarkaði og að auki stendur krónan illa svo frekari álframleiðsla hér er ekki vænleg fyrir fyrirtæki eins og Rio Tinto og Alcoa, enda þótt sumir virðist halda að þau hafi starfað hér af einskærri manngæsku og umhyggju fyrir atvinnulífi á Íslandi.

Annað og verra eru niðurskurðaráætlanir ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki kynnt mér þær að fullu en þær virðast vera allar á einn veg; heilbrigðisþjónusta og menntakerfi verða verst úti og fólk þarf hreinlega að lifa við örbirgð til að fá félagslega aðstoð, ef hana er þá yfirleitt að fá. Mér varð því ekki að ósk minni um forgangsröðun. Hið „nýja Ísland“ sem sumt fólk óskaði sér, virðist hreint ekki í sjónmáli.

Í ljósi þess (sem hér kemur fram neðanmáls) að góðu fréttirnar hér að ofan eru kannski ekki réttar verða góðu fréttir dagsins að teljast skórnir sem flugu í átt að hinum heimska haus sitjandi forseta Bandaríkjanna. Þó Bush hafi beygt sig og sloppið frá skónum var framtakið gott. Íslenskum blaðamönnum er vinsamlega bent á að þau ættu að taka sér þetta til fyrirmyndar - enda situr fjölmiðlafólk í sömu súpunni og við hin.

__
* Síðan þetta var skrifað hafa talsmenn þessara fyrirtækja hér á landi borið þetta til baka og segja að það verði bæði stækkað í Straumsvík og byggt á Bakka. Þar fór í verra.

Efnisorð: , , , , ,

laugardagur, desember 13, 2008

Ég vona að þér verði aldrei nauðgað

Nú fyrr í mánuðinum sendi Femínistafélag Íslands opið bréf með þessari fyrirsögn til allra hæstaréttardómara auk dómsmálaráðherra. Bréfinu var ætlað að vekja athygli á dómum í nauðgunarmálum, sem eru skammarlega vægir, þegar þá konur á annaðborð treysta sér til að kæra og kæran fer, ólíkt öllum hinum kærunum sem ekkert er gert við, fyrir dómstóla.
Bréfið vakti mikla athygli og sérlegur vinur dólga og nauðgara, Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður* sá ástæðu til að skrifa bréf í Moggann þar sem hann hæðist að bréfinu. Smekklegur að vanda.

Bréfið sem Femínistafélagið sendi á sér fyrirmynd í bréfi sem birtist í Veru fyrir margt löngu.** Upphaflega bréfið lítur svona út.***

Nýlega varð enn einn hneykslanlega vægur dómur í kynferðisbrotamáli til þess að viðamikil undirskriftasöfnun var hafin. Vonandi verður hún til að vekja dómara í héraðs- og Hæstarétti til umhugsunar um óréttlætið sem í því felst að fella svo væga dóma yfir mönnum sem eyðileggja líf annarra. En það er einnig mögulegt að skrifa bréf eða tölvupóst beint til dómaranna þar sem þeim er alvara málsins gerð ljós. Eftirfarandi bréf, sem er þýtt úr ensku, skrifaði kona nokkur í Bandaríkjunum til karlkyns dómara í heimabæ hennar, þegar henni ofbauð linkind hans við kynferðisafbrotamenn. Þetta gerði hún til að reyna að fá hann til að sjá þessa atburði með augum þolandans.

Kona þessi, sem kýs að kalla sig „Redpower“ hefur gefið leyfi sitt fyrir því að birta bréfið í VERU og jafnframt heimild til að senda það til dómara hér á landi.


Ég hef aldrei óskað neinni manneskju þess að vera nauðgað. Ég vona að þér verði aldrei nauðgað. En ef svo fer, er ýmislegt sem ég vona fyrir þína hönd.

Ef þér verður nauðgað, vona ég að árásarmaðurinn náist. Ég vona að málið fari fyrir rétt og að þú berir vitni fyrir fullum dómssal um hvað nauðgarinn gerði þér. Ég vona að það komi fram í fjölmiðlum. Ég vona að nákvæm lýsing þín á atburðum verði skeggrædd af ókunnugum á opinberum vettvangi. Ég vona að árásarmaðurinn játi og verði dæmdur sekur. Og ég vona að hann fái skilorðsbundinn dóm.

Ég vona að þú segir sjálfum þér að þú komist yfir þetta. Og ég vona að þú komist yfir þetta. Og þegar þú kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé yfirstaðið og þú hafir komist yfir þetta, vonast ég til að þú vaknir upp um miðja nótt með krepptan hnefann fyrir munninum til að bæla niður öskur. Ég vona að þú fáir kvíðaköst sem þú getur ekki útskýrt fyrir ástvinum þínum, að hjarta þitt berjist svo um að þú haldir að þú sért að deyja. Ég vona að þegar þú sérð einhverja menn á götu minni þeir þig á manninn sem nauðgaði þér, og að þú brotnir saman og grátir af hræðslu úti á miðri götu.

Ég vona að þú leitir þér hjálpar. Ég vona að meðferðaraðilinn eða ráðgjafinn eða læknirinn eða konan þín segi þér að þú verðir „nú að jafna þig á þessu“. Ég vona að þér finnist að þú getir það ekki. Ég vona að þér finnist að enginn skilji hvað þú hefur gengið í gegnum, að þú eigir á einhvern hátt sjálfur sök á því sem gerðist og að þú hafir átt þetta skilið.

Ég vona að konan þín veiti þér stuðning. Ég vona að hún elski þig og vilji annast þig og að fljótlega fái hún innst með sér ógeð á þér fyrir það sem gerðist. Ég vona að hún velti fyrir sér hvort þér hafi fundist það gott. Ég vona að þú munir aldrei aftur njóta kynlífs.

Ég vona að þér finnist að líf þitt sé í rúst. Endanlega. Hafðu samt ekki áhyggjur af því. Það getur verið að það lagist. Það verður bara mikil vinna fyrir þig að koma því í lag.

Þú ert sennilega löngu hættur að lesa, og það er allt í lagi, því þú last líklega byrjunina sem er Ég vona að þér verði aldrei nauðgað.

Redpower

---
*Brynjar Níelsson hefur m.a. komið Bóhem, Geira í Goldfinger og Guðmundi í Byrginu til varnar í réttarsal. Merkilegt hvað þessir skjólstæðingar hans eiga annars margt sameiginlegt.

** Bréfið birtist í Veru, 3. tbl. 2002. Í sama tölublaði er m.a. viðtal við þennan bloggara og Rúnu í Stígamótum auk Arnfríðar Jónatansdóttur, sem bjó í bragga og skrifaði ljóð. Þessi Vera, eins og allar hinar var semsé stútfull af frábæru efni. Mikill skaði er að Vera skyldi leggja upp laupana.

*** Ég læt innganginn fylgja með, enda skiptir máli að þar kemur fram að hverri sem er sé frjálst að senda bréfið til dómara og þarafleiðandi var Femínistafélagið í fullum rétti í að senda það, enda þótt því hefði verið breytt í þeirra meðförum.

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, desember 10, 2008

Þú tortryggir ekki eftir á

Í Kastljósi í gær kom í ljós að þingmanni Samfylkingar finnst verst hve mikil tortryggni er í samfélaginu. Ekki að fólki þyki ástæða til að tortryggja stjórnvöld, bankamenn og embættismenn, heldur að fólk sé svona tortryggið.

Í kvöld situr svo ráðherra bankamála fyrir svörum og finnst að það eigi aðrir að svara því sem hann er spurður að, og er þó yfirmaður þeirra. Honum finnst ekkert að því að endurskoðunarskrifstofa rannsaki viðskiptavini sína - viðskiptavini sem endurskoðunarskrifstofan hefur skrifað uppá ársreikninga hjá - fyrr en honum er bent á það. Og einhverra hluta vegna vissi hann heldur ekkert af því enda þótt t.d. Fjármálaeftirlitið (sem hann er yfir) hafi vitað það.

Er ráðherra bankamála markvisst útilokaður í ríkisstjórninni og af embættismönnum? Hann fær ekkert að vita og látinn standa eins og glópur skipti eftir skipti. Seðlabankastjóri talaði ekki við hann í heilt ár. Er öllum svona illa við Björgvin eða lokar hann sig inná skrifstofu og tekur ekki síma og les ekki tölvupóst? Hvar er hann á netinu þegar allar síður loga af uppljóstrunum um hneyksli tengdum bönkunum?

Efnisorð: ,

þriðjudagur, desember 09, 2008

Krakkar mínir, komið þið sæl!

Gott hjá þeim sem mótmæltu í alþinghúsinu í gær svo varð að gera hlé á þingfundi. Gott hjá þeim sem birtust óforvarindis við Ráðherrabústaðinn og mótmæltu í dag.

Ráðamenn eiga að vita að þeir munu hvergi fá grið fyrr en þeir segja af sér.

Efnisorð:

sunnudagur, desember 07, 2008

Sumt breytist, annað ekki

Ekki skánaði bíómyndin Skytturnar við að horfa á hana í annað sinn. Ég ákvað samt að eyða í það kvöldinu enda mundi ég nánast ekkert eftir henni nema að mér hafði fundist hún leiðinleg. Og það er svosem ekkert skrítið, hún inniheldur stóran skammt af því sem ég þoli ekki: Hvalveiðar, klám, nektardans.

Það sem gerði þó myndina áhugaverða núna var að sjá hve allt hefur breyst í Reykjavík á þeim rúmum tuttugu árum síðan hún var frumsýnd. Þarna mátti sjá matsölustaði sem löngu hafa lagt upp laupana, hús sem eru horfin, bíla á gömlum númerum, hárgreiðsla kvenna og klæðnaður almennt frekar vandræðalegur, búningar löggunnar voru öðruvísi og svarta maría stóð undir nafni, Helgi Björns var grannur.

Eitt hefur þó ekkert breyst. Íslenskir karlmenn eru alltaf jafn ömurlega leiðinlegir þegar þeir eru fullir.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, desember 04, 2008

Forsætisráðherra í ljósi sögunnar

Undanfarnar vikur hafa komið upp ýmsar kenningar um afhverju Geir Haarde hefur ekki rekið Davíð Oddsson úr stóli Seðlabankastjóra. Ein þeirra gengur útá það sem nú kemur fram í fréttum, að Davíð hóti endurkomu í pólitík verði hann rekinn úr starfi. Það er semsagt bara af ótta við klofning í Sjálfstæðisflokknum sem Geir Haarde leyfir Davíð að delera í bankanum, almenningi til mikillar gremju og umheiminum til hneykslunar.

Þetta er reyndar týpískt fyrir karla og þá auðvitað sérstaklega þá sem aðhyllast frjálshyggju, þar sem einkahagsmunirnir eru í fyrirrúmi og samfélag er smámál sem engu skiptir. Hvorugur þeirra vill að í sögubækur verði skráð: hann var rekinn með skömm eða hann glutraði niður fylgi og þar með völdum Sjálfstæðisflokksins. Báðum er skítsama um álit umheimsins og skoðanir landsmanna.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, desember 03, 2008

Hvernig fyrirtæki er réttlætanlegt að styrkja?

Það var ekki vegna þess að ég vildi sérstaklega auglýsa vörur frá Nestlé sem ég nefndi Mackintosh hér fyrir nokkrum færslum síðan. Ég tengi bara Hagkaup eitthvað svo innilega við þessa vöru; fyrir jól eru slíkar stæður af Mackintosh dósum þar að ég hef hvergi séð annað eins. Og svo á ég líka bernskuminningar sem tengjast þessu sælgæti, enda þótt mér þætti flestir molarnir vondir. Samt var alltaf jafn spennandi að opna nýja dós og ómissandi að foreldrarnir keyptu Mackintosh í Fríhöfninni á heimleið frá einhverjum dularfullum útlöndum.

Nestlé keypti Rowntree, fyrirtækið sem framleiðir Mackintosh (eða Quality Street eins og aðrar þjóðir kalla það) árið 1988. Þá þegar var Nestlé orðið illa þokkað um allan heim vegna þurrmjólkur sem það seldi til fátækra þjóða. Markaðssetningin var sú að ota þurrmjólk að öllum mæðrum - ekki bara þeim sem gekk illa að framleiða brjóstamjólk - á þeim forsendum að þurrmjólkin væri hollari. Oft á tíðum var takmarkaður eða enginn aðgangur að hreinu vatni á þeim svæðum sem þurrmjólk var hampað, en mjólkurduftið þarf að blanda með vatni og setja í sótthreinsaða pela (og til sótthreinsunarinnar þarf líka vatn), með þeim afleiðingum að fjöldi barna dó úr niðurgangi. Að auki var fyrirtækið sakað um rangar og villandi merkingar á umbúðum, sem þaraðauki voru ekki á tungumáli þeirra sem þurrmjólkin var seld til. Frá og með 1977 hefur Nestlé því mátt sæta því að vera sniðgengið (boycott) á Vesturlöndum en 1984 dró úr ásökunum á hendur fyrirtækinu því það undirritaði samning heilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (WHO) um hvernig markaðssetja mætti þurrmjólk. Síðan þá hefur fyrirtækið margsinnis orðið uppvíst að því að hunsa samninginn.*

Nestlé er, í stuttu máli sagt, fyrirtæki sem vílar ekki fyrir sér að drepa kornabörn. Þau eru ásættanlegur fórnarkostnaður. Nestlé hefur keypt upp mikið af fyrirtækjum og náð þannig undir sig þekktum vörumerkjum sem fólk áttar sig ekki alltaf á að sé nú orðið að gróðamaskínu fyrir Nestlé. Þannig eru eflaust mörg sem hafa ætlað sér að sniðganga Nestlé en óvart keypt vörur þess. Til hægðarauka fyrir þau sem er ekki sama um ungbarnadauða hef ég sett tengil á síðu þar sem fram koma heiti á vörum Nestlé, þar á meðal eru alþekkt vöruheiti sem fást hér.** Neskaffi og Nesquick kakó eru þar á lista auk sælgætis eins og After Eight, Kit Kat, Smarties - og Gerber barnamatur.

Ég taldi upp fyrir löngu síðan vörur og fyrirtæki sem ég sniðgengi vegna kvenfjandsamlegra viðhorfa sem þau tengdust og sagði þá um leið að ég sniðgengi fleiri vörur og fyrirtæki sem ekki tengdust feminískri baráttu minni og hafði ég þá m.a. Nestlé í huga. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að neita sér um að kaupa vörur þessa gríðarlega fyrirtækis og eflaust hef ég keypt þær óvart, enda ekki gott að henda reiður á hvaða fyrirtæki það hefur gleypt og merkingar ekki alltaf áberandi. En ég hef þó a.m.k. reynt, enda alger óþarfi að styrkja svona hyski viljandi.

---

*Það má lesa um þurrmjólkurhneykslið og hvernig Nestlé markaðsetur nú þurrmjólk í Bangladesh í þessari grein í Guardian, og hér. en ég fann engar greinar um fyrirtækið á íslensku. Eina skiptið sem það var nefnt í sambandi við þurrmjólk (fyrir utan melanmín hneykslið í Kína, sem er allt annað mál) var á bloggi Stefáns og þá í allt öðru samhengi. Og vona ég að engin hlaupi í vörn fyrir þær konur sem geta ekki verið með börn á brjósti og verða að treysta á þurrmjólk, það er engin að ásaka þær.

**Þegar ég las listann yfir vörurnar varð mér ljóst að ég hafði neitað mér um að borða Toblerone fullkomlega að tilefnislausu, það er hreint ekki framleitt af Nestlé né í eigu þess fyrirtækis! Hjarta mitt fyllist trega vegna óétins súkkulaðis og ljóst er að ég á mikið verk fyrir höndum að bæta mér þetta upp.

— Viðbót: Enn kemur í ljós að Nestlé er síður en svo besti vinur barnanna, heldur notfærir sér þau í þrælkunarvinnu.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, desember 02, 2008

Sömu laun fyrir sömu vinnu

Steinunn Stefánsdóttir skrifar fínan leiðara í Fréttablaðinu í dag um launamun kynjanna. Þar segir hún m.a. þetta:

„Konur á Íslandi eru með 16,3 prósentum lægri laun en karlar eftir að tekið hefur verið tillit til vinnutíma, starfs, menntunar, aldurs, atvinnugeira og þess hvort fólk er sjálfstætt starfandi eða launþegar. Þetta er óásættanleg staðreynd á árinu 2008.

Ríkisstjórn Íslands hefur á stefnuskrá sinni að draga úr launamun kynjanna. Til að geta fylgst með árangri hefur Félagsvísindastofnun gert launakönnun fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið. Meginmarkmið könnunarinnar var að kanna laun og launasamsetningu karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði til að komast að því hvort kynbundinn launamunur væri fyrir hendi, hve mikill hann væri og hvort og hvernig mætti skýra muninn. Könnunin tekur til karla og kvenna á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi og bæði í einkageiranum og hinum opinbera. Þetta er í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun er gerð á launamun kynjanna og mun hún áreiðanlega nýtast vel til viðmiðunar í framhaldinu.

Ýmis stéttarfélög hafa gengist fyrir launakönnunum þar sem sýnt hefur verið fram á mismikinn launamun milli kynja. Niður stöður úr fyrrnefndri könnun Félagsvísindastofnunar koma því ekki á óvart. Ljóst er að enn er langt í land að launajafnrétti náist.

Einkum vekur staða kvenna úti á landi þó eftirtekt en samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er kynbundinn launamunur umtalsvert meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni eru konur með 27,5 prósentum lægri laun en karlar meðan munurinn nemur 9,3 prósentum á höfuðborgarsvæðinu.“

Þó það komi kristaltært fram í leiðaranum að launamunur kynjanna sé enn gríðarlega mikill þá þykir mér Steinunn ekki gera nógu vel grein fyrir þvi að ríkisstjórnin hefur brugðist konum í þessu máli. Það er ekki nóg að nú séu til tölur „til viðmiðunar í framhaldinu“ þegar markmið ríkisstjórnarinnar var að minnka launamun - og að það hefur alls ekki tekist. Steinunn eggjar þó vinnuveitendur til dáða og hvetur til samstillts átaks um að auka ekki á launamuninn nú þegar kreppir að. En mér finnst hún samt setja ábyrgðina fullmikið á herðar kvenna þegar hún segir að konur verði að koma vel undirbúnar í launasamtöl og krefjast launa á við karla. Í því umhverfi sem við höfum hrærst í undanfarin ár hafa verkalýðsfélög látið launþega um að semja sjálfa um sín laun en launaleynd hefur ríkt og því oft nánast vonlaust að vita hvernig fólk á að verðleggja vinnu sína. Að ætlast til þess að konur - sem markvisst hafa fengið að heyra frá fæðingu að þær séu síðri körlum - krefjist sömu (hvaða?) launa, ja þar er verið að snúa hlutum á hvolf. Það er alveg ljóst að vinnuveitandinn er sá sem veit hve mikils virði starfið er og hvað hægt er að borga, Ef fyrirtæki getur borgað einhverjum 300.000 fyrir að vinna starf, þá á ekki að borga karli meira en það og sannarlega ekki konu minna. Það getur ekki verið svo erfitt að fara eftir því.

Steinunn talar líka um „væntingar kvenna til launa“ en ég held að það sé rangnefni, nær væri að tala um „konur búast ekki við að fá hærri laun en þetta“. Það vonast engin kona til að fá lág laun, en reynslan sýnir að það hefur ekki verið raunhæft að búast við miklu frá vinnuveitendum

Ég ítreka að mér finnst leiðari Steinunnar góður og hún hefur verið dugleg að halda á lofti feminískum sjónarmiðum í leiðurum sínum.

Að sama skapi hafa vinnuveitendur verið duglegir að halda á lofti and-feminískum sjónarmiðum. Jæja, það er þá alltaf von til þess að þeir fari á hausinn, helvískir.

Efnisorð: , ,

mánudagur, desember 01, 2008

Doði

Það sem var sorglegast við fundinn á Arnarhóli var ekki hvað fá mættu, Því fólk er eðlilega hrætt við að ganga út á miðjum vinnudegi, vitandi ekki nema því verði refsað þegar næsta hrina uppsagna ríður yfir. Það sem var sorglegt er viðhorf margra þeirra sem ekki mættu. Viðhorf doðans. Það viðhorf að það taki því ekki að mótmæla, það taki því ekki að tala um ástandið, taki því ekki að biðja um breytingar eða fylgjast með fréttum.

Og verst er að heyra fólk spyrja hverju sé verið að mótmæla, eins og það hafi aldrei heyrt minnst á ráðaleysi ráðamanna og eyðslusemi auðkýfinga. Og þegar búið er að segja þessu fólki, þessu dofna fólki, hverju sé verið að mótmæla og afhverju það skipti máli að fylgjast með og krefjast breytinga, þá spyr það hvaða lausnir sé boðið uppá. Og þegar búið er að útskýra fyrir því að vandinn liggi fyrir en ekki séu öll nákvæmlega sammála um hver lausnin sé*, en það sé m.a. það sem við viljum fá að kjósa um, þá finnst því að það sé búið að eyða alveg nógu miklum tíma í að tala um svona niðurdrepandi hluti þann daginn og vill taka upp léttara hjal.

Eins og þetta sé eitthvað sem bara hverfur ef það er þagað í hel.

___
* Dæmi:
Sum vilja ganga í Evrópusambandið, önnur ekki
Sum vilja kjósa um sömu flokkana aftur, önnur ekki
Sum vilja utanþingsstjórn, önnur ekki
Sum vilja taka upp evru, önnur ekki
Sum vilja að Vinstri græn fari í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum - og það vil ég ekki!

Efnisorð: ,