sunnudagur, júní 27, 2010

Baráttan töpuð og þá er reynt að bakka með stóru orðin

Í blaði sem hét Morgunpósturinn og er löngu hætt að koma út var einhverskonar viðtal við Gunnar Þorsteinsson forstöðumann Krossins.* Þetta var árið 1994 og þá var skoðun Gunnars þessi: „Í mínum huga eru menn annað hvort kristnir eða kynvillingar. Þetta tvennt samræmist ekki.“ Margt annað hefur Gunnar í Krossinum látið sér um munn fara og skrifað á prenti um samkynhneigt fólk gegnum tíðina og reynt að koma í veg fyrir að þau njóti sömu réttinda og annað fólk; iðulega þá hamrað á „kynferðislegum afbrigðileika þeirra“**, enda greinilega með endaþarmsmök á heilanum. Alltaf hefur hann veifað Biblíunni og sagt að hún sé ekki háð túlkun heldur sé hún orð guðs sem beri að hlýða.

Á þessu ári hefur svo þessi sami Gunnar, nýskolaður aftanfrá, skilinn og giftur aftur, lýst því yfir að líf sitt hafi breyst og „að Krossinn þurfi að höfða til breiðari hóps í samfélaginu. Til þess þurfi söfnuðurinn að varpa fordómunum fyrir róða og skoða eigin innviði hátt og lágt.“ Hvort Guð hafi ekki lengur skrifað Biblíuna er ekki tekið fram.

Allt fram að því að Gunnar breyttist svona mikið þrumaði hann yfir syndurum, fjarstöddum sem nærstöddum. Samkynhneigt fólk sem reynt hefur að sækja samkomur Krossins hefur sumt kiknað undir boðskapnum og skrifaði Illugi Jökulsson eitt sinn grein þar sem hann nefnir það sem eina orsök þess að ungur piltur framdi sjálfsmorð. Illugi segir:
„Enginn maður á Íslandi hefur að undanförnu verið jafn opinskár með fordóma sína gagnvart samkynhneigðum og Gunnar í Krossinum. Hann veifar mörg þúsund ára gömlum ritningarstöðum og talar um viðbjóð og viðurstyggð og synd og helvítisvist - svo andstyggileg sé samkynhneigð í augum Guðs, sem Gunnar þykist þekkja betur en flestir aðrir menn.“
Illugi vandar heldur ekki þjóðkirkjunni kveðjurnar og segir að hún þumbist við að leyfa samkynhneigðum að ganga í kirkjuleg hjónabönd og sé þjóðkirkjan ásamt öðrum kirkjudeildum „hin síðustu vígi opinberra fordóma gegn samkynhneigðum.“

Ekki veit ég til þess að biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson hafi skilið eða látið skola sig aftanverðan nýlega, ætli orð hans í tilefni af því að samkynhneigt fólk má nú giftast hafi ekki bara aðallega verið tilraun til að láta dóm sögunnar falla mjúklega á hann eftir allt það sem á undan er gengið. Nú biðst hann afsökunar og þykist bara hafa látið þau orð falla í hita leiksins að yrði „hjónabandið ekki lengur skilgreint sem samband karls og konu, yrði því kastað á sorphauginn“. Þessi orð ein og sér voru lágkúruleg en málið er að árum saman hefur hann og hópur afturhaldsseggja innan þjóðkirkjunnar unnið gegn réttindabaráttu samkynhneigðra. Það er ekki nóg að segjast hafa bara verið að taka afstöðu með hefðinni, það er ekkert skárri afsökun en að hafa verið að fylgja fyrirmælum guðs. Hómófóbískir skúnkar hafa ráðið för; nú hafa þeir misst stjórnina og láta þá svo lítið að segja að þeir séu eiginlega bara alveg búnir að skipta um skoðun. Þvílíkir lúserar.

Sigurvegarar dagsins eru samkynhneigð sem með þrotlausri baráttu hafa loksins náð fullum réttindum á við aðra Íslendinga. Og svo fyrirgefa þau skúnkum, það heitir að sigra með stæl!

___
* Ég fann Morgunpóstinn í einni af fjölmörgum atlögum sem ég hef gert að blaðahrúgum heimilisins. Þetta er úr Morgunpóstinum 6. desember 1994.
** Fyrir þessa grein sem þetta með kynferðislega afbrigðileikann er tekið uppúr kærðu Samtökin 78 Gunnar í Krossinum til lögreglu á grundvelli 233a gr. almennra hegningarlaga þar sem m.a. er kveðið á um fjársektir og fangelsi fyrir að ráðast opinberlega með háði, rógi, smánun eða ógnun á mann eða hóp manna vegna kynhneigðar þeirra.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, júní 25, 2010

Fóstur finna ekki til sársauka

Ein af fjölmörgum mýtum* andstæðinga fóstureyðinga er sú að fóstur kveljist þegar fóstureyðing er framkvæmd. Þetta þykjast þeir tildæmis hafa sýnt fram á með myndum sem eiga að sýna kvalaöskur fósturs meðan á aðgerð stendur.** Nú hefur verið gerð ítarleg rannsókn á fóstrum*** og niðurstaðan er sú að sex mánaða fóstur finna ekki sársauka. Ástæðan er sú að tengingar í heilanum eru ekki fullþroskaðar. Fóstrin eru meðvitundarlaus, hafa hvorki vitund né finna til. Hingað til hefur ekki verið gerð rannsókn á fóstrum meðan á meðgöngu stendur, heldur hefur verið miðað við fyrirbura, þ.e. börn sem þegar eru fædd. En samkvæmt þessari rannsókn eru fóstrin semsagt algerlega laus við ótta og sársauka þegar fóstureyðing er framkvæmd.

Ég á reyndar ekki von á að andstæðingar fóstureyðinga gleðjist yfir þessum niðurstöðum, enda snýst áróðursstríð þeirra í raun ekki um velferð fóstursins (hvað þá fæddra barna) heldur vald yfir líkama kvenna. Konur, samkvæmt ofsatrúarmönnum sem vilja meina þeim um fóstureyðingar, eru ætlaðar til undaneldis og mega ekki reyna að skjóta sér undan því hlutverki. Til þess hefur ýmsum brögðum verið beitt, tildæmis að ljúga því að fóstureyðing sé dráp á börnum sem skynji sársauka og hafi vitund. Hafi einhver trúað því þá er það hér með afsannað.

___
* Dæmi um mýtur er að konur þjáist af samviskubiti láti þær eyða fóstri og þær séu líklegri til að fá brjóstakrabbamein.
** Í myndinni The Silent Scream sem andstæðingar fóstureyðinga létu gera og halda mikið uppá (og hefur m.a. verið sýnd á Omega) er slík sena: fóstur með gapandi munn og undir er spilað skerandi hljóð. Áhorfandi á þá að trúa því að þarna sé um kvalaóp að ræða.
*** Í Bretlandi hefur verið deilt um hvort fóstureyðing upp að sex mánaða meðgöngu sé réttlætanleg og rannsóknin miðar því við sex mánaða fóstur. Rannsóknina má lesa hér (á ensku).

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, júní 23, 2010

Rétturinn til að drepa allt kvikt

Mér þykja skotveiðar hörmulegt sport. Látum vera að menn veiði sér til matar en að kalla það sport eða skemmtun sýnir undarlegt innræti. Skotveiðimenn virðast reyndar fæstir vera að skjóta sér í matinn heldur er aðalmálið að drepa og það helst sem mest. Jafnvel þó dýrin sem skotið er á drepist ekki strax þá þykir feikna fjör að sjá þau falla eða vita að þau eru slösuð. Það hefur eitthvað með karlmennskuna að gera, ég er líklega of mikil kvenremba til að skilja svoleiðis.

Nýlega var í fréttum að skotveiðimenn hafi gert sér það til skemmtunar að drepa haferni og fálka — sært þá marga til ólífis en eflaust líka marga hirt til þess að eiga þá (eða selja) uppstoppaða. Til að sýna fram á karlmennskuna sko.* Nú eru skotveiðimenn búnir að senda frá sér yfirlýsingu vegna þess að til stendur að takmarka veiðar innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Þeir eru æfir, sama má segja um jeppakarla sem splæstu í átta síðna blað sem dreift var með Fréttablaðinu*** og innihélt eingöngu áróður fyrir því að þeir megi spæna utanvegar og upp um allar trissur með hávaða og látum innan þjóðgarðsins.

Skotveiðimenn eru einmitt gjarnan jeppakallar líka; enda gott að geta elt bráðina á upphituðum bíl. Virðing fyrir náttúru (sem jeppakallar láta sem sé aðalástæða þess að þeir þurfi nauðsynlega að juðast yfir ófærur) er í raun engin, síst þegar skotveiðimenn eiga í hlut. Aðalmálið er að sýna yfirráðin yfir náttúrunni — en karlmenn virðast fastir í þeirri bókstafstrú á Biblíuna að þeir séu yfir náttúruna og dýrin hafin; náttúran eigi að vera þeim undirgefin og þeir drottni yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni. Mikil er trú þeirra.

___
* Ég hef áður skrifað að karlmönnum þætti örugglega bara fjör að veiða tígrisdýr í útrýmingarhættu — en hafernir og fálkar eru einmitt líka alfriðaðir.
** Í athugasemd við frétt um yfirlýsingu skotveiðimanna segir Stefán Benediktsson, fyrrverandi þjóðgarðsvörður í Skaftafelli: „Þjóðin er yfir þrjúhundruð þúsund einstaklingar og skotveiðimenn líklega innan við 1% af þeim hópi. Sú staðreynd gefur orðinu Þjóðgarður skiljanlega merkingu. Skotveiðigarður gæfi svæðinu allt annað gildi.“
*** Þeir eru greinilega ekki blankir og verður ekki mikið hægt að taka mark á þegar þeir jarma næst um hve eldsneyti sé dýrt; nema þeir hafi tekið út gróðann á myntkörfulánsbreytingunni fyrirfram. Myntkörfulánsdómur Hæstaréttar virkar reyndar á mig eins og uppfylling á kosningaloforði Besta listans: Allskonar fyrir aumingja.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, júní 22, 2010

Fóstureyðingar í friði fyrir bænakvaki

Um þetta leyti í júní á gósenárinu 2007 skrifaði ég mikinn bálk um fóstureyðingar. Allt bar þar að sama brunni: ég er hlynnt rétti kvenna til fóstureyðinga hverjar svo sem aðstæður þeirra eru, ástæður sem þær hafa fyrir að vilja ekki ala barn eða hversu oft þær hafa gengið gegnum slíka aðgerð áður.

Ég minntist þá eitthvað á kaþólikka og ofsatrúarmenn sem hamra á því að fóstureyðing sé synd og segja að allar konur fái hræðilegt samviskubit fari þær í slíka aðgerð — samviskubit sem þeir sjá um að planta í konurnar með endalausum áróðri sínum. Ofsatrúarmenn í Bandaríkjunum stunda að auki að fjölmenna við læknastofur þar sem fóstureyðingar eru framkvæmdar og gera þá hróp að konum sem þangað sækja og svo veifa þeir skiltum með fordæmingum og yfirlýsingum um að guð elski öll börn (þar til þau verða fullorðin og verða óvart barnshafandi).

Nú hafa íslenskir ofsatrúarmenn tekið upp þennan sið. Þeir virka reyndar afar meinleysislegir, standa bara og biðja á Landspítalalóðinni, beint fyrir framan innganginn að kvennadeildinni að sjálfsögðu.* Þeir tilheyra félagsskapnum Lífsvernd, sem er eitthvað kaþólskt fyrirbæri. Jafnframt bænastundinni við kvennadeildinni birta þeir auglýsingu (sem ég held að birtist daglega) í Fréttablaðinu og e.t.v. víðar, þar sem frasinn: Konur eiga betra skilið en þetta! er látið vera svarið við spurningunni Fóstureyðing. Lífsvernd vill að konur gefi börnin, enda létt verk og löðurmannlegt að ganga fulla meðgöngu og gefa svo bara barnið frá sér til 'góðs fólks'.**

Lífsverndarfólkið þykist auðvitað bara vera gott fólk.*** Það stendur bara og biður og þykist örugglega engan angra. En þau angra mig. Mér finnst ömurlegt til þess að vita að það séu einhverjir trúarbrjálæðingar á sveimi fyrir utan kvennadeildina í því skyni að benda konum á að þær séu að fremja synd og þegar þær komi út (úr viðtali, aðgerð eða eftirskoðun) eigi þær von á að ganga í flasið á þessu fólki. Enda þó þau standi núna bara og biðji, þá hef ég illan grun um að það komi að því að þeim þyki bænir ekki nóg (vegna þess að þau verða ekki bænheyrð, döh) og fari að mæta með skilti og gera hróp að konum.

Konur hafa ekki bara rétt til fóstureyðinga heldur hafa þær rétt á að fá að ganga gegnum það ferli í friði og án þess að reynt sé að koma inn hjá þeim samviskubiti og eftirsjá.

___
* Það væri fróðlegt að hringja í Kvennadeildina og spyrja hvort vitað sé hvernig stendur á því að þriðjudagur varð fyrir valinu — eru flestar aðgerðirnar gerðar þá eða koma konur í viðtöl á þeim tíma? Eru konurnar ávarpaðar af hópnum þarna fyrir utan?
** Engin líkamleg vanlíðan á meðgöngu hrjáir svo fórnfúsar konur og það hlýtur að vera stuð að láta alla sjá óléttubumbuna og spyrja hvenær barnið fæðist. Ekkert andlegt álag þar. Fæðingin verður auðvitað án allra áfalla líka, hlýtur bara að vera, varla hægt að afhenda nýju foreldrunum gallaða vöru!
*** Þau líta svosem nógu sakleysislega út. Síðasta þriðjudag klukkan tíu mínútur yfir eitt keyrði ég einn rúnt um Landspítalalóðina og þá stóðu fjórar hræður á graseyjunni á bílastæðinu fyrir framan kvennadeildina og svo bættist fimmta hræðan við. Ég kannaðist ekki við neitt þeirra (ég hélt jafnvel að frægir bloggandi andstæðingar fóstureyðinga væru þarna á meðal en svo var ekki að sjá) og þau virkuðu hálf umkomulaus. Ég tek kannski með mér kex næst og gauka að þeim. En þegar ég keyrði annan rúnt í dag, klukkan tíu mínútur í eitt og þá var ekkert bænakvak, því hefur líklega verið lokið.

Efnisorð: , ,

laugardagur, júní 19, 2010

Feministar eiga þakkir skildar

Kvenréttindadagurinn. Víða um lönd eru kvenréttindi enn talin fjarstæða og hér á Vesturlöndum fengu konur heldur ekki réttindi á silfurfati heldur lögðu allt undir, líf og líkama þarmeðtalin, til að fá það sem í dag þykir svo sjálfsagt. Vegna þess hve margar konur virðast líta á núverandi stöðu kvenna sem sjálfsagða, þá er rétt að benda á að við eigum enn langt í land en jafnframt að við höfum náð stórkostlegum árangri. Sá árangur er mörgum kynslóðum feminista að þakka. Eitt sinn skrifaði ég upp úr Veru sálugu eftirfarandi og vil ítreka það nú.

Ef þú ert kvenkyns og …

… þú hefur atkvæðisrétt, þakkaðu það feminista

… þú færð borgað eins mikið og karlmenn sem vinna sama starf, þakkaðu það feminista.

… þú fórst í framhaldsnám í stað þess að ætlast væri af þér að þú hættir eftir skyldunámið svo bræður þínir gætu farið í nám því „þú giftist hvort eð er bara,“ þakkaðu það feminista.

… þú getur sótt um hvaða starf sem er, ekki bara „kvennastörf,“ þakkaðu það feminista.

… þú getur fengið eða gefið upplýsingar um getnaðarvarnir án þess að lenda í fangelsi, þakkaðu það feminista.

… læknirinn þinn, lögmaðurinn, prestur, dómari eða þingmaður er kona, þakkaðu það feminista.

… þú tekur þátt í keppnisíþróttum, þakkaðu það feminista.

…þú getur verið í buxum án þess að vera útskúfuð úr söfnuðinum eða flæmd burt úr bænum, þakkaðu það feminista.

… yfirmanni þínum leyfist ekki að þvinga þig til að sofa hjá honum, þakkaðu það feminista.

… þér er nauðgað og réttarhöldin fjalla ekki um síddina á pilsinu eða fyrri kærasta þína, þakkaðu það feminista.

… þú kemur litlu fyrirtæki á laggirnar og þú getur fengið lán út á þitt eigið nafn og lánstraust, þakkaðu það feminista.

… þú kemur fyrir rétt og þér er leyfilegt að bera vitni þér til varnar, þakkaðu það feminista.

… þú átt eign sem er eingöngu þín, þakkaðu það feminista.

… þú hefur rétt til að ráðstafa launum þínum enda þótt þú sért gift eða eigir karlkyns ættingja, þakkaðu það feminista.

… þú færð forræði yfir börnunum í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita, þakkaðu það feminista.

… skoðanir þínar skipta máli við uppeldi barna þinna í stað þess að þeim sé algerlega stjórnað af eiginmanninum/föðurnum, þakkaðu það feminista.

… eiginmaður þinn lemur þig og það er ólöglegt og lögreglan stoppar hann í stað þess að lesa þér pistilinn um hvernig þú eigir að bæta hegðun þína sem eiginkona, þakkaðu það feminista.

… þér er veitt prófgráða að loknu framhaldsnámi í stað viðurkenningarskjals fyrir þátttöku, þakkaðu það feminista.

… þú getur gefið barni þínu brjóst á almannafæri svo lítið beri á, án þess að vera tekin föst, þakkaðu það feminista.

… þú giftist og borgaraleg réttindi þín renna ekki saman við réttindi eiginmanns þíns, þakkaðu það feminista.

… þú hefur rétt til að neita kynlífi með sýktum eiginmanni (eða bara „eiginmanni,“ þakkaðu það feminista.

… þú hefur rétt að sjúkraskýrslur þínar séu þitt einkamál en komi ekki fyrir sjónir karlmannanna í fjölskyldu þinni, þakkaðu það feminista.

… þú hefur rétt til að lesa þær bækur sem þú vilt, þakkaðu það feminista.

… þú getur borið vitni í rétti um glæpi eða misgjörðir eigimanns þíns, þakkaðu það feminista.

… þú getur valið að eignast barn eða eignast ekki barn þegar þú vilt en ekki eftir hentugleikum eiginmanns eða nauðgara, þakkaðu það feminista.

… þú sérð fram á að lifa til 80 ára aldurs í stað þess að deyja á þrítugsaldri vegna ótakmarkaðra barneigna, þakkaðu það feminista.

…þú sérð sjálfa þig sem heilsteypta, fullorðna manneskju í stað ósjálfráða einstaklings sem þarfnast karlmanns til að stjórna sér, þakkaðu það feminista.

Efnisorð:

mánudagur, júní 14, 2010

Þjóð í tímabundinni kreppu getur veitt þróunaraðstoð

Í gær lauk ég loks við að lesa upplýsingarit Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem dreift var með Fréttablaðinu 21. maí síðastliðinn. Ég hef mjatlað gegnum blaðið smátt og smátt, haft það á matarborðinu og lesið það þegar ekkert annað hefur verið við hendina; en sú regla ríkir á heimilinu að ávallt skal lesa við matarborðið.

Það er auðvitað frekar óviðeigandi að sitja með kræsingar fyrir framan sig og kjamsa á þeim meðan lesið er um fátækt, heilbrigðisvandamál, ungbarnadauða, vatnsskort og ólæsi.* En reyndar er upplýsingaritið uppfullt af jákvæðum fréttum. Viðtöl við fólk sem starfar við verkefni Þróunarsamvinnustofnunarinnar eða hefur notið góðs af þeim segja meira en tölulegar upplýsingar, gröf og skífurit um hvernig starfi stofnunarinnar er háttað og hvað „Ísland græðir á því“ að sinna þróunarhjálp í Afríku. Mér fannst viðtalið við Agnesi Jana í Malaví bera af mörgum góðum og hyggst endursegja hluta þess hér. Hún er fædd 1966 og er fimm barna móðir sem byrjaði í fullorðinsfræðslu vegna þess að hún kunni ekki að lesa eða skrifa og gat ekki reiknað út hvort hún var með hagnað eða tap af kleinusölunni sem hún stundaði. Ólæsið hamlaði henni á margan hátt því hana langaði að taka þátt í samfélaginu með virkum hætti. Hún útskrifaðist árið 2004 og hafði þá náð fullum tökum á lestri, skrift og einföldum reikningi. Hún getur nú reiknað út stöðu rekstursins sem nú felst í sölu á tómötum, klæðaskurði, hnetubakstri og framleiðslu ávaxtasafa. Að auki gegnir hún nú margvíslegum stöðum í samfélaginu og nefna má sem dæmi að hún er
„gjaldkeri stýrinefndar St Louis-grunnskólans, hún er gjaldkeri alnæmisnefndar Mjogo-þorps. Hún er aðstoðarforstýra Sænska samvinnusetursins sem vinnur að því að draga úr eyðingu skóga sem og að auka samfélagslegan sparnað og fjárfestingur, hún stýrir múslímska kvennafélaginu í Apaflóa og er aðstoðarforstýra Tikondane-ávaxtaframleiðsluklúbbsins.“
Sonur hennar er í hjúkrunarnámi, tvær dætranna hafa lokið menntaskóla og hinar tvær eru langt komnar með að ljúka grunnskólanámi. Það virðist því sannast sem sagt hefur verið að njóti kona menntunnar þá nýtur samfélagið menntunar hennar.

Íslendingar hafa lengi lagt skammarlega lítið til þróunarmála eða aðeins 0.32 prósent þegar mest var í stað þeirra 0.7 prósenta sem Sameinuðu þjóðirnar hafa farið fram á að iðnríki láti af hendi rakna.*** Nú þegar skera þarf niður í ríkisútgjöldum bitnar það auðvitað líka á Þróunarsamvinnustofnuninni og verkefnum hennar. Það verður því lítið til skiptanna næstu árin.**** Það má þó ekki gleyma því að hver króna skiptir máli og jafnvel verkefni sem virka svo smá — eins og að kenna einni konu að lesa, skrifa og reikna smávegis — geta haft ótrúlega mikil áhrif á líf þess einstaklings og á samfélagið allt því menntaður einstaklingur leggur hart að sér til að börn sín njóti líka menntunar og smám saman verður samfélagið og öll þjóðin betur sett en áður.

Utanríkisráðherra hefur með höndum þróunarmál og Össur Skarphéðinsson segir að í haust muni hann leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára áætlun um þátttöku Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Megi hún hljóta skjótari afgreiðslu og jákvæðari undirtektir en sú sem nú er helsta rifrildismálið, vatnalögin. Það væri þeim hollt sem vilja selja vatnið að kynna sér hve mikilvægt aðgengi að vatni er fyrir samfélag.

___
* Úr pistli Össurar: Á hverjum degi deyja um 24 þúsund börn yngri en fimm ára af völdum sjúkdóma og fátæktar víðs vegar um heiminn. Á tveggja vikna fresti sviptir skortur og örbirgð því fast að 350 þúsund lítil börn lífinu, eða fleiri en alla íbúa Íslands.
** Þetta hefur verið sagt í ýmsum myndum og eignað mörgum. Dæmi: Ef þú menntar konu þá menntarðu þjóð. Ef þú menntar karlmann menntarðu einstakling en ef þú menntar konu þá menntarðu samfélag. Ef þú menntar stúlku menntarðu fjölskyldu hennar o.s.frv. Merkingin er alltaf sú sama: með því að veita konu menntun þá gagnast það ekki bara henni heldur umhverfi hennar, þ.e. nærumhverfi og þjóðinni allri því konur sjá um uppeldið og hvetja börn sín af báðum kynjum til dáða.
*** Þetta er ein af glæstum arfleifðum áratuga yfirráðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á Íslandi; skítasmápeningur til nauðstaddra meðan landinn lifði í vellystingum. Og það fyrsta sem frjálshyggjandi hyski sagði eftir hrun var að nú værum við svo „fátæk“ að við mættum ekki láta krónu af hendi rakna til einhverra útlendinga sem okkur koma hvorteðer ekkert við. Bjakk, þvílíkt viðhorf.
**** Þróunarsamvinnu við Níkaragva og Sri Lanka hefur þegar verið hætt og í lok þessa árs dettur Namibía líka út. Eftir standa þá Mósambík, Úganda og Malaví.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, júní 12, 2010

Má bjóða yður vatn, hr. Drakúla?

Ég bíð milli vonar og ótta eftir að ríkisstjórninni takist að koma frumvarpinu um afnám vatnalaga á dagskrá, gegnum atkvæðagreiðslu og afnemi þannig hinar illu fyrirætlanir um að vatn verði söluvara í eigu auðjöfra og stórfyrirtækja. Í gærkvöld ætlaði ég eins og fífl að sjá umfjöllun um það í fréttum Sjónvarpsins auk þess sem ég hlakkaði til að sjá fagnaðarlætin vegna gildistöku laga um hjúskap sem nú heimila samkynhneigðum að gifta sig í kirkju eins og öðru fólki. Í smástund hélt ég jafnvel að það yrði tvísýnt hvort málið fengi meira pláss í Kastljósinu. En svo var auðvitað enginn fréttatími (a.m.k. ekki þegar ég kveikti rétt fyrir sjö, var hann kannski fyrr á dagskrá?) og ekkert Kastljós var boðað. Nú er nefnilega verið að dekra við þann minnihluta þjóðarinnar (38%) sem horfir á fótbolta. Allt annað verður að víkja, jafnvel mannréttindi og spurningin um hvort þjóðin eða auðmenn eigi vatnið. Reyndar held ég að Sjálfstæðismenn hljóti að vera ægilega glaðir með að fótbolti sé svona mikið í Sjónvarpinu, hann er jú þessi ágæta útgáfa af brauði og leikum sem valda því að lýðurinn hugsar ekki of mikið um það sem máli skiptir, heldur horfir æstur á afþreyinguna sína og lætur pólitíkusana um það sem pólitíkusunum ber. Eða eins og Hannes Hólmsteinn orðaði það: „Í Sjálfstæðisflokknum er eiginlega fólk sem að hugsar ekkert mikið um pólitík og er frekar ópólitískt ... þannig að þeim finnst hérna ... gott að hafa mann sem sér um pólitíkina fyrir þá og Davíð var slíkur maður.“

Mig langar af þessu tilefni — nei ekki vatnalögunum eða breytingum á hjúskaparlögunum — að fjalla aðeins um ábyrgð almennings og þá kjósenda Sjálfstæðisflokksins sérstaklega. Ég hef eitthvað skrifað um það áður en nú vill svo til að ég hef nýlokið við að lesa „Ísland, anno núll“, ágæta grein Guðna Elíssonar í Tímariti Máls og menningar þar sem hann fjallar um viðbrögðin við Rannsóknarskýrslunni. Ég stel því búti úr henni hér:

Guðni Elísson segir:
„Í pistli sem birtist í Fréttablaðinu segir Einar Már Jónsson sagnfræðingur ábyrgð efnahagshrunsins liggja hjá þremur hópum: hjá „hugmyndasmiðum frjálshyggjunnar“, einstaklingum sem réðust gegn velferðarkerfinu og ráku áróður fyrir kenningunum um árabil; hjá þeim stjórnmálamönnum sem „beittu sér fyrir því að hrinda kenningum hugmyndasmiðanna í framkvæmd“; og síðast en ekki síst liggur hún hjá bröskurunum sem nýttu tækifærið þegar búið var að afnema aðhaldið og „létu greipar sópa um allt það sem nú var ofurselt þeirra eigin græðgi, og sólunduðu því að því er virðist í fjármálafyllirí og flottræfilshátt“.

„Sé skilgreiningu Einars beitt má fullyrða að fáir beri meiri ábyrgð á hruni íslensks efnahagslífs en þingmenn Sjálfstæðisflokksins, en þeir bera í senn ábyrgð á hugmyndafræði og stjórnmálastefnu, auk þess sem fjölmargir þeirra tóku beinan eða óbeinan þátt í því braski sem ýtti þjóðinni fram yfir hengiflugið. Flokkurinn hefur ekki aðeins verið boðberi frjálshyggjunnar á Íslandi undanfarna áratugi, heldur var það að hans frumkvæði að bankarnir voru einkavæddir og var þar fylgt gamalkunnri helmingaskiptareglu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og vikið frá kröfum um faglega þekkingu og reynslu á sviði fjármálaþjónustu. Á síðustu misserum hafa svo þingmenn flokksins og framkvæmdastjórar lent í vandræðum vegna aðkomu sinnar að vafasömum viðskiptavafningum og ótrúlegri skuldsetningu, með ólöglegum arðgreiðslum og með því að þiggja himinháa styrki frá fyrirtækjum. Þeir hafa einnig komið beint að málefnum bankanna með því að sitja í sjóðum þeirra og ráðum. Síðast en ekki síst ber Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og varaformaður bankaráðs Landsbankans höfuðábyrgð á Icesave ásamt bankastjórunum tveimur og Björgólfi Guðmundssyni, formanni bankaráðs, á meðan einn af varaþingmönnum flokksins vann við það í markaðsdeild Landsbankans að afla Icesave-reikningunum brautargengis í útlöndum.

„Í fljótu bragði mætti ætla að almenningur felldi þunga dóma um slíkt framferði flokksmanna. Raunin var þó sú að á vordögum 2010 var flokkurinn aftur orðinn stærsti flokkur landsins í skoðanakönnunum og sveiflaðist fylgi hans frá 35% upp í yfir 40% fylgi. Á þeim tíma sem fylgið var komið yfir 40% hafði enginn af þingmönnum flokksins tekið sér tímabundið leyfi frá þingstörfum, eins og Þorgerður Katrín Gunnarssdóttir og Illugi Gunnarsson áttu eftir að gera í apríl 2010, svo að fylgisaukningin tengdist ekki uppgjöri á hruninu með neinum hætti.“
Síðan talar Guðni* um ábyrgð almennings, þ.e. kjósenda, á aðdraganda hrunsins og hruninu sjálfu í ljósi þessa.

Og nú stendur Sjálfstæðisflokkurinn í vegi fyrir að vatnalögin verði afnumin, heldur uppi málþófi um óskyld mál svo málið komist ekki á dagskrá. Sagan segir okkur að allar líkur séu á að meðal flokksmanna þeirra — og jafnvel innan þingflokksins — séu einhverjir sem bíði tækifæris að taka beinan eða óbeinan þátt í braski með vatnið og láta greipar sópa um allt það sem verði ofurselt þeirra eigin græðgi. Enn vilja þeir einkavæða. Enn eru þeir fastir í frjálshyggjuhugarfarinu. Drakúla er ekki dauður enn.

___
* Guðni er með fjölmargar tilvísanir í grein sinni í TMM sem ég hirti ekki um að skrifa eða finna slóðirnar fyrir. Greinina á fólk hvorteðer að lesa í heild sinni. Ég er líka með vísun í Einar Má í síðustu orðum færslunnar, en hann segir í Bréfi til Maríu að saga frjálshyggjunnar gæti heitið „Drakúla snýr aftur.“ Það vill svo til að TMM forsíðan að þessu sinni skartar mynd af Drakúla, reyndar ekki sem myndskreyting við sögu frjálshyggjunnar heldur grein um vampýrur eftir Úlfhildi Dagsdóttur.

Viðbót: Ég var ein þeirra sem fyllti pósthólf þingmanna með hvatningu til að afnema vatnalögin. Ég sendi þó ekki á alveg alla, fannst afstaða Vinstri grænna nægilega skýr til að þurfa ekki að bögga þau en sumir Samfylkingarmanna fengu póst (þó ekki Ólína) því ég mundi hreinlega ekki hvort eitthvert þeirra var hlynnt vatnalögunum. Aðeins Margrét Tryggvadóttir og einn þingmanna Samfylkingar, Guðbjartur Hannesson svöruðu mér, en þau voru bæði á móti einkavæðingu vatnsins. Enginn þeirra sem vilja vatnssölubrask virti mig viðlits. Bréfið mitt var reyndar þjófstolið einhverstaðar af Eyjunni, ekki vel skrifað en ég þóttist svosem vita að það yrði ekki lesið. Öllu betra bréf skrifaði Agnar K Þorsteinsson, en hann gerði sér reyndar líka grein fyrir að enginn læsi það, a.m.k. ekki þeir sem helst hefðu þurft þess.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, júní 11, 2010

Gefum konum séns í umferðinni

Fyrir nokkrum dögum fékk ég far í bíl. Ég var ein þriggja farþega og kom mér fyrir í sætinu fyrir aftan bílstjórann, sem er karlmaður á miðjum aldri, en ég hafði aldrei áður setið í bíl hjá honum. Ekki var langt liðið á ferðina þegar ég uppgötvaði að þetta var einn versti bílstjóri sem ég hef setið í bíl hjá. Það er auðvelt að dæma bílstjóra í umferðinni útfrá því hvort þeir gefa öðrum séns, hvernig þeir nota stefnuljós, tefja fyrir eða keyra glannalega. Þegar ég er farþegi í bíl tek ég eftir öllum þessum atriðum hjá bílstjóranum og þarf stundum að stilla mig um pirringslegar athugasemdir því mér finnst í rauninni gráupplagt að reyna að siða fólk til þegar það er viðstatt frekar en að senda því tóninn úr mínum bíl sem hefur auðvitað engin áhrif á það þegar það ekur um í sínum. En þessi bílstjóri var semsagt mikið mun verri en allt þetta.

Ég hef held ég bara einu sinni setið í bíl með verri karlkyns bílstjóra, það var fyrir mörgum árum. Ég áttaði mig ekki alveg hvernig hann fór að því en annaðhvort steig hann svona skart á kúplinguna eða bremsuna á nokkra metra fresti en afleiðingin var allavega sú að bíllinn gekk í rykkjum og skrykkjum. Þessi sem ég sat í hjá núna steig fáránlega oft og tilefnislaust á bremsuna en verra var þó að hann virtist ekki geta haldið um stýrið nema kippa reglulega í það svo bíllinn hentist til. Þetta gerði hann á beinum og breiðum vegi jafnt sem í þröngum beygjum en að auki gat hann ekki talað án þess að það hefði áhrif á akstursstefnuna. Ég var mest hissa á að verða ekki bílveik við þessi ósköp (mér hættir ekki til bílveiki) en þetta olli mér aðallega furðu og pirringi. Alls sat ég í einn og hálfan tíma í bílnum en var strax búin að fá nóg eftir nokkra kílómetra.

Versti kvenkynsbílstjóri sem ég hef setið í bíl hjá var allt öðru vísi. Enda mér sé sá bíltúr (sem var frekar stuttur) mjög minnistæður þá get ég ekki beinlínis sagt hvernig vanhæfni hennar sem bílstjóra lýsti sér. En sannarlega gekk allt á afturfótunum og mér var ekki rótt í bílnum. Það sem gerði þó ökuferðina enn ömurlegri var að konan talaði linnulaust um hve vondur bílstjóri hún væri (fram kom að maðurinn hennar segði það við hana) og var mjög óörugg og í hvert sinn sem eitthvað fór úrskeiðis talaði hún um það í hvínandi örvæntingartón. Ég sárvorkenndi henni.

Ég hef reyndar mjög oft setið í bíl hjá konum sem hafa afsakað sig fyrirfram og sagst vera lélegir bílstjórar.* Verði þeim svo á að gefa stefnuljós of snemma eða seint eða drífa sig ekki yfir gatnamót þegar færi gefst þá halda þær um það nokkra tölu sem gengur útá hve misheppnaðar þær séu við þessa iðju. Sjaldnast á lýsing þeirra við; þær eru yfirleitt prýðilegir bílstjórar sem standa sig mun betur en sjálfstraust þeirra segir til um.

Karlmennirnir tveir sem ég gat um hér að ofan afsökuðu sig hinsvegar ekki neitt. Það virtist ekki hvarfla að þeim eina mínútu að akstursmáti þeirra ylli farþegum þeirra vanlíðan. Þeir burruðu sælir í þeirri trú (sem öllum karlmönnum er sameiginleg) að þeir væru stórkostlegir bílstjórar. Sjálfstraustið í toppstandi þó fyrir því væri engin innistæða.

Til er fullt af fólki sem heldur því fram að allar konur séu lélegir bílstjórar.** Hefði það sest í bíl hjá konunni í sögunni hér að ofan hefði það líklega talið sig fá fullgilda sönnun fyrir því. Hefði það hinsvegar setið í bíl hjá öðrum hvorum karlanna hefði örugglega enginn fullyrt að allir karlmenn væru lélegir bílstjórar, enda tíðkast ekki að alhæfa þannig um karla. Konur eru alltaf fulltrúar kynsins konur en karlar eru bara einstaklingar og ekki fulltrúar neins (enda þótt allt miðist alltaf við þá). Sá sem stendur sig ekki er bara undantekning. Öllum konum er sagt að allar konur séu lélegir bílstjórar, þarafleiðandi virðast nánast allar konur trúa því, sbr. afsökunarræða þeirra um eigin ökumannshæfni, jafnvel þó staðreyndir sýni annað.

Er til of mikils mælst að hætta að tala um konur sem vonda ökumenn og gefa þannig konum séns í umferðinni?

___
* Svo oft afsaka konur ökumannshæfileika sína að ég tek sérstaklega eftir þegar konur tala ekki illa um sig sem bílstjóra, svo mikil undantekning er það.
** Sumir karlmenn sitja aldrei í bíl hjá eiginkonum sínum vegna þessara fordóma. Svo alast börnin upp við að pabbi vantreystir mömmu undir stýri og fá þarafleiðandi ekki beinlínis fagra mynd af ökumannshæfileikum hennar. Þessum körlum finnst reyndar ekkert að því að eiginkonan aki börnunum þegar þeir eru ekki með; þeim finnst þá líklega öryggi barnanna minna virði en sitt eigið.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, júní 08, 2010

Líka ríkisstarfsmenn

Ég hef vægast sagt verið lítið hrifin af Árna Páli Árnasyni í stóli félagsmálaráðherra. En í morgun þegar ég las grein hans um niðurskurð — þessa sem hefur valdið talsverðri ólgu meðal ríkisstarfsmannavegna þess að hann stingur uppá að þeir fái ekki launahækkun fyrr en árið 2013 — þá var ég aldrei slíku vant alveg sammála honum. Hverju orði. Þetta er þungamiðjan sem mér finnst að ekki megi gleyma:

„Við græðum ekkert til lengri tíma á að fækka lágt launuðu fólki í nauðsynlegum þjónustustörfum. Uppsögn kallar á greiðslu atvinnuleysisbóta, sem eru lítið eitt lægri en lægstu laun. Slík ráðstöfun sparar ríkinu ekkert ef um stöðugildi er að ræða sem nauðsynlega þarf að manna þegar samdrættinum lýkur.“


Árni Páll talar um niðurskurð hjá sendiráðum og lokun Þjóðmenningarhússins (sem ég vil alveg kyngja enda þótt ég hafi síðast verið í því fagra húsi fyrir örfáum dögum). Ég hef áður skrifað um hve hvimleitt það er að hlusta á hverja stéttina af annarri mótmæla að hrunið komi niður á þeim því raunin er sú að þetta kemur niður á okkur öllum og það þarf að koma niður á okkur öllum. Mér finnst Árni Páll koma með nokkuð sanngjarnar tillögur.

Efnisorð: ,

mánudagur, júní 07, 2010

Skulu þá þær konur sem í hópnum eru víkja

Ég hef áður látið í ljós aðdáun mína á Guðmundi Andra hér á þessum vettvangi (þó aldrei við hann sjálfan). Nú í morgun gladdi hann mig óendanlega með þessum ummælum:

„Nú verður hópur stjórnmálamanna uppvís að því að hafa þegið stórfé af stórfyrirtækjum. Skulu þá þær konur sem í hópnum eru víkja.“


Þetta er verulega hnyttið og neglir niður það sem mér og mörgum öðrum hefur fundist undarlegt við umræðuna um styrki (mútur) til stjórnmálamanna en ekki orðað það jafn vel.

Guðmundur Andri heldur áfram og segir:

„Þannig hljóðar ein af þessum óskráðu lagagreinum sem íslensk stjórnmál lúta en enginn nefnir upphátt. Kallarnir með heykvíslarnar og kyndlana sem voru með margra daga umsátur um heimili Steinunnar Valdísar og Þorgerðar Katrínar virtust telja að þeir hefðu náð þeirri siðvæðingu sem þeir stefndu að þegar búið var að hrekja þessar konur úr sínum stöðum. Og gátu sest við tölvurnar til þess að blogga um hversu vond manneskja Sóley Tómasdóttir væri, svo að sú þriðja sé nefnd sem hefur mátt sæta opinberum grýtingum að undanförnu fyrir skoðanir sínar og afskipti af þjóðmálum.“


Þeir karlmenn sem bera blak af Sóleyju Tómasdóttur* fá plússtig, broskalla og mikla virðingu hjá mér.

Ég er hinsvegar ekkert endilega sammála honum þegar hann í framhaldinu útskýrir afhverju Þorgerður Katrín og Steinunn Valdís hafi þegið styrkina. Ég held t.d. að eiginmaður Þorgerðar hafi beinlínis verið valinn í starf sitt með öllum þeim hlunnindum sem því fylgdi til þess að spúsa hans væri örugglega stuðningsmaður Kaupþingsbanka í öllum þeim málum sem þurfa þótti.

En vegna þess hve jákvæð ég er í dag — sem er Guðmundi Andra að þakka — þá ætla ég bæði að byrja pistillinn á hrósi og enda á því sama: Mér finnst nýyrðið „fjárflokkur“ verulega viðeigandi og hnyttið.

___
* Ekki skal mig undra að Sóley íhugi meiðyrðamál. Af nógu er að taka.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 06, 2010

Miskunnarleysi

Mig langar til að ræða um miskunnarleysi gagnvart fólki sem er í vondri stöðu í lífinu eða hefur upplifað hræðilega atburði. Allmargir leyfa sér að tala illa um fólk sem er fátækt, atvinnulaust, býr við ofbeldi eða hefur orðið fyrir hræðilegum atburðum jafnvel glæpum á borð við nauðgun. Talað er um þetta sem sjálfskaparvíti, að fólk geti sjálfu sér um kennt eða eigi bara að rífa sig upp: fá sér vinnu, borga skuldirnar, fara að eignast peninga, flytja út frá kallinum. Viðhorfið gagnvart fórnarlömbum nauðgara er að þau geti sjálfum sér um kennt, hafi ekki átt að vera þarna eða treysta þessum manni eða hafa drukkið svona mikið, hafi ekki átt að daðra án þess að vilja ganga lengra. Ég hef oft urrað yfir fólki sem hugsar svona og talar svona (sumir segja þetta uppí opið geðið á fólki sem svona er ástatt fyrir eða hefur lent í þessum aðstæðum, aðrir tala illa um það á bak eða skrifar um það á netið) og kvartað yfir skorti á samkennd og samúð.

Samkvæmt þessu fólki þá er fátækt sjálfsköpuð og einber aumingjaskapur. Helst ætti ekki að hjálpa fátæku fólki (t.d. með fjárstuðningi samfélagsins) heldur á það bara að fara að vinna fyrir sér eins og almennilegt fólk. Sama gildir um atvinnulausa og atvinnuleysisbætur verða að vera (skammarlega) lágar því annars hangir þetta hyski á bótum alla tíð. Öryrkjar eru örugglega allir að gera sér upp veikindi sín og fötlun og svíkja þannig úr sjóðum almennings og nær væri að þeir fengju sér vinnu o.sfrv.* Þetta viðhorf heyrist ekki síst frá þeim sem hafa upplifað þrengingar í æsku, jafnvel sára fátækt en komist síðar í góðar álnir — oft með mikilli vinnu auðvitað. Þá er eins og að hafi þeim tekist að 'komast til manns' þrátt fyrir allt andstreymið** þá hljóti hinir að vera eitthvað gallaðri eða verri að ná ekki jafn langt í lífinu. Þetta hljómar oft svona: „Sjáðu mig, ég er fæddur í torfbæ en á núna þetta flotta einbýlishús og sumarbústað í Skorradalnum og sumarhús á Spáni.“ Hafi fólk ekki metnað fyrir þessu eða getu og færni til að efnast fjárhagslega er það einskis virði, að mati svona manna.

Óvirkir alkar verða sumir hverjir afar hrokafullir í garð þeirra alkahólista sem ekki geta hætt að drekka eða nota dóp. Þeir líta svo á að ef þeir gátu hætt að drekka (og alltaf hefur þeirra drykkja/neysla verið svæsnari en nokkurra annarra og ótrúlegt að þeim skyldi takast að hætta eða bara sleppa lifandi) þá eiga allir að geta hætt. Og þeir sem ekki hætta eru bara aumingjar. Margir þeirra sem svona hugsa endast ekki lengi í AA samtökunum en þó eru dæmi um menn sem þar eru á fundum sem ljóst og leynt hafa þetta viðhorf áratugum saman.

Oftar en ekki eru það karlmenn sem tala svona um meðborgara sína sem illa hafa farið út úr lífinu. Þegar talað er um fórnarlömb nauðgara, taka þeir iðulega/oftast málstað nauðgarans gegn konunni, hvort sem þeir þekkja hann eða ekki og jafnvel þó þeir þekki konuna.

En það eru ekki bara karlmenn sem sýna þetta miskunnarleysi. Konur sem hafa orðið fyrir hræðilegum atburðum eiga það líka til að tala mjög niður til kynsystra sinna sem lent hafa í svipuðum málum. Þetta þykir mér óskiljanlegt en hef þó reynt að skilja það útfrá þeim forsendum að þær séu að reyna að sannfæra sjálfar sig um að þetta hafi ekki hafi haft svo mikil áhrif á þær sjálfar og geti því ekki hafa verið svo slæmt. Það má vel vera að sumar konur geti hrist af sér atburði eins og nauðgun eða nauðgunartilraun, þær hafi þykkari skráp eða séu með svo sterka sjálfsmynd að það sem önnur kona myndi upplifa sem meiriháttar áfall sé fyrir þeim eins og að stökkva vatni á gæs. Þær nái einhvernveginn að yfirvinna þetta á skömmum tíma með engum eftirköstum, eða jafnvel líti á þetta eins og hverja aðra tognun eða smáskeinu sem engin ástæða sé að hugsa útí frekar.

Mín kenning er reyndar frekar sú að þessar konur séu í mikilli afneitun og megi ekki til þess hugsa að horfast í augu við hvað kom fyrir þær. Ef þær gerðu það þyrftu þær e.t.v .að skoða stöðu kvenna í karlaheimi — en yfirleitt eru konur með þetta viðhorf gagnvart konum sem hefur verið nauðgað mjög lítið gefnar fyrir að tala um karlveldi og viðurkenna heldur aldrei að jafnrétti sé ekki náð eða þær hafi orðið fyrir eða orðið varar við mismunun kynjanna; eru gjarnan í strákaliðinu í öllum deilum þar um.

Nú er ég ekki að segja að allar konur sem ekki eru vinstri grænar feministar tali af miskunnarleysi um fórnarlömb nauðgara en ég held samt að það sé ákveðin fylgni sem sjá má í afstöðu til samfélagsins og einstaklingsins, þ.e. hvort samfélagið eigi að styðja við fólk sem stendur höllum fæti eða hvort einstaklingurinn eigi að berjast einn og óstuddur fyrir sinni tilveru, hvernig sem hann svo er í heiminn skapaður (kyn, fötlun, litarháttur, fátækt) eða hvernig honum hefur farnast fram til þessa.

En samt sem áður er sársaukafyllst af öllu þegar konur sem ættu að vita betur, taka þátt í að níða niður kynsystur sínar sem hafa orðið fyrir nauðgun, nauðgunartilraun eða öðru ofbeldi sem veldur líkamlegum og andlegum sárum sem seint gróa eða allsekki. Auk þess sem það sýnir skort á samkennd og miskunnarleysi þá virðist líka hafa gleymst að kenna þessu fólki að aðgát skal höfð í nærveru sálar.*** Hafi þetta fólk það virkilega svona gott og ekkert slæmt hrín á því, þá ætti það að minnsta kosti að geta sýnt öðrum þá tillitssemi.

___
* Frjálshyggjumenn hafa byggt hugmyndafræði sína á því að láta eins og allt þetta fólk geti sjálfu sér um kennt og eigi sjálft að koma sér útúr þessum aðstæðum og samfélagið (sem er ekki til skv. Margréti Thatcher) eigi síst af öllu að leggja 'svona fólki' hjálparhönd.

** Sumt fólk sem hefur gengið gegnum þrengingar s.s. fátækt, sjúkdóma eða missi verður líka miskunnarlaust vegna þess að sársauki annarra geti ekki jafnast á við þess eigin. Ég hef heyrt um fólk sem hefur fengið krabbamein tala illa um þunglynda og veit um konu sem gerði lítið úr öllum áföllum annarra og kallaði það væl því hún hafði misst mann og barn.

*** Svo virðast líka sumar konur sem ekki hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi líta svo á að ef þær tali nógu hátt og illa um hegðun annarra kvenna þá muni þær sjálfar sleppa.

Efnisorð: , , , , ,

laugardagur, júní 05, 2010

Lítil saga um stríð og dóp

Nýlega lést í Bandaríkjunum svili minn eftir langa sjúkralegu. Hann var borinn og barnfæddur Bandaríkjamaður og bjó í New York. Hann var sendur til Víetnam þar sem hann ánetjaðist fíkniefnum og þegar heim var komið var hann orðinn forfallinn fíkill.* Dag einn keypti hann sér eiturlyfjaskammt sem reyndist ekki vera heróín eins og til stóð heldur rottueitur.** Hann fékk áköf uppköst, ælan fór ofan í lungu og hann féll í dá og var útúr heiminum í heilt ár. Læknarnir bjuggust reyndar ekki við að hann myndi nokkurntímann vakna og því fékk hann enga sjúkraþjálfun meðan hann var í dáinu. Þegar hann vaknaði höfðu útlimir hans kreppst svo að handleggirnir voru eins og kjúklingavængir uppvið brjóstkassann. Fótleggina þurfti að fjarlægja. Að auki var hann lamaður. Svona lá hann í sjúkrarúmi í ríkisspítala í hátt í fjóra áratugi.*** Hann margbað fjölskyldu sína um hjálp við að deyja, ekkert þráði hann fremur. Loks dó hann svo úr lungnabólgu og var jarðsunginn í síðustu viku, þrjátíu og fimm árum eftir að Víetnamstríðinu lauk.

Þetta var lítil saga um stríð og dóp. Hún byrjaði ekki vel og hún endaði ekki vel, frekar en stríð og eiturlyfjaneysla yfirleitt.
___
* Dópneysla virðst hreinlega hafa verið fyrirskipuð í Víetnam eins og víðar. Lengi hafði þekkst að gefa hermönnum amfetamín til að þeir héldust vakandi lengur — frægt er að Elvis Presley varð háður því þegar hann gegndi herþjónustu í Þýskalandi. Árið 1971 var talið að 15% bandarískra hermanna í Víetnam væru háðir heróíni.
** Ekki eru dópsalar í bíómyndum svona.
*** Fjölskylda hans vill meina að hann hefði átt að vera á spítala fyrir uppgjafahermenn þar sem hann hefði fengið betri umönnun en þangað inn komst hann ekki.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, júní 01, 2010

Niðurstöður borgarstjórnarkosninga voru ekki á besta veg

Jafn miður mín og ég varð þegar ég sá að Besti flokkurinn reytti fylgið aðallega af Samfylkingu og Vinstri grænum — en ekki Sjálfstæðisflokknum sem kom Gísla Marteini inn, af öllum mönnum* — þá vona ég innilega að illur grunur minn frá því fyrir kosningar rætist ekki.

Ég vona að kjörtímabilið sem er að hefjast verði ekki verra en það sem við þurftum að þola síðast: endalaus valdabarátta ofan á skipulagsklúður, spillingu og orkuveituvandamál. Ég vona líka að Besti flokkurinn hafi ekki í hyggju að standa við hið vanhugsaða loforð um að láta villt rándýr vera lokað inní Húsdýragarðinum; það væri níðingslega gert gagnvart skepnunni. Engin dýr ættu að vera til sýnis í dýragörðum; hvað þá dýr sem hafa fæðst úti í náttúrunni og eru vön risastóru landsvæði til umráða.

Kannski er kvíði minn óþarfur og þetta verður bara allt í besta lagi.
___
* Mér þykir ákaflega leitt að Hjálmar Sveinsson komst ekki í borgarstjórn en þótti líka afleit sú staða á kosninganótt að hefði hann komist inn hefði Sóley dottið út. En Gísli Marteinn, frjálshyggjustyrkjastubburinn komst inn! Ojojojoj.

Efnisorð: , ,