þriðjudagur, október 30, 2018

Kveikur í eldfjöllum

Kveikur kvöldsins var ógnvekjandi. Fimm öflugustu og virkustu eldfjöll landsins eru í startholunum og gætu gosið hvenær sem er.
„Og þar fyrir utan eru við með að minnsta kosti tuttugu og fimm aðrar [eldstöðvar] sem að gætu þess vegna gosið með stuttum fyrirvara án þess að við vitum það núna,“ segir Páll.“
Þegar Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur talar veit ég ekki hvort ég á að byrja á að reima á mig skóna eða leita að vegabréfinu.

Muna svo að biðja flugmennina að taka krók framhjá Heklu, takk.


Efnisorð:

miðvikudagur, október 24, 2018

Kvennafrí 2018 og úrtöluröddin úr andfeminísku áttinni

Helvíti fengu konur kaldar kveðjur á kvennafrídeginum (afsakið ofstuðlunina) frá ritstjóra Kvennablaðsins. Steinunn Ólína lét sig hafa það að rífast yfir öllu því sem henni finnst að konur ættu frekar að gera heldur en ákkúrat því sem þær vildu gera — og gerðu. Á fundinum á Arnarhóli var nefnilega talað máli innlendra og erlendra verkakvenna, þótt Steinunn hafi kosið að líta framhjá því til að geta gert lítið úr samstöðu kvenna.

Ég las útdrátt úr pistli Steinunnar Ólínu á DV (það er miðill sem ég skoða miklu heldur en Kvennablaðið) en lét mig svo hafa það að lesa pistilinn allan á Kvennablaðinu. Húrrahróp karla og annarra andfeminista voru mjög áberandi á báðum stöðum. En við upprunalega pistilinn voru samt nokkrar konur sem svöruðu ritstjóranum andfeminíska.

Fríða Bragadóttir:
„Alltaf erum við að draga á eftir okkur vagninn af samviskubiti, skyldum, væntingum, óskráðum reglum, og nú megum við ekki halda þennan dag fyrir okkur sjálfar. Þakka þér Steinunn fyrir að minna konur á að þær eiga auðvitað ekki að vera með þá frekju að gera eitthvað fyrir sig sjálfar, auðvitað eiga þær að halda áfram, hér eftir sem hingað til, að hugsa fyrst og fremst um alla aðra. Mikið er nú gott að alltaf skuli einhver vera tilbúin/n að minna okkur á að við verðum að passa okkur á að vera ekki á röngum stað á röngum tíma, að nota ekki röng orð og alls ekki berjast fyrir röngum málstað. Mögulega kemur að því í fjarlægri framtíð að búið verður að leiðrétta allt annað misrétti í heiminum, þá kannski megum við fá leyfi til að vera eins og við erum og gera eitthvað fyrir okkur sjálfar.“
Ásthildur Jónsdóttir:
„[…]Þessi pistill er frá a-ö sami söngur. Konur eiga að sinna öllu og öllum öðrum fyrst og af því þær hafa náð ákveðnum árangri eiga þær að hætta þessu væli og slá skjaldborg um einhvern annan og þær sem hafa náð langt eru hvort sem er ekkert að gera neitt merkilegt. Henni tekst meira að segja að horfa alveg framhjá frábærri konu, Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Kvennafrídagurinn á að snúast um alla nema konur. Þó konur sjái að mestu leyti um umönnun á þeim sem hún telur þarna upp í sínum dæmigerðu kvennastörfum sem lægstu taxtarnir gilda um er það forréttindafrekja kvenna að taka einn dag á ári fyrir konur. Þær eiga að nota hann í að berjast fyrir öðrum hópum.“
Svala Jonsdottir:
„Það er ekkert sérstaklega mikið í anda kvennabaráttu eða jafnréttis að níða niður aðrar konur. Sorglegt að gera það á þessum degi kvennasamstöðu. Og karlarnir eru stikkfrí eins og venjulega. Allt er öðrum konum að kenna.“
Anna Soffía Óskarsdóttir:
„Steinunn ekki bulla - dagskráin var klár þegar þú birtir þennan pistil. Um hvað heldurðu að Sólveig Anna hafi talað, Um hvað heldurðu að hafi verið talað undir merkjum erlendra kvenna á vinnumarkaði?“

Takk, Fríða, Ásthildur, Svala og Anna Soffía, fyrir að nenna að svara þvælunni, og enn meir fyrir standa með konum og kvennabaráttu. Það er sárt þegar konur gera það ekki.

___
[Viðbót] Talandi um kaldar kveðjur. Sigríður Andersen, nei ég get ekki. Úff. Lesa fréttina.Það segir allt um þetta útspil hennar að Eldur Ísidór hrópar upp yfir sig: „ROKKSTIG! Thats what I call a rebel....“

Efnisorð: , ,

laugardagur, október 20, 2018

Andfeministar snúa vörn í sókn

Það hefur oft orðið mér til happs að bíða með að skrifa um eitthvað álitaefni sem allir eru (eða virðast vera) að ræða. Það er því næstum orðið að venju að í stað þess að grípa strax til lyklaborðsins bíð ég sallaróleg eftir að einhver taki af mér ómakið og svo geti ég vísað á orð þeirrar manneskju og sagt að þessu sé ég hjartanlega sammála. Og nú hefur það gerst.

En fyrst, fyrir þau sem ekki hafa fylgst með frá byrjun.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður komst að því að konur höfðu talað illa um hann í lokuðum hóp á netinu. Hann var auðvitað ekkert að taka það fram að þær létu þessi ummæli falla eftir að hafa séð myndbandsviðtal við Jón Steinar sem var birt í fjórum hlutum 4. júlí 2017. (Neðanmáls við þennan pistil er vitnað allnokkru sinnum í kjaftæðið úr Jóni Steinari, sem og ýmislegt sem aðrir sögðu um það.) En Jóni Steinari hentaði að taka ummæli kvennanna í lokaða hópnum úr samhengi, og þar með kveikti hann elda — örugglega ekki óvart.

Nýlega komst nefnilega í hámæli að Kristinn Sigurjónsson háskólakennari hafði sagt (í lokuðum hóp á netinu) eitthvað á þá leið að hann vildi ekki vinna með konum. Eitt leiddi af öðru og svo fór að Kristni var sagt upp störfum, karlrembum landsins til mikillar skelfingar. Það var því mikill fengur fyrir þá og aðra andfeminista að komast í ummæli nafnkunnra kvenna um Jón Steinar. Raunar er þetta mjög augljós gagnsókn karla sem hata konur, gagnsókn gegn #metoo og #höfumhátt. Og nú er hamast á þessum konum og öllum feministum fyrir að ganga of langt í orðbragði og ganga of langt í að saka karla (blásaklausa dúllubossa) um allskonar sem þeir þræta fyrir að nokkur maður geri eða segi — en segja það svo með enn kröftugri hætti þegar þeir bölva helvítis feministafrenjunum.

En þá er semsagt komið að því sem Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu skrifaði. (Vísir birti valda kafla.) Til að lesendur geti séð allan pistilinn er hann hér í heild:
„Í gær birti Jón Steinar Gunnlaugsson pistil í Morgunblaðinu um Facebook-hópinn Karlar gera merkilega hluti og nokkur óviðeigandi ummæli sem höfðu verið látin falla um hans persónu. Ummælin voru sett fram á öruggu svæði en hann ákvað nú samt að villa á sér heimildir til að komast þar inn. Hann þykist koma af fjöllum vegna þessara ummæla og lætur vera að minnast á færsluna sem varð til þess að þessi orð voru látin falla; https://stundin.is/frett/jon-steinar-segir-ad-tholendum-roberts-myndi-lida-betur-ef-their-fyrirgaefu-brotin/. Þarna segir Jón Steinar að þolendum Róberts Downeys myndi líða miklu betur ef þeim tækist að fyrirgefa honum enda séu önnur brot miklu alvarlegri en þau sem hann beitti þeim. Honum finnst að sjálfsögðu ekki skipta máli að hér er á ferð maður sem hefur aldrei neina iðrun sýnt sem mætti kalla fyrsta skrefið í átt að fyrirgefningu. Hann bætti svo um betur og minnti á að þetta hafi nú ekki verið “lítil börn, sko” sem Róbert braut á, nei þetta voru unglingsstúlkur. Þetta er ekki í fyrsta skiptið eða annað sem Jón Steinar fer langt út fyrir lögfræðilegar skyldur sínar til að verja meinta eða dæmda gerendur kynferðisafbrota og barnaníðs. Hann var meira að segja dæmdur af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa gengið of langt í eitt skiptið og brotið trúnað þolandans með ummælum sínum í fjölmiðlum: "https://www.mbl.is/greinasafn/grein/615060/

Jón Steinar hefur trekk í trekk opinberað sig sem varðhund feðraveldisins og hefur honum tekist vel til. Það verður ekki tekið af honum að hér er á ferð einstaklega fær og klár lögmaður sem gerir allt fyrir skjólstæðinga sína. Fórnarkostnaðurinn er hinsvegar ekki ásættanlegur, allavega að mínu mati. Nú er liðið rúmt ár síðan umræðan um uppreist æru fór hæst og eitt ár síðan Metoo-bylgjan fór af stað. Síðan þá höfum við fengið að heyra hræðilegar sögur þolenda, þögnina, skömmina og sálarvítið sem fylgir kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi. Við vitum að viðbrögð þolenda eru misjöfn eins og þeir eru margir (og þolendurnir eru alltof margir) og við vitum líka að fyrirgefningarsvipan er tól sem hefur verið notað í gegnum tíðina til níðast á þeim. Ekki í neinum málaflokki er krafan um fyrirgefningu jafn sterk og þegar kemur að kynferðisbrotum. Þessi krafa er notuð til að yfirfæra ábyrgð brotsins frá geranda yfir á þolanda, til að magna upp skömmina og þögnina sem kynferðisbrot þrífast í. Allir þolendur hafa fengið að heyra þessa fyrirgefningarræðu á einhverjum tímapunkti og það hefur ollið þeim ómældu tjóni og hægt fyrir bataferlinu. Það hefur líka hægt verulega á því að við sem samfélag tökum kynferðisbrot alvarlega og á stóran þátt í því mynstri þolendaskömmunar sem viðgengst. Rifjið aðeins upp andrúmsloftið í þjóðfélaginu þegar mál Róberts Downey var hægt og bítandi að koma í ljós. Reiðina, ógleðina, hvernig var traðkað á réttlætiskennda allra viti borinna manna og mana eftir því sem nýtt og nýtt brot bættist í púsluspilið og málið í heild. Ég meina, þetta mál sprengdi ríkisstjórnina! Ímyndum okkur síðan að Jón Steinar stígi fram með þá kröfu, mitt í þessu andrúmslofti, og fari með þá vel þvældu tuggu að þolendur Róberts eigi bara að vita betur og fyrirgefa honum. Brotin voru ekkert það alvarleg hvort eðer. Er í alvörunni það furðulegt að fólk hafi brugðist illa við? Er í alvörunni það óhugsandi að konur sem allar líkur séu á að hafi upplifað kynferðisofbeldi eða séu nákomnar einhverjum sem hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi og fengið að heyra fyrirgefningarræðuna skrilljón sinnum fái bara nóg og setji fram orð um Jón Steinar eins og “viðbjóður?” Allavega ekki ef við skoðum bara ummælin við Stundargreinina hér að ofan, þar fer fólk mikinn í kommentakerfinu í sinni réttmætu reiði.

Það hefur því verið görsamlega magnað að fylgjast með storminum sem hefur geysað síðan hann birti pistilinn í gær, hvernig fólk er gjörsamlega gáttað á að það skuli “yfirleitt hugsa á þessum nótum og hvað þá koma því niður í skrifuð orð” http://www.visir.is/…/formadur-logmannafelagsins-hreinlega-… Er það í alvörunni svona erfitt að ímynda sér? Hefur þetta sama fólk almennt ekki fylgst með þjóðfélagsumræðu og séð hvernig fólk er tekið fyrir í kommentakerfum. Hvernig það eru yfirleitt konur eða meðlimir jaðarhópa sem verða fyrir barðinu á þjóðfélagsumræðunni og kommentin eru á þann veg að það að kalla einhvern viðbjóð eða segja honum að hoppa uppí rassgatið á sér er frekar light-weight? Allavega væri ég bara frekar sátt við að sjá kommentakerfið á slíkum nótum undir frétt um mig. Það væri góð tilbreyting frá því að vera hótað kynferðisofbeldi og þaðanaf verra. Þar með er ég þó ekki að segja að þetta sé góð orðræðuhefð og að hún sé til eftirbreytni. Ég er bara að reyna að minna fólk á samhengið sem hefur farið forgörðum hjá allt of mörgum.

Að ætla að skamma konur sem eru að tjá sína réttmætu reiði inni á lokuðu vefsvæði er angi nauðgunarmenningar og til þess fallið að valda með þeim frekari skömm og þöggun. Við köllum það tone policing en það er ein leið til að gera lítið úr skilaboðum kvenna með því að gagnrýna umbúðirnar sem þau komu í. KÞBAVD að vera kurteisar þegar þær sýna réttmæta reiði og sársauka þegar þær eru enn og aftur settar í þá stöðu að þurfa að fyrirgefa kvölurum sínum og taka ábyrgðina af þeim. Hefur Metoo-byltingin í alvöru ekki skilað okkur á betri stað en þetta? Þau sem vilja setja orð gagnrýnenda JSG á sama stað og hans eigin og báðir aðilar séu “jafn slæmir” verða líka að hafa í huga valdaójafnvægið hérna. Vitið þið hvernig valdaójafnvægið birtist? Með þeirri gusu vandlætingar og innsogum sem eru í gangi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um þessar mundir annarsvegar og hinsvegar þögninni vegna miklu verri orða sem eru látin falla um stjórnendur KGMH á sama tíma. Þegar fólk stígur fram og segist bara ekki ná utan um það að einhver skuli segja að einhver sé viðbjóður en kýs að líta algjörlega fram hjá því sem viðgengst á kommentakerfum fjölmiðla gagnvart þolendum kynferðisofbeldis og jaðarsettum einstaklingum dags daglega. Annað sem verið er að gera hérna er að þeir valdamiklu í þjóðfélaginu eru að reyna að snúa þolendavænni umræðu sér í hag og í sína þágu og gera sjálfa sig að þolendunum. Trevor Noah nær hér á sinn einstaka hátt að útskýra það https://www.youtube.com/watch…

Það er engin tilviljun að JSG stígur fram núna vegna athugasemda sem voru látin falla í byrjun júlí 2017. Það er heldur engin tilviljun að hann kýs að taka fyrir ummæli sem voru látin falla í lokuðum hópi kvenna frekar en af t.d. kommentakerfi Stundarinnar af sama tilefni. Nei, hann er enn og aftur að ganga mjög langt fyrir skjólstæðing sinn, sem var látinn fara hjá HR, eftir að hafa látið ummæli falla í lokuðum hópi sem þóttu fara á skjön við siðareglur HR. Hann er að reyna að sýna fram á meinta hræsni þegar kemur að því hver lætur hvaða ummæli falla og miðað við umræðuna hefur honum tekist ótrúlega vel til. Enn og aftur verður ekki af honum tekið að hann er eldklár og fær lögfræðingur. Hann kann að snúa umræðunni eins og hann vill hafa hana og fjölmiðlar taka fullan þátt í því með að taka yfirlýsingar og orð úr samhengi ásamt eldfimum fyrirsögnum sem eru sérvaldar sem klikkbeitur.

En hann er að gleyma einu atriði og það er að ekki er um neina hræsni að ræða. Það að Jón Steinar skipi þolendum barnaníðs að fyrirgefa geranda sínum og að hinir sömu þolendur kalli hann viðbjóð á móti er ekki það sama og má ekki leggja að jöfnu. Í fyrra tilvikinu er nefnilega valdamikill maður að beita valdi sínu og stöðu í þjóðfélaginu til að smána þolendur og senda þá aftur í forarpytt skammar og þöggunar. Í seinna tilvikinu eru þolendurnir loksins að neita því að hverfa frá, að láta slag standa og segja “hingað og ekki lengra!”. Þeir eru að segja að þeir muni ekki snúa aftur í skömmina og þögnina, nú sé kominn tími á að gerendur axli þá ábyrgð sem þeim tilheyrir í stað þess þolendur taki hana af þeim. Ekki láta blekkjast, standið með þolendum!“

Heyr, heyr!

___
[Viðbót í hádeginu daginn eftir]
Jón Steinar skrifar og þykist sniðugur þegar hann ber fyrir sig símtal við konu sem afsökun fyrir að birta opinberlega þetta orðbragð um Hildi Lilliendahl:
„Ég vil því taka hér fram að ein þeirra fjölmörgu kvenna sem hringdu til mín um helgina kallaði þig, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, nettröll og femínistatussu. Sagði hún alkunnugt, að þú værir bara áskrifandi launa hjá Reykjavíkurborg án þess að gera neitt í vinnunni annað en að hanga í tölvunni þinni til að iðka femínisma. Ég sussaði á konuna og sagði henni að nota ekki svona talsmáta. Og við þig Hildur, segi ég bara að verðir þú rekin úr vinnunni, eins og viðmælandi minn taldi borginni skylt að gera, getur þú leitað til mín.“


Efnisorð: , , , , , ,

mánudagur, október 15, 2018

Dagbók Íslendinga, 15. október 1998

Fyrir tuttugu árum var haldinn dagur dagbókarinnar.
„Ákveðið var að áherslur yrðu tvenns konar: Annars vegar var fólk beðið um að halda dagbók í einn dag sem varðveitt yrði í þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins og hins vegar að senda inn gömul handrit, eins og dagbækur og bréf frá fyrri tíð, sem varðveitt yrðu á handritadeild Landsbókasafns.“
Verkefnið var vel kynnt í öllum fjölmiðlum og mun víðar, því sendiráð og Íslendingafélög erlendis voru með í kynningarpakkanum. „Og ekki stóð á viðbrögðum. Strax þann 16. október fóru dagbækur að streyma til þjóðháttadeildar og bárust jafnt og þétt næstu vikur og mánuði“, tæplega sex þúsund bækur alls. „Elsti dagbókarritarinn var 94 ára en þeir yngstu sex ára.“ [Dagbók Íslendinga, formáli.]

Hér má lesa örfá brot úr þeim dagbókarskrifum sem birt eru í bókinni Dagbók Íslendinga sem kom út árið eftir dagbókardaginn mikla. Gripið er niður jafnvel í miðri dagbókarfærslu ef þar þykir vera feitt á stykkinu.

„Við vitum það náttúrulega öll sem setjumst niður í dag í þeim tilgangi að skrifa dagbók fyrir daginn að þetta mun aldrei verða eins og venjuleg bók, með vitað eða ómeðvitað skrifum við með það í huga að fólk mun lesa þetta og pæla í því um ókomin ár. Ég hef skrifað dagbók síðan ég var u.þ.b. 11-12 ára og ætti að hafa nokkra æfingu í því og ætla hérna að reyna að gera mitt besta til að skrifa fyrir annað fólk.“
Elísabet María Hafsteinsdóttir, [17 ára] menntaskólanemi í Reykjavík.

„Það er allra besta veður, en það hefur fennt þó nokkuð í nótt.
Vinna er lítil að venju, unnir 2 tímar.
Ég er að láta nagladekk undir bílinn því til stendur að fara á Rif.
Mús kom í kofann hjá Höskuldi.“ 
68 ára verkamaður, bls. 51. [Þetta var allt sem hann skrifaði.]

„Já, það var annars fallegt veður í dag; glampandi sól og norðankul um miðjan dag — og jafnvel von á fyrstu snjókornunum hér sunnan heiða í kvöld. Þórarinn Eldjárn er að lesa Jónas á Austurvelli — það er víst liður í baráttu listamanna gegn ofríki Höllustaðafrekjunnar í hálendismálinu. Ég held að PP sé einhver ósvífnasti og hrokafyllsti ráðherra sem ég minnist. Hugsa sér, skera hálendið í 40 ræmur bara til að bjarga nokkrum bændaatkvæðum í Svínadal! […]

Heildstæð hugsun á ekki upp á pallborðið á Íslandi. Allsstaðar eintómir músarholukóngar. Og hvað á að gera við Austfirðinga? PP er búinn að ljá þeim vopnin í hendurnar til að rústa austurhálendinu með álgljáa í augum. […] Hvar á þessi markaðsvæðingar-, einkavinavæðingar- og hagvaxtargeðveiki að enda? Hvernig á allt að geta vaxið endalaust? Ætlar Davíð að láta okkur öll lifa á því að selja hvert öðru verðbréf? Hluti í aflanum sem við hvort eð er eigum.

Æ, fjandinn það er mannskemmandi að hugsa um pólitík. Vona að allt snjói í kaf í kvöld.“
Franz Gíslason, 62 ára, Reykjavík [Franz lést 2006].

„Dagurinn var ágætur. Allavega fór ég í jólaskap því það fór að snjóa.“
Arndís Huld Hákonardóttir, 12 ára, Borgarnesi.

„Fréttir þessa dags snerust mikið um hinn fræga miðlæga gagnagrunn og verð ég að játa að það eru farnar að að renna á mann tvær grímur varðandi það mál. Í fyrstu var ég mjög sáttur við þetta framtak Íslenskrar erfðagreiningar en umræðan síðustu vikur er búin að vera svo neikvæð að maður er farinn að hafa það á tilfinningunni að e.t.v. sé þetta ekki alveg eðlilegt og öruggt.“
Róbert Þór Gunnarsson, 35 ára, Höfn í Hornafirði.

[…] snerust fréttirnar að verulegu leyti um gagnagrunnsmálið sem nú er loksins komið til kasta Alþingis. Heilbrigðisráðherrann var að svipta okkur eignarrétti á upplýsingum sem við höfum gefið læknum og þeir sett í sjúkraskýrslur.“
Þröstur Haraldsson, 48 ára blaðamaður, Reykjavík.

„Í dag var skóli. Það var reyndar ósköp venjulegur dagur; skóli, hádegi, leikfimi, myndlist, kvöldmatur o.s.frv. Ekkert skrítið, ekkert skemmtilegt. Ósköp venjulegur dagur í skólanum, slagsmál, fótbolti, semsagt bara venjulegur dagur í mínu lífi.“
Steindór Haraldsson, 12 ára, Reykjavík.

„Þetta var venjulegur skóladagur en leið hægt, vegna þess að ég var svo spennt, ég var að bíða eftir D kærastanum mínum. Hann ar að koma af sjónum seinna um daginn. Þegar ég kom heim úr skólanum reyndi ég að gera mig sæta, því hann ætlaði að bjóða mér út að borða. Ég hélt nú samt að við værum að fara á Hróa Hött eða eitthvað en það var ekki. Hann náði í mig og við fórum á rólegan og fallegan stað niðrí miðbæ sem heitir Naustið. Það voru kerti á borðum og róleg tónlist. Mér hefur aldrei liðið jafn vel og þá. Enginn strákur hefur gert þetta fyrir mig, svo gaf hann mér hálsmen. […] Þessi dagur var með mínum bestu því ég hef aldrei fundið það fyrr hvað einhverjum þykir vænt um mig.“
17 ára stelpa í framhaldsskóla.

„Morgunblaðið var komið, næst var að líta yfir það, sem ævinlega. Vissulega er Mogginn góður gestur, þótt allar þessar heilsíðu auglýsingar slái skugga á ánægjuna. Okkur er lítt skiljanlegt þetta óhóf, eyðslan í dýrar auglýsingar, sem hljóta að skapa hærra vöruverð til neytenda og hver les þetta sér til gagns, dag eftir dag, ekki við eða pappírinn sem fer undir þetta. Víst er þetta tekjustofn blaðsins, en menn skyldu athuga hug lesenda blaðsins, vinsæld er peninga virði. Þær fréttir sem eru efst á baugi núna eru harmur þjóðar yfir dauða Guðrúnar Katrínar forsetafrúar.“
Valgarður Jónsson, 82 ára, Akranesi [Valgarður lést 2010].

„Forseti sleit fundi um kl. 20 og fórum við allir með fjórpróf Rótarýmanna: 1. Er það satt og rétt? 2. Er það drengilegt? 3. Eykur það velvild og vinarhug? 4. Er það öllum til góðs? Afar hollt er að hafa prófið yfir.“
Ólafur Helgi Kjartansson, 45 ára sýslumaður, Ísafirði.

„Ennþá kalt og mikið næturfrost, þetta kuldakast virðist ætla að verða meira en venjulegur haustkálfur. Gott hjá mér að vera búin að koma niður haustlaukunum. […] Fréttir fjölmiðlanna eru líka fremur vanabundnar og varla til að hrópa húrra fyrir. Gagnabrunnurinn, Kosovo, Clinton og það lið. […]

Ég sá í Bændablaðinu að 15. okt. er haldinn hátíðlegur víða um lönd sem alþjóðlegur dagur kvenna í landbúnaði. Tilgangurinn að benda stjórnvöldum og almenningi á mikilvægi þessarar stéttar. Ekki varð ég vör við að neitt slíkt væri í gangi hér um sveitir. En skyldum við sveitakonur ekki geta verið í öndvegi eins og hver annar, nema hvað?“
Steinunn Eiríksdóttir, 64 ára, Borgarfirði.


Efnisorð:

laugardagur, október 13, 2018

Undarlega braggamálið

Það skal játast að ég las fréttir um braggann í Nauthólsvík aðeins lauslega. Fannst ekki beint ný tíðindi að framkvæmdir á vegum hins opinbera færu fram úr fjárhagsáætlun. Varð hugsað til Perlunnar þegar þau rök heyrðust að nær hefði verið að nota þessa peninga í dagvistunarmál. (Borgin/Davíð Oddsson lét einmitt reisa Perluna þegar nær hefði verið að nota pening í leikskóla.) En svo kom í ljós að engin útboð hefðu verið í verkið og ýmislegt sem nokkuð augljóslega mátti fetta fingur útí.

Eitt hafði þó alveg farið framhjá mér — alveg þangað til ég las pistil eftir einn af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. (Það er reyndar sérstaklega áberandi hve Sjálfstæðismenn hamast í þessu máli, sbr. bygging Perlunnar hér um árið.*) Nema hvað, í pistlinum segir Örn Þórðarson borgarfulltrúi:
„Nauthólsvegur 100 eða Bragginn vakti fyrst athygli mína fyrir tveim árum, þegar kynnt voru áform um að Reykjavíkurborg ætlaði að útbúa félagsaðstöðu í húsnæðinu fyrir nemendur í Háskólanum í Reykjavík, fyrir 82 milljónir króna. Áhugaverð hugmynd, en ég áttaði mig ekki á hvers vegna sveitarfélagið væri að útbúa félagsaðstöðu fyrir háskólanemendur, sem er ekki lögbundið verkefni eða telst til kjarnastarfsemi sveitarfélaga“

Ekki hafði ég fram að þessu vitað til hvers átti að nota þennan bragga. Hneykslun mín er umtalsverð, en undrunin enn meiri. Hvernig stendur á þessu? Og hefur einhverstaðar komið svar við þessari spurningu sem kemur fram í lokaorðum borgarfulltrúans?
„Og hvers vegna var ákveðið að eyða hátt í hálfum milljarði í félagsaðstöðu háskólanema sem heyrir undir ríkið […]?“

Ég er svo aldeilis gáttuð.

___
* Atli Fannar taldi í gær (í þættinum Vikan með Gísla Marteini) upp nokkrar byggingaframkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar sem fóru langt framúr fjárhagsáætlun: Perlan, Ráðhúsið, Orkuveituhúsið, Harpa. Það er plagsiður að farið sé hressilega framúr áætlunum — en ekki var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þegar allar þessar byggingar voru reistar.

Efnisorð:

fimmtudagur, október 11, 2018

Hvað var það aftur sem maðurinn sagði um prinsipp og hugsjónir?

Það kom mér nákvæmlega ekkert á óvart að þingið samþykkti bráðabirgðarekstrarleyfi til að sjókvíaeldi tveggja fyrirtækja á Vestfjörðum mætti halda áfram.* Að VG léti öll rök um umhverfisvá sér um eyru þjóta er ein afleiðing þeirrar ákvörðunar að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs með Sjálfstæðisflokknum.**

Ég átti hinsvegar ekki von á því að umhverfisráðherrann,*** sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar, skuli hafa bakkað með fyrri orð sín um afskipti ráðherra (sem ætti þá hér við um sjávarútvegsráðherra) af niðurstöðum úrskurðarnefnda. Já eða leggjast ekki hreinlega gegn því að mengandi sjókvíaeldi þar sem eldisfiskur er líklegur til að sleppa og kynblandast villtum dýrastofni. En nei, umhverfisráðherrann er greinilega strax orðinn jafn forstokkaður og allir hinir fyrrverandi umhverfissinnarnir í VG.

___
* Fréttin sem birtist um að fóðrun í fiskeldi á Austfjörðum verði eftir áramót fjarstýrt frá Noregi hefði örugglega engu breytt hefði hún birst fyrir atkvæðagreiðsluna. Því hefði örugglega verið haldið fram að þetta muni ekki gerast á Vestfjörðum. Enda snýst allt sjókvíaeldið á Vestfjörðum um að veita fólki vinnu, halda byggð í landsfjórðungnum. Eigendur laxeldisins þar eru auðvitað ekki með sömu gróðavon og þeir á Austfjörðum. Nei, „Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði“.

** Það hefur örugglega ekki dregið úr áhuga VG á að samþykkja bráðabirgðarleyfið að Vestfirðingar verða nú ívið líklegri til að kjósa VG í næstu kosningum (sem vonandi verða sem fyrst).

*** Ansi ágæt grein eftir Björt Ólafsdóttur fyrrverandi umhverfisráðherra birtist um þetta mál. Hún kemst að vægast sagt allt annarri niðurstöðu en nýi umhverfisráðherrann og Vinstrihreyfingin – grænt framboð. (Græni parturinn í nafni flokksins hlýtur fljótlega að vera felldur burt.)

Efnisorð: ,

föstudagur, október 05, 2018

Lögbanni aflétt, græðgispakk afhjúpað

Ég samgleðst ritstjórum Stundarinnar með niðurstöðu Landsréttar sem hafnaði lögbanni því sem sett var á Stundina í fyrra. Ég vona að Glitnir áfrýji ekki heldur geti Stundin haldið áfram að flytja fréttir sem voru enn „ósagðar í málinu“.*

Talandi um Stundina þá varð ég hálfhissa á hve margir virtust koma af fjöllum þegar fyrsti þáttur Kveiks var sýndur í vikunni. Ég hélt að fólk almennt vissi um hvernig (of margir) íslenskir atvinnurekendur koma fram við útlendinga sem koma hingað til að vinna. Stundin hefur margsinnis, ítarlega og vandlega fjallað um aðstæður erlends starfsfólks hér á landi, svo þetta ætti ekki að koma á óvart, hvað þá Vinnumálastofnun eða öðrum þeim sem hafa með mál þessa fólks að gera. En auðvitað nær Ríkissjónvarpið til fleira fólks og það er vel gert hjá Kveik (og í þessu tilfelli Helga Seljan) að fjalla svona ítarlega um meðferð á útlendingum. Og sannarlega kom sitthvað á óvart, t.d. fjöldi starfsmannaleiga. Svo var auðvitað bara grátlegt að heyra sögur fólksins, ekki síst mannsins frá Pakistan.

Mikið djöfull er annars til mikið af gráðugu skítapakki.

___
* Þrívegis hefur lögbannið á Stundina verið til umfjöllunar á blogginu eða komið við sögu, þar af er málið, sem Stundin fékk lögbann á sig fyrir að fjalla um, að nokkru rakið hér. Hér má lesa um, með vísun í leiðara Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur, hvernig sótt er að ritstjórnum með ýmsum hætti. Og hér er eigin hugleiðing um hvernig megi nota gögn Glitnis sem Stundin hefur undir höndum — og getur nú vonandi haldið áfram að skrifa um.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, október 02, 2018

Enn er frægur karlmaður sakaður um nauðgun og enn er hlaupið í vörn

Frægur íslenskur tónlistarmaður er sakaður um nauðgun. Þeir sem ræða málið í fjölmiðlum (sem viðmælendur eða í athugasemdakerfum) skiptast í tvo hópa (sem aðallega samanstanda af karlmönnum): Þá sem saka beint eða óbeint konuna sem lagði fram ásökunina um að vera að ljúga, og þá sem skella sér á lær af kátínu vegna þess að tónlistarmaðurinn er giftur konu sem er þekktur feministi. Nei fyrirgefið, það eru þrír hópar sem ræða þetta mál: Þriðji hópurinn samanstendur af þeim sem fara háðslegum orðum um vinkonur eiginkonunnar fyrir að gefa ekki út opinberar yfirlýsingar um málið. Tónlistarmaðurinn er algjört aukaatriði. En konurnar, þær eru úthrópaðar.

Heimsfrægur íþróttamaður hefur einnig verið ásakaður um nauðgun, sem einnig er fréttaefni þessa dagana. Til er það fólk sem heldur að í hvert sinn sem frægðarmenni eru sögð hafa beitt konur kynferðisofbeldi þá sé það alltaf lygi vegna þess að konurnar séu alltaf á höttunum eftir peningum eða frægð.

Það vill svo til að fjölda kvenna er nauðgað af karlmönnum sem eru ekki frægir, kæra þá stundum en ásaka þá stundum opinberlega eða segja vinum sínum frá. Það ratar hinsvegar ekki í fjölmiðla, vegna þess að ekki er um fræga menn að ræða. Það á varla að hvíla sú skylda á konum sem er nauðað eða beittar annarskonar kynferðisofbeldi eða -áreiti af hálfu fræðgarmennis að þær þegi umfram hinar.

Það er staðreynd að sumir karlar sem eru frægir eru kynferðisofbeldismenn. Þeir nota sér sumir frægðina, þeir sækjast sumir sjálfir eftir peningum og frægð til þess að eiga auðveldari aðgang að konum, og sumir þeirra trúa því að allar konur vilji þá. Það að vera frægur, auðugur eða hæfileikaríkur er ekki gulltrygging fyrir því að karlmenn komi vel fram við konur. Dæmin um annað eru fjölmörg.

En samt er alltaf sama sagan. Engu er trúað uppá uppáhalds íþróttamanninn eða kvikmyndaleikstjórann eða tónlistarmanninn. Jafnvel eftir að menn játa eða eru dæmdir sekir er haldið áfram að bera blak af þeim.

Nauðgaraverjendur eru víða. Sem er í sjálfu sér rökrétt vegna þess að nauðgarar eru víða.

___
[Viðbót] Það er víst rétt að geta þess að ég hef verið mikill aðdáandi Sigur Rósar, svo ekki er það vegna þess að ég hafi eitthvað á móti tónlistinni sem ég tek þessa afstöðu.

Efnisorð: ,

mánudagur, október 01, 2018

Hljóp í fjóra sólarhringa, bæði í eyðimerkursól og frosti

Mætti ég ráða yrði Elísabet Margeirsdóttir kjörin íþróttamaður ársins.

Þvílíkt afrek að klára þessa klikkuðu keppni yfirleitt — 400 kílómetra hlaup í Góbí-eyðimörkinni í Kína — hvað þá að koma fyrst kvenna í mark. Elísabet hljóp í fjóra sólarhringa, bæði í eyðimerkursól og frosti, eins og segir í frétt RÚV og er hún „jafnframt fyrsta konan í heiminum sem klárar þetta hlaup á undir 100 klukkustundum“, en tími hennar var 96 klukktímar og 54 mínútur.

Við venjulega fólkið föllum í stafi yfir einstöku þreki og úthaldi Elísabetar.

Efnisorð: