sunnudagur, nóvember 30, 2014

Nóvember uppgjörið

Áður en nóvember hverfur útí veður og vind er vert að minnast á nokkur mál.


Ríkisstjórnin
- umhverfismál og valdníðsla

Auk þess að Landsnet og Landsvirkjun vilja leggja háspennulínu og veg yfir Sprengisand ætlar ríkisstjórnin nú að stokka upp rammaáætlun um virkjanir.
Þegar þingmenn skelltu í sig síðustu kaffidreggjunum og tygjuðu sig til farar af fundi í atvinnuveganefnd laumaði Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar útúr sér að átta virkjanakostir fari úr biðflokki í nýtingarflokk. Og hélt greinilega að vegna þess að hann gaf ekki nefndarmönnum kost á að ræða málið yrði því bara tekið með þegjandi þögninni.

Það var auðvitað ljóst frá upphafi að þessi ríkisstjórn vildi virkja og það mun meira en rammaáætlun sagði til um, en gegn henni börðust núverandi stjórnarliðar í tíð Jóhönnustjórnarinnar. Það er í fyrsta lagi alvarlegt að ríkisstjórnin ætli að hunsa rammaáætlun en þessi aðferð, að nefna í framhjáhlaupi svo afdrifaríka ákvörðun, hún ber auðvitað vott um mjög sérkennilegan hugsunarhátt. Enda varð allt vitlaust. Vonandi verður þessi herfilega byrjun málsins eingöngu til að minnka líkurnar á að ríkisstjórnarflokkarnir fái sínu framgengt, en verði ekki upptaktur að því að ráðist verði í virkjanir.

Ríkisstjórnin
- fjárlög sungin af æfðum röddum

Það fór einsog Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna spáði strax í september, að ríkisstjórnin hyggst af góðsemi sinni hækka matarskattinn minna en hún áður tilkynnti. Hann á nú 'bara' að hækka uppí 11% í stað 12%.
„Hver veit nema ástæða þess að virðisaukaskattsþrepið er 12% í glærukynningu ráðherrans en 11% í frumvarpinu sjálfu sé sú að það er búið ákveða málamiðlunina milli stjórnarflokkanna og semja leikritið sem á að leika fyrir forviða Íslendinga fram í nóvember? Ég bíð spennt.“
En þrátt fyrir þessi orð Katrínar spiluðu nokkrir Framsóknarþingmenn greinilega samt sína rullu, sögðust vera á móti svona háum matarskatti og ætluðu kannski bara ekkert að styðja fjármálafrumvarpið. En núna þegar búið er að lækka töluna í 11% bíta þeir höfuðið af skömminni með því að segja að þetta sé nú allt annað líf og þetta geti þeir vel sæst á.

Mannréttindi
Ræstingafólk á Borgarspítalanum er þrælkað. Það fær lélegt kaup fyrir mikla vinnu, og á að skila meiri afköstum en mun fleira starfsfólk áður. Framkvæmdastjóri ræstingafyrirtækisins auðvitað alveg ósammála þessu. Áður var fólk á launum hjá ríkinu við að þrífa spítalann, það þykir frjálshyggjumönnum ótækt og mun betra að bjóða út til svona góðra ræstingafyrirtækja. Stjórnarráðið er einmitt nýbúið að segja upp ræstingakonum og í staðinn á að fá einkafyrirtæki í að þrífa ráðuneytin. Það væri kannski ráð að fá að skoða launaseðla starfsmanna áður en tilboðum er tekið í verkið, ef ekki á að halda áfram á þeirri braut að opinberar stofnanir séu þrifnar í þrælavinnu.

Annað og gleðilegra mál er að Finnar hafa loks, síðastir Norðurlandaþjóða, fellt niður hömlur í hjónabandslöggjöf sinni og nú geta samkynja pör gengið í hjónaband.

Kynjamismunun staðfest í sjónvarpi
Ástralskur sjónvarpsþáttastjórnandi af karlkyni var í sömu jakkafötunum í hverri útsendingu í heilt ár. Það gerði hann til að vekja athygli á kynjamisrétti í fjölmiðlum en kvenkyns kollegar hans fá reglulega aðfinnslur við klæðaburð sinn í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þáttastjórnandanum feminíska segist hafa blöskrað sú gagnrýni sem konur fái fyrir að vera í sömu fötunum oftar en einu sinni; það sýni að fólk dæmi þær frekar eftir útliti en frammistöðu. Nú hafi hann sem karlmaður gengið í sömu fötunum í heilt ár án þess að nokkur hafi tekið eftir því.

Löggur
Landhelgisgæslan var varla búin að tilkynna að norsku vélbyssunum verði skilað þegar Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra sagði að íslenska löggan þurfi að kaupa hríðskotabyssur til að verjast Íslamska ríkinu! Er svona fólki í alvöru hleypt upp metorðastiga og fær að tjá sig við fjölmiðla?

Í kjölfarið á þessari yfirlýsingu kom grein eftir síglöðu lögguna sem mörgum hefur fundist næstum jafn krúttlegt andlit lögreglunnar og instagram síðan þeirra. Hann steig öllum að óvörum fram sem kristinn þjóðernissinni og sagði sögur af vondum útlendingum (og kannski kom greinin hans ekkert óvart í kjölfarið á múslimar-eru-að-vopnbúast skilaboðum kollega hans). Það má segja honum til hróss að hann beið ekki með það í marga áratugi að varpa af sér skikkju hlutleysisins, eins og Geir Jón.

Nú er engin lögga eftir sem fólk getur talið sér trú um að sé bara góði kallinn.


Efnisorð: , , , , , , , , ,

laugardagur, nóvember 29, 2014

Sandlækur hinn vestari

Mörgum er enn í minni hreint stórgóð bíómynd sem heitir á frummálinu Little Big Man og skartaði Dustin Hoffman í aðalhlutverki þar sem hann lék 121 árs gamlan mann að rifja upp ævintýralega ævi sína þar sem hann ýmist var meðal indíána eða hvítra manna.

Little Big Man er byggð á samnefndri bók (sem kom út 1964 en ég hef ekki lesið bókina og tala því bara um myndina) og fjallar að stórum hluta um sögulega atburði sem þó eru færðir til í tíma og ýmsu breytt, og síðan er smurt vænu lagi af skemmtilegheitum á það sem ekki beinlínis snýr að sögulegu atburðunum. Þeir voru of hrikalegir til að hægt væri að spauga með þá. Sögusviðið er villta vestrið á nítjándu öld, sögulegu atburðirnir: fjöldamorð hvíta mannsins á indíánum.

Myndin með Dustin Hoffman var gerð 1970 og sama ár kom út bókin Bury My Heart at Wounded Knee sem gefin var út á íslensku tíu árum síðar undir titlinum Heygðu mitt hjarta við Undað Hné - saga ameríska vestursins frá sjónarhóli indíána.* Þar eru raktir þeir atburðir sem meðal annars komu við sögu í Little Big Man nema nú í réttri röð og engin tilraun gerð til að létta lesandanum lífið með spaugi. Þvert á móti er þetta afar erfiður lestur enda er rakið hvernig hvíti maðurinn, ekki bara einstaklingar sem numu land í heimkynnum indíána, heldur ríkisvaldið og yfirmenn hersins, leggur sig í líma við að reka indíána á brott, af veiðilendunum sem þýddi að þeim var nánast gert ókleift að afla sér matar, og hvernig logið var að þeim linnulaust og þeir látnir gera samninga sem voru sviknir jafnharðan. Útrýming indíána var misjafnlega opinskátt markmið.

Gull fannst á landsvæði því sem nú heitir Kolóradó og brast þar á gullæði árið 1858. Um hundrað þúsund gullgrafarar þyrptust þangað. Á svæðinu bjuggu indíánar sem skyggðu á gleðina og þótti hvítu mönnunum sjálfsagt að indíánarnir þyrftu að víkja. Yfirvöld ætluðust til að þeir færðu sig á landsvæðið milli Sandlækjar og Arkansas-fljóts (e. Sand Creek, Arkansas River) í suðaustur Kolóradó og gerðust þar bændur. Samningur um þetta var gerður við Sjeyenne (Cheyenne) og Arapahó indíána árið 1861 en ekki voru allir indíánar hrifnir af honum enda var þetta margfalt minna svæði en hafði verið samið um við hvítu mennina tíu árum fyrr (en þá var hvorki gull né járnbrautarteinar inni í myndinni). Þeir litu því svo á að þeir væru ekki bundnir af þessum nýja samningi sem gerður var af ólæsum mönnum sem e.t.v. skildu ekki til fulls hvað í honum fólst eða hafði verið mútað til að skrifa undir hann.

„Hvítu mennirnir reyndu sífellt að fá indíánana til að gefa fyrra líf sitt upp á bátinn og taka upp siði hvítu mannanna, hefja jarðyrkju og vinna erfiðisvinnu eins og þeir gerðu. Indíánarnir kunnu ekkert til þessara verka og höfðu þar að auki ekki hinn minnsta áhuga á þeim … Ef indíánarnir hefðu reynt að að fá hvítu mennina til að taka upp sína siði hefðu hvítu mennirnir reynt að streitast á móti eins og indíánarnir gerðu.“
- Santí-súinn (Santee-Sioux) WAMDITANKA (Stóri Örn)

Þrælastríðið hófst 1861 og þá fóru margir hvítu mannanna, sem áður leituðu gulls, til að taka þátt í því en 1864 var hluti herliðsins kominn til Kolóradó (ég hirði ekki um að rekja ástæður þess). Indíánarnir þóttu orðnir of uppivöðslusamir og blásið var til sóknar gegn þeim. Frá því er sagt í fjórða kafla Heygðu mitt hjarta við Undað Hné, og heitir hann „Sjeyennarnir í stríði“. (Lesendur eru varaðir við því sem hér fer á eftir.)

„Fylkisstjórinn vildi sem minnst hafa með indíánana að gera. Hann fullyrti að Sjeyennunum og Arapahóunum ætti að refsa áður en nokkur friður væri saminn. Þetta var einnig skoðun yfirboðara herdeildarinnar, Samuels R. Curtis hershöfðingja. Í símskeyti sem hann sendi Chivington ofursta þennan sama dag sagði hann: „Ég er mótfallinn friði þar til indíánarnir hafa þjáðst meir.“

Fylkisstjóri þriðju Kolóradó herdeildarinnar sá heldur engan tilgang með að halda fyrirhugaða friðarráðstefnu með indíánunum: „Mennirnir hafa verið þjálfaðir til að drepa indíána og indíána verða þeir að drepa.“ Þegar indíánarnir voru komnir á hans fund lýsti hann því yfir „að hann væri alls ekki í skapi til að gera friðarsamning“ og benti indíánunum á að það væri misskilningur ef þeir héldu að þeir geti rekið hvítu mennina af landinu vegna þess að hvítu mennirnir væru í stríði sín á milli. „Faðirinn mikli í Washington hefur nógu mörgum á að skipa til að reka alla indíána af sléttunum og jafnframt að píska uppreisnarmennina.“ Síðan hvatti hann þá til að snúast á sveif með stjórninni og sýna vináttu í verki.

„Hvíta Antílópa, elstur höfðingjanna, tók nú til máls: „Ég skil hvert orð sem þú segir og mun varðveita það … Hver einasti Sjeyenni horfir í átt hingað og þeir munu heyra orð þín … Hvíta Antílópa er hreykinn að hafa hitt höfðingja allra hvítra manna í þessu landi og hann mun segja þjóð sinni það. Allt frá því að ég fór til Washington og þáði þessa orðu hef ég kallað hvítu mennina bræður mína. En það eru fleiri indíánar sem komið hafa til Washington og fengið orður. En nú sækjast hermennirnir eftir lífi mínu í stað þess að handsala frið.“
Tveimur mánuðum síðar, að morgni 29. nóvember 1864, var hann drepinn í blóðbaðinu við Sandlæk.

Í bókinni segir frá undirbúningi Kolóradó-herdeildar Chivingtons ofursta, sex hundruð manns, þar af bróðurparti þriðju herdeildarinnar sem Evans fylkisstjóri hafði komið á fót í þeim tilgangi einum að berjast við indíána (síðar bættist við hundrað manna sjálfboðaliðssveit undir stjórn majórs að nafni Anthony). Chivington talaði um að „safna höfuðleðrum“ og „vaða í blóði“ og bölvaði öllum þeim sem hefði samúð með indíánum.
„Ég er hingað kominn til að drepa indíána og ég trúi því að það sé rétt og heiðarlegt að nota öll meðöl sem guð hefur gefið okkur til að drepa indíána.“

Lagði nú herfylkingin af stað, sjö hundruð manns, og stefndu á tjaldbúðir sex hundruð indíána; tveir þriðju hlutar þess fjölda voru konur og börn. „Vopnfærir karlmenn hafa verið um þrjátíu og fimm og svo nokkrir öldungar, alls um sextíu karlar … fleiri voru ekki í búðunum, hinir voru á veiðum.“

Sagt var frá því nokkrum blaðsíðum fyrr þegar Sjeyenna indíánahöfðinginn Svarti Ketill fór á friðarráðstefnu og reisti bandaríska fánann yfir vagn sinn eins og vörn. Þegar hermenn Chivingstons réðust á tjaldbúðirnar við Sandlæk batt Svarti Ketill stóran bandaríkjafána við tjaldstöng. Hann stóð framan við tjaldið og hélt á stönginni. „Ég heyrði hann kalla til fólks síns að óttast ekki, hermennirnir myndu ekki gera þeim mein. Þá hófu hersveitirnar skothríð úr tveim áttum í senn.“ Hvíta Antílópa hélt eins og Svarti Ketill að „skothríðinni yrði hætt um leið og hermennirnir sæju bandaríska fánann og hvítu veifuna sem Svarti Ketill hafði nú dregið upp sem merki um uppgjöf.“ En hann var auðvitað bara skotinn, enda þótt hann æpti Stans! Stans! og næmi staðar og krosslagði hendurnar á brjóstinu. Arapahó höfðingi reyndi líka að komast að fána Svarta Ketils en dó einnig með krosslagðar hendur eftir að hafa sagt að hann berðist ekki við hvítu mennina. Þeir væru vinir hans. Umhverfis fánann þjöppuðu sér karlar, konur og börn, hvíta veifan sást greinilega.
„Enginn greinarmunur virtist gerður á körlum, konum eða börnum, öllum var slátrað … Höfuðleðrið var tekið af hverju einasta líki sem ég sá. Eina konu sá ég sem hafði verið rist á kviðinn og ófætt barn að því er mér virtist lá við hlið hennar … Ég sá líkama Hvítu Antílópu og kynfæri hans höfðu verið skorin af. Einn hermann heyrði ég segja að hann ætlaði að gera úr þeim tóbakspung. Ég sá konu sem kynfærin höfðu verið skorin úr … Ég sá töluverðan fjölda reifabarna drepinn með mæðrum sínum.“

„Stuttu fyrir blóðbaðið hafði Chivington ofursti mælt því bót í opinberri ræðu í Denver að allir indíánar væru drepnir og höfuðleðrið skorið af þeim, jafnvel þótt um ungabörn væri að ræða. „Af nitinni kemur lús!“ lýsti hann yfir.

Annar sjónarvottur segir að eftir því sem hann best viti „voru þessi hryðjuverk framin með fullri vitneskju J.M. Chivingtons og ég veit ekki af neinum ráðstöfunum frá hans hendi til að koma í veg fyrir þau.“

Þegar skothríðinni linnti lágu 105 indíánakonur og börn í valnum og 28 karlmenn. Svarti Ketill slapp fyrir kraftaverk en kona hans var illa særð.** Fangar voru sjö.

Og hvað hafðist svo uppúr þessu? Kallar fjöldamorð á sáttfýsi og friðarvilja?

„Á þeim örfáu klukkustundum sem brjálæðið stóð yfir við Sandlæk höfðu Chivington og hermenn hans bundið enda á líf eða áhrifamátt hvers einasta Sjeyenna- og Arapahóahöfðingja sem stutt hafði friðarumleitanir við hvítu mennina. Eftir flótta þeirra sem eftir lifðu afneituðu indíánarnir Svarta Katli og Vinstri Hönd og hölluðu sér að stríðsleiðtogunum til að verjast útrýmingu.“
Þeir gerðu bandalag við Súa-indíána (Sioux) og hófu skipulagðar ránsferðir og brenndu bæ og tóku höfuðleður þeirra sem vörðu bæinn „sem hefnd fyrir höfuðleður indíánanna við Sandlæk“. En nærri ári eftir fjöldamorðin við Sandlæk skrifuðu leiðtogar leifanna af syðri Sjeyenna- og Arapahóaættbálkunum undir nýjan samning þar sem þeir afsöluðu sér öllum rétti til Kolóradósvæðisins. „Og að sjálfsögðu var það eini tilgangurinn með blóðbaðinu við Sandlæk.“

Samningurinn kvað einnig á um „eilífan frið“.

Árið 1890, tuttugu og fimm árum eftir undirritun samningsins og mörgum mannslífum síðar, var tvö hundruð súa-indíánum slátrað við Undað Hné. En eilífðarfriðarsamningurinn átti auðvitað ekki við um þá.

En afhverju rek ég þessa sögu núna? Vegna þess að í dag voru liðin 150 ár frá fjöldamorðunum við Sandlæk.


___
* Heygðu mitt hjarta er eftir sagnfræðinginn Dee Brown. Bókin er þýdd af Magnúsi Rafnssyni, ég notast við þá þýðingu og samræmi eigin texta og rithátt við hana (sbr. notkun orðsins indíáni). Enda þótt ég setji beina ræðu oftast í gæsalappir hannesa ég líka heilmikið, þ.e. nota texta bókarinnar án þess að geta þess. Ásláttarvillur eru mínar.

** Svarti Ketill og kona hans voru drepin í árás Custers hershöfðingja á þorp við Washita ána árið 1868, eins og segir frá í kaflanum „Góður indíáni er dauður indíáni“. Sveitir Custers gereyðilögðu þorpið á nokkrum mínútum. Þeir drápu 103 manns, aðallega öldunga konur og börn, en þar á meðal voru aðeins ellefu stríðsmenn. Auk þess „slátruðu þeir með skothríð nokkur hundruð hestum í rétt í sóðalegu blóðbaði“.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, nóvember 26, 2014

Villandi fyrirsögn

Grein sem Þorbjörn Þórðarsson lögfræðingur og blaðamaður skrifaði á Vísi og birti undir fyrirsögninni „Að kalla saklausan mann nauðgara og komast upp með það“ vekur furðu mína. Mér er eiginlega alveg óskiljanlegt að Þorbjörn vilji sjálfviljugur stilla sér upp við hlið Egils Gillzeneggers Einarssonar og honum til varnar. Tilefnið er að meiðyrðamál, eitt af fjölmörgum sem Egill Gillz fór í við fólk sem vogaði sér að taka afstöðu gegn honum á einn eða annan hátt, endaði með því að Hæstaréttur sýknaði þann sem Egill Gillz kærði það skiptið. Þorbjörn vill meina að niðurstaða Hæstaréttar sé röng og ræðir það í löngu máli.

Nú þykist ég ekkert vita um meiðyrðalöggjöf eða hvernig munurinn á gildisdómum og staðhæfingum um staðreyndir er túlkaður af dómurum ýmissa dómsstiga eða í útlöndum, en ljóst er að Þorbjörn Þórðarsson er ósammála þeim.* Hann segir t.a.m. að „Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í sumum tilvikum gengið býsna langt í að flokka ummæli sem gildisdóma jafnvel þótt staðreyndabragur sé á þeim.“

Þorbjörn hefur auðvitað betur vit á því en dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu.

Burtséð frá því þá vakti fyrirsögn greinarinnar mér ekki minni furðu en hvað hvatti Þorbjörn til að skrifa hana (varla hefur það átt að vera innlegg í 16 daga átak gegn kynferðisofbeldi). Mér þykir nokkuð langt seilst að skrifa grein þar sem Egill Gilzenegger Einarsson er í fyrirsögn kallaður saklaus maður. Enda þótt hann hafi „aldrei hlotið dóm fyrir nauðgun“ er hann ekki endilega saklaus.

Rifjum aðeins upp.

Ríkissaksóknari ákvað í júní 2012 að sækja ekki Egil Gillzenegger Einarsson til saka fyrir nauðgun þá sem hann var kærður fyrir í desember 2011.

Egill Gilz kærði svo konurnar, sem sökuðu hann um nauðgun, fyrir rangar sakargiftir. Í júlí 2013 felldi ríkissaksóknari málið formlega niður.

Það var semsagt ekki sannað fyrir dómi að Egill Gillz Einarsson væri nauðgari, en það var heldur ekki sannað fyrir dómi að logið hefði verið uppá hann.

Fyrirsögnin hefði heldur átt að vera: Er í lagi að kalla mann nauðgara sem ekki hefur verið dæmdur sekur?

Svarið er að ég hef sjaldan verið jafn ánægð með Hæstarétt.

__
* Sama sinnis er Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari sem sagði í útvarpsviðtali að sá sem Egill Gillz kærði fyrir meiðyrði væri tengdur inní lögmannastéttina, og það gæti hafa haft áhrif á dómarana, og átti greinilega við að þeir hefðu þá dæmt honum í hag því þeir þekktu pabba hans.
Tveir þeirra sem skrifuðu athugasemd við þetta vörpuðu afturámóti kastljósinu aftur á Jón Steinar sjálfan:
„Miðað við ráðningar í dómarasæti á þessu landi myndi ég steinþegja um hvaða áhrif tengslamyndun viðkomandi hefur á niðurstöður úr dómskerfinu. Sérstaklega ef ég væri partur af þeim pakka.. hmm.“
og
„Jón Steinar er greinilega gjörkunnugur því hvernig vinatengsl geta haft áhrif á niðurstöður Hæstaréttar.“

Efnisorð: ,

mánudagur, nóvember 24, 2014

Foj!

Aðeins einu sinni hef ég setið til borðs með fólki sem fékk sér foie gras. Ég spurði hvort þau vissu hvernig farið væri með gæsina til að fita lifur hennar og þau játtu því og brostu blítt meðan þau gæddu sér á réttinum. Ekki hvarflaði að mér að fylgja fordæmi þeirra en lét málið niður falla. Reyndi bara að einbeita mér að mat mínum.

Fjölmiðlar fjölluðu um það í dag að Hamborgarafabrikkan væri hætt að selja andalifur — að einhverju leyti að áeggjan dýravinarins Sæunnar Ingibjargar Marinósdóttur — en aðallega vegna þess að það var ekki nógu mikill gróði af sölunni. Með fréttunum (ruv.is, vísir.is, dv.is) fylgdu myndbönd sem sýndu hvernig farið er með endur og gæsir til að búa til hið eftirsótta foie gras. Í stuttu máli sagt er það hryllilegt, aðbúnaður þeirra er hræðilegur, í stað þess að þeim sé slátrað með mannúðlegum hætti er stendur dauðastríð þeirra lengi, og svo er það auðvitað hin viðbjóðslega aðferð sem notuð er til að troða gríðarlegu magni af mat ofan í kokið á þeim - með vélknúinni pumpu — til að lifrin í þeim stækki sem hraðast og fitni sem mest. Og það mega veslings skepnurnar þola þrisvar til fjórum sinnum á dag þar til lifrin er orðin tíu sinnum stærri en eðlilegt er.

Þetta eru myndbönd sem allt fólk verður að sjá, og þó það sé ástæða til að vara viðkvæmt fólk við þá verður viðkvæma fólkið líka að sjá þetta.

Hér er myndband af meðferð á öndum, fóðrun þeirra (ítroðslunni) og hræðilegan aðbúnað, þulur er Kate Winslet

Annað myndband (önnur útgáfa þess var á síðu DV) þar sem sýnd er sama meðferð á gæsum, aðbúnaður þeirra og hvernig þeim er slátrað, þulur er Roger Moore.

Það er auðvelt að vera á móti framleiðslu og sölu á anda- og gæsalifur án þess að hafa séð myndirnar — en eftir að hafa séð þær er aldrei hægt að sitja aftur til borðs með neinum sem finnst í lagi að borða foie gras.

Enn betra er þó að sniðganga veitingastaði sem selja anda- og gæsalifur. Ég fletti upp um það bil þrjátíu veitingastöðum og komst að því að fimm þeirra hafa foie gras á matseðlinum. Ég vildi að ég gæti þarmeð fullyrt að enginn hinna seldi anda- eða gæsalifur en þar sem matseðlar eru breytilegir þá vil ég ekki hvítþvo neinn þeirra. En þessir fimm sem kaupa, framreiða og hagnast á sölu á anda- og gæsalifur eru:

Hereford steikhús, Laugavegi 53, sími 5113350
(netfang ekki gefið upp en hægt að skrifa þeim á síðunni)

Hótel Holt sími 5525700
(sömu aðilar reka Viðeyjarstofu )
gallery@holt.is

Hótel KEA, Akureyri, sími 4602020
keahotels@keahotels.is

Kopar, Geirsgötu 3, sími 5672700
info@koparrestaurant.is

Snaps, Óðinstorgi, sími 5116677
snaps@snaps.is

Lesendur átta sig líklega á afhverju ég læt upplýsingar fylgja um hvernig er hægt að hafa samband við þessa veitingastaði.

___
Viðbót: Tveimur mánuðum síðar voru matseðlar sömu veitingastaða skoðaðir og í ljós kom að Snaps, Hereford, Holtið og á Múlaberg í KEA hótelinu á Akureyri selja enn þrautpínda alifuglalifur.
Kopar hinsvegar, það er staður sem virðist hafa séð að sér (með því verður fylgst í framtíðinni) og miðað við matseðilinn í febrúar 2015 er ekkert foie gras lengur selt þar. Húrra fyrir því!

Efnisorð: ,

sunnudagur, nóvember 23, 2014

Hnýtt í taglhnýtinga

Um daginn las ég leikdóm sem kætti mig ógurlega. Mér til mikillar skemmtunar bættist við annar frá sama leikdómara þar sem hann endurnýtir geðvonsku sína frá því um daginn. Hann notar aftur orðið kennivald, frussar aftur yfir að „list sem er taglhnýtingur ... telst einskis virði“.

Svona lítur þetta út í fyrri leikdómnum:

„List sem gerist taglhnýtingur kennivaldsins, því þar liggur þetta nú, fjárlög formanns Sjálfstæðisflokksins eru stimpluð kyngreind í bak og fyrir, er einskis virði.“

og svona í þeim seinni:

„hvort það geti hugsast að innbyggð í hið opinbera styrkjakerfi við listir og menningu sé krafa um að menningartengd starfsemi þjóni tilteknu kennivaldi? Þá er rétt að hafa það í huga að list sem er taglhnýtingur viðtekinna viðhorfa, einhverrar opinberrar stefnu sama hver hún er, telst einskis virði“.
Báðar sýningarnar „gjalda fyrir þrúgandi innbyggða pólitíska réttsýni“, að mati Jakobs Bjarnar Grétarssonar, sem er ekki skemmt.

Fleiri hafa séð þessa sýningu og hafa skrifað eða skrafað um það í TMM (Tímariti Máls og menningar á netinu), Víðsjá og Listaukanum.* Almennt er þetta fólk greinilega slegið blindu því ekkert þeirra virðist hafa rekið augun í kennivald eða list sem er einskis virði.

Ég bíð spennt að lesa fleiri leikdóma eftir Jakob Bjarnar, ekki síst til að sjá hvort hann ætli að berja leikhópa til hlýðni með því að spara við þá stjörnurnar ef þeir ganga gegn hans innbyggða pólitíska áttavita.

Það stefnir í skemmtilegan leikhúsvetur.

__________
* Silja Aðalsteinsdóttir skrifaði leikdóminn í TMM. Gestir Viðars Eggertssonar í Listaukanum voru Hildur Jóhannsdóttir og Agnar Jón Egilsson. Þau byrja að tala um Útlenska drenginn á 33:20 mínútu. Þorgerður E. Sigurðardóttir ræddi um leikritið frá og með 16 mínútu Víðsjárþáttarins og á 22:35 sagði hún:
„viðkvæmni fyrir ítroðslu og pedagókískum tilþrifum í barnamenningu er töluverð og það ekki að ástæðulausu … Það er fjallað um afar mikilvæga hluti í Útlenska drengnum, mál sem eru í brennidepli, og það ekki með neinum kennslubrag“.
Jakob Bjarnar hélt því hinsvegar fram að leikritið væri „boðskapsbókmenntir, áróðursverk“ og boðskapnum sé „troðið ofan í kokið á áhorfendum“.

Efnisorð:

föstudagur, nóvember 21, 2014

Einum ráðherra færri en stefnan samt ranglát

Loks sagði Hanna Birna af sér. Í ljósi þess að Gísli Valdórsson sagðist hafa játað og sagt af sér vegna gríðarlegs samviskubits en átti í raun von á að vera afhjúpaður, þá verður afsögn Hönnu Birnu að skoðast í ljósi þess að umboðsmaður alþingis mun eftir fáa daga segja sitt álit á samskiptum hennar, sem yfirmanni lögreglu og dómsmála, við Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóra. Hún gæti semsé verið að forða sér áður en spilaborgin hrynur, rétt eins og Gísli. Þá er bara spurning hver tekur við ráðuneytinu, þar er enginn góður kostur (þó er Brynjar Níelsson verstur).

Þó afsögn Hönnu Birnu sé fréttnæm enda ekki á hverjum degi sem ráðherra segir af sér, hvað þá ráðherra sem segist þegar hafa sagt af sér embætti (þá átti hún við dómsmálaráðuneytið sem flutti yfir Arnarhólinn í forsætisráðuneytið) og hafði fengið stuðning flokksins til að sitja áfram, þá voru aðrar fréttir sem fengu hárin til að rísa á hausnum á mér.

Fréttir um arðgreiðslur útvegsfyrirtækjanna sem eru tvöfalt hærri en greiðslur veiðigjalda.

HB Grandi greiddi eigendum sínum 2,7 milljarða í arð á síðasta ári en 1,3 milljarða í veiðigjald. Samanlögð veiðigjöld Síldarvinnslunnar eru þriðjungur af því sem fyrirtækið greiddi í arð. Greidd veiðigjöld Samherja náðu 44 prósentum af arðgreiðslunum.

Þetta eru fyrirtækin sem við eigum að skilja að verði að hlífa við hærri veiðigjöldum. Þetta eru útgerðirnar sem sem okkur er sagt að fari lóðbeint á hausinn ef þau leggja meira til samfélagsins.
Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar.

Það getur varla skipt máli héðanaf hver af þeim þingmönnum þessarar hræðilegu stjórnarflokka tekur við lyklunum að ráðherrabíl innanríkisráðuneytisins, þau stefna öll í sömu átt.

Auðmönnunum allt.

___
* [Viðbót] Sama dag hélt Daði Már Kristófersson hagfræðingur erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni og hélt því þá fram að arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækjanna kæmu veiðigjöldum ekkert við. Steingrímur J. Sigfússon brást þannig við þessari fullyrðingu:
„Segir það enga sögu hvað eigendurnir ákveða að greiða sér í arð, er það aukaatriði í þessari umræðu eins og mér heyrðist vera haldið fram hér áðan? Nei, ég er ósammála því. Ég er reyndar fullkomlega ósammála því, og ég held að þjóðin sé líka ósammála því.“
„Segja arðgreiðslur, sem eru tveimur milljörðum hærri en veiðigjöld í heild á árinu 2013, ekki neitt?“ spurði Steingrímur aftur og bætti við að ábyrgir eigendur fyrirtækjanna myndu vart „moka sér út“ meiru í arð en sem nemur veiðigjöldunum ef þeim væri að blæða út vegna gjaldtökunnar.“

Efnisorð: ,

fimmtudagur, nóvember 20, 2014

Val um mannvirkjabelti eða ósnortin víðerni

Í dag rann út frestur til að skila athugasemdum til Landsnets og Vegagerðarinnar vegna fyrirhugaðrar háspennulínu yfir Sprengisand. Vonandi skrifuðu sem flestir en við því er reyndar að búast því Landvernd, Ferðafélag Íslands, Útivist, Ferðaklúbburinn 4×4, Samút (samtök útivistarfélaga), Samtök ferðaþjónustunnar og Náttúruverndarsamtök Íslands (þarna á meðal eru fornir fjendur) hafa sameinast gegn þessum áætlunum.

Enda þótt það sé of seint að hvetja fólk til að skila athugasemdum í mótmælaskyni þá vil ég lýsa eindreginni andstöðu minni við fyrirhugaða háspennulínu yfir Sprengisand. Lagning línunnar mun hafa mikið rask í för með sér og hrikalega sjónmengun. Sjónmengun verður af háspennulínunum og er það nægilegt tilefni til að að vera á móti þeim en þeim mun að auki fylgja vegagerð og aukin umferð.

Mér finnst þessvegna líka ástæða til að lýsa einnig yfir jafn eindreginni andstöðu minni við fyrirhugaða vegagerð yfir Sprengisand. Engu máli skiptir hvort vegurinn á að vera til að styðja við áform Landsnets um háspennulínu eða til að stytta fólki og fyrirtækjum leið milli landshluta („þó mun hún ekki stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur“). Nú er vegurinn niðurgrafinn og illfær fólksbílum en til stendur að malbika 8 metra breiðan veg með 90 km hámarkshraða. Því betri vegur því meiri umferð, og eftir því sem umferðin verður meiri þarf meiri þjónustu við bílana og stutt í að sett verði upp bensínstöð (og svo önnur og önnur því ekki má gera upp á milli olíufyrirtækja) og fyrr en varir eru vegasjoppur með tilheyrandi umhverfissóðaskap farnar að setja svip á landslagið. Sjónmengun verður af veginum sjálfum og er það nægilegt tilefni til að að vera á móti honum en vegurinn ásamt háspennulínunum mun eyðileggja ekki bara ímynd hinna ósnortnu víðerna heldur valda „óbætanlegu tjóni á óspilltri náttúru“.

En einsog Ómar Ragnarsson orðar það: „nú á að hefjast stórsókn gegn þeirri öræfatign, kyrrð og ósnortnum auðnum Sprengisandsleiðar, sem enn eru eftir.“

Það er gert undir því yfirskini að bæta eigi „afhendingaröryggi til almennra notenda“ en ekkert er fjær sanni, segir Ómar því „aðeins er verið að hugsa um afhendingaröryggi fyrir stóriðjuna.“ En til þess á að„skera á hálendið í tvennt með uppbyggðum og malbikuðum trukkavegi sem verður samofinn við háspennulínur og virkjanamannvirki svo að þessi leið verði sem líkust þeirri Hellisheiði sem við þekkjum nú.“* Það má líka segja að það felist ákveðin játning Landsnet á hve fyrirferðarmiklar háspennulínurnar og vegurinn eiga að verða á hálendinu með því að nota hugtakið „mannvirkjabelti“.

Páll Ásgeir Ásgeirsson bendir á að það sé ekki bara „takmarkalaus heimska og skammsýni að fórna stórum hluta af lítt spilltum víðernum á Sprengisandi með því að leggja risavaxna háspennulínu ásamt átta metrum breiðum uppbyggðum og malbikuðum vegi þvert yfir auðnina“ heldur „hreinlega atlaga eða tilræði gegn hagsmunum ferðaþjónustunnar“.**

Það er ekki nóg að sýna fallegar myndir af náttúru Íslands ef ferðamenn sjá svo allt annað þegar þeir koma til landsins: háspennulínur og malbikaða vegi þar sem þeir áttu von á að vera einir á ferð í ósnortinni náttúru. En burtséð frá ferðamönnum hverrar þjóðar sem þeir eru, þá hreinlega er fáránlegt af núlifandi Íslendingum að ætla að gjörnýta hvern krók og kima landsins þannig að þær kynslóðir sem á eftir koma finni hvergi þá náttúrufegurð sem forfeður okkar og við fengum (um skamma hríð) að njóta.

„Sprengisandur er hjarta íslenska hálendisins og við viljum ekki láta sundra honum með stórfelldri mannvirkjagerð.“
Þessi orð Páls Ásgeirs eru kjarni málsins.

___

* Ómar hefur skrifað heilmikið um fyrirhugaða háspennulínu og vegalagningu á Sprengisandi og eru tilvitnanirnar teknar tvist og bast úr þessum pistlum:
Ísland örum skorið fyrir stóriðjuna,
"...að leggja til atlögu, eh, afsakið, leggja fram tillögur..." (hér má sjá ansi áhrifamikla mynd af sjónrænum áhrifum Sprengisandslínu),
"Mannvirkjabeltin" verða nýjar virkjanir, hraðvegir og línur,
Er stutt í að menn "sakni fortíðarinnar" á Sprengisandi?
Tilvitnanir í Pál Ásgeir Ásgeirsson eru úr bloggpistli hans, Verndum Sprengisand.

** Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðarráðherra varð afhjúpandi fótaskortur á tungunni þegar hún talaði á kynningarfundi Landsnets um stöðu og framtíðaruppbyggingu flutningskerfis raforku og sagði þá að „nú værið verið að "leggja til atlögu...", þagnaði síðan augnablik, leiðrétti sig og sagði "..eh, leggja fram tillögur.“


Efnisorð: ,

mánudagur, nóvember 17, 2014

Borgum læknum betur og flytjum þá í Fossvoginn

Læknar eru í verkfalli, í dag eru það barnaspítalinn, kvennadeildin og heilsugæslustöðvarnar sem eru í lamasessi. Auk þess heilbrigðisstofnanir Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands, Suðurlands og Suðurnesja. Þetta er tveggja sólarhringa verkfall sem bitnar á miklum fjölda fólks, hjá heilsugæslustöðvunum féllu niður um þúsund tímar í dag. Þetta þýðir auðvitað að fólk sem þarf af einhverjum ástæðum á læknisþjónustu að halda þarf að bíða þar til næst er laus tími. Þá getur fólk ekki fengið lyf endurnýjuð nema um lífsnauðsynleg lyf sé að ræða. Það er ekki erfitt að ímynda sér hvað þetta hefur margvísleg og vond áhrif.

Ég er almennt andsnúin miklum launahækkunum nema til þeirra sem eru lægst launaðir. Á þó erfitt með að lýsa frati á launabaráttu lækna, það er hreinlega of mikið í húfi að hafa þá hér og hafa þá ánægða.* Vonandi verður komið til móts við þá sem fyrst hvort sem þeir fá prósentutöluna sem þeir vilja eða bakka eitthvað með kröfur sínar þegar (og ef) stjórnvöld koma til móts við þá.

Eitt er það sem háir læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki á Landspítalanum er vinnuaðstaðan í gömlum maurétnum mygluðum byggingum. Um daginn var sýnt í sjónvarpinu þegar flytja átti sjúkling milli hæða ásamt hjúkrunarfólki og var alveg ljóst að ekki var pláss fyrir sjúkrarúm, tækjabúnað og fólk í lyftunni, en þó þarf daglega að nota þennan ferðamáta með alvarlega veikt fólk.

Ég er á móti því að byggja nýjan Landspítala á þeim stað sem spítalinn er nú. Allavega það steypuskrímsli** sem teikningar gera ráð fyrir að byggt sé á lóðinni. Burtséð frá hvort flugvöllurinn fer eða ekki þá finnst mér nálægð spítalans við flugbrautina ekki svo mikilvæg og vil mun frekar að hann sé fluttur burt ef ekki er hægt að byggja hæfilega á spítalalóðinni og í þeim byggingastíl sem fyrir er, þ.e. byggingar sem eru fáar hæðir. Gallin við lágar spítalabyggingar er samt augljós: þá fara langir sjúkrahússgangar að skipa veigamikinn þátt í lífi sjúklinga og starfsfólks en háar byggingar nýta lyftur til að flytja fólk á milli staða — og er þá átt við rúmgóðar lyftur sem ekki þarf að stafla í.

Undanfarið hefur Sigurður Oddsson verkfræðingur skrifað greinar um byggingamál spítalans. Hann vill í fyrsta lagi aðskilja háskólasjúkrahúsið frá Landspítalanum og í öðru lagi að Landspítalinn flytjist í Fossvog en háskólasjúkrahúsið, þ.e. læknadeildin, verði eftir á Hringbrautinni og byggingarnar þar verði notaðar fyrir kennslu í læknadeild og öðrum háskólagreinum. Hann sér fyrir sér að húmanísk fög verði kennd á spítalalóðinni en raungreinafög verði áfram kennd vestur á Melum. Ég er ekki alveg viss um þessa skiptingu hjá honum, mér finnst að raungreinafólk (í „alvöru vísindum“) gæti allt verið á einum stað á spítalalóðinni en hugvísindi, félagsvísindi og önnur vísindi hin minni gætu haldið áfram að sveima um háskólalóðina í tilgangsleysi eins og áður. En burtséð frá því þá finnst mér meira til koma hugmyndar hans um að flytja starfsemi Landspítalans í Fossvog, enda er Borgarspítalinn sem þar er mun betur staðsettur gagnvart aðkomu frá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu — svo ekki sé nú talað um Keflavíkurflugvöll þangað sem innanlandsflugið hlýtur fyrr eða síðar að flytja.

Reyndar hefur mér lengi fundist að frekar hefði átt að flytja alla starfsemi Landspítalans í Fossvoginn og er þeirrar skoðunar að það hafi verið gerð hrikaleg skipulagsmistök þegar ákveðið var að byggja blokkir milli Borgarspítalans og Kringlumýrarbrautar. Þar hefði spítalinn getað breitt úr sér. Kannski má rífa þær, enda þótt mér þyki það óskapleg sóun á peningum að rífa nýlegar byggingar. Sigurður nefnir þessar byggingar ekki og virðist koma fyrir tveimur álmum og turni á milli þeirra á lóð Borgarspítalans (turninn á skv. honum reyndar að vera 20-26 hæða hár, mér finnst það hrikalega hátt og varla bjóðandi fyrir fólk sem býr í Gerðunum að þola skuggavarp af slíku skrímsli, en sannarlega nýtast lyftur, sem okkur Sigurði eru hugleiknar, mjög vel í háum turni). Sigurður segir að það sé auðveldara og ódýrara að byggja í Fossvogi (við Hringbrautina þarf að sprengja og fyrirhugað flatarmál þar er meira). Í seinni greininni sem Sigurður skrifar fer hann nánar út í útfærsluatriðið og þar er hann með einhverjar hugmyndir um að geyma moldina, sem grafin er upp fyrir húsgrunninum, neðst í Fossvoginum. Ég vona að hann ætlist ekki til að skógræktinni verði stútað, hvorki með moldarlager né spítalabyggingum. Þar fyrir utan finnst mér margt gott við hugmyndir Sigurðar*** og ráðlegg fólki að lesa greinarnar hans.

Verði tekið mark á þeim sem vilja flytja alla starfsemi Landspítalans á Fossvoginn er allt eins líklegt að fólk á landsbyggðinni og þingmenn í atkvæðaleit heimti að fá að skipta sér af staðarvalinu því spítalinn muni ekki hafa flugbraut á hlaðinu. Svarið við því er að kalla spítalann Borgarspítala og gefa upp netfang Einars Kárasonar fyrir kvartanir.

___
* Mikill fjöldi lækna er kvenkyns og það er óþolandi að orðið læknir sé karlkyns og að talað sé um 'þá' læknana. Ég biðst forláts á þessu 'þeir' tali.

** Fleiri greinar gegn steypuskrímslinu við Hringbraut.
Vilhjálmur Ari Arason læknir er einnig hlynntur því að öll sjúkrahússtarfsemin verði flutt í Fossvoginn og segir:
„Eitt það vitlausasta í byggingartillögunum sem nú liggja fyrir að mínu mati er samt að þar er gert ráð fyrir þyrlupalli á 3 eða 4 hæð rétt hjá gjörgæslunni og skurðstofunum sem er kjarni svæðisins og viðkvæmastur þannig fyrir stórum skakkaföllum. Það vita allir Reykvíkingar að ímyndin um þyrlupalla á húsþökum í Þingholtunum á ekki við, þar sem allra veðra er von á veturna. Slysahættan er allt of mikil og getur jafnvel stefnt allri starfsemi spítalans og byggðinni þar í kring í stórhættu. Þyrlur þurfa langa aðbraut fyrir lendingu og flugtak sem eru hættulegustu tímabilin í fluginu og því nauðsyn á opnu svæði fyrir nauðlendingar í kringum lendingarstaðinn. Góð aðstaða er hins vegar þegar fyrir þyrlur að athafna sig yfir Fossvoginum og síðan Fossvogsdalnum.“

Guðrún Bryndís Karlsdóttir sjúkraliði og verkfræðingur skrifaði grein sem var birt að hluta á blogginu „Arkitektúr, skipulag og staðarprýði“ sem Hilmar Þór Björnsson arkitekt heldur úti. Hann hefur skrifað afar mikið um Landspítalann og virðist lítt hrifinn af byggingarmagninu eins og sést á yfirskriftinni „Þarf spítalinn að vera svona stór?“

*** Sigurður Oddsson veltir fyrir sér í seinni greininni „hversu margar plágur þurfi til að vísa stjórnvöldum frá Hringbrautarvillunni í Fossvoginn“. Hann telur upp sex plágur sem hann segir þegar hafa dunið yfir, sú fyrsta var bankahrunið, hinar síðari eru m.a. myglusveppur, mósabaktería og maurar. Ég er augljóslega ekki sammála Sigurði um plágu númer tvö, sem hann segir vera Jóhönnu og Steingrím!

[Viðbót]: Friðbjörn Sigurðsson yfirlæknir á Landspítalanum virtist í Samfélagsviðtali (27. nóv, frá 33:50 mín) ekki hafa neitt á móti því að stækka spítalann við Hringbrautina eins og áætlað er, en benti hinsvegar á að nýja hátæknisjúkrahúsið yrði ekki tilbúið fyrr en eftir mörg ár. Í millitíðinni þarf úrbætur. Hann stakk uppá því að göngudeildir spítalans sem nú eru um allar trissur yrðu fluttar á einn stað meðan verið væri að byggja spítalann. Í ljósi þess að til stendur að selja eða leigja hluta Útvarpshússins í Efstaleiti stakk Friðbjörn uppá því að fá aðstöðu fyrir göngudeildirnar þar. Það er frumleg og sennilega nokkuð góð hugmynd.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, nóvember 16, 2014

Bankaskatturinn

Því er oft slegið fram að núverandi ríkisstjórn hafi staðið sig betur en ríkisstjórn Jóhönnu gagnvart fjármálafyrirtækjum og er bankaskatturinn helst talinn sem sönnun þess. Bjarni Ben og Sigmundur settu skatt á fjármálafyrirtæki til þess að fjármagna stærstu skuldaleiðréttingu í heimi og kemur bankaskatturinn í stað hrægammasjóðanna sem forðuðu sér greinilega þegar sást til mannsins með haglabyssuna.

En semsagt, Jóhanna og Steingrímur eru sögð hafa verið bestu vinir bankanna og ekkert viljað skattleggja þá þegar til kom. Það vill samt gleymast í hvaða stöðu þau voru. Þá er ég ekki bara að tala um hrun fjármálakerfisins og skelfilega stöðu ríkissjóðs, heldur að þau erfðu samning (tvo samninga reyndar, hinn var Icesave samningurinn hinn fyrsti sem hrunstjórnin gerði á síðustu metrunum áður en henni var búsáhaldabylt*) og sá samningur var við hinn illræmda Alþjóðagjaldeyrissjóð. Þau gengust undir það ok en öllum til mikillar undrunar og feginleika þá var krumla AGS ekki eins harðhent hér og tildæmis í Argentínu um árið. Engu að síður var margt sem varð að gera að þeirra tilskipan og annað sem ekki mátti gera. Smáatriði þessa samnings hafa ekki verið gerð opinber, en það blasir við að eitt af því sem Steingrímur mátti ekki gera var að íþyngja fjármálafyrirtækjum með of mikilli skattheimtu (blessuðum litlu greyjunum).

Hvort þau skilyrði náðu framyfir setu hans í ríkisstjórn eða hvort hann náði ekki að demba skattinum á áður en kjörtímabilinu lauk (eða leist ekki á að bankaskattur héldi fyrir lögum), þá er fjarstæðukennt að hrósa núverandi ríkisstjórn fyrir að leggja skatt á fjármálafyrirtæki bara til að borga kosningaloforð sín. Ekki bætir úr skák að bankarnir eru að gíra sig uppí málshöfðun og segja bankaskattinn ólöglegan. Verði þeim dæmt í vil mun enginn bankaskattur fjármagna skuldaleiðréttinguna heldur skattgreiðendur einir og sér. Þetta endar semsagt á því að breiðu bökin taka við, þessi sem eiga ekki vísa læknisþjónustu vegna þess að þessi ríkisstjórn ver ekki nægilega miklu skattfé í heilbrigðiskerfið en vill frekar puðra peningum útí loftið.

___
* Það kemur vel fram í máli Steingríms Joð í þingræðu 5. desember 2008 hvað hann var lítt hrifinn af samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hvað Icesave gladdi hann lítið. Síðar var reynt að snúa því uppá Jóhönnu og Steingrím að Icesave væri runnið undan þeirra rifjum og þau hefðu helst reynt að semja um sem óhagstæðasta vexti. En Icesave málið vannst á tíma, eins og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir benti á í pistli á Smugunni sálugu. Hér eru nokkur brot úr ræðu Steingríms.

„Hér er til umræðu 5. desember tillaga um aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem þegar er komin í gang þegar búið er að taka fyrstu 800 milljónir bandaríkjadalina og jafnvel byrjað að nota þá,

Þegar búið var að pína Ísland eða ríkisstjórnina til uppgjafar í Icesave-deilunni var græna ljósið sett á hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum … Það eru skilmálarnir sem Ísland á þar með að undirgangast, sem eru kannski af tvennu enn alvarlegri en lántakan sjálf vegna þess að hendur okkar verða mjög bundnar. Við höfum eftir það ekki frelsi til að velja þær leiðir sem við teljum bestar — fyrir hverja? Fyrir almenning í landinu, fyrir þjóðina, en ekki endilega fyrir peningamennina og fjármagnið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er fyrst og fremst að passa upp á.

Það er hæstv. ríkisstjórn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn — svo grátbroslegt sem það nú er — sem hafa sett á gjaldeyrishöft. Til hamingju, Sjálfstæðisflokkur, til hamingju með gjaldeyrisskömmtunina. Er ekki gaman að vera formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra og setja á gjaldeyrishöft? Hvað halda menn að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sagt ef sá sem hér talar hefði farið fyrir ríkisstjórn og sett á gjaldeyrishöft?

Og þó að kostirnir séu ekki margir má a.m.k. berjast heiðarlega í staðinn fyrir að gefast upp með þeim hætti sem hér er að mörgu leyti ætlunin að gera og varpa vandanum inn í framtíðina. Það verða þá ríkisstjórnir og Alþingi og þjóðin á næsta og inn á þarnæsta áratug sem koma til með að bera hitann og þungann af því sem þessi ónýta ríkisstjórn ætlar að fara að skrifa upp á, því miður.“



Efnisorð: , , ,

föstudagur, nóvember 14, 2014

Fylgjum peningunum

Nú þegar við erum öll orðin svona forrík, þökk sé Framsóknarflokknum sem uppfyllti allar okkar villtustu væntingar, þá er auðvitað næst á dagskrá að fjalla um ríkt fólk. Líkur sækir líkan heim, og allt það.

Rockefeller fjölskyldan er ein ríkasta fjölskylda í heimi og hefur verið það um langa hríð. Ég nenni ekki að telja upp öll þau viðskipti sem hún tengist heldur aðeins að fjalla lítillega um það sem gerði hana ríka í upphafi: olíu.

Bræðurnir John D. Rockefeller og William Rockefeller stofnuðu Standard Oil árið 1870 og lögðu grunninn að ættarauðnum. Afkomendur þeirra hafa haldið vel á spöðunum en jafnframt því að græða linnulaust hefur fjölskyldan ausið út fé á báðar hendur gegnum allskyns góðgerðarstarfsemi og styrktarsjóði. Samt er enn nóg til af peningum. Nú í september tilkynnti svo Sjóður Rockefeller bræðranna (e. Rockefeller Brothers Fund) að hann ætli að „draga allt sitt fé úr fjárfestingum sem tengjast jarðefnaeldsneyti og fjárfesta í þess stað í umhverfisvænni orku“. Um er að ræða umtalsvert fé, eins og við er að búast, því sjóðurinn „hefur að geyma fjárfestingar upp á 860 milljónir bandaríkjadollara, sem nemur rúmlega 100 milljörðum íslenskra króna“.

Þessi yfirlýsing vakti að vonum mikla athygli enda þótt ég sjái ekki að íslenskir fjölmiðlar hafi gert mikið úr henni. Ég heyrði fyrst af þessari breyttu fjárfestingastefnu Rockefellerfjölskyldunnar þegar Stefán Gíslason ræddi hana í Samfélaginu, fyrst 6. október og svo aftur 30. sama mánaðar.

Það er auðvitað stórmerkilegt að Rockefellerarnir ætli alveg að hætta að tengjast jarðefnaeldsneyti bara útfrá hvernig fjölskylduauðurinn varð til. En hitt skiptir meira máli í samtímanum hvað það segir um framtíðarsýn þessara glúrnu fjárfesta. Hún er greinilega sú að umhverfisvænir orkugjafar komi til með að leysa jarðefnaeldsneyti af, og að það beri að veðja á framtíðina. Í ljósi tilhneigingar fjölskyldunnar til að láta gott af sér leiða (kannski af samviskubiti*) þá er auðvitað augljóst að umverfisstefna á uppá pallborðið hjá núlifandi kynslóðum hennar. Þessi ákvörðun var tilkynnt daginn áður en loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hófst, og var augljóslega ætlað að hafa áhrif á ráðstefnuna. Stefán Gíslason velti einmitt upp þeirri spurningu í seinni útvarpsþættinum hvort stefnubreyting í loftslagsmálum verði þegar til kemur drifin áfram af fjárfestum en ekki ríkisstjórnum.

En það væri auðvitað hægt bæði að sleppa og halda (einsog hefur líklega verið gert hingað til) og það er kannski ekki bara af góðsemi sem þessi ákvörðun er tekin. Rockefeller sjóðurinn ætlar að losa sig mjög hratt við hlutabréf í olíuiðnaðinum og það bendir sterklega til hann telji að olía sé ekki vænlegur fjárfestingakostur. Hver ætti þá að vera svo vitlaus að veðja á olíu ef sjálfir olíubarónarnir vilja veðja á allt annað en hana? Enda fylgja fjölmargir aðrir fjárfestar í kjölfarið, nú vilja allir selja hlutabréfin sín.

Hvað segir það okkur um bandarískra repúblikana sem leggja áherslu á kol og olíu? Og hversu gæfuleg eru þá áform um að fjárfesta í borunum eftir olíu á Drekasvæðinu? Það er hætt við að það endi með því að einhver sitji uppi með Svarta Pétur, í fleiri en einum skilningi.

___
* Eitt sinn var spurt í spurningaþættinum QI hver hefði valdið mestum skaða á umhverfinu. Í ljós kom að það var Thomas Midgley því hann fann uppá því að setja blý í bensín. En ekki nóg með það heldur fylltist hann samviskubiti yfir menguninni sem hann hafði valdið, og fann því upp freón sem síðan var lengi notað í ísskápa. Vonandi verður hin nýja fjárfestingastefna Rockefellerfjölskyldunnar ekki svo mislukkuð, hvort sem hún stýrist af samviskubiti eða ekki.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, nóvember 11, 2014

Stóra lygaleiðréttingin

Þegar innanríkisráðherra sagði Gísla Valdórsson hafa játað á sig heilsárslygar og Gísli sjálfur játaði hið sama í Kastljósinu gleymdu allir að gagnrýna og gegnumrýna stórustu skuldaleiðréttingu í heimi* og fóru að skeggræða hvort Gísli garmurinn væri nú loksins að segja satt, eða hvort hann væri enn að ljúga og þá um þátt Hönnu Birnu.

Kannski er hann ekki að ljúga um það að hann hafi átt erfitt með að hætta að ljúga úr því hann beit það í sig strax fyrir ári síðan að játa ekkert.** En datt honum í alvöru ekki í hug að játa fyrr? Hélt hann virkilega að málið myndi bara deyja út? Fannst honum það eðlilegt að horfa á yfirmann sinn svara fyrir lygar hans á þingi. Og þegar samfélagið logaði í kröfum um afsögn Hönnu Birnu var hann bara að hugsa 'ég kemst upp með þetta ef ég bíð nógu lengi'. En hefði ekki verið sniðugt að láta vita þegar hann komst á snoðir um það að skipta ætti upp innanríkisráðuneytinu — vegna lekamálsins — í stað þess að sitja aðgerðarlaus hjá og horfa uppá ráðherrann sem réð hann til starfa niðurlægðan með þeim hætti?

Eða bráðlá honum á að játa í dag bara vegna þess að á morgun hefði ráðherrann — þessi fyrrverandi yfirmaður dómsmála — þurft að bera ljúgvitni í dómsal, einsog Gísli lét í veðri vaka. Eða sko, hann sagði náttúrlega ekki að hún myndi hafa borið ljúgvitni því hún átti auðvitað ekkert að hafa vitað neitt um hver lak skjalinu. En ef hún vissi allt en hefði haldið því fram fyrir dómi að hún vissi ekkert þá hefði hún verið að ljúga — og var það til að koma sér ekki í þá stöðu sem Hanna Birna kippti í handbremsuna og sagði hingað og ekki lengra? Hún væri búin að ljúga að þinginu og fjölmiðlum en það væru takmörk. Og sendi Gísla Valdórsson útaf örkinni til að taka á sig allar þær vammir og skammir sem á honum munu réttilega dynja, en um leið hlífa henni.

Mér finnst reyndar ekki að það eigi að hlífa henni, hvort sem hún var með frá byrjun eða komst að þessu sér til mikillar undrunar í dag. Því það var hún sem sérvaldi þennan kristilega frjálshyggjugutta inná skrifstofu sína og gaf honum aðgang að öllum upplýsingum og lét hann sjá um fjölmiðatengsl og ræðuskrif og hvað annað sem nú allir þessir aðstoðarmenn gera.** Ef Gísli sýndi dómgreindarleysi með því að senda út minnisblaðið og enn meira dómgreindarleysi með því að bæta við það dylgjum um hælisleitandann og annað nafngreint fólk, hvað segir það um dómgreind Hönnu Birnu að hafa fundist þetta efnilegur piltur í starfið og hafa varið hann fram í rauðan dauðann?

Við þurfum kannski að bíða eftir því að annað þeirra eða bæði skrifi sjálfsævisögu til að vita hið sanna í málinu. Reyndar verður fróðlegt að sjá hver mun ráða Gísla í vinnu, ef það er þá ekki frágengið sem sögulaun fyrir Kastljósþáttinn. Það glittir nefnilega í feita stöðu með samþykki flokksins — og Hanna Birna verði tekin helgra manna tölu fyrir píslarvætti sitt.

Þar til mun ég fyrir mitt leyti líta svo á að Gísli hljóti að vera siðblindur, enda rímar það við þá skoðun mína að siðblindir aðhyllist frjálshyggju.

___
* Það hlýtur að hafa verið talsverður léttir fyrir ríkisstjórnina að Gísli hófst handa við lygaleiðréttingar í dag hafi hún þá ekki skipulagt tímasetninguna. Eða var þetta álíka heppni og þegar skýrslan um fall íslensku bankanna féll í skuggann af gosinu í Eyjafjallajökli?

** Óskaplega var annars pirrandi að heyra Gísla tönnlast á að „neita fyrir það“, annaðhvort neitar maðurinn hlutum eða þrætir fyrir þá, hann neitar ekki fyrir þá. Það er von að hann hafi ekki getað komið saman heilli setningu án þess að stórsæi á skjalinu sem hann lak til valinna fjölmiðla þarna í fyrra.

*** Hvernig er það annars, ætlar hinn aðstoðarmaðurinn að halda til streitu meiðyrðamálinu sem hún ætlar í við DV? Gæti hún kannski beint heift sinni annað nú þegar hún veit hvernig í pottinn er búið? Eða var kannski meiðyrðamálshótunin liður í þöggunartaktík innanríkisráðuneytisþríeykisins?

Efnisorð: , ,

mánudagur, nóvember 10, 2014

Víkur þá sögunni annað

Í kvöld fara allir Framsóknarmenn sælir að sofa enda stærsta skuldaleiðrétting í heimi loksins í höfn og enginn getur gagnrýnt þá fyrir neitt framar. Á morgun fá svo kjósendur Framsóknarflokksins og aðrir skuldugir fasteignaeigendur (en ekki leigjendur sama hvar í flokki þeir standa) að kíkja í pakkann (öfugt við þá sem vilja fá að kjósa um ESB) og þá kemur í ljós hvort þeir verða eins glaðir. Meðan við bíðum eftir fagnaðarlátunum skulum við skoða mann. Þetta er enginn framsóknarmaður (og þó) því hann komst nýverið í oddastöðu í bandaríska þinginu.

Um daginn þegar ég var að tala um að Obama myndi fáu áorka nú þegar repúblikanar hafa náð þingmeirihluta í bandaríska þinginu, þá minntist ég á Mitchell McConnell þingmann repúblikana sem nú er orðinn nýkjörinn forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings. Hann hefur lengi verið þingmaður og meðal annars barist gegn hækkun lágmarkslauna jafnframt því að skæla á leynifundi Koch bræðra yfir vonbrigðum sínum með að fjárframlög til stjórnmálaflokkanna hafi verið takmarkað.

Mitch McConnell er þingmaður fyrir Kentucky en þar er gríðarmikil kolaframleiðsla. Í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar núna fengu kjósendur límmiða til að prýða bíla sína með helstu áherslumálum McConnells sem niðursoðin voru í þrjú orð: kol, byssur, frelsi.














Þetta með byssurnar og frelsið er samofið hjá honum því hann vill frelsi til byssukaupa og kaus gegn því að kannaður væri bakgrunnur byssukaupenda í auknum mæli.

McConnell er greinilega jafnhrifinn af umhverfisverndarstefnu og minni losun gróðurhúsalofttegunda og flokkssystir hans sem fræg varð um árið fyrir slagorðið: borum borum! (e. drill, baby, drill) og átti þar við að það ætti að bora eftir meiri olíu til að græða meira, skítt með gróðurhúsaáhrifin. McConnell sagði einmitt á leynifundi Koch bræðra að hann ætlaði að ráðast gegn umhverfisstofnun, enda gengur hann erinda kolavinnslunnar ekki umhverfissins.

En Mitch McConnell hefur ekki alltaf verið þessarar skoðunar í umhverfismálum. Þegar hann hóf feril sinn í stjórnmálum var hann umhverfissinnaður miðjumaður sem var hlynntur fóstureyðingum. En með hverju árinu hefur hann samræmt stefnu sína við stefnu repúblikanaflokksins og þannig risið til æðstu metorða. Þegar hann var eitt sinn spurður um hugmyndafræðilega stefnubreytingu sína svaraði hann einfaldlega: „Ég vildi sigra.“

Það er þarna sem framsóknarmennska Mitch McConnells kemur best í ljós. Það eru engar hugsjónir heldur framapotið eitt, það er skipt um skoðun einsog ekkert sé ef það er líklegt til vinsælda. Kosningaloforðin ganga útá að gera hluti sem hafa skaðlegar afleiðingar til langs tíma. En það mættu kjósendur hafa í huga að það eru auðmennirnir sem eiga hug þeirra allan.

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, nóvember 08, 2014

Fyrsta vika nóvember

Fréttir vikunnar
Læknar fóru í verkfall sem hafði vond áhrif á sjúklinga og aðstandendur þeirra, tónlistarkennarar eru ennþá í verkfalli. Þúsundir manna komu saman á Austurvelli en voru ekki með nógu markviss skilaboð til ríkisstjórnarinnar sem ekki skildi neitt í neinu.

Skilningslausa ríkisstjórnin og ríkislögreglustjóri eru enn ekki búin að samræma sögur sínar við frásögn Norðmanna um vélbyssuvæðingu lögreglu og landhelgisgæslu. Flækjustigið jókst enn þegar tollayfirvöld sögðu vopnin ekki flutt inn með lögformlegum leiðum og neita að þau verði notuð nema borgaður verði af þeim tollur. Það er líklega einsgott að löggan fái ekki vélbyssur í hendurnar, því í ljós hefur komið að hún ræður ekki við að lesa af mengunarmælum, og þurftu Húsvíkingar að húka innandyra þar til einhver tók sig til og útskýrði fyrir löggunni að 3,0 er ekki sama og 0,3 (ætli hún hún hafi snúið mælinum á hvolf?).

Sigmundur Davíð fullyrti um skuldaniðurfellinguna eina ferðina enn í viðtali: „Við erum að fara inn í það skeið að efna að öllu leyti kosningaloforð okkar hvað þetta varðar.“ Og svo bætti hann í: „Allar væntingar sem byggja á því sem var raunverulega sagt um fyrirheitin sem voru gefin þær munu standast fullkomlega.“ Kosningaloforðið hljómaði reyndar þannig að fólk fengi endurgreitt strax eftir kosningar í fyrra og að það væru hrægammasjóðir sem borguðu en ekki ríkið. (Eins og sjá má í sjónvarpsviðtali við hann sem Illugi Jökulsson birti og skrifaði upp á síðu sinni. Ennfremur hér í samantekt Láru Hönnu um að kostnaðurinn falli ekki á ríkið.)

Skúringakonum sem þrifu ráðuneyti var sagt upp og starf þeirra einkavætt. Auðvitað mun betra að fá fyrirtæki sem borgar ræstingafólki lág laun til að bjóða í ræstingar ráðuneytanna í stað þess að vera með einhverjar kéllingar á ríkistaxta með starfsaldurshækkanir (áhugaverðir útreikningar um kostnaðinn við skúringakonurnar) og þurfa sífellt að vesenast með að finna fyrir þær afleysingar þegar þær fara í frí eða veikjast. Það er líka svo gott að minnka ríkisreksturinn en eins og allir vita þá er það versta við ríkisbáknið hvað það hefur margar konur í vinnu.

Þessvegna þarf líka að fækka konum í kennslustörfum og svo hamingjusamlega vill til að stytting náms í framhaldsskólum niður í þrjú ár verður til þess að færri kennara þarf í skólana. Þá verður niðurskurðurinn til framhaldskólanna sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu til þess að færri nemendur komast í skólana (sbr. 25 ára reglan) þannig að 100 stöðugildi kennara í framhaldsskólum verða felld niður. Þetta er því tóm hamingja fyrir ríkiskassann. Nú, ef ekki, þá hlýtur að mega reka fleiri kéllingar.

Það komst líka í fréttir að þrjúhundruð kindur voru drepnar því líklegt þótti að þær ættu ekki góða vetrarvist í vændum. Bóndinn slapp lifandi þó það hafi verið hann en ekki kindurnar sem braut lög. Ef það er einhver sauðfjárveikivarnaástæða fyrir því að féð var ekki flutt, gefið eða selt á aðra bæi kom það ekki fram í fréttum. Gott er þó að vita að bóndaófétið sem „vegna ítrekaðra brota á reglum um aðbúnað búfjár, síðasta vetur og fyrr“ fær ekki að halda fé í vetur — og vonandi aldrei framar.


Góðir pistlar vikunnar
María Helga Guðmundsdsóttir skrifaði andsvar við fíflalegri grein Guðmundar Edgarssonar sem hafði verið að mæla með vínsölu í matvörubúðum. Hún rekur ofan í hann þvæluna og segir meðal annars:
„Hvert mannsbarn, sem þekkir til þess mikla böls sem áfengissýki er, sér að röksemdafærsla sem þessi nær ekki bara engri átt, heldur er helber móðgun við þær miklu þjáningar sem margir hafa liðið vegna þessa sjúkdóms. Ég vona að þeir sem eru fylgjandi sölu víns í matvöruverslunum sjái sóma sinn í því, héðan í frá, að beita ekki rökum sem gera lítið úr þjáningum áfengissjúklinga og annarra sem eiga um sárt að binda.“
Það var svo eftir öðru að Arnar Sigurðsson svaraði Maríu Helgu á bloggsíðu sinni, en hans röksemdir verða ekki ræddar hér því þær eiga illa heima undir yfirskriftinni 'góðir pistlar'.

Ólafur Jóhann Ólafsson segir í pistli um hækkun virðisaukaskatts á bækur að hún sé misráðin og nær væri að lækka enn álögur á bækur og þar með bókaverð. Hann segir að framlög hins opinbera til bókaútgáfu séu til skammar. Sjónarmið Ólafs Jóhanns er mikilvægt því hann er einn þeirra rithöfunda sem ekki þurfa á starfslaunum að halda og því er ekki hægt að væna hann um að vera eingöngu að hugsa um eigin hag, heldur ber hann hag bókarinnar fyrst og fremst fyrir brjósti, eins og aðrir rithöfundar.

Finnbogi Hermannsson skrifaði um skýrslu lögreglunnar um búsáhaldabyltinguna eða öllu heldur skýrslu Geirs Jóns sem hann segir að sé ekki lengur „bara góðgjarn lögregluþjónn og mannasættir“, sem varð reyndar flestum ljóst þegar Geir Jón notaði skýrsluna „sem kennslugagn í svokölluðum Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins“. (Ég er nokkuð viss um að það er ekki af tilviljun sem höfundur notar hástafi í síðustu orðunum.)

Gunnar Hrafn Jónasson var með áhugaverðan pistil á vef Ríkisútvarpsins. Hann fjallar þar um „hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki“ (sem ég mun héreftir kalla ISIS) og segir frá vafasamri guðfræði þeirra sem „enginn viðurkenndur klerkur tekur undir; þvert á móti hafa margir helstu lögspekingar Íslam hakkað túlkanir þeirra í sig“.

„T.d. er á einum stað í fornum texta minnst á að þrælastúlka muni fæða meistara sinn áður en heimurinn líði undir lok. Það [er túlkað þannig að það réttlæti] óhugnanlega þrælamarkaði þar sem konur og stúlkur ganga kaupum og sölum.“
Liðsmenn ISIS aðhyllast semagt heimsendahyggju og eiga það sameiginlegt með milljónum Bandaríkjamanna sem bíða „óþreyjufullir eftir lokauppgjörinu sem lýst er í Opinberunarbók Jóhannesarguðspjallsins“, eins og Gunnar Hrafn bendir á. Vottar Jehóva eru meðal þeira sem eru spenntir fyrir heimsendi og játa fúslega að
„Vottar Jehóva hafa gert sér falskar vonir um komu endalokanna. Við höfum stundum hlakkað svo mikið til að sjá spádómana uppfyllast að við höfum gert okkur væntingar sem samræmdust ekki tímaáætlun Guðs“.
Rétt eins og ISIS vill flýta fyrir heimendi með framferði sínu vilja aðrir heimsendahyggjumenn (þó ekki Vottar Jehóva það best ég veit) upplifa hina hinstu daga. Og eins og Gunnar Hrafn segir þá hefur heimsendatrúin haft veruleg áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna gagnvart Ísrael og málefnum miðausturlanda almennt.


Nöturlegi pistillinn
Af mörgum slæmum pistlum sem ég hef lesið undanfarið stendur þessi uppúr (hann var reyndar skrifaður fyrir rúmri viku). Pistilinn skrifar Guðjón Sigurbjartsson sem tekur fram að hann er bóndasonur auk þess að vera viðskiptafræðingur. Umfjöllunarefni hans er styrkjarkerfi landbúnaðarins. Hann vill lækka styrki og auka hagræðingu. Og hvernig finnst honum hagræðingin eigi að vera? Svarið er að finna í því sem honum þykir greinilega fyrirmyndarbúskapur:
„Í Sádi-Arabíu er stórbúið Almarai. Lárus Ásgeirsson, áður hjá Marel og víðar, rekur kjúklingadeild fyrirtækisins sem framleiðir 550.000 kjúklinga á dag. Það tæki kjúklingabúið aðeins um 2 vikur að anna ársneyslunni á Íslandi. Fyrirtækið rekur líka 15 stórfjós með 7.500 kýr hvert.“
Guðjón minnist ekkert á hvort Lárus þessi þekki hverja kú með nafni eða hvort það er Huppa eða Ljómalind sem hann klórar helst og gaukar að auka tuggu þegar hann bregður sér í fjósið. En svona í alvöru: þessi massaframleiðsla er auðvitað eins andstyggileg og hugsast getur.

Lokaorð Guðjóns eru þessi:
„Breytingarnar munu valda raski en lífsgæði margra munu batna verulega. Kærleikurinn hefur tvær hliðar, eina mjúka og aðra harða. Er til staðar nægur kærleikur til að gera það sem gera þarf til að bæta líf fjölda fólks?“
Guðjóni stendur greinilega slétt á sama um líf kúa og kjúklinga og finnst því betra sem þeim er jaskað út eða drepin í stórum stíl í verksmiðjum þar sem enginn ber velferð þeirra fyrir brjósti. Það er ekki mikill kærleikur í þessu hjá bóndasyninum. En eins og áður hefur komið fram þá eru til bændur sem eru óféti.

Efnisorð: , , , , , , , ,

fimmtudagur, nóvember 06, 2014

Úrslit þingkosninga í Bandaríkjunum, Láki nær völdum

Veslings Obama. Nú er hann kominn í þá stöðu að engin mál sem hann leggur fram munu ná fram að ganga nema að hann gangi að einhverjum afarkostum hins nýja þingmeirihluta repúblikana. Þeir munu eflaust stilla honum upp við vegg og heimta að hann pakki heilbrigðisumbótunum, sem hann kom loksins í gegn, niður í skúffu. Þeir munu sækja að honum þannig eða með eigin lagafrumvörpum um enn minna eftirlit með vopnakaupum, enn verri aðgang að fóstureyðingum og ógilda hjónabönd samkynhneigðra. Og þá þarf Obama að vega og meta hvort kemur verr út fyrir hann þegar upp er staðið, því það er nú einu sinni svo með stjórnmálamenn sem komast til æðstu metorða að þeim er afar umhugað um hvernig verður skrifað um þá í sögubækur framtíðarinnar. Og orðstír Obama sem 44. forseti Bandaríkjanna gæti beðið mikinn hnekki ef hann bakkar eða lúffar fyrir repúblikönum í málum kjósendur hans settu á oddinn og varða heilbrigði og mannréttindi.

Það er einmitt vegna áherslu Obama á þessi mál sem ég hef enn talsvert álit á honum og tel hann meðal bestu forseta sem hafa setið í Hvíta húsinu. Hitt er svo auðvitað galli — en það er galli á öllum forsetum Bandaríkjanna — að Obama hefur reynst stríðsglaðari en hann gaf sig út fyrir að vera þegar hann lofaði að draga herliðið frá Írak. Hann gerði það reyndar og hefur meirasegja lýst andúð á Ísrael. Þá reyndi hann að loka Guantanamo en repúblikanar stoppuðu hann af með það í þinginu. Minna veit ég um efnahagsmálin en kjósendur Obama og demókrataflokksins virðast hafa verið óánægðir með þau, og hafa þá líklega verið búnir að gleyma hverskonar ástand blasti við þegar Obama tók við völdum í janúar 2009. Það var auðvitað fyrirsjáanlegt að honum myndi ekki takast allt sem hann stefndi að, hann tók við þegar efnahagsástandið í heiminum var á heljarþröm. Og flokkur hans uppskar óvinsældir minnislausra kjósenda. Við könnumst við það.

En það er ekki bara óánægja með Obama sem olli fylgishruni demókrata. Kjörsókn var léleg. Það hjálpaði ekki til að andstæðingar Obama komu því svo fyrir að kjósendur sem líklegastir hafa verið til að kjósa demókrata (innflytjendur, fólk af afrískum uppruna, konur, háskólafólk) hafa lent í örðugleikum með að kjósa. Kjörstaðir voru tildæmis færðir lengst frá háskólalóðum. Svo hefur linnulaus áróður Fox sjónvarpsstöðvarinnar gegn Obama haft sitt að segja og ekki má gleyma því að margir Bandaríkjamenn geta allsekki sætt sig við að forsetinn sé ekki hvítur. Ég las einhverstaðar athugasemd við frétt um niðurstöður kosninganna sem hljóðaði á þá leið að „andúð hvítra“ væri sigurvegari kosninganna.

Obama á þann möguleika að sniðganga þingið með því að stjórna með tilskipunum en segist vilja fara sáttaleiðina og ná samningum við repúblikana um einstök mál. Þeir láta allavega í það skína, hann og repúblikaninn Mitch McConnell, tilvonandi forseti öldungadeildarinnar, svona fyrsta kastið. McConnell hefur hinsvegar áður sagt að hann ætli að ónýta stefnumál Obama og neyða hann til að bakka með heilbrigðiskerfisumbæturnar. Við þekkjum það hér á landi að það er lítið að marka ófyrirleitna stjórnmálamenn á borð við McConnell þegar þeir segjast ætla að vinna með stjórnvöldum; við munum þegar Jóhanna og Steingrímur voru stoppuð af með mörg stefnumál sín og stjórnarandstaðan með núverandi ráðamenn í broddi fylkingar hegðaði sér einsog Láki jarðálfur.

Veslings Obama. Og veslings landar hans sem sitja uppi með þetta ástand.



Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, nóvember 04, 2014

Barátta bandarískra kvenna fyrir jafnrétti á ýmsum sviðum

Undanfarna þrjá mánudaga hefur Ríkissjónvarpið sýnt prýðilegan heimildaþátt í þremur hlutum um „þá breytingu sem orðið hefur á stöðu bandarískra kvenna á síðustu áratugum og baráttu þeirra fyrir jafnrétti á ýmsum sviðum“ (á ensku heitir þáttaröðin „Makers: The Women Who Make America“). Meryl Streep er rödd þáttarins og rætt er við fjölda kvenna (engin þeirra mærði Valerie Solanas). Mér fannst þátturinn í miðið fróðlegastur því hann sagði frá uppgangi andfeminískrar bylgju sem reis gegn kvenréttindahreyfingunni og stöðvaði að miklu leyti framgang hennar í Bandaríkjunum.

Með hæstaréttardómi árið 1973 höfðu konur öðlast rétt til fóstureyðinga. Í kjölfarið héldu feministar að réttindi kvenna yrðu aukin með lagabreytingum og fyrir dómstólum. Fjölmörg lög voru í gildi sem leyfðu ýmiskonar mismunun og feministar vissu að það tæki óratíma að breyta þeim öllum eða fella úr gildi. Þær reyndu því að koma í gegn stjórnarskrárbreytingu sem bannaði mismunun svokallaða jafnréttisbreytingu (e. Equal Rights Amendment). Þetta hafði svosem verið reynt áður því allt frá árinu 1923 hafði málið verið lagt fyrir þingið en málið sjaldnast verið tekið til atkvæðagreiðslu. Jafnréttisviðaukinn við stjórnarskrána komst gegnum þingið 1972 en þá átti hvert ríki fyrir sig eftir að samþykkja hann (og urðu að hafa gert það fyrir 22. mars 1979). Á einu ári samþykktu 30 ríki breytinguna og sigur var í sjónmáli.

En þá sté fram á sviðið öflugur andstæðingur, heimavinnandi húsmóðirin Phyllis Schlafly (sem í þættinum er hrósað fyrir gáfur og klókindi). Hún hafði boðið sig fram til þings fyrir repúblikana árangurslaust tvisvar sinnum, en hélt þó ótrauð áfram að berjast fyrir íhaldssömum gildum innan flokksins. Þegar kvenréttindabaráttunni óx fiskur um hrygg fann Phyllis Schlafly verðugan andstæðing. Hún er titluð sem íhaldssamur aðgerðarsinni (e. conservative activist) og talar enn gegn hugmyndinni um feðraveldið og segir feminista hafa kennt konum að vera fórnarlömb. Að hennar mati eru bandarískar konur lánsamasti þjóðfélagshópur sem uppi hefur verið í mannkynssögunni. Og á áttunda áratugnum sá hún ekkert vit í kvenréttindabaráttunni og sagði að „jafnréttisákvæðið á ekki eftir að gera neitt fyrir konur“.

Þegar stefndi í stjórnarskrárbreytingu í þágu jafnréttis sáu Phyllis Schlafly og aðrar konur innan repúblikanaflokksins að baráttuna gegn því yrðu konur að leiða. Til varð hreyfing undir forystu Phyllis Schlafly sem kallaðist STOP ERA (Wikipedia segir að STOP hafi staðið fyrir Hættið að taka af okkur forréttindin, e. Stop Taking Our Privileges). Af viðtölum í þættinum að dæma var eitt meginmarkmið hreyfingarinnar að tryggja að húsmæðrahlutverkið væri öllu æðra. Hlutverk karla væri að annast konur og vernda. (Wikipedia segir Phyllis Schlafly einnig hafa varað við því að konur gætu misst réttinn til framfærslu eftir skilnað og forræði yfir börnunum ef jafnrétti kæmist á.) En ein kvenréttindakvennanna sagði að STOP hreyfingin hefði höfðað til margra kvenna sem fannst þjóðfélagsbreytingarnar gerast of hratt.

Þegar Phyllis Schlafly fór að hamra á því að yrði jafnréttisákvæðið samþykkt yrðu konur látnar gegna herskyldu, og að feministar ætluðust beinlínis til þess að konur yrðu herskyldar, fór að draga úr fylgi við jafnréttisákvæðið. Feministar héldu stærðar ráðstefnu í Texas þar sem þrjár fyrrverandi forsetafrúr stigu á svið (Lady Bird Johnson, Betty Ford, Rosalynn Carter). Þar var fyrir réttindum samkynhneigðra og lesbíur sem lengi höfðu setið hjá í umræðunni glöddust mjög.

En STOP ERA með Phyllis Schlafly í broddi fylkingar hélt líka ráðstefnu í sömu borg. Þar var fjölmenni og mikill fögnuður. Þar var talað gegn réttindum samkynhneigðra og gegn fóstureyðingum. Það að forsetafrúrnar hefðu komið fram á ráðstefnu kvenréttindakvennanna var kallað hneisa.

Og þetta var vendipunkturinn, segir í þættinum.

Það fór svo að ekki samþykktu nægilega mörg ríki jafnréttisbreytinguna á stjórnarskránni.* Pendúll almenningsálitsins hefði sveiflast aftur á móti kvennahreyfingunni. Nú voru það íhaldssömu öflin sem fengu meira vægi. Phyllis Schlafly segir að þessi sigur hafi kennt íhaldsöflum að það var hægt að sigra. Næsta ár var Ronald Reagan kosinn forseti og kjör hans markaði þáttaskil fyrir kvennahreyfinguna sem mátti þola 25 ára niðursveiflu í kjölfarið. Íhaldsöflin gengu hart fram gegn fóstureyðingum og um þær hefur barátta verið háð æ síðan.

Ég þekkti ekki þessa sögu þó ég kannaðist við nafn Phyllis Schlafly. En það sem mér fannst áhugavert var að hún minnti mig á helsta boðbera andfeminisma á Íslandi, sem er einnig kona sem talar um „fórnarlambsvæðingu“ og segir að feðraveldið sé ekki til. Og sú kona — og stuðningsmönnum hennar þykir einmitt mjög merkilegt og mikilvægt að það sé kona sem talar svona eindregið gegn feminisma — hefur einnig talað gegn fóstureyðingum. Hún kallar sig líka aðgerðarsinna, mér finnst vel við hæfi að nota sama titil og var notaður fyrir Phyllis Schlafly í þættinum: íhaldssamur aðgerðarsinni.

Þar með lýkur samanburði þessara tveggja andfeminista. Íslensk jafnréttislög verða ekki afturkölluð, ekki einu sinni af hægri stjórninni, fóstureyðingar verða varla bannaðar heldur. Og þó það yrði reynt þá eru feministar óhræddir að takast á við íhaldsöflin hvar í landi sem þau finnast.

___

* Enn hefur jafnréttisbreytingin ekki verið gerð á bandarísku stjórnarskránni, þrátt fyrir að málið hafi ítrekað verið tekið upp á þinginu en
nokkur ríki
hafa jafnréttisákvæði í eigin stjórnarskrám.


Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, nóvember 02, 2014

Ætli Illugi setji það á fjárlög?

Ríkissjónvarpið sýnir í kvöld þriðja þáttinn af Downton Abbey en norska sjónvarpið þann fimmta. Í gær sýndi sænska sjónvarpið fjórða þáttinn. Sjónvarpsstöðvar keppast semsagt um að sýna þessa vinsælu sjónvarpsseríu eins og margar aðrar sem eru stundum búnar í einu landi þegar næsta land byrjar að sýna þær, eða eins og í tilviki Downton Abbey hjá norrænu sjónvarpsstöðvunum, að þáttaröðin er mislangt komin í hverju landi.

Af þessum þremur norrænu sjónvarpsstöðvum sem hér eru taldar skara Svíar framúr með skemmtilega nýbreytni. Í beinu framhaldi eftir að sýningu hvers þáttar af Downton Abbey lýkur er stuttur spjallþáttur þar sem þrír gestir auk þáttastjórnandans ræða það sem fram fór í þættinum. Þetta þykir mér alveg stórsnjöll hugmynd og fylgist hugfangin með enda þótt ég skilji ekki nema hálft orð í sænsku.

Ég hef ekki hugmynd um hvort Svíarnir hafa gert þetta áður en þessi þáttaröð af Downton Abbey er sú fimmta í röðinni og því alveg ljóst að hún á dyggan aðdáendahóp og margir áhorfenda hafa ánægju af að ræða þættina. Leshringir hafa löngum sinnt ræðnum lestrarhestum og það er ekkert skrítið að Svíar skuli kalla þáttinn sinn sjónvarpshringinn (s. TV-cirkeln). Búningadrama á borð við Downton Abbey er auðvitað endalaust hægt að ræða, útfrá búningunum sjálfum og húsmunum, út frá persónum og tengslum þeirra innbyrðis en líka þroska hvers og eins innan þáttaraðarinnar, og svo tíðaranda og tengingu við sögulega atburði, svo fátt eitt sé nefnt af því sem eflaust hefur borið á góma hjá Svíunum. Þetta er heldur ekkert leiðinlegt sjónvarpsefni, stundum er spilað stutt atriði úr Downton Abbey til að hnykkja á einhverju sem kemur fram í spjallinu.

Reyndar eru leshringir og annað spjall um bókmenntir alls ekki leiðinlegt sjónvarpsefni. Norrænu sjónvarpsstöðvarnar hafa sýnt allmarga slika þætti (ég rugla þeim saman og hver er sýndur hvar), allt frá virðulegum sjónvarpsumræðum þar sem spekingar spjalla til leshringja þar sem fyrrum fíklar, sem aldrei hafa lesið bók fram að því, mæta í athvarf til að ræða bækur og draga ekkert undan ef þeim líkar eða líkar ekki bókin.

Ekkert svona sýnir Ríkissjónvarpið. Menningarþættir eru fáir og fátæklegir, myndlist fær nánast aldrei umfjöllun (útvarpið hefur séð um þá hlið enda myndlist líklega of myndræn fyrir sjónvarpið) og það hvarflar örugglega ekki að neinum að það gæti verið sjónvarpsefni að fólk sitji og tali um uppáhaldssjónvarpsþáttinn sinn. Eða bara sjónvarpsþætti yfirleitt. En væri ekki áhugavert fyrir okkur að fylgjast með (eða taka þátt í) umræðum um dönsku þættina 1864? Þar er nú aldeilis margt að ræða.

Við sem fyrrum nýlenduþjóð Dana ættum að hafa sérstakan áhuga á stríðsbrölti Dana fyrr á tímum. En við sýnum stríðum Dana lítinn áhuga umfram það sem segir í ágætri bók að Íslendingar hafi átt að „láta af hendi allan eir og kopar handa konúnginum, af því það þurfti að endurreisa Kaupinhafn eftir stríðið“ (úr Íslandsklukkunni).

Og í framhaldi af því: hvar eru allir íslensku sjónvarpsþættirnir með leshringum sem ræða hverja einustu bók Nóbelsskáldsins í þaula? Með og án sérfræðinga, úr ýmsum kimum samfélagsins. Þannig sjónvarp hlýtur að vera ódýrt í framleiðslu og ég er varla ein um að vilja horfa á fólk tala um bækur. Nú eða sjónvarpsþáttaraðir, helst á tungumáli sem ég skil.

Efnisorð: ,

laugardagur, nóvember 01, 2014

Nei ekki hann heldur

Úr því ég er nú farin að sverja af mér fylgispekt við fólk með vafasamar tilhneigingar, þá rifjaðist upp fyrir mér þegar feministar voru skammaðir fyrir að halda hlífiskildi yfir Erpi Eyvindarsyni því hann væri með okkur í liði. Hann slyppi við gagnrýni því hann hefði lýst því yfir að hann væri feministi og styddi VG.

Ég man vel eftir viðtali við Erp fyrir margt löngu þar sem hann sagði „ef ég væri kona þá væri ég rauðsokka“. Ég man líka að hann varði kvenfyrirlitningu í textum sínum á þeim forsendum að hann og hinir hljómsveitarmeðlimirnir í XXX-Rottweilerhundum væru bara „með fyrirlitningu á flestu. Konur og hommar sleppa nú bara alveg ágætlega miðað við aðra.“

Ég man hinsvegar ekki eftir að hafa heyrt lag með Erpi árum saman ef þá yfirleitt. Löngun mín til að hlusta á hann hefur engin verið. Þessvegna kom mér mjög á óvart þegar ég las reiðilesturinn yfir vinstri sinnuðu feministunum fyrir að vera svona einlægir stuðningsmenn hans. Að sama skapi hafa feministar verið krafðir skýringa á að gagnrýna ekki texta Megasar og fyrir að fordæma ekki stefnuyfirlýsingu Valerie Solanas. Ég spyr: þurfa allir feministar að vera gjörkunnugir verkum þessa fólks og tilbúnir að svara fyrir þau?

Ég þekki Erp ekki og veit ekki hans lífsskoðanir umfram það sem hann segir opinberlega, en mér hefur sýnst hann vera sami hræsnarinn og alltof margir aðrir karlmenn sem eru til vinstri í pólitík. Þeir segjast hlynntir jafnrétti kvenna og vilja að konur rífi kjaft því allir eiga að rífa kjaft. En þær mega samt ekkert rífa kjaft við karlmenn eða segja þeim að líta í eigin kvenfyrirlitningarbarm. Þeir vilja auðvitað ekkert fórna kláminu sínu eða hætta að líta fyrst og fremst á konur sem kynverur (samt í góðu sko, því þeir elska „þessar mellur“) og verja kynlífsiðnaðinn með kjafti og klóm. Og svo smæla þeir framan í heiminn og finnst þeir nokkuð góðir. Afþví að stundum hentar þeim að segjast vera feministar.

Efnisorð: , , ,