föstudagur, ágúst 29, 2008

Varaforsetaefni Repúblikana

Það ætti að vera fagnaðarefni að kona sé varaforsetaefni í Bandaríkjunum. Fyrir margar konur er það eflaust hvati til að drífa sig á kjörstað í nóvember og kjósa McCain. Hún er líka að mörgu leyti jákvæð fyrirmynd: hefur sjálf komist áfram (ekki vegna ættarauðs eða tengsla við frægt fólk), hefur barist gegn spillingu í stjórnkerfinu og orðið ríkisstjóri rétt rúmlega fertug. Nú er hún 44 ára og á fimm börn, það yngsta fætt á þessu ári, það elsta á leiðinni til Írak að berjast (öfugt við syni og dætur annarra ráðamanna sem eru yfirleitt fjarri vígstöðvum, sbr. Bush forseti á yngri árum). Og eflaust er mjög snjallt af McCain að tefla henni fram, nú þegar Barak Obama hefur valið sér gamlan hvítan skúnk sem sitt varaforsetaefni, í stað Hillary Clinton, sem auðvitað átti að verða forseti en að minnsta kosti varaforseti. Og fyrir þær konur sem vilja sjá konur í æðstu embættum (ef McCain þryti örendið í embætti yrði Sarah Palin forseti Bandaríkjanna) eru þetta góð tíðindi.

En ekki eru allar konur eins. Hvorki frambjóðendur eða kjósendur. Ég á ekki von á að bandarískir feministar muni kjósa McCain bara vegna þess að varaforsetaefnið er kona. Því Sarah Palin er félagi í NRA (samtökum byssueigenda) - þessum sem finnst sniðugt að kennarar í Texas mæti vopnaðir í vinnuna - er á móti hjónaböndum samkynhneigðra og hún er heiftarlega á móti fóstureyðingum, en þær eru enn hitamál í Bandaríkjunum og ekkert grín að hafa fólk við stjórnvöld sem er á móti þeim.

Þannig að enda þótt Sarah Palin virki á margan hátt ægilega fínn feministi (mig grunar að hún skilgreini sig ekki sem feminista) og frábær fyrirmynd fyrir konur - þá hefur skoðanir sem samrýmast engan vegin málefnum sem teljast feminísk. Þannig að þetta útspil McCain, sem eflaust hefur ætlað að hirða atkvæði þeirra kvenna sem urðu sárar yfir því að Hillary Clinton var hafnað, gæti fallið um sjálft sig, því Sarah Palin höfðar allsekki til þeirra. Samt væri auðvitað kúl ef hún yrði varaforseti, svona til þess að brjóta þó þann múr.

En mikið voðalegt fífl er Barak Obama að hafa ekki fengið Hillary með sér og Demókratar almennt að hafa ekki valið hana sem forsetaefni.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Útí mýri, á hafnarbakka eða Laugavegi

Kolbrún Halldórsdóttir hefur stungið uppá að Listaháskólinn verði á þeim stað sem hluti af starfsemi hans er nú við Sölvhólsgötu, meðal ráðuneytanna bakvið Þjóðleikhúsið. Ólína Þorvarðardóttir vill að skólinn flytjist í Vatnsmýri (þar sem hann eignaðist lóð í fyrra) þar sem hann myndi sóma sér í félagi við Háskóla Íslands.

Ég er reyndar ósammála því að enginn græði á sambýli við Listaháskólann; lengi hefur verið sagt að fleira fólk þurfi að sækja miðbæinn til þess að verslunarrekstur borgi sig. Lista- háskólanemendur sækja lítið í Smáralind og Kringluna, en því meira í verslanir með notuð föt og kaffihús við Laugaveg.

En þar sem ég er, eins og þær, á þeirri skoðun að sú bygging sem Listaháskólinn sér fyrir sér sem sitt framtíðarhúsnæði sé alltof stór miðað við aðrar byggingar á Laugaveginum, þá minni ég á gamla ósk sem barst frá LHÍ fyrir nokkrum árum og lesa má í Morgunblaðinu, 19. júní 2005.

„Fundur nemenda, kennara og starfsfólks Listaháskóla Íslands hefur lýst yfir stuðningi við ákvörðun stjórnar skólans um að leita eftir lóð fyrir framtíðarhúsnæði skólans á lóð við Austurhöfn í Reykjavík. Í samþykkt fundarins segir að með þessari staðsetningu gæti Listaháskólinn orði táknmynd sköpunar og sú menntunarmiðstöð sem landsmenn gætu litið til. Nálægt við menningarstofnanir, aðra háskóla og bein samlegð með Tónlistarhúsinu sem áætlað er að rísi þarna bjóði upp á margháttar samstarf en margir listamenn hafa ítrekað bent á gildi þess að tengja Lista- háskólann við starfsemina á hafnarsvæðinu.

Jafnframt telur fundurinn að það yrði ávinningur fyrir borgina að fá nemendur skólans og fjölmennt starfslið inn á þetta svæði og myndi það gæða miðborgina auknu lífi og krafti.

Fundurinn skorar á menntamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg að veita erindi stjórnar Listaháskóla Íslands þann stuðning sem þarf til að koma húsnæðismálum skólans endanlega í höfn.“

Nú er búið að rífa hús Stálsmiðjunnar við Mýrargötu en mikil uppbygging er fyrirhuguð á því svæði. Mér sýnist sem þar sé upplagt að byggja skólann, enda þótt hann sé þá kominn spölkorn frá þeim stað sem beinlínis óskað var eftir. Engu að síður myndi sú staðsetning „kallast á“ við Tónlistarhúsið.

Efnisorð:

mánudagur, ágúst 04, 2008

Draumur um jafnari kjör

Þegar ég reyni að sjá fyrir mér jöfnuð í samfélaginu nota ég ekki ósvipaða aðferð og notuð var í frétt RÚV um mánaðarlaun. Mér finnst hlutfall af launum æðsta stjórnanda fyrirtækis og þeirrar sem lægst fær launin nefnilega eiga að vera takmörkum háð, þ.e.a.s. að hæstu launin verði aldrei hærri en svo að lægstu launin hækki hlutfallslega jafn mikið, þannig helst jafnvægi. Fái óbreytt starfsfólk á leikskólum 200.000 (allt undir þeirri upphæð er hneyksli miðað við núgildandi verðlag og helst ætti það að vera lágmark 250.000 en þetta er slétt og hentug tala til að nota hér) þá fái leikskólastjórinn t.d. 300.000 og borgarstjórinn ekki meira en átta hundruð þúsund, svo dæmi sé tekið. Séu lægstu laun afgreiðslufólks 200.000 fái formaður verkalýðsfélagsins ekki meira en átta hundruð þúsund.

Sama gildi um banka og hvaða fyrirtæki sem nöfnum tjáir að nefna: með því að yfirmennirnir stingi ekki undirmenn sína af í launum hafa þeir þó nokkurn skilning á kjörum þeirra sem minnst bera úr býtum. Hækki einn hópur þá hækka allir. Það hlýtur að halda hagvextinum gangandi, ekki síður en það að einstakir stjórnendur séu með margföld árslaun meðaltekjufólks í mánaðartekjur.

Sem hvatningu til betri og meiri verka (þetta segi ég til mótvægis við þá fullyrðingu að athafnasemi koðni niður fái ekki (útvaldir) yfirmenn endalaust hærri laun), þá mætti verðlauna slíkt með lengri fríum. Svona í stíl við það sem Svíar gera í sambandi við yfirvinnu; þar eykst fríið en ekki launin við það að vinna meira en um var samið í upphafi. Aldrei hef ég heyrt Svía kvarta undan því.

En hitt er hörmulegt, að sumir beri 1.780.000 krónur úr býtum fyrir að mæta í vinnuna en restin sé á launum allt niður í 140.000.

(Skrifað á frídegi verslunarmanna.)

Efnisorð:

laugardagur, ágúst 02, 2008

Stebbi stóð að strippi

Það eru vægast sagt vonbrigði að lögreglustjóri höfðuborgarsvæðisins skuli hafa skipt um skoðun í svo mikilvægu máli sem leyfi til reksturs strippstaða er. Áður var því fagnað að hann gaf ekki leyfi, nú er spurningin afhverju hann skipti um skoðun. Var borið á hann fé? Var honum hótað? Skipaði dómsmálaráðherra honum fyrir? Eða vaknaði hann upp einn góðan veðurdag og mundi eftir samtryggingu karla?

Meðan Sjálfstæðisflokkurinn ræður hér öllu er engin von til að strippstöðum verði lokað. Þar er söluhagnaður af kvenmannsskrokkum reiknaður inní væntingarvísitölu neysluhyggjunnar.

Efnisorð: , , ,