mánudagur, júní 30, 2014

Lof og last í júní

Nú verður aftur tekið til við að útdeila lofi og lasti enda er það fljótleg aðferð við að skýra frá skoðun sinni á ýmsu sem ekki hefur gefist tími til að skrifa um stakar bloggfærslur. Við júnílok má þá helst nefna þetta.

LOF

Agnar Kr. Þorsteinsson skrifar frábæran pistil um hreppaflutninga á starfsmönnum frá Hafnarfirði til Akureyrar, frá Djúpavogi til Grindavíkur, og allskonar réttleysi starfsfólks gagnvart vinnuveitendum. Við það má bæta að flutningur Jafnréttisstofu til Akureyrar var umdeildur á sínum tíma, og ekki eru margir mánuðir síðan lektor við Háskóla Íslands lagði til að hún yrði flutt suður aftur. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að því að slík stofnun þurfi að vera í návígi við stjórnsýsluna, en starfsmenn Fiskistofu segjast einmitt vera á stöðugum fundum í ráðuneytum – sem staðsett eru í Reykjavík. En kannski er þessi flutningur Fiskistofu norður liður í togstreitunni um flugvöllinn; því fleiri ríkisstarfsmenn sem þurfa að vera á stöðugu flugi suður því meira er þörf á að flugvöllurinn sé í miðri Reykjavík til að fljótlegra sé að skreppa á fund. Nema þá að beinlínis hafi verið ætlast til þess að enginn eða fáir starfsmenn Fiskistofu flytji með stofnuninni (enginn þeirra segist ætla norður), og draga þannig úr slagkrafti stofnunarinnar eins og grunur leikur á að hafi verið tilgangurinn með Jafnréttisstofu. Eiginlega ætti þetta allt að falla lastmegin á vogarskálarnar, en pistill Agnars á þó sannarlega heima lofmegin.

Lof fær einnig Elísabet Ýr Atladóttir sem skrifar enn einn frábæran pistil á Knúzið gegn vændi:
„Það er ekki réttur fólks að stunda kynlíf ef enginn er viljugur til að stunda það með þeim. Þessi iðnaður byggist upp á því að halda í hávegum forréttindum karla til að nota líkama kvenna að vild. Það ýtir undir hugmyndir um að fullnæging karla sé mikilvægari en geðheilsa og líkami kvenna. Fyrst þetta er svona mikið val, hvernig stendur á því að það eru alltaf stúlkur og konur með langminnst af valkostum sem enda í þessum iðnaði? Hvers vegna telst eðlilegt að konur í neyð „velji“ að selja líkama sinn til að ná endum saman? Það er ekki talið eðlilegt að karlmaður noti þessa aðferð, jafnvel ekki til að komast úr stórkostlegum fjárhagslegum vanda. Það er aldrei talað um rétt þeirra til að selja sig. […] Fyrir feðraveldinu, fyrir kapítalismanum, fyrir þau sem nýta sér neyð vændisfólks, jafngilda peningar samþykki. Skítt með það hvaða áhrif það hefur á vændisfólkið sjálft eða samfélagið í heild.“
Þetta er bara brot úr pistli Elísabetar, lesið meira hér.

Þá fær Jón Trausti Reynisson á DV lof fyrir pistil um rukkunaraðgerðir landeigenda við Mývatn, Kerið og Geysi (og sífellt bætist í hóp gírugra landeigenda, nú síðast á Stokksnesi). Hann segir meðal annars:

„Barátta gegn þessu er ekki kommúnismi eða afmarkað áhugamál Vinstri grænna, þótt Ögmundur Jónasson hafi verið einn háværasti mótmælandinn þegar hann mætti á staðinn og sá náttúruperlurnar án þess að borga tollinn.

Þetta er hluti af stóru baráttunni fyrir framtíðina. Fordæmið sem landeigendurnir gefa leiðir af sér að hægt verður að taka toll af okkur hvar sem við sjáum sérstæð náttúrufyrirbæri. Hver sem býr yfir nægilega mikið af peningum getur keypt náttúruperlur til þess að taka toll af öðru fólki til framtíðar.

Ef vafi er um hvort frelsið til að kaupa og yfirtaka vegur meira en frelsi einstaklingsins til að fara frjálst um landið án þess að borga fyrir að sjá náttúru heimsins, er ein leið að spyrja sig: Hvort leiðir til meiri heildarhamingju fólks almennt?

Ef spurningin er fjárhagslegs eðlis, hvernig græða megi mest af ferðamönnum, liggur svarið væntanlega í því hvers vegna ferðamenn koma yfirleitt til Íslands á annað borð.

Það er ekki fyrir 1.290 króna kökusneiðar eða malbikaða göngustíga, heldur fyrir frelsið og hið frjálsa land sem enn hefur ekki verið yfirbugað og yfirtekið af mannlegu valdi.“

LAST

Svo virðist sem það séu ekki bara grísir sem eru geltir án deyfingar (ég trúi varlega yfirlýsingum um að því hafi verið hætt) heldur einnig lambhrútar og nautkálfar. Ég sem hélt að það væru bara iðnaðarbændur sem sýndu svo ómannúðlega framkomu í garð varnarlausra dýranna, en ekki vinalegu bændurnir sem halda fé og nautgripi. Það er eins og bændur landsins hafi tekið höndum saman um að reyna að fæla frá sér kaupendur að kjöti og gera okkur öll að grænmetisætum.

Talandi um grænmeti, ekkert bendir til að íslenskt grænmeti sem er merkt „Vistvæn landbúnaðarafurð“ sé vottað á nokkurn hátt enda þótt neytendur gætu haldið af merkingunni að eitthvert eftirlit væri með framleiðslunni. Kona fer bráðum að vilja ganga í ESB með þessu áframhaldi!

TISA leynisamningurinn. (Kjarninn fær reyndar lof fyrir að birta skjölin og fjalla um málið.)
„Á forsíðu skjalanna segir meðal annars að ekki megi aflétta trúnaði á þeim fyrr en fimm árum eftir að TISA-samkomulagið taki gildi eða fimm árum eftir að viðræðunum ljúki, fari svo að samningar náist ekki.“ Sagt er að TISA-samkomulagið muni hafa í för með sér að „reglugerðir þjóða sem snúa að öryggi verkamanna verði takmarkaðar, sömuleiðis umhverfisverndarregluverk, neytendavernd og eftirlitsstarfsemi með heilbrigðisþjónustu, orkuverum, úrgangslosun og faggildingu í menntakerfinu.“
Það er óþolandi tilhugsun að það standi til að „vinda ofan af því regluverki sem sett hefur verið á fjármálamörkuðum eftir hrun“ eða með öðrum orðum „auka völd auðjöfra heimsins“ og enginn má vita um hvað samið er fyrr en fimm árum eftir að skrifað hefur verið undir! Og getur virkilega verið að „ákvörðun um að Ísland tæki þátt var tekin í desember 2012 af þáverandi utanríkisráðherra“? Ég trúi öllu uppá núverandi ríkisstjórn, afnám regluverks og þjónkun við auðmagn er alveg í hennar anda, en fannst ríkisstjórn Jóhönnu eðlilegt að taka þátt í þessu? Og við áttum ekkert að fá að vita fyrr en allt er löngu um garð gengið! Hvur andskotinn?!

Það var frámunalega asnaleg hugmynd að birta niðurstöður PISA prófsins hjá hverjum skóla. Hverjir lægstu skólarnir var fyrirfram augljóst, enda vitað hvaða skólar hafa flest börn innflytjenda sem eðlilega gengur síður en öðrum að lesa texta og leysa verkefni á íslensku. Birting þessara gagna gerir ekkert annað en niðurlægja nemendur: hvernig var annars umræðan um tossabekkina sem Teitur Atlason vakti máls á ekki alls fyrir löngu? Er betra að hía á börn fyrir að vera í lélegasta skólanum (einsog margir túlka tölur um lélegasta námsárángurinn, ekki síst fjölmiðlar) heldur en vera í tossabekk? Geta nemendur í þessum skólum borið höfuðið hátt, eða er það bara fyrir krakkanna í „æðislegu“ skólunum? Ragnar Hansson skrifar afturámóti góða grein um PISA niðurstöðurnar og Fellaskóla og segist hafa fengið „þær upplýsingar að nemendur skólans hafa stórbætt sig í læsi síðan 2012, árið sem umrædd PISA könnun fór fram.“ Ragnar talar mjög lofsamlega um Fellaskóla og starfið sem þar er unnið og endar greinina á að óska skólanum til hamingju. Þannig að þrátt fyrir allt endar þessi samantekt á lofi.

Efnisorð: , , , , , , , , , , , , , ,

fimmtudagur, júní 26, 2014

Smælingjar leita réttar síns

Það hryggir mig mjög þegar níðst er á smælingjum. Að sama skapi gleðst ég þegar þeir rísa úr öskustónni til að bjóða ofureflinu byrginn. Þessvegna er gleði í hjarta mínu þegar fréttir berast af því að Samherji með Þorstein Már Baldvinsson í broddi fylkingar, þann geðþekka mann, hefur kært dómarann sem leyfði Seðlabankanum að fremja húsleit hjá Samherja og undirfyrirtækjum þess enda þótt þau séu augljóslega óskyldir aðilar (og græða örugglega ekkert á rányrkjunni við Afríkustrendur). Vonandi getur Samherji kreist peninga útúr skattgreiðendum sem skaðabætur (verandi nú duglegir að greiða skatta sjálfir), þetta er fátækt fyrirtæki og forstjórinn ekki ofalinn á þessum lúsararðgreiðslum sem gaukað er að honum stöku sinnum.

Hinn smælinginn sem leitar réttar síns er smákrúttið Heiðar Már Guðjónsson (sem ekki má rugla saman við Hreiðar Má Sigurðsson Kaupþingsbankastjóra, eins auðvelt og það er). Heiðar Már er þessháttar smælingi sem er stjórnarformaður og einn eigenda Vodafone auk þess að vera stjórnarformaður Eykon Energy, sem ætlar af fórnfýsi sinni að hefja olíuleit og -vinnslu á Drekasvæðinu. En hér fyrir nokkrum árum meinaði Seðlabankinn honum að kaupa sig inní Sjóvá og þarafleiðandi missti Heiðar Már af góðu tækifæri til að græða ógurlega. Það er auðvitað tómt svindl og þar sem ekkert er auðveldara en reikna út upphæðir brostinna drauma (Heiðar reiknar sig uppí 1,4 milljarð) þá hefur hann nú auðmjúklega farið framá að honum verði bættur skaðinn, með tilstilli dómstóla. Við skattgreiðendur fáum því að taka þátt í draumum Heiðars Más, ég held að það séu frábær býtti. Einhverntímann hélt hið vonda blað DV því fram að Heiðar Már hefði af framsýni sinni séð hrunið fyrir og þessvegna hvatt bestavininn sinn Björgólf Thor um að taka stöðutöku gegn krónunni en Heiðar Már fór nú bara í mál við DV fyrir að segja svona (það endaði reyndar ekki vel), svo að ég segi ekki orð um það.

DV hefur líka vakið athygli á því að Heiðar Már sagði að Davíð Oddsson hafi hegðað sér eins og sósíalisti þegar hann var Seðlabankastjóri (Heiðar Már ætlar að stefna Seðlabankanum en þó ekki fyrir afglöp Davíðs, sem ég skil ekki alveg), en Heiðar Már er auðvitað enginn sósíalisti heldur frjálshyggjumaður og einn þeirra sem staðið hefur að frjálshyggjuhugveitunni RSE, rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál — hann er semsagt kaþólskari en páfinn. En burtséð frá því að vera svona framherji á frjálshyggjulínunni þá er hann örugglega ekkert að kafna úr græðgi eða neitt. Þannig að ég óska honum velfarnaðar í að sækja smáaurinn í vasann okkar og vona að dómstólar dæmi honum í vil, eins og Samherja. Í þessu dómsmáli getur hann fengið góð ráð hjá tengdapabba, sem er ekki bara lögfræðingur heldur líka fyrrverandi dómsmálaráðherra (og réði kannski dómarana sem geta hjálpað til við að fá rétta niðurstöðu í málið), Björn Bjarnason. Sem aftur er náfrændi núverandi fjármálaráðherra — sem aftur átti þátt í þeim vafningi sem setti Sjóvá á hausinn, enn og aftur skattgreiðendum til gleði.

Allt rímar þetta semsagt einhvernveginn saman hjá þessum smælingjum sem hyggjast leita réttar síns gegn ofurvaldinu sem sífellt er að hrekkja þá og féfletta. Við þessi með breiðu bökin getum varla beðið eftir að fá að bæta þeim skaðann með bros á vör.

Gangi þeim sem best. Ég hugsa til þeirra, hlýlega.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, júní 24, 2014

Talsmenn vændiskvenna eða þeirra sem gera þær út?

Um daginn birtist grein um vændi á Knúzinu og þar var vísað í skýrslu norðurírskrar þingnefndar sem kom út í janúar á þessu ári. Þar kemur fram að írska vændiskonan Laura Lee kom fyrir þingnefnd um mansal á Norður Írlandi en þar var til umræðu hvort lögleiða ætti sænsku leiðina, þ.e. leyfa sölu vændis en refsa vændiskaupendum. Vændiskonan vildi ekki sænsku leiðina, taldi hana skaðlega og færði fyrir því ýmis rök. Þar sem hún kom fram sem talsmaður Alþjóðasamtaka vændisfólks er athyglisvert að lesa það sem hún hefur um samtökin að segja — ekki síst með þá spurningu í huga sem Elísabet Ýr Atladóttir spurði í Knúzgreininni: „Hverjir eru það í raun sem berjast fyrir samþykki vændis og hverjir eru það í raun sem græða einna mest á lögleiðingu og normalíseríngu vændis? “

Þar sem skýrslan er á ensku þýddi ég nokkra búta úr henni (þýðingin er gerð í snatri með fyrirvara um allskyns villur, það er þó ekki villa heldur ásetningur að tala um sex workers sem vændisfólk). Af einhverri ástæðu eru allir þingmennirnir sem vitnað er til karlmenn úr sama flokki, Democratic Unionist Party.

Eftir að Laura Lee hafði kynnt sig og afstöðu sína í löngu máli lagði nefndarformaðurinn fyrir hana spurningu.

Paul Givan, nefndarformaður: Takk fyrir þetta, Laura. Ég vil fá staðfestingu á því hverja þú talar fyrir. Það væri gagnlegt að vita fjölda félaga í Alþjóðasamtökum vændisfólks [e. International Union of Sex Workers]. Þú hefur talað um að þú hafir mikla reynslu, en fyrir hvað margar manneskjur talar þú í þessum samtökum?

Í framhaldinu tjáði Laura Lee sig í löngu máli en spurningunni var ekki svarað og nefndarformaðurinn spurði því aftur og fékk þá þetta svar.

Laura Lee: Það er erfitt að nálgast tölfræði um þetta í Bretlandi því þetta er svo leynileg starfsemi, en það er áætlað að það séu 80þúsund vændismanneskjur í Bretlandi. Þá er átt við allan skalann og telur því meðal annars konur sem fækka fötum fyrir framan vefmyndavélar.

Paul Givan, nefndarformaður: Eru það allt félagar í Alþjóðasamtökunum?

Laura Lee: Nei.

Paul Givan, nefndarformaður: Hvað eru þá margir meðlimir í Alþjóðasamtökum vændisfólks?

Laura Lee: Ég er ekki alveg viss um það. Ég þarf að fletta því upp og láta þig vita.

Paul Givan, nefndarformaður: Málið er að þú sagðist tala fyrir mikinn meirihluta.

Laura Lee: Já.

Paul Givan, nefndarformaður: Ég er að reyna að fá staðfestingu á trúverðugleika samtakanna sem þú talar fyrir. Það er mikilvægt, því að augljóslega munum við vísa til þessa vitnisburðar, og við verðum að vita hvort það sem þú segir kemur frá trúverðugum samtökum. Þannig að, hvað margir meðlimir eru í Alþjóðasamtökum verkafólks?

Laura Lee: Ég verð að athuga það og láta þig vita.

Paul Givan, nefndarformaður: Ok, hvað margir meðlima eru frá Norður Írlandi?

Laura Lee: Góð spurning. Ég veit það í hreinskilni ekki, en ég kemst að því fyrir þig.

Paul Givan, nefndarformaður: Ok, svo þú veist ekki svörin.

[Hér er fellt úr]

Jim Wells: Eru einhverjir dólgar eða aðrir sem hagnast á að skipuleggja vændi í Alþjóðasamtökum vændisfólks?

Laura Lee: Já, sumir meðlimanna eru framkvæmdastjórar.

Laura Lee: Þeir eru semsé dólgar.

Laura Lee: Já, ef þú vilt kalla þá það.

Jim Wells: Þannig að þetta eru ekki bara samtök vændisfólks; heldur einnig þeirra sem stjórna vændisfólki.

Laura Lee: Já.

Jim Wells: Sem hagnast mjög á og stjórna lífi vændisfólks.

Laura Lee: Ég get ekki tjáð mig um hvað aðrir græða.

Jim Wells: Er einn þessara manna Douglas Fox?

Laura Lee: Já.

Jim Wells: Er þér kunnugt um starfsemi Douglas Fox í norðurhluta Englands?

Laura Lee: Já.

Jim Wells: Veistu að hann stjórnar einni af stærstu vefsíðu sem auglýsir fylgdarþjónustu í Bretlandi?

Laura Lee: Nei, mér var ekki kunnugt um það.

Jim Wells: Hann sagði í viðtali við The Northern Echo að hann og eiginmaður hans stjórnuðu vefsíðu sem selur þjónustu vændisfólks.

Laura Lee: Ok. Ég vissi að eiginmaður hans tengdist stjórnun fylgdarþjónustu, en meira vissi ég ekki.

Jim Wells: Svo ég taki upp þráðinn frá spurningum sem Givan lagði fyrir þig, ég er að reyna að átta mig á hvaðan þú kemur. Þú ert frá samtökum sem eru í forsvari fyrir vændisiðnaðinn, þar á meðal eru þeir sem græða fúlgur fjár, eins og Douglas Fox, á að selja konur sem vændiskonur.

Laura Lee: Burtséð frá því, þá tala ég fyrir sjálfa mig sem írska konu sem selur vændi og út frá minni eigin reynslu. Það er það sem skiptir máli hér.

Jim Wells: Ef einn þeirra sem stofnuðu og styrkja samtökin er maður sem hefur viðurkennt að hann rekur vefsíðu sem selur vændi, selur þúsundir kvenna á hverju ári, varpar það öðru ljósi á hvað alþjóðasamtök vændisfólksins er.

Laura Lee: Ég sé ekki hvernig það grefur undan trúverðugleika mínum.

Jim Wells: Hvernig það grefur undan honum, er með þeim hætti að ef þeir sem styðja og jafnvel stofnuðu samtökin hafa gríðarlega hagsmuni af því að selja þjónustu kvenna, þið eruð ekki samtök í forsvari þeirra sem vinna á götunni eða frá íbúð; þú ert í forsvari samtaka sem hagnast gríðarlega á sölu á konum.

[…]

Sydney Anderson: Þú segir að gegnum þessi samtök sértu í forsvari fyrir allt vændisfólk. Við erum ekki með á hreinu hve margir meðlimirnir eru, og við erum að reyna að finna það út. Hins vegar segirðu að öryggi fólks sé misjafnt eftir því hvar það er á skalanum og að þú sért á öruggari enda skalans.

[…]

Jim Wells: Þú bendir réttilega á hörmuleg örlög Petite Jasmine. Það er mjög sorglegt mál og við þekkjum það mál. Það gerðist í Svíþjóð, og síðan 1998 er það eina dæmið um að vændiskona í Svíþjóð hafi verið drepin. Á sama tímabili hafa í Hollandi — eins og þú auðvitað veist er vændi í Hollandi algjörlega löglegt og eftirlitsskylt — 127 vændiskonur verið drepnar. Með þessar tölur í huga, hvernig eru vændiskonur öruggar ef vændi er algjörlega leyft með lögum?
[…]

Paul Givan, nefndarformaður: Í heimalandi okkar [Norður-Írlandi] er það oft vændismanneskjan en ekki kaupandinn sem er kærð. Þetta frumvarp [um að setja sænsku leiðina í lög]setur fókusinn á kaupandann og er ætlað að styðja vændismanneskjuna. Það afglæpavæðir vændismanneskjuna. Kannski hef ég rangt fyrir mér varðandi skömmina, en þegar við vorum í Svíþjóð og spurðum um skömm, fannst vændismanneskjunum þær hafa meira vald. Þeim fannst vörn í því fólgin að geta farið til lögreglunnar og sagt frá ofbeldisfullum einstaklingum. Þær yrðu ekki kærðar, en einstaklingurinn sem beitti ofbeldinu og hafði keypt af þeim kynlíf eða aðra þjónustu af þeim var sá sem lögin myndu beita sér gegn. Ég á erfitt með að skilja að þetta [að setja sænsku leiðina í lög] bæti á skömm vændismanneskjunnar, þegar það ætti í raun að gera hið gagnstæða.

[…]

Jim Wells: Þetta er öruggt starf þar sem 127 konur hafa verið myrtar í Hollandi. Þetta er sama starfið. Allar myrtu konurnar voru vændiskonur í löglegum vændishúsum.

Laura Lee: Já.

Jim Wells: Og þú segir að það sé öruggt.

Laura Lee: Já, mín reynsla er sú að ...

Jim Wells: Samt er starfið óöruggt í Svíþjóð þar sem ein kona hefur dáið síðastliðin 15 ár.
[…]

Jim Wells spyr hana svo hvort hún þekki dólga og þar sem það sé ólöglegt að vera dólgur hvort hún hafi kært þá, sem hún hefur ekki gert. Ekki heldur þann sem græddi 80.000 pund á mánuði [rúmar 15 milljónir króna á núverandi gengi] á að selja konur í Englandi.

Nefndarmenn komast að því með spurningum að fatlaðir fá afslátt. Þeim þykir þó greiðinn heldur dýr samt sem áður (u.þ.b. 20 þúsund kr. í stað 30 þús.) og benda á að verið sé að féfletta varnarlaust fólk.

[…]

Paul Givan, nefndarformaður: […] Þú hefur augljóslega dregið upp þá mynd að þú hafir aldrei sætt ofbeldi og að þú njótir vinnunnar. Finnst þér að við eigum að vernda réttindi þín, eða ganga lengra, lögleiða vændisviðskipti á Norður Írlandi svo að réttur þinn sé tryggður? Ættum við að gera það, með þeirri vitneskju sem við höfum frá norðurírsku lögreglunni [e. PSNI, Police Service of Northern Ireland] að megnið af mansali á Norður Írlandi sé kynlífsþrælasala og að konur og stúlkur sæti hópnauðgunum og þurfi að þola hrikalegt kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi? Raunar gefur skýrsla Írsku læknasamtakanna [e. Irish Medical Organisation] til kynna að afleiðingarnar fyrir heilsu þeirra sem eru í vændisiðnaðinum séu tólf sinnum líklegri til að deyja snemma en aðrir í samfélaginu. Finnstþér að réttindi þín ættu að vera æðri öllu öðru sem fylgir kynlífsiðnaðnum?

Laura Lee: Ég trúi því að ef tveir fullorðnir einstaklingar eru samþykkir því að stunda kynlíf bak við luktar dyr, hvort sem greitt er fyrir eða ekki, eigi hið opinbera ekki að skipta sér af […]

Bölvuð forsjárhyggjan sem hugar að hagsmunum margra og hindrar jafnvel framtakssama menn í að græða á öðrum. Þá er nú blessað einstaklingsfrelsið betra. Og talsmenn þess eru líka svo einstaklega trúverðugir.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, júní 10, 2014

Einn gegn öllum

Múslimaumræðunni linnir ekki. Hatursmenn múslima — nýstoltir kjósendur Framsóknarflokksins — telja sig nú vera komnir með löggildingu fyrir skoðunum sínum og fara mikinn. Forystufólk Framsóknar „hafa gefið forstokkuðum rasistum rödd, lögmæti og jafnvel stolt“.

Nýbónaðir borgarfulltrúar Framsóknar þykjast eftir kosningarnar ekkert kannast við eigin orð, og feta þar í fótspor foringja síns Sigmundar ég-sagði-það-aldrei Davíðs.

En kjósendurnir úr skúmaskotunum hafa skilað atkvæðum í kassann og þeir eru enn sigurreifir. Samkvæmt þeim eru allir múslimar hryðjuverkamenn, morðóðir, vilja handarhöggva þjófa, karlar vilja berja allar konur og giftast níu ára stelpum (með fulltingi samfylkingarsinnaðra yfirvalda sem auðvitað myndu leyfa þeim að giftast níu ára stelpum). Múslimar eru semsagt allir bandóðir og hættulegir.

Til mótvægis öllu þessu múslimahatri sem beinist að múslimum almennt vil ég tefla fram einum múslima. Og það er ekkert smápeð.

Ég tefli fram Muhammad Ali, þreföldum heimsmeistara í hnefaleikum. Ali vann gullverðlaun í hnefaleikum á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og var orðinn atvinnumaður með stefnuna á heimsmeistaratitilinn í þungavigt þegar hann kynntist íslamska sértrúarsöfnuðinum Þjóð íslams og gerðist múslimi (og fékk þá nafnið Muhammad Ali, en hann fæddist inn í kristna fjölskyldu og hét Cassius Clay). Árið 1964, daginn eftir að hann varð heimsmeistari, tilkynnti hann umheiminum að hann væri múslimi og vildi ekki lengur láta kalla sig sínu upprunalega nafni. Um tíma var hann vinur Malcolm X sem einnig tilheyrði Þjóð íslams en leiðir skildu þegar Malcolm yfirgaf söfnuðinn og gerðist súnní múslimi (og stofnaði síðar sín eigin samtök). Muhammad Ali gerðist súnní múslimi árið 1974 og hefur á síðustu árum aðhyllst súfisma.

Þegar Ali var kvaddur í herinn árið 1966 neitaði hann að gegna herþjónustu í Víetnam af trúarástæðum. Hann sá auk þess enga ástæðu til að berjast við liðsmenn Viet-Cong, þeir hefðu aldrei kallað hann „nigger“, annað en það sem hann hefði mátt þola í Bandaríkjunum. Það hafði gríðarlegar afleiðingar fyrir feril hans: hann fékk fimm ára fangelsisdóm, var sviptur heimsmeistaratitlinum og vegabréfinu, og var settur í keppnisbann. Hann gat því hvorki keppt í Bandaríkjunum né erlendis. Með þessu var hann sviptur lífsviðurværi sínu. Þetta voru hreinar ofsóknir á hendur Ali vegna trúar hans, litarháttar og pólitískra skoðana. En hann var tilbúinn að fórna framanum, tækifæri til að afla sér gríðarlegra launa, og jafnvel frelsinu fyrir sannfæringu sína.

Ali var 25 ára þegar hann var settur í keppnisbannið, á hátindi líkamlegrar getu sinnar sem íþróttamaður, og keppti ekkert í tvö og hálft ár. Hann áfrýjaði fangelsisdómnum til hæstaréttar og var frjáls ferða sinna innan Bandaríkjanna þar til hæstiréttur sneri við dómnum eftir fjögurrra ára bið. Meðan á biðinni stóð hélt Ali ræður í háskólum um þver Bandaríkin, gagnrýndi Víetnamstríðið og talaði fyrir réttindum blökkumanna.

Af hnefaleikaferlinum er það að segja að Ali barðist við þáverandi heimsmeistara árið 1974, tapaði titlinum 1978 í bardaga og vann heimsmeistaratitilinn aftur seinna sama ár. Hann varð því þrisvar heimsmeistari, og svo má ekki gleyma að þegar hann var 18 ára varð hann Ólympíumeistari. Sjálfur sagðist hann vera mestur, bestur og fallegastur. Hann var semsagt ekki að rifna úr hógværð. En hann var ekki bara allur á yfirborðinu eða heilalaus bardagamaskína heldur var hann andlega þenkjandi (hvað sem manni finnst um trúarskoðanir hans eða hin undarlegu samtök Þjóð íslams) og tók afstöðu til helstu deilumála samtíma síns: réttindum blökkumanna og Víetnamstríðinu.

Allt þetta, og stórbrotinn persónuleikinn, gerði það að verkum að hann var útnefndur íþróttamaður aldarinnar af íþróttatímaritum og fréttamiðlum beggja vegna Atlantsála. Hann hefur enda verið fenginn til að taka þátt í opnunarathöfn Ólympíuleika í tvö skipti: árið 1996 í Atlanta og 2012 í London, þrátt fyrir að vera illa haldinn af Parkinsonssjúkdómnum. Þá var hann um tíma friðarsendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna. Það virðist semsagt almenn skoðun núorðið að Muhammad Ali sé friðsamur og góður gæi.

Ég ætla ekki að halda því fram að allir múslimar séu krútt og engum þeirra sé trúandi til ills. En að minnsta kosti einn þeirra var nógu friðelskandi til að hafna stríði, og fórna öllu fyrir þá sannfæringu sína.

Muhammad Ali er uppáhalds músliminn minn.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, júní 03, 2014

Reynirinn skipar alveg sérstakan sess

Það er hálfskrítið að heyra af áformum um að fella aldargamalt reynitré í miðborg Reykjavíkur nánast í beinu framhaldi af því að hlusta á útvarpsþátt um Möðrufellshrísluna. Í dagskrárkynningu Sagnaslóðar í umsjón Birgis Sveinbjörnssonar (lesari með honum er Bryndís Björg Þórhallsdóttir) segir:

„Þetta er eitt allra frægasta tré sem sprottið hefur upp úr íslenskri mold þ.e. reynirinn í Möðrufellshrauni í Eyjafirði fram eða Möðrufellshríslan sem oft hefur verið kölluð svo en bæði varð reynirinn afar langlífur og var á honum átrúnaður um aldir.“
Hríslan sú var hvorki lítil né lítilmótleg, og reynitré sem enn standa t.a.m. á Skriðu í Hörgárdal eru afkomendur þessa fræga viðar, eins og Jónas Hallgrímsson komst að.

Frá þessu öllu segir útvarpsþátturinn Sagnaslóð, en vegna þess að vélritunarstúlkan þvertekur fyrir að skrifa upp heilu og hálfu bækurnar og útvarpsþættina á næstunni, bendi ég að þið getið hlustað á hann hér á hlaðvarpinu og hér í sarpi.

Silfurreynirinn á Grettisgötunni verður kannski ekki jafn sögufrægur og Möðrufellshríslan (enda innflytjandi), líklega verðum við öll búin að gleyma honum fljótlega eftir að húsin í kring hafa verið færð annað og hótel komið í staðinn. (Skemmtilegt að minnast þess að í húsaröðinni gegnt fyrirhuguðum hótelbyggingum var sólbaðsstofa hér á árum áður; þá ætluðu allir að verða ríkir á að gera óþrjótandi fjölda af fölum Íslendingum að sólbrúnum stælgæjum, nú á að græða á óþrjótandi uppsprettu af útlendingum.)

„Það er áberandi í sögnum að reynirinn skipar alveg sérstakan sess í hugarheimi Íslendingsins. Reynirinn skipar líka alveg sérstakan sess í íslenskri náttúru.“
(Sigríður Hjartar, „Reynir — hið helga tré Íslands.)

Mér er jafnilla við að tré séu felld til að rýma fyrir steypuklumpum gróðapunga (hver ætlar annars að byggja þetta hótel?) og þegar þau eru felld til að einhver vitleysingurinn vill fá sól á pallinn hjá sér, til þess að bæta hjá sér útsýnið, eða til þess að halda í flugbraut sem er hvorteðer á förum. Í þessu tilviki á að fella tré sem hefur staðið á sama stað í 106 ár, í því hafa klifrað kynslóðir katta og krakka, það hefur andað frá sér súrefni frá því kynt var með kolum, og ef ekki væri fyrir heimsku þeirra sem stýra skipulagsmálum borgarinnar (eða hver stóð fyrir því að þetta var samþykkt árið 2003?) þá ætti þetta tré eftir að standa þarna í góð hundrað ár í viðbót, öllum til yndisauka og í sjálfs síns rétti.

Það má auðvitað reyna að skora á Reykjavíkurborg, en þessu tré verður ekki bjargað héðanaf (hvernig gekk að bjarga Nasa frá hótelvæðingunni?), það er ekkert sem getur stoppað þéttingu byggðarinnar í þágu gróðaaflanna. Það er öllum sama um einhverjar hríslur.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, júní 01, 2014

Sjókvenskan

Þórunn Magnúsdóttir (1920-2008) sagnfræðingur skrifaði tvö rit um sjóskókn íslenskra kvenna. Hið fyrra Sjósókn sunnlenskra kvenna frá verstöðvum í Árnessýslu 1697-1980 (kom út 1984) og hið síðara Sjókonur á Íslandi 1891-1981. Í tilefni sjómannadagsins verður hér leitað fanga í síðarnefnda ritinu sem kom út 1988. (Fellt er út og skeytt saman að geðþótta án þess að þess sé getið hverju sinni, en vísað í blaðsíður til glöggvunar.) Þess má geta að í viðtali við dr. Margaret Wilson um sjósókn kvenna í Akureyrarblaðinu er minnst á þessa þrjátíu ára gömlu rannsókn Þórunnar. Þar kemur fyrir hið skemmtilega hugtak „sjókvenska“.

Sjókonur á Íslandi 1891-1981 byggir á rannsókn sem Þórunn gerði á sjósókn kvenna frá Íslandi.

„Athugað er hvaða störf konur hafa með höndum á skipunum, hvers konar skipum konurnar eru á, hvernig sjósókn þeirra dreifist eftir landshlutum og á mismunandi tímum. Leiast verður við að leiða í ljós hvaða þýðingu þessi starfsvettvangur hefur haft fyrir konur og hvaða hlut þær hafa átt í fiskveiðum og annarri sjósókn Íslendinga á því níutíu ára tímabili sem rannsóknin nær til (7). Eftir þann tíma fjölgar nokkuð þeim konum sem afla sér réttinda til yfirmannastarfa á skipum (11).

Upphaf þessarar rannsóknar er árið 1891 og þá er Reykjavík orðin útgerðarstaður þilskipa til fiskveiða. Upp úr aldamótum bætast svo við flutningaskip og síðan togarar og eimskip til farþega og vöruflutninga. (14). Á þessum tíma unnu konur í Reykjavík við uppskipun og útskipun við höfnina, saltburð, kolaburð og fiskverkun (11).

Fram yfir 1930 er það að mestu strandferðaskip, flóabátar og kaupskip sem skjókonur eru skráðar á í Reykjavík. En þær konmast á síldveiðibáta bæði frá Reykjavík og fleiri stöðum árin 1931-40, Konur höfðu þá 33.535 sjóferðadaga frá Reykjavík. Á heimsstyrjaldarárunum síðari dalaði sjósókn kvenna mjög, en eftirspurn eftir vinnuafli kvenna var mikil í Reykjavík og á öllu Suð-vesturhorninu. Sjötti áratugurinn var sjókonum hagstæðari en sá fimmti og komu þá í gagnið skip af fleiri gerðum og stærðum. Þá fóru sjókonur að gefa sig að sama starfi og þær höfðu á sílsveiðibátum. Þær verða kokkar á dýpkunarskipum, varðskipi og fiskiskipum. Koma nýsköpunartogaranna jók atvinnumöguleika kvenna og ný störf bjóðast. Konur fara að starfa sem brytar og búrmenn, og í vélarrúmi sem smyrjarar og dagmenn (14).

Á Vesturlandi aukast vinnutilboð fyrir sjókonur, þegar flóabátarnir stækka, fjölga ferðum og síðan tók bílferja við ferðum milli Akraness og Reykjavíkur. Hvað aðra sjósókn varðar þá virðist konum ganga einna best að komast í skiprsúm frá Stykkishólmi og Grundarfirði. Má vera að sú virðing sem sjókonur í Breiðafjarðareyjum sköpuðu sér, sé enn lifandi veruleiki á þessum slóðum. Skelfiskveiði virðist ásamt stækkun vélbátaflotans hafa skapað sjókonum mikla atvinnu og jafnframt hefur fiskverkun verið mikil á áttunda áratuginum. Það er næstum eins og sprenging eða að flóðgátt opnist, því að sjóferðadagar kvenna verða á árunum 1971-1980 áttfaldir á við áratuginn á undan (17).

Á Suðurlandi er fátt um heimildir fyrir sjósókn mjög ungra stúlkna, ef undan er skilin Þuríður Einarsdóttir formaður (1778-1863), sem sagnir herma að hafi verið á vorvertíðum frá ellefu ára aldri (29). Hún varð ekki formaður á vetrarvertíðum fyrr en 1817 og hefur því verið háseti í 29 ár og unnið sem fiskimaður og ræðari til fertugs (69). Þar sem heimræði hefur verið á árabátum og trillum á tuttugustu öld eru dæmi um að stúlkur hafi stundað sjó um fermingaraldur“ (29).

Á hvers konar skipum eru sjókonur?
„Frá því að konur komast inn í sjósóknina að nýju á öðrum tugi tuttugustu aldar eru þær á skipum af nær öllu tagi. Kaupskipin urðu fyrsti starfsvettvangur íslenskra sjókvenna á skráningarskyldum skipum, og þar hefur verið um samfelldasta vinnu að ræða og því flesta sjóferðardaga. Kaupskipin hafa einnig haft fleiri konur í starfi en önnur skip flotans á þessu árabili. [Hér nefnir Þórunn millilandaskip Eimkips, farþega flutninga þess og strandferðaskip Skipaútgerðar ríkisins.] Störf á strandferðaskipum hafa þótt erfið og mjög erilssöm, en við þau hafa sjókonur verið í 127.140 lögskráða sjóferðardaga á rannsóknartímabilinu (27).

Konum hefur fjölgað á fiskiskipum, að síldveiðiskipum frátöldum, og þær sinnt þar flestum störfum, eftir að kolakyntu togararnir voru teknir af skrám (27).

Sjókonur hafa starfað á dýpkunar- og sanddæluskipum, fiskiskipum, flutningaskipum, flóabátum, fiskirannsóknarskipum, hvalveiðibátum, kaupskipum, olíuskipum, sjómælinga- og hafrannsóknarskipum, strandferðaskipum, síldveiðiskipum, varðskipum og vitaskipum“ (27-8).

Aldur sjókvenna
„Athyglisvert er að konur um og yfir fimmtugt sækja mjög á í sjósókninnni á sjötta áratuginum og þær næstum að tvöfalda tölu sjóferðadaga sinna næsta áratug á eftir. Þetta eru konur fæddar á fyrstu þremur áratugum tuttugustu aldar og voru í þeim aldurshópum íslenskra kvenna sem fæddu börn sín tiltölulega ungar að árum og koma af krafti inn á almennan vinnumarkað, eftir að hafa lokið uppeldisstörfum (30).

Ræðarar Þuríðar formanns og Halldóru Ólafsdóttur í Hergilsey hafa að jafnaði verið konur á góðum starfsaldri, en ógiftar og flestar barnlausar“ (79).

Störf sjókvenna
„Velflestar þeirra kvenna sem lögskráðar voru á skip á fyrsta fjórðungi tuttugstu aldarinnar, voru skráðar sem skipsjómfrúr, jómfrúr eða þernur (31). Þeim þjónustustörfum sem þær gegna á skipunum fjölgar, þær eru búrmenn og matsveinar (32). Þess má geta að þær konur sem hafa verið á smærri bátum sem matsveinar, hafa flestar tekið „dekkvaktir“ (69).

Fyrsta yfirmannsstaðan sem konur gegna á skipunum er starf bryta, sem er betur launað en þau störf sem konur höfðu haft áður. Hásetar voru konur í 83 daga og sjóferðadagar á árunum 1921-30 voru því 14.099 og var það mikil aukning frá fyrri áratug (32).

Kreppuárin 1931-40 eru sjókonur ekki skráðar til þeirra starfa sem talin voru sérstök karlastörf. Veruleg atvinnutilboð fá sjókonur á síldveiðum, sem allir sjófærir fiskibátar stunduðu á þessum árum (32).

Heimsstyrjöldin síðari hafi gagnger áhrif á íslenskt atvinnulíf og herseta Breta og síðar Bandaríkjamanna raskaði enn frekar atvinnuháttum og búsetu í landinu. Segja má að fiskiskipafloti Íslendinga gengi í þjónustu Breta og var að veðum á öllum hefðbundnum fiskimiðum við Ísland, án tillits til ófriðarhættu. Fiskiskipin sigldu svo með afla sinn til hafna á Bretlandseyjum og urðu því fyrir miklu tjóni á mannslífum og skipum af ófriðarástæðum (32).

Þernur voru enn með flesta sjóferðadaga, þeirra kvenna sem á sjó voru árin 1941-50. Þá voru konur matsveinar á bátum og skipum í stórauknum mæli. Önnur þjónustustörf voru á þeirra höndum sem þjónar og brytar. Störf við fiskveiðar og frágang afla taka konur að sér á þessum tíma og eru hásetar, en nýtt starfsheiti fyrir kvennavinnu er saltari. Nýsköpunartímailið hófst á síðari hluta þessa áratugar, en nýju skipun voru ekki öll komin á flott fyrr en á næsta áratug (32).

Konur er störfuðu að rannsóknum komu fram í skráningu eftir 1950 og voru næsta áratuginn í 98 sjóferðadaga við haf- og fiskirannsóknir og sem leiðangursstjórar (33).

Stórfelldur munur er á milli áratuga á fjölda þeirra sjófeðradaga sem konur starfa sem hásetar. Á fimmta áratuginum voru þær í 189 daga skráðar sem hásetar, en 1951-60 eru sjóferðadagar kvenna sem hásetar komnir upp í 925 (33).

Á árunum 1951-60 fóru konur í 1.156 sjóferðadaga sem loftskeytamenn. Brautryðjandi kvenna í þessu starfi var Hjördís Sævar fædd 1932. Hún var loftskeytamaður á fiskiskipi 1954-62. Hjördís fékk ekki starf við sitt hæfi á íslenskum skipum og réðst því á norskt risaskip í siglingum um heimshöfin. Hún var á sjó til 1983 (33).

Hrönn Hjaltadótir er loftskeytamaður á togaranum Kaldbak frá Akureyri [viðtalið við hana hefur Þórunn úr 19. júní, ársriti Kvenréttindafélagsins sem kom út 1981 en Rannveig Jónsdóttir tók viðtalið). Hrönn ræðir kaup og kjör og segir grunnkaupið lágt, „en við erum upp á hlut. Loftskeytamaður fær sama hlut og annar stýrimaður. En eins og allir vita eru launinn á skuttogurum góð þegar vel veiðist. ég gríp í aðgerð eins og aðrir um borð þegar afli er mikill …“ (61).

Það var á sjötta áratuginum sem konur fara ofan í vélarrúmin og voru smyrjarar í 94 sjóferðadaga og þær tóku svo við vélstjórastarfi í 77 daga (34).

Vélstjóri sem mun hafa aflað sér réttinda erlendis er Brynhildur G. Björnsson, f. 1930, Hún hefur verið á sjó af og til sem matsveinn, bryti og vélstjóri. Brynhildur hefur tvívegis komist af við skipreika, að fyrra sinni út af Þorlákshöfn 1971 og síðar á Breiðafirði 1974 (62).

Í almennri umræðu um atvinnumál og réttindamál kvenna, er gjarnan gert ráð fyrir því að íslenskar konur hafi í vaxandi mæli komið út á almennan vinnumarkað upp úr 1975, eða eftir kvennaár Sameinuðu þjóðanna. Þá hafi konur farið að leita inn á svonefnd karlasvið í atvinnumálum. Hvað sjósókn varðar var ekki um nýjung að ræða, heldur voru konur að endurheimta hlutdeild sína í sjósókninnni og sú þróun hófst á öðrum áratug tuttugustu aldar. Að hinu leytinu virðist sókn kvenna á sjóinn verða öflugri en fyrr á árábilinu 1961-70.

Hásetastörfum gegndu konur í 3.512 daga og var með meira en þreföldun á næsta áratugi á undan og má e.t.v. líta svo á að sjókonur séu þarna að undirbúa sókn sína inn í sjómannaskólana, sem krefjast ákveðins sjóferðatíma af nemendum sem teknir eru inn í skólana (34).

Netagerð hefur um aldir verið starf bæði kvenna og karla, en á skipum nútímans voru konur fyrst lögskráðar sem netamenn á áttunda áratuginum hér á landi. Yfirmannsstöður hafa í auknum mæli komið á kvenna hendur og eru þær stýrimenn á togurum og formenn á fiskibátum í 378 sjóferðadaga á áttunda áratuginum (36).

Vel virkur hópur kvenna hefur starfað að fiski- og hafrannsóknum hér við land og farið með skipum og bátum í rannsóknarferðir. Fyrst á vettvang varð Þórunn Þórðardóttir (f. 1925) og var hún lögskráð sem fiskifræðingur á rannsóknarskip árið 1957 og svo aftur árið eftir. Hún mun hafa verið erlendis eftir það en árið 1972 er Þórunn komin til frambúðarstarfa við íslenskar fiskirannsóknir og fór það ár á sjó og fór eftir það ár hvert til 1981 (þá lýkur rannsókninni sem bókin byggir á) (70).

Vilhelmína Vilhelmsdóttir (f. 1929) var rannsóknarmaður á hafrannsóknarskipi og leiðangursstjóri. Vilhelmína hefur skrifað áhugaverða grein um aðstæður og viðhorf varðandi konur í fiskirannsóknum og hafrannsóknum, sem birtist í bókinni Sextán konur “(1981) (72).

Starfsaldur sjókvenna
„Sú sjókona sem ég hef fundið lögskráða lengst allra, er Ólöf Loftsdóttir (1896-1982). Ólöf var fyrst lögskráð á skip árið 1933, eftir það var hún lögskráð ár hvert fram til 1944. Hlé var á sjóferðum Ólafar 1945-52 en var hvert ár á sjó eftir það út árið 1969. Ólöf var þerna á Dettifossi og Goðafossi og var sjókona í 29 ár.

Astrid Jensen (f. 1910) var sextán ár til sjós. Hún kemur fyrst fyrir í lögskráningu árið 1961 og var þá matsveinn á síldveiðibáti, en á næsta ári var hún skráð sem háseti á síldarbáti. Eftir þetta var Astrid skráð ár eftir ár sem matsveinn á fiskipskipum fram til 1974, þá er hún skráð á kaupskip sem matsveinn. Alls hafa sjóferðardagar Astridar verið 2.580 (39). Astrid var meðlimur í Félagi matreiðslumanna (65).

Fyrsta konan sem lögskráð var á fiskiskip, svo vitað sé, var Margrét Sveinsdótir sem var skráð á eimskipið Gylfa í Reykjavík í september 1919 og afskráð í október sama ár (57).

Þær sjókonur sem lengst allra hafa verið lögskráðar komu til skips eftir 1920, en ljóst er að þernustarfið á skipum í farþegaflutningum var eftirsótt frá upphafi íslenskrar skipaútgerðar og að þetta var verulegt atvinnusvið fyrir konur fram yfir miðja tuttugustu öld, þrátt fyrir tvær heimstyrjaldir á tímabilinu og sjóhernað á siglingaleiðum íslenskra skipa“ (57).

(Þórunn ræðir við Önnu G. Halldórsdóttur f. 1930, sem hefur langan starfsferil á sjónum.) „Anna, sem ásamt manni sínum á bát sem þau eru á að sumrinu á handfæra – og línuveiðum, lagði áherslu á það að starf sjómanna í smábátaútgerðinni væri ekki síðri sjómennska en vinna á stærri skipum, og nafngreindi þrjár konur á Suðurnesjum sem stunduðu sjósókn á smábátum. (65).

Skúlína Hlíf Guðmundsdóttir f. 1960, hefur lagt gjörva hönd á flest störf sem til falla á fiskiskipi og var 2. vélstjóri á línuveiðum árið 1978 (62). Hún nam við Stýrimannaskólann 1980-81 (en hafði ekki lokið námi þegar rannsókn Þórunnar lauk). Fyrsta stigs fiskimannaprófi lauk Skúlína 1979, hún hefur verið skipstjóri og stýrimaður á Lunda SH-1 frá Grundarfirði.

Fyrsta konan sem lauk prófi við Stýrimannaskólann í Reykjavík og jafnframt fyrsta íslenska konan sem hefur fyllstu skipstjórnarréttindi á öllum stærðum og gerðum íslenskra skipa, þar með talin varðskipin, er Sigrún Elín Svavarsdóttir f. 1956. Hún byrjaði ung að róa frá Djúpavogi og hefur gegnt störfum matsveins, háseta og stýrimanns og var fyrst stýrimaður á Jóni Guðmundssyni GK-104 haustið 1979 og síðar á stærri skipum og varðskipum“ (64).
Bók Þórunnar kemur út 1988, eftir að kvótakerfið er sett á en áður en kom til frjáls framsals kvótans. Ég þekki ekki hvort eða hvaða afleiðingar það hefur haft á sjósókn íslenskra kvenna, en vonandi eiga þessi lokaorð Þórunnar enn við.

„Ljóst virðist að sjósókn hafi verið álitlegur valskostur fyrir vaxandi fjöld akvenna, sem hefur leitað í störf á skipunum. Einnig er hlutdeild kvenna verðmætt framlag til verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúskapinn, og þær hafa tekið að sér störf sem voru mikilvæg fyrir rekstur fiskveiða og skipaútgerðar. Verulegan þátt í vinsældum sjómennskunnar meðal kvenna, á sú staðreynd að konur hafa sömu laun og karlar í íslenskri sjósókn bæði fyrr og síðar.“

Birt með fyrirvara um ásláttarvillur, án heimildar.

Efnisorð: ,