þriðjudagur, nóvember 29, 2011

Opinber stuðningur við sjálfstæði Palestínu

Það tók sig upp gömul væmni þegar ég heyrði að Ísland styddi nú opinberlega sjálfstæði Palestínu, fékk barasta tár í augun og allt.

Sjálfstæðisflokkurinn aftók auðvitað að vera með, þar á bæ þykir ennþá sniðugt að hafa kvittað uppá innrás í Írak. Aldrei var það þó borið undir þingið, enda nóg að tveir kallar tækju ákvarðanir fyrir okkur öll (og óþarft að bæta við langri romsu um allt hitt klandrið sem þeir eiga sök á).

Verði Palestínu þessi stuðningsyfirlýsing að góðu, okkur munar ekkert um þetta lítilræði.

Efnisorð:

föstudagur, nóvember 25, 2011

Alþjóðlegur dagur gegn kynferðisofbeldi

Stígamót veittu viðurkenningu ársins í tilfefni af alþjóðlegum degi gegn kynferðisofbeldi. Berit Aas, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, María Lilja Þrastardóttir, Margrét Pétursdóttir, Sóley Tómasdóttir og Stóra systir fengu viðurkenningu Stígamóta í ár (hér má sjá rökstuðninginn). Viðurkenningin féll í skaut „þeim hugrökku konum sem á ólíka vegu hafa fylgt réttlætiskennd sinni og rutt brautina fyrir raunverulegt kvenfrelsi“.

Ég hef reyndar ætlað að hrósa nýliðanum í hópnum, Maríu Lilju, fyrir snarpa innkomu og einbeittan baráttuvilja. Henni hefur verið tekið með óbótaskömmum af þeim sem hatast út í feminisma, það sýnir að hún er á réttri braut, eins og hinar.

Ég ákvað líka að leggja mitt af mörkum á þessum alþjóðlega degi gegn kynferðisofbeldi: ég nauðgaði ekki nokkurri manneskju, lokaði ekki inni, barði ekki, sagði ekki ljóta hluti við eða um, níddist ekki á kynferðislega á eða leit á sem kynferðislegan hlut, niðurlægði ekki, hótaði ekki, mismunaði ekki lagalega eða launalega; lét í stuttu máli sagt enga manneskju þola kúgun vegna kyns síns, né hvatti ég til hennar eða afsakaði á nokkurn hátt.

Hvað gerðir þú?

Efnisorð:

miðvikudagur, nóvember 23, 2011

Að breyta líkama kvenna í verkfæri karla

Afar fín grein á knúzinu í dag (þar eru oft afar fínar greinar) um staðgöngumæðrun og vændi.

„Það er hins vegar eitt að selja starfskrafta sína og allt annað að selja það sem beinlínis gerir þig að manneskju, líkama þinn og frjóvgunarmöguleika. Þetta verður greinilegt í vændi þar sem manneskjur þurfa að aftengja sjálfar sig til halda það út. Til að lifa af vændi þarf að líta á kynlíf sem virkni sem er aðskilin frá sjálfinu. Koma sér upp tvöföldum persónuleika, taka dóp til að loka á sjálfa sig og líta á líkamann sem hlut og söluvöru.


Hið sama er uppi á teningnum í staðgöngumæðrun. Þar verður konan að hlutgera fóstrið sem hún ber undir belti og er samt hluti af henni sjálfri. Hún verður að aftengjast því tifinningalega því annars veldur það henni þjáningum.“

Er ekki annars merkilegt að eins og það hefur nú verið lögð mikil áhersla á það í allri andlegri og líkamlegri heilsueflingu, að líkami og sál séu eitt og fólk eigi að tengjast líkama sínum — að staðgöngumæður og vændiskonur eigi barasta að aftengjast líkamanum og láta sig litlu skipta hvað er gert við hann eða hvað vex í honum? Afhverju er gerð þessi krafa til þeirra að þær séu öðruvísi en annað fólk — eða eru þær hreinlega litnar öðrum augum en annað fólk — þær séu þjónustudýr, nytjaskepnur?

„„Rétturinn“ til barna er nátengdur „réttinum“ til að nýta líkama kvenna til eigin þarfa. Svo einfalt er það. Slík réttindi mega aldrei festast í sessi því þá erum við að breyta líkama kvenna í verkfæri karla. Með staðgöngumæðrun smættum við konur í geymslurými, kynfæri, námu fyrir aðra til að grafa í og greiða fyrir með smáaurum. Í þessu skyni skiptir engu máli hvaða tilfinningarök eru notuð, eða hvaða fyrirmyndir eru kynntar til sögunnar. Þetta fjallar þegar allt kemur til alls um hvort nýta megi líkama kvenna til að fullnægja þörfum annarra. Eins og konur séu ekki manneskjur heldur náttúruauðlindir.“

Eins og talað út úr mínu hjarta.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, nóvember 20, 2011

Góð skemmtun: morð, mansal, vændi, klám og vopnasala

Grein í Fréttablaðinu um vítahring ofbeldis og örvæntingar í mið og suður Ameríku rifjaði upp fyrir mér grein sem Smugan vísaði á í sumar. Það var stórgóð úttekt Sölku Guðmundsdóttur á tengslum fíkniefnaviðskipta og alls þess fjára sem henni fylgir og 'sakleysislegrar' neyslu djammara á Íslandi. (Greinin ber titilinn Lífrænar gulrætur, fair trade-súkkulaði & kólumbískt kókaín og má lesa hér, opna nr. 8.)

Í Fréttablaðinu segir þetta:
„Ástandið er nú verst í Hondúras, þar sem 77 manns af hverjum 100 þúsund voru myrtir árið 2010, en El Salvador og Gvatemala komu skammt á eftir með 66 og 50 morð á hverja hundrað þúsund íbúa. Rétt fyrir norðan, í Mexíkó, þar sem ástandið þykir með verra móti, er það þó samt töluvert skárra, því þar voru fram 18 morð á hverja 100 þúsund íbúa árið 2010.

Ástæðurnar eru að stórum hluta sagðar rekjanlegar til fíkniefnaglæpa, en almenn fátækt, misskipting auðæfa, umrót í kjölfar langvarandi borgarastyrjalda einnig sagt eiga sinn þátt í ástandinu. Viðbrögðin hafa að sama skapi víða beinst að því að uppræta fíkniefnasmygl og afbrot því tengd. Þannig megi ráðast beint að rót vandans. Hvergi í þessum heimshluta hafa stjórnvöld gripið til harðari aðgerða en í Mexíkó, þar sem hið svokallaða stríð gegn fíkniefnum hófst fyrir nærri fimm árum.“

Stríðið gegn fíkniefnum snýst um að hemja framleiðsluna og dreifinguna (sem er í höndum glæpasamtaka sem svífast einskis og fremja stóran hluta þeirra morða sem talin eru að ofan) en í grein Sölku fjallar hún ekki síst um eftirspurnina.

Fyrst talar hún þó um aðstæður í upprunalöndum fíkniefnaframleiðslunnar. Hún segir að skærusveitirnar AUC í Kólumbíu hafi sölsað undir sig stærsta hluta eiturlyfjaiðnaðinn og stjórni nú um 75% framleiðslunnar. AUC hafi myrt þúsundir manna, gerst sek um stórfelld mannréttindabrot og einnig stundað ólöglegan skæruhernað í nágrannaríkjunum. Liðsmenn skæruliðasveita og kólumbíska hersins hafi beitt nauðgunum og kynferðisofbeldi gegn konum og börnum. Kynlífsþrælkun er algeng, bendir Salka á, stúlkur lifa oft árum saman í ánauð skæruliða. Hún bendir á að nauðgun sé skilgreind sem vopn í stríðsátökum — í Kólumbíu haldi kókaínpeningar Vesturlanda uppi skæruhernaði þar sem nauðgunum er beitt í miklum mæli.

Þá fjallar Salka um herferð í Bretlandi sem var ætlað að vekja almenning til vitundar um siðferðileg álitamál gegn kókaínneyslu.

„Það sem reynt var að bena á í herferðinni bresku var öðru fremur þversögnin sem felst í því að taka siðferðislega ábyrgð á tilteknum sviðum en hunsa staðreyndir um kókaíniðnaðinn; fólk sem leggur mikið upp úr því að kaupa lífræn matvæli og fair trade-vörur, eða kaupir ekki vörur frá tilteknum fyrirtækjum eða löndum af siðferðilegum ástæðum, er oft sama fólkið og tekur kókaín um helgar. Er það ekki til marks um hræsni að neita að kaupa ísraelskar vörur sem fjármagna hernað gegn Palestínumönnum en finnast í lagi að sniffa kókaín í góðu flippi — sem fjármagnar morð og nauðganir í Suður-Ameríku?“

Kókaín er ekki eina fíkniefnið sem hefur víðtækari áhrif en bara á neytandann, sama má segja um önnur fíkniefni sem komið er í sölu á Vesturlöndum.

„Þau efni sem flutt eru til Vesturlanda frá Suður-Ameríku og Asíu fara yfirleitt í gegnum lönd þar sem eftirlit er slakt eða einkennist af spillingu, þar sem tiltölulega auðvelt er að stunda peningaþvætti eða þar sem víðfemt net skipulagðrar glæpastarfsemi er fyrir hendi. Á þeim lista eru fá vestræn lönd, fá vel stæð velferðarsamfélög — löndin sem dópið okkar hefur viðkomu í eru yfirleitt þróunarríki, stríðshrjáð lönd eða lönd sem hafa gengið í gegnum mikla umbrotatíma. Austur-Evrópa er dæmi um hið síðastnefnda; í löndum á borð við Eistland, Lettland, Moldóvu og Búlgaríu hefur skipulögð glæpastarfsemi grasserað eftir fall kommúnismans og á þessum stöðum hefur gríðarlegt magn af kókaíni, kannabisefnum, ópíumefnum og verksmiðjuframleiddum eiturlyfjum viðkomu áður en efnin eru send á áfangastað í hinum vel stæðari ríkum Vestur-Evrópu eða í Bandaríkjunum.“

Lögleiðing fíkniefna á Íslandi er þó ekki lausnin, það hefði engin áhrif á kólumbíska kókaíniðnaðinn önnur en þau að eftirspurn myndi mögulega aukast og þannig rynni meira af blóðpeningum inn í þá martröð sem kólumbíska borgarastyrjöldin er, segir Salka.

Mér finnst mikilvægur punktur í grein Sölku, sem er mun lengri en þessi brot sem ég hef hér sýnt, að fíkniefnaiðnaðurinn í þeim Austur-Evrópuþjóðum sem hún taldi upp er fjármagnaður meðal annars af íslenskum fíkniefnaneytendum.

„Fíkniefnaiðnaðurinn er í þessum löndum, eins og raunar víðar, nátengdur annarri glæpastarfsemi á borð við mansal, vændi, klám, annars konar smygl, peningaþvætti og vopnasölu … það er ekki ólíklegt að djammið okkar fjármagni mansal í Hollandi eða vopnasölu í Lettlandi.“

Eiturlyfjaneysla getur farið úr böndum hjá hverjum sem er og gert fólk að fíklum. Það hefur áhrif á líf þess og ættingja þess og getur orðið samfélaginu þungur baggi. Hvert slíkt tilfelli er sannarlega sorglegt. En að líta á neyslu allra hinna (sem halda að þeir verði ekki fíklar) sem einkamál þeirra, það er varla verjandi afstaða eftir að hafa lesið grein Sölku.

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, nóvember 17, 2011

Ábyrgar herraklippingar

Það verður seint um mig sagt að ég sé mesti aðdáandi Jóns Gnarrs enda þótt mér hafi fundist hann skemmtilegur uppistandari og útvarpsþættir hans oft mjög fyndnir. En nú má ég til að hrósa honum.*

Þegar hann flutti ræðu í borgarstjórn vegna fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár var hann sannarlega í grínaktuga gírnum þegar hann bað borgarbúa að draga úr barneignum enda setti hann það í samband við það að borgin þarf að skaffa leikskólapláss fyrir börnin.** Samt finnst mér svo frábært að hann skuli hafa rætt ófrjósemisgerðir karla sérstaklega að ég verð að hrósa honum fyrir þetta framlag hans til jafnréttis:

„Barnafjöldinn í ár er líka mikill og langar mig að benda fólki á þann möguleika að nota smokkinn, getnaðarvarnir og ófrjósemisaðgerðir. Það er kannski ekki venjan að tala um getnaðarvarnir í tengslum við fjárhagsáætlun og kannski þess vegna vil ég einmitt gera það. En getnaðarvarnir og barneignir eru líka jafnréttismál og ég vil nota þetta tækifæri til að benda karlmönnum sérstaklega á að kynna sér ófrjósemisaðgerðir. Getnaðarvarnir eru mjög gjarnan til mikilla óþæginda fyrir konur og eru það jafnan þær sem taka ábyrgð enda eru það þær sem sitja uppi með afleiðingarnar. Ófrjósemisaðgerðir eða svokallaðar „herraklippingar“ eru bæði hagkvæmur og þægilegur valkostur fyrir karlmenn.“

Þetta rímar mjög vel við það sem ég sagði fyrir ári síðan en það er sannarlega jákvæð þróun að æ fleiri karlar taka ábyrgð á frjósemi sinni og mjög jákvætt að Jón Gnarr hafi vakið athygli á kostum ófrjósemisaðgerða.

___
* Hann fær líka hrós fyrir að hafa nefnt það — og það held ég að hann hafi gert í fullri alvöru — að Kattholt, athvarf fyrir vegalausa ketti fær enga styrki frá nágrannasveitarfélögunum enda þótt þangað komi oft kettir sem finnast annarstaðar en í Reykjavík. Kattholt er fjársvelt og Reykjavíkurborg ein styrkir það en meira segja Hafnfirðingum þykir það ósanngjarnt.

** Önnur og alvarlegri nálgun hefði verið að ræða ófrjósemisaðgerðir í sambandi við fólksfjölgunarvandann almennt en ekki bara af kostnað Reykjavíkurborgar af henni, en jarðarbúar eru orðnir 7 milljarðar og ekki á bætandi.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, nóvember 15, 2011

Karlmennskan og grínið

Dómur er fallinn yfir skipsáhöfn vegna áreitni sem 13 ára dreng var sýnd um borð. Vægur dómur en þó líklega tímamótadómur.

Drengurinn fékk að fara einn túr á skipi þar sem pabbi hans er í áhöfninni. Meðan á túrnum stendur varð hann fyrir linnulausu áreiti. Hann óttaðist að sér yrði nauðgað og um líf sitt.

Í yfirheyrslum og fyrir dómi ítreka kallskúnkarnir sem ofsóttu hann — og þeir höfðu auðvitað Brynjar Níelsson sér til varnar — að þeir hafi ekki haft neitt kynferðislegt í huga.
„alls ekki verið í kynferðislegum tilgangi“
„það hafi ekki verið neitt kynferðislegt“
„þetta hafi ekki verið gert af kynferðislegum áhuga heldur hafi verið um að ræða grín“

Hér er áhugavert að sjá mismunin á því sem karlarnir taka sig saman um að gera og hvernig áhrif það hefur á aðra (hér hef ég í huga ekki bara drenginn í þessu tilviki heldur börn og konur almennt). Körlum virðist þykja sem það sé ekkert kynferðislegt við hegðun svo framarlega sem þeir fái ekki sjálfir kynferðislegt kikk útúr henni,* en engin meðvitund virðist vera fyrir því hvernig sé að verða fyrir þessari hegðun þeirra.**

Þar sem karlarnir um borð ætluðu nú líklega ekki að nauðga barninu þá finnst þeim í lagi að „grínast“ með að þeir ætli að nauðga drengnum. Þar sem þeir telja sig líklega ekki hafa kynferðislegan áhuga á karlmönnum þá þykir þeim í lagi að „hjakkast“ svolítið á drengnum, það sé bara „grín“. Þar sem í rauninni hafi ekki staðið til að fleygja honum fyrir borð þá sé í lagi að þykjast ætla að kasta honum í sjóinn. Aftur: engin meðvitund fyrir því hvernig sé að vera ofurliði borinn, bjargarlaus, ofsóttur, hæddur og einn.

Þetta eru auðvitað djöfuls aumingjar.***

En það sem er áhugavert að vita, er hvort einhverjir aðrir karlmenn þarna úti, ekki bara úti á sjó, heldur í íslensku samfélagi, muni endurskoða hegðun sína gagnvart drengjum, börnum almennt eða jafnvel konum. Íhugi kannski augnablik frásögn drengsins og hvernig það væri að hafa verið í hans sporum. Eða hvort þeir skelli skollaeyrum við þessu eins og öllu öðru og haldi áfram sínum mikla húmor, sínu skemmtilega gríni. Hvort þeim finnist karlamenningin vera í svo mikilli útrýmingarhættu að þeir verði umfram allt að gerast merkisberar hennar gagnvart öllu og öllum, ekki síst þeim sem geta ekki borðið hönd fyrir höfuð sér.

Drengurinn fær afturámóti hrós dagsins fyrir að kæra þessa aumingja.

____
* Samanber að þeim finnst ekkert vera nauðgun nema kona æpi nei og þurfi að halda henni fastri, eða að þeir fái ekki sáðlát og þá hafi ekki verið um nauðgun að ræða því þeir fengu ekkert útúr þessu.

** „Í 199. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 61/2007, er almennt ákvæði um kynferðislega áreitni. Þar segir að í henni felist m.a. að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur táknræn hegðun eða orðbragð sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta. Athafnir þessar eru nefndar í dæmaskyni og er því ekki tæmandi talin sú hegðun sem telst refsiverð samkvæmt ákvæðinu. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 61/2007 kemur fram að almennt sé við það miðað að snerting sem falli undir kynferðislega áreitni veiti geranda ekki kynferðislega fullnægingu. Kynferðisleg áreitni sé háttsemi kynferðislegs eðlis, sem hvorki teljist samræði né önnur kynferðismök. Hún felist í hvers konar snertingu á líkama annarrar manneskju sem sé andstæð góðum siðum og samskiptaháttum. Í frumvarpinu væri hins vegar gert ráð fyrir því að neðri mörk hugtaksins kynferðisleg áreitni yrðu rýmkuð. Þannig yrði hugtakið ekki afmarkað við líkamlega snertingu heldur gæti einnig fallið undir það orðbragð og táknræn hegðun sem væri mjög meiðandi, ítrekuð eða til þess fallin að valda ótta. Væri þá miðað við stöðugt áreiti sem nálgist einelti.“

***Fyrir utan nú djöfuls aumingjaganginn í föður drengsins sem með því ýmist að hlæja með eða gera ekkert honum til bjargar og sem hinir skipverjarnir vísuðu óspart til að hefði samþykkt þessa hegðun. Sá fær nú aldeilis verðlaun sem faðir ársins.
„Að mati dómsins var háttsemi ákærðu X og Æ andstæð góðum siðum og samskiptaháttum. Jafnframt var hún kynferðislegs eðlis og brotaþoli upplifði háttsemi þeirra sem slíka, en hann kallaði ákærða X barnaníðing hjá sálfræðingi sínum. Þá gerir það ekki hegðun ákærðu refsilausa að segja að þeir hafi gert þetta í gríni eða að faðir brotaþola hafi látið hegðun þeirra gagnvart drengnum óátalda.“

Efnisorð: , ,

sunnudagur, nóvember 06, 2011

Föt og svoleiðis

Í takt við stefnubreytinguna er tilvalið að hafa fjalla um fatnað. Eins og allir vita (hér ætti ég auðvitað að segja 'allar' því eingöngu konur hafa áhuga á fötum) þá geta föt táknað vald. Sá sem klæðist svona fötum hefur svona völd. Ferlega skemmtilegt. Fyrir þá sem ekki skildu þetta með völdin er kannski best að taka dæmi, svona myndadæmi.

Valdamiklir kallar klæðast svona:

Fyrir þá sem fylgjast ekki með valdamiklum köllum skal hér upplýst að þetta eru meðlimir konungsfjölskyldunnar í Sádí-Arabíu, soldið mikið ríkir! Og til að undirstrika þjóðerni sitt, stöðu og ríkidæmi þá klæðast þeir í skikkjur og eru með klút á hausnum. Góðir!

Afturámóti klæðast konur í Sádi-Arabíu svona:

Til að undirstrika kúgunina er skikkja og klútur á hausnum.

Hér er líka verið að undirstrika kúgun með skikkjum og klútum:

Valdníðslan er augljós: hér er verið að kúga karlmenn.

Efnisorð: ,