mánudagur, október 18, 2021

Hverjir hafa ástæðu til bjartsýni og hvernig blasir heimurinn við öðrum?

 Undanliðin ár hefur því verið haldið fram að heimurinn eins og hann er í dag sé besti heimur allra heima. Allt sé í blússandi framför, mannkynið hafi aldrei haft það betra og full ástæða sé til bjartsýni og jákvæðni. Ég rifjaði upp grein frá 2017 í Guardian sem fjallaði um bjartsýnisspámennina og glaðbeittar skoðanir þeirra. Þegar ég las greinina aftur fannst mér eitt blasa við sem ég fékk svo staðfest þegar ég gúglaði nöfnunum sem koma fram í greininni. Byrjaði á Svíunum Hans Rosling og Johan Norberg og bætti svo við öllum hinum nöfnunum. Og jú, mikið rétt: allt hvítir karlmenn. Sumir ef ekki flestir yfirlýstir frjálshyggjumenn eins og Norberg sem er viðloðandi Cato stofnunina (sem er á móti íþyngjandi afskiptum ríkisvaldsins, og dyggilega studd af Koch veldinu). Já þeir hafa ástæðu til að vera bjartsýnir, vel stæðu hvítu karlmennirnir. Allt uppávið í þeirra heimi. Engin ástæða til að kvarta. 

Án þess að ég treysti mér til að skrifa á einni kvöldstund upp allt það sem hrjáir mannkynið þessa stundina og heiminn sem við búum í, og sumt horfir sannarlega til verri vegar, þá vil ég aðeins nefna þetta til sögunnar. Allt úr fréttum dagsins.

Ísland: Ungri konu nauðgað af ‘vini’ sínum. Hann játar sjálfur fyrir henni í smsi og játar einnig fyrir vinkonu hennar. En málið var fellt niður. Játning heitir ekki lengur játning, og svo var unga konan víst ekki nógu hrædd. Ergo: má nauðga.

Bandaríkin: Konu nauðgað í lest. Fjölmörg vitni horfðu aðgerðarlaus hjá (nema þeir sem að sögn tóku atburðinn upp) og hvorki reyndu að stöðva manninn né hringja í neyðarlínuna. Ergo: fullkomlega eðlilegt að konum sé nauðgað hvar og hvenær sem er, hvaða vesen á svosem að gera úr því?
Allur andskotans heimurinn: Í stríði hefur hermönnum ávallt fundist réttlætanlegt og þeim hefur liðist um ómunatíð að nauðga konum af óvinaþjóðinni, þar með talið að taka þær til fanga og nota sem kynlífsþræla. 
Þetta kom fram í Kastljósi kvöldsins þegar talað var við Christinu Lamb sem áður hafði reyndar verið í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið um þetta efni þar sem hún sagði m.a. „kyn­ferðis­legt of­beldi í auknum mæli notað sem vopn gegn konum, í stríði, að of­beldið sé kerfis­bundið.“ Hún hefur í áratugi flutt fréttir frá stríðssvæðum, og í Kastljósviðtalinu segir hún að „það sárasta við að ræða við þolendur nauðgana í stríði vera að vita að frásagnir þeirra breyti líklega ekki neinu. Hún segir að skipulagt kynferðisofbeldi gegn konum hafi ávallt fylgt stríðsátökum en síðustu ár hafi það færst enn í aukana“.
„Nauðganir hafa alltaf verið fylgifiskur stríðs. Fyrstu sagnfræðiskrif Heródótusar hefjast á brottnámi kvenna. En árið er 2021 og það er ekki í lagi að þetta tíðkist enn. Ég tel í raun að þetta sé faraldur um þessar mundir. Ég hef verið fréttaritari í 33 ár og undanfarin sex til sjö ár hef ég séð miklu meiri kynferðisleg grimmdarverk gegn konum en áður,“ segir Lamb.
Það er engin ástæða fyrir konur til að vera bjartsýnar. Nauðgarar eru sýknaðir þótt þeir sjálfir gangist við að hafa nauðgað, konum er nauðgað á almannafæri og allir viðstaddir kæra sig kollótta, og nauðganir eru í auknum mæli — og markvisst — notaðar sem vopn gegn konum í stríði. 
Á meðan eru karlmenn bjartsýnir og glaðir og vilja breiða út þá skoðun að allt sé í besta lagi. 

Efnisorð: ,