laugardagur, ágúst 29, 2015

Þar sem mannslífið er ódýrt

Sænska sjónvarpið sýndi mynd í dag um flóttamenn. Dagskrár sjónvarpsstöðva á Norðurlöndum og líklega víðar í Evrópu eru uppfullar af slíku efni: heimildamyndir, viðtöl, fréttaskýringar. Einstaklingum er fylgt eftir eða fjallað um aðstæður í flóttamannabúðum. Fréttir allra fjölmiðla segja frá fólki sem kafnar í flutningabílum og mannfjölda sem drukknar í Miðjarðarhafi á leið til Evrópu. Hætturnar bíða við hvert fótmál á leiðinni frá stríðsógn og ofríki til Evrópu, því margir eru tilbúnir að féfletta fólk og beita það harðræði undir því yfirskini að koma þeim örugglega á áfangastað þar vesalings fólkið trúir að allt verði betra en í heimalandinu.

Myndin sem sænska sjónvarpið sýndi segir frá fólki sem hefur þegar siglt yfir Miðjarðarhafið, og ferðast með misjöfnum farkosti til einskonar flóttamannabúða þar sem beðið er færis að komast til þess staðar þaðan sem það kemst loks til fyrirheitna landsins. Meðal flóttamannanna er misjafn sauður í mörgu fé, en allir eiga það sameiginlegt að þurfa að leggja allt í sölurnar á flóttanum, fé og sjálfsvirðing meðtalin, og jafnvel lífið sjálft. Ófyrirleitnir menn reyna að græða á öllu saman án nokkurrar samúðar með flóttafólkinu en notfæra sér örvæntingu þess; konum er gert ljóst að þær þurfi að greiða með líkama sínum til þess að komast á áfangastað. Sumir komast aldrei, heldur bíða út í það óendanlega.

Þetta er samt engin heimildarmynd og hún fókuserar í raun minnst á fólkið sem verður verst úti heldur snýst sagan um nokkra einstaklinga, ást þeirra og fórnir, eins og í Hollywoodmynd. Enda er þetta ein frægasta bíómynd allra tíma: Casablanca með Humprey Bogart og Ingrid Bergman.

Ég hef séð Casablanca margoft og hingað til hefur mér fundist hún bundin við sögusvið sitt og heimsstyrjöldina síðari. En nú sá ég hana í nýju ljósi: í beinu samhengi við straum flóttafólks yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. Nema í myndinni byrjar flóttinn Evrópumegin við Miðjarðarhafið, einsog sögumaður skýrir frá í upphafi myndarinnar:

„Í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar litu margir sem voru innilokaðir í Evrópu til Vesturheims í örvæntingarfullri von um frelsi. Lissabon í Portúgal varð upphafstaður skipaferðarinnar yfir hafið. En ekki komust allir stystu leið til Lissabon og ferð flóttamanna þangað var löng og erfið. Frá París til Marseille, yfir Miðjarðarhafið til Oranborgar í Alsír, þaðan með lest eða bíl eða fótgangandi meðfram strönd Afríku til borgarinnar Casablanca í Frönsku Marokkó. Hér var hægt með heppni, peningum eða með því að beita áhrifum að fá vegabréfsáritun og drífa sig þá til Lissabon, og þaðan til Nýja heimsins. En hinir bíða í Casablanca, og bíða, og bíða, og bíða.“
Enda þótt flóttamenn frá Evrópu hafi líklega ekki farið þessa leið í raunveruleikanum og bíómyndin sýni fallegt fólk í snyrtilegum fatnaði sem drepur tímann á ginbúllum, þá á lýsing bíómyndarinnar margt sameiginlegt með flóknum ferðaleiðum flóttamanna samtímans. Munurinn er sá helstur að nú vitum við að það bíður ekki endilega mannsæmandi líf þeirra sem þó komast sæmilega klakklaust á leiðarenda.

Mér finnst einsog sænska sjónvarpið hafi ekki óvart sýnt Casablanca núna.

Efnisorð: ,

mánudagur, ágúst 24, 2015

Já-en-skanni

Kári Stefánsson hefur tilkynnt að Íslensk erfðagreining ætli að gefa þjóðinni jáeindaskanna sem kostar tilbúinn til notkunar næstum milljarð króna. Þetta er auðvitað afar rausnarlegt og verður vel þegið — ef satt reynist. Yfirleitt er beðið með að gefa gjafir þar til þær eru tilbúnar til afhendingar en eitthvað liggur Kára á (vonandi er hann ekki að undirbúa forsetaframboð).

Þar til skanninn jáeindast innanhúss í Landspítalanum (hvar sem honum verður nú holað niður, þá á ég bæði við skannann og spítalann) þá ætla ég að taka þessu með hæfilegum fyrirvara, minnug þess að Róbert Wessmann sagðist ætla að gauka milljarði að Háskóla Reykjavíkur, en sú upphæð ku aldrei hafa skilað sér. Um má kenna hruni í hans tilfelli, en er öllum málaferlum Kára við verktaka lokið? Gera þeir lögtak í þeim jákvæða? Það hlýtur allavega að mega bíða með húrrahrópin.

Efnisorð: , ,

fimmtudagur, ágúst 20, 2015

Snemma byrjaði það

Skömmu fyrir innrásina í Normandí 1944 kom ótiltekinn fjöldi karla saman í Bretlandi og ræddi aðsteðjandi ógnir. Þeir voru reyndar ekki með innrásina í huga heldur það sem þeir óttuðust og hötuðu jafn mikið og Hitler: feminista.


Úr ástralska dagblaðinu The Barrier Miner 1. júní 1944:

Karlar hyggjast berjast gegn feminisma

Lundúnum, 30. maí.
„Þjóðernisflokkur karla“ hefur verið stofnaður í Bretlandi til að berjast gegn feminisma, sem hann álítur „alveg jafn mikla ógn og Hitlerisma“.

Talsmaður flokksins sagði í kvöld: „Um leið og Hitlerisminn hefur verið sigraður munu ýmis karlasamtök leggja saman krafta sína til að berjast gegn því sem ógnar Bretlandi alveg jafn mikið: feminismi.“

Bæklingur sem gefinn er út af leiðtogum flokksins samanstendur af átta bréfum þar sem fyrirhugaðri herferð er fagnað. Konur skrifa öll bréfin.

Og ég sem hélt að það væri ný uppfinning hatursmanna kvenfrelsis að líkja feministum við nasista.


Efnisorð: ,

sunnudagur, ágúst 16, 2015

Síðsumarlestur

Ábendingar um nokkra ágæta pistla um margvísleg málefni.

Samstillt átak gegn gagnrýni fjölmiðla
Síðasti leiðari Björns Þorlákssonar fyrir Akureyri vikublað var um Ríkisútvarpið. Þetta er einn af þessum afar gagnrýnu leiðurum Björns sem hljóta að hafa gert hann mjög óvinsælan á æðstu stöðum, og áttu án efa þátt í því að þaggað var niður í gagnrýninni með því að kaupa blaðaútgáfuna og reka óviðráðanlega ritstjóra á borð við Björn.

Hér talar hann um Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra sem hafi
„handvalið vini og kunningja í stjórnunarstöður sem sumir hafa síðan gengið með blóðugan hníf á lofti, einkum útvarpsmegin, ógnað hagsmunum hlustenda. Hvort sem um ræðir síðasta lag fyrir fréttir, uppsagnir reyndra dagskrárgerðarkvenna, fyrirhugaða léttvæðingu Kastljóssins frá og með næsta hausti, áætlanir um að leggja niður beittasta útvarpsþáttinn Víðsjá, styttingu Spegilsins eða þar fram eftir götunum, lýtur allt að einu. Margreynd áform valdaflokkanna gömlu, að ná loksins að þagga niður í sjálfstæðum gagnrýnisröddum Ríkisútvarpsins virðist að óbreyttu vera nálægt því að rætast.“
Svo víkur Björn talinu að Illuga Jökulssyni menningarmálaráðherra (og vandar honum ekki kveðjurnar) og nefnir einnig þá hina sömu Vigdísi Haukdsóttur formann fjárlaganefndar sem síðast í dag umturnaðist yfir gagnrýni í sinn garð frá velunnara Ríkisútvarpsins.

Björn Valur Gíslason skrifaði sinn pistil eftir uppsögn Björns (og Ingimars Karls Helgasonar) og ræddi þar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í samhengi við kaupin á útgáfunni sem gaf út Akureyri vikublað (og fleiri bæjarblöð), og sagði:
„RÚV verður nánast daglega fyrir pólitískum árásum þingmanna hægriflokkanna. Leynt og ljóst er grafið undan starfseminni, ekki síst því sem snýr að fréttaflutningi“ og að veita almenningi "góðar upplýsingar um samfélagið" eins og segir í skýrslu RNA og að veita almenningi "góðar upplýsingar um samfélagið" eins og segir í skýrslu RNA. […] „Í stórum dráttum er fjölmiðlun á Íslandi verr á sig komin en hún var fyrir Hrun og áratugina þar á undan. Þannig þurfti það ekki að fara og kemur verst niður á almenningi.

Það er eins og peningamenn hafi læst höndum saman í samstilltu átaki gegn gagnrýni.“

Beikonhátíðarpælingar
Guðný Nielsen skrifar um svínakjötsneyslu (80.000 svínum er slátrað hér á landi árlega), og baráttu fyrir velferð svína.
„Hugsjónir og peningar eru andstæðingar sem standa ekki jafnfætis í þessum slag. Barátta samtaka eins og Velbú má síns lítils á meðan framleiðendur neita að bæta úr brýnum velferðarmálum í svínahaldi og Íslendingar halda samt sem áður áfram að kaupa svínakjöt.“

Mótsagnakennt dýradálæti
Stígur Helgason skrifar um „brosandi menn [sem] saga hausa af ljónum og horn af lifandi nashyrningum sér til skemmtunar og/eða í gróðavon“, og mótsagnirnar í því að vera dýravinur, fara í dýragarða, og vera kjötæta.

Pistill Stígs er ágætt mótvægi við alla þá sem hneyksluðust á barnaskap þeirra sem sárnaði þegar krúttlegur selkópur var drepinn í kjölfar flóttatilraunar, og ásökuðu þá um hræsni sem brugðust illa við þegar ljón á verndarsvæði varð fyrir barðinu á sadískum tannlækni með risvandamál.

Einlægt hundadálæti
Margrét Tryggvadóttir skrifar skynsamlega og fallega um samband manns og hunds.

Fæðingarorlofsstarfsmaðurinn
Geir Gunnar Markússon skrifar um lífsreynslu sína sem faðir í fæðingarorlofi og hvetur aðra feður til að taka fæðingarorlof.
„Ég mundi ekki skipta á einum milljarði króna og öllum þeim skemmtilegu stundum sem ég hef átt með dóttur minni í fæðingarvinnunni okkar. Þessar stundir styrkja okkar samband og fylla mig þakklæti. Dóttir mín er yfirmaður minn í þessari vinnu og markmið mitt er að verða starfsmaður mánaðarins.“

Líkamsvirðingarpistill
Bryndís Eva Ásmundsdóttir skrifar um reynslu sína sem ofvaxið barn.
„Við sem samfélag reynum í sífellu að minnka konur. Við hrósum stúlkubörnum fyrir að vera prúðar og stilltar, hvetjum þær til að tala lágt og leika sér rólega á meðan strákarnir okkar læra að taka pláss og athygli. Við hvetjum þessi sömu stúlkubörn þó til íþróttaiðkunar en sú iðkun rúmast ekki í íþróttafréttatímum. Það er rými stráka. Líkamsrækt kvenna miðast í flestum tilfellum að því að minnka þær“.

Strætóbíllinn Feðraveldi
Enn einn frábær pistill eftir Elísabetu Ýr Atladóttur sem skrifar í tilefni af afglæpavæðingarákvörðun Amnesty.
„Hvað heldur fólk eiginlega að kúnninn sé að gera þarna? Það er fáránleg hugmynd að með afglæpavæðingu eða lögleiðingu fái konur meiri stjórn yfir líkama sínum. Þessi viðskipti snúast um að afsala þeirri stjórn til ókunnugs karlmanns svo hann geti svalað vilja sínum á líkama hennar eftir hans hentugleika. Hún getur sett reglur, sem hann mun svo reyna að brjóta, eins og margar konur úr vændi hafa sagt endalausar sögur af, og sem þeir monta sig af.“
Þetta er hressandi:
„Kæra karlréttindafólk, já líka þið sem kallið ykkur femínista á meðan þið hendið konum í vændi undir strætóbílinn Feðraveldi í þágu sjálfselsku ykkar og einstaklingshyggju, þið eruð ógeðsleg og ég óska ykkur öllum að stíga á legó á hverjum degi. Og að WiFi-ið ykkar sé alltaf slitrótt.“

Virkjanir, álver og „eitthvað annað“, eða hvernig Landsvirkjun bjargaði ekki Austurlandi
Andri Snær Magnason skrifar pistil sem er að uppistöðu gömul óbirt grein frá 1998 um Landsvirkjun, skrifuð þegar fórna átti Eyjabökkum í þágu fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði.
„Þetta var áður en allt ruglið byrjaði, já ég segi næstum hreinlega áður en menn byrjuðu að eyðileggja Ísland og þetta brjálaða „ástand“ sem nú ríkir var orðið til, áður en náttúruverndarfólk var flæmt úr Sjálfstæðis og Framsóknarflokki, áður en póleríseringin sem við upplifum í dag varð til. Þetta var áður en ég varð öfgamaður og þetta var áður en 101 Reykjavík varð níðyrði og fjallagrös urðu skammaryrði um nýsköpun. Þetta var áður en 95% af störfum á Íslandi sem tengjast að engu leyti stóriðjunni voru kölluð „eitthvað annað“ með ákveðnum hæðnistón.
[…]
Ég ímynda mér hvað hefði gerst ef örfáir milljarðar hefðu verið settir í að láta þetta allt verða að veruleika, auðvitað ekki 100% bókstaflega – en eitthvað í þessum anda. Ef menn hefðu lagt áherslu á markaðsstarf, flugvöll, menntun, nýsköpun, ferðamennsku, menningu og betri nýtingu á fyrirliggjandi auðlindum í landbúnaði og sjávarútvegi – ef Landsvirkjun hefði bjargað Austurlandi á forsendum Austurlands – en ekki á forsendum Alcoa.
[…]
Þjóðin lagði allt undir og tvöfaldaði orkuframleiðsluna og eyðilagði þjóðmálaumræðuna og vinabönd trosnuðu og í nokkur ár héldu menn að Landsvirkjun hafi bjargað Austurlandi. Að draumar verkfræðinganna hafi alveg óvart farið nákvæmlega saman við þann kraft sem skapar lífvænlegt og gott samfélag.”

Meira um þetta
Úr því gamlir pistlar sem tengjast virkjanaumræðu eru dregnir fram þá er þessi frá 2005 stórgóður eftir Helga Seljan sem eitt sinn var hlynntur hverju því sem talið var að kæmi Reyðfirðingum vel, líka því að Eyjabökkum yrði sökkt.

Enn af virkjunum og álverum, nú á norðvesturlandi
Guðríður B. Helgadóttir skrifar pistil um upprennandi héraðsdeilur vegna fyrirhugaðs álvers á Hafursstöðum á Skagaströnd.
„En það fyrsta sem mér kom í hug, þegar ég heyrði fréttina um að nú væru Blönduósingar komnir af stað með hugmynd um ÁLVER Á SKAGASTRÖND, þetta getur ekki verið satt. En svo fylltist hugur minn sorg og ég hugsaði, „Gjör eigi þann óvinafagnað.“ Hafandi upplifað deilurnar og mannorðs morðin í þeirri orrahríð, sem stóð hér um sveitir í aðdraganda að Blönduvirkjun. Væntingarnar, svikin loforð, glópagullið, sokkið land og svívirta heimabyggð.“

Hvalveiðihagfræði og fleira áhugavert
ber á góma í pistli sem Hrafn Jónsson skrifar um að geta loksins tekið þátt í góðæri, kaupmáttarvorboða, góðgerðarstóriðju, alþýðuhetju, misskilinn eilífðarungling, og síðast en ekki síst
„hvalveiðihagfræði Kristjáns Loftssonar: Ef þú ert að tapa peningum á einhverju þýðir það líklega að þú sért bara ekki að gera nóg af því.“

Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

þriðjudagur, ágúst 11, 2015

Nú skyldi ég segja mig úr Amnesty ef ég væri ekki löngu búin að því.

Það gerði ég eftir að þáverandi formaður Íslandsdeildarinnar sagði að feminismi hafi verið notaður „til að réttlæta mannréttindabrot, misrétti og kúgun“.

Í dag varð svo ljóst að heimsþing Amnesty International hefur ákveðið að styðja við mannréttindabrot og kúgun gegn konum. Sú fregn er hræðilegt reiðarslag fyrir alla kvenréttindabaráttu í heiminum.

Ef ekki væri fyrir augljós dæmi þess að menn með annarlegar skoðanir á mannréttindum, t.d. hatast útí baráttumál feminisma, eiga greiða leið í forystu samtakanna, myndi ég halda því fram að kynlífsiðnaðurinn hafi með langvarandi lobbýisma og hreinum mútum komið þessari tillögu í gegn. Hver sem orsökin er þá er ljóst að Amnesty International eru rúin trausti.

Af orðum formanns Íslandsdeildarinnar í kvöldfréttum má dæma að héreftir vinni deildin eftir forskrift heimsþingsins, sem þýðir að unnið verður að því að fá íslensk stjórnvöld til að breyta lögum vændiskaupendum og vændismiðlurum í hag.

Svei þessum fyrrverandi virtu samtökum.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, ágúst 07, 2015

Tillaga sem hefði sómt sér vel á ársfundi FIFA

Það er grafalvarlegt mál ef mannréttindasamtökin Amnesty International taka upp á sína arma baráttu fyrir því að lögleiða bæði kaup og sölu á vændi um heim allan. Ekki bætir úr skák að það er allt eins líklegt að Íslandsdeild samtakanna kjósi með tillögu þess efnis á heimsþingi samtakanna því úr þeim herbúðum heyrist engin gagnrýni á tillöguna. Nær væri þeim að halda á lofti sænsku leiðinni sem hefur verið tekin upp hér á landi: að leyfa sölu á vændi svo vændiskonur hafi lögin með sér en ekki á móti,* og banna jafnframt kaup á vændi með það að markmiði að uppræta eftirspurnina.

Verði tillagan samþykkt, og í kjölfarið tekin upp sem baráttumál Amnesty, munu allir vændiskúnnar heims halda því fram að það séu mannréttindi að þeir hafi aðgang að kvenmannsskrokki til að svala fýsnum sínum á. Geta þá enda vísað til þess að helstu mannréttindasamtök heims hafi barist fyrir þessum „rétti“ þeirra.

Ég veit ekki hvað fær svo virt mannréttindasamtök til að lítillækka sig með því að íhuga að verja rétt karla til að kaupa kynlíf. Vonandi verður þessi hræðilega tillaga felld.



___
* Já ég veit að vændisfólk er af öllum kynjum en stærstur hluti er konur.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, ágúst 04, 2015

Stjórnlaust lið þarna uppá fastalandinu

Það er ægilegt til þess að hugsa að í allri þessari umræðu um heilbrigðisstarfsfólk og fjárhagslega og landfræðilega stöðu Landspítalans skuli enginn hafa haft rænu á að skikka spítalann til að hafa starfsfólk frá Eyjum í vinnu. Það hefur nefnilega komið í ljós að neyðarmóttaka vegna nauðgana er algjörlega stjórnlaust fyrirbæri sem hlýðir ekki fréttabanni sem sett var í Eyjum.

Páley og Elliði hljóta að heimta byggðakvóta á Landspítalanum með sérstakri áherslu á að planta hlýðnum Vestmannaeyingum í vinnu á neyðarmóttökunni.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, ágúst 02, 2015

Júlíuppgjör

Hér gætu komið vangaveltur um óvart mistök Stöðvar 2 sem fjallaði ítarlega um fyrirtæki og síðar kom í ljós að fyrirtækið hafði borgað fyrir jákvæða umfjöllun en áhorfendum var aldrei sagt frá því. Slíkar kostaðar umfjallanir gætu hafa birst eftir það hjá 365 miðlum, tildæmis í formi gríðarlega jákvæðs fréttaflutnings frá Þjóðhátíð í Eyjum á bæði Vísi og Stöð 2, en við bara getum ekki verið viss. Þessvegna er best að ræða það bara ekkert, enda þögnin best um sum mál.

Margt annað er svosem hægt að ræða, eins og þær furðulegu uppástungur sem settar voru fram í júlí og sneru að grunnþörfum fólks. Eina þeirra átti húsnæðismálaráðherra, og hún var sú að fólk ætti ekkert að fara að heiman heldur búa lengi í foreldrahúsum. Svo ætti fólk að vinna með námi til að spara fyrir húsnæði síðar meir og losna við að taka námslán. Vegna vinnunnar tæki lengri tíma að klára námið, sem er reyndar alveg öfugt við yfirlýsta stefnu menntamálaráðherra sem vill að fólk haski sér gegnum nám á öllum stigum. Flokkssystir hans setti fram aðra undraverða lausn á grunnþörfum fólks: það eigi að kaupa minna af mat. Þá myndi ríkisstjórnin líka losna við að heyra þetta endalausa nöldur um hvað virðisaukaskattur á mat er hár. Hann er reyndar ekki þingmaður sá sem stakk uppá að fólk hætti að pissa á ferðalögum, það geti barasta pissað áður en það legði af stað og láta það duga fyrir daginn, en hann hlýtur að vera efnilegur kandídat á framboðslista annarshvors stjórnarflokkanna.

Hér á eftir fara ýmsar smáar og stórar fréttir júlímánaðar. Þeim er til hagræðis skipt upp í jákvæðar fréttir og neikvæðar að hætti hússins.


LOF

Almenningur vill sterkt heilbrigðiskerfi
Íslendingar eru ekki jafn hrifnir af frjálshyggju og Sjálfstæðisflokkurinn og hafna einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

„Stuðningur Íslendinga við að meira fé ætti að veita til heilbrigðismála og að hið opinbera reki heilbrigðisþjónustuna hefur aukist mjög frá 2006 samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskólans. Mjög lítill stuðningur er við einkavæðingu hennar.“
Það er ennþá smá vit eftir í landanum.

Vilja friðlýsa Akurey
Það er góð hugmynd hjá Fuglaverndarfélagi Íslands að skora á borgaryfirvöld að friðlýsa Akurey og vernda hana þannig gegn byggingarstarfsemi og veiðum. Vonandi verður orðið við þeirri ósk.

Mannréttindi fyrir alla
Hundar og kettir hafa fengið borgaraleg réttindi í Trigueros del Valle sem er lítill bær á norðvestur Spáni. Bæjarráðið samþykkti einróma ný lög sem gefa köttum og hundum ámóta réttindi og aðrir bæjarbúar hafa. Það má því ekkert frekar meiða og drepa dýrin en mannfólkið. Nýja löggjöfin nær líka yfir naut sem þýðir að í reynd að nautaat er bannað. Mér finnst þetta frábært.

Seglum þöndum á Skjálfandaflóa
Tekið hefur verið í notkun rafknúið seglskip í hvalaskoðun á Skjálfandaflóa.
„Að jafnaði verða rafgeymarnir hlaðnir þegar skipið kemur til hafnar með umhverfisvænni orku af orkukerfi landsins. Í hvalaskoðunarferðum mun rafmótorinn knýja skrúfubúnaðinn en þegar skipið siglir fyrir seglum er hægt að breyta skurði skrúfublaðanna og nýta búnaðinn til að hlaða rafmagni inn á geyma skipsins. Þetta er í fyrsta skipti sem slík tækni er nýtt um borð í skipi og hefur hún vakið mikla athygli þar sem hún hefur verið kynnt erlendis.“
Gefur að skilja, segir einnig í frétt Akureyri vikublaðs (sáluga), að minni truflun er fyrir sjávarlífríkið að sigla um á hljóðlátan og vistvænan hátt en með mengandi vélarskellum. Þetta er mikið framfaraskref.


LAST

Strikað út fyrir
Gunnar teiknari sem hingað til hefur verið með ágætar myndir í Fréttablaðinu fór rækilega útaf sporinu meðmynd af Ragnheiði Elínu Árnadóttur þar sem hún liggur hálfnakin undir sæng og virðist vera að bjóða túristum uppí til sín (með skilyrðum). Þetta átti greinilega að vera gys í tilefni af orðum hennar um að hafa verið tekin í bólinu í málefnum ferðamanna (hún sagði reyndar „við vorum tekin í bólinu“), en angaði samt aðallega af kvenfyrirlitningu á borð við þá sem einkenndi teikningar Sigmunds í Morgunblaðinu. Það er ekkert fyndið við það að lítillækka konur í valdastöðum með því að sýna þær fáklæddar í rúminu.

Viðhorf til túrista
Eins og fram kom hér að ofan hafa þvaglát ferðamanna og hægðir verið mönnum óvenju hugleikin. Ætlast er til að útlendingar haldi í sér meðan á Íslandsdvöl stendur og amast við að þeir gangi örna sinna þegar þeir þess þurfa (ég er ekki með nokkru móti að mæla ýmsum aðförum þeirra eða staðarvali bót). Jón Trausti Reynisson skrifaði áhugaverðan pistil um viðhorf okkar til ferðamanna og hegðunar þeirra (sem hefði átt að lenda lof-megin). Vonandi verður svo búið að koma upp góðri salernisaðstöðu (snyrtilegri, opin allan sólarhringinn, gerð fyrir fjölda manns) á helstu ferðamannastöðum innan tíðar, svona gengur þetta ekki lengur.

Nýir vendir sópa undir teppið
Þvagleggur sýslumaður en nú orðinn lögreglustjóri á Suðurnesjum og þar lætur hann til sín taka. Fyrirrennari hans þar í starfi (núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins) hafði tekið upp breytt verklag með hagsmuni fórnarlamba heimilisofbeldis í fyrirrúmi. En Þvagleggur púkkar ekkert uppá þetta og fréttir herma
„Fórnarlömb heimilisofbeldis á Suðurnesjum hafa síður fengið samþykkt nálgunarbann eða brottvísun ofbeldismanns af heimili eftir að nýr lögreglustjóri tók við um síðustu áramót. Tölur sýna að þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir starfaði sem lögreglustjóri á Suðurnesjum var meirihluti beiðna brotaþola um slíkar aðgerðir samþykktur. Það sem af er ári hafa beiðnir brotaþola um brottvísun ofbeldismanns af heimili, hina svokölluðu austurrísku leið, aldrei verið samþykktar. Þá hefur nálgunarbann aðeins tvisvar verið samþykkt. Fimm sinnum hefur því verið hafnað.“
Ofbeldismenn á Suðurnesjum eru eflaust kátir með að hafa aftur fengið karlmann í þetta embætti.

Betrun, já takk
Hvorki er til fjármagn né mannskapur hjá Fangelsismálastofnun til að sinna meðferð dæmdra kynferðisbrotamanna. Ef slík meðferð getur breytt hugsun og hegðun kynferðisbrotamanna er glæpsamleg vanræksla af yfirvöldum að veita hana ekki. Gjöra svo vel að setja fjármagn í þetta strax. (Þórdís Elva Þorvaldsdóttir skrifar góðan pistil um þetta.)

Létt á skattbyrði einsetubóndans á Hrafnabjörgum
Álagningarskrár eru þarfaþing og sérstaklega þegar þær eru opnar og aðgengilegar. Hvar annarstaðar fengist upplýst
„Sigmundur Davíð hafi borgað um átta milljónir í skatta í ár, þar af 2,76 milljónir í útsvar og 5,12 milljónir í tekjuskatt Í fyrra hafði hann hins vegar greitt 2,3 milljónir í útsvar, átta milljónir í tekjuskatt og 7,8 milljónir í auðlegðarskatt sem ekki er lengur til staðar.“
Sem ríkisstjórn hans lagði af. Og þessvegna borgar Sigmundur Davíð nú helmingi minna en áður til samneyslunnar.

Örsmá frétt um afrek
Jón Margeir Sveinsson vann silfur í 200 metra skriðsundi á HM fatlaðra (sem er lofsvert afrek). Þetta þótti íþróttafréttamönnum Fréttablaðsins greinilega ekki merkilegra en svo að það er varla hægt að sjá fréttina á íþróttasíðunni. Hinsvegar er miklu plássi eytt í einhvern knattspyrnumann sem spilar með norsku liði og rætt við hann um landsliðsdrauma hans. Silfur á heimsmeistaramóti er auðvitað bara smáræði miðað við mikilvægi fótboltastrákaviðtalsins.

Aðförin að Búkollu
Ekki vissi ég fyrr en ég las leiðara Óla Kristjáns Ármannssonar að á nýliðnu þingi hafi verið samþykkt að „flytja megi inn erfðaefni holdanautgripa með það fyrir augum að efla innlenda nautakjötsframleiðslu“. Ég hef skrifað gegn því að flytja inn fósturvísa til að ‘kynbæta’ íslenskar kýr og skoðun mín hefur ekki breyst, hvað þá þegar varnaðarorð Margrétar Guðnadóttur veirufræðings eru höfð í huga. Leiðarahöfundurinn hefur smá áhyggjur vegna þeirra en aðallega fagnar hann þessu og hvetur einnig til kynblöndunar eða innflutnings á erlendu kyni mjólkurkúa. Ég gæti ekki verið meira ósammála og er mjög ósátt við þessa ákvörðun þingsins.

Svo var líka kalt í júlí.

Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,