mánudagur, júlí 31, 2017

Skiptir máli hvar og í hvaða tilgangi ráðherra klæðist kjól?

Það er erfitt að fá aukið álit á Björt Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra í miðju þessu kjólamáli. Hún lætur taka af sér mynd í sal Alþingis og er klædd hönnunarflík. Vinkona hennar á hlut í hönnunarfyrirtækinu sem framleiðir kjólinn og myndin birtist á síðu hönnunarfyrirtækisins. Með myndinni fylgir nafn og titill ráðherrans. Nafnið á kjólnum fylgir líka með. Það er mjög erfitt að sjá annað en þarna hafi ráðherrann tekið þátt í að markaðssetja og selja vöru fyrir vinkonu sína. Slíkt er ekki í lagi og gengur reyndar í berhögg við fyrstu grein þriðju málsgreinar í siðareglur ráðherra. (Aðrir þingmenn og ráðherrar hafa verið gagnrýndir fyrir að auglýsa fyrirtæki vina sinna, og hjálpa þeim að koma á viðskiptasamböndum, sbr. Brynjar Níelsson, Kristján Þór Júlíusson og Illugi Gunnarsson.)
Eins og Illugi Jökulsson segir þá misnotaði hún aðstöðu sína í þágu einkafyrirtækis vinkonu sinnar.

Að myndin var tekin í þingsal gerir illt verra. Það bætir ekki virðingu fyrir Alþingi að ráðherra í ríkisstjórn að auglýsa kjól útá ímynd Alþingis. Það er dónaskapur við bæði þingið, samþingmenn Bjartar og kjósendur.

Viðbrögð Bjartar þegar hún er gagnrýnd fyrir þetta tiltæki bæta svo gráu ofan á svart, því dómgreindarleysi ráðherrans einskorðaðist þó ekki við þann dag sem hún leyfði af sér þessa myndatöku heldur hélt áfram fram eftir degi (þar til aðstoðarmenn hennar gripu í taumana?) því hún hæddist að gagnrýnininni sem hún fékk á sig. Sagði að auki engar reglur (um myndatökur í þinghúsinu) hafi verið brotnar (minntist ekki á siðareglur) og röflaði um að upphefja kvenleikann og eitthvað um feðraveldið sem bætti ekkert úr skák fyrir henni. En jújú, baðst afsökunar fyrir rest en í þeim tón að engum dettur í hug að henni sé iðrun í hug.

Endanlega fór þetta svo allt útum þúfur þegar vinkonan í kjólafyrirtækinu ákvað að taka upp hanskann fyrir Björt og sagði að aldrei hefði staðið til að nota myndina til að selja kjólinn:
„Hugmyndin var að sýna heiminum íslenska konu sem sameinar það að vera ung og falleg og glæsileg og sterk og gáfuð og kjarkmikil, sýna heiminum konu sem hefur sýnt langt nef þeim karlrembukúltúr sem ríður röftum í íslenskum stjórnmálum. Hugmyndin var sú að nota GalvanLondon til þess að þjóna íslenskum konum, ekki íslenska konu til þess að þjóna GalvanLondon, með því að sýna heiminum hvernig íslenskar konur geta risið til valda í okkar kyrkingslegu stjórnmálum þrátt fyrir æsku og fegurð.“
Þó blasir við að kjólinn og fyrirtækið fengu þarna auglýsingu og gekk hún útá störf Bjartar á Alþingi. Og nú þegar kjóllinn hefur fengið svona mikla athygli selst væntanlega meira af (forljótum) flíkum í kjölfarið. Tilgangnum náð.

Stutta svarið við spurningunni í fyrirsögninni er já.

Efnisorð: , ,

föstudagur, júlí 28, 2017

Nauðgarar hafa nefnilega tilhneigingu til að gangast ekki við glæpum sínum heldur safna liði

Mörg skjalfest dæmi eru til um það að nauðgarar njóti stuðnings vina, kunningja og ættingja (og séu þeir þekktir í samfélaginu styður ókunnugt fólk þá líka) þegar þeir eru ásakaðir um glæpinn sem þeir frömdu. Þeir sem umgangast nauðgarann fá hans útgáfu af sögunni (sem er í stystu máli sú að þeir myndu aldrei gera svona og að stelpan sé að ljúga) og trúa honum vegna þess að þeir vilja ekki trúa neinu svona, því enginn vill þekkja nauðgara. Og svo er lagst í vörn fyrir „meinta nauðgarann“, hamast á samfélagsmiðlum eða efnt til undirskriftarsöfnunar. Alltaf hlýtur stelpan/konan að vera að ljúga, því tilhneigingin til að trúa því að konur upp til hópa ljúgi kynferðisofbeldi uppá karlmenn er sterk.

Vinir Elvars Sigmundssonar* trúðu honum þegar hann sagði stelpu hafa logið uppá sig að hann hefði nauðgað henni. Hann fékk þá til að sækja að henni og hóta henni. Þeir sögðust berja bróður hennar ef hún drægi ekki kæruna til baka, alveg sannfærðir um að hún væri að ljúga og Elvar væri ekki nauðgari. Viku síðar voru þeir hreinlega vitni að annarri nauðgun sem Elvar framdi. Þurftu að hlúa að fórnarlambi hans meðan beðið var eftir lögreglu. Það má segja þeim til hróss að þeir fóru eftir þetta til fyrri stúlkunnar, þessarar sem þeir hótuðu áður, og báðu hana afsökunar. Eftir stendur að þeir stóðu með nauðgara (áður en þeir vissu sannleikann) og gengu erinda hans.

Vonandi verður frásögn þeirra til þess að fleiri hugsi sig tvisvar um áður en þeir leggja trúnað á yfirlýsingar um sakleysi sé vinur þeirra sakaður um nauðgun.


___
* Elvar Sigmundsson framdi tvær nauðganir sem hann var kærður og dæmdur fyrir á síðasta ári. Hann var handtekinn strax sama dag og hann framdi fyrri nauðgunina en sleppt lausum og viku síðar framdi hann aðra nauðgun, fórnarlambið var 15 ára stúlka eins og í fyrra skiptið. Hann var dæmdur um áramótin í fimm ára og sex mánaða fangelsi en er þegar sloppinn út og er á Vernd.

Áður hefur verið skrifað um glæpi Elvars hér á síðunni. Fyrst í ágúst í fyrra skömmu eftir að raðnauðgarinn framdi glæpi sína, og svo fyrir viku síðan þegar ljóst var honum hafi verið sleppt lausum meðal almennings, og við þá bloggfærslu bætast nú slóðir á umfjöllun DV um Elvar og glæpi hans.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, júlí 27, 2017

Það er ekki eins og vanti umfjöllunarefni

Hér einu sinni var ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Nú er slíkt óhugsandi. En einhverra hluta vegna fara sjónvarpsþættir Ríkissjónvarpsins í sumarfrí, svona einsog starfsfólk þurfi allt að vera í (löngu fríi) á sama tíma og ekki sé til sumarafleysingafólk. Alþingi er gagnrýnt fyrir að taka löng sumarfrí sem fylgja bústörfum til sveita — en Kastljósið fer líka í margra mánaða frí á sumrin. Svona eins og ekkert gerist í samfélaginu á sumrin sem væri vert að skoða nánar í Kastljósi.

Þó hefði kannski verið ágætt að hafa Kastljósið til að fjalla um Robert Downey sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, og láta embættismenn og ráðherra svara í sjónvarpssal hvernig stóð á því að æra hans var uppreist. Það væri ekki verra ef Kastljós gerði ítarlega úttekt frá öllum hliðum á laxeldi í sjókvíum. Og ekki væri verra ef framkvæmdastjóri PCC BakkiSilicon [sic] yrði látinn sitja andspænis Helga Seljan og látinn svara nokkrum vel völdum spurningum.

Því þannig stendur í bólið hjá Hafsteini Viktorssyni framkvæmdastjóra að honum finnst ekki að krúttlega kísilverið sem hann er að reisa þurfi að hlíta nýjum lögum um rykútblástur, eða allavega ekki nærri strax. Einhverra hluta vegna er Umhverfisstofnun sömu skoðunar og er elskusátt með að kísilverið fái undanþágu fyrstu tvö starfsár sín (svona eins og Thorsil og United Silicon) og megi þá menga fjórfalt meira með rykútblæstri en núverandi lög segja til um. Og framkvæmdastjóranum finnst einmitt þessi niðurstaða Umhverfisstofnunar réttlát (nefnir þó ekki undanlátssemina, eða skeytingarleysið um lög eða bara tilgang stofnunarinnar) og segir fyritækið verði „ekki í vandræðum með hertari losunarreglur“ að „aðlögunartímanum liðnum“.

Nú væri semsagt gott ef Helgi Seljan gæti spurt þennan mæta mann hvort hann áttaði sig eitthvað á því hversvegna svona almennt í heiminum væri verið að reyna að draga úr allskonar mengun. Hvort fyrirtæki ættu alltaf að fá að menga sem mest sem lengst bara vegna þess að það henti þeim og þeirra rekstri. Sömu spurningar mætti leggja fyrir forstjóra Umhverfisstofnunar.

Eða það þarf allavega einhver að velgja þessu liði undir uggum.


Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, júlí 26, 2017

Þjóðgarður stækkar

Það var falleg mynd og gleðileg frétt á forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Myndin af Jökulsárlóni og meðfylgjandi texti fjallaði um friðlýsingu lónsins og svæða sem að því liggja „en með friðlýsingunni er svæðið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Með þessu nær þjóðgarðurinn nú frá hæsta tindi landsins og niður að fjöru.“ Sannarlega jákvætt framtak og góð frétt.

Hvernig ber þá að skilja gjörningaþokuna sem skyggði á fyrirhugaðan hitabólginn og sólríkan sumardaginn? Eða jarðskjálftana sem einnig hristu upp í tilveru okkar hér á suðvesturhorninu? Og nú fyrir skemmstu skalf Mýrdalsjökull líka. Svarið er sennilega að náttúruna varðar ekkert um huglæg mörk þjóðgarða, hvað þá sólarfrí launaþræla. Náttúruverndarsinnar fagna nú samt og við lítum á það sem góða áminningu að náttúran er okkur stærri í öllum skilningi.

Efnisorð:

föstudagur, júlí 21, 2017

Nei sko nauðgarann sem við héldum að engum stafaði hætta af næstu árin

Nauðgarinn sem í fyrra nauðgaði tveimur táningsstelpum með viku millibili fékk fimm og hálfs árs dóm um áramótin. Hann er kominn út, gistir á Vernd en má spóka sig á götum bæjarins að vild.

Mig langar að öskra.

___
[Víðbót] DV hefur fjallað ítarlega um glæpi Elvars Sigmundssonar og birt margar myndir af honum. Hér eru m.a. taldir upp tenglar á fréttir og viðtöl DV.

Fyrsti pistillinn á þessari bloggsíðu um raðnauðgarann Elvar Sigmundsson, sem framdi nauðgun 25. júlí 2016 og aftur þann 31. júlí, var skrifuð í ágúst sama ár.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 30. desember 2016 yfir Elvari Sigmundssyni (hann er þar ekki nafngreindur heldur kallaður X og ákærði í dómnum).

Fyrsta fréttin sem DV flutti 21. júlí 2017 um að Elvar Sigmundsson (þá enn ekki nafngreindur) sæti ekki lengur í fangelsi heldur væri kominn á Vernd,
http://www.dv.is/frettir/2017/7/22/afplanadi-nokkra-manudi-af-fimm-og-halfs-ars-domi-STXPHY/

Viðtal við konu sem býr við hliðina á Vernd, „Sama hverjir eru á Vernd svo lengi sem það eru ekki barnaníðingar“, 22. júlí 2017, http://www.dv.is/frettir/2017/7/22/vilja-naudgarann-burt-sama-hverjir-eru-vernd-svo-lengi-sem-thad-eru-ekki-barnanidingar/

Viðtal: Íbúar Laugarneshverfis ósáttir við að dæmdur kynferðisbrotamaður dvelji á Vernd, 22. júlí 2017,
http://www.visir.is/g/2017170729647/ibuar-laugarneshverfis-osattir-vid-ad-daemdur-kynferdisbrotamadur-dvelji-a-vernd

Viðtal við fyrri stúlkuna sem Elvar nauðgaði, 28. júlí 2017,
http://www.dv.is/frettir/2017/7/28/anaegd-ad-thetta-hafi-gerst-fyrir-mig-thvi-ad-eg-lifdi-thetta-af/

Viðtal við foreldra stúlku sem Elvar nauðgaði, 28. júlí,
http://www.dv.is/frettir/2017/7/28/vid-erum-hraedd-um-hvad-hann-gerir-ef-hann-maetir-dottur-okkar/

Nokkur viðtöl sem birtust í samfloti í DV 28. júlí 2017:

Viðtal við gestgjafann í partýinu þar sem seinni nauðgunin var framin.

Viðtal við Guðmund Inga Þóroddsson, formann Afstöðu, félags fanga.

Viðtal við starfsmann Fangelsismálastofnunar.

Viðtal við fyrrverandi samfanga Elvars, Fangi óttast að Elvar nauðgi aftur, http://www.dv.is/frettir/2017/7/28/thad-er-min-personulega-skodun-ad-hann-eigi-eftir-ad-naudga-aftur/

Einnig kom fram á sama stað að raðnauðgarinn Elvar Sigmundsson kallar sig iðulega Elvar Miles (fær því eflaust breytt í Þjóðskrá ef hann bara vill).

Frétt: Lögregla hefði getað komið í veg fyrir seinni nauðgun Elvars, 28. júlí kl. 22,
http://www.dv.is/frettir/2017/7/28/logregla-hefdi-getad-komid-i-veg-fyrir-seinni-naudgun-elvars/

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, júlí 18, 2017

St. Brynjar

Karl Th. Birgisson skrifar merkilega úttekt á störfum og sálarlífi Brynjars Níelssonar í Stundina sem kom út fyrir nokkrum dögum (og lesa má á vef blaðsins). Þetta er opnugrein, mikill texti og skiptist í þessa hluta:

Letinginn og lögmaðurinn
Þingmaðurinn — og flokksmaðurinn
Brynjar sýknar Steingrím
Næstum því genginn í VG
Þingstörfin
Wesserbisser

Stutta útgáfan af því sem Karl Th. hefur um Brynjar að segja er strax í heiti greinarinnar og inngangi: Heiðarlegi, lati og stuðandi þingmaðurinn. Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn umdeildasti alþingismaðurinn vegna yfirlýsinga sinna. Brynjar kynnir oft sannfæringu í orði, en fylgir flokkslínu í framkvæmd. Hann þykir sanngjarn og heiðarlegur.

Og svo er Brynjar bara mærður og dásamaður nánast útí eitt. Brynjari er mjög umhugað um þá sem hallar á. Má ekkert aumt sjá. Hann hefur svo góðan húmor fyrir sjálfum sér. Hann er einkar hjálpsamur maður og örlátur. Einkar barngóður maður. Brynjar Níelsson er heiðarlegur maður.

Það er reyndar rifjað upp að hann varði Guðmund í Byrginu, Gunnar í Krossinum og Geira í Goldfinger (hafi einhver gleymt því og verið hissa þegar Brynjar sagði að í öllum betri bæjum eigi að vera strípistaðir). Hann tekur mjög harða afstöðu um sönnunarfærslu í kynferðisbrotamálum og á nýlega lýsti hann sig mótfallinn nálgunarbanni (sem Brynjari finnst vera refsing). Hvernig þetta rímar við að vera umhugað um þá sem hallar á (þ.e. þolendur kynferðisbrota og ofbeldis af margvíslegu tagi) er erfitt að skilja. Já og svo vill hann fangelsa konur (nú eða pabbann ef þannig vill til) sem tálma umgengni við börn sín. En jújú, Karl bendir á að Brynjar sé að hugsa sinn gang í því máli.

Eina alvöru fréttin í þessari úttekt er að Brynjar hefur aðeins lagt fram tvö þingmál að eigin frumkvæði, þar af var annað þeirra eina lagafrumvarpið sem hann hefur lagt fram á þingferli sínum. Og það er einmitt frumvarp um breytingu á barnaverndarlögum í þá veru að tálmun teljist vanræksla eða ofbeldi, og viðurlögin eigi að vera fimm ára fangelsi. Það er nú fallega hugsað af Brynjari að vilja svipta börnin móður sinni árum saman,

Vegna þess auðvitað að Brynjar getur „fátt hugsað sér verra en að farið sé illa með varnarlaus börn“. Að svipta börnin móður sinni árum saman í heil fimm ár flokkast auðvitað undir að vera einkar barngóður.

Er þessi úttekt Karls Th. keypt umfjöllun?

Efnisorð: , , , , , ,

sunnudagur, júlí 16, 2017

Þrettándi var kona

Það er nú svoldið hlægilegt að fylgjast með uppnáminu í breskum fjölmiðlum yfir því að kona eigi að leika þrettándu útgáfuna af Doctor Who. Doktorinn er geimvera sem deyr og kemur aftur til lífsins í nýjum líkama hverju sinni, hvers vegna ætti hann ekki að verða kona? Auk þess er fordæmi fyrir þessu í þáttunum því erkióvinur Doktorsins, sem kallaður The Master, varð að Missy (og hún ekkert smá frábær).

En karlkynsaðdáendur þáttanna eru í stórum stíl alveg í vinkil yfir því að kona leiki aðalhlutverkið, því það er í þeirra hugarheimi skýrt merki þess að pólitísk rétthugsun gangi berserksgang.

Við hin fögnum því að litlar stelpur sjái konur bjarga heiminum á hvíta tjaldinu og sjónvarpsskjánum. Karlmenn hafa haft þær fyrirmyndir lengi. Nú megum við.




Efnisorð: , ,

fimmtudagur, júlí 13, 2017

Tilkynning um viðbætur og mikilvæga lesningu

Eftir að hér á síðunni var birtur pistill um Róbert Árna Hreiðarsson barnaníðing sem fékk uppreist æru hjá forseta Íslands með fulltingi innanríkisráðuneytisins og núverandi forsætisráðherra, og hefur síðan fengið með Hæstaréttarúrskurði leyfi til að starfa sem lögmaður undir nafninu Robert Downey, hefur fjöldinn allur af fréttum og greinum birst um þetta svívirðilega mál. Neðanmáls í bloggpistlinum hefur smám saman orðið til langur listi, sem lengist með hverjum deginum, af tenglum á þessa umfjöllun.

Sömuleiðis verður bætt slóðum á tengla við laxeldispistilinn, um það mál hafa verið að birtast ótal pistlar undanfarið.

Þótt þetta hafi bara átt að vera smá bloggfréttatilkynning um hvar finna megi samsafn heimilda um þessi afar ólíku mál, þá langar mig að bæta þessu við:

Greinin sem Bergur Þór Ingólfsson og Þröstur Leó Gunnarsson birtu í Fréttablaðinu í dag (og hefur verið tekin upp í öðrum fjölmiðlum eins og merkja má á tenglasafninu við upprunalega bloggpistil minn) er algjörlega mögnuð. Hún er skrifuð af mikilli reiði, en jafnframt af yfirvegun og ískaldri gagnrýni á samfélag og ráðamenn sem veittu Róberti Árna uppreist æru. Lesið greinina hér.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, júlí 12, 2017

Eftir einn fljúgi ei neinn

Sú beiðni stjórnvalda á Miðjarðarhafseyjum Spánar að hætt verði að selja áfengi á flugvöllum og í flugvélum er afar skynsamleg. Kófdrukkið fólk er ekki bara hvimleitt í flugvélum (og þegar það lendir á áfangastað) heldur er áfengisdrykkja um borð í flugvélum einstaklega galin hugmynd.

Í byrjun hverrar flugferðar fara flugfreyjur yfir ýmis öryggisatriði í því skyni að uppfræða farþega um hvernig eigi að bregðast við ef flugvélin tekur uppá að hrapa. Heilu myndböndin eru gerð í sama skyni. En svo situr hluti farþeganna og svolgrar í sig áfengi alla ferðina, sumir þegar byrjaðir á flugvellinum löngu áður en vélin fer á loft.

Það er vitað að viðbragðsflýtir fólks minnkar mjög með aukinni drykkju — þessvegna er nú svona heldur mælt gegn því að drukkið fólk aki bíl. Hversvegna í ósköpum er þá dælt áfengi í flugfarþega sem allir þurfa að geta brugðist skjótt við og veitir ekkert síður af því að hafa alla sansa í lagi ef neyðarástand skapast?

Þegar fólk byrjar að drekka á flugvellinum eru gefnar fyrir því ýmsar ástæður. Sumum finnst það tilheyra, það sé einhvernveginn fyrir utan lögsögu þess að þurfa að stilla sig um að drekka á öllum tímum sólarhringsins. (Það eru yfirleitt alkar eða upprennandi alkar sem hugsa þannig.) Aðrir segjast þurfa að róa taugarnar, án þess endilega að tiltaka hversvegna, meðan þeir hreinskilnu segjast vera flughræddir. Það eru haldin námskeið til að hjálpa því að yfirvinna flughræðslu svo það er ekki mjög góð afsökun. Það er örugglega líka hægt að fara í nálastungur eða dáleiðslu. Svo er líka hægt að leita sér lækninga við alkóhólisma. En áfengi er galin aðferð til að líða betur í flugvél. Því áfengisneyslan minnkar öryggi allra.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, júlí 04, 2017

Laxeldi í sjókvíum

Hér verður leitast við að ræða laxeldi í sjókvíum frá ýmsum hliðum og rekja helstu vandamál sem því fylgja. Margir hafa skrifað um þetta málefni og ekki skortir fréttir og fréttaskýringar. Blogghöfundi líst ekki á blikuna — vill láta náttúruna njóta vafans — og dregur því taum þeirra sem gagnrýna núverandi fyrirkomulag en raddir þeirra sem hlynntir eru laxeldi í sjókvíum fá einnig að heyrast, þótt í minna mæli sé. Flestar greinarnar eru frá þessu ári en tekið er fram ef þær eru eldri.

Vakin er athygli á tenglasúpu í lokin en ekki gafst tækifæri á að nýta nærri allar heimildir sem þar eru skráðar. Þar má finna rök, fréttir og pistla (jafnvel mótrök), og getur þá hver sem hefur áhuga lesið.

1) Lax handa hungruðum heimi

Það er kannski ágætt að stökkva bara beint ofan í ritdeilu, en Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifaði nýlega pistil þar sem hann gagnrýndi hugmyndir um laxeldi í sjókvíum í Jökulfjörðum við Ísafjarðardjúp (þar er Hesteyri sem er sögusvið bókar og síðar kvikmyndarinnar Ég man þig). Er nú gripið þar niður í pistilinn þar sem Þröstur segir:
„Við Íslendingar eigum mikla náttúruperlu sem við nefnum Friðland á Hornströndum. Þessi hluti landsins hefur verið friðaður um áratuga skeið. Land, vatn og sjór eru þar hrein og ómenguð. Frárennsli frá byggð er hverfandi og engin vélknúin umferð. Nú skal bundinn hér endi á. Framkvæmdastjóri eins laxeldisfyrirtækisins tjáði sig í blaðaviðtali um hve ákjósanlegt væri að hefja laxeldi í Jökulfjörðum.“
Margt hafði Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðarvíkurhrepps og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, við pistil Þrastar að athuga í svargrein sinni, en með þessum rökum steig hann þó feilspor: „Sjóeldi er nútímaleg matvælaframleiðsla, ábyrgur iðnaður, sem getur vel verið ein af lausnum mannkyns við að fæða fleiri munna í sátt við umhverfi og framtíð.“

Þau rök að sjókvíeldi á laxi sé einhverskonar lausn handa hungruðum heimi væru meira sannfærandi ef verið væri að ala ódýran fisk en ekki fisktegund sem þykir lúxusmatur.

Árni Gunnarsson fyrrverandi þingmaður gerði mjög góða úttekt á laxeldi í sjókvíum og birti í Kjarnanum síðastliðið sumar, og hann segir meðal annars þetta:
„Einn af neikvæðari þáttum laxeldis í sjó og sætt hefur ámæli, er gríðarleg notkun á fiski í laxafóður. Eldismenn segja, að 1,2 kg. af laxafóðri þurfi til að framleiða 1 kg. af laxi. Þá gleyma þeir að segja, að í þetta eina kílógramm af fóðri fara 8 til 10 kg. af fiski, t.d. kolmunna. Þannig notar laxeldið margfalt meira af fiski í fóður en nemur framleiðslu á laxinum … Því meira, sem framleitt verður af eldisfiski, því minna verður til skiptana úr stofnum heimshafanna. Þannig er ódýr fiskur notaður til að framleiða rándýran fisk, sem ekki er á færi fátækra þjóða að kaupa.“
„Sjókvíaeldi er þess vegna matarsóun af verstu tegund og verður seint lausn fyrir hungraðan heim,“ staðfestir Pálmi Gunnarsson tónlistarmaður.

2) Mengun

Hvað verður svo um loðnuna, kolmunnann og síldina sem notuð eru í fiskimjölið, svona eftir að þessar ódýru fisktegundir hafa farið gegnum meltingarkerfi laxfisksins eftirsótta? Jú, hann verður auðvitað að úrgangi. Sá galli er nefnilega á fiskeldi í opnum sjókvíum að það „mengar með skólpi og matar- og lyfjaafgöngum“. „Rannsóknir hafa sýnt, að frá 10.000 tonna laxaeldi berst úrgangur, sem jafnast á við skolpfrárennsli frá 150.000 manna bæ. Þá berst grútur frá eldiskvíum að ströndum, þar sem hann getur valdið fugladauða.“

Þröstur Ólafsson spurði í sínum pistli hvort nú væri komið að því að spilla hreinleika íslenskra fjarða, en Pétur Markan þykist hafa svar við því:
„Er Þröstur virkilega svo illa áttaður í málinu að hann veit ekki að laxeldi er líkast til umhverfisvænsti matvælaiðnaður sem til er, sé litið til útblásturs og kolefnisspora … Það getur vel orðið niðurstaða að Jökulfirðir fái annað hlutverk í framtíð Vestfjarða. En það verður tæpast á þeim forsendum að fiskeldi sé svo mengandi … Útblástur og kolefnisspor eru byssan með kúlunni, sem ógnar framtíð jarðar.“
Sannarlega eru loftslagsmálin mikilvæg, og ógna framtíð jarðar, en það er verulegt vandamál hvernig mannskepnan hefur hagað sér gagnvart sjónum. Við strandlengjuna — og ekki síst í fjörðum þarf að taka tillit til lífríkis sjávarins.

„Og raunar hefur bróðurparti allrar íslenskrar strandlengju verið lokað fyrir sjóeldi“ segir Pétur. „Þó eru Vestfirðir og Austfirðir undanskildir banninu.“ Svíar hafa fyrir sitt leyti „bannað fiskeldi í opnum sjókvíum á þremur stöðum meðfram strandlengjunni Höga Kusten í Austur-Svíþjóð vegna slæmra umhverfisáhrifa slíks eldis.“

Í umfjöllun Fréttatímans um strandlengjubannið í Svíþjóð segir:
„Í opnum sjókvíum væri ekki mögulegt að hreinsa upp fóðurleifar og úrgang frá eldinu, eins og saur, og að þetta væri slæmt fyrir umhverfið þar sem þessi efni settust á botninn … Í laxeldinu sem stundað er í opnum sjókvíum á Íslandi er heldur enginn möguleiki til að hreinsa upp fóðurleifar og úrgang sem til fellur af eldinu. Í stað þess sökkva þessi efni til botns eða berast frá kvíunum með sjávarstraumum og hafa mengandi áhrif. Miðað við fyrirætlanir íslenskra laxeldisfyrirtækja mun magn þessara efna í sjónum umhverfis Íslands tífaldast á næstu árum. Engin heildræn athugun á umhverfisáhrifum þessa, til að mynda fyrir sjávarbotninn eða á sjávardýr eins og rækju sem mikið er af í Ísafjarðardjúpi, hefur átt sér stað á Íslandi og því eru áhrifin á lífríkið í sjónum alveg óljós.“

Magnið af úrgangsefnum er svo mikið að það sést á mælum: „Þegar maður siglir þarna undir sér maður haugana undir kvíunum á dýptarmæli.“
Pálmi Gunnarsson hefur einnig áhyggjur af mengun frá sjókvíaeldi.
„Ekki ætla ég að tíunda stöðuna í Noregi eða Chile en 10 þúsund tonna fiskeldi í opnum sjókvíum eins og starfrækt er í Arnarfirði og fyrirhugað er og í leyfisferli víða á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði skilar árlega í sjóinn 5 þúsund tonnum af saur og fóðurleifum sem samsvarar skolpfrárennsli frá 160 þúsund manna byggð. Sjókvíaeldi í opnum sjókvíum getur því varla kallast með umhverfisvænstu leiðum til að framleiða hollan mat.“
Um neikvæð umhverfisáhrif fiskeldis í sjókvíum segja Einar Jónsson fiskifræðingur og Erlendur Steinar Friðriksson sjávarútvegsfræðingur í öðrum af tveimur pistlum:
„Ekki þarf mikla leit til að finna fjölmargar greinar fræðimanna og skýrslur stjórnvalda í Noregi, Skotlandi, Síle og Kanada af slíkum neikvæðum umhverfisáhrifum. Norska ríkisendurskoðunin bendir á að markmið um sjálfbærni og umhverfisvernd í tengslum við fiskeldið hafi ekki náðst. Þar sé helst að nefna neikvæð áhrif eldis á villta stofna vegna erfðablöndunar, sjúkdóma og laxalúsar; lífræn og ólífræn mengun frá eldinu hafi neikvæð áhrif á vistkerfin.“

3) Fiskur sleppur úr sjókvíum: erfðamengun

Í framhaldi af tilvitnun í grein Einars Jónssonar og Erlends Steins Friðrikssonar þar sem þeir nefna neikvæð áhrif eldis á villta stofna vegna erfðablöndunar, verður fjallað meira um þann þátt.

Soffía Karen Magnúsdóttir fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun, lagði þetta fram til umræðunar um fiskeldi:
„Helsta deilumálið vegna fiskeldis eru sleppingar laxfiska úr sjókvíum. Til að vernda villta stofna er óheimilt að ala laxfiska í sjókvíum á Vesturlandi og nánast öllu Norðurlandi. Af öðrum svæðum er raunhæfur möguleiki að stunda eldi á Vestfjörðum og Austfjörðum, þar sem sjókvíaeldi er í dag, auk Eyjafjarðar.“
En eins og Pálmi Gunnarsson veit:
„Fyrir það fyrsta sleppa laxar í miklu magni úr opnum sjókvíum. Enginn með lágmarksþekkingu á slíkri starfsemi mótmælir þeirri staðreynd. Í Noregi hafa rannsóknir sýnt farleiðir strokulaxa allt að 2000 kílómetra frá sleppistað að árvatni.“
Arnar Pálsson erfðafræðingur skrifaði tvær greinar og segir í þeirri fyrri:
„Allur eldislax hérlendis er norskur að uppruna … Eldislaxar hafa minni hæfni í straumvatni eða sjógöngu. Sama má segja um afkvæmi sem þeir eignast með villtum fiski … Erfðamengun byggist á genaflæði á milli hópa … Hættan er sérstaklega mikil þegar ræktaði stofninn er miklu stærri en sá villti. Það er einmitt tilfellið í Noregi. Þar er um 2.000 sinnum meira af laxi í eldisstöðvum en í villtum ám. Þótt ólíklegt sé að eldisfiskur sleppi, eru stöðvarnar það margar að strokufiskar eru hlutfallslega margir miðað við villta laxa … Er hætta á að genamengun frá norskum eldisfiski spilli íslenskum laxi? Því miður er hættan umtalsverð …“
Í seinni grein sinni segir Arnar:
„Nýleg erfðagreining á rúmlega 120 villtum laxastofnum í Noregi afhjúpaði umtalsverða erfðablöndun frá eldisfiski í þriðjungi stofna … Sterkustu áhrifin voru á laxastofnana nyrst í Noregi, sem eru fjarskyldari eldislaxinum. Erfðamengunin þar hafði áhrif á stærð og aldur við kynþroska, óháð sjóaldri fisksins. Breytingarnar virka e.t.v. lítilvægar eða jafnvel jákvæðar fyrir leikmenn (stórir laxar eru skemmtilegri veiðifiskur). En þær geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir villta fiska, því staðbundnir stofnar eru yfirleitt vel aðlagaðir að sínu umhverfi. Smálaxaár í Noregi eru t.a.m. gott umhverfi fyrir minni laxa en verra fyrir stórlaxa. Ef erfðablöndunin gerir einstaklinga í smálaxastofni stærri, getur það dregið úr hæfni þeirra til að lifa af … Stóra spurningin er, leiðir erfðablöndunin til hnignunar og útdauða villtra stofna? Það er full ástæða til að endurskoða laxeldi í sjókvíum hérlendis. Sérstaklega þar sem íslenskir laxar eru fjarskyldir eldislaxi. Ástæðan er sú að flæði gena frá eldisfiskum getur breytt eiginleikum villtra íslenskra laxastofna, gert þá minna hæfa í lífsbaráttunni og dregið úr getu þeirra til að þróast í framtíðinni.

Frændur vorir í Noregi og vinir í Síle hafa brennt sig á flestu sem hægt er í laxeldi. Vonandi berum við gæfu til að læra af mistökum þeirra og fórna ekki lífríki vatna og hafs fyrir ódýrar og skammsýnar lausnir í laxeldi.“
Gísli Sigurðsson íslenskufræðingur leggur einnig orð í belg:
„Gangi núverandi eldisáform hér á landi fram er stutt í að sleppilaxar úr því risaeldi verði fleiri en villtir laxar á Íslandi. Sem þýðir bara eitt: útrýmingu villta laxastofnsins. Við það bætist hrun sjóbleikju- og sjóbirtingsstofna. Þetta hefur nú þegar gerst í kringum opið sjókvíaeldi í Noregi, Skotlandi og Kanada.“
Áfram er vitnað í greinaskrif Einars og Erlendar:
„seint í haust að kvisaðist að regnbogasilungur í tugatali hefði veiðst í ám umhverfis landið í sumar. Slíkt eldi fer nú fram á Vest- og Austfjörðum en engar tilkynningar höfðu borist frá viðkomandi fyrirtækjum um að fiskur hefði sloppið. Þá var sem margir vöknuðu af værum svefni. Skrif og fréttir fóru að birtast um hætturnar á þessari vegferð. Eldismenn hafa brugðist við og sagst vilja rannsaka mál til hins ýtrasta. Ekkert virðist þó eiga að slá af ferðinni varðandi uppbygginguna heldur halda á fullu inn í skaflinn.“
Frétt 1. október 2016:
„Landssamband veiðifélaga krefst þess að stjórnvöld láti fara fram óháða rannsókn á því af hverju regnbogasilungur hefur sloppið í svo miklu magni úr kvíum á Vestfjörðum. Segja þeir það hafa leitt til þess að regnbogasilungur hefur veiðst um allt norðanvert og vestanvert landið síðustu vikur og mánuði. „Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að þetta er skýrt merki um hvers er að vænta á næstu árum,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. „Þeir sem eru í regnbogaeldi eru flestir hverjir að hætta í því og færa sig í laxeldi. Það eru engar líkur á að hann sleppi eitthvað minna. Þegar frjór eldislax sleppur getur það valdið erfðamengun og að við töpum þessu villtu stofnum. Skýr rannsóknardæmi eru um að það er að gerast í nokkrum ám í Noregi og að villtir stofnar eru að hverfa úr þeim.“
Það skiptir máli í þessu sambandi að regnbogasilungur er geldfiskur og getur því ekki erfðablandast öðrum fiski sem fyrir er í ánum. En þá ætla menn að hætta eldi á regnbogasilungi og ala heldur fisk sem getur spillt innlendum laxastofni. Úr verður erfðablandaður lax sem — ef hann á annað borð ratar upp í árnar — aðlagast ekki umhverfinu eins og áður, og er minna hæfur í lífsbaráttunni.

Þorbjörn Þórðarson segir í leiðara: „20 þúsund laxar sluppu úr sjókvíum við eyjuna Mull í Skotlandi í mars. Eins sjókvíum og notaðar eru hér á landi.“

Enn Einar og Erlendur:
„Norska Hafró og norska Náttúrufræðistofnunin uppfærðu nýlega sameiginlegt áhættumat á umhverfisáhrifum norsks sjókvíalaxeldis. Þar kemur fram að stór hluti þeirra villtu laxa- og sjóbirtingsstofna sem rannsakaður var, er í nokkurri eða mikilli hættu vegna erfðamengunar, laxalúsar eða sjúkdóma frá laxeldi.“
Árni Gunnarsson segir að: „Landssamband veiðfélaga telur það óásættanlegt með öllu, að ekki skuli nú þegar hafa verið gert áhættumat vegna sjókvíaeldis við Ísland.“ — og hann klikkir út með þessari mikilvægu staðreynd: „Íslenski villti laxinn er einstök auðlind, sem auðvelt er að tortíma með erfðamengun og sjúkdómum.“


4) Laxalúsin geðþekka

Í seinni grein Einars og Erlendar ræða þeir nánar erfðablöndun og laxalús, og segir þar þetta um þau kvikindi:
„Laxalús (sníkjudýr af krabbadýraætt sem sest á fiskinn) er til staðar í náttúrlegu umhverfi laxfiska en í svo litlum mæli að hún veldur litlum sem engum afföllum. Í sjókvíaeldi er fiskur allan ársins hring og þéttleikinn jafnan mikill. Þar eru því kjöraðstæður fyrir lúsina enda magnast fjöldi hennar gríðarlega. Villtur fiskur sem fer nærri eldissvæði getur fengið á sig alltað hundraðfalt það magn lúsar sem ríkir við náttúrulegar aðstæður. Lúsin getur því valdið miklum afföllum á villtum fiski en einnig hamlað vexti hans og fæðunámi í sjó, breytt gönguhegðun og ruglað ýmis lífeðlisfræðileg kerfi fisksins. 

Talið er að afföll vegna lúsar á náttúrlegum laxaseiðum og urriða sem fer um eldissvæði geti verið allt að 50%. Einnig er þekkt að lúsin leggst á bleikju í sjó og jafnvel í meira mæli en á urriða eða lax. Áhrifa lúsarinnar gætir mest innan 30 km frá kvíunum en undan straumum getur hún borist í allt að 100 km.“
Pálmi Gunnars segir að
„Framkvæmdastjór[i Landssambands fiskeldisstöðva] hælir íslenskum sjókvíaeldisfyrirtækjum sem hann segir að noti ekki nein lyf og klykkir síðan út með möntrunni um að sjókvíaeldisfiskur innihaldi mun minna magn mengunarefna en sá villti. Lyf er fallegt orð yfir lúsaeitur sem hefur verið notað í miklum mæli með afdrifaríkum afleiðingum. Síðustu fréttir frá frændum okkar Norðmönnum eru þær að farið sé að sprengja lúsina af laxinum með vetnisperkosid þar sem flestöll eiturefni sem notuð hafa verið á lúsina séu að verða gagnslaus vegna þess að lúsin myndar mótefni gegn þeim. Stutt er síðan MAST sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem sagði meðal annars. „Staðreyndin er sú að laxalús hefur aldrei valdið vandræðum í íslensku sjókvíaeldi“ en þessari fréttatilkynningu var nokkrum dögum síðar fylgt eftir með annarri þar sem tilkynnt var um neyðaraðgerð með lúsaeitri til að vinna gegn lúsafári í Arnarfirði.“
Án þess að vita nokkuð um sársaukaskynjun fiska þá finnst mér líklegt að lúsamergð sem étið hefur sig um allan fiskinn hljóti að valda honum einhverskonar vanlíðan. Eða hvernig er hægt að álykta annað þegar maður sér mynd af svæsnum tilfellum, eins og fylgir þessum upplýsingum á síðu Landssambands veiðifélaga:
„Lúsin heldur sig gjarna á hreisturlitlum og hreisturlausum líkamshlutum fisksins, t.d. á höfðinu og nærir sig á húðfrumum, slími og blóði. Í verstu tilfellum étur hún höfuðbeinin upp að ofan þar til heilinn blasir við. Sárin sem lúsin myndar leiða til blóðleysis og vökvaójafnvægis hjá fiskinum og geta dregið hann til dauða. Einnig er mjög algengt að aðrir sjúkdómsvaldar eins og bakteríur og sveppir komist inn um sárin og auki enn á vandræðin.“
Fyrir þau sem þoldu bærilega
fyrri myndina af laxalús kemur hér önnur. (Ekkert að þakka.)


5) Áform um stóraukið eldi

Frétt:
„Á sama tíma og Svíar munu hætta sjókvíaeldi eru Íslendingar að auka sjókvíaeldi verulega og stefna á að tífalda framleiðslu sína á eldislaxi á næstu árum. Fyrirtæki eins og Arnarlax, Arctic Sea Farm, Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal og Fiskeldi Austfjarða eru þar á meðal. Mest af eldinu er ráðgert á Vestfjörðum, í Ísafjarðardjúpi og í Suðurfjörðunum, við Bíldudal og Patreksfjörð þar sem fyrir er umtalsvert fiskeldi.“
Frétt:
„Áform þriggja fyrirtækja um eldi í Ísafjarðardjúpi hafa verið kynnt. Arnarlax áformar 10.000 tonna eldisframleiðslu í Ísafjarðardjúpi sem stjórnað verður frá Bolungarvík. Eins að fyrirtækið Háafell, sem er dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal, hafi áætlanir sem gera ráð fyrir 7.000 tonna framleiðslu á laxi í Ísafjarðardjúpi og verður vinnsla fyrirtækisins á Ísafirði. Þá áformar fyrirtækið Arctic Sea Farm eldi af svipaðri stærð og Háafell.“

Þorbjörn Þórðarsson:
„Ef hafstraumar dreifa mengun sem laxeldi í sjókvíum hefur í för með sér nógu mikið er þannig talið að viðkomandi svæði sem er metið beri fiskeldi af tiltekinni stærð. Á þessum forsendum er komist að þeirri niðurstöðu að Ísafjarðardjúp beri 30 þúsund tonna fiskeldi þótt eitt þúsund tonna framleiðsla á staðnum gæti skaðað vistkerfið stórkostlega.“
Áður hefur verið vitnað til þessara orða Pálma Gunnarssonar í öðru samhengi, en það er ástæða til að hnykkja á þeim hér:
„10 þúsund tonna fiskeldi í opnum sjókvíum eins og starfrækt er í Arnarfirði og fyrirhugað er og í leyfisferli víða á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði skilar árlega í sjóinn 5 þúsund tonnum af saur og fóðurleifum sem samsvarar skolpfrárennsli frá 160 þúsund manna byggð.“
Í ljósi þessa er málflutningur Einars K. Guðfinnssonar formanns Landssambands fiskeldisstöðva, nokkuð skondinn.
„Fiskeldi á Íslandi er í raun agnarlítið og hefur á undanförnum árum byggst upp afar hægt. Ljóst er að næstu árin mun fiskeldið aukast en vöxturinn verður lítill í magni talið í fyrirsjáanlegri framtíð. Við eigum að gera strangar umhverfiskröfur til fiskeldisstarfsemi okkar og eftir því hafa fiskeldisfyrirtækin kallað. Eðlilegt er að samhliða vaxandi fiskeldi fari fram virk vöktun, til þess að tryggja að fiskur sem kann að sleppa úr sjókvíum leiti ekki upp í laxveiðiárnar. Sú leið er fyrir hendi og á Íslandi hefur verið þróaður búnaður í þessu skyni. Fiskeldisfyrirtækin hafa lýst sig reiðubúin að koma að fjármögnun slíkrar vöktunar.“
Einar leggur sig fram um að gera lítið úr þessu öllu [leturbreytingar voru þó mínar] og fullvissa lesendur um að ekkert sé að óttast. (Eins og við vitum segja Sjálfstæðismenn alltaf satt, sérstaklega þegar um er að ræða hagsmunagæslu fyrir stórkapítalið.)

Haft er eftir Daða Má Kristóferssyni hagfræðingi að:
„Til samanburðar má benda á að um fimmtán þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað hér á landi í fyrra sem er aukning um áttatíu prósent frá fyrra ári. Gert er ráð fyrir miklum vexti á næstu árum og er talið að framleitt magn verði komið í um fjörutíu þúsund tonn árið 2020.“
Síðastliðið haust var áætlað að „innan þriggja ára gæti slátrun eldisfisks hér á landi orðið meiri en samanlögð kjötframleiðsla hér á landi“. Þetta er sláandi samanburður, en svo er ekki víst að þessi mikli vöxtur verði leyfður, með allri umhverfismenguninni og hættunni fyrir villta íslenska laxastofninn.


6) Erlent eignarhald: útrásin nær til Íslands

Norðmenn hafa lent í margvíslegum vanda með laxeldi í sjókvíum og nú lítur út fyrir að þeir séu að nýta sér slappt regluverk hér á landi til að stunda það sem þeim er meinað heima fyrir. Og svo kostar það minna.

Úr rúmlega ársgamalli frétt Viðskiptablaðsins:
„Í Noregi er fiskeldi komið að þolmörkum enda framleiða Norðmenn um 1,3 milljónir tonna af eldislaxi á ári. Þar í landi voru ný leyfi fyrir laxeldi síðast veitt árið 2014. Þá kostaði leyfi fyrir 940 tonna laxeldi í Troms og Finnmörku 10 milljónir norskra króna og í öðrum fylkjum Noregs þurftu fyrirtæki að greiða sömu fjárhæð fyrir 780 tonna eldi. Miðað við gengi norsku krónunnar fyrir tveimur árum jafngildir þetta því að fyrirtækin hafi greitt 200 milljónir íslenskra króna fyrir leyfið. Þessir fjármunir renna til hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga í Noregi. Það er því ljóst að í dag er mjög erfitt fyrir fyrirtæki að hefja laxeldi í Noregi í dag — nánast útilokað.

Staðan á Íslandi er allt önnur. Hér er kostnaðurinn við að fá rekstrar- og starfsleyfi brotabrot af því sem hann er í Noregi. Eftir að MAST tók við fiskeldismálunum í fyrra var í fyrsta skiptið byrjað að innheimta gjald fyrir leyfi fyrir sjókvíaeldi á laxi. Í dag kostar rúmar 300 þúsund krónur að fá leyfi fyrir meira en 200 tonna eldi. Er þetta fast gjald og hækkar það því ekki þó sótt sé um meira en 200 tonn. Gjaldið á að standa straum af kostnaði fyrir umsýslu umsókna og úttekt þegar búið er að gefa út leyfið.

Það er því ef til vill engin tilviljun að norskir fjárfestar renni hýru auga til Íslands þegar kemur að laxeldi.“
Eitt er athyglisvert með leyfisveitingar til fiskeldis hér á landi. Það eru Einar og Erlendur sem segja frá:
„Á þessum misserum virðist stjórnsýslan unga út eldisleyfum á færibandi – fyrir smápening – byggðum á eins konar fjölsíðna excel-skýrslum, oft unnum af fólki með litla sem enga líffræðiþekkingu. Þannig fær sjö milljóna fiska eldi af framandi stofnum í sjókvíum grænt ljós í mati á umhverfisáhrifum, byggt á skýrslu sem gerð er af arkitektafyrirtæki þar sem einu starfsmennirnir eru landslagsarkitekt og jarðfræðingur. Óhæfa þætti ef hér fengjust viðamikil sauðnautaeldisleyfi, hvað þá án aðkomu dýralækna.

Lágt verð leyfanna virðist einnig opna fyrir það að braskarar séu farnir af stað enda erlendir peningar í lítt mældum mæli í boði.“
Í úttekt Inga Freys Vilhjálmssonar á laxeldi í Noregi kemur þetta fram:
„Noregur er langstærsti framleiðandi af Atlantshafslaxi í heiminum og hefur farið í útrás með framleiðsluna til Síle, Kanada, Skotlands og nú líka Íslands.

Laxeldið í Noregi er hins vegar langt frá því að vera óumdeilt þar í landi og víðar …
En norsku fyrirtækin halda áfram að leita að nýjum löndum til að stunda laxeldi í …
Ekki þarf að taka fram að regluverkið utan um laxeldi er ekki nándar nærri eins sterkt á Íslandi og í Noregi enda er þetta tiltölulega nýr iðnaður á Íslandi.“
Eða með orðum Pálma Gunnarssonar:
„Stórtjón á náttúru Íslands er yfirvofandi með strokulaxi norska eldislaxins og ljóst að norskir fjárfestar láta sér í léttu rúmi liggja afleiðingar af slíkum sleppingum. Þeir hafa nú þegar valdið óbætanlegu tjóni á stórum hluta norskra, skoskra og írskra veiðiáa svo ekki sé minnst á afleiðingar sjókvíaeldis í Chile sem ég hvet alla til að kynna sér.“
Og þessar upplýsingar lagði Þorbjörn Þórðarsson fram um eignarhald á laxeldinu í Skotlandi þar sem 20 þúsund laxar sluppu úr sjókvíum, eins og áður var sagt frá. „Scottish Sea Farms, sem rekur laxeldið þar sem umhverfisslysið varð, er í eigu norska fyrirtækisins SalMar sem er stærsti hluthafinn í Arnarlaxi hf., umsvifamesta laxeldisfyrirtæki Íslands.“

Árni Gunnarsson fer yfir málið:
„Laxeldi í Noregi býr nú við harða gagnrýni fjölda vísindamanna, nátturuverndarsamtaka, veiðimanna, veiðiréttareigenda og nokkurra stjórnmálamanna. Norsku laxeldisfyrirtækin hafa því séð sér hag í því, að flytja hluta starfsemi sinnar til Íslands. Þau hafa því fjármagnað að stórum hluta íslensku eldisfyrirtækin. Hér geta þau alið lax í sjó og greiða óverulegar fjárhæðir í leyfisgjöld. Því vaknar þessi spurning; hverjir eiga hafið, þjóðin eða laxeldisfyrirtækin? Í Noregi þarf að greiða verulegar fjárhæðir fyrir eldis- og rekstrarleyfi, en hér er enn og aftur gengið á auðlind, sem er eign þjóðarinnar … Fiskeldisverksmiðjan keppist nú við að helga sér svæði í austfirskum fjörðum, endurgjaldslaust fyrir risaáformin í laxeldinu. Í Noregi verða fyrirtæki að greiða háar fjárhæðir fyrir útgefin starfsleyfi og nýtingu sjávar til eldisins. – Að baki fyrirhuguðum fiskeldisáformum eru að stórum hluta útlenskir fjárfestar með erlent áhættufjármagn sem sjá sér hag í því, að nýta sér íslenskan sjó endurgjaldslaust, og veikburða lagaumhverfi, sem veitir hvorki aðhald með virku eftirliti, né skyldur fiskeldisfyrirtækja til ábyrgðar á verkum sínum.“
Árni óttast að íslenska villta laxinum verði tortímt:
„Menn verða að velta því fyrir sér hvort áhættan sé þess virði, einkum þegar fjármagnið kemur frá erlendum fyrirtækjum, sem vilja komast á nýjar ókeypis eldislendur sakir hárra leyfisgjalda og aukinna erfiðleika í heimalandinu vegna erfðamengunar, óþrifa og eyðingar á villtum lax- og silungastofnum.“


7) Skapar atvinnu

Hér að framan hefur blogghöfundur tekið afstöðu gegn mengun fjarða, gegn erfðablöndun villtra laxa og eldislaxa, gegn laxalúsinni (!) og gegn erlendu eignarhaldi. Er ekki alveg eins hægt að segja hreint út að maður vilji útrýma Vestfirðingum?

Frétt:
Hafdís Gunnarsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, var verulega ósátt við Lækna-Tómas þegar hann talaði gegn fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum (Hvalárvirkjun) á Vestfjörðum. Hún segir:
„Mikil fólksfækkun hafi verið á Vestfjörðum undanfarin 40 ár. „Og við sjáum tækifærin blasa við okkur og langar grípa þau og leyfa þessum samfélögum að blómstra, loksins. Manni finnst eins og að fólki sé alveg sama um okkur Vestfirðinga.“ Utanaðkomandi mótmæli áformum um virkjanir, fiskeldi og lagningar vega um Teigsskóg.“
Það er auðvitað jafn leiðinlegt nú og það var þegar barist var gegn stóriðju í Keflavík og á Bakka, og svo auðvitað Kárahnjúkavirkjun, að öllum rökum þeirra sem vilja ekki stóriðju, virkjanir eða stórfellt fiskeldi í sjókvíum, er tekið sem skilningsleysi á erfiðum aðstæðum í atvinnumálum, gott ef ekki hatri á landsbyggðinni. Það þykir tortryggilegt að hafa áhyggjur af því sem gerist fyrir handan sjónarrönd. Kristján Már Unnarsson fréttamaður á Stöð 2 er t.a.m. lunkinn að gera lítið úr gagnrýni á sjókvíaeldi með því að segja að hún komi „einkum frá eigendum laxveiðihlunninda“ sem hann kallar líka „veiðiréttareigendur“. Það kemur reyndar ekki á óvart því Kristján Már stendur alltaf með mengandi og/eða óafturkræfum framkvæmdum á náttúru Íslands. Skilningurinn á náttúruvernd er enginn; í augum þeirra sem eru sama sinnis og Kristján Már eru það bara ómarktækir lattelepjandi lopatreflar sem vilja láta náttúruna njóta vafans.

Pólitíkusar, afturámóti, eiga það til að vera uppfullir af jákvæðni gagnvart öllu sem snýr hjólum atvinnulífsins á landsbyggðinni, alveg sama hvaða afleiðingar það hefur. Þegar kosningar stóðu fyrir dyrum síðastliðið haust sögðu Einar Jónsson og Erlendur Steinar Friðriksson:
„Stjórnmálamenn og aðrir „athafnamenn“ flíka stórum tölum í fréttum framan í langeygt landsbyggðarfólk; „50 milljarða framleiðsla á Vestfjörðum.“ Hver hafnar slíkum bjargráðum?“
Það má segja að við þessari spurningu sé þetta svar Gísla Sigurðssonar:
„Það er erfitt að skilja hvernig nokkrum manni dettur í hug að reyna að bæta atvinnuástand í dreifðum byggðum með því að fórna öllum villtum stofnum laxfiska sem ganga til sjávar við Ísland.“
Pétur Markan er í jákvæða liðinu og leggur áherslu á mikilvægi fiskeldis fyrir atvinnulífið:
„Í dag eru 180 bein störf í kringum fiskeldi á Vestfjörðum, skattspor nær milljarði. Í áætlunum fiskeldisfyrirtækja er gert ráð fyrir 700-800 beinum störfum – sé miðað við að varfærnislegt burðarþol Hafrannsóknastofnunar verði nýtt.“
(Já, það er þetta með varfærnislega burðarþolið; ég minni á það sem áður hefur komið framhttp://www.visir.is/g/2017170419555
um að þúsund tonna vistkerfi gæti skaðað vistkerfið stórkostlega — en hið „varfærnislega burðarþol“ miðar við 30 þúsund tonn.)

Daði Már Kristófersson hagfræðiprófessor talar á jákvæðum nótum um áhrif fiskeldis á byggðaþróun í Noregi og segir hana vera lyftistöng fyrir samfélög. En hann bendir líka á þetta:
„Hins vegar þurfi fiskeldismenn og stjórnvöld að stíga varlega til jarðar. Ýmis þjóðhagslegur kostnaður fylgi atvinnugreininni. „Umhverfisáhrifin af fiskeldi eru umtalsverð. Þau eru mjög vandlega staðfest í nágrannalöndunum og það er einnig vandlega staðfest að þeir sem hafa slakað verulega á kröfum í umhverfismálum hafa iðulega séð eftir því til lengri tíma litið. Við ættum að láta það verða lexíu fyrir okkur.“

Þá er loks komið að síðasta hluta þessa pistils þar sem verður vikið að því hvernig má leysa helstu vandamálin sem fylgja fiskeldi.


8) Lausnir

Þorbjörn Þórðarsson bendir á að
„Það væri fullkomið glapræði að halda áfram uppbyggingu á laxeldi í sjókvíum hér á landi án skýrrar stefnumörkunar stjórnvalda.“
Og það verður auðvitað að vera fyrsta skref. Taka helst upp ströngustu reglur sem gilda nú í Noregi og öðrum stöðum þar sem menn hafa lært af biturri reynslu.

Varðandi þann vanda sem skapast af laxi sem sleppur þá væri hægt að fyrirbyggja erfðablöndun við villta laxa með því „að ala upp geldfisk, sem ekki veldur óafturkræfu umhverfistjóni með genamengun“.

Á móti kemur að: „Gallinn við geldan lax er að hann þarf sérhæft og dýrt fóður til að bein þroskist eðlilega, afföll aukast og vansköpunartíðni getur verið há. Auk þess er hætt við að viðbrögð markaða við vörunni verði neikvæð“, eins og Soffía Karen Magnúsdóttir fagsviðstjóri hjá Matvælastofnun hefur bent á.

Geldfiskur er því ólíkleg lausn.

Orri Vigfússon formaður NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, sem nú er nýlátinn kvað upp sinn úrskurð fyrir nokkrum árum:
„Við Íslendingar eigum strax að banna allt laxeldi í sjó við strendur landsins og eingöngu að leyfa eldi í smærri stíl í landkerjum þar sem hægt er að hafa stjórn á hlutunum."
Gallinn við fiskeldi á landi er að það er „miklu dýrara en opið sjókvíaeldi og því hefur slíkt eldi ekki náð útbreiðslu í Svíþjóð“. 

Arnar Pálsson erfðafræðingur telur lokuð kerfi vera lausnina:
„Í ljósi víðtækra hugmynda um aukið laxeldi, t.d. á Vestfjörðum, er eðlilegt að kalla eftir varúð og vandaðri vísindalegri úttekt á hættunni á erfðablöndun, ekki bara á innfjörðum heldur einnig á Vestur- og Norðurlandi. Öruggasta eldið er í lokuðum kerfum, sem eru að ryðja sér til rúms erlendis, og mun auðvelda fiskeldisfyrirtækjum að fá vottun fyrir umhverfisvæna framleiðslu.“
Kjersti Sandvik hefur kynnt sér laxeldi í Noregi vandlega enda hefur hún skrifað um það bók. Í viðtali við Fréttatímann (bls. 8) segir hún:
„Þetta er líffræðileg framleiðsla í vistkerfi náttúrunnar og þá mega efnahagslegar ástæður ekki bara ráða för. Ég vil meina að í Noregi hafi yfirvöld treyst of mikið á laxeldisfyrirtækin og ekki hlustað nægilega mikið á líffræðinga, vísindamenn og þá sem tala um hættuna sem steðjar að öðrum atvinnugreinum og villta laxinum. Ég myndi einnig hugleiða að taka upp laxeldi í lokuðum kvíum. Það er fjárfesting sem mun bera ávöxt til lengri tíma litið.“
Lausnin að mati margra er semsagt að laxeldi fari eingöngu fram á landi eða í lokuðum kvíum. Þannig yrði að minnsta kosti komið í veg fyrir að laxinn sleppi og rústi lífríkinu með lúsasmiti eða erfðamengun. Vandamálið með mengun sjávar ætti einnig að leysast ef kvíarnar væru á landi. Eftir stæði samt sem áður laxalúsavandamálið í kvíunum og stórfelld notkun á öðrum fiski til að gefa löxunum sem fóður.

Mér líst einna best á uppástungu Árna Gunnarssonar:
„Ef laxeldi er alfa og omega atvinnuuppbyggingar, mætti draga úr „nauðsyn“ þess með því að bæta í kvóta byggðarlaganna, kvóta, sem á síðustu árum hefur verið keyptur til annarra útgerðarstaða.“

Þetta verða lokaorðin.


–––

Heimildir

Sérstaklega er mælt með að lesa Arnar Pálsson, Árna Gunnarsson, og félagana Einar Jónsson og Erlend Steinar Friðriksson.

Arnar Pálsson erfðafræðingur, Mun norskt genaregn eyðileggja íslenska laxinn? 5. janúar 2017,
http://www.visir.is/g/2017170109511/mun-norskt-genaregn-eydileggja-islenska-laxinn-

Arnar Pálsson erfðafræðingur, Áhrif erfðamengunar á villta laxastofna, 8. júní 2017,
http://www.visir.is/g/2017170609216

Árni Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, 14. ágúst 2016, grein á Kjarnanum,
https://kjarninn.is/skodun/2016-08-14-mikil-ahaetta-fylgir-laxeldi-i-sjo/

Daníel Jakobsson, Tækifærin sem felast í fiskeldinu, 24. maí 2017,
http://www.visir.is/g/2017170529476

Einar K. Guðfinnsson formaður Landssambands fiskeldisstöðva, Tökumst á við áskoranirnar, 26. apríl 2017,
http://www.visir.is/g/2017170429351

Einar Jónsson fiskifræðingur og Erlendur Steinar Friðriksson sjávarútvegsfræðingur, Fiskeldi í sjókvíum — ný stóriðja í fjörðum og flóum, 15. október 2016, http://www.visir.is/g/2016161019177

Einar Jónsson fiskifræðingur og Erlendur Steinar Friðriksson sjávarútvegsfræðingur, Fiskeldi í sjókvíum — ný stóriðja í fjörðum og flóum II,, 15. nóvember 2016, http://www.visir.is/g/2016161119392

Gísli Sigurðsson íslenskufræðingur, Fiskeldi í lokuðum kerfum í sókn, 19. apríl 2017,
http://www.visir.is/g/2017170419095

Helgi Thorarensen prófessor við Háskólann á Hólum, Mennta þarf starfsfólk og stjórnendur fyrir fiskeldi framtíðarinnar, 6. júlí 2017, http://www.visir.is/g/2017170709465/mennta-tharf-starfsfolk-og-stjornendur-fyrir-fiskeldi-framtidarinnar-

Jón Helgi Björnsson formaður Landssambands veiðifélaga, Leynir MAST upplýsingum um lúsasmit?, 18. maí 2017, http://www.visir.is/g/2017170518865

Jón Helgi Björnsson formaður Landssambands veiðifélaga, Gula spjaldið á lofti, 27. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170629199

Kristján Andri Guðjónsson bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæ, Framtíð okkar í fiskeldi, 6. júlí 2017,
http://www.visir.is/g/2017170709344/framtid-okkar-i-fiskeldi

Pálmi Gunnarsson, http://www.visir.is/g/2017170619458
Er sjókvíaeldi umhverfisvænt? Fyrri hluti, 15. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170619458
Er sjókvíaeldi umhverfisvænt? Seinni hluti, 22. júní 2017, http://www.visir.is/g/2017170629764

Pétur G. Markan sveitarstjóri Súðarvíkurhrepps og fomaður Fjórðungssambands Vestfirðinga, Júdas, lax og Símon, 5. júlí 2017,
http://www.visir.is/g/2017170709612/judas-lax-og-simon-

Soffía Karen Magnúsdóttir fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun, Umræða um fiskeldi, 9. maí 2017,
http://www.visir.is/g/2017170508969

Yngvi Óttarsson verkfræðingur, Nærsýni, 18. október 2016,
http://www.visir.is/g/2016161018840

Yngvi Óttarsson verkfræðingur, Að breyta loðnu í lax, 25. apríl 2017,
http://www.visir.is/g/2017170429493

Þorbjörn Þórðarsson (leiðari), Kynbætur, 13. apríl 2017,
http://www.visir.is/g/2017170419555

Þröstur Ólafsson hagfræðingur, Júdasar í Jökulfjörðum, 19. júní 2017,
http://www.visir.is/g/2017170618940/judasar-i-jokulfjordum-



Fréttir og viðtöl

Frétt: Veðjað á laxeldið. Viðskiptablaðið, 19. maí 2016
http://www.vb.is/frettir/vedjad-laxeldid/127764/

Frétt: Vilja rannsókn á strokufiski úr sjókvíum, 1. október 2016
http://www.visir.is/g/2016161009969/vilja-rannsokn-a-strokufiski-ur-sjokvium

Frétt: Stríðið um laxeldið: „Þú setur ekki verðmiða á náttúruna“, Fréttatíminn 14. október 2016, (bls. 14, 16, 17), vefútgáfa,
https://issuu.com/frettatiminn/docs/14_10_2016_lr/14

Frétt: Sjö athugasemdir við laxeldi á Austurlandi, Fréttatíminn 29. október 2016, bls. 4,
vefútgáfa, https://issuu.com/frettatiminn/docs/29_10_2016_lr

Frétt: Norska ævintýrið sem á að bjarga bæjum Íslands, Fréttatíminn, 21. janúar 2017 (bls. 6, 8, 10), m.a. viðtal við norsku blaðakonuna Kjersti Sandvik.
https://issuu.com/frettatiminn/docs/21_01_2017lr

Frétt: Telja Djúpið bera 30.000 tonna eldi, 18. mars 2017,
http://www.visir.is/g/2017170318831/telja-djupid-bera-30.000-tonna-eldi

Frétt Fréttatímans, Svíar banna fiskeldi í opnum sjókvíum, 18. mars 2017 (hér af Angling.is, vefsíðu Landssambands veiðifélaga),
http://www.angling.is/is/frettir/nr/204203/

Frétt: Íslendingar leyfa tíu þúsund tonna laxeldi sem Svíar myndu banna, Fréttatíminn, 25. mars 2017 ( bls. 6), vefútgáfa,
https://issuu.com/frettatiminn/docs/25_03_2017_lr

Frétt: Laxalús ógnar enn fiskeldinu, 11. maí 2017,
http://www.visir.is/g/2017170519835

Frétt: Lúsaeitur: „Eðlilegur þáttur í laxabúskap“, 23. maí 2017
http://www.ruv.is/frett/lusaeitur-edlilegur-thattur-i-laxabuskap

Frétt: Vill að íbúar Vestfjarða fái að njóta vafans, 4. júlí 2017,
http://www.ruv.is/frett/vill-ad-ibuar-vestfjarda-fai-ad-njota-vafans

Frétt Kristjáns Más Unnarssonar, Fiskeldi hleypir fjöri í Patreksfjörð, 5. júlí 2017
http://www.visir.is/g/2017170709559/fiskeldid-hleypir-fjori-i-patreksfjord
22 sept 2016, önnur frétt eftir Unnar Má:
http://www.visir.is/g/2016160929517

Viðtal við Orra Vigfússon, Laxeldi í sjó verði stöðvað, 15 mars 2013
http://www.visir.is/g/2013130319441 

Viðtal við Orra Vigfússon, Íslendingar eiga að strax að banna allt laxeldi í sjó, 26. apríl 2013
http://www.visir.is/g/2013130429328

Viðtal við Orra Vigfússon, Vill laxinn upp á land, 6. apríl 2014,
http://www.vb.is/frettir/vill-laxinn-upp-land/103868/

Viðtal við Daða Má Kristófersson hagfræðing, Fiskeldi megi ekki vaxa of hratt, 1. júlí 2017,
http://www.visir.is/g/2017170709983/fiskeldi-megi-ekki-vaxa-of-hratt

Frétt: Plastmengun í fjörum Tálknafjarðar, 8. júlí 2017
http://www.ruv.is/frett/plastmengun-i-fjorum-talknafjardar

Frétt: Sjö sveitarfélög vilja kraftmikið laxeldi, 13. júlí 2017,
http://www.ruv.is/frett/sjo-sveitarfelog-vilja-kraftmikid-laxeldi

Frétt: Hafró leggst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi, 14. júlí 2017,
http://www.ruv.is/frett/hafro-leggst-gegn-laxeldi-i-isafjardardjupi

Frétt: Áhættumat leyfir sjö sinnum meira eldi 14. júlí 2017,
http://www.ruv.is/frett/ahaettumat-leyfir-sjo-sinnum-meira-eldi

Frétt: Fjárfestingunni varla hent út um gluggann, 15. júlí 2017,
http://www.ruv.is/frett/fjarfestingunni-varla-hent-ut-um-gluggann

Viðtal við sjávarútvegsráðherra: Áhættumat Hafró hlýtur að vega þungt, 15. júlí 2017,
http://www.ruv.is/frett/ahaettumat-hafro-hlytur-ad-vega-thungt


Myndræn framsetning gagna

Kort af Íslandi sem sýnir hvaða fyrirtæki hafa starfsleyfi fyrir laxeldi og framtíðaráform. Veðjað á laxeldið, 19. maí 2016,
http://www.vb.is/frettir/vedjad-laxeldid/127764/

Kort yfir hvar regnbogasilungur hefur fundist í íslenskum ám og fjörðum,
Vilja rannsókn á strokufiski úr sjókvíum, 1 okt 2016, http://www.visir.is/g/2016161009969

Sjónvarpsfrétt með myndrænum tölulegum upplýsingum um framleiðslu á laxi í tonnum í eldi og leyfi fyrir lax og regnbogasilung. 18. mars 2017,
http://www.ruv.is/frett/tharf-ad-efla-voktun-med-laxalus-i-hlynandi-sjo

Landssamband veiðifélaga, Laxalús ( Lepeophtheirus salmonis), spurningar og svör, http://www.angling.is/is/frodleikur/sjukdomar/laxalus/

Efnisorð: , , , , , ,