laugardagur, nóvember 27, 2010

Kosningaréttur og nýting hans

Það var ekki mín hugmynd að breyta stjórnarskránni. Það var ekki heldur mín hugmynd að halda stjórnlagaþing, né hefði ég viljað hafa persónukjör. En úr því að boðað var til kosninga þá kynnti ég mér auðvitað frambjóðendur og ég mætti auðvitað á kjörstað og ég kaus.

Ég kaus líka í Icesave kosningunni og var ég þó beinlínis á móti því brölti og vissi fyrirfram að afstaða mín yrði kaffærð í háværum hrópum þeirra sem halda að við getum komist upp með að borga ekki Icesave. En ég mætti samt á kjörstað þó tilgangsleysið hafi verið yfirþyrmandi.

Það eru eflaust fullt af góðum ástæðum fyrir því að svo margt fólk sleppir því að kjósa núna. Ég veit það manna best hve tímafrekt það var að kynna sér frambjóðendur og velja úr hópnum. En andskotinn hafi það að ég myndi bara sitja heima og láta aðra um að ráðskast með hluti sem munu á einn eða annan hátt hafa áhrif á líf mitt í framtíðinni.

Ég tek undir með Betu baun og lýsi frati á fólkið sem nýtti ekki atkvæðisrétt sinn. „Þeir sem ekki nenna að sinna lýðræðislegri skyldu sinni eiga ekki skilið að búa við lýðræði,“ segir Beta og ég get bætt því við að mér finnst að slíkt fólk hafi fyrirgert rétti sínum til að kvarta yfir neinu því sem er í núverandi stjórnarskrá og því sem verður í næstu stjórnarskrá.

En burtséð frá því að finnast kosningaþátttakan svekkjandi þá var ég sæl og glöð þegar ég kom útaf kjörstað og horfði uppí stjörnurnar og norðurljósin. Ég hafði nýtt kosningaréttinn minn, sem konur höfðu barist fyrir að ég fengi, og valið 25 afar frambærilegar manneskjur á listann* vitandi að hver einasta þeirra myndi sóma sér vel sem fulltrúi á stjórnlagaþinginu. Ég hef alltaf þá reglu að kjósa eftir málefnum en ekki manneskjum** og fylgdi henni líka núna.

Ég valdi fólk — aðallega konur — sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju og að landið sé eitt kjördæmi þar sem atkvæði allra landsmanna vega jafnt. Allt þetta fólk vill auðvitað jafnrétti kynjanna og að engum væri mismunað eftir uppruna, kynhneigðar, fötlunar eða þess háttar. Þá vildu þau að Ísland yrði ávallt herlaust og tæki ekki þátt í hernaði á neinn hátt og ekki að hér væru geymd kjarnorkuvopn.*** Öll vildu þau auðvitað að auðlindir lands og sjávar væru sameign okkar allra en ekki einkaeign sem hægt sé að braska með. Mér var alveg sama hvort þau tengdu það ESB umsókninni eða ekki.

Nokkrir frambjóðendur tóku fram í könnun DV að þau væru andvíg því að dómarar verði kosnir af almenningi, en það þótti mér afar góð afstaða, en almennt virtust frambjóðendur vera svo æstir í fylgi sínu við persónukjör að þeir virtust ekki hafa hugsað dæmið til enda.**** Nokkrir frambjóðendur vildu tryggja stöðu táknmáls, og vermdu þrír þeirra fjögur efstu sætin á listanum mínum, enn aðrir réttindi dýra og var það yfirleitt en ekki alltaf trygging fyrir að komast á listann. Sum fengu rokkprik fyrir að standa uppi í hárinu á jeppaeigendaklúbbi sem vill fá að tuddast upp um öll fjöll og firnindi. Engum var vísað út fyrir að kjósa Sjálfstæðisflokk eða Framsókn — slíkt fólk komst aldrei á blað hvorteðer. Umburðarlyndi mitt sýndi ég með því að kjósa tvo Akureyringa.

Ég gerði a.m.k. mitt besta.

___
* Síðdegis í dag voru ennþá 88 manns á honum áður en ég hóf mikinn og sársaukafullan niðurskurð þar sem mér fannst ég svikari og illmenni í hvert sinn sem ég eyddi nafni prýðilegrar manneskju með frábærar skoðanir útaf listanum.

** Af þeim sem ég kaus hef ég átt orðastað við fjórar þeirra án þess þó að til kunningskapar hafi komið og ein er fyrrverandi skólasystir mín sem heilsar mér ekki nema ég heilsi henni fyrst. Ég kaus semsagt ekki vini og kunningja og var þó ágætur fyrrverandi bekkjarbróðir minn í kjöri (sem alltaf heilsar) og fleira fólk sem ég er mismunandi mikið málkunnug. Annar bekkjarbróðir fauk út í niðurskurðinum síðdegis, það var heldur ekkert persónulegt. (Enginn ættingja minna var í framboði svo ég viti til, kannski er ég sú eina í ættinni sem er með skoðanir?) En þó kunningjar eigi ekki greiða leið á minn kjörseðil þá sniðgeng ég hiklaust fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni og fer í taugarnar á mér alveg sama hversu mikið af lífsskoðunum við eigum að öðru leyti sameiginlegar.

*** Ég held að ég megi fullyrða að þetta eigi við um allt fólkið sem ég kaus en það voru nokkrir einstaklingar sem höfðu frábærar tillögur um hvað ætti að vera í stjórnarskrá sem yfirskyggði að eitthvað atriði var ekki 100% eins og ég hefði viljað, þannig eru sum þeirra sem ég kaus hlynnt persónukjöri þó ég sé það alls ekki (og síst eftir þessa kosningu!) en vegna þess hve ríkjandi sú skoðun var meðal þeirra sem buðu sig fram þá fannst mér að ég gæti ekki látið það skemma fyrir annars góðum frambjóðanda, þó það réði stundum úrslitum í niðurskurðinum þegar um var að ræða tvær manneskjur með nánast sömu áhersluatriði og önnur þeirra vill persónukjör en hin ekki. Það slapp meira segja inn ein kona sem ég veit ekki hvort er feministi, því hún sagði ekkert í þá áttina neinstaðar, en aðrar hugmyndir hennar voru frábærar (og frábærar konur hljóta að vera feministar!) svo hún fékk mitt atkvæði.

**** Hver vill fleiri dómara í boði Sjálfstæðisflokksins? Eða að Jón Ásgeir geti sett fé og mannsöfnuð í að koma réttum mönnum í dómarasæti?

Efnisorð: , , , , , , , ,

föstudagur, nóvember 26, 2010

Velupplýst kjósönd með valkvíða


Ég hefði gjarnan viljað kjósa utankjörstaðar til að forðast biðraðir en gallinn er sá að ég er hreint ekki búin að gera upp við mig hvaða frambjóðendur lenda á listanum mínum. Fyrst um sinn skemmti ég mér yfir þeirri hugmynd að kjósa eingöngu konur — svona til mótvægis við alla þá karlmenn sem eflaust munu eingöngu kjósa karlmenn af gömlum vana og afþví að þeim finnst konur ekkert eiga uppá dekk í þessum efnum frekar en annarstaðar.* En eftir því sem ég kynnti mér fleiri frambjóðendur þá varð mér ljóst að þar á milli eru einstaklega frambærilegir karlmenn, svo frambærilegir að þeir jafnast næstum á við konur, og eru því allar líkur á að einhverjir þeirra komist á listann minn.

Ég hef lagt allt kapp á að kynna mér frambjóðendur umfram kosningaræðurnar sem hljóma flestar mjög keimlíkt. Ég ber saman svör þeirra á DV, Svipunni, hjá Biskupsstofu og hjá Félagi umhverfisfræðinga auk þess sem ég fylgist með bloggum sumra þeirra og hjá þeim sem mæla með þeim. Mest um vert þykir mér þegar fólk vill aðskilnað ríkis og kirkju, því eins og einhver benti á, þá má nota lagabreytingar til að knýja fram aðskilnaðinn án þess að stjórnarskránni sé breytt, en alþingismenn munu líklega aldrei taka það upp hjá sjálfum sér nema stjórnlagaþing leggi til stjórnarskrárbreytingu í þá átt. Þá finnst mér jafnt vægi atkvæða vera gríðarlegt réttlætismál og helst að landið verði þá um leið eitt kjördæmi.

Langflestir frambjóðendur — nema þeir sem vilja komast á stjórnlagaþing til þess eins að koma í veg fyrir breytingar á stjórnarskránni — vilja að allar auðlindir til sjávar og sveita séu í eigu almennings og verði ekki framseljanlegar, það sjónarmið aðhyllist ég líka, svo og að Ísland verði alltaf herlaust og taki aldrei þátt í hernaði gagnvart öðrum þjóðum hvorki beint né óbeint t.d. með afnotum af landi, lofthelgi, landhelgi eða mannafla.

Flestir frambjóðenda vilja að að íslenska verði bundin í stjórnarskrá sem þjóðtunga en nokkrir gera fyrirvara við það. Einn þeirra segir þetta á bloggsíðu sinni (sem ég hef lesið í mörg ár):
„Það vilja margir að það verði grein í nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið sé á um það að íslenska sé opinber þjóðtunga. Ég er einn þeirra. En það verður þá um leið að tryggja rétt þeirra sem tala hana ekki. Það þarf að ganga kirfilega frá því að víst sé að slíkt ákvæði troði ekki á mannréttindum þeirra sem skilja ekki opinbera tungumálið. Þetta má ekki bara vera einhver grein sem við setjum inn án frekari umhugsunar, til þess eins að geta mært okkur af henni á dögum eins og í dag.“**
Þarna er bæði gert ráð fyrir innflytjendum og heyrnarlausum sem árum saman hafa barist fyrir því að táknmál sé skilgreint sem móðurmál þeirra. Eins og annar frambjóðandi orðar það: „Ef Ísland skilgreinir opinbert tungumál í stjórnarskrá á annað borð, hygg ég að það sé eðlilegt að gera íslenskt táknmál einnig að opinberu máli heyrnarlausra á Íslandi, samhliða íslenskunni.“ Þessi sjónarmið verða að vera uppi á stjórnlagaþingi.

Þá finnst mér mjög gott þegar fólk nefnir réttindi dýra. Samkvæmt fréttum síðustu daga veitir ekki af.

Auðvitað skiptir það mig miklu máli að fólk sé hlynnt kvenréttindum og svona yfirlýsingar eru sem englasöngur í mínum eyrum: „Ég vil sjá ákvæði í stjórnarskrá um jafna skiptingu kynja; á alþingi, í ríkisstjórn, hæstarétti, dómstólum, öllum stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og helst almennt í þjóðfélaginu.“ Ég hef reyndar ekki látið mér nægja yfirlýsingar frambjóðenda um eigin réttsýni*** duga mér; ég gúggla fólki miskunnarlaust því oft leynast ummæli hér og þar sem benda til stækrar kvenfyrirlitningar. Slíkt líð ég ekki og svoleiðis hyski á ekkert erindi á minn lista.

Ég nota reyndar líka enn aðra útstrikunaraðferð sem er kannski umdeilanlegri. Enda þótt mér þyki eðlilegt að ýmiskonar þrýstihópar komi sínum málefnum að (t.d. um aðskilnað ríkis og kirkju) þá hef ég tekið eftir að meðal frambjóðenda eru grunsamlegir hópar manna sem ekki hafa úttalað sig sérstaklega um það sem sameinar þá en þó skera þig sig greinilega frá öðrum frambjóðendum vegna þess að þeir hópa sig saman og mynda þannig ákveðinn þrýstihóp. Sé listi yfir alla frambjóðendur lesinn má tildæmis sjá sautján karlmenn sem allir heita Jón, alla saman í röð. Þrettán manns heita Guðmundur, tíu Ólafur. Gíslar, Gunnarar og Sigurðar eru hver í sínum hóp en alltaf sjö saman, það er líka mjög grunsamlegt.**** Svona hópþrýsting kann ég ekki að meta og óttast mjög að hleypa svo mikið sem einum einstaklingi úr þessum hópum inn og forðast því þá alla.

En nú er nóg komið af rausi því ég á enn langt í land með að fylla út listann minn.***** Líklega verð ég síðasta manneskja inná kjörstað á morgun, en örugglega ekki ein þeirra sem koma illa upplýstar til leiks.
___
* Mér finnst reyndar afar mikill galli á þessu stjórlagaþingskosningaformi að það skuli ekki vera skylda að kjósa karla og konur jafnt (eða eina manneskju af öðru hvoru kyninu umfram hitt úrþví að kjósa á 25 manns) og skil ekkert í afhverju ekki var sett skilyrði fyrir kynjajafnrétti, það hefði varla náð að auka mikið á hið alræmda flækjustig kosninganna.

** Þar sem það er karlmaður sem hefur þessa afstöðu verð ég greinilega að opna á þann möguleika að hann komist á listann minn.

*** Einn þeirra sem auglýsa í blöðunum í dag segist vera „Góður gæi með hjartað á réttum stað“. Eins og mér þykir nú mikill skortur á góðum gæjum í veröldinni, þá heillar þessi yfirlýsing mig þó ekki.

**** Sex Pétrar standa líka saman á listanum. Fjölmennustu hópar kvenna eru Írisar og Þórunnir sem eru með fimm konur hvor og Guðrúnar og Kristínar hafa fjórar konur hvor hópur á sínum snærum.

***** Burtséð frá flækjustigi kosninganna þá held ég að þessar kosningar sýni að persónukjör sé afar flókið fyrirbæri ætli kjósendur að kynna sér frambjóðendur vel, eins og ég reyni að gera. Það er meiriháttar tímafrekt og hættan er alltaf sú að fólki fallist hendur og kjósi bara fræga fólkið eða þá sem það þekkir af eigin raun, burtséð frá því hvað frambjóðendur ætla sér að gera við umboðið.

Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, nóvember 25, 2010

Sjö ábendingar til kvenna um rétta hegðun

Ekkert benti til þess í greininni sem ég fjallaði um í síðustu bloggfærslu að um framhald yrði að ræða (þá hefði ég nú beðið augnablik og tekið báðar fyrir í einu). En í dag birtist semsagt seinnihluti greinarinnar eftir Sigríði J Hjaltested aðstoðarsaksóknara í Fréttablaðinu. Sú er öllu verri en hin fyrri. Öll áhersla er lögð á að konur eigi að vera skýrari í svörum, passa sig betur, ekki gera þetta og ekki gera hitt. Skilaboðin til karla eru falin í þessu:
„Berðu virðingu fyrir sjálfum þér og öðrum. Ekki samþykkja það sem þú vilt ekki gera og ekki þrýsta á einhvern annan til þess að gera eitthvað sem þú telur hann ekki vilja gera. Sértu í vafa, slepptu því.“
og þessu:
„Ekki taka þátt í neinu sem þú sérð að er rangt. Taktu afstöðu með þeim sem hallar á.“
Á móti þessum tveimur ráðleggingum til karla* fá konur sjö ábendingar um hvernig þær eiga að hegða sér. Það vantar bara að þeim sé sagt að vera ekki í stuttum pilsum og vera ekki alltaf svona miklar druslur. En það eru ekki ungar stelpur sem eru vandamálið og það er ekki nóg að þær læri að „fara vel með áfengi“ heldur þurfa karlmenn á öllum aldri að hætta að líta á drukkið kvenfólk sem auðvelda bráð.

Ég bendi aftur á, að nauðganir eru framdar af fleirum en ungum karlmönnum, þó þeir séu sannarlega afkastamiklir á þessu sviði. Jafnframt er konum á öllum aldri nauðgað; við erum ekkert öruggar um leið og þrítugsaldrinum sleppir. Þessvegna er furðulegt að orðum aðstoðarsaksóknarans sé eingöngu beint að ungmennum. En, jújú, það á auðvitað líka að tala um og við unga fólkið. Að því leyti eiga þessi orð Sigríðar ágætlega við:
„Það þarf því að brýna fyrir þeim í hverju eðlileg samskipti séu fólgin með fræðslu sem þarf að vera viðvarandi. Á ég þá við fræðslu um dagleg samskipti kynjanna, gagnkvæma virðingu og kynferðisleg samskipti. Í því sambandi sé lögð megináhersla á gagnkvæman vilja og samþykki. Fróðlegt væri að gera skoðanakannanir á meðal ungmenna á því hvað þau telja vera „eðlilegt" í dag. Það segir sig nefnilega sjálft að hafi þau skakka mynd af því sem er eðlilegt nú er það líklegra en ekki til fylgja þeim út þeirra fullorðinsár.“


Það er nú einmitt stóra meinið: fullorðnir karlmenn eru ekki með skárri viðhorf til kvenna en strákarnir. Og eins og ég benti á í lok síðustu færslu: Því þarf að breyta.

___
* Fyrir margt löngu birti ég 40 ráðleggingar til ungra karlmanna um hvernig þeir ættu ekki að hegða sér í samskiptum við stelpur. Og auðvitað eiga þær við um fullorðna karlmenn líka. (Ég samdi þær reyndar ekki sjálf heldur þýddi úr útlensku þó ég hafi ekki tekið það fram á sínum tíma).

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, nóvember 24, 2010

Örlar á vitundarvakningu innan um alla fordómana gegn konum sem er nauðgað

Ekki þykir nóg að gert með framgöngu Björgvins Björgvinssonar yfirmanns kynferðisbrotadeildar (aftur og nýbúinn) og Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara í því að níða skóinn af þolendum kynferðisbrota. Nú er konu stjakað fram á sviðið með sömu skilaboð, líklega í þeirri von að það veki ekki eins hörð viðbrögð og þegar kallarnir útmáluðu skoðanir sínar á því ábyrgðarleysi kvenna að vera sífellt að láta nauðga sér.

Ég hirði ekki um að endurtaka allt það sem þessi nýi talsmaður er hvorteðer að tyggja upp eftir skúnkunum tveimur; það er meira og minna sama ruglaða rausið um að „mörkin á milli þess hvenær kynmök fara fram með samþykki beggja og hvenær ekki verða æ óljósari.“ Og einhverstaðar blandast fjölgun eftirlitsmyndavéla inn í málið sem voða fín forvörn gegn nauðgunum, það var nefnilega það.

En þó stærstur hluti greinarinnar sé angandi af sama skítaviðhorfinu og hjá skúnkunum þá eru örfáir punktar innanum sem benda til að einhverjum innan kerfisins hafi dottið í hug að það væri hugsanlega kannski mögulega ástæða til að skoða aðeins nauðgarana sjálfa.

Undir miðja grein spyr Sigríður J. Hjaltested aðstoðarsaksóknari þessarar spurningar: „Hvernig er annað hægt en að beina kastljósinu líka að gerandanum, þegar talað er um forvarnir í tengslum við nauðganir." Það er svo talsvert eftir miðja grein (í fjórða dálki af fimm í Fréttablaðinu) sem hún gerir loksins tilraun til að skoða gerðir gerandans:

„Gerandinn hugsar um það eitt að fá það sem hann telur sig hafa fengið samþykki fyrir og þegar skýr mörk eru ekki sett* sér hann ekkert athugavert við hegðun sína. Þetta er það tímamark sem mestu máli skiptir við mat á sönnun og því hvort nauðgun af ásetningi hafi átt sér stað. Undanfarið hafa þó nokkrir dómar fallið þar sem atvik sem þessi hafa verið felld undir ólögmæta nauðung en eðli máls samkvæmt er sönnunarstaðan erfiðari þegar svo háttar til. Algengt er að stig ásetnings sé lægra í slíkum málum en öðrum. Sálfræðingar hafa bent á, einkum þegar um unga gerendur er að ræða, að oft sé um óviðeigandi kynferðislega hegðun að ræða fremur en ásetning. Er þá átt við að gerandinn hafi ekki fullþroskaða kynferðisvitund og sé ófær um að sjá fyrir sér afleiðingar gjörða sinna. Nýverið var sett á fót meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir unga sakhæfa gerendur þar sem einblínt er á þetta.“


Sko til. Ég er auðvitað ósammála því að hægt sé að flokka nauðganir sem ólögmæta nauðung (þó ég sé sammála orðanna hljóðan þá er greinilegt að þá er dómsvaldið að lækka refsingu nauðgarans) og því bulli að ásetningur skipti mestu máli, sbr. það sem ég hef áður sagt um að nauðgarar eru ekki endilega að tauta fyrir munni sér: „Hér kem ég, nauðgarinn, og ætla að nauðga konu“.

Áfram heldur Sigríður:
„Úrræðið miðar þá að því að kenna þeim að stýra hegðun sinni á réttar brautir. Það er í sjálfu sér sjálfstætt rannsóknarefni að greina hvað veldur því þegar ungir gerendur** telja sig nánast hafa „rétt" á líkama stúlkna sem þeir ganga út frá að séu „til í tuskið". Gæti verið að þarna séu einhver tengsl við nýlegar niðurstöður könnunar sem gerð var á meðal ungra manna og endurspegluðu gamaldags viðhorf þeirra til jafnréttis?“


Hér liggur mér við að hrópa húrra ef ekki væri fyrir hinn augljósa skort á orðinu „klám“ í þessu samhengi, og gott ef ekki „klámvæðing“ og „klámnotkun“. En það er greinilegt að þarna er þó einhverskonar meðvitund um að tengsl séu milli ójafnra stöðu kynjanna og nauðgana og gott ef ekki er gefið í skyn að kvenfyrirlitning ráði gerðum nauðgarana.

Það virðist því vera að fundurinn sem dómsmála- og mannréttindaráðherra boðaði til hafi borið þann árangur að nú er þó allavega örlitlu púðri eytt í nauðgarana sjálfa. Halla Gunnarsdóttir aðstoðarmaður ráðherrans skrifaði með honum grein sem birtist í Fréttablaðinu og er einnig birt á bloggsíðu hennar.*** Þar segir: „Meðal hugmynda sem komu fram voru rannsókn á áhrifum breytinga á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga frá árinu 2007; kynningarátak um viðbrögð við nauðgun; endurmenntunarnámskeið fyrir dómara um áhrif kynferðislegs ofbeldis á brotaþola …“ og fleira er talið upp. Væri farið að öllum tillögum yrði það til mikilla bóta, svo mikið er víst.

Hinu má hinsvegar ekki gleyma að það þarf að leiðrétta forritið í hausnum á karlmönnum, það viðhorf sem sannarlega var til staðar fyrir daga klámvæðingarinnar en hefur síðan margeflst við eldsneytisgjöfina, það viðhorf til kvenkynsins að allar konur séu þeim óæðri og konur séu til þess að þjóna karlmönnum á hvern þann veg sem þeim þóknast.

Ábyrgðin á því að leiðrétta þetta viðhorf liggur hjá karlmönnum.

___
* Skýru mörkin eru þá að æpa nei! Allt annað er ómark, eins og margsinnis hefur komið fram í viðhorfi verjenda nauðgara (Sveini Andra Sveinssyni) og öðrum sem leynt og ljóst halda með þessháttar manngerðum.

** Mér finnst reyndar eins og eingöngu sé gert ráð fyrir að ungir drukknir karlmenn nauðgi en ekki menn á hvaða aldri sem er (og þurfa því ekki að vera fæddir inn í sms tilveru!) eða að menn nauðgi án þess að vera sjálfir illa áttaðir eða minnislausir af ölvun.

*** Halla birtir líka fínan pistil í dag en hún er greinilega jafn lítið hrifin og ég af framlagi Þórarins Þórarinssonar og Jakobs Bjarnar Grétarssonar til fegrunar vændis, en í Fréttablaðinu er mikil lofgjörð til vændiskúnna þar sem bólfimi þeirra er hrósað í hástert. Halla hefur tekið viðtöl við vændiskonur sem segja þetta um vændiskúnna: „Það er mjög merkilegt hvað mönnum dettur í hug að gera við þessar konur. Þeir berja þær, skera þær og troða alls konar hlutum inn í leggöngin á þeim. Ég held að þeir hafi þessar skrítnu hvatir en virði konurnar sínar of mikið til að gera þetta við þær. Þá er það auðvitað ágætur díll að borga 30 þúsund kall og fá að gera það sem þér sýnist.“ Mæli með að fólk lesi það sem Halla segir um þetta frekar en trúa mönnum eins og Jakobi Bjarnar sem er einn af helstu talsmönnum klámiðnaðarins á Íslandi og eflaust á launum allt árið hjá Geira í Goldfinger við ímyndarsköpun.

Efnisorð: , , , , , , ,

þriðjudagur, nóvember 23, 2010

Viðhorf sem Dickens barðist gegn

Óliver Twist er ekki bara söngleikur heldur magnað ádeiluverk.* Á þeim tíma sem Charles Dickens skrifaði Óliver Twist (birtist sem framhaldssaga 1837-39) auk annarra verka sem innihéldu ekki síðri ádeilu á samfélagsástandið, voru í gildi fátækralög í Bretlandi sem áttu uppruna sinn að rekja til 16. aldar.

Fátækralögin voru endurskoðuð oftar en einu sinni þar til þau voru loksins afnumin eftir seinni heimstyrjöldina og tóku nokkrum breytingum m.a. árið 1834 og svo aftur 1847 (og á 20. öld voru gerðar margar félagslegar úrbætur sem breyttu gildi þeirra þar til þau voru orðin tilgangslaus). Það voru fátækralögin sem tóku gildi 1834 sem Charles Dickens deildi á í Óliver Twist. Þau kváðu m.a. á um að engin manneskja mátti fá mat né annarskonar aðstoð nema vera vistuð á fátækrahæli. Aðrir þurfalingar fengu hvorki mat né fjárstyrk til að lifa.

Til þess að draga úr ásókn á fátækrahælin var reynt að hafa aðstæður þar sem verstar. Þrátt fyrir viðleitni yfirvalda var samt skárra fyrir marga að vera á fátækrahæli en reyna að lifa utan þeirra, svo mikil var örbirgðin.

Á fátækrahælum átti matur að vera svo naumt skammtaður** og aðbúnaður svo slæmur að enginn myndi viljugur sækjast eftir dvöl þar nema hann ætti engin önnur úrræði. Það var til að tryggja að fólk flykktist ekki inn af götunni og lifði í vellystingum á kostnað samborgara sinna. Uppihald ómaga var nefnilega greitt með eignaskatti á millistéttina.

Á þessari fínu línu dönsuðu svo fátækrahælin: svelta fátæklingana en ekki um of, láta þá sæta ómannúðlegri meðferð og bjóða þeim uppá óásættanlegar aðstæður en láta þó ekki svo marga drepast að hægt væri að saka rekstraraðila um vanrækslu og illa meðferð.

Þetta rímar óhugnalega vel við fyrirsögn í Fréttablaðinu í gær: „Hærri fjárhagsaðstoð sögð eyða vinnuhvata.“ Fréttin var svo á þessa leið:
„Sjálfstæðismenn í velferðarráði Reykjavíkur segja fjárhagslegan hvata til að finna vinnu hverfa með jöfnun fjárstyrkja félagsþjónustunnar við tekjur þeirra lægstlaunuðu. Formaður velferðarráðs segist vona að lægstu launin hækki.
Sjálfstæðismenn í velferðarráði Reykjavíkur gagnrýna samþykkt meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar um að hækka fjárhagsaðstoð til þeirra sem ekki eiga rétt til atvinnuleysisbóta eða aðeins hluta atvinnuleysisbóta.

„Það er umhugsunarvert þegar ráðstöfunartekjur þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð eru orðnar hærri en þeirra sem hafa atvinnuleysisbætur, og jafnháar ráðstöfunartekjum þeirra sem vinna fyrir lægstu launum,“ bókuðu sjálfstæðismennirnir Geir Sveinsson og Áslaug Friðriksdóttir á síðasta fundi velferðarráðs. Á fundinum samþykktu fjórir fulltrúar meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar að auka fjárhagsaðstoð um samtals 350 milljónir króna.

„Í því ástandi sem nú ríkir, þar sem almennt er talið erfitt að finna sér vinnu og nokkuð vonleysi ríkir almennt, er alls ekki heppilegt að jafna fjárhagsaðstoð við stöðu þeirra sem lægstu launin hafa því það mun valda því að fólki á fjárhagsaðstoð fjölgar og hægjast mun á því að fólk sæki út á vinnumarkaðinn,“ sagði í bókun Geirs og Áslaugar, sem kváðu virkniúrræði til að efla sjálfshjálp vera raunverulega aðstoð við að brjótast út úr fátækt.“

Í dag var svo fyrirsögn leiðara Fréttablaðsins þessi: „Velferðargildra í smíðum“ og tekur Ólafur Þ. Stephensen þar undir sjónarmið Sjálfstæðismanna og segir:
„Hér er augljóslega hætta á að í smíðum sé svokölluð velferðar gildra, en það hefur það verið kallað þegar samspil bóta- og skattkerfis í hinum þróuðu velferðarríkjum Vesturlanda hefur í för með sér að í raun er hagstæðara að vera á bótum en að vinna fyrir lágmarkslaun, að minnsta kosti ef tekinn er með í reikninginn ýmis kostnaður sem fylgir því að vera í starfi, eins og að koma sér í og úr vinnu. Hættan er að sjálfsögðu sú að til lengri tíma litið þyki mörgum meira freistandi að geta varið tíma sínum eins og þeir kjósa á bótum frá samfélaginu en að þiggja starf sem eykur ráðstöfunartekjurnar lítið sem ekkert.“


Fyrir rúmu ári fór fram mikil umræða á vefsvæði Egils Helgasonar um fólk sem þiggur bætur, bæði atvinnuleysisbætur og örorkubætur. Ég tók saman allt það sem mér fannst sagt af viti í þeirri umræðu og raðaði upp í flokka og birti hér undir fyrirsögninni „Svindlifólkið á bótunum“. Þótt hvorki Sjálfstæðismenn í velferðarráði Reykjavíkurborgar né ritstjóri Fréttablaðsins séu að tala um bótasvindl, þá á umræðan í bloggfærslunni við hér vegna þess að öll sömu rökin eru þar reifuð.**** Lykilsetning í allri þeirri umræðu var þessi: „Þegar upp er staðið leitast fólk við að eiga fyrir grunnþörfum fjölskyldunnar og það gerist ekki í störfum sem borga minna en atvinnuleysisbætur. Eina leiðin til lausnar á þessum vanda er að HÆKKA LÁGMARKSLAUN.“

Þau mannfjandsamlegu viðhorf sem Dickens barðist gegn á fyrrihluta þarsíðustu aldar, fyrir hátt í tvöhundruð árum, eru enn vinsæl hjá fólki með annarlega sýn á mannfólk og samfélag. Forsvarsmenn hennar þessa dagana eru Geir Sveinsson, Áslaug Friðriksdóttir og Ólafur Þ. Stephensen.

Charles Dickens vildi auðvitað breytingar á aðstæðum hinna verst settu í samfélaginu en staðreyndin er sú að enn í dag, 140 árum eftir dauða hans, er viðhorfið hið sama í garð þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Það eru aldeilis framfarirnar.

___
* Óliver Twist er reyndar betri án söngs eins og BBC uppfærslan frá árinu 1985 ber með sér.

** Óliver Twist dirfðist að biðja um meiri mat en honum sem ómaga var ætlaður og uppskar mikla hneykslun. Þetta kveld sat stjórnarnefndin á fundi og ræddi alvarleg málefni. Vissi hún ekki fyrr en signor Bumble æddi inn í salinn og var á honum fát mikið; gekk hann rakleiðis fyrir manninn í háa stólnum og mælti: „Herra Limbkins, Oliver Twist hefur beðið um meira!“
Felmtri sló á alla stjórnarnefndarmenn við þessi orð.
„Beðið um meira?“ mælti maðurinn í háa stólnum.
„Verið þér nú rólegur, signor Bumble, og svarið mér greinilega. Á ég að skilja orð yðar svo, að hann hafði beðið um meira, eftir að hann hafði neytt þess matar, er honum bar að réttu samkvæmt reglugerðinni?“
„Já, það gerði hann, velæruverðugi herra!“ svaraði Bumble.


*** Nei, þetta er ekki prentvilla, hann sagði velferðargildra en ekki fátækragildra, því mestar áhyggjur hefur prestsonurinn af því að fólk upplifi svo mikla velferð á bótunum sínum að það vilji aldrei aftur vinna, enda þó ekki sé vinnu að hafa fyrir stóra hópa fólks. Hvor gildran ætli sé verri, fátæktargildran eða velferðargildran?

**** Fyrir þau sem ekki nenna að lesa alla samantektina er vert að benda á athugasemd Sigríðar Guðmundsdóttur undir lokin sem náði að sameina marga þætti sem fram komu.

Efnisorð: , , , , , , , ,

mánudagur, nóvember 22, 2010

Alltíeinu hafa fjölmiðlar ekki áhuga á umfjöllun um fjölmiðla

Það er ekki ofsögum sagt að fjölmiðlar hafa mestan áhuga á fjölmiðlum. Hvert sinn sem nýtt andlit birtist á sjónvarpsskjánum rjúka prentmiðlarnir til og taka viðtal við nýjasta meðlim fjölmiðlahringekjunnar. Um þetta eru fáránlega mörg dæmi en hér er eitt nýlegt: Fréttatíminn var varla búinn að bjóða góðan daginn áður en hann tróð sjónvarpsfréttakonu á forsíðuna og birti (umdeilt) viðtal.

Alltaf virðist vera haft í huga að svo framarlega sem fjölmiðlafólki sé hampað þá sé A) möguleiki á að það hampi hinu fjölmiðlafólkinu og þannig fái allir í bransanum að sýna eldhúsinnréttinguna sína og útlista hvað hafi mótað lífssýn sína, og B) með því að halda fjölmiðlafólki í sviðsljósinu fari nú ekki framhjá neinum að þetta er mjög mikilvægt fólk. Samt tilkynna alltaf allir fjölmiðlar, þegar kvartað er yfir því hve fá viðtöl eru tekin við konur og íþróttaiðkun kvenna er lítið sinnt og bara yfirleitt hve lítið sést af kvenfólki í fjölmiðlum nema hálfbert og skakandi sér, að hlutverk fjölmiðla sé að sýna heiminn eins og hann er (þ.e.a.s. karlar eru í öllum mikilvægu og mest spennandi hlutverkunum), en ekki sýna hvernig hann ætti að vera. Og í huga fjölmiðlafólks er heimurinn fullur af mikilvægu fjölmiðlafólki, þó að í hugum okkar hinna sé margt merkilegra.

Hermann Stefánsson rekur sjálfhverfu fjölmiðla og nefnir gott dæmi: „Varla er hægt að hugsa sér skýrara dæmi um þetta en nýja frétt á Eyjunni. Fréttin byggir á - eða er, raunar - athugasemd Gunnars Smára Egilssonar við aðra frétt. Hún fjallar alfarið um sögu fjölmiðla og samskipti þeirra við stjórnvöld á undanförnum árum.“

En semsagt, fjölmiðlar eru uppteknir af sjálfum sér en þó ekki þegar þeir eru gagnrýndir.* Nýlega tók Hildur Lilliendahl sig til og gerði hausatalningu á Fréttablaðinu og merkti inná hverja blaðsíðu kynjaskiptinginu, þ.e.a.s. hve margar konur voru viðmælendur eða á þær minnst og hve margir karlar. Útkoman var kostuleg eða sláandi eftir því hvernig á það er litið,* en umfram allt hefðu aðrir fjölmiðlar átt að vera stútfullir af fréttum um hve Fréttablaðið væri úti að skíta í jafnréttismálum. Gott ef Fréttablaðið hefði ekki sjálft átt að slá því upp að það væri nú ekki nóg með að blaðið væri prentað í stóru upplagi heldur legði fólk (einsog Hildur) sig greinilega fram um að lesa það.***

Það getur svosem verið að krísufundir séu nú tíðir á Fréttablaðinu og rannsóknarnefnd hafi verið sett í málið, en einhvernveginn grunar mig að hvorki Fréttablaðið né hinir fjölmiðlarnir**** séu á leið í gagnrýna sjálfsskoðun á næstunni; ekki á því hvernig þeir voru meðvirkir í góðærinu, ekki á því hvernig þeir voru/eru handbendi eigenda sinna og síst af öllu á því hvernig konur eru markvisst útilokaðar úr opinberri umræðu (séu þær ekki að flagga líkamsburðum sínum eða þekktar fyrir það). Sá veruleiki sem fjölmiðlar kjósa að birta okkur er ekki byggður á gagnrýnni sjálfskoðun heldur bara miðaður útfrá naflaló miðaldra kalla.

___
* Hermann bendir líka á að fjölmiðlar þoli ekki gagnrýni á sig og tiltekur gagnrýni á þáverandi ritstjóra DV sem hrökkluðust úr starfi sem Gunnar Smári sneri upp í eitthvað allt annað.
** Í athugasemdakerfinu við Fréttablaðsúttekt Hildar eru andstæðingar kvenréttinda mjög háværir en eru um leið lýsandi dæmi um hve málstaður þeirra er vondur enda fúkyrðin fjölbreytileg og réttast að vara fólk við að lesa hroðann.
*** Starfsfólk Fréttablaðsins veit af úttekt Hildar, eins og hún segir sjálf: „Ég hjó eftir þögn blaðamanna á Fréttablaðinu (ef þeir skyldu halda að hún hafi farið framhjá mér) en a.m.k. fjórir þeirra eru mér sæmilega málkunnugir og tvær þeirra kvenna sem skrifuðu í blaðið í gær eru kunningjar mínir.“
**** Smugan tók reyndar stutt viðtal við Hildi en þar er samt ekki einu sinni tengill á bloggfærsluna hennar eða nein skýring á því um hvað er rætt, fyrir Smugulesendur sem ekki þekkja til málsins.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, nóvember 16, 2010

Hjól atvinnulífsins, byggingarkranar og klikkaðir karlmenn

Í helgarblaði Fréttablaðsins var fróðleg grein um byggingarkrana. Þar var sagt að enn séu uppistandandi 70 kranar af þeim 320 sem gnæfðu yfir höfuðborgarsvæðið árið 2007. Þeir voru allir í fullri notkun þarna á hápunkti góðærisins en nú eru aðeins 24 af þessum 70 í notkun, hinir rorra einsamlir og engum til gagns.

Árið 2007 var þessara krana ekki þörf frekar en nú, en þá réði sú stemning að byggja sem mest því allir þurftu að græða á fasteignaviðskiptum. Margir þeirra sem þá voru að byggja, selja og kaupa eru nú í verulegum fjárhagsvandræðum. Næstum allir sem störfuðu við að reisa íbúðarhús og atvinnuhúsnæði eru nú atvinnulausir, eða ekki að starfa í byggingariðnaði enda er hann sem liðið lík.

Ég sá alla þessa krana og velti oft fyrir mér hverjir ættu að búa í öllum þessum húsum og leigja allt þetta skrifstofuhúsnæði. Þó óraði mig ekki fyrir hve klikkunin var mikil og offramboð húsnæðis var, það var ekki fyrr en ég fór að hlusta á Krossgötur sem var þáttur Hjálmars Sveinssonar í Ríkisútvarpinu, sem ég heyrði fyrst orðið „verktakalýðræði“ og að ekkert samráð væri milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og að hvert um sig væri í raun með offramboð á byggingarlóðum og þó bættist sífellt við. Heilu hverfin standa nú meira og minna mannlaus (t.d. undir Úlfarsfelli) og stórhýsi eins og Bauhaus standa ónotuð eftir þetta misheppnaða ævintýri.

En semsagt, þegar ég skoðaði greinina og myndirnar af byggingarkrönunum þá fór ég að hugsa um þá stemningu sem er víða um land og áberandi í sumum stjórnmálaflokkum og samtökum atvinnulífsins; sem er sú að það þurfi að ráðast í að virkja alveg helling og reisa svo nógu mikið af álverum útum allar koppagrundir.

Þessar raddir virðast ekkert ætla að hljóðna þó margbúið sé að benda á að framleiðsla rafmagns með vatni eða gufu séu nú kannski ekki eilífðarvélar heldur renni sitt skeið á kannski fáeinum áratugum. Og líka að álver séu ekki endilega framleiðsla framtíðarinnar, tildæmis er farið að nota kolefnatrefjar (e. carbon fiber) í æ meira mæli til að smíða bifreiðar og flugvélar, svo ekki sé nú talað um hve það efni er eftirsótt í hergagnaiðnaði.

En háværu röddunum sem æpa virkja! virkja! virkja! álver! álver! álver! stendur á slétt sama um hvaða atvinnugreinar eiga að taka við þegar búið er að þurrausa auðlindirnar (eins og búið að samþykkja að jarðhiti og vatnsföll séu kölluð) eða ál er ekki lengur vænleg söluvara. Ekki er litið á atvinnuleysi í byggingariðnaði og þá staðreynd að á höfuðborgarsvæðinu þarf ekki að reisa einn einasta steinsteyptan vegg hvað þá grafa fyrir húsi næstu áratugina sem ábendingu um að kannski væri betra að gera minna í einu og fara gætilega í stað þess að blása upp einn eina sápukúluna með engu innihaldi. Nei, ekki er litið á byggingarkranana sem áminningu um fáránlegt offors án framsýni og né á tóma húsgrunna sem fallgildrur heillar starfstéttar heldur er æpt að það þurfi að ræsa vélarnar og bretta upp ermarnar; alveg sama þó timburmennirnir séu fyrirsjánlegir.

Rétt eins og við sáum land, sem áður var griðland gæsa og smágerðs öræfagróðurs, sökkva undir risastórt uppistöðulón svo hægt væri að reisa virkjun og álver, getur verið að í stað einn daginn verði stemningshljóðið í hjólum atvinnulífsins orðið að gnauði í tómum súrálsturnum og jarðhitasvæðum í rúst með gagnslausum vélabúnaði í ryðguðum hrúgum til að kóróna níðingsskapinn.

Þurfum við fleiri minnismerki um klikkaða karlmenn?

Efnisorð: , , , , , ,

mánudagur, nóvember 15, 2010

Ekki er allur málstaður jafn góður og því styð ég ekki öll mótmæli

Ármann Jakobsson, sem í Silfri Egils var réttilega sagður vera beittasti stjórnmálabloggarinn, birtir athyglisverðan pistil í dag sem endranær. Hann fjallar þar um mótmælin sem leiddu til falls ríkisstjórnar Geirs Haarde og ber þau saman við tunnumótmælin í síðasta mánuði og útskýrir hver munurinn á þeim sé.

Ármann segir meðal annars þetta:
„Eins fagna ég því þegar hlustað er á mótmælendur sem hafa góðan málstað en öðru máli gegnir vitaskuld þegar málstaðurinn er verri. Þeir sem halda að allir sem styðja mótmæli af góðu tilefni verði samræmisins vegna að styðja öll mótmæli ættu helst að setjast aftur á skólabekk, á grunnskólastigi.“


Mér hefur einmitt fundist furðulegt hvernig fólk hefur talað eins og öll mótmæli séu jafngild. Ég færi til dæmis seint að mæla því bót að mótmælt yrði veru útlendinga á Íslandi eða teldi mér skylt að mótmæla því að Hells Angels fái ekki að starfa óáreittir. Þvílíkt rugl að með því að styðja ein mótmæli verði maður að hrópa húrra fyrir þeim öllum og helst mæta með lurk.

Ég „studdi“ vörubílstjóramótmælin vorið 2008 að því leyti að mér fannst frábært að einhver (sem reyndist vera Sturla, ekki gat mig grunað framhaldið) væri loksins farinn að kveikja á því að fólk ætti ekki alltaf að sitja heima og tauta í barminn væri það ósátt. Hinsvegar fannst mér frekar fáránlegt að mótmæla hvíldartíma bílstjóra sem var eitt af baráttumálum bílstjóranna. Þannig að mér fannst málstaðurinn ekkert endilega frábær og færu þau fram í dag myndi ég bara ekkert styðja vörubílstjóramótmælin en þau mörkuðu ákveðin þáttaskil sem ég fagnaði.*

Ég leyfi mér hiklaust að lýsa frati á sum mótmæli, fyrirfram jafnt sem eftirá.

__
* Áður hafði auðvitað Saving Iceland mótmælt en þau fengu allltaf á sig áveðinn stimpil sem atvinnumótmælendur, iðjuleysingjar, útlendingar eða eitthvað þaðan af verra sem „almenningur“ lét fara í taugarnar á sér og vildi því ekki feta í fótspor þeirra. Sturla og co sem fulltrúar vinnandi stéttar hífðu mótmæli inná almenningsplanið, sem mér finnst jákvætt.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, nóvember 13, 2010

Konur treysta ekki kerfinu og því þarf að senda kerfiskalla í endurmenntun

Í fyrradag þegar ég las að Björgvin Björgvinsson væri sérstaklega boðinn velkominn aftur til starfa sem yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar* þá velti ég fyrir mér að senda Ögmundi Jónassyni dómsmála- og mannréttindaráðherra tölvubréf eða jafnvel hringja í ráðuneytið og fá að tala við hann beint, og krefjast þess (til vara: sárbæna) að hann tæki í taumana og sæi til þess að konum sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi væri ekki sýnd þessi fádæma lítilsvirðing. Því það er ekkert annað sem yfirlýsingar Björgvins og Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara eru og það að þeir haldi bara áfram að vera æðstu menn þessa málaflokks er til háborinnar skammar.

Nema hvað, ég var í fullu starfi við að ná niður blóðþrýstingnum áður en ég legði til atlögu við Ögmund þegar ég sá í gær hefði verið haldinn fundur — að frumkvæði Ögmundar — með fulltrúum frá lögreglu, ríkissaksóknara, dómstólum, Stígamótum, Neyðarmóttöku vegna nauðgana, Jafnréttisstofu, Femínistafélagi Íslands, Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum, Kvennaathvarfinu, V-dagssamtökunum og öllum þingflokkum.

„Ögmundur Jónasson segir fundinn hafa verið gagnlegan og skoðanir manna ekki ýkja skiptar. „Ég held að kveikjan sé fyrst og fremst sú staðreynd að það eru ákveðnar vísbendingar um að fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi beri ekki nægilegt traust til kerfisins," segir ráðherrann.“

Án þess að það hvarfli að mér að löggur og saksóknarar hafi orðið fyrir hugljómun og verði allir aðrir í hugsunum og viðmóti eftir þennan fund, þá er mér samt stórlega létt. Bæði vegna þess að það þarf greinilega ekki að segja dómsmála- og mannréttindaráðherra það tvisvar að honum komi málið við og hann verði að bregðast við því, og vegna þess að þarna virðist að sem fulltrúum flestra ef ekki allra þeirra sem málið kemur við hafa verið boðið til þátttöku.

Hrafnhildur S. Gunnarsdóttir, ráðskona Femínistafélagsins, segir að „Upp úr umræðunum komu alls kyns tillögur um úrbætur, til dæmis að það væri mikilvægt að halda úti fræðslu fyrir dómara og aðra sem vinna að málunum svo að þolendur kynferðisafbrota mæti ekki skilningsleysi eða fordómum. En svo er líka ljóst að það skortir þekkingu á málaflokknum og að það þarf frekari rannsókna við."

Það er reyndar alveg stórfurðulegt að eftir alla umræðu síðustu tuttugu ára séu dómarar og aðrir sem koma að kynferðisbrotamálum hjá lögreglu og dómskerfinu séu enn fávísir og fullir fordóma. Það væri nú skemmtilegt ef þeir reyndu að fylgja okkur hinum inn í 21. öldina í stað þess að hanga á miðaldaviðhorfum sínum eins og hundar á roði.

___
* Var enginn ráðinn í stöðuna í millitíðinni eða var kynferðisbrotadeildin yfirmannslaus þar til Björgvin kom aftur? Stóð kannski aldrei annað til?

Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, nóvember 11, 2010

Karlveldið þéttir raðirnar

Tæpum þremur vikum eftir að ríflega 40 þúsund konur stóðu á Arnarhóli og mótmæltu kynferðisofbeldi er Björgvini Björgvinssyni boðið að gerast aftur yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar. Skýringin er sögð sú að það sé vegna þess að hann hafi „ætíð notið fyllsta trausts yfirstjórnar lögreglunnar“ og hann hafi „byggt upp starfsemi kynferðisbrotadeildar LRH frá því að hún var sett á laggirnar 1. janúar 2007 með afar góðum árangri.“ Árangurinn er sá að örfá mál sleppa úr klóm kynferðisbrotadeildarinnar og rata fyrir dómstóla. Löggurnar, undir stjórn Björgvins, hafa dundað sér við að telja kjarkinn úr brotaþolum og segja þeim að „líta í eigin barm“, semsagt allt bara konunum sjálfum að kenna.

En löggurnar svona voða glaðar með þennan árangur Bjöggans og að hann skuli hafa sagt upphátt við fjölmiðla það sem er hvorteðer skoðun þeirra allra. Ríkissaksóknari enda búinn að taka í sama streng og allir helstu kallarnir sem að málum koma greinilega á sama máli úr því að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins lýsir yfir stuðningi við Björgvin og yfirlýsingar hans með því að bjóða honum aftur vinnu (en eins og kunnugt er þá rak Ragna þáverandi dómsmálaráðherra Björgvin þó hann fengi að láta eins og hann hafi viljað víkja).

Það verður geðslegt fyrir konur að eiga samskipti við kynferðisbrotadeild lögreglunnar ef Björgvin sest þar aftur í stól yfirmanns. Viðhorfin fyrirfram skýr: „Þú ert að ljúga kelling og varst þaraðauki full. Vertu úti.“

Afsakið meðan ég froðufelli.

___
Viðbót: Á sömu síðu og Fréttablaðið greindi frá fundi dómsmála- og mannréttindaráðherra þar sem meðal annars fulltrúum ríkissaksóknaraembættis var boðið, er birt yfirlýsing sjö saksóknara og aðstoðarsaksóknara hjá embætti Ríkissaksóknara. Þar sýna þeir stuðning við Valtý og það sem hann gubbaði útúr sér yfir þolendur nauðgana. Mikið var það nú sætt af þeim.
Þetta er úr fréttinni um yfirlýsinguna: „Segja þeir meðferð nauðgunarmála vandaða og í fullu samræmi við gildandi lög. Þeir segja að þótt spjótin hafi einkum beinst að Valtý sé mesti þunginn í afgreiðslu nauðgunarmála hjá þeim.
„Um leið og við lýsum því yfir að við erum að sjálfsögðu viljug til að skoða alla málefnalega og rökstudda gagnrýni á störf okkar í því skyni að við getum gert betur, þá lýsum við því hér með yfir, með hliðsjón af ofangreindu, að Valtýr Sigurðsson nýtur fulls trausts okkar í starfi sínu sem ríkissaksóknari," segir í yfirlýsingunni.“ Verst að þolendur kynferðisbrota skuli ekki getað tekið undir þetta með þeim.

Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, nóvember 10, 2010

Við þurfum ekki fleira fólk

Núverandi fjöldi jarðarbúa er kominn um sjö milljarðar og eykst stöðugt.* Árið 1960 voru um 3 milljarðar, 1974 var talan 4 milljarðar. Árið 1987 rúmlega 5 milljarðar, 1999 6milljarðar. Það bætist því við mannfjöldann u.þ.b. milljarður á hverjum áratug.

Af öllum þessum fjölda er stór hluti bláfátækur og margir þeirra sem deyja gefa upp öndina vegna hungurs og fátæktar. Gríðarlegur fjöldi er á faraldsfæti, flýr heimkynni sín vegna náttúrufars, styrjalda eða fátæktar, og bætist því við íbúatölu landa og borga þar sem margir eru á fleti fyrir.** Lausnin getur ekki bara verið sú að setja allar konur í Afríku og Asíu á pilluna, eða setja upp kínverskar fólksfjölgunarvarnir í þeim heimsálfum, heldur væri kannski nær fyrir okkur hér á norðurhjaranum að hætta að líta á það með svona mikilli velþóknun hvað við erum dugleg að bæta við fólki í heiminn.

Vestræn börn eru mun þurftafrekari en þau sem eru fædd annarstaðar í heiminum, ekki vegna húðlitar eða uppruna, heldur vegna þess að þau eru fædd inn í samfélög sem eru bundin á klafa kapítalismans og eru gerð að neytendum um leið og þau koma í heiminn.*** Mér er slétt sama um „örlög hvíta kynstofnsins“ í þessum efnum.

Ég sé ekki að mannkyninu sem heild sé neinn greiði gerður að það gangi af sér dauðu með ljóshært fólk í broddi fylkingar; en ætli það að lifa áfram án þess að stúta jörðinni og leggjast í mannskæð stríð og útrýmingar á öðrum „kynstofnum“ þarf að gera ráð fyrir að framtíðin sé ekkert síður fólgin í höndum fólks sem getur rakið ættir sínar útfyrir landamæri vestrænna ríkja, hvernig svosem húðlitur þess er.

Ekki þarf að hvetja konur til barneigna nema síður sé.

___
* Mannfjöldi skv. tölum hér þegar ég var að skrifa pistilinn: 7.059.649.400. Wikipedia segir reyndar 6,880,596,091 og að við náum 7 milljörðum á næsta ári
** Heildarfjöldi þess fólks sem flosnað hefur upp frá heimilum sínum víða um heim, einnig þeir sem umboð Flóttamannastofnunar nær ekki til, er áætlaður yfir 40 milljónir manns – eða um 0,6% af íbúafjölda jarðar. Nú eru fleiri á flótta undan hlýnun jarðar en stríðsátökum en hlýnun jarðar hefur meðal annars í för með sér uppskerubrest, útbreiðslu eyðimarka, hækkun sjávarmáls, fellibyli og bráðnun jökla. Þá er ótalið allt það fólk sem flytur til annarra landa til að öðlast betri lífskjör: yfir landamæri Mexíkó til Bandaríkjanna, frá fyrrum Austantjaldslöndum til betur stæðra ríkja Evrópu o.s.frv.
*** Ármann Jakobsson bendir á neyslu Íslendinga í þessu samhengi: „ Nýleg athugun leiddi í ljós að það þyrfti 14 jarðir til að standa undir neyslu mannkyns ef allur heimurinn væri eins og Íslendingar. Önnur nýleg athugun sýndi hvernig Íslendingar skáru sig úr meðal Norðurlandanna fyrir að hafa litla sem enga tilburði sýnt til að draga úr útblástri gróðurhúsalofttegunda seinustu 20 árin. Það er ástæða til að rifja upp að lífskjör á Íslandi eru ekki aðeins góð miðað við umheiminn heldur eru þau of góð: mannkynið allt getur hreinlega ekki leyft sér þau lífskjör sem Íslendingar njóta nú þegar … Eða trúa menn því kannski að við séu valin af æðri máttarvöldum til að vera elíta heimsins sem verðskuldar margfalt margfalt meiri veraldleg gæði en allir aðrir?“
Svo er það matvælavandinn, eins og segir í grein Ásdísar Hlakkar Theódórsdóttur: „Íbúum jarðar fjölgar stöðugt, en á sama tíma eru loftslagsbreytingar að gjörbreyta og sumsstaðar kollvarpa möguleikum til fæðuframleiðslu vegna þurrka og jarðvegseyðingar. Svo ör hefur fólksfjölgunin verið að á næstu 50 árum þarf að líkindum að framleiða meiri matvæli, en sem nemur matvælaframleiðslu síðustu hundruðir ára samanlagt, til þess eins að brauðfæða heimsbyggðina.“

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, nóvember 09, 2010

Viðhorf og aðbúnaður með besta móti

Ein af forsendunum sem gefin er fyrir því í pistlinum sem Parísardaman vísaði til og fjallaði um unglingsstúlkur og fóstureyðingar, er sú að íslenskt þjóðfélag sé haldið „barnfyrirlitningu“, þ.e. barnfjandsamlegt. Þetta kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir.

Líklega fær engin stofnun jafn mikið af gjöfum frá almenningi og fyrirtækjum og Barnaspítali Hringsins. Heilbrigði barna er okkur öllum mikilvægt og velvildin í þeirra garð mikil, ef marka má þetta.

Á þeim árum sem samtök um kvennaframboð og síðar Kvennalistinn voru við lýði settu þau dagvistunarmál á oddinn og fleiri barnvæn málefni (og reyndar réttinn til fóstureyðinga) og þó ég nenni ekki að telja upp allt það góða sem þær ágætu konur lögðu til og varð að veruleika með einum eða öðrum hætti, þá verður að geta þess að þær upphófu mæðrahlutverkið upp í æðra veldi og hömpuðu börnum í tíma og ótíma. Margar myndir af Kvennalistakonum eru af þeim með börnin sín í fanginu og ritnefnd Veru, sem var málgagn þeirra, lét iðulega taka af sér þannig myndir. Varla hægt að tala um barnfyrirlitningu þar.

Mogginn hefur frá því að ég man eftir mér birt myndir af fjórum eða jafnvel fimm ættliðum kvenna og þarf ekki mikla útreikninga til að átta sig á að allar voru konurnar barnungar þegar þær ólu sitt fyrsta barn. Nýlega var í Fréttablaðinu svona mynd af sex ættliðum og útskýrt hvað hver kona hefur verið gömul þegar barnið (sem er þá um leið móðir næsta barns á myndinni) kom í heiminn. Engin þeirra hefur verið meira en tvítug þegar hún eignaðist dótturina, ein var átján ára og ein sextán. Ekki var tekið fram hvort dæturnar hefðu verið fyrstu börn þeirra. Ekki er að sjá að dagblöðin séu með þessu að viðra fyrirlitningu á ungum mæðrum. Frekar mætti halda því fram að hér þyki gott að unglingsstúlkur fæði börn, þó að í flestum öðrum vestrænum ríkjum þyki það miður og jafnvel talað um það sem ákveðið vandamál.

Þetta er einfaldlega ekki þjóðfélag sem fordæmir ungar mæður heldur styður þær á ýmsa lund rétt eins og aðrar mæður (þrátt fyrir niðurskurð á öllum sviðum eru hér enn greiddar barnabætur og fæðingar- og foreldraorlof). Samkvæmt „vísitölu mæðra“ er Ísland í þriðja sæti yfir þau lönd þar sem mæður eiga auðveldast með að sinna hlutverki sínu. Þá skiptir líka máli að dagvistunarmál hafa hér verið til fyrirmyndar eftir að Kvennalistinn kom þeim á koppinn og öll börn hljóta ókeypis skólagöngu og heilbrigðisþjónustu.*

Síðast en ekki síst þá eru börn allstaðar velkomin og þeim gert hátt undir höfði í allri afþreyingu: söfn bjóða uppá barnadagskrár, sundlaugar eru sniðnar að börnum (svo mjög að heilu sveitarfélögin fara á hausinn í viðleitni sinni til að bjóða þeim æsilegustu rennibrautirnar) og ef „barna-“ stimpillinn er ekki settur framan við viðburði er það vegna þess að verið er að höfða til fjölskyldunnar í heild, því fátt er það sem ekki er auglýst upp sem fjölskylduvænt eða í fjölskyldupakkningum.** Því er varla hægt að segja að börn eða barnafjölskyldur séu höfð útundan.

Að öllu ofansögðu er mér því óskiljanlegt hvernig hægt er að fá það út að fóstureyðingar séu vegna barnfyrirlitningar í samfélaginu og hér ríki virðingarleysi gagnvart móðurhlutverkinu.

___
* Reyndar eru tannlækningar af óútskýranlegum ástæðum ekki taldar til hennar og er því tannheilsa barna í engum takti við aðra heilsugæslu.
** Auðvitað er þetta kapítalískt en ekki endilega gert með hagsmuni barna eða fjölskyldna; verslun og þjónusta lítur fyrst og fremst á fjölskyldur sem stóran markhóp.

Efnisorð: , ,

mánudagur, nóvember 08, 2010

Fóstureyðingar, tenglar á eldri pistla

Ég hef margsinnis áður fjallað nokkuð ítarlega um fóstureyðingar eins og eftirfarandi fyrirsagnir bera með sér. Tengill er við hverja þeirra svo hægt sé að lesa pistlana í heild sinni.

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum

Fóstureyðingar verða að vera löglegar
(um eftirápilluna, ólöglegar fóstureyðingar og undantekningarnar sem flestir nema páfinn geta sæst á)

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum
(um stofnfrumurannsóknir og fóstureyðingar á síðari stigum meðgöngu)

Fóstureyðing eða ættleiðing

Helstu andstæðingar fóstureyðinga - karlmenn

Helstu andstæðingar fóstureyðinga - kaþólikkar

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd

Fóstureyðing - þegar guð drepur saklaus börn í móðurkviði
(um fósturlát)

Allskonar konur fara í fóstureyðingu
(þú þekkir konu sem gerir 'svoleiðis')

Fóstur finna ekki til sársauka
(um nýja rannsókn)

Efnisorð:

sunnudagur, nóvember 07, 2010

Börn að ala upp börn

Fyrir sléttum tveimur mánuðum las ég hjá Parísardömunni vangaveltur um ungar mæður og fóstureyðingar (undir titlinum Börn að eiga börn)* sem spunnust útfrá bloggi nornarinnar Evu sem hefur greinlega ákveðnar en þó sjaldheyrðar skoðanir á málinu. Í stuttu máli þá virðist nornin á móti fóstureyðingum almennt en þó sérstaklega að ungar stúlkur séu hvattar til að fara í fóstureyðingu vegna aldurs síns.

Það er fjarri mér að þykja eðlilegt að neyða nokkra konu, hversu gömul eða ung hún er, til að gangast undir fóstureyðingu. Hinsvegar þykir mér nokkuð skiljanlegt að foreldrar unglingsstúlku reyni að hafa vit fyrir henni sé hún ekki sjálfs sín ráðandi. Börn eru ekki öll eins og sum þeirra hafa ekki nokkurn skilning á því í hverju það felst að eignast og ala upp barn, jafnvel þó þau séu öll af vilja gerð að takast á hendur það verkefni.** Sumar unglingsstelpur eru betri mæður og uppalendur heldur en margar fullorðnar konur sem þó teljast valda verkefninu með sæmilegum hætti. Þetta er semsagt talsvert einstaklingsbundið en reglan hlýtur þó að vera nokkurnvegin sú að það sé ekki frábært að leggja móðurhlutverkið á herðar einstaklingi sem ekki hefur náð fullorðinsaldri. Það er ekki bara vegna þess að það getur sett skólagöngu hinnar ungu móður í uppnám, ekki heldur eingöngu vegna þess að hún er meira bundin yfir barninu og getur ekki sinnt vinum sínum, félagslífinu almennt eða djamminu sérstaklega, heldur rænir það hana að einhverju leyti æskunni og því að fá að þroskast á eigin hraða án þess að þurfa að bera ábyrgð á öðrum.***

Hverjir eru svo þessir aðrir, sem börnin — unglingamæðurnar — eiga að bera ábyrgð á? Jú, það eru börn. Börn sem eiga skilið að fá hið besta mögulega atlæti. Þau eiga að fá athygli, umhyggju, hvatningu og stuðning sem hæfir aldri þeirra hverju sinni. Gegnum tanntökur og að læra að lesa. Til að takast á við þá sem leggja þau í einelti. Þau eiga skilið að vera í umsjá fólks sem getur tekist á við óþekkt þeirra án þess að missa stjórn á eigin skapi, sem getur leiðbeint þeim í stað þess að refsa. Þau eiga skilið að eiga foreldra — helst auðvitað tvo foreldra en sannarlega eitt foreldri sem alltaf er til staðar — sem er fyrirmynd þeirra í lífinu og er þroskaður einstaklingur sem getur kennt þeim að meta góða hluti og forðast þá slæmu. Rétt upp hönd sem dettur fyrst í hug unglingur á miðju gelguskeiði, fullur af mótsögnum, hormónum og djammlöngun, sem kandídat í að ala upp barn?

Hellingur af fullorðnu fólki ræður ekki við þetta verkefni.

Auðvitað hefur uppeldi barna á börnum oft heppnast vel. Ekki spurning. En börn eiga betra skilið en að þau séu sett í hendurnar á öðrum börnum. Það bíða fáar konur skaða af því að bíða með barneignir fram yfir tvítugt.**** Margar eru hinsvegar lengi að komast yfir það að hafa ekki „fengið að rasa út“ því móðurhlutverkið hindraði þær á margan hátt meðan jafnaldrar þeirra voru enn frí og frjáls. Sama á við um að hafa ekki náð að mennta sig eða ferðast eins og hugurinn stóð til.

Enn verra er þó að mínu mati þegar mæðurnar ungu láta ekki afkvæmi stoppa sig í að taka þátt í skemmtanalífinu sem einkennist, eins og víðfrægt er, af taumlausri drykkju sem stendur yfir þar til dagur rís á ný — eða lengur. Börnunum er þá komið fyrir hjá ættingjum eða einhver enn yngri stelpa fengin til að passa og svo eru þau ekki litin augum fyrr en daginn eftir og er þá móðirin ekki endilega í því ástandi að geta sinnt litlu barni og öllum þörfum þess sem settar eru fram með mismunandi háværum hætti. Það einskorðast auðvitað ekki við ungar mæður heldur foreldra á ýmsum aldri, að láta drykkju og djamm hafa forgang fram yfir börnin sín og bjóða þeim uppá fyllerí á heimilinu, með tilheyrandi uppákomum sem meira og minna eru allar ógnandi í augum barna, og svo er restinni af helginni eytt í pirring og máttleysi þynnkunnar.*****

Um allan bæ situr fólk á fundum hjá sjálfshjálparhópum og á skrifstofum sálfræðinga og segir frá uppvexti sínum á heimilum þar sem móðirin eða faðirinn eða bæði stunduðu óhóflega drykkju. Ég hef aldrei hitt eða heyrt um nokkra manneskju sem segir að það hafi ekki haft áhrif á barnæsku sína, og þau áhrif eru alltaf neikvæð. Heimapartíin, ofbeldið sem hið drukkna foreldri beitir (andlegt, tilfinningalegt, líkamlegt eða kynferðislegt), þynnkumórallinn og skapsveiflurnar; þetta gerir líf barnsins oftar en ekki óbærilegt. Sumt af þessum börnum, sem eyðir stórum hluta fullorðinsáranna í að græða sárin með hjálp jafningja eða fagaðila, ólst upp hjá ungum mæðrum sem voru bara að „skemmta sér“. Þær vissu líklega ekki betur, en það bitnaði jafnt á börnunum fyrir því.

Ég ítreka að mér finnst ekki að nokkur kona eigi að fara í fóstureyðingu fyrir þrýsting annarra, hversu gömul eða ung hún er. Mér finnst bara ekki heldur að það eigi að líta á það sem sjálfsagðan hlut að hver sem er valdi móðurhlutverkinu.

___
* Ég ákvað strax að skrifa pistil eftir að hafa lesið blogg Parísardömunnar en sá framá að ég myndi ekki getað sagt allt sem ég vildi sagt hafa um þetta mál nema í löngu máli — eða mörgum pistlum. Munu þeir birtast á næstunni. Í þeim og vonandi hér reyni ég að haga orðum mínum þannig að ekki verði hægt að álykta að ég hati ungar mæður eða hafi persónulega reynslu af því að vera ung móðir eða vera alin upp af ungri móður.

** Hollenskir foreldrar 14 ára stúlku treysta henni til að sigla einsamalli kringum hnöttinn og sjálf telur hún sig fullfæra um það. Barnaverndaryfirvöld gripu í taumana en fyrir rest var stelpunni leyft þessi háskaför, en hvort sem það var nú gæfulegt eða ekki þá segir það ekkert til um að öll fjórtán ára börn séu fær um að takast á við annað eins og þessvegna urðu utanaðkomandi fullorðnir aðilar að grípa inní og vega og meta málið, alveg burtséð frá því hvað stelpan vildi sjálf.

*** Ég veit vel að fullt af unglingum lenda í því að þurfa að taka ábyrgð á öðrum þó ekki sé um eigin barneignir að ræða; foreldrum sínum séu þeir ekki heilir heilsu, systkinum sínum séu foreldrarnir vanheilir eða of uppteknir og þurfa þeir þá að taka á sig hlutverk hins fullorðna. Líka lenda því miður sum börn og unglingar í því að vera rænd æskunni á annan hátt; en þá erum við öll sammála um að það sé afar slæmt.

**** Eins og ég hef áður sagt: „Þó fóstureyðingar séu nauðsynlegur valkostur ef til getnaðar kemur þá er auðvitað mun betra að geta komið í veg fyrir getnað þegar barneignir eru ekki á dagskrá.“

***** Þegar fólk sem er jafnvel orðið þrítugt eða farið að halla í fertugt hegðar sér ítrekað svona, þá er það kallað alkahólismi og allir samþykkja að það sé vandamál. En þegar krakkar undir tvítugu hegða sér svona er það kallað að rasa út og „það gera þetta allir“, með öðrum orðum: þetta er álitið eðlilegt ástand því íslensk drykkjumenning er svona og allir yfir fermingu taka þátt í henni og þarafleiðandi eru margir þeirrar skoðunar að þetta sé normal. Hvaða skoðun sem fólk hefur á því þá eru þetta ekki normal aðstæður fyrir börn að alast upp við.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, nóvember 04, 2010

Þrefalt nei verður að fagnaðarlátum

Í dag fóru fram mótmæli á Austurvelli. Ég sá fréttir á netmiðlum fljótlega eftir að ljóst varð að mótmælin voru mjög fámenn og nennti því ekki að kveikja á sjónvarpsfréttum til að sjá umfjöllunina þar (er ekki hvorteðer alltaf handbolti á kvöldin og fréttir falla niður?). Fyrir rúmri viku voru önnur og stærri mótmæli á Arnarhóli, þau fengu talsverða umfjöllun en ekkert í samræmi við fjölda þátttakenda.

Eins og venjulega ber tölum ekki saman (í dag sögðu fjölmiðlar ýmist að um hundrað manns og allt uppí á fjórða hundrað hefðu verið á Austurvelli en á Arnarhóli voru samkvæmt þeim ýmist á milli 40 og 50 þúsund eða hátt í 60 þúsund) en ljóst er að hátt hlutfall vinnandi kvenna var þar saman komin — og var þó ekki sólskin og stillt veður í fagurlega föllnum snjó eins og tunnumótmælendur gátu notið í dag, heldur stormbeljandi svo vart var hægt að halda skiltum á lofti.

Konur, svona almennt höfðu því ærna afsökun fyrir að sleppa því að mæta niður í bæ. Það hafði reyndar þorri manna í dag líka því tilgangur mótmælanna í dag var að heimta stjórnarskipti án þess að til kosninga kæmi. Þeir sem hvöttu til mótmæla voru hrunvaldar, þingmenn þess þingflokks sem enginn kaus, fólk sem kunni ekki fótum sínum forráð í góðærisvímunni og vill að aðrir taki þátt í timburmönnum sínum og fólk sem hefur gullfiskaminni og trúir öllum hinum fyrrnefndu og ekki síst þeim sem plata það til mótmæla við gjaldþrotabú fyrirtækja sem rak í þrot löngu áður en bankarnir blotnuðu í brauðfæturna.

Reyndar gerði síðasttalda uppákoman það líklega að verkum að færri höfðu geð á að láta bendla sig við mótmæli dagsins, því eins og sjá mátti á jólapóstkortaveðrinu í Reykjavík í dag þá viðraði vel til útivistar. En fjöldi þeirra sem mótmælti náði þó ekki uppí fjölda atvinnulausra og gjaldþrota í Reykjavík svo ekki er hægt að kenna því um að atvinnurekendur hafi ekki gefið frí, svona eins og konurnar fengu í síðustu viku.

Konur gengu út klukkan 14:25 vegna þess að þá hafa þær þegar unnið fyrir launum sínum, slíkt er launahlutfall þeirra miðað við laun karla. Launamismuninum var mótmælt fyrst árið 1975 og enn er þörf á að benda á hann. En það var ekki eina málefni dagsins, yfirskriftin var „Konur gegn kynferðisofbeldi“. Konur gengu fylktu liði og héldu mótælafund þar sem við vorum í tugþúsundatali að mótmæla því að þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi af hálfu karla. Þessu litu fjölmiðlar alveg framhjá, þeir eru enn fastir í að telja allt í krónum og aurum og nenna ekkert að sinna öðru. Á þetta allt saman og meira til bendir Þórdís Elva Þórhallsdóttir í fínni grein í Fréttablaðinu í dag.

„Þeim 50 þúsund konum sem söfnuðust saman í miðbæ Reykjavíkur í slagviðri var ekki skemmt yfir þeirri staðreynd að þær eru með 66% af heildartekjum karla og að þriðja hver þeirra verði fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Okkur var ekki hátíð í huga þegar við fordæmdum nauðganir og sifjaspell á sviði sem svignaði undan roki og rigningu. Stormurinn sem gekk yfir borgina jók enn á áhrifin og sannaði að fundargestir voru ekki í skemmtigöngu, heldur samankomnir vegna baráttumáls sem er nógu mikilvægt til að standa af sér veður og vind.“


Baráttan kristallaðist svo í ræðu Sigrúnar Pálínu á fundinum, þessari talskonu þeirra fjölmörgu kvenna sem urðu fyrir barðinu á nauðgaranum sem biskupinn fyrrverandi reyndist vera. Ræða hennar endaði á þessum orðum sem við allar tókum undir með þreföldu nei-öskri.

„Til þín sem hefur hugsað þér að misnota barn eða fullorðinn í dag. Tímarnir eru breyttir. Þú getur ekki lengur verið óhultur i skjóli þöggunar.

Ég ætla ekki einu sinni að reyna að segja þér hvað þú gerir og hvaða afleiðingar það hefur fyrir fórnarlamb þitt, því að þér er nákvæmlega sama. Í sumum tilfellum trúir þú því líka sjálfur að börnin vilji þig.

Í dag segjum við frá verknaði þínum. Ef við getum það ekki vegna aldurs eða aðstæðna þá gerum við það þegar við erum orðin fullorðin.

Mundu bara að þú verður aldrei óhult/ur, jafnvel þó að þú sért dáin/n.

Við vitum hver þú ert, því getur þú aldrei gleymt og við gleymum þér aldrei.“

Að lokum vil ég biðja ykkur að hrópa með okkur þrefalt „Nei!“ – gegn kynferðislegu ofbeldi og öðru ofbeldi. Við hrópum það svo hátt að allur heimurinn heyri!“


Í sjónvarpsfréttunum var bara sýnt þegar við klöppuðum fyrir ræðunni en nei-öskrin okkar heyrðust ekki.

Efnisorð: , , , , ,

þriðjudagur, nóvember 02, 2010

Fyrir hvern er leikhús sem „ögrar og tekur á samfélagsmeinum“?

Það er liðin tíð að ég reyni að sjá allar íslenskar myndir í bíó. Til þess eru þær alltof margar og misjafnar að gæðum. Afogtil fær einhver íslensk mynd svo jákvæða dóma að mig langar til að berjast útí náttmyrkrið og sjá hana í bíóhúsi og maula popp (hljóðlega) á meðan. Það á tildæmis við um Brim sem nú er verið að sýna en þó hef ég ekki látið verða af bíóferðinni ennþá. Ástæðan er sú að ég hef séð stiklur úr myndinni og heyrt lauslega um söguþráðinn, og það litla sem ég veit um myndina útfrá því er það að sagan gerist um borð í fiskiskipi þar sem kona ræður sig um borð og einhverjir óhugnalegir atburðir gerast. Og vegna þess að ég er tortryggin þá hef ég ekki viljað sjá myndina fyrr en ég veit meir.

Það hefur orðið æ meira áberandi í leikhúsi, eins og í bíói, undanfarin ár að hafa kynferðisofbeldi til sýnis fyrir áhorfendur og því má alveg búast við slíku í verki sem Brimi, sem fyrst var sett upp í leikhúsi. Nýleg leikhúsverk á fjölunum hér virðast meira og minna koma inná eða hreinlega snúast um kynferðisofbeldi sem konur eru beittar og finnst mér stundum eins og umræða undanfarinna áratuga um kynferðisofbeldi (sem feministar komu af stað til að aflétta skömminni og koma þolendum til hjálpar) hafi komið eins og himnasending fyrir hnípna leikritahöfunda sem fannst sem búið væri að margfjalla um öll möguleg þemu sem kæmust fyrir í einu leikriti. Sifjaspell og nauðganir (eða hótanir um slíkt og undirliggjandi ógnir þegar ekki er beinlínis látið til skarar skríða) virðast núorðið eiga að hressa uppá hvaða þvælu sem er jafnt og þegar meiriháttar þjóðfélagsádeilur eru á svið bornar.

Önnur skýring gæti verið sú að leikritshöfundarnir séu einhverskonar fulltrúar þeirrar kynslóðar sem hefur séð svo mikið ofbeldi í sjónvarpi að hún þurfi meiriháttar ofbeldi og ógeð til að finnast eitthvað varið í það sem ber fyrir augu og með því fylgi alger skortur á samkennd. Samt þykjast sumir þeirra örugglega vera að fjalla á gagnrýninn hátt um alvarlega atburði og jafnvel að þeir séu að gera áhorfendum einhvern greiða með því að troða þessu ógeði í andlitið á þeim. En samúðin virðist mér vera yfirskin til þess að skrifa texta sem sæmir klámmyndum og sjá konur niðurlægðar. Svo má hreinlega líta svo á að verið sé að gera sér slíka atburði að féþúfu.

Einhverjir leikritshöfundana eru konur og leikstjórarnir sömuleiðis og kannski eru þær sama marki brenndar en hugsanlega líta þær á slík verk sem einhverskonar geðhreinsun (e. catharsis) fyrir sig og aðrar konur. Og jafnvel getur verið að einhverjar konur meðal áhorfenda upplifi það þannig líka, meira segja þær sem sjálfar hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi (en eins og ég hef áður sagt þá upplifa ekki allar konur þannig áfall eins).

En þegar 1/3 allra kvenna verður fyrir kynferðisofbeldi — og eins og vís maður benti á þá hafa allar konur sem komnar eru um sjötugt orðið fyrir einhverskonar áreiti vegna kynferðis síns um ævina og því líklegt að flestallir kvenkyns leikhúsgestir þekki þetta á eigin skinni: hvern er þá verið að upplýsa? — þá er spurning hvort áhorfendum upp til hópa sé greiði gerður með því að setja svona verk á svið?

Konur eru jú meirihluti þeirra sem fer í leikhús eða um 2/3 leikhúsgesta (og sér myndlistarsýningar — konur halda uppi menningarlífi hér eins og í öðrum löndum) og hafi 1/3 meirihluta leikhúsgesta (nú bregst mér reikningskunnáttan) upplifað óþægilega atburði sem þær kæra sig kannski ekki um að vera minntar á þegar þær bregða undir sig betri fætinum og fara á menningarviðburð, hvað þá ef vart er hægt að fara á slíka viðburði yfirleitt án þess að eiga á hættu að vera sífellt minnt á það. Konur sem enn þjást af áfallastreituröskun (sem stundum hverfur aldrei) geta hreinlega lent í því að endurupplifa atburðinn inni í fullum sal leikhúsgesta.* Sjónvarpinu er þó hægt að slökkva á heima hjá sér en það sem fer fram á sviðinu í þrívídd er alltaf nálægara en það sem er á skjánum. Má þá ekki minnka áhersluna á slík verk á fjölum leikhúsa, eða að minnsta kosti vara sérstaklega við þeim í stað þess að auglýsa þau sem „ögrandi“ og segja að þau „taki á samfélagsmeini“?

Það er ákveðinn vandi leikhúsa að ungt fólk sækir ekki leikhús og því eldast gestirnir (og eru því sjötugar konur með mikla lífsreynslu og ekki alla góða að baki). Á ofbeldisfullt leikverk að trekkja að yngri kynslóðirnar og jafnvel hina sjaldséðu ungu karlmenn? Kannski er verið að láta reyna á hvort þeir fá kikk útúr því að sjá konum nauðgað á sviðinu, svona umfram klámáhorfið sem þeir dunda sér við yfir tölvunni flestum stundum. Sé tilgangur leikritshöfundanna að vekja áhorfendur til vitundar þá eru það allavega ekki konurnar í salnum sem þurfa á henni að halda, og það vekur varla hjá þeim neinar sérstakar spurningar heldur, aðeins vanlíðan. Þær eru þó talsvert stöðugri og áhugasamari kúnnahópur leikhúsanna en ungu karlmennirnir.

Sem miðaldra kona sem er nánast hætt að fara í leikhús (og nú einnig bíó) þrátt fyrir einlægan áhuga á slíkri menningarupplifun þá er ég fyrir mitt leyti orðin hundleið á því að þurfa að bíða eftir leikdómum og ráða svo í misjafnlega skýrt orðaðar lýsingar á því hvers er að vænta í leikritinu. Reyndar spyr ég líka fólk sem hefur farið á verkið, eins og í tilviki bíómyndarinnar Brims,** til þess að ég sé nú ekki að sitja undir einu ógeðinu enn. Þá kemur oft fyrir að sýningum er hætt og ég missi því af þeim.

Ein þeirra sýninga sem ég sembeturfer fór ekki á, var Rústað, sem sýnt var í Borgarleikhúsinu í febrúar í fyrra. Fyrirsögn leikdómsins um verkið var „Níðingsverk í Borgarleikhúsinu“ og þar sagði Páll Baldvin Baldvinsson þetta:

„Ofbeldið er hér nakið: við sjáum barnaníðing koma langþráðum vilja sínum fram á fórnarlambi, honum síðan nauðgað og byssuhlaupi er stungið í endaþarm hans og hann augnstunginn,*** kornabarn deyr úr hungri og er étið og lokamyndin er í handriti býsna dökk: unga stúlkan sem eina sakleysið í verkinu snýr aftur […] eftir ofbeldisfulla nauðgun utansviðs.“

Ég hefði hugsanlega slysast til að sjá Rústað ef Páll Baldvin hefði ekki kveðið svo skýrt uppúr með hverskonar verk var þar á ferðinni. Hann segir reyndar líka þetta um leikverk þessarar tegundar:
„Rústað varð strax hneykslunarhella og umdeilt. Það tilheyrði bylgju ögrandi og ofbeldisfullra verka. Mörg þeirra hafa sést hér. Hreyfing þessi varð til í kimum leikhúss Vesturlanda en náði aldrei fótfestu, líkast til vegna öfganna sem hún sýndi með „splatter effectum“, látlitlu ofbeldi og vonarsnauðri uppgjöf. [...] Á verkið erindi hingað nú?“

Í blaðinu mátti síðar lesa nánast hreykna smáklausu sem hljóðaði svona:
„Rústað, sem Borgarleikhúsið sýnir um þessar mundir, er með ofbeldisfyllri leikverkum sem hér hafa verið sett upp. Þar er boðið upp á misþyrmingar, nauðganir og eitthvað þaðan af verra og þykja Björn Thors og Ingvar E. Sigurðsson fara á kostum sem ofbeldismaðurinn og fórnarlambið. Áhorfendum finnst nokkuð óþægilegt að sjá hrottaskapinn í návígi og það bregst ekki að nokkrir áhorfendur yfirgefa salinn á hverri sýningu. Þeir sem hafa tekið verkið mest inn á sig hafa meira að segja farið ælandi út.“****

Ekki tíðkast greinilega hausatalning eða kynjagreining hjá blaðamanninum sem skrifaði þessa lýsingu en mér þykir líklegt að þeim 1/3 kvenna í salnum sem þolað höfðu kynferðisofbeldi í einhverri mynd hafi ekki liðið vel undir þessum senum hvort sem þær gengu útaf sýningunni eða ekki.

Er kannski stefnan að fæla konur frá því að sækja leikhús?

___
* Reyndar var mín allra fyrsta bloggfærsla um þetta efni, þaðeraðsegja hvernig það að lesa texta, horfa á bíómynd eða leikrit getur hrundið af stað áfallastreituröskun (PTSD).

** Spurningin sem ég lagði fyrir þau sem hugsanlega gætu sagt mér eitthvað um Brim var á þessa leið: „Ef þú veist hvað þetta svakalega er sem gerist í myndinni ertu þá til í að segja mér það því mig grunar að vegna þess að það er kona um borð í skipinu þá snúist málið annaðhvort um að henni sé nauðgað eða að henni sé hópnauðgað. Hvort er það?“ Svarið kom mér á óvart og er á þá lund að hugsanlega læt ég verða af því að sjá myndina á næstunni.

*** Ólíkt því sem margir kynnu að halda, þá finnst konum kynferðisofbeldi sem snýr að körlum ekki geðslegt og það stuðar þær (líklega flestar) jafn mikið og slíkt ofbeldi þegar kona er þolandinn.

**** Úrklippan mín með þessari klausu er ekki dagsett. Aðra ódagsetta úrklippu á ég með skrifum Jórunnar Tómasdóttir í menningarblaði Fréttablaðsins þar sem hún segir að efniviður Rústað sé svívirðilegur og ennfremur þetta: „Ég leyfi mér að halda því fram að sýning verksins á sviði Borgarleikhússins sé svívirðileg móðgun við leikhúsgesti. Ef listin felst í því að hrúga saman hránöktum ofbeldisatriðum pökkuðum inn í samtvinnuð klúr- og blótsyrði þá viðurkenni ég vanmátt minn til slíkrar listskynjunar.“ Hún segir einnig: „Leikverk Söru Kane er byggt upp af samþjöppuðu, harðsoðnu, hráu ofbeldi og hryllingi eins svívirðilegu og verst getur orðið. Textinn er uppvafinn orðahnykill verstu og svívirðislegustu klúr- og blótsyrða sem finnast í tungumálinu.“ Hún segir jafnframt: „Hinsvegar mætti spyrja í hvers konar heimi við búum sem hampar leikverki sem þessu. Leikverki sem þar sem ofbeldinu og hryllingnum er samþjappað að því er virðist án nokkurs tilgangs annars en sýna það sem hránaktast.“

Magnað er að sjá andsvar ungs karlmanns við pistli Jórunnar á vefsíðu DV (ég veit ekki hvort það birtist í prentútgáfu blaðsins). Hann virtist álíta það toppinn á tilverunni að konan í verkinu fyrirgefur kvalara sínum og leggur fram skáldsöguna Vansæmd sem endar á svipaðan hátt (bók sem ég hafði ekki geð á að lesa) sem sönnun þess að nauðganir og ofbeldi séu nauðsynlegt innlegg í söguþráð. Já stelpur, sama hvernig karlmenn fara með ykkur, þá á alltaf að bjóða fram hinn vangann eins og Jesús!

Efnisorð: , , , ,