þriðjudagur, febrúar 28, 2017

Febrúaruppgjör 2017

Þótt febrúar sé stuttur þýðir það ekki að hann sé eitthvað minni um sig þegar kemur að hinu sívinsæla mánaðamótauppgjöri.

Forsetinn gerði þau mistök að grínast við menntaskólanema norðan heiða og endaði á að þurfa að útskýra - aftur og aftur - að hann hefði ekki vald til að banna ávexti og hefði í rauninni ekki áhuga á því heldur. Eina gagnið sem sú vitleysa hafði var að héreftir passar maður sig á að trúa ekki uppá erlenda þjóðarleiðtoga öllu því sem er sagt að þeir hafi fyrirskipað. Nema Trump, honum er trúandi til alls.

Óskarsverðlaunahátíðin breyttist í flokksþing Framsóknarflokksins þegar rangur sigurvegari var tilkynntur.

Ríkisútvarpið sem liggur undir ámæli um að vera fánaberi pólitískrar rétthugsunar fékk Jón Baldvin Hannibalsson og Óttar Guðmundsson í viðtalsþætti í sömu vikunni.

Bjarni Ben hefur enn ekki játað að hafa falið skýrslur til að þurfa ekki að ræða þær í kosningabaráttunni. Óttarr Proppé hefur enn ekki tekið ákvörðun um að láta undan þrýstingi Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar um að leyfa Klínikinni að reka heilbrigðisstofnun á reikning skattborgara með hagnað eigenda að leiðarljósi.

Enn var rætt um húsnæðisvandann en ekkert gert. Enn var rætt um ágang ferðamanna en ekkert gert.

Páll Stefánsson ljósmyndari skrifaði stuttan og sláandi texta um flóttamenn í Bangladess, en samkvæmt Páli telja Sameinuðu þjóðirnar það vera „langversta flóttamannavandamál í heiminum í dag. Mun verra en í Sýrlandi. Þarna er verið að fremja þjóðarmorð á þessari 1,5 milljóna manna múslimsku þjóð sem býr í nyrstu strandhéruðum Búrma.“ Um þetta hafði ég ekki heyrt áður, svo ég muni til.

Sömuleiðis berast hræðilegar fréttir frá Suður-Súdan þar sem lýst hefur verið yfir hungursneyð. Er það í fyrsta sinn í sex ár sem lýst er yfir hungursneyð í heiminum. Ríkisstjórn landsins sem og Sameinuðu þjóðirnar greina frá því að um hundrað þúsund Suður-Súdanar séu við það að svelta. Þá séu milljónir á barmi hungursneyðar. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir nærri fimm milljónir líða sáran skort. Einnig hefur verið varað við hungursneyð í Jemen, Sómalíu og norðausturhluta Nígeríu undanfarin misseri. Hungursneyð er formlega lýst yfir þegar að minnsta kosti tuttugu prósent heimila líða sáran skort og geta lítið við því gert, vannæring hrjáir meira en þrjátíu prósent íbúa og fleiri en tveir af hverjum tíu þúsund deyja úr hungri á degi hverjum (orðrétt en stytt úr frétt á Vísi).

Auk þess að rækta með sér mannvonsku sem lýsir sér t.a.m. með stríðum er mannfólkið í óða önn að eyðileggja jörðina. Það er því upplífgandi að lesa frétt frá NASA um að sjö plánetur hafa fundist. Á meðan jarðarbúar byrja að pakka mæli ég með að hlusta á The Planets eftir Holst, sem er einmitt tónverk um sjö plánetur: Mars, Venus, Merkúr, Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Ég legg til að nýju pláneturnar, að því gefnu að mannkynið leggi þær undir sig í framtíðinni, fái nöfn dauðasyndanna sjö. Pant flytja á letiplánetuna.

Sif Sigmarsdóttir minntist einmitt á frétt NASA í stórgóðum pistli þar sem hún ræðir trúleysi. Þar vitnar hún í rithöfundinn Ann Druyan sem var ítrekað spurð hvort eiginmaður hennar sálugi, Carl Sagan, hafi tekið trú á dánarbeði. Svar hennar, sem Sif kallar magnþrungna en jarðbundna ástarjátningu er trúleysisyfirlýsing dauðans! Þið lesið hana hér.

Brennivín-í-búðir frumvarpið hefur verið mikið rætt, ekki síst á þinginu í dag. Þessi skrifuðu í blöðin og lögðu skynsamleg orð í belg.

— Guðjón S. Brjánsson Samfylkingarþingmaður og Gunnar Ólafsson heilsuhagfræðingar skrifuðu saman grein sem er stútfull af mikilvægum staðreyndum málsins.

— Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG bendir m.a. á hagsmuni stórverslunarinnar í landinu en það er ekki síst þaðan sem krafan um brennivín í búðir kemur.

— Ögmundur Bjarnason geðlæknir hæðist miskunnarlaust að frjálshyggjumönnum, sbr. þetta:
„Hlýtur þá að liggja næst fyrir að ráðast gegn þeirri blindu forræðishyggju að takmarka áfengiskaup við aldur neytenda, þvert á eftirspurn og kröfur markaðarins. Heimurinn er jú fullur af peningum og allskonar og fásinna að láta það dragast að drekka þau vín sem hægt er að drekka strax.“
— Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir nálgast málið m.a. út frá börnum sem þjást vegna áfengisneyslu foreldra sinna.

Talandi um óhamingjusamar fjölskyldur. Magnús Guðmundsson skrifaði feikifínan leiðara um mikilvægi þýðingastarfs og hið snautlega fjármagn sem Miðstöð íslenskra bókmennta er skammtað til að styrkja þýðingar. Magnús byrjar (og endar) leiðarann á upphafsorðum Önnu Kareninu (í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar):
„Allar hamingjusamar fjölskyldur eru hver annarri líkar, en óhamingjusöm fjölskylda er jafnan ógæfusöm á sinn sérstaka hátt.“

Fjölskyldur og annað fólk verður einhverstaðar að búa, og Gunnar Smári skrifaði leiðara um húsnæðisekluna á höfuðborgarsvæðinu. Hann vill „uppbyggingu félagslegs íbúðakerfis sem hýst getur 30 til 40 þúsund fjölskyldur“, og segir að „eyðilegging verkamannabústaðakerfisisns undir síðustu aldamót er ein skammarlegasta pólitíska aðgerð sögunnar“. Orð að sönnu.

Björn Einarsson öldrunarlæknir hefur unnið á sjúkrahúsum sem veita líknarmeðferð og skrifaði í byrjun febrúar tvær greinar um líknarmeðferð, aðstoð við sjálfsvíg eða beina líknardeyðingu. (Fyrri og seinni grein.) Þetta er mikilvæg umræða og umhugsunarefni.

Bjuggust þið við að þetta endaði á léttum nótum?

Efnisorð: , , , , , , ,

mánudagur, febrúar 27, 2017

Andersen og Lind

Ég vorkenni alltaf hálfpartinn konum sem hafna feminisma, finnst eins og þær eigi eftir að vakna upp einn daginn og skammast sín (mörg dæmi um það svosem að stelpur hafni 'kynjakvótum' og hlæi að launamun þar til þær fara útá vinnumarkaðinn fyrir alvöru og reka sig á; sjá þá skyndilega óréttlætið sem þeim hafði verið margbent á). En þegar konur eru komnar í háar stöður í atvinnulífinu eða pólitík (auðvitað komast þær langt í lífinu enda greiða karlmenn frekar götu) og eru jafn forstokkaðar og verstu karlrembur í afstöðu sinni til kvennabaráttu og félagslegs raunveruleika þorra kvenna, þá finnst mér það ekkert fyndið lengur. Þegar konur sem hafa gert frjálshyggju að leiðarljósi lífs síns eru í viðtölum trekk í trekk og spúa útúr sér frjálshyggju- og karlhyggjuviðhorfum (við fögnuð karlrembusvína) þá er mér ekki skemmt.

Líklega ætti ég að skrifa langa ritgerð um þvæluna úr Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og Sigríði Á. Andersen (hef reyndar eitthvað skrifað um þá síðarnefndu) en ég er svo heppin að Guðmundur Andri Thorsson skrifaði heilan pistil um pung-ummæli Heiðrúnar Lindar, en þegar hún ræddi um launakjör kvenna sagði hún að konur „vantar dálítinn pung“. Mér finnst pistill Guðmundar Andra ágætt svar (þótt ég taki ekki undir lofgjörð hans til pungsins) við þessari þvælu, og vísa því bara á pistil hans.

Annars finnst mér Hugleikur Dagsson hafa náð kjarna ummæla Heiðrúnar Lindar með þessari teikningu.





Efnisorð: , , ,

sunnudagur, febrúar 26, 2017

Silfur fyrir fleiri en Egil

Silfur Egils er aftur komið í Sjónvarpið á sunnudagsmorgnum, nema nú heitir það ekki lengur Silfur Egils heldur bara Silfrið. Egill Helgason er nefnilega ekki lengur einn með þáttinn því Fanney Birna Jónsdóttir er nú með þáttinn á móti honum. Í dag var Fanney ein og tók þá viðtal við Sóleyju Bender pró­fessor við hjúkr­un­ar­fræði­deild HÍ sem er formaður starfshóps á vegum velferðarráðuneytisins sem skilaði nú fyrir helgina af sér skýrslu um „heildarendurskoðun á lögum um fóstureyðingar auk fleiri mála“.

Í skýrslunni „er í fyrsta lagi lagt til að í stað þess að nota hugtakið fóstureyðing verði hugtakið þungunarrof notað.“ Einnig að ekki þurfi lengur tvo fagaðila til að heimila þungunarrof eins og nú er.

Undir „fleiri mál“ flokkast tillögur um fræðslu og ráðgjöf um kynheilbrigði, og aukið aðgengi að getnaðarvörnum fyrir unglinga. Þá er lagt til að lækka megi lágmarksaldur til að fara í ófrjósemisaðgerð niður í 18 ár (er 25 nú).

Samkvæmt heilbrigðisráðherra er tillögunum ætlað að vera grundvöllur við gerð frumvarps að nýrri löggjöf um þessi mál, segir jafnframt í frétt á Vísi.

Í viðtalinu í Silfrinu sagði Sóley Bender meira og minna það sama og í frétt Vísis, svo orð hennar komu ekki mikið á óvart. Það sem kom mér aftur á móti á óvart þegar ég horfði á Silfrið, var að Sóley væri yfirhöfuð í þættinum. Því hvenær hefði Egill Helgason lagst svo lágt að ræða svo kvenmiðað efni eins og þungunarrof eða álíka vitleysu úr feministum? Það eru mikil tíðindi að fjallað sé um þetta málefni í Silfrinu, og það jákvæða framtak skrifast algjörlega á Fanneyju.

Því öfugt við það sem margir halda (fram) þá skiptir kyn þáttastjórnenda máli — sem og annarra stjórnenda.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, febrúar 24, 2017

Þingmenn trompa lyganiðurstöður alþjóðastofnana

Það var stormasamur dagur fyrir íslenskt dómskerfi í dag. Sumpart má fagna niðurstöðu endurupptökunefndar vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, en augljóslega er áralangri baráttu Erlu Bolladóttur gefið langt nef.

Í sal Alþingis var tekist á um frumvarp dómsmálaráðherra um millidómsstig (áfrýjunardómstól sem mun verða kallaður Landsréttur), þ.e. breytingartillögu minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar um sem vill bæta þessari setningu við þar sem fjallað er um ráðningu dómara: „Ráðherra skal gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt.“ Eru enda margir uggandi um kynjahlutföll við Landsrétt þegar dómsmálaráðherra hefur gert lítið úr því að kyn dómara skipti máli.

Athyglisvert var að fylgjast með umræðum um breytingartillöguna og þá ekki síst orðaskiptum milli Rósu Bjarkar Brynjólfsóttur þingmanns Vinstri grænna og Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Ræðurnar eru ekki enn tiltækar í rituðum texta á vef Alþingis svo hér er stuðst við sérlegan einkaritara bloggsins sem skrifaði niður eftir hljóðupptöku.)

Rósa Björk:
„Í andsvörum hér áðan varð háttvirtum þingmanni Brynjari Níelssyni tíðrætt um Sameinuðu þjóðirnar og til þess að vitna aðeins í fyrri ræðu háttvirts þingsmanns um nákvæmlega sama mál, þetta frumvarp, þá langar mig að vitna í orð hans hér sem féllu 7. febrúar:

„Það er ekki djúpstæður halli í dómskerfinu og réttarkerfinu. Ég nefni lögreglustjóra, ákæruvald og héraðsdómstóla, þar er orðið talsvert mikið jafnræði, sums staðar held ég að halli á karla ef út í það er farið. Það er ekki djúpstæður halli.“

Samt sem áður kom nefnd Sameinuðu þjóðanna hér á síðasta ári með þau tilmæli til íslenskra stjórnvalda að mikilvægt væri að fjölga konum í lögreglu, í Hæstarétti, til að uppfylla skyldur Íslands samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Og lagði áherslu á að gripið yrði tafarlaust til aðgerða, jafnvel sérstakra aðgerða eins og við kynjakvóta til að fjölga konum hratt í dómskerfinu.

Mig langar að heyra hvert er hans álit á þessum tilmælum og hvernig eigi að gera það?“
Svar Brynjars Níelssonar (nokkuð stytt):
„Ég get sagt frú þingmanni það að ég hef ekkert álit á mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Bara ekki neitt.
[…]
Og ég veit ekkert hver gefur þessum blessuðum mönnum í þessari nefnd upplýsingar um þennan meinta kynjahalla. Hverjir gefa þessar upplýsingar? Er það VG? […]
Hvaða djúpstæði halli er þetta? Af því að Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna segir það. Þetta er bara einhver þvæla.“
„Ég hef ekkert álit á mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna“, það munar ekki um það.

Í gær lýsti svo Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um brennivín-í-búðir frumvarpið á Alþingi
„efasemdum sínum um gildi rannsókna sem benda til þess að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu líkt og Alþjóðaheilbrigðisstofnun og Landlæknisembættið hafa ítrekað varað við.“ Eins og Stundin bendir á er„ Álitið sem Teitur reiddi fram í ræðustóli Alþingis er í andstöðu við álit Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Landlæknisembættisins.“
Semsagt. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins efast um niðurstöður vísindarannsókna og álit alþjóðastofnana, og lýsa því yfir að þeir hafi ekkert álit á mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins almennt bara nokkuð sáttir við þessa þingmenn sína?


Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, febrúar 22, 2017

Náttúrulega Óttar

Óttar Guðmundsson geðlæknir hefur gert í því undanfarin ár að rausa um það sem honum finnst vera aumingjavæðing, aumingjaskapur, sjálfsvorkunn og fórnarlambahugsun. „Allir sem eru ekki hressir eru kúkar“ virðist vera hans mottó. Furðulegur starfsvettvangur að vera geðlæknir miðað við skoðanir hans á fólki sem hefur af ýmsum ástæðum átt um sárt að binda. En kannski er hann ekkert að lækna lengur heldur bara skemmta sér við að skrifa níðgreinar undir rós um fyrrverandi sjúklinga sem fóru í taugarnar á honum.

Enda þótt þessi hrelliklámsfávitaummæli hans séu ömurleg, eru þau alveg í stíl við annað sem frá honum kemur. Hann er bara enn einu sinni að níða fólk (konur) fyrir að vera þolendur illvirkja varmenna, fávita og glæpamanna.

Óttar virðist að auki halda að stelpur/konur taki alltaf upp á því hjá sér sjálfar að taka af sér nektarmyndir en ekki fyrir þrábeiðni viðtakanda/kærasta. „Treystirðu mér ekki?“ er setning sem er auðvitað notuð til að veikja varnir stelpunnar sem vill hafa varann á og tregðast við að senda mynd. Og hver á svosem að vita að sæti kærastinn sé á bandi Óttars og finnist það „náttúrulega“ sjálfsagt að dreifa myndinni síðar meir?

Annars er áhugavert að lesa athugasemdahalann við umfjöllun Vísis um Óttarsþvæluna. Þar standa Stefán Birgir Stefáns (sem einnig skrifar sem „Leikmaður les Biblíuna“) og Hildur Guðjónsdóttir sig eins og hetjur við að svara aðdáendum Óttars og viðhorfa hans.


Efnisorð: ,

laugardagur, febrúar 18, 2017

Meistarar mánaðarins

Það er ekki vegna konudagsins á morgun sem hér verður vísað á ýmisleg skrif eftir konur, heldur er þetta samviskjujöfnum vegna skammarlegs kynjahalla, því blogghöfundi verður það sífellt á að vitna oftar í karlmenn en konur. En ekki núna sko.


Kristín Kolbrún Kolbeinsdóttir Waage skrifaði pistil um líkamsstaðla, ofbeldi og neikvæðar fyrirmyndir drengja.
„Jafnvel þótt ofurhetjukvikmyndir séu vinsælar núna og ekki ætlaðar börnum þá virðast ungir drengir vera aðalskotmark varnings sem tengist ofurhetjum. En fyrst ofurhetjur eru góðar og bjarga heiminum er það ekki bara hið besta mál?

Að mínu mati eru þetta ekki æskilegar fyrirmyndir fyrir unga drengi þar sem þeirra helsta og eina lausn á vandamálum er ofbeldi. Slagsmál, vopn og sprengjur eru oftast meginþema þessara kvikmynda og birtist þetta einnig í teiknimyndaþáttum um þessar ofurhetjur sem eru ekki bannaðir börnum. Nútíma ofurhetjur eru í breyttari mynd, þær setja ákveðna líkamsstaðla sem erfitt er að fylgja. Hægt er að kaupa ofurhetjubúning með viðbættum vöðvum, því ofurhetjur eru og eiga að vera vöðvastæltar. Hetjurnar starfa flestar einar, eru miklir einfarar og virka oft félagslega bældir menn sem eiga erfitt með að festa ráð sitt. Ofurkraftar þeirra og vopn gera þeim kleift að sigrast á illmennum sem heilum her af lögregluþjónum er ógerlegt. Ef ofurhetjurnar hafa ekki ofurkrafta þá hafa þeir vopn eða rosalega bardagahæfileika.“
Ingibjörg Björnsdóttir sem búsett er í Sisimut á Grænlandi skrifaði áhrifamikinn pistil um ofbeldi í uppeldi sínu í Breiðholti og aðstæður í Grænlandi (birtist fyrst á Kalak.is og svo á Vísi).

Kristín Ólafsdóttir skrifaði glansandi fínan bakþankapistil um „harkalega ádeilu á stjórnlausa neytendavæðingu hátíðisdaga“ og ber að lesa hana sem slíka.

María Bjarnadóttir skrifaði sömuleiðis bakþankapistil en hennar viðfangsefni var meistaramánuðurinn (þessi sem nú stendur yfir). Hún talar um eigin markmið og annarra og segir jafnframt að:
„Sum meistaramarkmið geta haft jákvæðar afleiðingar fyrir fleiri en okkur sjálf. Til dæmis gætu allir sett sér það markmið í meistaramánuði að nauðga engum. Ég hef lesið að þegar manneskjur eru búnar að gera sama hlutinn 21 dag í röð séu verulegar líkur á að það hafi varanlega áhrif og verði auðveldlega hluti af daglegri rútínu í framhaldinu. Það eru 28 dagar í febrúar, svo meistaramánuður ætti akkúrat að duga.

Fyrir suma verður þetta mjög auðvelt af því að þeir eru ekkert að nauðga. Þetta verður erfiðara fyrir aðra. Það væri betra ef enginn þyrfti að hafa nokkuð fyrir því að ná þessu markmiði. Það væri best ef okkur gengi svo vel í meistaramánuði að það tækist að gera nauðgunarlausan lífsstíl að sjálfsögðum hluti í lífi okkar allra.“
Sara Stef. Hildardóttir sagði frá því í viðtali við Kristjönu Björgu Guðbrandsdóttir blaðamann þegar ráðist var á dóttur hennar og ræddi ofbeldi gegn konum yfirleitt.
„Konur hafa of lengi verið hluti af hagkerfi karla en það kerfi fjallar ekki bara um vald þeirra yfir konum heldur líka aðgang þeirra að þeim. Það er þar sem kynferðisofbeldið á sér stað; þegar karlar upplifa konur sem hluta af rétti sínum í samfélaginu. Þetta valdakerfi er orðið gamalt og lúið og því miður eru það svona hræðilegir atburðir eins og árásin á Birnu og morðið á henni sem verða notaðir til að kynda undir umræðunni um að konur þurfi að draga sig í hlé, láta lítið fyrir sér fara og bera ábyrgðina og skömmina ef á þær er ráðist. Ítrekað og endurtekið.

Það er óþolandi samfélag sem reynir ekki að bæta sig. Kynbundið ofbeldi er reglulegt og kerfisbundið í samfélaginu. Birna er dæmi um það. Við skulum ekki vera sammála um að konur eigi að láta sér blákalt morð á ungri konu að kenningu verða. Við skulum ekki vera sammála um að konur og stelpur geti ekki gengið einar um á kvöldin, að þær þurfi að hafa lyklana á milli fingranna eða þykjast tala í símann, að þær þurfi bara að fara á sjálfsvarnarnámskeiðið og hafa piparúðann tiltækan því þannig geti þær verið frjálsar; innan ákveðinna marka og ef þær bara taka á sig ábyrgðina.“
Viðtöl við fleiri konur fylgja þessari ágætu umfjöllun Kristjönu blaðamanns sem einnig er vert að lesa.

Sif Sigmarsdóttir, alltaf góð, skrifaði í janúar opið bréf til Guðlaugs Þórs Þórðarssonar utanríkisráðherra. Tilefnið er Trump og tilskipun hans um að stöðva ríkisstyrki til erlendra hjálpasamtaka sem styðja fóstureyðingar (eins og var reyndar fjallað um hér á blogginu). „Ríkisstjórn Hollands vinnur nú að því“, segir Sif, „að koma á alþjóðlegum sjóði sem ætlað er að vinna gegn tjóni því sem fornfáleg viðhorf Trumps til fóstureyðinga valda“. Og Sif spyr hvort ríkisstjórn Íslands hyggist eiga aðild að þessum sjóði. Góð spurning og góð hvatning.

Veronika Ómarsdóttir skrifaði pistil um viðmótið sem mætir henni í Austurríki þar sem hún býr.
„Ég get ekki annað en verið þakklát landinu sem ég bý í og fólkinu fyrir að hafa tekið svona vel á móti mér. Ég hef aldrei fundið fyrir fordómum, fólkinu hérna úti finnst það yfirhöfuð bara vera frekar magnað, að ég hafi bara flutt til annars lands til að læra og að ég hafi náð tungumálinu svona vel á svona stuttum tíma.

En ég er auðvitað hvít ung kona frá Íslandi. Ég er ekki að flýja stríð. Ég fór ekki til landsins nauðug og allslaus. Ég er ekki flóttamaður.“
Og svo kemur fremur átakanleg lýsing á samferðafólki hennar í lestarferðum: flóttamönnum á öllum aldri sem eru daprir og áhyggjufullir. Áhrifamikil lesning.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifaði fínan pistil um brennivín-í-búðir frumvarpið. Hann byrjar svona:
„Hver er munurinn á því að afnema sykurskattinn og leyfa sölu áfengis í matvörubúðum? Hvort tveggja stríðir gegn lýðheilsumarkmiðum og leggur auknar byrðar á heilbrigðiskerfið. Réttur þingkonunnar Áslaugar Örnu til að kaupa sér hvítvín með humrinum í Melabúðinni, svo tekið sé frægt dæmi úr umræðunni, kostar peninga og þeir eru sóttir í vasa einhverra annarra.

Munurinn er í raun enginn.

Þegar við rekum hér sameiginlegt samfélag er eðlilegt að huga að hagsmunum heildarinnar. Ákvörðun um að auðvelda aðgengi að áfengi er ákvörðun um að auka neysluna. Henni fylgir tilheyrandi álag á heilbrigðisstofnanir og það kostar peninga og ómældar þjáningar. Ákvörun um að skattleggja sykur minna en innflutt grænmeti er að sama skapi ákvörðun sem stuðlar að óheilbrigði.“
Allt er þetta holl lesning.

En síðast en ekki síst ber að dást að Julie Andem sem skrifað hefur handritið að Skam og leikstýrði einnig öllum 33 þáttunum sem gerðir hafa verið. Algjör snillingur.

Efnisorð: , , , , , , , , , , ,

föstudagur, febrúar 17, 2017

Yngstu matgæðingarnir — ströngustu kröfurnar

Yfirskriftina hér má finna í heilsíðuauglýsingu Nestlé í sérblaðinu Fyrstu skrefin sem fylgir Fréttablaðinu í dag. Svo kemur fullyrðingasúpa sem má sjá á meðfylgjandi mynd. Til mótvægis legg ég fram (tengla á fjórar: 1, 2, 3, 4) gamlar bloggfærslur sem ég hef skrifað um Nestlé. Í ljósi þeirra er síðasta setningin í auglýsingunni eiginlega algjört met:
„Það dugir jú ekkert minna fyrir mikilvægustu manneskjur í heiminum!“
Hverjar eru þá mikilvægustu manneskjurnar í heiminum, frá sjónarhóli Nestlé? Það eru greinilega ekki börn (eða annað fólk) í fátækari ríkjum heims. Sennilega eru íslensk börn mikilvægustu manneskjurnar í heiminum, eða allavega vestræn börn. Helst þessi hvítu allavega.

Af öllu neysluhegðunarmynstri er einna verst það sem birtist í því að foreldrar kaupa vörur frá Nestlé því þau vilja barninu sínu vel. Því Nestlé vill (ekki öllum) börnum vel.


Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, febrúar 16, 2017

Góður grunnur fyrir fjölbreytta myndatexta

Halldór Baldursson skopmyndateiknari gerði gott gys í Fréttablaðinu í dag, eins og oft áður. Að þessu sinni hafði hann reyndar notað myndina áður en hafði nú breytt um texta. Það er fjarri mér að gagnrýna endurnýtt efni því eins og blogglesendur kannast mæta vel við (og eru jafnvel mjög mæddir) þá endurbirti ég og vísa linnulaust í gamla pistla.

Það vill svo til að ég er sammála texta Halldórs í bæði skiptin en finnst samt eldri útgáfan beittari og höfða meira til mín. Enda hef ég haft þá mynd uppivið allt frá því ég klippti hana úr Fréttablaðinu í fyrra og notaði hana í pistli um Bjarna Benediktsson og flokkinn hans; og ætlaði reyndar að nota myndina aftur við svipað tækifæri. Enda segir hún sannleik sem verður aldrei of oft kveðinn.

En hér eru semsagt báðar myndirnar, fyrst sú eldri og svo þessi sem var í blaðinu í morgun.







Efnisorð:

þriðjudagur, febrúar 14, 2017

Deila útgerðarinnar við sjómenn

Ég hrökk við þegar Guðmundur Andri Thorsson sagði í pistli í gær að „fólk lætur lítið í sér heyra til stuðnings sjómönnum“. Áttaði mig á að hér hefur ekki verið skrifaður stafur um sjómannaverkfallið, og liggur þó samúð mín algjörlega hjá sjómönnum. Hér verður því riggað upp smá pistli sem bæta á úr þessari vanrækslu.

Fyrst smá-næstum-hrós til nýja sjávarútvegsráðherrans. Mér hefur fundist svoldið töff hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að neita að setja lög á sjómannaverkfallið. Hún hefur sagt að útgerðarmenn og sjómenn verði að semja um það sín á milli án aðkomu ríkisvaldsins. Þetta hljómar eflaust eins og stríðsyfirlýsing í eyrum fyrrverandi átrúnaðargoðs hennar í Hádegismóum, sem nú er launamaður hjá útgerðarmönnnum. En svo skyndilega sextánfaldaði hún loðnuveiðikvótann; færir hann ókeypis til útgerðanna. Undanfarna daga hafa hlutabréf í HB Granda stórhækkað, svona eins og einhverjir hafi vitað að loðnukvótinn væri að fara að detta í hús. Ekki að nokkrum detti í hug að innan Sjálfstæðisflokksins Viðreisnar sé fólk sem nýtir sér innherjaþekkingu sér til fjárhagslegra hagsbóta.

Uss nei.

Þessvegna er það örugglega bara þvæla (sem einhver kommadindill fann upp) að
„stóru útgerðirnar kunni hér að ráða ferðinni og hugsi sér jafnvel gott til glóðarinnar þegar minni útgerðir fara í þrot vegna verkfallsins því þá verður auðvelt að nálgast kvóta þeirra á nauðungaruppboðum“,
eins og lesa mátti um í pistli Guðmundar Andra í gær.

Deiluatriðin milli sjómanna og útgerðarinnar eru sirka þessi, eins og rakin eru í sama pistli:
fæðiskostnaður, þátttaka sjómanna í olíukostnaði, „gott ef ekki kostnað við internettengingar um borð“, og telur þó ekki með markaðsverð fyrir aflann sem hlýtur að vera ein krafan í samningaviðræðunum.

Mér finnst reyndar undarlegt að einhverntímann hafi því verið komið yfir á sjómenn að þeir taki þátt í olíukostnaði. Í hverskonar kjarasamningum fólks í landi þarf starfsfólk að borga upphitunar- eða rafmagnskostnað hússins sem það vinnur í? En útgerðir hafa semsagt komið þessum kostnaði yfir á starfsmenn sína á sjó. Núna finnst útgerðarmönnum réttast að sjómenn fái skattaafslátt af dagpeningum (það mun vera fæðispeningadeilan sem áður er nefnd), sem þýðir auðvitað að skattgreiðendur eigi að borga brúsann frekar en útgerðin sjálf. Einhverntímann hét slíkt pilsfaldakapítalismi. Ríkinu er semsagt ætlað að hlaupa undir bagga með útgerðunum. Varla er það vegna þess að útgerðirnar standi illa. Síðastliðið sumar skýrði Kjarninn frá því að
„Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja jókst um 265 milljarða króna frá lokum 2008 og út 2014. Hagnaðurinn var 242 milljarðar og arðgreiðslurnar tæplega 50 milljarðar. Samt hafa veiðigjöld lækkað úr 12,8 milljörðum í 4,8 milljarða.“
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS (áður LÍÚ) hefur haldið uppi þessari kröfu um að ríkið felli niður skatta á sjómenn og talar um það sem sjálfsagðan hlut. Sú krafa fékk litlar undirtektir hjá Indriða G. Þorlákssyni fyrrverandi ríkisskattstjóra sem hraunar yfir hana í mögnuðum pistli á Kjarnanum.
„Framkvæmdastjóranum finnst það miður og kallar það dylgjur að bent er á að þessar kröfur útgerðarinnar feli í sér niðurgreiðslu á útgerðarkostnaði. Það að kallaða hlutina hreint út sínu rétta nafni er ekki dylgjur. Skattalegar ívilnanir til einstakra hópa eða fyrirtækja eru ætíð niðurgreiðsla á kostnaði við starfsemina, skattfé almennings er þá notað til að greiða niður kostnað við atvinnurekstur. Að segja þetta umbúðalaust heitir á máli framkvæmdastjórans “að hafa allt á hornum sér gagnvart íslenskum sjávarútvegi.” Ég held að þar skjóti framkvæmdastjórinn illa yfir markið. Flestir, þar með taldir þeir sem nefna þessa hluti réttum nöfnum, meta íslenskan sjávarútveg mikils. Þeir eiga hins vegar erfitt með að sætta sig við það að þeir sem hafa fengið einkaleyfi á því að nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar og stinga þegar nær öllum arði af henni í eigin vasa, vilji nú einnig láta þjóðina taki þátt í að greiða kostnað við starfsemi sína.“
Og svo bendir Indriði á það sem allir vita en útgerðaraðlinum þóknast að líta alltaf framhjá, hvort sem rætt er um arðgreiðslur í sjávarútvegi (og aflandsfélög í eigu útgerðarmanna) veiðigjald eða kjör sjómanna:
„Sem betur fer hefur sjávarútvegur á Íslandi gengið vel á síðustu árum, ekki síst vegna góðrar stjórnar á fiskveiðum, gengis krónunnar og hagfelldrar stöðu á fiskmörkuðum. Auðlindarentan þ.e. hagnaður umfram allan tilkostnað þ.m.t. fjárfestingar- og fjármagnskostnað (vexti, arð) hefur allt frá hruni verið um og yfir 40 millj­arðar króna á ári. Þar af hafa jafnan yfir 80% runnið til sjávarútvegsfyrirtækja sem umframhagnaður en þjóðin sem eigandi auðlindarinnar og sá sem á réttmætt tilkall til þessarar rentu hefur fengið í sinn hlut mest um 20% hennar í formi veiðigjalda.“
Ekki vildi ég lenda í deilu við Indriða G. um skattamál.

Staðan er semsagt sú að stóru útgerðarfyrirtækin eiga næga peninga og búast við að bæta sér upp tapið, hugsanlega með því að kaupa upp aðrar útgerðir eða láta sjómenn borga enn meiri rekstrarkostnað en áður. SFS liggur því ekki á að semja. En nú hamast allir á sjómönnum að þeir þurfi að semja því sjávarbyggðir jafnt sem viðskipti í útlöndum séu í hættu. Vonandi semja sjómenn ekki af sér þótt öll spjót standi á þeim.

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, febrúar 09, 2017

Frjálshyggjuskoðanir á svokölluðum „launamun kynjanna“ meðan kvenfrelsisflokkur mælist stærstur

Skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaflokka segja afskaplega lítið um hvað kemur uppúr kjörkössunum, eins og Píratar vita. Engu að síður kætir það gamla kommahjartað að sjá að Vinstri hreyfingin grænt framboð mælist stærsti stjórnmálaflokkurinn . Sjálfstæðisflokkurinn telur sig alltaf stærstan og sterkastan en þótt hann stýri núna ríkisstjórn hrapar hann í vinsældum og eru þó aðeins örfáar vikur síðan ríkisstjórnin var mynduð. Það gleður líka.

Könnunin var gerð 1.-5. febrúar en þá var hvorki einn ráðherra ríkisstjórnarinnar búinn að tala niður til kvenna í þingsal (Benedikt Jóhannesson, hann hefur beðið afsökunar á lélegri tilraun til fyndni) né annar (Sigríður Á Andersen) búin að birta grein þar sem hún efast svo um launamun kynjananna að hún hefur hann í gæsalöppum til öryggis svo enginn haldi að hún trúi að launamunurinn sé raunverulegur. Hún er hreint ekki líkleg til að biðjast afsökunar á því, né leggja frumvarpi Viðreisnar um jafnlaunavottun liðsinni sitt.

Það væri áhugavert að sjá hvernig kjósendum finnst þessi skoðun dómsmálaráðherrans og hvort hún auki eða minnki vinsældir Sjálfstæðisflokksins. Þá er líka spennandi að sjá hvernig stjórnarsamstarfið gengur þegar einn flokkurinn leggur áherslu á jafnlaunavottun en annar flaggar stækum andfeministum á borð við Sigríði Á Andersen.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, febrúar 07, 2017

Hinar mörgu birtingarmyndir ofbeldis í málinu

Þetta hefur verið dagur stórra og vondra tíðinda. „Allt að 13 þúsund fangar voru hengdir í alræmdu fangelsi sýrlenskra stjórnvalda nærri Damaskus á fimm ára tímabili“, las ég á vef Ríkisútvarpsins í morgunsárið.

Síðar í dag var svo kynnt skýrsla um Kópavogshælið þar sem hræðilega var farið með fólk áratugum saman. Grátlegt og óhugnanlegt. Ég treysti mér ekki að lesa skýrsluna að svo stöddu en fréttirnar sem skrifaðar eru uppúr henni og viðtölin við formann vistheimilanefndarinnar eru sláandi.

Ég treysti mér ekki að skrifa um þessa atburði en ætla hinsvegar að ræða orðalag sem stakk mig þegar ég las fréttina um hroðalegu meðferðina á föngum í sýrlenska fangelsinu.

Í fréttinni stóð:
„Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að Sýrlandsstjórn hefur áður neitað fyrir morð og misnotkun á föngum í þessu fangelsi.“
Ég hef áður pirrað mig á þessu „neita fyrir“ orðalagi. Það neitar enginn fyrir neitt heldur þrætir fyrir eitthvað eða hafnar ásökunum.

Svo er það orðið 'misnotkun'. Það dúkkar upp á ólíklegustu stöðum í þýðingum þegar orðið abuse er notað í enskum texta. Hér er það reyndar þýðing á ‘mistreat’ (setningin hljóðar svo: „The government has previously denied killing or mistreating detainees“) sem Snara segir mér að geti verið þýtt sem fara illa með, misþyrma eða leika grátt. En segir ekkert um misnotkun.

Það er eins og fréttamaðurinn haldi að alltaf þegar rætt er um einhverskonar ofbeldi þá hljóti það að vera misnotkun. Það á eflaust sér einhverskonar upphaf í því að þegar farið var að tala um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum var notað orðalagið ‘kynferðisleg misnotkun’, sem þýðingu á ‘sexual abuse’. Og smám saman varð allt ‘abuse’ að misnotkun. Og misnotkun er sannarlega viðeigandi þegar talað er um ýmiskonar ‘abuse’. Orðið misnota er tildæmis notað þegar rætt er um vímuefnaneyslu eða spillingu: að misnota vímuefni (e. abuse drugs), misnota aðstöðu sína eða vald (e. abuse of power*). En abuse þýðir líka allskyns ill meðferð: andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi. En ekki bara kynferðislegt og ekki alltaf í þeirri merkingu sem búið er að tengja við kynferðislega misnotkun á börnum (child abuse er ofbeldi gegn börnum en ekki í merkingunni kynferðislegt ofbeldi).

Þessvegna er óheppilegt þegar notað er orðalagið misnotkun í tíma og ótíma þegar verið er að þýða abuse.**

Svo er aftur annað mál að lengi var í íslenskum lögum gerður greinarmunur á alvarleika þess að beita konur kynferðislegu ofbeldi eftir því hvort þær voru edrú eða ekki. Ofurölvi kona sem ekki gat spornað við árásarmanninum, henni var ekki nauðgað samkvæmt þessum lögum, nei hún hafði orðið fyrir misneytingu.***

Samt hef ég séð skjátexta við sjónvarpsþætti þar sem fjallað er um eiginmenn sem misþyrma eiginkonum sínum, þar sem stendur ‘hann misnotaði hana’.

Hér má sjá eitt dæmi um óþolandi notkun á misnotkunarhugtakinu, því hér er greinilega átt við ofbeldi.
„Mannfólkið hefur meiri samúð með misnotuðum hvolpum en fulllorðnu fólki sem orðið hefur fyrir margvíslegu ofbeldi.
Í rannsókninni kom einnig fram að konur sýni misnotuðu mannfólki og dýrum almennt mun meiri samúð en karlmenn.“
Svo það sé alveg á hreinu, álpist einhver til að lesa eingöngu þessa bloggfærslu en engar aðrar; bloggskrifari fordæmir allt ofbeldi gegn fólki og dýrum, andlegt, líkamlegt sem og kynferðislegt. Þetta tuð um málfar er hvorki til marks um lítilsvirðingu við þolendur ofbeldisins í Sýrlandi né á Kópavogshæli, hvað þá við aðra þolendur ofbeldis af neinu tagi.

___
*Dæmi : „Björg Eva Erlendsdóttir, fráfarandi stjórnarmaður RÚV, segir Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hafa misnotað nýgerðan þjónustusamning stofnunarinnar til að réttlæta eigin ritskoðunartilburði.“

** Abuse hefur samkvæmt Merriam-Webster fimm merkingar. Gamla góða Ensk-íslenska orðabók Arnar og Örlygs gefur aðeins 4 merkingar, enda ekki búið að koma kynferðislegu misbeitingunni í orðabók á þeim tíma, enda bara hafði það orðalag aðeins verið notað þrisvar sinnum, skv. timarit.is frá árinu 1975 - 1983. Misnota er þýtt yfir á ensku í Ensk-íslenskri orðabók Iðunnar sem ‘misuse’ árið 1989.

*** Nú hljóða lögin svo: „Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.“

Efnisorð: , , , , ,

föstudagur, febrúar 03, 2017

Brennivín í búðir, eina ferðina enn

Þá er eina ferðina enn búið að leggja fram frumvarp um brennivín í búðir. Á sama tíma stendur enn og aftur yfir „Reykjavík Coctail Weekend“ og af því tilefni er gefið út blað sem vekur athygli á þessu fyrirbæri, þar sem annarsvegar eru lög um áfengisauglýsingar brotnar og hinsvegar verið að ota því að almenningi að áfengisdrykkja sé hið besta mál. Í nýjustu útgáfu frumvarpsins er gefið grænt ljós á áfengisauglýsingar, en það var ekki áður.

Mér finnst reyndar ágæt sú kenning að Sjálfstæðisflokkurinn (með hjálp frá meðvirkum flokkum) tefli fram áfengissölufrumvarpinu til þess að afvegaleiða umræðuna. Kannski var það þessvegna sem þetta frumvarp var einmitt rætt í pontu meðan Austurvöllur logaði fyrir utan, til að tala um eitthvað annað en Hrunið? Og núna, til þess að Bjarni Ben þurfi ekki að svara miklu um skýrsluleyndarleikina sína, því allir eru uppteknir að ræða um heimskulegt frumvarp. Eða til þess að hægt sé í rólegheitum að einkavæða heilbrigðisþjónustuna? Margt er þessi ríkisstjórn að bralla. Það væri svo auðvitað tvöfaldur sigur frjálshyggjuaflanna í stjórnarflokkunum að ná frumvarpinu í gegn, engin spurning. En það er semsagt ástæða til að staldra við og setja spurningarmerki við frá hverju er verið að leiða umræðuna.

Þessvegna ætla ég ekki að eyða meiri orku í að skrifa um áfengissölufrumvarpið — enda þótt andstaða mín við það hafi ekki minnkað (og ekki heldur landlæknis) —  heldur vísa bara í gamla pistla. Hef skrifað helling um það gegnum tíðina en þessir tveir pistlar ná ágætlega utanum afstöðu mína: annar segir frá skoðanakönnun sem gerð var í mars 2014 sem sýndi yfirgnæfandi andstöðu við áfengissölufrumvarpið og rekur ýmsar ástæður þess að fólk er er á móti sölu áfengis í matvörubúðum, og hinn er að mestu leyti ræða Róberts Marshall sem hann flutti á þingi í nóvember 2015. Með bestu ræðum sem hafa verið fluttar á alþingi.

Efnisorð: , , , , , ,

fimmtudagur, febrúar 02, 2017

Meistaramánuður

Nú er víst runninn upp meistaramánuður. Þið afsakið að ég skuli ekki taka þátt, ég á fullt í fangi með að halda kvíðanum í skefjum. Ég hef verulegar áhyggjur af loftslagsmálum og mannréttindum eftir að Trumpsvínið komst til valda, en ótti minn við að hann eða Pútín eða þeir báðir (saman í liði eða sem andstæðingar) hleypi af stað styrjöld fer vaxandi. Verst er að þessi óþolandi óvissa á sennilega eftir að vara næstu fjögur ár.

Að ná tökum á kvíðanum, er það keppnisgrein í meistaramánuði?

Efnisorð: ,