sunnudagur, febrúar 28, 2016

Þúsund menn og friðargæslumenn

Ríkissjónvarpið sýndi í vikunni dönsku heimildarmyndina Bonnie með þúsund mönnum (myndin er aðgengileg á Sarpi og VOD til 2. mars). Þessi mynd var sýnd í danska sjónvarpinu í september síðastliðnum og vakti mikla athygli. Hún er um Bonnie sem er vændiskona og gengur undir nafninu Patricia þegar hún er í vinnunni og undir því nafni þekkja kúnnarnir hana.

„Þegar maður er tvær persónur er mjög þægilegt að vera ekki alltaf Bonnie. Vera bara Patricia“, segir hún í pásu í vinnunni . (Í klippu úr heimilidamyndinni má heyra kostulega eða ógeðslega lýsingu á því sem hún þarf að gera í starfi sínu, eftir því hvernig á það er litið.) En þótt við sjáum hana að störfum er hún Bonnie gagnvart áhorfendum og gefur þeim innsýn í líðan sína og hugsanir.

Bonnie er þriggja barna móðir (og þegar myndin var sýnd vissi yngsta barnið ekki um starf hennar) og býr með börnum sínum. Vændið stundar hún ekki heiman frá sér en þar sem hún hittir karlana er mikið að gera og tímapantanir streyma inn um símann og röð fyrir utan.

Kúnnarnir trúa því að Patricia fái fullnægingu með þeim, en Bonnie trúir heimildarmyndagerðarfólki fyrir því að það gerist nánast aldrei. Kynlífið er ekki drifkraftur hennar í starfi (hún er semsagt ekki í vændi af stjórnlausri greddu þótt vændisverjendur haldi því fram að konur sæki hreinlega í vændi af þeim sökum) heldur er hún föst í viðjum vanans. Hún hefur verið vændiskona frá átján ára aldri – í tuttugu ár – og eldri systir hennar byrjaði einnig í vændi á unglingsárum en lést á sautjánda ári af of stórum skammti eiturlyfja. Orsökin fyrir því að þær systur leiddust svo snemma út í vændi er ekki gefin upp en ljóst er að þær áttu ekki góða æsku.

Heilsufar Bonníar er slæmt, hún er með búlimíu og anorexíu og hefur líkamlega verki sem ágerast í vinnunni. Hana dreymir um að vera í starfi þar sem hún fær að vera í fötunum og nefndi hún það sérstaklega að sig langaði að reka pylsuvagn. Eftir að þátturinn var sýndur í Danmörku var efnt til söfnunar handa henni til að kaupa pylsuvagn. Mér tókst ekki að finna nýrri fréttir en frá október þar sem sagði frá því að hún væri að leita að pylsuvagni til að kaupa og staðsetningu fyrir hann.

Heimildamyndin er ekki fyrsta skiptið sem Bonnie hefur gefið innsýn í líf sitt sem vændiskona, því árið 2013 fékk mynd af henni að störfum (með karl ofan á sér) verðlaun sem besta blaðaljósmynd ársins í Danmörku og lenti í öðru sæti í World Press Photo samkeppninni.

Myndin um Bonnie fjallar ekki um karlana sem kaupa af henni kynlíf, nema þá til að gera gys að trúgirni þeirra og furðulegum kröfum í kynlífi. Afturámóti mátti sjá annarskonar úttekt á ásókn karla í líkama kvenna í leikinni kvikmynd sem danska sjónvarpið sýndi á föstudaginn, tveimur dögum eftir að íslenskir áhorfendur sáu átakanlegt líf Bonníar.

Leikna myndin heitir Whistleblower og fjallar um bandaríska lögreglukonu að nafni Kathryn Bolkovac sem réði sig til friðargæslustarfa í Bosníu árið 1999. Hún starfaði þar fyrir DynCorp undirverktaka Sameinuðu þjóðanna, en DynCorp (sem gengur undir öðru nafni í myndinni) gerði litlar aðrar kröfur til nýráðinna friðargæsluliða en að þeir hefðu náð 21 árs aldri.

Rachel Weisz leikur Kathryn í kvikmyndinni, en í viðtali segir Katryn sjálf að einn strákanna hafi sagt þeim tíðindi meðan á undirbúningi fyrir ferðina til Bosníu stóð.
„Hann segist vita um mjög góðar 12-15 ára stelpur þegar við komum þangað. Ég hélt að ég hefði misst eitthvað úr. En þegar ég kom til Bosníu varð mér ljóst um hvað hann var að tala. Það er svona fólk sem Bandaríkin ráða og setja til vinnu.“

Í starfi sínu komst hún semsagt að því að karlkyns félagar hennar í friðargæslunni keyptu ekki aðeins kynlíf, heldur voru „vændiskonurnar“ ungar að árum; þeim hafði þaraðauki verið rænt og var haldið föngnum. Með öðrum orðum, þær voru kynlífsþrælar friðargæsluliðanna.

Fyrsta skiptið sem Kathryn sá mansalið með eigin augum var í bænum Zenica.
„Ég var að vinna með konu sem hafði flúið, og hún benti mér á Florida barinn. Þegar ég kom þangað var hann tómur. Bakvið barborðið fann ég vegabréf kvenna frá löndum Austur-Evrópu, jafnramt helling af bandarískum dollurum. Á annarri hæð var læst herbergi. Ég fann sjö konur læstar inni. Notaðir smokkar þöktu tvær dýnur á gólfinu, eins og þarna hefði farið fram hópnauðgun.“
Friðargæsluliðarnir voru sér vel meðvitaðir um aðstæður stelpnanna því sumir þeirra áttu beina aðild að mansalinu. Myndin fjallar um hvernig Kathryn tekst að koma upp um málið en sýnir jafnframt aðstæður kvennanna og hvernig farið var með þær.

Í meistararitgerð Önnu Pálu Sverrisdóttur (sem ég birti hér brot úr, með fyrirvara um ásláttarvillur, án þess að hafa beðið um leyfi, og kippti út öllum vísunum í neðanmálsgreinar) um kynferðisofbeldi af hálfu friðargæsluliða, segir á bls. 37:
„Fram komu ásakanir um að friðargæsluliðar ættu beinan þátt í mansali til kynlífsþrælkunar í Bosníu auk þess að eiga umdeilanlega mikinn en að líkindum að minnsta kosti einhvern þátt í að skapa eftirspurn eftir kynlífsþrælum þar. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch gáfu út skýrslu árið 2002 þar sem tíundað var hvernig stríðslok árið 1995 höfðu síst orðið til þess að draga úr kynferðisofbeldi í Bosníu. Vændishús væru þar á hverju strái og fulltrúar alþjóðlega lögregluliðsins með umboð frá Öryggisráðinu til að halda uppi lögum og reglu, væru flæktir í að brjóta þau með þátttöku í mansali til kynlífsþrælkunar. SÞ hefðu brugðist hvað varðar rannsóknir á brotunum. Einnig kom m.a. fram í skýrslunni að starfsmenn bandarísks verktakafyrirtækis, sem starfaði með sameiginlegu, fjölþjóðlegu herliði undir stjórn NATO á svæðinu, hefðu sætt rökstuddum ásökunum og rannsóknum um þátttöku í mansali. Þeir hefðu búið við aðrar reglur en friðargæsluliðar frá herjum aðildarþjóða sem hefði gert þeim auðveldara um vik.“
(Ég man þegar þessar fréttir bárust af hegðun friðargæsluliðanna þarna í upphafi aldarinnar. Fram að því hafði ég haldið að þeir væru allir vinsamlegir friðarsinnar sem vildu öllum vel. Þvílík bláeyg bjartsýni!)

Fyrir þær sem hyggjast sjá myndina þarf að setja margfalda trigger warning viðvörun á þessa mynd; hún er efalaust mjög erfið áhorfs fyrir marga þolendur kynferðisofbeldis. En ég skal ég ljóstra upp um endinn. Þar kemur þar í ljós að enginn var látinn sæta ábyrgð á þessum viðbjóði, og að undirverktakafyrirtækið starfar enn eins og ekkert hafi í skorist í alþjóðlegum verkefnum.


Myndirnar tvær gefa innsýn í ömurlegt líf kvenna sem verða með einum eða öðrum hætti viðföng karla sem svífast einskis til þess að fá yfirráðafýsn sinni og kynlífskröfum fullnægt. Ekki auka þær álitið á karlpeningnum, svo mikið er víst.

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, febrúar 26, 2016

Hvalveiðar og hyski

Góðu fréttirnar eru þær að Kristján Loftsson fékk símtal frá endurskoðandanum sínum sem sagði honum að það væri glórulaus heimska að standa í hvalveiðum sem skila bullandi tapi ár eftir ár. Fjölmiðlum var afturámóti sagt að hvalveiðum væri hætt tímabundið þar til Japanir breyttu eftirlitskerfinu hjá sér. Allt Japönum að kenna sko.

En hvað sem síðar verður geta hvalir allavega synt áhyggjulausir í sjónum í sumar. Og það er gott til þess að vita.

Vondu fréttirnar eru um heimskt og hatursfullt fólk. Tæp tuttugu prósent af stuðningsmönnum Trumps telja að Abraham Lincoln hefði ekki átt að frelsa þeldökka þræla í Bandaríkjunum. 33 prósent telja hvítt fólk æðra. Það er vissulega áhyggjuefni að fólk hugsi svona. Enn verra er að til séu frambjóðendur sem með málflutningi sínum höfði til þessháttar hyskis.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, febrúar 23, 2016

Obama og fólkið sem vill sætið hans

Enn og aftur ætlar Obama að reyna að fá það í gegn að loka Guantanamo. Ef að líkum lætur þvælist þingið fyrir honum, rétt eins og það mun sennilega reyna að koma í veg fyrir að hann komi nýjum hæstaréttardómara í embætti. Repúblikanar mega ekki til þess hugsa að frjálslyndur dómari bætist við réttinn, þeir vilja harðlínumenn sem eru á móti fóstureyðingum en hlynntir byssueign. Obama hefur mikið reynt að draga úr því byssubrjálæði sem ríkir í landi hinna frjálsu, og hefur ítrekað biðlað til þjóðar sinnar um að taka sönsum í því máli.

Það kom mér á óvart þegar ég komst að því að Bernie Sanders forsetaframbjóðandi – sá sem er vonarstjarna margra vinstri manna þar vestra – er ekkert sérstaklega hlynntur strangari takmörkunum þegar kemur að kaupum almennings á vopnum. Hann kaus fimm sinnum gegn frumvarpi sem kvað á um fimm daga biðtíma þar til byssukaupandinn fengi vopnið í hendur. Byssuóðusamtökin NRA studdu hann til þingsetu í upphafi ferils hans, en það var reyndar í því skyni að klekkja á andstæðingi hans. Nú þykist NRA hafa keypt köttinn í sekknum því hann hafi hreint ekki verið þeim leiðitamur. Bernie Sanders er þingmaður Vermont þar sem byssur eru notaðar til veiða en síður til mannsmorða, afstaða hans er sögð ráðast af því. Bernie vill feta bil beggja en hvorki taka harða afstöðu með eða á móti byssueign, og telur sig geta sætt ólík sjónarmið. Það væri nú aldeilis ágætt ef honum tækist það en heldur hefði ég viljað sjá hann taka undir með Obama. Það gerir aftur á móti Hillary Clinton sem berst við Bernie Sanders um tilnefningu Demókrataflokksins um að fá að etja kappi við forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins (ég er sammála Illuga Jökuls að þeir eru hver öðrum verri) um forsetaembættið, hún tekur skýra afstöðu gegn óheftri byssueign og –sölu.

Svona í ljósi þess að alltof margir Bandaríkjamenn falla fyrir byssukúlu, ýmist fyrir eigin hendi eða annarra, og skotárásir þar sem óðir vitleysingar salla niður allt sem fyrir verður eru fáránlega algengar (25 skotárásir hafa verið gerðar það sem af er árinu) þá verður að segjast að heldur styð ég afstöðu Hillary hvað varðar vopnakaup og vopnaeign almennings. Raunar er ég sammála henni um margt. Hinsvegar kom það í ljós, í nokkuð ítarlegri könnun sem ég tók, að skoðanir mínar fara betur saman við afstöðu Bernie en Hillary, þó munaði ekki nema 5% á þeim.

Fram að því að Bernie Sanders kom fram á sjónarsviðið studdi ég Hillary eindregið, en mér líkar boðskapur hans um meiri jöfnuð í samfélaginu og að hann vill toga Bandaríkin í átt að félagshyggju. Afturámóti stendur Hillary Clinton nær fjármálaöflunum svo að þar hefur hann alveg vinninginn í mínum huga. En á móti kemur að finnst vægast sagt svekkjandi að þegar kona eygir í fyrsta sinn möguleikann á að setjast í einn valdamesta forsetastól veraldar, þá stígur fram hvítur kall og stelur frá henni athyglinni og kjósendunum. Og mér mislíkar sérstaklega að ungar konur hafni kvenframbjóðandanum — en finnst samt gott ef risin er upp kynslóð sósíalista þar vestra.

Afstaða mín til forsetaframbjóðenda Demókrataflokksins er semsagt klofin og tvístruð. Eini kosturinn er að ég verð ánægð með hvort þeirra sem sigrar hitt og etur kappi við frambjóðanda Repúblikana. Og þá er bara eftir fyrir sigurvegarann að rústa þessu upptrumpaða gerpi sem annars á eftir að hrella heimsbyggðina.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, febrúar 16, 2016

Lífstílsblogg á smáum og stórum skala

Mér varð ljóst þegar ég sá Kastljós kvöldsins að ég hafði klikkað algerlega á markaðssetningu þessa bloggs. Ef ég hefði haft rænu á að kynna það sem lífstílsblogg væri ég syndandi í allskyns ókeypis góssi og fengi jafnvel pjening fyrir að skrifa uppörvandi um vörurnar sem ég fengi sendar. En einsog einhver Emma öfugsnúna hef ég sjaldnast skrifað um vörur (eða fyrirtæki) nema til að rakka þær niður. Niðurstaða: engin innkoma, ekkert dót.

Sigrún Daníelsdóttir var mér til mikillar ánægju í Kastljósi og hún benti á að það væri erfiðara að gagnrýna einstaka lífstílsbloggara (þ.e. stelpurnar sem blogga hver á sínu bloggi; ekki hafði ég hugmynd um tilvist þeirra). Það er skiljanlegur vandi því þá virðist gagnrýnin of persónuleg, og erfitt fyrir aðra að greina á milli hvenær er verið að ráðast á persónuna og hvenær er verið að gagnrýna hugmyndina bakvið lífstílsbloggið eða áhrif þess. Öðru máli gildir um lífstílsfjölmiðla en þau er hægt að gagnrýna fyrir hugmyndafræði, framsetningu, áhrif og þar fram eftir götunum, án þess að það sé litið á það sem gagnrýni á manneskjurnar sem leggja þar til efni (ekki frekar en gagnrýni á Moggann er gagnrýni á alla blaðamenn þess). Slíkir lífstílsmiðlar eru nokkrir hér á landi og man ég í fljótu bragði eftir Bleikt (þó það nú væri), Pjatti (áður Pjattrófur) og Sykri – en það er aukabúgrein eigenda Kvennablaðsins.

Raunar gæti ég sem best sett upp lífstílsbloggsíðu til að græða á, og sagt engum tengslin milli þess og leynibloggsins, svona einsog Kvennablaðið reyndi að komast upp með þegar tengslin við Sykur voru ekki orðin ljós, en ég er kannski of gamaldags, því ég vil síður gagnrýna kapítalismann með annarri og reyna að selja fólki dót og drasl (eða auglýsingar um dótið og draslið) með hinni.

En semsagt, Sykur skartar ritstjóra og blaðamanni sem áður gerðu garðinn frægan með Bleikt.is en þá hvor í hlutverki hinnar (svo ég dragi þetta nú niður á persónulegt plan) og ég sé í fljótu bragði engan mun á Sykri, Pjatti og Bleikt. Skaðsemi slíkra vefmiðla er örugglega ekki síðri en sú sem blasir við að fylgi lífsstílsbloggunum sem fjallað var um í Kastljósinu. Munurinn er kannski helstur sá að stelpurnar sem hver um sig heldur úti sinni bloggi, gera það fyrst og fremst fyrir sjálfar sig (með öllum þeim kostum og göllum sem það hefur fyrir þær sjálfar, en stærri lífstílsmiðlar með launaða blaðamenn eru útsmognar leiðir fégráðugra til að draga óharðnaða unglinga út í hið djúpa fen útlitsdýrkunar og neysluhyggjunnar.

Efnisorð: , , ,

sunnudagur, febrúar 14, 2016

Deja fokking vu

Stundum er eins og allt það sem gerðist í aðdraganda hrunsins sé að gerast aftur – nema núna er erfiðara að horfa uppá það því við vitum hvernig það endar. Enn verra er að vitum að þeir sem eru nú að taka annan snúning eru sér líka meðvitaðir um það en er skítsama.

Baldur Guðlaugsson sérlegur Eimreiðarfélagi Davíðs Oddsonar, var dæmdur fyrir innherjasvik því hann notaði sér vitneskju sem hann hafði sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu til að losa sig við hlutabréf áður en allt hrundi. Hann hefur nú verið handvalinn til að stýra hæfnisnefnd. Kannski ekki merkilegasta nefnd í heimi eða mesta ábyrgðarhlutverk, en þetta sýnir að honum er enn treyst fyrir ábyrgðarstöðum innan stjórnsýslunnar þótt hann hafi notað ábyrgðarstöðuna sem ráðuneytisstjóri til að forða sjálfum sér frá fjárhagstjóni. Að sama skapi treysti Sjálfstæðisflokkurinn líka Árna Johnsen sem einnig lauk refsivist, hleypti honum inná þing aftur, og nú gengur hann um skúffur ráðherra og eys upp fé.

Og talandi um innherjaupplýsingar. Hallgrímur Helgason skrifaði fyrir margt löngu um aðkomu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra (þá þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar) að Vafningsmálinu, en í kjölfar þess seldi Bjarni öll sín hlutabréf í Glitni. Þingmaðurinn Bjarni hafði vitneskju um það sem var að gerast, en notaði það til að bjarga eigin skinni eins og Guðlaugur.

Bjarni Ben og viðskiptafélagar hans frá Vafningi koma svo enn við sögu í því máli sem hæst ber þessa dagana, Borgunarmálinu. Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun til Einars Sveinssonar og félaga sem er nógu tortryggilegt þar sem að Einar er föðurbróðir fjármálaráðherrans og einn aðalmaðurinn í Vafningsmálinu, ef ekki bættist við að engum öðrum bauðst að kaupa hlutinn. Í ofanálag mun Borgun græða fúlgur fjár á næstunni, og Landsbankinn því verða af gróða sem annars hefði fallið í skaut bankans, þá fer að verða ansi merkilegt hvað sömu mennirnir í sömu fjölskyldunni eru alltaf óvart réttu megin við gróðastrikið. (Og það verður sífellt ótrúlegra að Bjarni sé ekki með í bissnesnum og græði á þessu öllu á tá og fingri.)

Bankastjóri Landsbankans sver auðvitað af sér að hafa vitað að hann var að selja svo verðmætan hlut úr bankanum (ætli hann trúi því líka að hann hafi ekki vitað að fjölskylda Bjarna Ben væri að kaupa?) og lætur sem þetta komi sér allt mjög á óvart. Sami bankastjóri fékk 41% launahækkun í desember síðastliðinn, eða auka 565 þúsund krónur á mánuði, svo að nú samræmast þau loksins „ábyrgð, starfsskyldum, vinnuframlagi og árangri í starfi“. Við höfum einmitt séð áður hvernig launakjör bankastjóra eru alveg í hnífjöfnu samræmi við ábyrgðina sem þeir taka á eigin verkum. Eða þannig.

Bjarni Benediktsson hefur tekið þá afstöðu að spila sig hneykslaðan á sölunni á Borgun og lætur eins og þetta komi sér ekkert við nema sem ábyrgum fjármála-og efnahagsráðherra. Samt er einhvernveginn svona í ljósi Vafningsmálsins þar sem hann skrifaði uppá pappíra sem hann þykist enn ekki vita hvað fælu í sér, og að hann skráði sig inná framhjáhaldsvefsíðu sem hann útskýrir síðar með enn fáránlegri hætti, að það er eins og það hann virki ekki mjög sannfærandi.

Fjármálaráðherra sem lýgur að þjóðinni, Eimreiðar-Baldur kominn á stjá í stjórnsýslunni, Árni Johnsen fær sérmeðferð, bankastjóri á ofurlaunum stendur ekki undir ábyrgðarhlutverki sínu.

Þetta er óþægilega kunnuglegt.

Efnisorð:

miðvikudagur, febrúar 10, 2016

Greinargerð IV

Nú þykist ég vita að blogglesendur séu búnir að snæða rjómabollur, graðga í sig brimsalt kjöt og hengja öskupoka á vegfarendur og vanti eitthvað annað að gera. Þá er gott að dunda sér við að lesa þessar ágætu greinar sem eftilvill hafa ekki borið fyrir augu lesenda áður.

Sema Erla Serdar skrifaði í síðasta mánuði grein sem kallast „Tröllunum svarað“, og hefst hún svona.
„„Að taka umræðuna“ er frasi sem andstæðingar fjölmenningar og þeir sem ala á andúð á innflytjendum, múslimum og öðrum útlendingum nota til þess að afsaka óhuggulegan málflutning sinn sem byggist á fáu öðru en upphrópunum, ofstopa og rangfærslum.
Þeir sem leggja í „að taka umræðuna“ gefast oftast fljótt upp enda kemst umræðan sjálf ekki langt upp úr skotgröfunum og það er alltaf stutt í heiftina, persónuárásirnar og níðið sem tekur yfir þá sem reyna að réttlæta ömurlegan málstað.

Annað einkenni þess „að taka umræðuna“ er að hún byggist ávallt á sömu innihaldslausu frösunum sem standast ekki skoðun. Frösum sem flestir eru orðnir þreyttir á að heyra, frösum sem oft á tíðum eru ógeðfelldir.

Hér er gerð tilraun til þess að svara þessum frösum í eitt skipti fyrir öll. Það er vonandi að við náum með því að stíga eitt skref áfram í „að taka umræðuna“ (ég veit ég er bjartsýn).“

Nokkru síðar skrifaði Silja Aðalsteinsdóttir stutta játningu sem innlegg í umræðuna um listamannalaunin. Enda þótt sé ami að uppnáminu kringum listamannalaun ár hvert er grein Silju vel þess virði að lesa.

Knúzinu hæli ég oft (við erum samt ekki í skjallbandalagi því aldrei hælir Knúzið mér, sagði hún beisklega) og í fyrradag birtist þar þýdd grein eftir Alexöndru Antevska og Nicolas Gavey um klámnotkun ungra karla. Það borgar sig fyrir blogglesendur að lesa greinina strax, því ég á eflaust (oft) eftir að vísa til hennar síðar.

Efnisorð: , , ,

laugardagur, febrúar 06, 2016

Ásetningur eða samþykki, verknaðaraðferð eða sálarháski

Við upptalningu síðasta pistils á ömurlega meðferð réttarkerfisins á konum, hefur bæst við að saksóknari hafi vísað frá nauðgunarkæru á hendur tveimur karlmönnum í svokölluðu Hlíðamáli. Ekki er víst að málið endi þar því konan sem kærði á enn möguleika á að sækja einkamál gegn mönnunum. Hér verður því ekki meira fjallað um það í bili en þess í stað beint sjónum að lögum um kynferðisbrot.
„Mannréttindaskrifstofa Íslands telur að Ólöf Nordal innanríkisráðherra eigi að endurskoða 194. grein hegningarlaga þannig að það verði skortur á samþykki sem sýni fram á nauðgun. Dómstólar á Íslandi horfi fyrst og fremst til verknaðaraðferða fremur en þess hvort samþykki brotaþola hafi legið fyrir … Mannréttindaskrifstofan veltir því fyrir sér hvers vegna sé ekki talin ástæða til að breyta þessari lagagrein hegningarlaga. Hún bendir á að svokallaður Istanbul-samningur Evrópuráðsins – sem á að fullgilda hér á landi með áðurnefndu frumvarpi – mælir sérstaklega fyrir um að líta skuli til þess í refsilöggjöf um nauðgun hvort samþykki liggi fyrir en ekki hvaða verknaðaraðferðum er beitt.“ (Frétt)
Margsinnis hef ég skrifað um þessa galla á lögunum. Mér finnst fráleitt að ásetningur nauðgarans og áverkar sem afleiðingar ákveðinna verknaðaraðferða (í stað líðanar brotaþola) skipti meginmáli.

Það var reyndar ekki fyrr en ég las Á mannamáli, bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur sem ég áttaði mig á hversu skaðleg þessi lög eru. Pistill sem ég skrifaði í nóvember 2009 innihélt leiðara Steinunnar Stefánsdóttur (endilega lesið hann) sem einnig vitnaði í Þórdísi Elvu og þessa ágætu bók. Í innganginum sagði ég þetta:
„Þar fjallar Þórdís um fáránleikann sem felst í því að til þess að karlar séu sakfelldir fyrir nauðgun þurfa þeir helst að hafa lúbarið fórnarlamb sitt meðan á nauðguninni stóð. Nauðgunin ein og sér hefur lítið vægi og það eitt að kona hafi ekki veitt mótspyrnu eða hrópað á hjálp er nánast ávísun á að nauðgarinn skoppi frír og frjáls útúr dómsal … Það sem mér hafði ekki verið ljóst fyrr en ég las bók Þórdísar, var að hér á landi er fylgt þeirri hefð að nauðgun teljist aðeins hafa verið framin hafi líkamlegu ofbeldi eða hótun um ofbeldi einnig verið beitt. Í Bretlandi og víðar er hinsvegar dæmt út frá því hvort konan hafi gefið samþykki sitt og hafi hún ekki gefið það telst það nauðgun. Þarf ekki að sýna glóðarauga eða marbletti.“
Daginn eftir birti ég heila grein eftir Þórdísi (lesið hana endilega líka) þar sem hún segir m.a.:
„Bann við nauðgun má finna í 194. grein almennra hegningarlaga. Þar segir: "Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun…"
Eins og sjá má á þessu orðalagi leggja lögin mikla áherslu á verknaðarlýsingu nauðgunar, fremur en hvort samræðið hafi farið fram með samþykki beggja aðila. Ég er talsmaður þess að lögunum sé breytt í þá veru að byggja þau alfarið á samþykkisskorti, fremur en ofbeldi, hótunum og nauðung.“
Ég vitnaði líka í Þórdísi í þessum pistli í október 2010, (þar sem einnig má finna langar tilvitnanir í afar umdeilt viðtal við Valtý Sigurðsson þáverandi ríkissaksóknara) og sagði ég við það tilefni þetta:
„Vissulega hafa þessir kyndilberar valdsins stoð í lögum þegar þeir segja að það skipti máli hvað nauðgarinn hugsar áður en hann nauðgar konunni, því að samkvæmt lögum skiptir ætlun meira máli en athöfnin. Fáist karlmaður ekki til að viðurkenna fyrir lögreglu og dómstólum að hann hafi hugsað með sér: „Hér kem ég, nauðgarinn, og ætla að nauðga konu“ þá er eins víst að hann komist upp með athæfið. Honum nægir þá að hafa af gömlum vana litið á konuna sem rétt-ríðanlega úrþví að hún var nú þarna fyrir framan hann á þessari stundu. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir benti á að í öðrum löndum eru lögin á þá leið að ætlun skipti ekki máli og ég man ekki betur en Atli Gíslason hafi lagt fram frumvarp sem átti að breyta þessu í þá átt.“
Í pistli sem ég skrifaði 11. mars 2012 ræddi ég, að fyrirmynd Þórdísar, um muninn á engilsaxneskum og germönskum réttarhefðum:
„Það þarf ekki að breyta sönnunarbyrði, aðrar leiðir eru til að reyna að rétta hlut þeirra sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi. Í fyrsta lagi mætti laga íslensk lög að engilsaxneskum (en við fylgjum germanskri hefð þar sem ákæruvaldið verður að kynferðismökin eða samræðið hafa verið knúið áfram með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung). Í engilsaxneskum rétti eru ofbeldi eða hótanir ekki þáttur í skilgreiningu á naugunarhugtakinu, heldur er nauðgun skilgreind þar út frá hugtakinu samþykki. Frumvarp Atla Gíslasonar og Þuríðar Backman sem þau lögðu fram 2008 gekk út á að gera skort á samþykki að þungamiðju kynferðisbrota.

Í öðru lagi mætti taka meira og oftar mark á sálfræðimati og vitnisburði starfsfólks á neyðarmóttöku um ástand brotaþola við skoðun. Jón Steinar Gunnlaugsson, æviráðinn hæstaréttardómari og þar áður verjandi flestra þeirra nauðgara sem lentu fyrir rétti, er reyndar á móti því að mark sé tekið á sálfræðingum, enda finnst honum auðvitað nóg að nauðgarinn segist bara ekkert hafa nauðgað fórnarlambi sínu og ef lífssýni segja annað þá er þeirri vörn borið við að hún hafi viljað 'kynmökin'. Þannig hafa nú margir sloppið, með fulltingi Jóns Steinars (og Brynjars Níelssonar og Sveins Andra Sveinssonar*).“
Það er sorglegt enn satt að nú fjórum árum síðar eru lokaorð mín enn þau sömu:

Eitt er ljóst og það er að einhverju verður að breyta svo að nauðgarar komist ekki upp með glæpi sína.

___
* Hér má vissulega bæta við nafni Vilhjálms H. Vilhjálmssonar yngri.

Efnisorð:

fimmtudagur, febrúar 04, 2016

Mistækt dómskerfi

Þegar falla dómar yfir bankabófum fæ ég í smástund trú á dómskerfinu. Og meðal annars þessvegna var ég ánægð þegar Sigurjón Þ. Árnason var dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í dag, en í haust var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi og lítur því út fyrir að hans bíði fimm ára vist á Kvíabryggju. Eða lengur, fái hann fleiri dóma. Ég er þeim megin í lífinu að mér finnst það makleg málagjöld.

En þótt dómskerfið sé að standa sig í bankahrunsmálum (en ekki nógu mikið og það gangi seint) þá er endalaust ömurlegt hvernig það kemur fram við konur sem beittar eru ofbeldi.

„Karlmaður, sem gekk í skrokk á óléttri sambýliskonu sinni fyrir framan börn þeirra, var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir Héraðsdómi Vesturlands í gær, og sleppur því við fangelsisvist,“ segir í beittri grein á Stundinni í dag.

Sömuleiðis slapp annar maður með tveggja mánaða skilorðsdóm fyrir að hafa barið konu fyrir framan dætur hennar.

Í dag kvað svo Hæstiréttur upp sýknudóm í nauðgunarmáli. Karlmaður sem nauðgaði 16 ára stelpu (sem var með ýmsa áverka eftir nauðgunina) var þar með sýknaður af nauðgun sem hann augljóslega framdi. „Héraðsdómur taldi á sínum tíma ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði nauðgað stúlkunni, meðal annars vegna ósamræmis í framburði konunnar og í ljósi þess að þau eru ein til frásagnar um atburðina, en einn dómari skilaði sératkvæði og taldi að sakfella ætti manninn.“

Nóg var fyrir gaurinn að neita. Ástæða þess að stúlkan kærði fyrst rúmu ári eftir atburðinn var sú að hún frétti „að hún væri ekki hans eina fórnarlamb og að hann ætti yfir höfði sé tvær aðrar ákærur.“ Hún vildi semsé standa með öðrum fórnarlömbum mannsins, og koma jafnframt í veg fyrir að hann nauðgaði fleirum. En það dugði ekki til.

Alveg er þetta ömurlegt.

Efnisorð: , , , , ,

mánudagur, febrúar 01, 2016

Minnkum einsleitni

Eins og kunnugt er eru fjölmiðlar mun líklegri til að taka viðtöl við karla en konur. Hlutfall viðmælenda í ljósvakamiðlum og fréttum er 70-80 prósent karlar á móti 20-30 prósentum kvenna. Í viðtali Markaðarins við framkvæmdastjóra Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) er rætt um verkefni félagsins sem staðið hefur frá 2013 sem miðar að því að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum.
„Við spurðum okkur hvað við þyrftum að gera og ákváðum að taka þetta þríþætt. Það þarf að tala við háskólasamfélagið og fjölmiðlafræðinga og byggja upp rannsóknir, svo þarf að tala við atvinnulífið og ritstjóra og eigendur fjölmiðlanna, og einnig að líta í okkar eigin barm. Við þurfum að efla og virkja okkar konur, og hvetja þær til að stinga sér inn í þjóðfélagsumræðuna. Ef allir þessir aðilar og stjórnmálin einnig taka utan um þetta þá held ég að við hljótum að geta náð einhverjum árangri,“ segir Hulda Bjarnadóttir framkvæmdastjóri.

„Meðal þess sem FKA er að gera er að halda úti lista yfir tæplega fimm hundruð konur sem eru tilbúnar að vera í fjölmiðlum, auk þess að auðvelda fjölmiðlafólki að fletta upp félagskonum í gagnagrunni sínum til að leita að kvenviðmælendum.“
Árið 2003 opnaði slíkur gagnabanki undir heitinu Kvennaslóðir (en virðist nú vera óaðgengilegur á netinu þótt Kvennasögusafn hafi tengil á hann á forsíðu) og var þar hægt að fletta upp hundruðum kvenna sem voru sérfræðingar á ýmsum sviðum og lýstu sig fúsar til viðtals við fjölmiðla. Þannig að hugmyndin er ekki ný en fjölmiðlar virðast þó ekki hafa tekið nægilega við sér.

Athyglisvert er að tveimur dögum eftir viðtalið við framkvæmdastjóra FKA í Markaðnum var forsíðuviðtal við Ellen Calmon formann Öryrkjabandalagsins. Þar sagði Ellen meðal annars þetta:
„Við sjáum fatlað fólk alltof sjaldan í sjónvarpi, bíómyndum og barnabókum. Fatlað fólk talar oft um að það geti svo sjaldan speglað sig í fyrirmyndum. Það þarf að fá fatlað fólk í viðtöl og ekkert endilega í viðtöl um fötlun eða heilbrigðiskerfi. Heldur um pólitík, menningu, listir og svo framvegis. Ég tel að fjölmiðlafólk þurfi að hugsa um það – það er mikið hugsað um kynjahlutfjöll, en hvar fá örorkulífeyrisþegar og fatlað fólk að tjá sig um málefni, önnur en þau sem snúa að fötluninni eða örorkunni?“
Á þessu bloggi hefur einmitt verið tekið í sama streng. Reyndar bæði hvað varðar konur og heyrnarskerta, því lengi hefur verið áberandi að döff fólk er bara tekið í viðtal um heyrnarleysi sitt.

Allt er þegar þrennt er og í gær var sýndur síðasti þáttur Róta um innflytjendur og var meginefni þáttarins birtingarmyndir innflytjenda í fjölmiðlum.* Þar bar enn og aftur á góma aðgengi að fjölmiðlum. Nánast aldrei er talað við innflytjendur í fjölmiðlum nema til að ræða innflytjendamál. „Við höfum líka skoðun á ýmsum málefnum,“ segir Claudia Ashonie Wilson, og nefnir stjórnmál, atvinnumál, og umhverfismál. Hún segir að málfrelsi innflytjenda sé að einhverju leyti skert. Aðfluttir Íslendingar megi eingöngu tala um málefni sem snúa að þeim.

Það er spurning hvort fatlaðir og innflytjendur þurfa ekki að grípa til sömu ráða og konur í fræðastörfum og atvinnulífinu. Koma sér upp gagnagrunni með nöfnum fólks sem lýsir sig fúst til að koma í viðtal um sérsvið sitt eða áhugasvið. Eða sem álitsgjafar um það sem hæst ber í umræðunni hverju sinni. Listamannalaun, umhverfismál, flokkapólitík, landbúnaðarkerfið, kvótann, hvalveiðar, hlýnun jarðar, svo fátt eitt sé nefnt.**

Ólíklegt er að fjölmiðlar taki skart við sér, það sýnir takmarkaður árangur kvenna hingað til. En með tíð og tíma minnkar kannski hlutfall hvítra innfæddra ófatlaðra karlmanna eitthvað í fjölmiðlum. Það er reyndar ekki tilgangurinn (þanniglagað) heldur eiga raddir fleira fólks með fjölbreytilegan bakgrunn rétt á að heyrast. Það getur eingöngu orðið samfélaginu til góðs.


___
*Þátturinn er aðgengilegur á Sarpnum til 30. apríl.
** Hér er listi yfir áhugamál og umræðuefni kvenna. Hann var birtur til að sýna fram á að konur getað talað um fleira en (sumir) fjölmiðlar ætla; það sama gildir eflaust um fatlaða og innflytjendur.

Efnisorð: , , , , ,