fimmtudagur, febrúar 04, 2016

Mistækt dómskerfi

Þegar falla dómar yfir bankabófum fæ ég í smástund trú á dómskerfinu. Og meðal annars þessvegna var ég ánægð þegar Sigurjón Þ. Árnason var dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti í dag, en í haust var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi og lítur því út fyrir að hans bíði fimm ára vist á Kvíabryggju. Eða lengur, fái hann fleiri dóma. Ég er þeim megin í lífinu að mér finnst það makleg málagjöld.

En þótt dómskerfið sé að standa sig í bankahrunsmálum (en ekki nógu mikið og það gangi seint) þá er endalaust ömurlegt hvernig það kemur fram við konur sem beittar eru ofbeldi.

„Karlmaður, sem gekk í skrokk á óléttri sambýliskonu sinni fyrir framan börn þeirra, var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir Héraðsdómi Vesturlands í gær, og sleppur því við fangelsisvist,“ segir í beittri grein á Stundinni í dag.

Sömuleiðis slapp annar maður með tveggja mánaða skilorðsdóm fyrir að hafa barið konu fyrir framan dætur hennar.

Í dag kvað svo Hæstiréttur upp sýknudóm í nauðgunarmáli. Karlmaður sem nauðgaði 16 ára stelpu (sem var með ýmsa áverka eftir nauðgunina) var þar með sýknaður af nauðgun sem hann augljóslega framdi. „Héraðsdómur taldi á sínum tíma ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði nauðgað stúlkunni, meðal annars vegna ósamræmis í framburði konunnar og í ljósi þess að þau eru ein til frásagnar um atburðina, en einn dómari skilaði sératkvæði og taldi að sakfella ætti manninn.“

Nóg var fyrir gaurinn að neita. Ástæða þess að stúlkan kærði fyrst rúmu ári eftir atburðinn var sú að hún frétti „að hún væri ekki hans eina fórnarlamb og að hann ætti yfir höfði sé tvær aðrar ákærur.“ Hún vildi semsé standa með öðrum fórnarlömbum mannsins, og koma jafnframt í veg fyrir að hann nauðgaði fleirum. En það dugði ekki til.

Alveg er þetta ömurlegt.

Efnisorð: , , , , ,