mánudagur, febrúar 01, 2016

Minnkum einsleitni

Eins og kunnugt er eru fjölmiðlar mun líklegri til að taka viðtöl við karla en konur. Hlutfall viðmælenda í ljósvakamiðlum og fréttum er 70-80 prósent karlar á móti 20-30 prósentum kvenna. Í viðtali Markaðarins við framkvæmdastjóra Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) er rætt um verkefni félagsins sem staðið hefur frá 2013 sem miðar að því að auka ásýnd kvenna í fjölmiðlum.
„Við spurðum okkur hvað við þyrftum að gera og ákváðum að taka þetta þríþætt. Það þarf að tala við háskólasamfélagið og fjölmiðlafræðinga og byggja upp rannsóknir, svo þarf að tala við atvinnulífið og ritstjóra og eigendur fjölmiðlanna, og einnig að líta í okkar eigin barm. Við þurfum að efla og virkja okkar konur, og hvetja þær til að stinga sér inn í þjóðfélagsumræðuna. Ef allir þessir aðilar og stjórnmálin einnig taka utan um þetta þá held ég að við hljótum að geta náð einhverjum árangri,“ segir Hulda Bjarnadóttir framkvæmdastjóri.

„Meðal þess sem FKA er að gera er að halda úti lista yfir tæplega fimm hundruð konur sem eru tilbúnar að vera í fjölmiðlum, auk þess að auðvelda fjölmiðlafólki að fletta upp félagskonum í gagnagrunni sínum til að leita að kvenviðmælendum.“
Árið 2003 opnaði slíkur gagnabanki undir heitinu Kvennaslóðir (en virðist nú vera óaðgengilegur á netinu þótt Kvennasögusafn hafi tengil á hann á forsíðu) og var þar hægt að fletta upp hundruðum kvenna sem voru sérfræðingar á ýmsum sviðum og lýstu sig fúsar til viðtals við fjölmiðla. Þannig að hugmyndin er ekki ný en fjölmiðlar virðast þó ekki hafa tekið nægilega við sér.

Athyglisvert er að tveimur dögum eftir viðtalið við framkvæmdastjóra FKA í Markaðnum var forsíðuviðtal við Ellen Calmon formann Öryrkjabandalagsins. Þar sagði Ellen meðal annars þetta:
„Við sjáum fatlað fólk alltof sjaldan í sjónvarpi, bíómyndum og barnabókum. Fatlað fólk talar oft um að það geti svo sjaldan speglað sig í fyrirmyndum. Það þarf að fá fatlað fólk í viðtöl og ekkert endilega í viðtöl um fötlun eða heilbrigðiskerfi. Heldur um pólitík, menningu, listir og svo framvegis. Ég tel að fjölmiðlafólk þurfi að hugsa um það – það er mikið hugsað um kynjahlutfjöll, en hvar fá örorkulífeyrisþegar og fatlað fólk að tjá sig um málefni, önnur en þau sem snúa að fötluninni eða örorkunni?“
Á þessu bloggi hefur einmitt verið tekið í sama streng. Reyndar bæði hvað varðar konur og heyrnarskerta, því lengi hefur verið áberandi að döff fólk er bara tekið í viðtal um heyrnarleysi sitt.

Allt er þegar þrennt er og í gær var sýndur síðasti þáttur Róta um innflytjendur og var meginefni þáttarins birtingarmyndir innflytjenda í fjölmiðlum.* Þar bar enn og aftur á góma aðgengi að fjölmiðlum. Nánast aldrei er talað við innflytjendur í fjölmiðlum nema til að ræða innflytjendamál. „Við höfum líka skoðun á ýmsum málefnum,“ segir Claudia Ashonie Wilson, og nefnir stjórnmál, atvinnumál, og umhverfismál. Hún segir að málfrelsi innflytjenda sé að einhverju leyti skert. Aðfluttir Íslendingar megi eingöngu tala um málefni sem snúa að þeim.

Það er spurning hvort fatlaðir og innflytjendur þurfa ekki að grípa til sömu ráða og konur í fræðastörfum og atvinnulífinu. Koma sér upp gagnagrunni með nöfnum fólks sem lýsir sig fúst til að koma í viðtal um sérsvið sitt eða áhugasvið. Eða sem álitsgjafar um það sem hæst ber í umræðunni hverju sinni. Listamannalaun, umhverfismál, flokkapólitík, landbúnaðarkerfið, kvótann, hvalveiðar, hlýnun jarðar, svo fátt eitt sé nefnt.**

Ólíklegt er að fjölmiðlar taki skart við sér, það sýnir takmarkaður árangur kvenna hingað til. En með tíð og tíma minnkar kannski hlutfall hvítra innfæddra ófatlaðra karlmanna eitthvað í fjölmiðlum. Það er reyndar ekki tilgangurinn (þanniglagað) heldur eiga raddir fleira fólks með fjölbreytilegan bakgrunn rétt á að heyrast. Það getur eingöngu orðið samfélaginu til góðs.


___
*Þátturinn er aðgengilegur á Sarpnum til 30. apríl.
** Hér er listi yfir áhugamál og umræðuefni kvenna. Hann var birtur til að sýna fram á að konur getað talað um fleira en (sumir) fjölmiðlar ætla; það sama gildir eflaust um fatlaða og innflytjendur.

Efnisorð: , , , , ,