laugardagur, janúar 30, 2016

Skellt í lás og skartgripir

Skilningur minn á nýju dönsku flóttamannalögunum rekst að einhverju leyti á við skýringar danskra ráðamanna. Minn skilningur á lögunum er sá að flóttamenn komist ekki inn í landið nema þeir afhendi eigur sínar í fé og öðrum verðmætum þegar lögreglan leitar í eigum þeirra (nema þeir geti bent á tilfinningalegt gildi gripanna, og mega þannig halda eftir giftingarhringjum, en eins og frægt er orðið stóð upphaflega til að gera mætti alla skartgripi upptæka, þ.m.t. giftingarhringi). En því er haldið fram að þannig sé það alls ekki heldur gildi sömu lög um flóttamenn og Dani sem segja sig til sveitar; þeir megi heldur ekki eiga fé eða verðmætar eignir því þá fái þeir ekki bætur. Ég á þó ekki von á því að vaðið sé með krumlurnar ofan í vasa, skartgripaskrín eða aðrar hirslur hins venjulega Dana til að kanna hvað þar leynist. Því mega flóttamenn langt að komnir og mishlaðnir eigum búast við. En eins og við vitum er fólkið sem flýr frá Sýrlandi ekki endilega fátækt, og er ekki að flýja örbirgð, heldur er það að flýja stríðsógnir í landi þar sem heilu borgirnar eru í rúst. Sumt af því fólki stefnir ekki endilega til Norðurlandanna vegna þess að það sér í hillingum að komast á sósíalinn, heldur þráir það að búa í samfélagi þar sem það telur sig geta verið óhult fyrir trúarbrjálæði, skoðanakúgun og stríði.

Danir sem eru mótfallnir nýju flóttamannalögunum kalla þau skartgripalögin (d. smykkeloven) og nota fjölmiðlar það heiti óspart. Í sjónvarpsviðtali 18. desember síðastliðnum sagði Inger Støjberg útlendinga- og aðlögunarráðherra (mér virðist hún einskonar dönsk Vigdís Hauks) aðspurð um hvort giftingarhringir yrðu gerðir upptækir að það væri ylti á kringumstæðum og lögreglumanninum [sem hefur heimild til að fara gegnum farangur hælisleitenda til að leita að peningum og öðrum verðmætum] hverju sinni. Í endanlegri útgáfu laganna var búið að bakka með þessa afstöðu og þar er sérstaklega tekið fram að giftingarhringir (og aðrir gripir með tilfinningalegt gildi) verði ekki gerðir upptækir – en það var bara vegna gagnrýni sem stjórnarflokkarnir fengu fyrir að ætla að ganga svona langt. Nóg var nú samt. Og raunar hafa sósíal-demókratar í röðum gengið úr flokknum fyrir að hafa stutt málið, fullir óbeitar.

Hvernig sem reynt er að réttlæta eignaupptöku með því að segja að ætlast sé til að fólkið sjálft leggi eitthvað af mörkum til eigin framfærslu eða stuðnings við að koma því fyrir (afhverju má það bara ekki þá sjálft borga fyrir það sem það getur, svona einsog innfæddir Danir, og félagslega kerfið hjálpar með rest ef það þá þarf að grípa inní?) þá skýrir eignaupptakan aldrei hvers vegna ætlast er til að fólk geri sérstaklega grein fyrir tilfinningalegum tengslum sínum við einstaka skartgripi. Auk þess er ég nokkuð viss um að hin nýja regla, að flóttamaður sem kemur til Danmerkur má ekki fá til sín fjölskyldu sína fyrr en eftir þrjú ár, á sér enga samsvörun innan félagslega kerfisins sem snýr að innfæddum Dönum. Þar er örugglega ekki þannig frá málum gengið að fái einhver félagslega íbúð eða styrk megi aðrir fjölskyldumeðlimir ekki flytja þangað með honum eða heimsækja fyrr en að þremur árum liðnum – sem stríðir gegn Mannréttindasáttmála Evrópu, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi ólög eru auðvitað sett til þess að fæla flóttamenn frá því að koma til Danmerkur.

Dönsku lögin uppskáru mikil viðbrögð utan Danmerkur sem innan. Ban Ki-moon og Kofi Annan núverandi og fyrrverandi framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasamtök og erlendir fjölmiðlar skömmuðu Dani fyrir þessi mannfjandsamlegu lög. Réttilega.

Einn frægasti listamaður samtímans, Kínverjinn Ai Weiwei, hefur svo mikla andstyggð á nýju dönsku flóttamannalögunum að hann ætlar að taka verk sín af sýningum í Danmörku. Viðbrögðin við ákvörðun Ai hafa verið misjöfn.
„Ai Weiwei hefur ákveðið að loka sýningu sinni „Ruptures“ í Faurschou Foundation í Kaupmannahöfn. Ákvörðun hans kemur í kjölfar þess að danska þingið samþykkti lagafrumvarp sem leyfir að verðmæti hælisleitenda séu gerð upptæk og fjölskyldusameiningu þeirra seinkað. Jens Faurschou styður ákvörðun listamannsins og segist harma að danska þingið velji að vera í fararbroddi táknrænnar og ómanneskjulegrar stefnumótunar gagnvart stærsta mannúðarvanda samtímans í Evrópu og Miðausturlöndum, í stað þess að vera í fararbroddi evrópuþjóða við lausn þessa bráða vanda.“
Í Árósum er einnig að finna verk eftir Ai og þar var safnstjórinn súr í bragði og sagði það ósanngjarnt að refsa heilli þjóð fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar.

Þótt það hljóti að vera svekkjandi fyrir listunnendur í Danmörku að missa af að sjá verk Ai Weiwei þá er miklum mun mikilvægara að hann noti stöðu sína til þess að sýna vanþóknun sína á nýju flóttamannalögunum. Ai ber velferð flóttamanna mjög fyrir brjósti og er t.a.m. með vinnustofu á Lesbos til þess að varpa ljósi á aðstæður þeirra þegar þeir koma þangað. Og það er eftir því tekið sem hann gerir og segir.

Í stuttu máli sagt eru Danir búnir að skíta á sig í augum alþjóðasamfélagsins. Og danskir ráðamenn kveinka sér ógurlega undan óvæginni gagnrýni utan frá.

Það hefur raunar komið í ljós að Danmörk er ekki eina landið sem ‘ver sig’ gegn óvelkomnu fólki með lagasetningu. Sviss, Holland og Noregur eru með lög sem eflaust eiga að gegna sama hlutverki og þau nýju dönsku. Og viti menn, er ekki Ísland með sama viðhorf fest í lög:
„Lög sem samþykkt voru á danska þjóðþinginu um upptöku verðmæta flóttafólks þykja mjög umdeild á heimsvísu en þau þykja ómannúðleg og grimmdarleg. Sambærilegar heimildir eru hins vegar í íslensku útlendingalögunum sem lögfest voru 2002.“
Það virðist þó ekki vera að í íslensku eða norsku lögunum sé heimild til að taka persónulega muni, heldur virðist almennt vera átt við peninga. Og að einhverju leyti má segja að við séum verri en Danir. Sem er slæmt en ekki eins draga-úr-gullfyllingarnar-legt og skartgripaþjófnaðurinn.

Það er óhætt að taka undir með danska blaðamanninum Rune Lykkeberg:
„Evrópa logar í innbyrðis deilum um hvernig beri að taka tillit til lýðræðislegrar kröfu borgaranna um að standa vörð um samfélög þeirra, og virða jafnframt mannréttindi þeirra sem ekki tilheyra þessum samfélögum. Allir hneykslast á vírgirðingum Ungverja, á sama tíma og þeir reyna að reisa sínar eigin girðingar.“

Efnisorð: , , , , ,